Kristín Helga Gunnarsdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist
Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist í vetur. Hún mun leiðbeina meistaranemum í ritlist um ritun þess sem hún hefur kallað fjölskyldubókmenntir en það eru sögur sem höfðað geta til allra aldurshópa. Til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist var stofnað árið 2015 og varð Sigurður Pálsson skáld fyrstur til að gegna því.
Kristín Helga hefur verið mikilvirkur höfundur áratugum saman. Hún hefur einkum helgað sig fjölskyldubókmenntum en einnig sent frá sér bækur sem eingöngu eru ætlaðar fullorðnum. Útgefin skáldverk eru nú komin á fjórða tuginn og hafa þau notið mikilla vinsælda. Meðal þekktustu verka hennar má nefna bækurnar um Fíusól en þær hafa jafnframt verið settar á svið. Kristín Helga hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín, m.a. Fjöruverðlaunin, Bóksalaverðlaunin, Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Bókaverðlaun barnanna, Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins, Sögusteininn og verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þá hefur hún tekið virkan þátt í félagsstörfum fyrir hönd rithöfunda og lét fyrr á árinu af störfum sem formaður Rithöfundasambands Íslands.
Kristín Helga hefur áður kennt ritlist, bæði við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, og hafa þau störf skilað okkur nýjum barnabókahöfundum. Hún er vel að því komin að gegna starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.