Viðurkenning úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar
Þann 12. desember síðastliðinn hlotnaðist mér viðurkenning úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar. Í reglum um sjóðinn frá 1881 segir að hann megi nota til að „til verðlauna fyrir vel samin vísindaleg rit“. Viðurkenningin sem mér féll í skaut er fyrir bókina Þú ringlaði karlmaður sem fær eftirfarandi umsögn á viðurkenningarskjali:
„Mjög vel stíluð bók þar sem höfundur rekur eigin sögu í ljósi kynjafræði og leitast við að glöggva sig á ýmsum breyttum forsendum í samskiptum kynjanna.“ Ansi hnitmiðuð og vel samin umsögn, verð ég að segja.
Ég hef nú ekki litið á þessa bók mína beinlínis sem vísindarit þó að ég hafi nýtt ýmis fræði við samninguna. En ef hún telst vísindarit þá finnst mér fagnaðarefni að þau megi skrifa með þeim hætti sem ég geri, þ.e. með því að beita í bland aðferðum frásagnarlistarinnar við miðlun fræðanna.
En auðmjúkur tek ég við verðlaunum sem kennd eru við annan Vestfirðing og það mann sem lagði grunninn að svo mörgu. Reyndar var Ingibjörg kona Jóns líka á bak við sjóðinn og kannski hefði hún glaðst yfir skrifum mínum um kynin.
Við ringluðu karlarnir þökkum heiðurinn.