Dagur Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Dagur Hjartarson, meistaranemi í íslenskum bókmenntum og ritlist við Háskóla Íslands, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar við athöfn í Höfða í gær. Samdægurs gaf bókaforlagið Bjartur út fyrstu bók Dags, ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð.

Dagur Hjartarson er fæddur á Fáskrúðsfirði árið 1986, en hefur búið alla tíð í Reykjavík. Fyrir tæpum mánuði hlaut Dagur einnig Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir smásagnahandritið Fjarlægðir og fleiri sögur sem kemur væntanlega út á næsta ári. Þess má geta að faðir Dags, Hjörtur Marteinsson, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir skáldsöguna AM 00.

Í dómefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar sátu Ingibjörg Haraldsdóttir, Bragi Ólafsson og Davíð Stefánsson, formaður nefndarinnar. Í umsögn dómnefndar um ljóðahandritið Dags segir m.a.:

,,Verðlaunahandritið er lágstemmt, afslappað og áreynslulaust. Og einmitt þar liggur styrkur þess, sá styrkur sem þarf alltaf til að draga lesanda frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu; aðdráttarafl hins prentaða orðs…. Tærleiki, bjartsýni og einlæg ást einkennir handritið fram undir lok þess. En þá birtast nokkur ljóð í röð sem eru full af lúmskum trega og óvæntum sársauka, eins og ljóðmælandi hafi haldið sársaukanum í sér en leyft honum að koma upp á yfirborðið undir það allra síðasta. Það er ekki síst þessi leikur með viðtökur lesandans sem gerði að verkum að dómnefndin ákvað að verðlauna ljóðahandritið Þar sem vindarnir hvílast – og fleiri einlæg ljóð. Titillinn er, eins og handritið sjálft, leikur með einlægni og kaldhæðni.“

Ritlistarnemar hafa hlotið ýmis verðlaun síðan ég hóf störf 2008 en þetta eru fyrstu stóru verðlaunin sem ritlistarnemi vinnur til. Ég óska degi til hamingju með þennan merka áfanga og hvet fólk til þess að lesa bókina hans, hún er vel þess virði.