Að kenna ritlist á máli sem kann að vera í útrýmingarhættu
Út er komin bókin The Place and the Writer – International Intersections of Teacher Lore and Creative Writing Pedagogy sem gefin er út af Bloomsbury-forlaginu. Bókin er hluti af ritröð um rannsóknir í ritlistarfræðum og henni ritstýrðu Marshall Moore og Sam Meekings sem staðsettir eru í Hong Kong. Þeir buðu mér að leggja fram efni um ritlistarnámið við Háskóla Íslands og það er mikill heiður.
Mitt innlegg ber yfirskriftina „Teaching Creative Writing in a Threatened Language“ og fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um þá stöðu að kenna ritlist á íslensku nú þegar blikur eru á lofti varðandi framtíð tungunnar. Það er ekki oft sem maður óskar þess að hafa rangt fyrir sér, en þess óska ég svo sannarlega að áhyggjur mínar séu óþarfar (nema ef vera skyldi til þess að koma í veg fyrir meinta niðurlægingu tungunnar). Það er þó staðreynd að á þessum tímapunkti finnst mér að íslensk tunga sé í útrýmingarhættu og við því reyni ég að bregðast í greininni sem og því hvað það þýði að kenna ritlist á íslensku.
Við höfum þá sérstöðu að vera eina rithöfundasmiðjan í heiminum þar sem kennt er á íslensku. Er réttlætanlegt að taka ekki við íslenskum ríkisborgurum nema þeir hafi vald á íslenskri tungu? spyr ég m.a. í greininni. Ég færi síðan rök fyrir því að réttlætanlegt sé að rækta þjóðtungu með þessu móti og ræði í því sambandi vinnu okkar með nemanda sem talaði íslensku sem annað mál.
Ég hef nú ekki verið mikið fyrir það í gegnum tíðina að reka lestina, en í þessu greinasafni er mitt innlegg þó aftast. Ég hef kosið að líta svo á að það sé rúsínan í pylsuendanum!