Category: Almennt

Verk eftir tvo ritlistarkennara valin á alþjóðlega leikritaráðstefnu

Í sumar verður haldin í Stokkhólmi alþjóðleg ráðstefna um leikrit eftir konur, Women Playwrights International Conference. Þar verða leikrit eftir konur til umfjöllunar og skoðunar. Gaman er að segja frá því að verk eftir tvær íslenskar konur sem hafa kennt við ritlistardeild Háskóla Íslands hafa verið valin til skoðunar og leiklestrar á ráðstefnunni. Það eru verk eftir þær Hlín Agnarsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur og óska ég þeim innilega til hamingju með þessa upphefð.

Ráðstefna þessi hefur verið haldin á þriggja ára fresti frá 1988 og að þessu sinni verður hún haldin í Stokkhólmi eins og áður segir. Þarna gefst gott tækifæri til þess að koma leikverkum eftir íslenskar konur á framfæri en nokkur umræða hefur orðið um það hérlendis undanfarið hve lítið er sett upp af íslenskum leikritum, ekki síst eftir konur. Verk eftir tvær aðrar íslenskar konur voru einnig valin á ráðstefnuna, eftir þær Jónínu Leósdóttur og Völu Þórsdóttur.

Guðrún Eva ræðir um verðlaunabókina sína

Ljósm. Vera Pálsdóttir

Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut fyrir skömmu Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur. Hún verður gestur okkar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? fimmtudaginn 15. mars og ræðir þá einmitt um tilurð bókarinnar.

Guðrún Eva er fædd 1976 og þótt ung sé að árum hefur hún um alllangt skeið verið einn af ástsælustu höfundum þjóðarinnar. Hún vakti strax athygli fyrir smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey árið 1998 og síðan hefur hún gefið út skáldsögur með reglulegu millibili. Hún hefur nokkrum sinnum verið tilnefnd til verðlauna og hlaut m.a. Menningarverðlaun DV fyrir skáldsöguna Yosoy árið 2005.

Fyrirlestur Guðrúnar Evu fer fram í stofu 105 á Háskólatorgi (fyrir neðan Bóksölu stúdenta) milli kl. 12 og 1 á fimmtudag. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Fyrirlestraröðin er á vegum okkar í ristlistinni í samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun.

Ritlistarnemar senda frá sér nýja bók

Í dag kemur út bókin III sem er þriðja og síðasta bók ritlistarnema á BA-stigi við Háskóla Íslands (vegna þess að námið hefur að mestu leyti verið fært yfir á meistarastig).

III hefur að geyma 29 verk eftir 21 höfund. Í fréttatilkynningu frá Ritvélinni, félagi ritlistarnema, segir að farið sé  um víðan völl, „allt frá öskukenndu hjónabandi, sjálfritskoðaðri fjölskyldusögu, hugljúfri landsbyggðarferð til sjö versa ljóðs sem rekur heimsenda í gegn. Bókin er afrakstur þrotlausra skrifa ungskálda og -höfunda. Og auðvitað, tilraun til heimsyfirráða.“

Höfundarnir sáu sjálfir um að búa efnið til útgáfu, en undirritaður var þeim til halds og trausts. Áður hafa nemar gefið út með sama hætti bækurnar Hestar eru tvö ár að gleyma og Beðið eftir Sigurði. Þau eiga heiður skilinn fyrir framtakssemina.

Höfundar efnis í III eru: Halla Mía Ólafsdóttir, Sigursteinn J. Gunnarsson, Trausti Dagsson, Anna Steinunn Ágústsdóttir, Gunnhildur Helga Steinþórsdóttir, Brynja Huld Óskarsdóttir, Jón Bjarki Magnússon, Katrín I. Jónsdóttir Hjördísardóttir Hirt, Daníel Geir Moritz, Esther Ýr Þorvaldsdóttir, Gunnar Jónsson, Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Jónas Reynir Gunnarsson, Birna Dís Eiðsdóttir, Bjarnheiður Erlendsdóttir, Dagbjört Vésteinsdóttir, Tumi Ferrer, Kristján Már Gunnarsson, Hertha María Richardt Úlfarsdóttir, Hlín Ólafsdóttir, Pálmi Freyr Hauksson og Steinunn María Halldórsdóttir.

Ég óska þeim til hamingju með bókina.

Skáldatal – Hlín Agnarsdóttir

Skáldatal er fyrirlestraröð á vegum ritlistar og Bókmennta- og listfræðastofnunar þar sem skáld ræða það sem brennur á þeim og á þann hátt sem efnið krefst. Viðfangsefnið er ekki gefið upp fyrirfram. Pétur Gunnarsson reið á vaðið sl. haust og flutti okkur hugvekju um tímana tvenna.

Hlín Agnarsdóttir er næst í pontu. Hlín er sjálfstætt starfandi listamaður sem hefur aðallega fengist við leikstjórn og skrif fyrir leiksvið og sjónvarp. Þá hefur hún gefið út tvær skáldsögur, Hátt uppi við Norðurbrún 2001 og Blómin frá Maó 2009, og eina sjálfsævisögulega bók, Að láta lífið rætast, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2003. Hlín hefur ennfremur stýrt leikritunaráföngum í ritlistarnáminu við HÍ.

Eins og áður sagði er ekki gefið upp fyrirfram um hvað verður talað. Skyldi Hlín ræða stöðu leikhúsmála á Íslandi? Eða jafnréttisbaráttuna? Þið komist að því með því að mæta í sal 105 á Háskólatorgi fimmtudaginn 16. febrúar kl. 12. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Sjón ræðir um Rökkurbýsnir

Fyrirlestraröðin Hvernig verður bók til? hefur nú göngu sína á ný með því að rithöfundurinn Sjón ræðir um tilurð skáldsögunnar Rökkurbýsnir sem byggð er á ævi Jóns Guðmundssonar lærða. Aldrei að vita nema hann reifi líka önnur málefni sem tengjast ritstörfum.

Sjón hefur skrifað verk af ýmsu tagi en er trúlega þekktastur fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur en fyrir hana hreppti hann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Meðal höfunda sem áður hafa rætt um verk sín undir þessari yfirskrift má nefna Auði Ólafsdóttur, Jón Kalman Stefánsson, Þórunni Valdimarsdóttur, Sigurð Pálsson, Gerði Kristnýju, Einar Kárason, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Ragnar Bragason, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Elísabetu Jökulsdóttur, Braga Ólafsson, Kristínu Marju Baldursdóttur og Kristján Árnason.

Sjón stígur í pontu fimmtudaginn 3. nóvember klukkan 12 í stofu 102 á Háskólatorgi. Allir velkomnir.

Skáldin tala

Skáldatal er ný fyrirlestraröð á vegum ritlistar og Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands. Þar ræða rithöfundar og skáld það sem brennur á þeim og á þann hátt sem efnið krefst. Tilgangurinn er að gefa fólki kost á að hlýða á orðhaga rithöfunda ræða það sem þá lystir. Hver veit nema þeir geri úr því listrænan gjörning. Umfjöllunarefnið verður ekki gefið upp fyrirfram.

Pétur Gunnarsson ríður á vaðið. Hann hefur lengi verið sameign þjóðarinnar og verður ekki metinn til fjár. Pétur er þekktur fyrir sögulega yfirsýn og frábær erindi um allt milli himins og jarðar.

Fyrirlestur Péturs fer fram í stofu 102 á Háskólatorgi milli kl. 12 og 13 fimmtudaginn 20. október. Allir velkomnir. Aðgangur ókeypis.

Áslaug Björt hlaut fyrstu og önnur verðlaun

Áslaug Björt

Ritlistarneminn Áslaug Björt Guðmundardóttir hlaut á dögunum fyrstu og önnur verðlaun í ástarsagnasamkeppni Vikunnar. Fyrstu verðlaun hlaut hún fyrir söguna „Leyndarmál Viktoríu“ og önnur verðlaun fyrir söguna „Krydd í tilveruna“. Báðar fjalla sögurnar á kímilegan hátt um samskipti kynjanna og báðar hafa þær óvæntan endi. Að baki skopinu er samt lúmsk ádeila á samlíf kynjanna.

Dómnefnd segir um verðlaunasöguna: „Húmorísk saga með tragískum undirtón sem státar af skondnum myndum af aðstæðum, skemmtilegu orðalagi og tvíræðum endi.“ Og um silfursöguna segir: „Ágætlega uppbyggð saga sem lýsir á gamansaman og hlýjan hátt þroskaferli konu þegar hún rankar við sér í nýjum aðstæðum.“ Dómnefndina skipuðu Halldór Högurður, sem varð hlutskarpastur í sams konar samkeppni árið 2009, Auður Jónsdóttir rithöfundur og Kristof Magnusson, þýskættaður rithöfundur og þýðandi.

Þess má geta að Jónína Óskarsdóttir hlaut þriðju verðlaun en hún hefur einnig setið ritlistarnámskeið. Þá var saga eftir Kristínu Arngrímsdóttur einnig valin til birtingar; Kristín hefur líka tekið þátt í ritlistarnámskeiðum.

Ég óska höfundunum til hamingju með árangurinn og vona að hann verði þeim hvatning til frekari dáða á ritvellinum.

Fimm greinar

Fimm greinar eftir mig eru nú á leiðinni fyrir almenningssjónir. Þær eru af ýmsu tagi og í ýmsum miðlum.

Ragnar í Smára í matarboði daginn sem Halldór Laxness tók við Nóbelnum.

Fyrst er að nefna pistil í nýjasta hefti tímaritsins Börn og menning sem Ibbý gefur út. Pistillinn ber heitið „Vistvæn börn“ og fjallar um þá áráttu foreldra að senda börnin sín í vistun stóran hluta dagsins, rétt eins og þau séu munaðarlaus, og hvaða gildismat liggi að baki slíku ráðslagi.

Í Skírni, sem er nýkominn út, er þýðing mín á grein eftir Daisy Neijmann. Greinin fékk titilinn „Óboðinn gestur, fyrstu birtingarmyndir hernámsins í íslenskum skáldskap“ og lýsir hann inntaki greinarinnar mjög vel. Daisy hefur gruflað mikið í bókum þar sem fengist er við viðbrögð Íslendinga við hernáminu og reynast þær vera allmargar og eftir merka höfunda. Margir tóku hernámið mjög nærri sér og ef marka má sögurnar sem Daisy fjallar um kom það miklu róti á heimilislíf landsmanna, klauf jafnvel fjölskyldur. Það athyglisverðasta við greinina finnst mér þó vera tenging við annað ástand: „Nú þegar bandaríski herinn er á brott, og þjóðin í öngum sínum út af nýju „ástandi“, sýnir umfjöllun um hernámið í íslenskum skáldskap að hve miklu leyti þessi mál eru óuppgerð og að Íslendingar eru dæmdir til að endurtaka fortíðina ef þeir vinna ekki úr henni.“

Þriðja greinin birtist á Hugrás, vef Hugvísindasviðs HÍ, í júníbyrjun og ber heitið „Ein stök mynd“. Þar fjalla ég um bókina Mynd af Ragnari í Smára eftir Jón Karl Helgason. Ég skoða aðferð Jóns Karls við að draga upp mynd af útgefandanum og tengi hana við það sem kalla má listræna skáldleysu (e. creative nonfiction). Jafnframt ræði ég hvað kann að vinnast með því að nota svo skáldlega aðferð við ævisagnaritun.

Fjórða greinin er á leiðinni í Tímariti Máls og menningar. Þar er um að ræða svolítið óhefðbundinn ritdóm um ferðabók Huldars Breiðfjörð, Færeyskur dansur. Ég fer í rannsóknarlögregluleik og reyni að grafast fyrir um hvað sé rétt í þeirri bók, hringi m.a. í bókavörðinn í Hveragerði til þess, en Huldar lýsir samskiptum sínum við hann í bókinni.

Fimmta greinin er væntanleg í Læknablaðinu og þar er ég meðhöfundur en Einar Stefánsson augnlæknir aðalhöfundur. Í greininni er reynt að gefa hagnýtar leiðbeiningar um ritun fræðigreina. Þarna mættust rithöfundur og vísindamaður með ólíka nálgun á ritstörf og hafði ég gaman af.

56

Alls bárust 56 umsóknir um meistaranám í ritlist en meiningin er að taka inn 25 nema. Nú er inntökunefnd að hefja vinnu sína og getur starf hennar reynst vandasamt því umsóknir eru bitastæðar að sjá. Ekki er ljóst hvenær tilkynnt verður um niðurstöðuna enda vill nefndin vanda sig og gögnin umfangsmikil (hver umsækjandi mátti senda inn 30 síður og ef allir hafa nýtt kvótann gera það um 1700 síður). Umsækjendur verða því að bíða þolinmóðir en við munum þó reyna að draga  þá ekki of lengi á svari.

Þetta er sem kunnugt er í fyrsta skipti sem tekið er inn í meistaranám í ritlist. Námið hefst á hausti komanda og er um tveggja ára nám að ræða.

Umsóknarfrestur um nám í ritlist að renna út

Safnrit sem ritlistarnemar gáfu út í fyrra.

Á morgun, 15. apríl, rennur út frestur til þess að sækja um meistaranám í ritlist. Allir sem hafa lokið grunnnámi af einhverju tagi geta sótt um og satt að segja vonumst við eftir því að fá fólk með alls konar bakgrunn inn í námið. Við viljum gjarnan að íslenskir rithöfundar komi ekki allir úr sama farvegi. Okkur vantar t.d. fleiri höfunda með bakgrunn í náttúruvísindum og heilbrigðisvísindum.

Til að sækja um fer fólk á heimasíðu Háskóla Íslands, hi.is. Þar efst til vinstri finnur það flipann „Umsókn um nám“, smellir á hann, velur framhaldsnám og ritlist. Með umsókn þurfa að fylgja allt að 30 síður af frumsömdu efni af einhverju tagi, mega vera nokkrir stuttir textar, ljóð eða kaflar úr lengra verki, jafnvel bland í poka. Einnig þarf að skrifa stutta greinargerð um markmið.

Meiningin með því að bjóða ritlist á meistarastigi er að búa til vettvang þar sem fólk getur einbeitt sér að því að læra til rithöfundar. Námið skiptist annars vegar í ritsmiðjur og hins vegar í lestraráfanga af ýmsu tagi því eins og Gyrðir Elíasson sagði í viðtali á dögunum er nauðsynlegt fyrir rithöfund að lesa.

Ritlist hefur verið kennd á BA-stigi alllengi en það var ekki fyrr en 2008 sem hún var boðin sem aðalgrein. Ritlistarnemar eru þegar farnir að láta til sín taka í íslensku bókmenntalífi. Þeir hafa hreppt nýsköpunarstyrki úr Bókmenntastjóði, gefið út tímarit með furðusögum, tvö safnrit, unnið verðlaun fyrir stuttmyndahandrit, gefið út ljóðabók, efnt til ljóðasýningar, lesið upp hér og þar, sex þeirra komust á textasýninguna í Kringlunni á dögunum og á næstunni mun Forlagið gefa út skáldsöguna Slátt eftir nýútskrifaðan ritlistarnema.