Ritlistarnemar ryðja sér til rúms – annáll 2012

Þetta hefur verið gjöfult ár fyrir okkur í ritlistinni. Það hefur verið mikill þróttur í starfinu og margs konar verk verið að gerjast. Fjórtán nýir meistaranemar voru teknir inn í haust og þeir hafa fallið vel í hópinn. Þetta er afar fjölbreyttur hópur, ritlistarnemar eru á öllum aldri og koma úr ýmsum geirum samfélagsins. Þannig viljum við hafa það.

Margir ritlistarnemar, fyrrverandi og núverandi, hafa sent frá sér bækur á árinu og allmargir hafa unnið til viðurkenninga. Talsvert hefur borið á þessum nemum, suma daga hafa þeir bæði verið framan á dagblöðum og í útvarpinu.

Síðastliðið vor var tilkynnt að tveir ritlistarnemar hefðu verið valdir úr hópi 30 umsækjenda til þátttöku í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins. Það voru þær Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir og voru brot úr verkum þeirra leiklesin 17. september.

Hinn 19. september afhenti Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra þremur ritlistarnemum nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs. Dagur Hjartarson fékk styrk fyrir smásagnasafnið Fjarlægðir og fleiri sögur, Heiðrún Ólafsdóttir fyrir ljóðabókina Á milli okkar allt, sem þegar er komin út, og Soffía Bjarnadóttir fyrir textasafnið Segulskekkja.

Þá gaf Kristian Guttesen út ljóðabókina Vegurinn um Dimmuheiði og var henni vel tekið.

Hinn 3. október var svo tilkynnt að Dagur Hjartarson hlyti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð. Bókin kom út samdægurs hjá Bjarti.

7. nóvember var tilkynnt að Kjartan Yngvi Björnsson hlyti Íslensku barnabókaverðlaunin ásamt Snæbirni Brynjarssyni fyrir bókina Hrafnsauga. Kjartan Yngvi og Snæbjörn fengu einnig bókmenntaverðlaun bóksala. Bókin kom út hjá Vöku-Helgafelli.

Þór Tulinius var tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir handrit sitt að leikritinu Blótgoðar sem hann lék sjálfur í.

Hildur Knútsdóttir, sem er útskrifaður ritlistarnemi, gaf svo út táningabókina Spádóminn hjá JPV útgáfu og fyrir hana hreppti hún 3. sætið hjá bóksölum.

Annar útskrifaður ritlistarnemi, Bragi Páll Sigurðarson, gaf á dögunum út ljóðabókina Fullkomin Ljóðabók: ljóð, eða eitthvað (Til hamingju!) og hefur hún valdið nokkru fjaðrafoki.

Þóra Karitas Árnadóttir þýddi ásamt Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur bókina Þú afhjúpar mig eftir Sylviu Day.

Síðast en ekki síst gáfu ritlistarnemar nýverið út bókina Jólabók Blekfjelagsins. Þar er 31 jólasaga eftir 31 höfund og er hver saga nákvæmlega 100 orð. Höfundarnir hafa lesið sögurnar sínar í Víðsjá nú í desembermánuði. Blekfjelagið er nemendafélag ritlistarnema.

Ritlistarkennarar hafa einnig verið iðnir við að senda frá sér bækur. Undirritaður sendi frá sér bókina Ást í meinum, Sigurður Pálsson ljóðabókina Ljóðorkulind, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sendi frá sér ljóðabókina Sjálfsmyndir og þýðinguna Hjaltlandsljóð sem hann var tilnefndur til þýðingaverðlauna fyrir. Þá hefur Anna Heiða Pálsdóttir sent frá sér bókina Mitt eigið Harmagedón sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna, Magnea J. Matthíasdóttir hlaut fyrr á árinu þýðingaverðlaun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir Hungurleikana og loks má geta þess að sl. sumar var frumsýnt leikritið Gestaboð Hallgerðar eftir Hlín Agnarsdóttur og nú fyrir skömmu verkið Perfect sem hún skrifaði fyrir Þjóðleik.

Dagur Hjartarson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Dagur Hjartarson, meistaranemi í íslenskum bókmenntum og ritlist við Háskóla Íslands, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar við athöfn í Höfða í gær. Samdægurs gaf bókaforlagið Bjartur út fyrstu bók Dags, ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð.

Dagur Hjartarson er fæddur á Fáskrúðsfirði árið 1986, en hefur búið alla tíð í Reykjavík. Fyrir tæpum mánuði hlaut Dagur einnig Nýræktarstyrk Bókmenntasjóðs fyrir smásagnahandritið Fjarlægðir og fleiri sögur sem kemur væntanlega út á næsta ári. Þess má geta að faðir Dags, Hjörtur Marteinsson, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000 fyrir skáldsöguna AM 00.

Í dómefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar sátu Ingibjörg Haraldsdóttir, Bragi Ólafsson og Davíð Stefánsson, formaður nefndarinnar. Í umsögn dómnefndar um ljóðahandritið Dags segir m.a.:

,,Verðlaunahandritið er lágstemmt, afslappað og áreynslulaust. Og einmitt þar liggur styrkur þess, sá styrkur sem þarf alltaf til að draga lesanda frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu; aðdráttarafl hins prentaða orðs…. Tærleiki, bjartsýni og einlæg ást einkennir handritið fram undir lok þess. En þá birtast nokkur ljóð í röð sem eru full af lúmskum trega og óvæntum sársauka, eins og ljóðmælandi hafi haldið sársaukanum í sér en leyft honum að koma upp á yfirborðið undir það allra síðasta. Það er ekki síst þessi leikur með viðtökur lesandans sem gerði að verkum að dómnefndin ákvað að verðlauna ljóðahandritið Þar sem vindarnir hvílast – og fleiri einlæg ljóð. Titillinn er, eins og handritið sjálft, leikur með einlægni og kaldhæðni.“

Ritlistarnemar hafa hlotið ýmis verðlaun síðan ég hóf störf 2008 en þetta eru fyrstu stóru verðlaunin sem ritlistarnemi vinnur til. Ég óska degi til hamingju með þennan merka áfanga og hvet fólk til þess að lesa bókina hans, hún er vel þess virði.

Ritlistarnemar hreppa styrki og taka þátt í höfundasmiðju

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs í Gunnarshúsi 19. september síðastliðinn. Þrír ritlistarnemar fengu styrk að þessu sinni. Dagur Hjartarson fékk styrk fyrir smásagnasafnið Fjarlægðir og fleiri sögur, Heiðrún Ólafsdóttir fyrir ljóðabókina Á milli okkar allt, sem þegar er komin út, og Soffía Bjarnadóttir fyrir textasafnið Segulskekkja. Þau eru öll á öðru ári í meistaranámi í ritlist.

Þá voru tveir ritlistarnemar valdir úr hópi 30 umsækjenda til þátttöku í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins. Það voru þær Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir og voru brot úr verkum þeirra leiklesin 17. september. Tveir aðrir ritlistarnemar tóku þátt í höfundasmiðjunni sem leiðbeinendur, þær Harpa Arnardóttir og Halla Margrét Jóhannesdóttir. Ég óska þeim öllum til hamingju með þessa áfanga.

Kristian Guttesen og Heiðrún Ólafsdóttir gefa út ljóðabækur

Tveir meistaranemar í ritlist, þau Kristian Guttesen og Heiðrún Ólafsdóttir, sendu nýverið frá sér ljóðabækur. Þar tala tvær gjörólíkar raddir, vel skilgreindar og aðlaðandi báðar.

Bók Kristians nefnist Vegurinn um Dimmuheiði og geymir bæði frumsamin ljóð og þýðingu á ljóði eftir Bukowski. Ljóðin eru margbrotin, í aðra röndina heimspekileg, eins og t.d. ljóðið „Nafnlaust ljóð um dauða og dauðastundir“ sem hefst svona: „Hafði ég tekið þátt í nauðgun / með aðgerðaleysi mínu? / Hafði ég með aðgerðaleysi mínu svelt lítið barn í Afríku? / Ég sé mömmuna dána, / ég sé barnið með bumbuna útí loftið / svo stóra að það vekur viðbjóð.“

Bók Heiðrúnar ber titilinn Á milli okkar allt og fjallar um samskipti pars, allt frá tilhugalífi og fram yfir skilnað að því er virðist. Heiðrún beitir kímni óspart í ljóðum sínum, oft með góðum árangri: „Hin fegurstu sólarlög / færi ég þér. / Ég set þau á vesturhimininn / þegar vel viðrar, síðdegis. / Þú getur nálgast þau þar.“

Ég óska Kristian og Heiðrúnu til hamingju með þessar prýðilegu ljóðabækur. Ég held að þær gætu glatt marga sem á annað borð unna ljóðum.

„Úr umferð“ – Kveðja

Það var gott að hafa Önnu Steinunni Ágústsdóttur í tímum, hún var næm og hafði ævinlega eitthvað bitastætt til málanna að leggja. Hún hafði ekki hátt en var þeim mun lunknari. Sjálf var hún afar vel skrifandi, smekkmanneskja sem hafði gott vald á máli og stíl;  þar þurfti hún ekki mikillar leiðbeiningar við. Hún var virk í félagsstarfi samnemenda sinna, las upp með þeim, tók þátt í ljóðasýningu og birti efni í safnritunum sem þau gáfu út. Í einu ljóðanna í bókinni III., sem kom út sl. vetur, er að finna ljóðið „Alltaf sama“. Þar fjallar hún um fallegu augnablikin í lífinu, eilífðina í hversdeginum, og segir m.a.: „Hamingja hreiðrar um sig eins og ókunnur köttur.“

Síðast þegar hún sat tíma hjá mér lét hún mig vita af því að meinið hefði tekið sig upp að nýju eins og ein sagan hennar, „Úr umferð“, bar með sér. Ekki vildi hún þó að ég hefði hátt um það, vegna þess að hún vildi taka þátt í tímum á venjulegum forsendum. Þótt hún hefði ekki fulla starfsorku lauk hún áfanganum með miklum sóma og skrifaði marga fallega texta. Ekki óraði mig samt fyrir því að hamingjukötturinn væri búinn með öll lífin sín og að Anna yrði sjálf tekin úr umferð innan skamms.

Ég votta aðstandendum öllum samúð og vona að þau geti þegar frá líður ornað sér við skrifin sem Anna lét eftir sig.

Ritlistarkennarar láta til sín taka

Elva Ósk Ólafsdóttir leikur Hallgerði í verki Hlínar Agnarsdóttur. Þarna stendur hún í hlíðinni fögru.

Sunnudaginn 15. júlí var frumsýndur á Sögusetrinu á Hvolsvelli einleikurinn Gestaboð Hallgerðar. Hlín Agnarsdóttir, sem kennt hefur leikritun hjá okkur í ritlistinni, skrifar leikinn og leikstýrir en Elva Ósk Ólafsdóttir leikur sjálfa Hallgerði sem í þetta sinn rekur menningartengda ferðaþjónustu á Hlíðarenda ásamt manni sínum hrossabónandum Gunnari. Sjálf er Hallgerður listakona sem hefur sérhæft sig í að búa til listmuni upp úr Njálssögu úr alls kyns hári og köðlum. Gunnar sendir á hana óvæntan gestahóp á Hlíðarenda og hún verður að redda veitingum og sendir vinnumann sinn Melkó til að kaupa Ritzkex og Kirkjubæjarcamembert.  Á meðan hefur hún ofan af fyrir gestunum með því að segja þeim sögur af skrautlegu lífi sínu.

Ég sá frumsýninguna og hafði mjög gaman af. Það er vel til fundið hjá Hlín að koma Hallgerði fyrir í ferðaþjónustu nútímans sem nú er orðin stærsta niðursuðuverksmiðja íslenskrar menningar. Og gestaboðið talar beint inn í söguna sjálfa því Hallgerður lenti jú í vandræðum með veisluföng hér um árið og tók þá til sinna ráða. Elva Ósk er glæsileg Hallgerður og túlkun hennar segir manni hvers vegna karlar féllu fyrir henni, í tvennum skilningi.

Frá afhendingu barnabókaverðlaunanna. Magnea neðst til vinstri.

Í vor tók svo annar ritlistarkennari, Magnea J. Matthíasdóttir, skáld og þýðandi, við barnabókaverðlaunum Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu sína á bókinni Hungurleikarnir. Í umsögn dómnefndar um þýðinguna segir m.a.:

Þýðing Magneu J. Matthíasdóttur er fumlaus og laus við tilgerð og talar beint til krefjandi lesendahóps. Í sögunni hverfur lesandinn  inn í heim sem er fjarlægur en samt svo nálægur, þökk sé vel heppnaðri þýðingu Magneu.

Ég óska bæði Hlín og Magneu til hamingju.

Ást í meinum – ný bók með gömlum titli

Í dag kemur út eftir mig ný bók hjá bókaforlaginu Uppheimum. Í fréttatilkynningu frá forlaginu segir:

„Rúnar Helgi Vignisson hefur gengið til liðs við bókaforlagið Uppheima og sendir hann nú frá sér 7. skáldverk sitt, Ást í meinum. Bókin geymir fimmtán nýjar smásögur sem tengjast allar efnislega – raða sér í svokallaðan sagnasveig – en þær eiga það sammerkt að fjalla um náin samskipti. Höfundur spyr áleitinna spurninga um hjónabandið, ástina, kynlíf, barneignir, lífsstíl og heilbrigði og ekki hvað síst um það að eldast saman. Ef um sjálfshjálparbók væri að ræða héti hún mögulega Listin að þola makann. Svo er hins vegar ekki, hér er um listræn skrif að ræða þar sem tekist er á við lífið í öllum sínum fjölbreytileika, allt frá getnaði til dauða. Flestar sögurnar leiftra af kímni en þó er undirtónninn jafnan alvarlegur, enda gerast ótrúlegustu hlutir á langri lífsleið. Fólk getur verið býsna harðskeytt þegar það leitast við að eiga saman farsæla ævi.“

Bókin kemur út í kilju með innslögum og kostar 2.990 kr. Í dag kl. 17 verður efnt til útgáfuteiti í Eymundsson við Skólavörðustíg. Ég fjalla stuttlega um bókina og síðan les Hjalti Rögnvaldsson úr bókinni.

Rithöfundasmiðja Íslendinga

Ritlistarnemar í samstarfi við myndlistarnema.

Haustið 2011 hófst nám í ritlist á meistarastigi við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 24 nemar, sem höfðu verið valdir úr hópi umsækjenda, hófu þá nám. Reyndar á orðið nám ekki alls kostar við þá iðju, nær væri að tala um að þessum 24 einstaklingum hafi þarna gefist kostur á að þroska hæfileika sína á þessu sviði undir handleiðslu reyndra höfunda. Starfið hófst af miklum krafti og ekki minni gleði því öllum finnst gaman að skapa.

Hinn 15. apríl rennur út umsóknarfrestur um nám í ritlist á meistarastigi. Allt að 25 nýir nemar verða þá teknir inn og sér þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins (mér) og tveimur rithöfundum sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, um að velja úr umsóknum. Valið er inn á grundvelli efnis sem umsækjendur láta fylgja umsókn sinni.

Námið er í grófum dráttum þrískipt. Í fyrsta lagi er um svokallaðar smiðjur að ræða þar sem þátttakendur vinna með reyndum höfundum að ritsmíðum, í öðru lagi er um lestrarnámskeið að ræða enda flestir á því að lestur sé lykilatriði fyrir höfunda og í þriðja lagi lokaverkefni sem er í formi skapandi ritsmíðar af einhverju tagi.

Ritlistarnám er mjög persónulegt, eins og gefur að skilja. Þátttakendur gefa af sér í gegnum ritsmíðar sínar sem síðan eru gjarnan ræddar af hópnum. Í gegnum samtalið byggist smátt og smátt upp tilfinning og skilningur á eðliseiginleikum ritlistarinnar. Að sama skapi verða kynni þátttakenda náin og mikið er lagt upp úr því að gott samstarf takist enda þarf rithöfundur ekki endilega að vera einyrki.

Þeim sem vilja kynna sér betur hugmyndir mínar um það hvernig höfundur verður til bendi ég á samnefndan pistil minn á Hugrás en hann má finna hér.

Verk eftir tvo ritlistarkennara valin á alþjóðlega leikritaráðstefnu

Í sumar verður haldin í Stokkhólmi alþjóðleg ráðstefna um leikrit eftir konur, Women Playwrights International Conference. Þar verða leikrit eftir konur til umfjöllunar og skoðunar. Gaman er að segja frá því að verk eftir tvær íslenskar konur sem hafa kennt við ritlistardeild Háskóla Íslands hafa verið valin til skoðunar og leiklestrar á ráðstefnunni. Það eru verk eftir þær Hlín Agnarsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur og óska ég þeim innilega til hamingju með þessa upphefð.

Ráðstefna þessi hefur verið haldin á þriggja ára fresti frá 1988 og að þessu sinni verður hún haldin í Stokkhólmi eins og áður segir. Þarna gefst gott tækifæri til þess að koma leikverkum eftir íslenskar konur á framfæri en nokkur umræða hefur orðið um það hérlendis undanfarið hve lítið er sett upp af íslenskum leikritum, ekki síst eftir konur. Verk eftir tvær aðrar íslenskar konur voru einnig valin á ráðstefnuna, eftir þær Jónínu Leósdóttur og Völu Þórsdóttur.

Guðrún Eva ræðir um verðlaunabókina sína

Ljósm. Vera Pálsdóttir

Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut fyrir skömmu Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur. Hún verður gestur okkar í fyrirlestraröðinni Hvernig verður bók til? fimmtudaginn 15. mars og ræðir þá einmitt um tilurð bókarinnar.

Guðrún Eva er fædd 1976 og þótt ung sé að árum hefur hún um alllangt skeið verið einn af ástsælustu höfundum þjóðarinnar. Hún vakti strax athygli fyrir smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey árið 1998 og síðan hefur hún gefið út skáldsögur með reglulegu millibili. Hún hefur nokkrum sinnum verið tilnefnd til verðlauna og hlaut m.a. Menningarverðlaun DV fyrir skáldsöguna Yosoy árið 2005.

Fyrirlestur Guðrúnar Evu fer fram í stofu 105 á Háskólatorgi (fyrir neðan Bóksölu stúdenta) milli kl. 12 og 1 á fimmtudag. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. Fyrirlestraröðin er á vegum okkar í ristlistinni í samvinnu við Bókmennta- og listfræðastofnun.