Starfið á árinu 2016

Ef einhver heldur að ungt fólk á Íslandi sé upp til hópa óskrifandi á íslenska tungu, þá er það ekki satt, a.m.k. á það ekki við um þau sem stunda nám í ritlist. Á hverju ári berast okkur tugir frambærilegra umsókna um meistaranám í ritlist og vanalega getum við einungis veit rúmum þriðjungi umsækjenda skólavist. Þar að auki eru um 40 nemendur skráðir í ritlist sem aukagrein í grunnnámi. Það er því ljóst að áhugi á ritstörfum og bókmenntum er enn mikill hér á landi og ekki annað að sjá en að ungt fólk telji það nýtast sér í lífinu að fá þjálfun í ritun, ekki síst ritun sem reynir á sköpunargáfuna.

Metfjöldi útskrifaðra

13631583_10210240975327136_4689757898808695733_n

Tryggvi Steinn

Alls útskrifuðust ellefu höfundar með MA-próf í ritlist á árinu. Ég hef þegar kynnt þau öll stuttlega fyrir lesendum þessarar síðu, öll nema Tryggva Stein Sturluson sem útskrifaðist í október sl. Lokaverkefni hans var tvíþætt, annars vegar ljóðahandrit sem hann vann undir handleiðslu Davíðs Stefánssonar, hins vegar leikrit í tveimur þáttum sem hann vann undir handarjaðri Trausta Ólafssonar. Tryggvi birti efni í bókinni Tímaskekkjur vorið 2016 og einnig átti hann efni í Jólabókum Blekfjelagsins.

 

Birt verk eftir ritlistarnema

KRG-utskrift

Kristín Ragna

Ritlistarnemar, útskrifaðir og óútskrifaðir, sendu frá sér fjölda bóka á árinu og vöktu sumar þeirra talsverða athygli. Dagur Hjartarson sendi frá sér skáldsöguna Síðustu ástarjátninguna hjá JPV í byrjun árs. Á vordögum gáfu meistaranemar út sitt árlega safnrit og hét það Tímaskekkjur að þessu sinni. Þar er að finna efni eftir tíu ritlistarnema. Hildur Knútsdóttir sendi frá sér bókina Vetrarhörkur hjá JPV og Dodda: Bók sannleikans!, sem hún samdi ásamt Þórdísi Gísladóttur, hjá Bókabeitunni. Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir gaf út myndasöguna Ormhildarsögu hjá Sölku. Benedikt, hið nýstofnaða forlag Guðrúnar Vilmundardóttur, gaf út smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson. Forlagið gaf út skáldsögu Sverris Norland, Fyrir allra augum. Bókabeitan gaf út barnabók Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, Úlfur og Edda – Dýrgripurinn. Grandagallerí eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur kom út hjá Partus Press. Meðgöngumál gáfu út smásöguna Út á milli rimlanna eftir Þórdísi Helgadóttur. Meðgönguljóð gáfu út ljóðabókina Drauma á þvottasnúru eftir Þorvald Sigurbjörn Helgason. Hjá Sæmundi kom út þýðing Heiðrúnar Ólafsdóttur á smásagnasafninu Zombíland eftir  hina grænlensku Sørine Steenholdt. Hjá bókaútgáfunni Bjarti kom út bókin Perurnar í íbúðinni minni eftir Kött Grá Pjé eða Atla Sigþórsson. Vaka-Helgafell gaf út Skóladrauginn eftir Ingu Mekkin BeckSigurlín Bjarney Gísladóttir sendi frá sér ljóðabókina Tungusól og nokkrir dagar í maí sem Mál og menning gaf út. Hjá Tunglinu kom út þýðing Þórðar Sævars Jónssonar á bókinni Sönn saga, lygasaga eftir Lúkíanos frá Samósata. Í vikunni fyrir jól kom svo bókin Vættir, hin árlega jólabók Blekfjelagsins, nemendafélags ritlistarnema. Að þessu sinni voru í henni 96 orða örsögur sem jafnframt voru fluttar í Víðsjá á Rás 1. Kristian Guttesen gaf út bækurnar Englablóð og Hendur morðingjans hjá Deus. Rasspotín gaf út Lífsýni eftir Jóhannes Ólafsson. Þá flutti Útvarpsleikhúsið leikritið Svefngrím eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur í byrjun árs og Nemendaleikhúsið setti á svið leikritið Við deyjum á Mars eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Ritlistarnemar bjuggu einnig til þrjá útvarpsþætti sem fluttir voru á Rás 1 undir heitinu Grimmdarverk.

Nemar okkar eru einnig farnir að birta verk erlendis. Bókin Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur kom út í Frakklandi, Tyrklandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum á árinu. Þá kom bókin Í hverri manneskju býr nótt eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur út hjá ljóðaútgáfu í Tyrklandi. Fleiri eru á leiðinni.

Verðlaun og viðurkenningar

hildur-knutsdottir-landscape-688x451

Hildur Knútsdóttir

Hildur Knútsdóttir varð fyrst höfunda til að hreppa tvær tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama árið en þær hreppti hún fyrir bækurnar Vetrarhörkur og Doddi: Bók sannleikans! sem hún skrifaði ásamt Þórdísi Gísladóttur (sem hefur kennt og leiðbeint hjá okkur). Doddi er einnig tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í ár. Vetrarhörkur eru framhald bókarinnar Vetrarfrí sem kom út í fyrra og hreppti Fjöruverðlaunin auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Í ársbyrjun gerðist sá einstæði atburður að allir höfundarnir sem fengu viðurkenningu kennda við Jón úr Vör höfðu haft viðkomu í ritlist við HÍ, flestir þeirra m.a.s. með gráðu í ritlist. Veittar voru tíu viðurkenningar fyrir frumsamin ljóð. Aðalviðurkenninguna, Ljóðstaf Jóns úr Vör, hreppti Dagur Hjartarson. Dagur var stórtækur á árinu því hann sendi frá sér skáldsöguna Síðasta ástarjátningin, flutti reglulega pistla í Kastljósi, gaf út Tunglbækur og sló í gegn á samfélagsmiðlum.

Bók Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, Úlfur og Edda – Dýrgripurinn, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Í umsögn segir að sagan af Úlfi og Eddu fari með lesendur í æsispennandi ævintýri þar sem skemmtilegum hversdagsheimi barna sé blandað saman við ævintýraheim norrænnar goðafræði á nýstárlegan og frumlegan hátt.

Birta Þórhallsdóttir hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta en slíkir styrkir eru veittir þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref. Verkið hlaut hún fyrir handritið Einsamræður, „örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl“ eins og segir í umsögn.

Þá hlaut nýútskrifaður ritlistarnemi, Inga Mekkin Beck, Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Skóladrauginn. Í umsögn dómnefndar segir að bókin sé í senn spennandi draugasaga og trúverðug lýsing á barni sem misst hafi ástvin.

Gestir og viðburðir

Nemendur og kennarar Forfatterskolen í Kaupmannahöfn komu til landsins í apríl en skólinn fer árlega utan með nemendur sína til að kynna þeim bókmenntir og menningu annars lands. Efnt var til sameiginlegrar vinnustofu með ritlistarnemum við HÍ og nemendum Forfatterskolen. Þema vinnustofunnar var sameiginleg saga Íslands og Danmerkur og sem kveikju notuðum við ávarp sem Halldór Laxness flutti þegar hann fékk Sonningverðlaunin við Hafnarháskóla árið 1969.

Í nóvember komu líka góðir gestir frá Bandaríkjunum, ljóðskáldin Kevin Goodan, dósent við Lewis-Clark State College, og Kimberly Burwick, lektor í ritlist við Washington State University. Þau buðu ritlistarnemum upp á örsmiðju um ljóðagerð sem þau kölluðu „Orfeus og Evridís í Ameríku“.

Ólafur Gunnarsson kom til okkar og hélt fyrirlestur Í röðinni „Hvernig verður bók til?“ um Öxina og jörðina. Einnig  kom Kevin Larimer, aðalritstjóri tímaritsins Poets & Writers og talaði um hvernig ætti að bera sig að við að koma efni á framfæri í Bandaríkjunum.

Ritlistarnemar fóru í sína árlegu landsbyggðaferð. Að þessu sinni var farið í Sælingsdal með ljóðskáldinu Sigurbjörgu Þrastardóttur. Þau kalla slíkar ritsmiðjur „Blandað á staðnum“.

Meistaranemar stóðu fyrir dagskrá í Hörpu á Menningarnótt og kölluðu hana „Orp um appelsínur“. Þar að auki stóðu þau fyrir nokkrum öðrum upplestrum, auk útgáfuhófa. Ekki má gleyma leiklestri á einþáttungum nemenda sem fram fór í Iðnó skömmu fyrir jól. Þar tóku landsþekktir leikarar að sér að koma verkunum á framfæri.

Launasjóður rithöfunda

bryndis_bjorgvinsdottir707266111

Bryndís Björgvinsd.

Átta höfundar, sem ýmist eru í ritlistarnámi hjá okkur við Háskóla Íslands eða hafa lokið því, fengu úthlutun úr Launasjóði rithöfunda í ár. Þetta eru langhæstu tölur sem við höfum séð hingað til og mesti mánaðafjöldi. Bryndís Björgvinsdóttir fékk laun í níu mánuði, og þau Hildur Knútsdóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Soffía Bjarnadóttir fengu sex mánuði, svo dæmi séu nefnd.

Þá fékk Heiðar Sumarliðason styrk úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen hjá RÚV til að vinna að útvarpsleikriti.

 

Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Á vormisseri gegndi Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist. Vilborg vann með ritlistarnemum að ritun sögulegra skáldsagna. Var það í fyrsta skipti sem boðið var upp á sérstakt námskeið um ritun sögulegra skáldsagna.

Veturinn 2016–17 gegnir Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og leikskáld, starfi Jónasar Hallgrímssonar. Hlín hefur aðallega unnið með nemendum að leikritun og mun afrakstur þeirrar vinnu m.a. heyrast í Útvarpsleikhúsinu.

NonfictioNOW

Logo Reykjavik 2017Í ársbyrjun var ákveðið að Hugvísindasvið HÍ mundi hýsa alþjóðlegu ráðstefnuna NonfictioNOW, sem eins og nafnið gefur til kynna er helguð óskálduðum skrifum. Þetta er mikill heiður fyrir sviðið og mikill fengur fyrir ritlistina að fá helstu höfunda og kennara bókmennta af þessu tagi til landsins. Ráðstefnan verður haldin 1.–4. júní í húsakynnum HÍ og Hörpu. Búist er við um 500 ráðstefnugestum. Meðal boðsfyrirlesara verða þau Gretel Ehrlich og Karl Ove Knausgaard sem bæði eru risastór nöfn í þessum geira.