Fyrirlestraröðin „Hvernig verður bók til?“ er ennþá á fullu blússi. Næsti fyrirlesari er hinn nýbakaði verðlaunahafi Gerður Kristný. Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá hlaut hún á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Blóðhófni.
Gerður var „ung gefin máli…og menningu“, að eigin sögn, og hefur gengið flest að sólu á ritvellinum. Hún er fjölhæf og hefur unnið til margra verðlauna fyrir skrif sín. Ljóðabálkurinn Blóðhófnir kallast á við eitt þekktasta ljóð Eddukvæða, Skírnismál, sem eru um stúlkuna Gerði.
Fyrir utan Íslensku bókmenntaverðlaunin hefur Gerður m.a. fengið Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir bókina Myndin af pabba: Saga Thelmu, sem vakti þjóðarathygli, og fyrir unglingasöguna Garðurinn hlaut hún Vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2010.
Fyrirlesturinn fer fram í stofu 105 á Háskólatorgi og hefst kl. 12 fimmtudaginn 24. febrúar.
Ritlistarnemar hafa ekki legið á liði sínu það sem af er misserinu. Síðastliðinn sunnudag lásu þau upp á Gljúfrasteini og munu gera það síðasta sunnudag í hverjum mánuði til vors. Hér til hliðar má sjá mynd sem tekin var á Gljúfrasteini á sunnudaginn og ef smellt er á hana má sjá hana stærri.
Að kvöldi 11. febrúar, á safnanótt, munu ritlistarnemar svo taka þátt í ljóðadagskrá á vegum Borgarbókasafnsins en áður en að henni kemur munu nokkrir „stórglæsilegir kvenmenn“ (bein tilvitnun í fréttatilkynningu) úr hópi ritlistarnema efna til svokallaðs stofulesturs og hvar annars staðar en í Stofunni Aðalstræti 7. „Ætlunin með kvöldinu er að skapa þægilegt og afslappað umhverfi svo það verður lítið um formlegheit.“ Dagskráin hefst kl. 20 föstudaginn 4. febrúar
Hinn 19. febrúar munu ritlistarnemar svo taka þátt í kynningardegi Háskóla Íslands. Bæði munu þau hengja upp ljóð eftir sig og taka þátt í dagskrá í Hátíðarsalnum.
Fyrsti fyrirlestur ársins í röðinni „Hvernig verður bók til?“ fer fram fimmtudaginn 27. janúar. Það er skáldkonan Kristín Marja Baldursdóttir sem heiðrar okkur með nærveru sinni að þessu sinni og hyggst hún ræða um stórvirki sitt, bækurnar um Karitas sem hafa vakið mikla athygli heima og erlendis.
Kristín Marja hefur sent frá sér efni af ýmsu tagi, skáldsögur, smásögur og ævisögu auk hundraða blaðagreina. Bækur hennar hafa verið þýddar á mörg tungumál og hafa vakið svo mikla athygli erlendis að bókasöfn eru farin að skipuleggja ferðir í fótspor Karitasar. Karitas án titils var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2006. Margir kannast líka við bókina Mávahlátur sem vakti verulega lukku og var síðar kvikmynduð.
Ég vek athygli á því að fyrirlesturinn fer nú fram á Háskólatorgi, nánar tiltekið í stofu 105, og hefst kl. 12. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
Í dag var útvarpað innslagi sem Ólöf Anna Jóhannsdóttir, nemi í ritlist og þjóðfræði, gerði um ritlistarnám. Hún ræðir þar við Kristínu Steinsdóttur, rithöfund og formann Rithöfundasambands Íslands, um viðhorf hennar til ritlistarnáms og undirritaðan sem gerir sitt besta til að lýsa því hvernig ritlistarnám við Háskóla Íslands fer fram. Nálgast má innslagið á vef RÚV og slóðin er: http://dagskra.ruv.is/ras1/4555959/2011/01/12/1/. Innslagið heitir „Þjóðbrók“.
Í bók sinni Þjóðgildin, sem kom út sl. haust, vinnur Gunnar Hersveinn heimspekingur á skapandi hátt með sagnir og sögur héðan og þaðan úr heiminum, fléttar þær saman við umfjöllun sína um gildi. Hann leggur m.a. út af tveimur bókum sem ég hef þýtt, Veginum eftir Cormac McCarthy og Hvað er þetta Hvað? eftir Dave Eggers en báðar komu þær út hjá Bjarti. Um þá síðarnefndu birtir hann hliðarkafla þar sem hann sýður niður þjóðargoðsagnir Súdana og tengir íslenskri umræðu um lýðræði:
„Sköpunarsaga framandi þjóðar hljómar eitthvað á þessa leið: Guð skapaði ljós og myrkur, himin og jörð og höfin, gróðurinn, dýrin og mennina og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá kom að því að Guð bauð fólkinu upp á tvo kosti til lífsviðurværis: nautgripi eða þetta hvað. Fólkið þekkti frjósamt landið og nautgripina, það vissi hvað það átti – en spurði svo: „Hvað er þetta hvað?“ og Guð svarði: „Þið komist að því ef þið veljið það.“ Hvað er þetta Ísland? Þjóð er hugtak og ef það merkir almenning, þá rúmar það ekki valdstjórn sem vill gefa almenningi eitthvert eðli sem hentar tímabundnum hagsmunum hans. Þjóðin þarf að ráða sér sjálf.“
Veginn tekur Gunnar inn í umfjöllun um kærleikann og segir m.a.:
„Í skáldsögunni Vegurinn eftir Cormac McCarthy er veröld lýst þar sem kærleikurinn er öllum horfinn nema einni smáveru. Höfundurinn hefur sennilega gert sér í hugarlund hvernig heimurinn án kærleika liti út. Drengurinn í sögunni er sá eini sem finnur til með öðrum og er ekki sama um örlög annarra. Hann þjáist með öðrum og vill rétta þeim hjálparhönd. Jafnvel faðir hans hefur glatað kærleikanum þótt hann skynji og ræki ábyrgð sína gagnvart drengnum. Bera má kennsl á kærleikann í brjósti drengsins þótt flestallt sé horfið sem fólk unni og veröldin sé án fugla, jurta, dýra og vonar og ekki sjáist lengur til sólar sökum ösku.“
Í þessari viku hafa komið út tvö rit sem ritlistarnemar standa að. Annars vegar er um að ræða fyrsta tölublað nýs tímarits sem ber heitið Furðusögur. Það inniheldur fantasíusögur, vísindaskáldskap og hrollvekjur í anda „weird tales“ og eru þær sagðar bæði í máli og myndum. Efni af þessu tagi hefur ekki verið fyrirferðarmikið á íslenskum bókamarkaði og er ritinu ætlað að bæta úr því.
Það eru útgáfufyrirtækið Andlag sem stendur að tímaritinu en ritstjóri er Alexander Dan Vilhjálmsson ritlistarnemi og aðstoðarritstjóri er Hildur Knútsdóttir sem útskrifaðist með BA í ritlist fyrir stuttu. Um umbrotið sá ritlistarneminn Ólafur Sindri. Í blaðinu eru tíu smásögur eftir átta höfunda, þ.á m. eftir nokkra ritlistarnema. Í pistli ritstjórans kemur fram að útgáfa blaðsins sé hugsjónastarf og að allir gefi vinnu sína. Þess má geta að aðstandendur Furðusagna fengu nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir þetta verkefni.
Hitt ritið sem út kom í vikunni heitir Beðið eftir Sigurði (hvaða Sigurður skyldi það vera?) og geymir sögur og ljóð eftir tuttugu og tvo ritlistarnema. Bókin er gefin út á vegum Ritvélarinnar, nemendafélags ritlistarnema, og er hugsuð „sem vettvangur fyrir nýgræðinga til að spreyta sig á ritvellinum“ eins og segir í tilkynningu. Í fyrra gáfu ritlistarnemar út smásagnasafnið Hestar eru tvö ár að gleyma sem hafði að geyma sögur eftir fimmtán nema.
Meðal viðfangsefna í bókinni eru getnaður nýrnasteins og sáðfrumu, heimsyfirráðastefna íslensku þjóðarinnar og hnignunarsaga sögð í gegnum þyngdaraukningu persóna.
Ritvélin efnir til útgáfuteitis í bókabúðinni Útúrdúr kl. 17 í dag. Þar munu nokkrir höfundanna lesa upp úr bókinni auk þess sem hljómsveitin Agent Fresco spilar lög af nýútkominni plötu.
Ég óska ritlistarnemum til hamingju með ritin tvö. Ekki skortir framtakssemina í þessum hóp.
Í gær samþykkti háskólaráð tillögu okkar í Íslensku- og menningardeild um að færa nám í ritlist upp á meistarastig frá og með haustinu 2011. Þar með fetum við í fótspor margra af helstu rithöfundasmiðjum heims. Fólk með BA-, BS- eða BEd-gráðu getur sótt um inngöngu strax í vor. Teknir verða inn allt að 25 nemendur og ekki er skilyrði að hafa BA-próf í ritlist, íslensku eða almennri bókmenntafræði heldur geta allir sótt sem áhuga hafa og eiga eitthvert efni í fórum sínum því valið verður inn á grundvelli innsends efnis.
Einn af kostum þess að færa námið upp á meistarastig er sá að þar verður hægt að efna til samstarfs við skyldar greinar á borð við fréttamennsku, hagnýta menningarmiðlun, þýðingafræði og hagnýta ritstjórn og útgáfu. Ritlistarnemar geta sem sagt fengið þjálfun í að skrifa fréttir og þýða bækur, svo dæmi séu tekin. Námið verður byggt upp af smiðjum og lesáföngum í bland og lokaverkefnið getur orðið lítil bók.
Það er von mín að þeir sem áhuga og hæfileika hafa skrái sig í ritlist til meistaraprófs. Þar gefst þeim kostur á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra rithöfunda. Í þessu sem öðru gildir að æfingin skapar meistarann.
Þó að einungis sé einn fastráðinn kennari í ritlist, sá sem hér skrifar, er ekki þar með sagt að hann sé allt í öllu. Margir aðrir leggja þar hönd á plóg. Meðal þeirra sem stýrt hafa ritsmiðjum síðan ritlist var gerð að aðalgrein til BA-prófs eru Sigurður Pálsson, Anna Heiða Pálsdóttir, Jason Rotstein, Árni Óli Ásgeirsson, Dagur Kári Pétursson og nú á vormisseri mun Karl Ágúst Úlfsson bætast við. Þá hafa Hlín Agnarsdóttir og Jón Atli Jónasson tekið að sér leiðsögn með BA-verkefnum.
Við höfum einnig efnt til fyrirlestraraðarinnar Hvernig verður bók til?, sem bæði er ætluð ritlistarnemum og almenningi, og þar hafa talað þau Jón Kalman Stefánsson, Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir, Einar Kárason, Auður Ava Ólafsdóttir, Bragi Ólafsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Kristján Árnason, Ragnar Bragason og Kristín Helga Gunnarsdóttir. Auk þeirra hafa þau Guðrún Eva Mínervudóttir, Ágúst Borgþór Sverrisson, Egill Heiðar Anton Pálsson og Tobba Marinósdóttir sótt okkur heim. Þá stóðum við ásamt öðrum að alþjóðlegri ráðstefnu, Art in Translation, sl. vor og fengum alls konar fólk í heimsókn.
Af þessu má ráða að ritlistarnemar heyja sér forða héðan og þaðan. Þar að auki lesa þeir auðvitað ritverk eftir fjölmarga höfunda. Mikið ofboðslega hlýtur að vera gaman að vera ritlistarnemi!
Mánudaginn 22. nóvember fer fram síðasti fyrirlestur ársins í röðinni „Hvernig verður bók til?“ Þá stígur Kristín Helga Gunnarsdóttir í pontu en undanfarin ár hefur hún verið einn vinsælasti og afkastamesti rithöfundur Íslands. Hún hefur fengið fjölda verðlauna fyrir skrif sín, m.a. verðlaun Vestnorræna ráðsins.
Kristín Helga hyggst fara með okkur í yfirreið um svæðið sitt og segja okkur m.a. frá tilurð hinna vinsælu bóka um Fíusól. Það verður eflaust gaman að hlusta á Kristínu Helgu því hún kann að orða hlutina.
Fyrirlesturinn fer fram í sal 3 í Háskólabíói og hefst kl. 12 á mánudaginn. Fyrirlestraröðin er skipulögð af ritlist við Íslensku- og menningardeild í samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun. Allir velkomnir.
STOPP! Ljóðasýning ritlistarnema við Háskóla Íslands verður opnuð á neðri hæð Háskólatorgs föstudaginn 12. nóvember kl. 17.30. Til sýnis verða tuttugu og sjö ljóð eftir tíu nemendur.
Ljóðskáldin eru Tumi Ferrer, Hlín Ólafsdóttir, Vilhjálmur Pétursson, Gunnar Jónsson, Dagbjört Vésteinsdóttir, Birna Dís Eiðsdóttir, Steinunn María Halldórsdóttir, Finnbogi Þorkell Jónsson, Anna Steinunn Ágústsdóttir og Hertha Richardt Úlfarsdóttir.
Það eru ritlistarnemar sjálfir sem hafa haft veg og vanda af sýningunni og hefur Hertha Richardt Úlfarsdóttir gegnt hlutverki verkefnastjóra.