Tvær með ritlistargráðu tilnefndar til Fjöruverðlaunanna

Tilkynnt var um tilnefningar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, í dag. Þrjár ungar konur sem eru með gráðu í ritlist frá okkur hlutu tilnefningu.

fjoruverdlaunin_tilnefningar_2016

Þær voru tilnefndar. Þóra Karitas stendur, önnur frá vinstri, Hildur krýpur vinstra megin.

Þóra Karítas Árnadóttir er tilnefnd í flokki fagurbókmennta fyrir sannsöguna Mörk sem Forlagið gaf út sl. vor. Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:

Í Mörk skrifar Þóra Karítas Árnadóttir sögu móður sinnar, Guðbjargar Þórisdóttur. Sagan er skráð í fyrstu persónu Guðbjargar sem ólst upp í stórri og ástríkri fjölskyldu í húsinu Mörk í Reykjavík. En yfir hlýjunni og ástúðinni hvílir skuggi afans sem beitir Guðbjörgu kynferðislegu ofbeldi frá unga aldri.

Mörk er skrifuð af mikilli hlýju og einlægni. Hún er látlaus og dvelur ekki við ofbeldislýsingar, án þess að vera með tepruskap. Bókin nær að vera klisjulaus og þetta er nýr vinkill á sögu þolanda. Þetta er ekki saga um ónýtt líf heldur um manneskju sem nær að vinna úr hryllingnum og stendur uppi sem sigurvegari, þótt ekkert sé dregið úr alvarleikanum.

Til marks um úrvinnslu tilfinninga og þroska, sem Guðbjörg hefur náð, er klausa á blaðsíðu 112. Hún kallast á við nafnið á húsinu Mörk, sem var í senn heimili hennar og vettvangur ofbeldisins, og gefur titli bókarinnar þar með tvöfalda merkingu: „Nú veit ég hversu heimskulegt það var af sjálfri mér að ætlast til að ég sem barn gæti varið sjálfa mig og sett fullorðnum manni mörk.

Hildur Knútsdóttir, sem einnig var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í gær, fékk tilnefningu í flokka barna- og unglingabókmennta fyrir bókina Vetrarfrí sem er lauslega byggð á BA-verkefni hennar í ritlist. JPV-útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar segir:

Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum.

Textinn rennur vel og er áreynslulaus og persónusköpun er einkar skýr, sérstaklega á aðalsöguhetjum. Í sögunni er flottur og áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá því að vera eðlileg tilvera unglinga og barna með þeim hversdagslegu vandamálum sem þar fylgja yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og sama hvar fólk er statt og líka í stríði; heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sínar smærri og stærri þrár, drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.

Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.

Þá er gaman að geta þess að Vilborg Davíðsdóttir, sem mun kenna sagnagerðarnámskeið í ritlistinni eftir áramót, er tilnefnd fyrir bókina Ástin, drekinn og dauðinn sem Forlagið gaf út í vor.

Til hamingju allar.