Beðið eftir barbörunum
Íslensk þýðing á verkinu Waiting for the Barbarians eftir suður-afríska Nóbelsskáldið J. M. Coetzee er nú komin út á vegum bókaútgáfunnar Unu. Bókina þýddum við Sigurlína Davíðsdóttir í sameiningu.
Beðið eftir barbörunum, eins og bókin heitir á íslensku, er sígilt samtímaverk enda hefur það enn mikla skírskotun til atburða samtímans. Bókin kom fyrst út árið 1980 og er að mínu mati eitt af allrabestu verkum höfundar og ein merkasta skáldsaga síðari hluta 20. aldar.
Í áratugi hefur dómari stjórnað rólegum bæ á mærum heimsveldis. Þegar orðrómur berst um barbara (þannig vísa stjórnvöld til innfæddra) handan bæjarmúranna taka fulltrúar heimsveldisins völdin. Í kjölfarið gerist dómarinn gagnrýninn á alræði þeirra og ofbeldi, en þarf samhliða að horfast í augu við eigin takmörk, fýsnir og siðferði. Sagan er áleitin gagnrýni á nýlenduveldi og aðskilnaðarstefnu líkt og fjallað er um í eftirmála Einars Kára Jóhannssonar.