Öflug útgáfustarfsemi ritlistarnema

Í þessari viku hafa komið út tvö rit sem ritlistarnemar standa að. Annars vegar er um að ræða fyrsta tölublað nýs tímarits sem ber heitið Furðusögur. Það inniheldur fantasíusögur, vísindaskáldskap og hrollvekjur í anda „weird tales“ og eru þær sagðar bæði í máli og myndum. Efni af þessu tagi hefur ekki verið fyrirferðarmikið á íslenskum bókamarkaði og er ritinu ætlað að bæta úr því.

Það eru útgáfufyrirtækið Andlag sem stendur að tímaritinu en ritstjóri er Alexander Dan Vilhjálmsson ritlistarnemi og aðstoðarritstjóri er Hildur Knútsdóttir sem útskrifaðist með BA í ritlist fyrir stuttu. Um umbrotið sá ritlistarneminn Ólafur Sindri. Í blaðinu eru tíu smásögur eftir átta höfunda, þ.á m. eftir nokkra ritlistarnema. Í pistli ritstjórans kemur fram að útgáfa blaðsins sé hugsjónastarf og að allir gefi vinnu sína. Þess má geta að aðstandendur Furðusagna fengu nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir þetta verkefni.

Hitt ritið sem út kom í vikunni heitir Beðið eftir Sigurði (hvaða Sigurður skyldi það vera?) og geymir sögur og ljóð eftir tuttugu og tvo ritlistarnema. Bókin er gefin út á vegum Ritvélarinnar, nemendafélags ritlistarnema, og er hugsuð „sem vettvangur fyrir nýgræðinga til að spreyta sig á ritvellinum“ eins og segir í tilkynningu. Í fyrra gáfu ritlistarnemar út smásagnasafnið Hestar eru tvö ár að gleyma sem hafði að geyma sögur eftir fimmtán nema.

Meðal viðfangsefna í bókinni eru getnaður nýrnasteins og sáðfrumu, heimsyfirráðastefna íslensku þjóðarinnar og hnignunarsaga sögð í gegnum þyngdaraukningu persóna.

Ritvélin efnir til útgáfuteitis í bókabúðinni Útúrdúr kl. 17 í dag. Þar munu nokkrir höfundanna lesa upp úr bókinni auk þess sem hljómsveitin Agent Fresco spilar lög af nýútkominni plötu.

Ég óska ritlistarnemum til hamingju með ritin tvö. Ekki skortir framtakssemina í þessum hóp.