Þemahefti um sannsögur

Fyrir stuttu kom út þemahefti um sannsögur á vegum Ritsins, tímarits Hugvísindasviðs. Við Huldar Breiðfjörð, lektor í ritlist, vorum þar gestaritstjórar og fengum til liðs við okkur allmarga fræðinga og höfunda auk þess sem við bæði skrifuðum báðir og þýddum í heftið. Þarna er að finna sex esseyjur og fjórar fræðigreinar sem ýmist takast með beinum hætti á við sannsögur eða sveima í kringum þær. Sannsaga er þýðing á enska hugtakinu creative nonfiction en skrif sem falla þar undir hafa verið fyrirferðarmikil á undanförnum árum. 

Í greininni „Í sambandi við veruleikann“ spyrjum við Huldar hvað sé sannsaga, nálgumst hugtakið úr ýmsum áttum og skoðum hvernig fræðimenn hafa skilgreint sannsögur og dregið línuna á milli þeirra og annarra bókmennta. Soffía Auður Birgisdóttir rýnir í landamæri skáldskapar og æviskrifa, rannsóknarsögu sjálfsæviskrifa og veltir fyrir sér hvað sé skáldævisaga. Flóki Larsen beinir sjónum að Harmsögu æfi minnar eftir Jóhannes Birkiland með hliðsjón af birtingarmynd andhetjunnar í bæði þekktum skáldverkum og öðrum íslenskum sjálfsævisögum. Fjórða fræðigreinin er eftir Huldar Breiðfjörð og fjallar um ferðasögur sem er einn þriggja undirflokka sannsögunnar. Í greininni er hinn langi þróunartími ferðasögunnar rakinn og spurt um stöðu hennar í dag. Er ferðasagan kannski dauð? spyr Huldar.

Í esseyjunni „Köldukvíslarkver“ heldur Dalrún Kaldakvísl með upptökutæki á æskuslóðir sínar við Köldukvísl í Mosfellsdal og ræðir þar við sveitunga um samband þeirra við ána í gegnum tíðina. Í annarri persónulegri esseyju, „Sann-leikurinn“, sem ég þýddi, veltir Margrét Ann Thors fyrir sér stöðu kristinnar trúar í samtímanum og gaumgæfir þá stöðu í bland út frá tungumálunum ensku og íslensku. Loks skrifar Gunnþórunn Guðmundsdóttir „Þætti af minni og gleymsku“ í esseyju þar sem hrærast saman fræði, skáldskapur og minningabrot.

Í heftinu er einnig að finna þrjár nýjar íslenskar þýðingar aðrar. Frásögnin „Heimkomur“ eftir franska nóbelsverðlaunahöfundinn Annie Ernaux og í þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur segir frá stuttri heimsókn höfundarins til móður hennar og bregður sterku ljósi á samband þeirra mæðgna. „Sannleikur sem við gætum lifað með“ eftir Robin Hemley í þýðingu Huldars rekur einnig samband höfundar og móður og inniheldur vangaveltur um hver megi skrifa um hvern innan sömu fjölskyldu. Hemley hefur sent frá sér 15 bækur og kennt ritlist við háskóla víða um heim, nú síðast sem gestakennari í ritlist við HÍ. Þriðja þýdda ritgerðin er „Sannleikurinn í Oxiana“ eftir Tom Bissell sem er amerískur blaðamaður, gagnrýnandi og rithöfundur. Í henni skoðar Bissell hversu sannur texti yfirleitt getur verið en ritgerðin hefur vakið töluverða athygli þeirra sem láta sig sannsögur varða. Huldar snaraði á íslensku.

Aðalritstjóri Ritsins er Guðrún Steinþórsdóttir. Ljósmynd á kápu er eftir Einar Fal Ingólfsson og er tekin í Varanasi á Indlandi árið 2024. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og prófarkalestur var í höndum Dagbjartar Guðmundsdóttur. Heftið er í opnum aðgangi á slóðinni ritid.hi.is.

Viðurkenning úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar

Þann 12. desember síðastliðinn hlotnaðist mér viðurkenning úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar. Í reglum um sjóðinn frá 1881 segir að hann megi nota til að „til verðlauna fyrir vel samin vísindaleg rit“. Viðurkenningin sem mér féll í skaut er fyrir bókina Þú ringlaði karlmaður sem fær eftirfarandi umsögn á viðurkenningarskjali:

„Mjög vel stíluð bók þar sem höfundur rekur eigin sögu í ljósi kynjafræði og leitast við að glöggva sig á ýmsum breyttum forsendum í samskiptum kynjanna.“ Ansi hnitmiðuð og vel samin umsögn, verð ég að segja.

Ég hef nú ekki litið á þessa bók mína beinlínis sem vísindarit þó að ég hafi nýtt ýmis fræði við samninguna. En ef hún telst vísindarit þá finnst mér fagnaðarefni að þau megi skrifa með þeim hætti sem ég geri, þ.e. með því að beita í bland aðferðum frásagnarlistarinnar við miðlun fræðanna.

En auðmjúkur tek ég við verðlaunum sem kennd eru við annan Vestfirðing og það mann sem lagði grunninn að svo mörgu. Reyndar var Ingibjörg kona Jóns líka á bak við sjóðinn og kannski hefði hún glaðst yfir skrifum mínum um kynin.

Við ringluðu karlarnir þökkum heiðurinn.

Hádegispallborð um Þú ringlaði karlmaður

Efnt verður til pallborðsumræðna um bókina mína, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu, í sal Þjóðminjasafnsins þriðjudaginn 12. nóvember kl. 12–13.

Þátttakendur verða Ásta Kristín Benediktsdóttir, Signý Sigurðardóttir, Sigurður Gylfi Magnússon og Sverrir Norland. Fimmti stóllinn verður svo ætlaður þátttakendum í sal sem vilja taka til máls um efni bókarinnar.

Bókin hefur vakið talsverða athygli og fengið lofsamlegar umsagnir gagnrýnenda sem almennra lesenda. „Markmið hans er tvímælalaust að stofna til sanngjarnrar og yfirvegaðrar umræðu sem byggist á þekkingu og skilningi, ekki sjálfshafningu og árásargirni,“ sagði Kristján Jóhann Jónsson, Morgunblaðinu. Fríða Björk Ingvarsdóttir bókmenntafræðingur sagði bókina gríðarlega merkilegt innlegg í jafnréttis- og kynjaumræðuna. Þá er mikið talað um hugrekki og einlægni í tengslum við þessa bók.

Öll velkomin. Aðgangur ókeypis.

Steinunn skrifar um ritmennsku

Eitt af okkar bestu og afkastamestu skáldum, Steinunn Sigurðardóttir, sendi nýlega frá sér bókina Skálds saga: 74 kaflar úr höfundarlífinu. Bókin höfðar sterkt til mín enda fjallar hún um það hvernig er og hefur verið að vera íslenskur rithöfundur. Þessa bók þurfa ritlistarnemar og aðrir verðandi og verandi höfundar að lesa, já og öll þau sem eru forvitin um ritmennsku.

Það er sérlega áhugavert að fá að heyra um tilurð bóka Steinunnar. Í leiðinni skýtur hún iðulega inn ljóðum og tilvitnunum í verk sín, nokkuð sem kemur að mínu mati mjög vel út. Þessi brot eru ævinlega afbragðsvel skrifuð og fyrir vikið langaði mig að lesa allt höfundarverk Steinunnar aftur.

Margt er skarplega athugað, svo sem það sem hún segir um sköpunarferlið og kannski ekki síst það sem hún segir um form og glímuna við það. Íslenskir höfundar eru ekki alltaf mikið að spá í form og byggingu. Steinunn lýsir því vel hvað maður getur þurft að sýna mikla þolinmæði til að fá sögu til að smella í form sem hentar henni.

Mér finnst líka áhugavert að lesa um það hvernig Steinunn hefur lagt allt í sölurnar fyrir ritstörfin. Lagt á sig ómælda vinnu, þurft stundum að hokra við kröpp kjör og vondar aðstæður og mátt þola sálarkvalir af ýmsum toga. Það er nefnilega ekki alltaf tekið út með sitjandi sældinni að vera rithöfundur, jafnvel þó að manni hafi gengið vel, hlotið mörg verðlaun og bækur manns verið gefnar út tvist og bast.

Þarna eru margar pælingar um höfundarlífið og ritmennskuna sem ég gleypti í mig. Allan tímann er textinn sprelllifandi og oft óvæntur enda hefur Steinunn slíka stílfimi til að bera að hún gæti lýst kolamola á áhugaverðan og listrænan hátt. Enda vantar ekki gullkornin: „Ég er hvergi til nema á pappír.“ „Mér finnst að framúrskarandi texti hafi flutningsgetu.“ „Ég er aldrei þar sem ég er.“

Ég man ekki til þess að íslenskur höfundur hafi sent frá sér bók sem veitir jafn nána innsýn í sköpunarferli og höfundarlíf. Þessi bók er í raun einstakur vitnisburður um það hvað felst í því að vera íslenskur höfundur. Hér sést svart á hvítu hvað þarf að leggja á sig til að ná í fremstu röð.

 

Robin spjallar um minningabækur (memoir)

Robin Hemley, sem gegnir nú starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur um ritun minningabóka í Eddu 24. október kl. 16:30. Í spjalli sínu mun Robin fjalla um þær þrjár minningabækur sem hann hefur sent frá sér og hefðu allt eins getað verið skrifaðar (og voru það í vissum skilningi) af ólíkum manneskjum eða að minnsta kosti af ólíkum útgáfum af honum sjálfum.

Robin Hemley hefur skrifað fjölda bóka af ýmsu tagi, skáldsögur, smásögur, sannsögur og kennslubækur í ritlist. Hann hefur kennt ritlist í áratugi, nú síðast í New York. Í níu ár stýrði hann námi í sannsagnaskrifum við Iowa-háskóla og er stofnandi alþjóðlegu ráðstefnunnar NonfictioNOW sem var haldin við Háskóla Íslands árið 2017. Robin nam á sínum tíma við rithöfundasmiðjuna Iowa Writers Workshop og lauk doktorsprófi í ritlist frá New South Wales-háskóla í Sydney. Fyrir skrif sín hefur hann hlotið fjölda viðurkenninga.

Minningabækurnar þrjár sem Robin hyggst fjalla um eru Nola (1998), um eldri systur hans sem var greind með geðrof og lést af völdum of stórs lyfjaskammts,  Do-Over (2008) þar sem hann endurtekur ýmislegt sem honum fannst sér hafa mistekist í æsku, s.s. í leikskóla, í sumarbúðum og á skóladansleik, og Oblivion (2022) þar sem hann kemur sjálfum sér fyrir í eftirlífinu en er að öðru leyti trúr lífsreynslu sinni.

Fyrirlesturinn verður á ensku og fer fram í sal Eddu, húss íslenskra fræða, 24. október kl. 16:30. Öll velkomin.

Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu

Á dögunum kom út eftir mig ný bók, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Um er að ræða memóru (tilraun nemanda til að þýða enska hugtakið memoir) sem er ein tegund sannsögu.

Aðalpersónan í þessari sannsögu er ég sjálfur á ýmsum þroskastigum. Í kjölfar #metoo og eigin tilvistarglímu ákvað ég að takast á við kynjaumræðu samtímans. Úr varð þetta rit þar sem ég tefli nýjustu rannsóknum gegn aldagömlu tregðulögmáli í samfélaginu en þó kannski ekki síst í mér sjálfum.

Það má segja að ég geri hér upp karlmennskuhugmyndir mótunaráranna um leið og ég máta sjálfsmynd mína við þær áherslur sem nú eru efstar á baugi þegar kemur að karlmönnum, karlmennsku og samskiptum kynjanna.

Þetta er fyrsta bókin sem ég skrifa í sannsagnaformi en það felur í sér að tala í fyrstu persónu og nýta miðlunarleiðir frásagnarlistarinnar. Bókin útheimti mjög mikla rannsóknarvinnu en er þó fremur auðveld aflestrar (er mér sagt), þökk sé sannsagnaforminu.

Bókin er gefin út af Græna húsinu og fæst nú í öllum helstu bókabúðum.

Ræddi verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone

Í ár var mér boðið að kynna verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone sem fram fer árlega helgina eftir verslunarmannahelgina. Hún var nú haldin í 20.  sinn og sem fyrr var orkuboltinn Elfar Logi við stjórnvölinn.

Hátíðin stendur í þrjá daga og fara dagskráratriðin fram í samkomuhúsinu á Suðureyri. Þarna skapast ótrúlega góð stemmning enda er vel mætt á viðburðina. Í þetta sinn voru líka ýmsir hliðarviðburðir, s.s. tónleikar Mugisons. Oft eru valdir einleikir sem hafa vakið athygli syðra og núna var líka seilst til útlanda. Þarna var t.d. franskur trúður. Þá var eitt verk á pólsku (texti fylgdi).

Rithöfundum er yfirleitt boðið að kynna verk sín á hátíðinni og þetta árið vorum við í því hlutverki, ég, Ólína Þorvarðardóttir og Vestfjarðagoðið Eiríkur Örn Norðdahl. Við fengum hvert sína skáldastund.

Ég á 40 ára rithöfundarafmæli í ár og notaði tækifærið til þess að tala stuttlega um allar mínar frumsömdu bækur, Ekkert slor, Nautnastuld, Strandhögg, Ástfóstur, Í allri sinni nekt, Feigðarflan, Ást í meinum, Eftirbát og bókina sem er rétt ókomin úr prentun, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Útgangspunkturinn var að tala um það í þeim sem mér finnst merkilegt núna. Minn viðburður, eins og hinna höfundanna, var vel sóttur. Ég lét gestina sitja í hring eins og ég væri að kenna ritlist. Ekki var þó um kennslustund að ræða. Þetta tókst vel og nokkur umræða skapaðist.

 

Grein í indverska tímaritinu Pratik

Nýjasta hefti indverska tímaritsins Pratik: A Magaine of Contemporary Writing er helgað skrifum um borgir. Þar á ég grein sem ber heitið „When You Don't Live in the City You Live in“ og fjallar um það þegar maður fjarlægist á vissan hátt sína eigin borg, þ.e. þá borg sem ferðalangarnir sjá. Greinin hefst svona:

Excuse me, I‘m looking for the Phallological Museum, can you tell me where it is, I can‘t seem to find it?” asks a woman who looks to be in her late 30s. She smiles a bit tentatively, as if prepared for an unpredictable reaction. 

I suppose I might have looked a bit flustered if this hypothetical woman had approached me to ask such a question, not because the museum evokes mixed feelings in a lot of people, but rather because I don‘t have the slightest idea where this well-known tourist attraction is located in my hometown. That‘s not due to plain forgetfulness or dementia (I hope), rather to the fact that I have never visited the place, nor have I ever had plans to do so. Still, I have read a wonderful essay about it by an American friend of mine, A. Kendra Greene, who wrote a whole book about the most obscure museums all around my country, many of which I had never even heard of, let alone visited.“

Ég fer síðan út í umræðu um það hvað túrismi gerir borgum og hvernig hann getur breytt menningarlandslaginu:

„All this begs the question whether we, locals and visitors alike, can ever get direct access to the authentic, if it exists at all. The very act of presenting one’s culture, especially if it’s done in a language that is foreign to the speaker or the listener or both, has a tendency to modify the thing that is being presented.“

Er eitthvað til lengur sem má teljast ekta? Eru þessi skrif ekta?

Heftið má nálgast á Amazon.

Viðtal um ritlistarnámið

Í lok maí birtist í Morgunblaðinu viðtal við mig í tilefni af því að rúm fimmtán ár eru nú liðin frá því að nám í ritlist var gert að fullgildri námsgrein. Það var árið 2008. Þó að ekki sé lengra síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og námið skilað af sér mörgum frambærilegum höfundum.

„Ég held að það fari ekki á milli mála að fólk sem hefur komið héðan hefur auðgað íslenskt bókmenntalíf,“ segi ég m.a. í viðtalinu og get þess að verk sem ritlistarnemar hafi sent frá sér séu að nálgast þrjú hundruð. „Við erum að fá mikið af efni sem við hefðum líklega ekki fengið ella,“ segi ég þarna.

Ég var spurður hvort höfundar yrðu ekki teknir alvarlega ef þeir væru ekki með háskólagráðu í faginu og svaraði þessu til: „Sem prófessor í ritlist ætti ég ekki að segja það sem ég ætla að fara að segja. En mér finnst mikilvægt fyrir íslenskar bókmenntir að höfundar verði til eftir ýmsum leiðum. Það hentar ekki öllum að koma í nám í ritlist. Ég vil að höfundar komi úr öllum geirum mannlífsins, til dæmis vantar okkur fleiri höfunda úr hópi sjómanna. Og þó að mörgum nemendum hafi vegnað vel þá er námið engin trygging fyrir því að þeir verði góðir höfundar...Ég held samt að það hjálpi öllum að fara hérna í gegn, ég fer ekkert ofan af því. Ég þykist hafa nógu mikla reynslu til að vita hvað það verða miklar framfarir á námstímanum.“

Ár nýjunga í ritlistinni

Í ritlistarnáminu kenndi ýmissa grasa á árinu 2023. Nokkrar nýjar smiðjur voru kenndar á árinu, tileinkaðar bókmenntagreinum og sjönrum sem ekki hafa verið í boði hjá okkur áður. Má þar nefna smiðju um sjálfsævisögur, smiðju um samtal ritlistar og ljóðlistar (ekphrastic ljóðagerð), um persónulegar esseyjur, um ritun ritdóma og um hamfarir og vistkreppu. Þar að auki voru boðnar nokkrar örsmiðjur sem leiddar voru af erlendum kennurum.

Gregory Harris

Frá Touroháskóla í New York kom Helen Mitsios og kenndi smiðju um staði og ljóð, frá American University í París kom indverska ljóðskáldið Biswamit Dwibedy og kenndi áðurnefnda smiðju um samtal ritlistar og ljóðlistar og frá Harvardháskóla kom Gregory Harris og las með nemendum bækur um umhverfismál sem þau jafnframt skrifuðu umsagnir um. Okkur finnst mikilvægt að fá til liðs við okkur kennara frá erlendum rithöfundasmiðjum til þess að veita nýjum straumum inn í námið. Yfirleitt eru þetta stuttar smiðjur og þó að nemendur skrifi þar á ensku getur það haft óvænt áhrif á sköpunina eins og indversk-bandaríska skáldkonan Jhumpa Lahiri komst að þegar hún fór að skrifa á ítölsku en um það hefur hún skrifað bókina Translating Myself and Others. Oft gerist eitthvað óvænt í sköpunarferlinu þegar fólk reynir að orða hugsun sína á öðru máli en móðurmálinu og þýðir hana svo yfir á sitt mál. Meginreglan er auðvitað sú að nemendur skrifa á íslensku í náminu enda erum við hluti af námsbraut í íslensku.

Fyrsta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur vakti athygli.

Samstarfsmaður minn, Huldar Breiðfjörð, hefur verið greinarformaður frá síðustu áramótum og er það í fyrsta skipti sem þeirri formennsku er létt af mér síðan ég var ráðinn fyrir rúmum fimmtán árum. Ég gat því einbeitt mér að skrifum á fyrrihluta ársins þegar ég var í rannsóknaleyfi. Þar var unnið að ýmsum verkefnum sem flest eiga enn eftir að líta dagsins ljós. Ég tek svo aftur við greinarformennsku 1. júlí 2024.

Ritlistarnemar, núverandi og fyrrverandi, sendu frá sér á fjórða tug bóka á árinu 2023, ýmist sem höfundar eða þýðendur. Bækurnar raða sér í ýmsa flokka í Bókatíðindum og nálgunin er af ýmsu tagi. Á listanum eru skáldsögur sem vöktu talsverða athygli, þar eru barna- og ungmennabækur sem voru tilnefndar til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, þar eru furðusögur, þar eru ljóðabækur, sannsögur, smáprósasafn og sjálfshjálparbækur. Að ógleymdum ástarsögunum sem hið nýstofnaða Ástarsögufélag sendi frá sér rétt fyrir jól. Þar sem ég kenni aðallega sagnagerð, hvort sem um er að ræða sannar eða skáldaðar sögur, er ánægjulegt að fylgjast með árangri útskriftarnema okkar á því sviði. Það færist einnig í vöxt að okkar fólki þýði en ég hef einmitt staðið fyrir þýðinganámskeiðum öðru hverju.

Það eru vissulega blikur á lofti hjá bókaþjóðinni, lesskilningi virðist hraka og við verðum vör við að tök ungs fólks á íslensku máli eru ekki að batna. Enn fáum við þó nemendur sem hafa framúrskarandi tök á íslensku máli. Neikvæð umræða um tekjumódel rithöfunda í kjölfarið á innkomu Storytel hefur sjálfsagt ekki verið ungu fólki sérstök hvatning til að leggja ritstörf fyrir sig. Sagan sem slík mun þó ævinlega halda velli að mínu mati, bara spurning í hvaða miðla hún leitar. Við höfum séð aukinn áhuga á handritsgerð á undanförnum árum og svarað honum með auknu framboði námskeiða í slíkum skrifum.

Flest árin hafa konur verið í miklum meirihluta í ritlistarnáminu, að jafnaði um tveir þriðju. Þetta endurspeglast í þeim bókum sem okkar fólk sendi frá sér á árinu, þar eru bækur sem konurnar koma að um þrisvar sinnum fleiri. Námið okkar hefur því stuðlað að því að fjölga kvenkyns höfundum og jafna hlutföllin. Í hausthefti Skírnis má einmitt sjá tölulega úttekt á íslenskum bókamarkaði þar sem fram kemur að kynjahlutföllin eru orðin nokkurn veginn jöfn þegar miðað er við fjölda útgefinna bóka. Konur eru víða í forystu í bókabransanum nú um stundir og breyttar áherslur fara ekki á milli mála. Það skekkir líka bókaheiminn að karlar virðast vera miklir eftirbátar kvenna þegar að lestri og bókakaupum kemur. Það mun hafa sínar afleiðingar á næstu árum og verður trúlega til þess að fjölga enn útgefnum bókum eftir konur. Almennt séð finnst mér vera meiri gerjun og framsókn í verkum kvenna en í verkum karlanna.

Að svo mæltu þakka ég öllum ritlistarnemum samstarfið á árinu sem er að líða og hlakka til samstarfsins á komandi ári. Megi ritlistin lifa enn um ókomin ár og íslensk tunga.