Kristín Svava Tómasdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Ljóðskáldið og sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist veturinn 2021–‘22. Hún mun vinna með meistaranemum að ljóðagerð og síðar í vetur mun hún flytja opinberan fyrirlestur kenndan við Jónas. Til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist var stofnað árið 2015 og varð Sigurður Pálsson skáld fyrstur til að gegna því.

Kristín Svava hefur tekið virkan þátt í íslensku ljóðalífi frá unga aldri og sent frá sér fjórar ljóðabækur, síðast Hetjusögur sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2020. Hún hefur komið fram á fjölda ljóðahátíða hérlendis og erlendis og ljóð hennar hafa verið þýdd á ýmis tungumál. Ljóðabókin Stormviðvörun kom út í Bandaríkjunum undir titlinum Stormwarning árið 2018 í þýðingu K.B. Thors, sem vinnur nú einnig að enskri þýðingu á Hetjusögum. Fyrir Stormwarning var Thors tilnefnd til PEN-verðlaunanna bandarísku í flokki þýddra ljóðabóka. Kristín Svava hefur sjálf fengist við þýðingar og meðal annars hefur komið út eftir hana þýðing á hinu klassíska femíníska verki SORI: manifestó eftir bandaríska höfundinn Valerie Solanas og á ljóði kúbanska skáldsins Virgilio Piñera, Þungi eyjunnar. Kristín Svava var listrænn stjórnandi Alþjóðlegrar ljóðahátíðar Nýhils um tveggja ára skeið og síðar einn af ritstjórum ljóðabókaseríunnar Meðgönguljóða.

Auk þess að vera ljóðskáld er Kristín Svava sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Árið 2018 sendi hún frá sér bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar og hlaut fyrir hana Viðurkenningu Hagþenkis. Hún er einn af höfundum bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga, sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2020, en vinnur nú að bók um sögu Farsóttahússins við Þingholtsstræti 25 í Reykjavík.

Tvö útvarpsviðtöl

Á undanförnum vikum hef ég verið munstraður í tvö fremur ítarleg útvarpsviðtöl á Rás 1. Bæði komu til vegna greina sem nýlega birtust og vöktu athygli þáttastjórnenda.

Fyrra viðtalið var við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur. Þar ræddum við um að kenna ritlist á íslensku, máli sem á sér glæsta sögu en svo fáir tala. Tilefnið var greinin „Teaching Creative Writing in a Threatened Language“ í bókinni The Place and the Writer sem kom út nýlega.

Seinna viðtalið var við Þröst Helgason í þættinum Svona er þetta. Þar ræddum við um útilokunarmenningu og málfrelsi í framhaldi af greininni „Skærurnar á netinu“ sem birtist í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2021.

Þar sem ég hef fengið óvenju mikil viðbrögð við viðtölunum hef ég sett hlekki á þau eins og þið sjáið.

 

Villimennska eða kærkomið vopn?

Í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2021 getur að líta grein eftir mig um útilokunarmenningu, hatursorðræðu og málfrelsiskreppuna sem mér finnst einkenna samtímann.

Í greininni reifa ég einkenni og afleiðingar útilokunarmenningar. Einnig ræði ég skilgreiningar á hatursorðræðu og löggjöf Ísleninga um hana og bendi á að margt sem skrifað er á samfélagsmiðlum geti varðað við lög. Á þá að banna hatursorðræðu? Ekki eru allir á eitt sáttir um það og kynni ég nokkur sjónarmið hvað það varðar. Sumir trúa því að málfrelsið sjálft muni á endanum kveða hatursorðræðu í kútinn, í því sé fólginn sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður, en aðrir benda á að ekki hafi allir sem verða fyrir barðinu á slíkri orðræðu burði eða aðstöðu til að svara fyrir sig og telja að ef ríkisvaldið aðhafist ekkert megi líta svo á að það leggi blessun sína yfir hatursorðræðu.

Stöðu og hlutverk fjölmiðla ræði ég talsvert enda eru þeir sumpart meðvirkir í útilokunarmenningunni vegna þess að þeir sækja sér oft efni í krassandi útilokunaratlögur sem gerðar eru á netinu. Í þessu sambandi bendi ég á hve mikilvægt sé að þeir hafi burði til þess að stunda öflugan og vel ígrundaðan fréttaflutning svo að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir og ráðist ekki að öðrum á röngum forsendum.

Málfrelsið er mikið til umræðu í greininni enda er það undirstaða lýðræðis og reyndar líka lýðheilsu í víðasta skilningi. Til þess að málfrelsi fái þrifist þurfum við að líta svo á að það sé í allra þágu að sem flest sjónarmið fái að njóta sín í umræðunni. Minnihlutaskoðanir þurfi að virða í stað þess að þagga þær vegna þess að þær hjálpi okkur að skilja málefnin betur og auki þannig líkur á að réttar og farsælar ákvarðanir verði teknar, þjóðfélaginu öllu til heilla.

Að kenna ritlist á máli sem kann að vera í útrýmingarhættu

Út er komin bókin The Place and the Writer – International Intersections of Teacher Lore and Creative Writing Pedagogy sem gefin er út af Bloomsbury-forlaginu. Bókin er hluti af ritröð um rannsóknir í ritlistarfræðum og henni ritstýrðu Marshall Moore og Sam Meekings sem staðsettir eru í Hong Kong. Þeir buðu mér að leggja fram efni um ritlistarnámið við Háskóla Íslands og það er mikill heiður.

Mitt innlegg ber yfirskriftina „Teaching Creative Writing in a Threatened Language“ og fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um þá stöðu að kenna ritlist á íslensku nú þegar blikur eru á lofti varðandi framtíð tungunnar. Það er ekki oft sem maður óskar þess að hafa rangt fyrir sér, en þess óska ég svo sannarlega að áhyggjur mínar séu óþarfar (nema ef vera skyldi til þess að koma í veg fyrir meinta niðurlægingu tungunnar). Það er þó staðreynd að á þessum tímapunkti finnst mér að íslensk tunga sé í útrýmingarhættu og við því reyni ég að bregðast í greininni sem og því hvað það þýði að kenna ritlist á íslensku.

Við höfum þá sérstöðu að vera eina rithöfundasmiðjan í heiminum þar sem kennt er á íslensku. Er réttlætanlegt að taka ekki við íslenskum ríkisborgurum nema þeir hafi vald á íslenskri tungu? spyr ég m.a. í greininni. Ég færi síðan rök fyrir því að réttlætanlegt sé að rækta þjóðtungu með þessu móti og ræði í því sambandi vinnu okkar með nemanda sem talaði íslensku sem annað mál.

Ég hef nú ekki verið mikið fyrir það í gegnum tíðina að reka lestina, en í þessu greinasafni er mitt innlegg þó aftast. Ég hef kosið að líta svo á að það sé rúsínan í pylsuendanum!

Smásögur heimsins: bindin öll

Fimmta bindi Smásagna heimsins, tileinkað Evrópu, er nú komið út og hafa þar með öll bindi ritraðarinnar skilað sér. Fimm bindi, hvert tileinkað ákveðinni álfu, nema hvað Asíu og Eyjaálfu var steypt saman. Í bindunum getur að líta 94 sögur frá 75 löndum á alls 1464 blaðsíðum.

Hugmyndin að verkinu kviknaði þegar ég var beðinn að kenna námskeið um smásögur í almennri bókmenntafræði á tíunda áratugnum. Þá sá ég að margar af perlum þessarar bókmenntagreinar höfðu aldrei verið þýddar á íslensku. Markmiðið með ritröðinni var að bæta úr því með því að safna markvisst saman snjöllum sögum úr öllum heimshornum og birta um leið sem flestar gerðir smásagna til að gefa sem gleggsta mynd af smásagnagerð í heiminum. Verkefnið væri þó líklega enn í skúffunni ef öflugt fólk hefði ekki komið til liðs við mig.

Sögurnar spanna síðustu öldina eða frá því að smásagan varð að sjálfstæðu fagurfræðilegu formi. Langt fram eftir 20. öldinni voru karlar atkvæðameiri en ef miðað er við þessi fimm bindi koma konurnar sterkar inn um og upp úr 1970. Um 43% sagnanna eru þó eftir konur.

Mér telst til að sögurnar hafi verið þýddar úr sextán málum: ensku, japönsku, arabísku, kóresku, taílensku, spænsku, portúgölsku, frönsku, þýsku, ítölsku, serbnesku, dönsku, búlgörsku, sænsku, norsku og rússnesku. Reynt var að þýða úr frummáli en þegar ekki tókst að finna þýðanda lánaðist okkur í flestum tilvikum að hafa upp á manneskju sem gat borið þýðinguna saman við frumtexta. Það á við um víetnömsku, persnesku, króatísku, pólsku, kínversku og arabísku (þó var líka þýtt beint úr arabísku). Þannig tókst í næstum öllum tilfellum að tengja þýðingarnar frumtextanum sem var mikið lán því að samanburðurinn skilaði stundum óvæntum niðurstöðum. Ástæðan fyrir því að tungumálin eru ekki fleiri er sú að margar fyrrverandi nýlendur nýta sér enn evrópsk mál til bókmenntasköpunar. Það gildir um mörg lönd í Afríku og Asíu. Svo eru auðvitað tvær heilar heimsálfur sem notast að mestu við spænsku eða ensku.

Alls tóku 45 þýðendur þátt í verkefninu, margir þeirra þrautreyndir, en í hópnum var einnig fólk sem var ekki vant að þýða fagurbókmenntir. Ennfremur tóku 12 nemendur þátt í verkefninu og stigu þannig sín fyrstu skref sem þýðendur. Hér er listinn yfir þetta góða fólk í belg og biðu: Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Erla Erlendsdóttir, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Friðrik Rafnsson, Guðbergur Bergsson, Hermann Stefánsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Jón Hallur Stefánsson, María Gestsdóttir, Sigfús Bjartmarsson, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Skúli Jónsson, Dagbjört Gunnarsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Hjörleifur Rafn Jónsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Ingunn Snædal, Jón Egill Eyþórsson, Lárus Jón Guðmundsson, Sindri Guðjónsson, Steingrímur Karl Teague, Janus Christiansen, Þórir Jónsson Hraundal, Ana Stanićević, Arndís Þórarinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Áslaug Agnarsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Eysteinn Þorvaldsson, Bjarni Jónsson, Brynja Cortes Andrésdóttir, Jón Karl Helgason, Kristinn R. Ólafsson, Pétur Gunnarsson, Sigurður A. Magnússon, Soffía Auður Birgisdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir, Veska A. Jónsdóttir, Zophonías O. Jónsson og ofanritaður.

Í nokkrum tilfellum höfðu sögurnar birst áður á íslensku. Það voru þá sögur sem við í ritstjórninni töldum hafa markað svo djúp spor að þær yrðu að vera með í yfirlitsverki sem þessu. Í þeim tilfellum voru sögurnar ýmist þýddar á ný eða þýðingarnar vandlega yfirfarnar, þá í samráði við þýðendur ef þess var kostur. Í tveimur tilfellum voru þýðendur látnir en vegna stöðu þeirra og vægis voru þýðingar þeirra hafðar með. Hér á ég við Ingibjörgu Haraldsdóttur og Sigurð A. Magnússon. Eysteinn Þorvaldsson lést svo meðan bókin var í prentun.

Í sumum tilfellum hjálpuðu þýðendur okkur að finna sögur og nokkrir þeirra skrifuðu fyrir okkur kynningar á höfundum.

Allmargir nemendur unnu að því að finna sögur á námskeiðum sem helguð voru smásögum og þýðingum á þeim. Þá störfuðu tveir aðstoðarmenn í sumarvinnu við að leita að smásögum, þau Magnús Sigurðsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir, og er þáttur þeirra stór. Leit að sögum hefur í rauninni staðið yfir í rúm 20 ár með öðru en orðið markvissari síðustu tíu árin.

Við ritstjórarnir – ég, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason – bárum síðan ábyrgð á endanlegu vali sagna. Þar var margt haft í huga, s.s. kynjahlutfall, kynþættir, fjölbreytni, ritunartími sagnanna (svo að þær röðuðust sem jafnast á undangengna öld) og landfræðileg dreifing. Við ritstýrðum síðan öllum þýðingunum, hvert okkar fór nokkrum sinnum yfir hverja þýðingu og sama á við um kynningartextana. Þetta hefur verið stíf vinna og vel skipulögð síðustu fimm árin. Stefnt var að því að eitt bindi kæmi á ári og aldrei var tvísýnt um að bindin yrðu tilbúin til útgáfu í tæka tíð.

Miðstöð íslenskra bókmennta studdi verkefnið dyggilega en einnig Launasjóður fræðiritahöfunda meðan hann var og hét. Mikið munaði líka um vinnudvalir okkar ritstjóranna erlendis á vinnslutímanum. Sjálfur er ég sérstaklega þakklátur fyrir dvöl í Kína á vegum Sun Yat-sen háskóla, við STIAS þekkingarsetrið í Suður-Afríku og við The Clearman Cottage Writer's Residency á Long Beach í Washingtonfylki Bandaríkjanna. Þá á bókaforlagið Bjartur hrós skilið fyrir úthaldið.

Nú fara þessar tæplega 1500 síður á vit sögunnar og við ritstjórarnir tökum til við önnur verkefni. Þetta var einstakt samstarf með einstaklega hæfileikaríkum dugnaðarforkum og ekki laust við að þegar örli á söknuði í þessu hjarta. Umfram allt er ég þó þakklátur fyrir að hafa starfað í umhverfi og landi sem gerði okkur kleift að sinna þessu verkefni og vildi taka við því.

 

Tímamót í sögu ritlistar við HÍ

Hinn 1. júlí 2020 urðu tímamót í sögu ritlistar við Háskóla Íslands. Þá hóf Huldar Breiðfjörð, rit- og handritshöfundur, störf sem lektor í ritlist og nú eru því í fyrsta skipti tveir fastir kennarar í greininni. Það eflir starfið og skapar ný sóknarfæri. Eftir sem áður munu þó stundakennarar koma við sögu og séð verður til þess að bæði karlar og konur komi að kennslunni.

Huldar lauk meistaraprófi í kvikmyndagerð og handritaskrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp frá New York háskóla árið 2007. Hann er viðurkenndur höfundur fagurbókmennta, hefur m.a. birt ljóðasafn, samið leikrit sem sett hafa verið á svið í atvinnuleikhúsi, og skrifað prósaverk sem hlotið hafa hylli gagnrýnenda. Sömuleiðis hefur hann samið handrit að sjónvarpsþáttum, og enn fleiri kvikmyndum og hefur m.a. unnið til Eddu-verðlauna fyrir handrit að kvikmyndinni Undir trénu, sem hann vann í samstrfi við leikstjóra myndarinnar, Hafstein Gunnar Sigurðsson.

Ég býð Huldar velkominn til starfa og hlakka til þess að ýta námsgreininni enn lengra í samvinnu við hann.

Beðið eftir barbörunum

Íslensk þýðing á verkinu Waiting for the Barbarians eftir suður-afríska Nóbelsskáldið J. M. Coetzee er nú komin út á vegum bókaútgáfunnar Unu. Bókina þýddum við Sigurlína Davíðsdóttir í sameiningu.

Beðið eftir barbörunum, eins og bókin heitir á íslensku, er sígilt samtímaverk enda hefur það enn mikla skírskotun til atburða samtímans. Bókin kom fyrst út árið 1980 og er að mínu mati eitt af allrabestu verkum höfundar og ein merkasta skáldsaga síðari hluta 20. aldar.

Í áratugi hefur dómari stjórnað rólegum bæ á mærum heimsveldis. Þegar orðrómur berst um barbara (þannig vísa stjórnvöld til innfæddra) handan bæjarmúranna taka fulltrúar heimsveldisins völdin. Í kjölfarið gerist dómarinn gagnrýninn á alræði þeirra og ofbeldi, en þarf samhliða að horfast í augu við eigin takmörk, fýsnir og siðferði. Sagan er áleitin gagnrýni á nýlenduveldi og aðskilnaðarstefnu líkt og fjallað er um í eftirmála Einars Kára Jóhannssonar.

Ættartalan birt í erlendu safnriti

Nýlega birtist eftir mig smásaga í safnritinu Where We Started, Stories of Living Between Worlds sem gefið er út í Hamborg í Þýskalandi og inniheldur smásögur eftir átta höfunda hvaðanæva úr heiminum. Ritstjórar eru Ana-Maria Bamberger og Alicia McKenzie en sú síðarnefnda á sögu í rómanska bindi Smásagna heimsins. Sagan mín heitir „Ættartalan“ á íslensku og kom fyrst út í bókinni Ást í meinum árið 2012.

Hugmyndina að sögunni má rekja til þess að á háskólaárum mínum í Reykjavík bað Guðrún amma mín mig að skrá fyrir sig í stílabók alla afkomendur sína. Þeir voru þá þegar orðnir fjölmargir enda hafði hún eignast sextán börn. Hún mundi flesta afmælisdaga þessara afkomenda sinna. Stór kona og eftirminnileg, hún amma Guðrún, og nú skiptum við hundruðum sem berum erfðavísa frá henni. Rétt er þó að taka fram að söguþráðurinn er uppspuni.

Minn gamli kennari, Julian M. D'Arcy, þýddi söguna af mikilli list. Bókina má m.a. nálgast á Amazon.

Nú eru það afrískar smásögur

Fjórða bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins er nú komið út hjá bókaforlaginu Bjarti. Bindið geymir nítján sögur frá sautján löndum Afríku. Sú elsta er frá 1952 en sú yngsta frá 2017. Meðal þekktra höfunda sem eiga sögu í bindinu má nefna Nadine Gordimer, J. M. Coetzee, Naguib Mahfouz og Chimamanda Ngozi Adichie.

Flestir höfundanna hafa hins vegar aldrei komið við sögu á íslenskum bókamarkaði áður. Fyrir mig persónulega er sérstaklega gaman að geta birt Íslendingum sögur frá löndum eins og Marokkó, Tansaníu, Botsvana, Simbabve, Fílabeinsströndinni, Angóla, Kamerún, Sómalíu, Líbíu, Alsír og Túnis, svo dæmi séu nefnd, enda er afar sjaldgæft að sögur frá þessum löndum séu þýddar á íslensku.

Fyrir milligöngu J. M. Coetzees bauðst mér að dvelja í þekkingarsetri í Suður-Afríku í mánaðartíma við undirbúning bindisins. Þar hafði ég aðgang að góðu bókasafni sem var ómetanlegt þegar kom að því að semja inngang og kynningar á höfundum. Auk þess gat ég þar borið sagnavalið undir ýmsa sem höfðu sérþekkingu á afrískum bókmenntum. Einnig sótti ég bókmenntahátíð og hitti þá m.a. einn af höfundum bindisins, Lauri Kubuitsile frá Botsvana.

Ég segi í innganginum að í sögum bindisins endurspeglist margt af því sem Afríka og íbúar hennar hafi gengið í gegnum undanfarnar aldir. Eitt af því veigamesta er nýlendusaga álfunnar en næstum öll lönd Afríku hafa á einhverju tímabili lotið stjórn evrópskra nýlenduherra. Það skýrir af hverju svo margir höfundanna í þessu bindi hafa kosið að skrifa sögur sínar á málum sem eru upprunnin í Evrópu. Nýlenduarfleifðin er daglegt viðfangsefni í flestum löndum álfunnar og ekki alltaf auðveld viðfangs.

Ellefu þýðendur leggja okkur lið í þessu bindi og þýða þeir úr fjórum tungumálum, arabísku, portúgölsku, frönsku og ensku. Það eru, auk okkar ritstjóranna, þau Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Ingunn Snædal, Janus Christiansen, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sindri Guðjónsson og Þórir Jónsson Hraundal. Við þökkum þeim kærlega fyrir alúðina sem þau hafa lagt í vinnu sína. Sjálfur þýddi ég sögur frá Egyptalandi, Simbabve, Tansaníu og tvær frá Suður-Afríku. Í þeim fáu tilfellum þar sem ekki tókst að þýða beint úr frummáli voru fengnir lesarar sem gátu borið íslensku þýðinguna saman við frumtextann.

Ritstjórar ritraðarinnar með mér eru þau  Jón Karl Helgason og Kristín Guðrún Jónsdóttir og hefur samstarfið verið einstaklega gefandi. Fjögur bindi eru nú komin út á jafn mörgum árum og enginn bilbugur á ritstjórunum sem vinna nú hörðum höndum að síðasta bindinu, því evrópska.

Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur

Steinunn Sigurðardóttir skáld flytur hátíðarfyrirlestur Jónasar Hallgrímssonar 23.október klukkan fjögur í Veröld, húsi Vigdísar. Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af því að Steinunn gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands á haustmisseri 2019.

Í fyrirlestrinum, sem hefur yfirskriftina „Klárlega gríðarlegur birkiþrastasveimur“, veltir Steinunn fyrir sér nýyrðum í ljóðmáli nokkurra íslenskra skálda, frá Jónasi Hallgrímssyni til Sigfúsar Daðasonar. Um leið beinir hún sjónum að ofnotkun valinkunnra orða, sem gerir þau tæp í skáldskaparskyni.

Steinunn á fimmtíu ára skáldafmæli um þessar mundir, en hún sendi frá sér fyrstu ljóðabók sína, Sífellur, þegar hún var nítján ára, þá við háskólanám í Dublin. Nú í október kemur út ljóðabók hennar, Dimmumót, sem er bálkur um hörfandi Vatnajökul, með sjálfsævisögulegu ívafi. Dimmumót er tíunda ljóðabók Steinunnar, en hún hefur sent frá sér ljóð og skáldsögur jöfnum höndum síðan 1986, þegar fyrsta skáldsaga hennar, Tímaþjófurinn, kom út.

Tímaþjófurinn er ein umræddasta skáldsaga síðari áratuga á Íslandi. Bókin naut einnig hylli fyrir utan landsteinana, í Frakklandi sérstaklega, þar sem hún var kvikmynduð með þarlendum stjörnum. Þá var Tímaþjófurinn settur á svið Þjóðleikhússins 2017, með Nínu Dögg Filippusdóttur í aðalhlutverkinu, Öldu Ívarsen, sem kölluð hefur verið tragískasta kvenpersóna íslenskra nútímaskáldsagna.

Meðal annarra skáldsagna Steinunnar má svo nefna Sólskinshest, Ástina fiskanna, Jöklaleikhúsið, Jójó, og Gæðakonur. Skáldsögur Steinunnar hafa um langt árabil komið út í þýðingum í helstu Evrópulöndum og hlotið frábæra dóma.

Meðal ljóðabóka Steinunnar eru Verksummerki, Hugástir og Að ljóði munt þú verða.

Steinunn hefur einnig sent frá sér smásagnasöfn, barnabók og leikverk.  Meðal þeirra er sjónvarpsmyndin Líkamlegt samband í norðurbænum. Tvær af bókum Steinunnar eru sannsögur, um Vigdísi Finnbogadóttur, meðan hún gegndi embætti forseta Íslands, og bókin um Heiðu sauðfjárbónda á Ljótarstöðum sem kom út árið 2016.

Steinunn var fréttamaður útvarps um tíu ára skeið. Hún vann að þáttagerð fyrir sjónvarp og tók meðal annars viðtal við Halldór Laxness í tilefni af áttræðisafmæli hans, svo og viðtöl við Svövu Jakobsdóttur, Guðberg Bergsson og Iris Murdoch.

Steinunn hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2014 og ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Hún hlaut verðlaun íslenskra bóksala fyrir skáldsöguna Jójó og fyrir bókina um Heiðu. Sú síðarnefnda hreppti einnig Fjöruverðlaunin. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hjartastað og hafa fimm aðrar bækur hennar verið tilnefndar til sömu verðlauna.

Náttúra Íslands hefur lengi verið veigamikill þáttur í ritmennsku Steinunnar og hún hefur látið náttúruvernd og loftslagsmál til sín taka á ýmsum vettangi. Væntanleg bók hennar, Dimmumót, er bálkur um hörfandi Vatnajökul, veröld sem var og verður. Þess má geta að Steinunn á heiðurinn af nýyrðinu hamfarahlýnun, sem nú hefur fest sig í sessi.

Fyrirlestur Steinunnar verður í sal 023 í Veröld. Allir velkomnir. Léttar veitingar í boði að fyrirlestri loknum.