Tíu útskrifast með MA-próf í ritlist

Hinn 25. júní útskrifuðust tíu höfundar með meistarapróf í ritlist og hafa aldrei fleiri útskrifast í einu. Hér verða þau kynnt stuttlega.

13346667_10153454002032130_8400487545159271510_nDísa Bjarnadóttir. Lokaverkefni hennar, sem hún vann undir minni handleiðslu, heitir Ótemja og er sannsaga um geðhvörf. Dísa átti efni í Jólabók Blekfjelagsins 2014 og vann keppni um bestu 100 orða örsöguna í Stúdentablaðinu sama ár. Hún birti einnig greinar í ferðablöðum á námstímanum.

HeidarSumarlidasonHeiðar Sumarliðason. Lokaverkefni hans var leikritið (90)210 Garðabær sem hann vann undir leiðsögn Bjarna Jónssonar og var sett upp í Þjóðleikhúsinu af leikfélaginu Geirfugli árið 2015. Heiðar leikstýrði sjálfur og hlaut verkið ágætar viðtökur gagnrýnenda.

Johanna MariaJóhanna María Einarsdóttir. Meistaraverkefni hennar, Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar, póstmódernískt skáldverk, vann hún undir handleiðslu Hermanns Stefánssonar rithöfundar. Jóhanna María var meðhöfundur að bókinni Tímaskekkjur sem kom út í maí. Bókmenntatímaritið Stína birti sögu eftir hana í vorhefti sínu 2016, „Endurtekin sæla“ heitir hún. Á vefsíðunni Sirkustjaldið birtust eftir hana tvö ljóð og bókmenntaleg hugleiðing um leikritið Dúkkuleikhúsið. Jóhanna María kom að gerð listrænna útvarpsþátta vorið 2015, Grimmdarverk, í samvinnu við Trausta Ólafsson, fyrrverandi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar og fleiri höfunda. Fjalla þættirnir um franska skáldið og leikhúsfræðinginn Antonin Artaud og voru þættirnir fluttir á Rás 1. Hún átti einnig texta í jólabókum Blekfjelagsins árin 2014 og 15.

JohannesOlafssonJóhannes Ólafsson. Lokaverkefni hans var þýðing á verkinu Fear and Loathing in Las Vegas eftir Hunter S. Thompson, unnið undir handleiðslu Jóns Karls Helgasonar. Heitir verkið Uggur og andstyggð í Las Vegas í þýðingu hans. Jóhannes birti örsögur í Jólabók Blekfjelagsins 2014 og 2015. Hann á einnig efni í safnriti ritlistarnema, Tímaskekkjur, sem kom út 2016. Á næstu dögum er svo væntanlegt eftir hann kver með örsögu, Lífsýni, sem bókaforlagið Rasspotín gefur út í 66 eintökum, handsaumuðum.

KRG-utskriftKristín Ragna Gunnarsdóttir. Lokaverkefni hennar heitir Glópagull og galdraskruddur, sem er ætlað ungum lesendum og var unnið undir handleiðslu Ármanns Jakobssonar. Hún fékk Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2015 og listamannalaun í 9 mánuði til að fullvinna bókina. Kristín Ragna birti örsöguna „Gjöf frá Vigdísi“ í Jólabók Blekfjelagsins 2015. Hún fékk ennfremur Vorvindaviðurkenningu IBBY 2015 fyrir framlag sitt til barnamenningar.

Loa-Hlin-HjalmtysdottirLóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Lokaverkefni sitt, Heim og Húðlaus, ljóð og smásögur, vann hún annars vegar undir handleiðslu Haraldar Jónssonar og hins vegar hjá Auði Jónsdóttur. Á námstímanum birti hún tvær teiknimyndabækur, Lóaboratoríum, sem hún var tilnefnd til Fjöruverðlauna og Menningarverðlauna DV fyrir, og Lóaboratoríum – Nýjar rannsóknir. Þá átti Lóa Hlín örsögu í Jólabók Blekfjelagsins 2013 og 2014 sem og í safnriti ritlistarnema, Uppskriftabók.

OlafurSteinnÓlafur Steinn Ingunnarson. Lokaverkefni hans var smásagnasafnið För sem hann vann undir handleiðslu minni. Hann birti sögur í Jólabók Blekfjelagsins síðustu þrjú ár og skrifaði útvarpsleikrit í tengslum við þátt Trausta Ólafssonar um Artaud, leikstýrði því sjálfur enda líka lærður leikari.

 

RagnarHelgi_02Ragnar Helgi Ólafsson. Lokaverkefni hans, sem hann vann með Sigurði Pálssyni, var í formi tveggja ljóðabóka. Önnur heitir Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: lög og textar, og fyrir hann hreppti hann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2015, hin heitir Heimsálfur, Vínarljóð, aríur og apókrýfur: ljóð og textar. Tunglið forlag birti sögu hans Bréf frá Bútan árið 2013 og hún kom einnig út á þýsku árið 2015. Í tímaritaröðinni 1005 kom einnig út smásagnasafn hans Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur. Þá birti hann smásögur, ljóð og ljóðaþýðingar í tímaritum bæði hér heima og erlendis á námstímanum.

ÞorFjalarÞór Fjalar Hallgrímsson. Lokaverkefni hans var tvískipt, annars vegar vísindasmásagan „Huldutungl“, sem hann vann með Alexander Dan Vilhjálmssyni, og hins vegar sannsagan „Meðferðarsaga“ sem hann vann hjá mér. Þór Fjalar birti söguna „Strand“ í Uppskriftabók, safnriti ritlistarnema 2015, örsögu í Jólabók Blekfjelagsins 2013 og fyrir söguna „Skipti“ fékk hann þriðju verðlaun í smásagnasamkeppni Stúdentablaðsins 2013.

ÞóraBjörkÞórðardóttir

Þóra Björk Þórðardóttir. Lokaverkefni hennar var skáldsagan Söngfuglinn sem missti röddina og var ég leiðbeinandi hennar. Hún átti efni í safnriti ritlistarnema, Tímaskekkjur, sem kom út í maí 2016, auk þess sem hún birti örsögur í jólabókum Blekfjelagsins árin 2014 og 2015.

Ég þakka þessum ágætu höfundum fyrir samstarfið og hvet bókmenntaáhugafólk til að fylgjast vel með þeim á næstu árum.

Alþjóðleg ráðstefna um óskálduð skrif haldin í Reykjavík 2017

Alþjóðlega ritlistarráðstefnan NonfictioNOW verður haldin í Reykjavík 2.–4. júní 2017. Eins og heiti hennar gefur til kynna er hún helguð óskálduðu efni af ýmsu tagi. Um er að ræða eina stærstu ráðstefnu sinnar tegundar í heiminum en síðast þegar hún var haldin, í Flagstaff í Arizona, sóttu hana yfir 500 manns. Sambærilegur bókmenntaviðburður hefur ekki verið haldinn áður á Íslandi og því er mikill Logo Reykjavik 2017fengur að ráðstefnunni fyrir íslenskt bókmennta-samfélag. Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands en boðsfyrirlestrar verða í Hörpu og gefst öðrum en skráðum ráðstefnugestum kostur á að sækja þá gegn vægu gjaldi.

Að jafnaði sækja ráðstefnuna 400–500 manns hvaðanæva úr heiminum, höfundar, kennarar og stúdentar. Í málstofum eru tekin til umræðu hin mýmörgu form óskáldaðra skrifa, frá vídeóesseyjum til minningabóka og bókmenntalegrar blaðamennsku. Boðsfyrirlesarar eru þekktir höfundar úr þessum geira og meðal þeirra sem talað hafa á fyrri ráðstefnum má nefna Cheryl Strayed, Helen Garner, David Shields, Richard Rodriguez, Patricia Hampl, Phillip Lopate, Alison Bechdel, Rebecca Solnit og John Edgar Wideman.

Á ráðstefnunni í Reykjavík er gert ráð fyrir einum íslenskum boðsfyrirlesara og þremur erlendum. Búast má við 70–80 málstofum og viðburðum í tengslum við ráðstefnuna. Kallað verður eftir innslögum síðar á þessu ári og gefst þá íslenskum höfundum og fræðimönnum kostur á að senda inn tillögur að málstofum. Gert er ráð fyrir sérstökum málstofum um íslenskar bókmenntir úr þessum geira.

Heimasíða hefur verið sett upp fyrir ráðstefnuna í Reykjavík: http://www.nonfictionow.org/

Einnig má finna hóp á Facebook sem helgaður er ráðstefnunni: Friends of NonfictioNOW.

Stjórn ráðstefnunnar er skipuð rithöfundum og ritlistarkennurum frá Ástralíu, Íslandi, Singapore og Bandaríkjunum. Í henni sitja: Robin Hemley, stofnandi og forseti, David Carlin, varaforseti, Nicole Walker, varaforseti, Rúnar Helgi Vignisson, Alison Barker, Patrick Madden, Stacy Anne Murison, Elena Passarello og Heidi Stalla.

Ráðstefnan verður haldin á vegum Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Í íslensku ráðstefnustjórninni sitja Ásdís Sigmundsdóttir, aðjunkt í bókmenntafræði (ags@hi.is), Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði (gautikri@hi.is), og Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist (rhv@hi.is). Þeim til halds og trausts verður Margrét Guðmundsdóttir (mgu@hi.is), verkefnastjóri hjá Hugvísindastofnun.

Vinnustofa með nemendum og kennurum Forfatterskolen

Screen Shot 2016-04-24 at 13.11.14

Eins og ritlistarnemar við HÍ gefa nemendur Forfatterskólans út útskriftarrit árlega.

Forfatterskolen í Kaupmannahöfn, einn þekktasti ritlistarskóli á Norðurlöndum, er nú í heimsókn á Íslandi. Með í för eru allir nemendur skólans og þrír kennarar, alls fimmtán manns. Tilgangurinn með heimsókninni er að kynnast íslenskum bókmenntum og menningu. Í þeim tilgangi hitta þau íslenska höfunda, taka þátt í viðburðum tengdum bókmenntum og ferðast um landið. Þau mættu til dæmis dæmis á útgáfukvöld Tunglsins 22. apríl.

Fyrr um daginn var efnt til sameiginlegrar vinnustofu með ritlistarnemum við HÍ og nemendum Forfatterskolen. Þema vinnustofunnar var sameiginleg saga Íslands og Danmerkur og sem kveikju notuðum við ávarp sem Halldór Laxness flutti þegar hann fékk Sonningverðlaunin við Hafnarháskóla árið 1969. Ótrúlega nútímalegt ávarp sem segir margt um sameiginlega sögu þessara landa, ekki síst á sviði menntunar og ritlistar. Rætt var um þessi mál í rúman klukkutíma. Síðan lásum við saman verk eftir tvo nemendur frá hvorum skóla, verk sem höfðu verið þýdd eða frumsamin á ensku. Þetta gekk ótrúlega vel og tóku nemendur beggja skóla virkan þátt í umræðum.

Fimmtudaginn 28. apríl klukkan 17 munu þessir hópar leiða saman hesta sína á ný. Þá verður efnt til upplestrar á Stofunni að Vesturgötu 3. Þá er meiningin að fimm nemar úr hvorum skóla lesi upp stutta texta á ensku auk þess sem Kristín Ómarsdóttir og ónefnt danskt skáld munu einnig koma fram.

Það er mikils virði fyrir ritlistarnámið hér á Íslandi að geta átt í samskiptum við nemendur og höfunda frá öðrum löndum og á það hef ég lagt talsverða áherslu í mínu starfi. Í þeim tilgangi heimsótti ég einmitt Forfatterskolen fyrir nokkrum árum og þá kviknaði þessi hugmynd að þau kæmu til Íslands en þau fara utan árlega til þess að víkka sjóndeildarhring nemenda sinna.

Verk Jónasar Reynis sýnt í Nemendaleikhúsinu

Screen Shot 2016-04-24 at 12.14.07Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands auglýsti í fyrravor eftir leikverkum handa útskriftarnemum sínum 2016 og var verk eftir hinn nýútskrifaða ritlistarnema Jónas Reyni Gunnarsson valið til sýninga. Verkið fékk heitið Við deyjum á Mars og var frumsýnt 22. apríl síðastliðinn. Það verður sýnt á hverju kvöldi til og með 3. maí. Miða má panta í gegnum netfangið midisvidslist@lhi.is.

Útskriftarefni eru: Aldís Amah Hamilton, Alexander Erlendsson, Birna Rún Eiríksdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Íris Tanja Flygenring, María Dögg Nelsson, María Thelma Smáradóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Snæfríður Ingvarsdóttir. Gestaleikkona í myndbandi er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Leikstjóri er Stefán Jónsson, fagstjóri leikarabrautar. Tónlist og hljóðmynd er á vegum Árna Rúnars Hlöðverssonar. Leikmynd, búninga og leikmuni sér Aron Bergmann Magnússon um. Leikmyndarsmiður er Egill Ingibergsson.
Handritsráðgjöf veittu Óskar Jónasson, Margrét Örnólfsdóttir.

Að koma verkum sínum á framfæri í Ameríku

Kevin LarimerFimmtudaginn 14. apríl flutti Kevin Larimer hádegiserindi í Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um mismunandi leiðir að útgáfu bókmenntatexta. Kevin er aðalritstjóri Poets & Writers, stærstu samtaka í Bandaríkjunum sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, sem þjónusta ljóðskáld og aðra höfunda bókmenntatexta.

Kevin spjallaði um ýmsar brautir sem höfundar geta fetað á leið sinni að útgáfu, allt frá bókmenntatímaritum, ritlistarsamkeppnum til umboðsmanna og útgefenda. Hann ræddi einnig um álagið sem fylgir þessu ferli og því að koma sér á framfæri og stuðninginn sem finna má í ritlistarsamfélögum, svo sem ritlistarnámi, ritsmiðjum og öðrum bókmenntasamfélögum. Að lokum gaf hann íslenskum höfundum nokkur ráð um hvernig ætti að koma þýðingum á íslenskum verkum á framfæri hjá tímaritum og útgáfuhúsum í Bandaríkjunum.

Að erindinu stóðu Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Iceland Writers Retreat í samvinnu við námsbraut í ritlist við Háskóla Íslands.

Umsóknarfrestur um meistaranám í ritlist að renna út

Uppskriftabok2015 kapa

Árlega gefa ritlistarnemar út safnrit. Hér er bókin frá því í fyrra.

Umsóknarfrestur um meistaranám í ritlist rennur út 15. apríl. Umsóknum þurfa að fylgja ritsýni sem gefi góða mynd af umsækjanda sem höfundi. Þau mega vera ljóð, smásögur, brot úr leikþætti, sannsaga eða hvaðeina sem umsækjandi telur lýsa sér; hámark 30 síður. Útgefnir höfundar sem óútgefnir eru velkomnir. Rétt er að hvetja umsækjendur til að vanda frágang.

Þriggja manna inntökunefnd, skipuð umsjónarmanni námsins og tveimur fulltrúm sem Rithöfundasamband Íslands tilnefnir, velur síðan úr innsendum umsóknum. Niðurstöður ættu að liggja fyrir upp úr miðjum maí.

Ritlist hefur verið kennd á meistarastigi frá 2011 og alls hafa hátt í hundrað manns stundað námið á þeim tíma. Á hverju ári eru teknir inn um 20 nýnemar. Útskriftarnemar okkar hafa gefið út fjölda bóka á undanförnum árum og unnið til eða verið tilnefndir til allra helstu bókmenntaverðlauna landsins.

 

Ólafur Gunnarsson ræðir um Öxina og jörðina

hvernigverdurboktil18022016Ólafur Gunnarsson flytur fyrirlestur í röðinni „Hvernig verður bók til?“ fimmtudaginn 18. febrúar kl. 12-13 í 101 Odda. Ólafur er einn af kunnustu höfundum landsins. Hann er höfundur fjölmargra skáldsagna og hafa sumar þeirra notið mikilla vinsælda. Sú fyrsta, Milljón prósent menn, kom út árið 1978. Skáldsagan Tröllakirkja var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1992 og ensk þýðing hennar til IMPAC Dublin verðlaunanna.

Öxin og jörðin fjallar um siðaskiptin á Íslandi og átökin sem af þeim hlutust. Þar eru Jón Arason og synir hans í stórum hlutverkum. Bókin hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003. Ólafur mun ræða um tilurð bókarinnar og verður pottþétt spurður út í það hvaða heimildir hann hafi fyrir þeim miklu átökum og blóðsúthellingum sem urðu í tengslum við þessa geistlegu breytingu.

Þess má geta að Ólafur er 25. höfundurinn sem tekur til máls í fyrirlestraröðinni frá því að henni var hleypt af stokkunum árið 2009.

Ellefu viðurkenningar í hús á einum eftirmiðdegi

Skáld sem hafa gráðu í ritlist, eru í námi í ritlist eða hafa lokið stökum ritlistarnámskeiðum gerðu garðinn frægan í kvöld. Samtals komu í hús 11 viðurkenningar til 10 einstaklinga sem tengjast ritlist á þeim tveimur verðlaunahátíðum sem haldnar voru síðdegis.

fjaran 2015

Þær fengu Fjöruverðlaunin: Þórunn Sigurðardóttir, Hildur Knútsdóttir og Halldóra K. Thoroddsen.

Hildur Knútsdóttir, sem hefur BA-gráðu í ritlist, hreppti í dag Fjöruverðlaunin fyrir ungmennabókina Vetrarfrí sem JPV gaf út. Í umsögn dómnefndar segir:

Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum,“ segir í umsögn dómnefndar, og ennfremur: „Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.“

Á sama tíma var Ljóðstafur Jóns úr Vör afhentur í Salnum í Kópavogi en hann er alla jafna afhentur 21. janúar, á fæðingardegi skáldsins sem stafurinn er kenndur við. Alls eru veittar 10 viðurkenningar og vill svo til að allir sem fengu viðurkenningu hafa einhver tengsl við ritlistarnámið við Háskóla Íslands. Sjö þeirra eru með meistarapróf í ritlist, ein enn í námi og hinir tveir tóku stök ritlistarnámskeið í grunnnámi.

Fyrstu verðlaun hlaut Dagur Hjartarson fyrir ljóðið „Haustlægð“:

Haust­lægð 

haust­lægðin kem­ur að nóttu
og merk­ir tréð í garðinum okk­ar

með svört­um plast­poka
eins og til að rata aft­ur

og hún rat­ar aft­ur
aðra nótt
öskr­ar eitt­hvað sem eng­inn skil­ur
fleyg­ir á land þangi og þara
og fleiri vængjuðum mar­tröðum
úr iðrum Atlants­hafs­ins

morg­un­inn eft­ir er fjöru­borðið gljá­andi svart
eins og ein­hver hafi reynt að mal­bika leiðina
niður í und­ir­djúp­in

og það er þess vegna sem haust­lægðin kem­ur
utan af haf­inu
hún er rödd þeirra
sem týndu orðaforðanum í öldu­gangi

við horf­um á nýmal­bikaðan veg­inn
og bíðum eft­ir að þeir gangi á land

 

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

„Þetta er ljóð sem dregur upp nýstárlega mynd af alkunnu og einkar óskáldlegu veðurfyrirbæri, haustlægð. Ljóðið hefst með lýsingu á því hvernig getur verið umhorfs í görðum og úti við strönd dagana eftir fyrstu næturheimsóknir haustlægðarinnar. Flest er kunnuglegt í byrjun en þegar líður á ljóðið virðist haustlægðin vera annað og meira en auðskiljanlegt veðurfyrirbæri. Hún kann að vitna um einhverja togstreitu manns og náttúru en um leið er hún kannski af öðrum heimi og ef til vill tengist hún undirdjúpum sálarlífsins. Það er bæði ógn og eftirvænting í loftinu. Enginn veit hvað þessi haustlægð færir með sér. Í ljóðinu birtast okkur áleitnar myndir sem vekja spurningar um líf og dauða en veita engin einföld svör.“

 

Önnur verðlaun hreppti Hrafnhildur Þórhallsdóttir fyrir ljóðið „Þrá“ og í þriðja sæti varð Sigurlín Bjarney Gísladóttir með ljóð sitt „Arfur“. Auk verðlauna fyrir fyrstu þrjú sætin voru veittar sjö viðurkenningar. Þær hlutu:

Jonurvor_2016_6

Þarna er Dagur með ljóðstafinn ásamt þeim hinum sem fengu líka viðurkenningu. Sigurður Pálsson og undirritaður fengu að vera með á myndinni. Á myndina vantar Kára og Arndísi.

Arndís Þórarinsdóttir

Dagur Hjartarson

Jón Örn Loðmfjörð

Jónas Reynir Gunnarsson

Kári Tulinius

Kristinn Árnason

Soffía Bjarnadóttir

Þar sem enginn fékk Ljóðstafinn í fyrra var verðlaunfé tvöfaldað að þessu sinni og nam einni milljón króna sem skiptist þannig að 600.000 kr. voru veittar fyrir fyrsta sætið, 300.000 kr. fyrir annað sæti og 100.000 kr. fyrir þriðja sætið. Vel að verki staðið hjá Kópavogsbæ sem efnir til ljóðahátíðar í bænum í tengslum við Ljóðstafinn.

Í dómnefnd voru Anton Helgi Jónsson skáld, Ásdís Óladóttir skáld og Bjarni Bjarnason rithöfundur.

Átta úr ritlist fá úthlutun úr Launasjóði rithöfunda

Átta manns sem ýmist eru í ritlistarnámi hjá okkur við Háskóla Íslands eða hafa lokið því fengu úthlutun úr Launasjóði rithöfunda í ár. Þetta eru langhæstu tölur sem við höfum séð hingað til og mesti mánaðafjöldi.

1073748_561008977288547_243432127_o

Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Bryndís Björgvinsdóttir fékk níu mánuði.

Hildur Knútsdóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Soffía Bjarnadóttir fengu sex mánuði.

Halla Margrét Jóhannesdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Sverrir Norland fengu þrjá mánuði.

Þessar úthlutanir skipta miklu máli fyrir viðkomandi og ekki síður fyrir alla hina sem tengjast náminu, þær eru hvatning til að sækja fram og umfram allt stuðla þær að því að höfundarnir geti helgað sig ritstörfum í meira mæli. Ég óska þeim öllum til hamingju og hlakka til að fá að sjá afraksturinn. Þau úr okkar hópi sem fóru bónleið til búðar hvet ég til að láta ekki deigan síga, heldur halda áfram að vinna í handritum sínum og sækja um aftur.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson og Þórey Mjallhvít H Ómarsdóttir fengu auk þess þriggja mánaða úthlutun úr Launasjóði Myndlistarmanna. Leikhópurinn Soðið svið, en í honum er útskrifaður ritlistarnemi, Harpa Arnardóttir, fékk 17 mánuði úr Launasjóði sviðslistafólks, Harpa fær auk þess þriggja mánaða úthlutun sem einstaklingur til að skrifa leikverk. Kriðpleir, en í þeim hópi er ritlistarneminn Friðgeir Einarsson, fékk 13 mánaða úthlutun og hin útskrifaða Halla Þórlaug Óskarsdóttir er einnig í sviðslistahópi sem fær 11 mánaða úthlutun, þar af fær Halla Þórlaug þrjá mánuði til handritsgerðar.

Þess má ennfremur geta að í gær fékk ritlistarneminn Heiðar Sumarliðason styrk úr Leiklistarsjóði Þorsteins Ö. Stephensen hjá RÚV til að vinna að útvarpsleikriti. Honum er einnig óskað til hamingju.

Ritlistarannáll 2015

Ritlistarnemar hafa látið hendur standa fram úr ermum á árinu, engin ritstífla hjá þeim enda er hér unnið á þeim forsendum að fóðra þurfi vitundina og halda sig að verki til að ritstörf gangi vel. Mörg perlan hefur litið dagsins ljós og ritlistarnemar, núverandi og útskrifaðir, hafa margir hverjir komið verkum sínum á framfæri, hlotið jafnvel viðurkenningu fyrir.

Mikil aðsókn er enn að meistaranámi í ritlist og var einungis unnt að taka inn rúman þriðjung umsækjenda að þessu sinni. Sérstök inntökunefnd, sem í sitja undirritaður og tveir höfundar sem tilnefndir eru árlega af Rithöfundasambandi Íslands, velur inn í námið á grundvelli innsends efnis. Margar góðar umsóknir bárust og eru þau sem ekki komust að hvött til að reyna aftur í vor.

Hér á eftir verður stiklað á stóru í starfinu á árinu sem nú er að líða.

 

Níu luku meistaraprófi

Í febrúar útskrifuðust Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir með meistaragráðu í ritlist. Í júní úrskrifuðust sex: Dísa Sigurðardóttir, Inga Mekkin Guðmundsdóttir Beck, Ingibjörg Magnadóttir, Jónas Reynir Gunnarsson, Júlía Margrét Einarsdóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.

10270672_10152414346240575_3038638267280298342_n

Helga Ágústsdóttir

Í október útskrifaðist Helga Ágústsdóttir og hún er sú eina sem ég hef ekki getið um áður á þessari síðu. Helga skrifaði lokaverkefni í formi handrits að barnabók hjá Ármanni Jakobssyni. Á námstímanum birti hún efni í safnritum ritlistarnema, Flæðarmáli og Jólabókum Blekfjelagsins sem er nemendafélag ritlistarnema.

Öllum er þeim óskað til hamingju með áfangann. Tvær hinna útskrifuðu hafa þegar gefið út bækur byggðar á lokaverkefnum sínum og ég þykist vita að fleiri séu á leiðinni.

 

Útgáfa og uppfærslur

Útgefin og flutt verk fylla nú sex tugi frá því að ritlist var gerð að fullgildri námsgrein við HÍ árið 2008. Þá er ekki getið ýmissa smærri verka sem hafa komið út í tímaritum, s.s. Tímariti Máls og menningar og Stínu. Mér telst til að eftirfarandi bók- og leikverk hafi verið birt á árinu:

Beinhvít skurn, ljóðabók eftir Soffíu Bjarnadóttur.

Ormstunga, ungmennabók sem ritlistarneminn Kjartan Yngvi Björnsson skrifaði í félagi við Snæbjörn Brynjarsson.

Mörk – saga mömmu eftir Þóru Karítas Árnadóttur.

Uppskriftabók, sýnisrit með efni eftir tíu ritlistarnema, þau Eygló Jónsdóttur, Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur, Halla Civelek, Kristin Árnason, Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur, Margréti Bjarnadóttur, Skúla Jónsson, Steinunni Lilju Emilsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur og Þór Fjalar Hallgrímsson.

12309668_927046274037908_6354886388170360381_oHimnaljós, smásagnasafn eftir Áslaugu Björt Guðmundardóttur.

Vetrarfrí, ungmennabók eftir Hildi Knútsdóttur.

Jarðvist, skáldsaga eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur.

Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984, smásögur eftir Ragnar Helga Ólafsson.

Draugaljósið, auðlesin sögubók, eftir Hildi Knútsdóttur.

Bryndís Björgvinsdóttir var einn af þremur höfundum bókarinnar Leitin að tilgangi unglingsins.

Ljóðaúrvalið Eilífðir eftir Kristian Guttesen.

Ljóðabókin Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum eftir Ragnar Helga Ólafsson.

Lóaboratoríum - Nýjar rannsóknir eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.

Hvörf, ljóðabók eftir Dísu Sigurðardóttur.

Ljóðabókin Ég erfði dimman skóg eftir sjö útskrifaðar skáldkonur, þær Guðrúnu Ingu Ragnarsdóttur, Höllu Margréti Jóhannesdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur, Hrafnhildi Þórhallsdóttur, Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Soffíu Bjarnadóttur og Æsu Strand Viðarsdóttur.

Einleikurinn Þú kemst þinn veg eftir Finnboga Þorkel Jónsson sem höfundur lék í.

(90)210 Garðabær eftir Heiðar Sumarliðason, höfundur leikstýrði.

Júlía Margrét Einarsdóttir vann leikgerð að sýningunni Skálmöld ásamt Einari Kárasyni og kom fram í sýningunni.

Hvít mýkt, Svarthol, smásagnakver eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur.

Þau stara á mig, smásagnakver eftir Jónas Reyni Gunnarsson.

Jólabók Blekfjelagsins 2015, 31 örsaga eftir 31 höfund.

 

Viðurkenningar

Bryndís Björgvinsdóttir hreppti þrenn verðlaun fyrir ungmennabókina Hafnfirðingabrandarinn, sem byggð er á meistaraverkefni hennar – Íslensku bókmenntaverðlaunin, Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin.

Ragnar Helgi

Ragnar Helgi

Á haustdögum var tilkynnt að Ragnar Helgi Ólafsson hefði fengið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum.

Hildur Knútsdóttir var tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna fyrir ungmennabókina Vetrarfrí.

Þóra Karítas Árnadóttir var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna fyrir Mörk – sögu mömmu.

Æsa Strand Viðarsdóttir var tilnefnd til Dundee International Book Prize fyrir handrit að skáldsögu, A Life out of Key.

Ingibjörg Magnadóttir var tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir útvarpsleikritið Rökrásin. Annar útskrifaður ritlistarnemi, Harpa Árnadóttir, leikstýrði.

Blaðamenn með ritlistargráðu hirtu tvenn verðlaun á uppskeruhátíð blaðamanna í febrúar. Jón Bjarki Magnússon var útnefndur blaðamaður ársins og Ólöf Skaftadóttir hlaut verðlaun fyrir besta viðtalið árið 2014.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir bókina Lóaboratoríum.

Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands auglýsti í vor eftir leikverkum handa útskriftarnemum sínum 2016 og var verk eftir hinn nýútskrifaða ritlistarnema Jónas Reyni Gunnarsson valið til sýninga.

Eyþór Gylfason hlaut fyrstu verðlaun í textasamkepninni Ungskáld sem efnt var til á Akureyri. Vinningssaga hans heitir „Lést samstundis“.

Lárus Jón Guðmundsson hreppti þriðju verðlaun í ritlistarsamkeppni Stúdentablaðsins fyrir ljóðin „Tígur I, II og III“ en þar eru sömu orðin nýtt til að yrkja þrjú mismunandi ljóð.

Ásdís Ingólfsdóttir hlaut styrk úr Menningar og minningarsjóði kvenna fyrir verkefnið Af konum.

Þrír ritlistarnemar fengu Nýræktarstyrki á árinu, þau Áslaug Björt Guðmundardóttir fyrir smásagnasafnið Himnaljós, Kristín Ragna Gunnarsdóttir fyrir barnabókina Glópagull og galdraskruddur og Júlía Margrét Einarsdóttir fyrir skáldsöguna Sirkús.

 

Tvö verk komu út erlendis

LaSolutionEsquimauAWÁ árinu komu út fyrstu verk ritlistarnema á öðrum tungumálum:

Skáldsaga Soffíu Bjarnadóttur, Segulskekkja, kom út hjá franska forlaginu Zulma undir heitinu J’ai toujours ton cœur avec moi.

Tunglbók Ragnars Helga Ólafssonar, Bréf frá Bútan, kom út í Sviss undir heitinu Briefe aus Bhutan.

 

 

Fyrirlestrar, heimsóknir, samstarfsverkefni

Eins og mörg undanfarin ár stóð ritlistin í samstarfi við Bókmennta- og listfræðastofnun HÍ að fyrirlestraröðinni „Hvernig verðu bók til?“ þar sem höfundar fjalla um tilurð verka sinna. Þrír góðir gestir komu í heimsókn á árinu: Ófeigur Sigurðsson ræddi um Öræfi, Bryndís Björgvinsdóttir um Hafnfirðingabrandarann og Vilborg Davíðsdóttir um bækurnar Ástin, drekinn og dauðinn og Auður. Fyrirlestrarnir voru gjörólíkir en þóttu takast vel og voru vel sóttir. Bryndís er fyrsti ritlistarneminn sem stígur á stokk í fyrirlestraröðinni.

mary-pinkoski

Mary Pinkoski

Þá kom kanadíska skáldkonan Mary Pinkoski, borgarlistamaður Edmonton í Kanada, í heimsókn og flutti fyrir okkur ljóð blaðalaust. Hún las þau ekki heldur fór með þau á áhrifaríkan hátt.

Ritlistarnemar voru duglegir að koma fram og lesa upp úr verkum sínum, m.a. í Hörpu á Menningarnótt. Einnig efndu þeir til margra útgáfuteita, s.s. þegar Uppskriftabók kom út.

Þá var efnt til samstarfsverkefna með Listaháskólanum þar sem ritlistarnemar tóku þátt í að semja og setja upp örleikrit ásamt leikaranemum. Einnig bjuggu þau til útvarpsþætti fyrir Útvarpsleikhúsið. Var þar um að ræða stuttleikrit og fleira sem tengist leikritaskáldinu Antonin Artaud. Þættirnir verða fluttir bráðlega á Rás 1. Við efndum einnig til sameiginlegrar smiðju með myndlistardeild LHÍ þar sem þess var freistað að samþætta mál og mynd. Ritlistarnemar tóku ennfremur þátt í Iceland Writers Retreat, vinnustofu sem nú er haldin árlega hér á landi og er einkum ætluð útlendum höfundum.

 

Starf Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Hugvísindasvið Háskóla Íslands stofnaði í ársbyrjun til starfs sem kennt er við Jónas Hallgrímsson, eitt ástsælasta ljóðskáld Íslendinga fyrr og síðar. Starfið er ætlað rithöfundum sem taka að sér að vinna með nemum í ritlist eitt eða tvö misseri í senn. Tilgangurinn með stöðunni er að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar og að efla ritlistarnám við Háskóla Íslands.

SigurdurPalssonminniFyrstur til að gegna stöðunni var Sigurður Pálsson sem kennt hefur ljóðagerð hjá okkur í mörg ár og uppskorið miklar vinsældir og væntumþykju nemenda. Sigurður hefur verið afar dýrmætur kennari og framlag hans til námsins ómetanlegt.

Tilkynnt verður um næsta Jónasarkennara eftir áramótin.

 

Föstu liðirnir

Á árinu keyrðum við að sjálfsögðu ritsmiðjurnar okkar en þar semja þátttakendur nánast allt námsefnið. Meðal þess sem var í boði var sagnagerðarsmiðja, ljóðasmiðja þar sem þátttakendum gafst kostur á að nýta hefðbundna bragarhætti, smiðjur helgaðar leikritun og kvikmyndahandritsgerð og smiðja um útgáfu bókar. Þá brugðu meistaranemar undir sig betri fætinum og héldu helgarsmiðju á Flateyri undir handleiðslu Auðar Övu Ólafsdóttur.

Í grunnnámi er boðið upp á stök ritlistarnámskeið sem má safna í aukagrein. Til að ljúka aukagrein þarf 40 einingar í smiðjum auk bókmenntafræðinámskeiðs og eins valnámskeiðs. Mikil aðsókn hefur verið að þessum smiðjum og stundum komist færri að en vildu. Á árinu var boðið upp á leikritunar- og þýðingasmiðjur. Einnig geta nemendur á BA-stigi fengið svokölluð ritfærninámskeið metin sem smiðjur. Ritfærninámskeiðin eru opin öllum háskólanemum og þar er áherslan á almenna ritfærni sem og fræðileg skrif. Þessi námskeið hafa líka notið mikilla vinsælda.

Fyrir skömmu var sett á stofn Ritver á vegum Hugvísindasviðs. Þar er hægt að panta viðtalsfund og fá ráðgjöf um fræðileg skrif. Á heimasíðu Ritvers má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um slík skrif. Ritverið stendur einnig fyrir örnámskeiðum um ýmislegt sem lýtur að skrifum og eru þau haldin í hádeginu allt að tíu sinnum á hverju misseri. Æ fleiri nýta sér þjónustu Ritvers.

Ég þakka ritlistarnemum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu. Einnig þakka ég stundakennurum, leiðbeinendum lokaverkefna, prófdómurum og öðrum sem liðsinntu okkur fyrir vel unnin störf. Gleðilegt ár!