Posted on Færðu inn athugasemd

Keyptu þetta

Flestum hefur væntanlega verið kennt að boðháttur sagnarinnar kaupa kauptu, ekki keyptu. Á þessu hefur verið hnykkt í ótal málfarsþáttum áratugum saman – elsta dæmi sem ég hef séð um það er frá 1940 í ritdómi um þýdda bók, þar sem segir „Óviðfelldið er þó að sjá boðhátt sagharinnar að kaupa „keyptu“ [...] fyrir kauptu“. Í Málfarsbankanum segir: „Bh. et. kauptu (ekki „keyptu“).“ Þetta er líka í fullu samræmi við það að boðháttur er venjulega myndaður af nafnhætti – far-ðu, kom-du, les-tu, kalla-ðu o.s.frv., og nafnháttur sagnarinnar er kaupa, ekki *keypa. Þarf þá frekari vitnanna við? Er málið ekki útrætt?

Ekki alveg. Sá mikli málvöndunarmaður Gísli Jónsson taldikauptu og keyptu væri jafnrétt. Það byggði hann á þeirri skoðun annars ekki síðri málvöndunarmanns, Halldórs Halldórssonar prófessors, að til hefðu verið tvær sagnir sömu eða svipaðrar merkingar, kaupa, þátíð kaupaði, og keypa, þátíð keypti. Þær hefðu síðan runnið saman og eftir stæði nútíðin af kaupa en þátíðin af keypa – og boðháttur beggja. Það mælir reyndar gegn þessari skýringu að myndin keyptu virðist ekki koma fyrir á tímarit.is fyrr en um 1900 en kauptu er algeng á 19. öld. Því hefði keyptu orðið að varðveitast lengi í málinu, jafnvel öldum saman, án þess að komast á prent. Það er ekki útilokað, en ekki mjög líklegt.

Þótt elstu dæmi sem ég fann um boðháttinn keyptu á tímarit.is séu frá upphafi 20. aldar er elsta þekkta dæmi um hann frá seinni hluta 17. aldar. Í Heimskringlu 1901 segir „Komdu og keyptu blóm handa henni“ og í Kvennablaðinu sama ár segir „Ó, keyptu eitt handa mér“. Örfá dæmi sjást á prenti næstu áratugina en upp úr 1940 fara að birtast í blöðum athugasemdir við myndina keyptu sem benda til þess að hún sé þá orðin nokkuð útbreidd. Í Þjóðviljanum 1960 segir Árni Böðvarsson: „Algengasta boðháttarmyndin sunnanlands - og sjálfsagt víðar – er „keyptu þetta eða hitt“.“ Í textum frá 2001-2020 á tímarit.is og í Risamálheildinni er hlutfall keyptu þér á móti kauptu þér u.þ.b. 2:3. Þar er aðallega um að ræða prófarkalesna texta þannig að hlutfallið í talmáli er væntanlega talsvert hærra.

Sé ekki gert ráð fyrir að til hafi verið sögnin keypa er líklegast að boðhátturinn keyptu sé leiddur af þátíð sagnarinnar. Það eru til fleiri dæmi um að boðháttur virðist leiddur af þátíð fremur en nafnhætti – dæmi finnast um ork-tu í stað yrk-tu af yrkja, sót-tu í stað sæk-tu af sækja, stud-du í stað styd-du af styðja, o.fl. En þótt boðhátturinn sé vissulega yfirleitt leiddur af nafnhætti er það alls ekki svo að sú myndun sé alltaf regluleg. Boðháttur af ganga er t.d. gakk-tu, ekki *gang-du eða *gang-tu, boðháttur af standa er stat-tu, ekki *stan(d)-tu, o.s.frv. Það er því ekki hægt að halda því fram að vegna þess að nafnhátturinn er kaupa komi ekki annar boðháttur til greina en kauptu – venslin milli nafnháttar og boðháttar eru flóknari en svo.

Boðhátturinn keyptu er meira en 300 ára gamall og mjög útbreiddur á seinni árum, jafnvel álíka útbreiddur og kauptu. Meira en 80 ára barátta gegn honum hefur engu skilað – hann verður sífellt algengari. Hér er rétt að minna á viðurkennda skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ sem var sett fram í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Það er enginn vafi á því að boðhátturinn keyptu er málvenja stórs hóps málnotenda, jafnvel helmings þeirra. Því er algerlega fráleitt að kalla hann „rangt mál“ – eins og Gísli Jónsson sagði fyrir 36 árum er kauptu og keyptu jafnrétt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gæði

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun orðsins gæði. Gísli Jóns­son sagði t.d. eitt sinn í þætti sínum um íslenskt mál í Morg­un­blaðinu: „Gæði eru gæði og geta, eðli sínu samkvæmt, ekki verið léleg, vond eða ill. Hins vegar getur varan, af­urð­irnar verið lélegar. Gæði geta verið mikil eða lítil eftir atvikum, en aldrei vond.“ Í Mál­farsbankanum segir: „Athuga muninn á merkingu ís­lenska orðsins gæði (skylt góður) og erlendu orðanna kvalitet, quality o.s.frv. sem borið geta fremur hlutlausa merkingu: eiginleikar. Í íslensku er unnt að tala um góða eiginleika en illa er talið fara á orðalaginu „góð gæði“ og „léleg gæði“. Fremur: mikil gæði, lítil gæði.“

Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 er ein skýring orðsins gæði einmitt 'Kvalitet'. En það er dálítið varasamt að leggja of mikla áherslu á hvað sé „rökrétt“ merking í orðinu gæði út frá lýsingarorðinu góður – líta svo á að gæði hljóti alltaf að fela í sér eitthvað „gott“. Er t.d. rétt að lýsa mikilli svifryksmengun sem litlum loftgæðum? Felst ekki í því að þar séu samt sem áður einhver loftgæði, þótt þau séu vissulega lítil? En er ekki málið að þarna eru engin gæði?

Það er vissulega hægt að tala um góða eiginleika eins og Málfarsbankinn segir, en því fer fjarri að orðið eigin­leikar geti alltaf komið í staðinn fyrir gæði. Það er t.d. ekki hægt að lýsa litlum loftgæðum með því að tala um *litla / *lélega / *vonda eiginleika loftsins. En greinilegt er að mjög mörgum finnst eðlilegt að nota orðið gæði á hlut­lausan hátt í merkingunni 'eigin­leikar'. Þannig eru 307 dæmi um léleg gæði á tímarit.is, það elsta frá 1943, og 152 í Risamálheildinni. Tengingin við góður virðist þó skipta máli í huga málnotenda – jákvæð lýsingarorð eru margfalt oftar notuð með því en neikvæð.

Þannig eru meira en 10 sinnum fleiri dæmi um mikil gæði en lítil gæði í Risamálheildinni, og sárafá dæmi eru um vond gæði, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Fjöldi dæma er aftur á móti um góð gæði, en það er athyglisvert að þær myndir þar sem stofninn er annar, miðstigið betri og efsta stigið bestur, virðast mun frekar standa með gæði en frum­stigið góður, sem bendir til þess að nástaðan góð- gæð- trufli málnotendur eitthvað. Þó má minna á að Jónas Hall­grímsson orti um „gæðakonuna góðu“ þann­ig að sú teng­ing hindrar ekki alltaf nástöðu þessara til­brigða. Elsta dæmi um bestu gæði er í Iðunni 1860 – „Þeir sem koma frá Mekka og hafinu rauða flytja með sjer ind­versk­ar vör­ur og beztu gæði Arabalands“.

Orð hafa þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim, óháð uppruna. Það er enginn vafi á því að í máli mjög margra hefur orðið gæði hlutlausa merkingu, óháð lýs­ing­arorðinu góður, og fyrir slíku eru fjölmörg fordæmi. Fólk sem notar orðið þannig getur talað um léleg gæði, vond gæði, frábær gæði o.s.frv. Það er málvenja mjög margra, og fráleitt að kalla það rangt mál. Það getur ekki held­ur misskilist. Hins vegar getur sumum vitanlega fund­ist fara illa á því að tala um góð gæði og léleg gæði eins og segir í Málfarsbankanum. Það er smekksatriði sem hver málnotandi verður að meta fyrir sig.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynhlutlaus nöfn

Á vef Vísis er hlekkjað á umræðu um kynhlutlaus nöfn í Bítinu á Bylgjunni á mánudagsmorgun, þar sem spurt er „Ganga kynhlutlaus nöfn upp málfræðilega?Á umræðunni var helst að skilja að svo væri ekki – það væru mikil vandkvæði á því að fella kynhlutlaus nöfn að íslensku máli. Fyrir því voru færð tvenns konar rök. Annars vegar að ekki væri ljóst hvernig ætti að beygja nöfn eins og Regn og Frost vegna þess að þetta væru hvorugkynsorð sem ættu að fá -s í eignarfalli – Regns og Frosts. Vandinn væri sá að ­-s er dæmigerð eignarfallsending karlkynsorða, þ. á m. karlmannsnafna (Böðvars, Halldórs) og því væri beyging kynhlutlausu nafnanna ekki nægilega greind frá beygingu karlkynsorða.

En þetta eru engin rök. Það eru auðvitað ótal dæmi um það í beygingakerfinu að endingar tveggja eða þriggja kynja falli saman án þess að það valdi nokkrum ruglingi. Ef -s er óheppileg eignarfallsending kynhlutlausra nafna vegna þess að hún er líka notuð í karlkyni hlýtur -ar einnig að vera óheppileg eignarfallsending í mannanöfnum vegna þess að hún er notuð bæði á karlmannsnöfn (Guðmundar, Sigurðar) og kvenmannsnöfn (Guðrúnar, Sigríðar). Einnig má benda á að mannsnafnið Sturla beygist eins og það væri kvenkynsorð (Sturlu í aukaföllum, eins og HelgaHelgu) en enginn velkist samt í vafa um að Sturla er karlmannsnafn.

Önnur vandkvæði sem nefnd voru á notkun kynhlutlausra nafna voru þau að ekki væri ljóst hvernig ætti að nota þau í kenninöfnum. Í frumvarpi um breytingar á mannanafnalögum sem lægi fyrir Alþingi hefði verið stungið upp á því að nota orðið bur í kenninöfnum, en það væri ótækt vegna þess að það væri karlkynsorð sem merkti 'sonur'. Þarna kom ekki fram það grundvallaratriði að bur er þegar komið inn í gildandi lög um mannanöfn. Þeim var breytt samhliða gildistöku laga um kynrænt sjálfræði og þar stendur nú í 8. grein: „Einstaklingi sem hefur hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá er heimilt að nota nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótar eða að viðbættu bur.“ Þegar er farið að skrá kenninöfn með -bur í Þjóðskrá.

Orðið bur er komið af sögninni bera og rótskylt mörgum orðum af sama merkingarsviði – barn, (barns)burður, (tví)buri o.fl. Hugmyndin að því að endurvekja orðið í nýju hlutverki kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2015, og þetta var ein af þeim tillögum sem dómnefnd keppninnar mælti sérstaklega með. Orðið merkti vissulega 'sonur' í fornu máli en er ekkert er því til fyrirstöðu að víkka merkingarsvið þess aðeins og láta það merkja 'afkvæmi'. Þótt orðið sé upphaflega karlkynsorð er gert ráð fyrir að í þessu nýja hlutverki sé það haft í hvorugkyni, enda fellur hljóðfræðileg gerð þess vel að því.

Vitaskuld getur slík breyting á orði sem fyrir er í málinu, þótt smávægileg sé, orkað tvímælis. En hér skiptir máli að orðið hefur alla tíð verið ákaflega sjaldgæft – í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn sem tekur til óbundins máls eru aðeins sex dæmi um það, og þó í raun aðeins fjögur því að í tveimur tilvikum er um sömu setningu að ræða í tveimur textum. Annars var orðið einkum notað í bundnu máli, og í seinni tíma máli kemur það ekki fyrir nema í skáldskap – dæmið sem alltaf er vitnað í er Ingólfur Arnar bur í kvæði Matthíasar Jochumssonar, „Minni Ingólfs“. Þessi merkingarvíkkun ætti því ekki að valda ruglingi.

Það á sér líka vel þekkt og viðurkennd fordæmi að taka orð úr eldra máli sem ekki eru lengur notuð og gefa þeim nýja – en yfirleitt skylda – merkingu. Orðið skjár merkti áður 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. En eftir að gluggar af því tagi urðu úreltir var orðið lítið notað. Upp úr 1970 var svo stungið upp á því að nota orðið í stað tökuorðsins skermur eða skermir sem hafði verið notað sem þýðing á screen – talað var um bæði sjónvarpsskerm(i) og tölvuskerm(i). Þetta orð sló strax í gegn þrátt fyrir andstöðu og nú er skermur nánast horfið úr málinu í þessari merkingu – þótt enn sé talað um lampaskerma.

Annað og enn þekktara dæmi um endurnýtt orð er sími sem var til en mjög sjaldgæft í fornu máli, einkum í hvorugkynsmyndinni síma, og merkti 'band, þráður'. Skömmu fyrir aldamótin 1900 var stungið upp á því að nota þetta ónýtta orð yfir nýjungina telefón sem Íslendingar voru þá farnir að frétta af þótt fyrirbærið hefði enn ekki borist til landsins. Ákveðið var að orðið skyldi vera karlkynsorð og merkingunni hliðrað aðeins til – sem lá beint við á þessum tíma þegar megineinkenni símans var einmitt þráðurinn, símalínurnar sem voru lagðar milli landa og um allt land. Þetta orð sló líka fljótlega í gegn og telefón hvarf að mestu úr notkun á öðrum áratug 20. aldar.

Spurningunni „Ganga kynhlutlaus nöfn upp málfræðilega?“ er því auðvelt að svara játandi. En vegna þess hve íslenska er kynjað mál er þessi breyting ekki að öllu leyti einföld, hvorki fyrir tungumálið né notendur þess – hún krefst þess að við hugsum ýmislegt upp á nýtt, tökum upp ný orð, hliðrum til merkingu gamalla orða og losum okkur úr viðjum vanans, í stað þess að sjá öll tormerki á því að breyta til. Hversu vænt sem okkur þykir um íslenskuna – eða öllu heldur, vegna þess að okkur þykir vænt um íslenskuna – þurfum við að muna að hún á að þjóna okkur, ekki við henni. Ef hún lagar sig ekki að samfélaginu á hverjum tíma og þjónar því – þjónar okkur öllum – er hún dauðadæmd.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að lesa sig/sér til

Ég sá í Málvöndunarþættinum innlegg þar sem höfundur sagðist vera nýbúinn að sjá á Facebook þrjú dæmi um sambandið lesa sig til um eitthvað í stað lesa sér til um eitthvað og var að velta því fyrir sér hvort þetta gæti verið rétt. Öllum sem þátt tóku í umræðunni fannst þetta framandi og könnuðust ekki við að hafa heyrt það eða séð. Ég segi það sama – ég þekki þetta aðeins með þágufalli, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið eingöngu gefið með þágufalli, lesa sér til um <viðfangsefnið>. Mér fannst samt ástæða til að kanna þetta nánar.

Í Risamálheildinni reyndust vera 200 dæmi um lesa mig / þig / sig til, og á tímarit.is voru dæmin hátt á þriðja hundrað. Dæmin um þágufallið eru vissulega 15-20 sinnum fleiri, en samt sem áður er þetta umtalsverður fjöldi, þolfallsdæma, a.m.k. 400 (einhver dæmanna í Risamálheildinni og á tímarit.is eru sennilega þau sömu). Það er því ekki hægt að afgreiða þolfallið sem einhvers konar mistök eða villu. Þetta er ekki heldur nýtt – elsta dæmið sem ég fann var frá 1941, 80 ára gamalt. Elsta dæmið um þágufallið er talsvert eldra, frá 1907, en sambandið er sjaldgæft lengi framan af – það er ekki fyrr en upp úr 1970 sem tíðni þess fer að aukast.

Þetta er gott dæmi um það sem ég hef oft nefnt, að netið og samfélagsmiðlar draga fram ýmis tilbrigði í málinu sem við höfum ekki veitt athygli. Það er nefnilega alls óvíst að við tökum eftir því hvort viðmælandi okkar notar þolfall eða þágufall í ég las m* til um þetta eða hún las s* til um þetta. Fornafnið mig / mér eða sig / sér er þarna í áherslulausri stöðu og í samfelldu tali verður það oft ógreinilegt, nema fyrsta hljóðið sem er það sama í þolfalli og þágufalli. Það er líka eitt grundvallaratriði í talskynjun okkar að geta í eyðurnar – við heyrum það sem við búumst við að heyra, gerum ráð fyrir að viðmælandinn noti málið á sama hátt og við. En í rituðu máli kemur munurinn vitanlega fram.

Það er sem sé löng hefð fyrir bæði þolfalli og þágufalli í þessu sambandi og engin ástæða til að kalla annað rétt en hitt rangt. Við þurfum að viðurkenna og sætta okkur við að fjöldi fólks notar málið öðruvísi en við. Það þýðir ekki að við þurfum að breyta okkar málnotkun – tungumálið þolir alveg tilbrigði.

Posted on Færðu inn athugasemd

nýleglegur

Algengasta viðskeyti málsins er -legur og er notað til að mynda lýsingarorð sem flest fela í sér mat mælandans. Þegar við segjum að eitthvað sé fallegt, glæsilegt, ellilegt, ömurlegt, kjánalegt, hlægilegt, hrikalegt, unglegt, trúlegt, líklegt o.s.frv. erum við að segja skoðun okkar frekar en segja frá staðreyndum, eins og sést á því að við getum sagt mér finnst þetta fallegt / glæsilegt o.s.frv. Þess vegna er hægt að neita þeim eða nota orð andstæðrar merkingar um sama frumlag í sömu setningu án þess að úr því verði mótsögn. Það er hægt að segja þetta er trúlegt en það reynist samt ekki vera satt, hún er ungleg þótt hún sé orðin miðaldra, o.s.frv. En öðru máli gegnir um það sem er nýlegt.

Þegar við segjum þetta er nýlegt hús erum við ekki að leggja mat á aldur hússins út frá útliti þess, ekki að segja að það líti út fyrir að vera nýtt, heldur setja það fram sem staðreynd að stutt sé síðan húsið var byggt. Þess vegna er ekki hægt að segja *mér finnst húsið nýlegt, eða neita orðinu án þess að úr verði mótsögn – *húsið er nýlegt þótt það sé orðið gamalt. Þetta er auðvitað algengt orð sem við þekkjum vel, og vitum alveg hvað átt er við þegar sagt er að eitthvað sé nýlegt. Það truflar okkur því yfirleitt ekki þótt orðið skeri sig þannig úr öðrum orðum með sama viðskeyti – nema þegar við þurfum að tala um eitthvað sem lítur út fyrir að vera nýlegt án þess að við viljum fullyrða nokkuð um aldur þess.

Það var einmitt það sem ég lenti í á Þingvöllum í dag. Þar eru timburstígar um allt, en ég rak augun í einn sem ég mundi ekki eftir að hafa séð áður og taldi líklegt að væri nýlegur. Það er samt svo langt síðan ég kom síðast til Þingvalla að ég taldi mig ekki geta fullyrt neitt um aldur stígsins. Hins vegar var timbrið í honum ljósara og ekki eins veðrað og í öðrum stígum þannig að hann leit vissulega út fyrir að vera nýr. Hvað á maður þá að segja? Mér hefur lengi fundist vanta orðið nýleglegur í merkingunni 'sem lítur út fyrir að vera nýlegur'. Það er að vísu ekki venja í málinu að nota sama viðskeytið tvisvar í röð, en nýleglegur nær samt einmitt merkingunni sem ég var að leita að. Er það ekki bara ágætt orð?

Posted on Færðu inn athugasemd

manneskjubein

Í Morgunblaðinu í dag er grein um „Afkynjun íslenskunnar“. Þar segist greinarhöfundur hafa hrokkið við þegar hann heyrði talað um manneskjubein í útvarpinu, en hafi svo áttað sig á því að þetta væri beint framhald af orðalaginu manneskja ársins sem Ríkisútvarpið hefur notað undanfarin ár í stað maður ársins. Í framhaldi af þessu segir höfundur: „Við erum orðin dauðhrædd við að taka okkur orðið „maður“ í munn. Það er að verða eitt ferlegasta bannorðið.“

Þetta er viðkvæmt og umdeilt mál sem ég hef áður skrifað um og ætla ekki að ræða í dag, nema til að benda á að á 19. öld var orðið manneskja iðulega notað þar sem nú væri venjulega notað orðið maður. Í Skírni 1830 segir t.d.: „Í þeirri fyrstu ritgjörð, um Frjálsræði manneskjunnar, [...]“, í Skírni 1846 segir „Margt er þá að hreifa sér, sem oss dauðlegum manneskjum er ómögulegt að sjá fyrir endann á“, og í Norðra 1859 segir „en svo veglegt er hið fegursta, sem syndug manneskja getur veitt hjer á jörðunni, fyrirgefningin“. Mikinn fjölda hliðstæðra dæma mætti nefna.

Það þarf því ekki að koma á óvart að manneskjubein er ekki nýsmíði einhverra ónafngreindra sem vilja afkynja íslenskuna á 21. öldinni, heldur hátt í 200 ára gamalt orð. Í sóknarlýsingu frá Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1841 er talað um „manneskjubein og litlar fornleifar aðrar, sem í fyrra fundust í jörðu nálægt bæ þeim er Björg heitir, skammt fyrir sunnan Friðriksgáfu“. Ég er ekki að halda því fram að orðið hafi lifað í málinu frá þessum tíma – bara benda á að orð af þessu tagi þurfa ekki endilega að bera vott um einhverjar þvingaðar málbreytingar.

Posted on Færðu inn athugasemd

meðvirkur

Nýlega var ég spurður hvort réttara væri að segja meðvirkur kerfinu eða meðvirkur með kerfinu. Þetta er ekki alveg einfalt eins og ég komst að þegar ég fór að skoða sögu orðsins. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'standa með e-m á rangri braut vegna misráðinnar góðsemi eða ótta' og tekið fram að það sé „einkum um aðstandanda alkóhólista“. Skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'haldinn meðvirkni', en meðvirkni er 'hegðunarmynstur, t.d. hjá aðstandanda alkóhólista, þar sem hegðun og líðan aðstandandans stjórnast af áhrifavaldinum'. Í viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er orðið hins vegar þýtt sem medvirkende sem merkir fremur 'þátttakandi'.

Orðið meðvirkur er hvorki að finna í fyrstu útgáfu Íslenskrar orðabókar frá sama ári né annarri útgáfu frá 1983, en það er þó talsvert eldra – elsta dæmi sem ég finn um það er í blaðinu Hæni 1928 þar sem segir „Halldór Stefánsson er meðvitandi og meðvirkur í löggjöfinni um sitt embætti“. Í Verklýðsblaðinu 1932 segir „Í kommúnistaflokkunum eru það meðlimirnir, sem öllu ráða og allt skipulag flokksins miðað við það, að allir séu starfandi og meðvirkir um öll mál.“ Einnig er oft talað um meðvirka orsök. Í þessum dæmum er ljóst að meðvirkur merkir 'virkur', 'þátttakandi í', 'einn af', og sama máli virðist gegna um öll dæmi fram til 1990. Trúlegt er að orðið sé komið úr dönsku þar sem medvirkende merkir einmitt þetta eins og áður segir.

Fyrsta dæmi sem ég finn um þá merkingu sem nú er gefin í orðabókum er í Pressunni 1990, þar sem segir: „Sá eða sú sem giftist eða fer í sambúð með fíkli verður meðvirkur, en það þýðir einfaldlega að hann fer að styðja við fíknina og gera ástandið verra.“ Tveimur árum seinna er svo grein um áfengis- og fíknimeðferð í Morgunblaðinu sem hefst svo: „„Meðvirkni“ er eitt af nýyrðunum í tungumáli okkar og langt frá því að það hafi skipað sér fastan sess.“ Í eldri dæmum um meðvirkni á tímarit.is merkir það 'þátttaka', en frá 1990 er það alltaf notað í tengslum við áfengissjúklinga. Upp úr því fjölgar dæmum um bæði meðvirkur og meðvirkni mjög og nýja merkingin festist í sessi en sú eldri hörfar.

Þetta er skemmtilegt dæmi um orð sem hafa breytt um merkingu – að því er virðist án þess að við höfum tekið eftir því, og án þess að nokkur hafi amast við því. Ástæðurnar fyrir því að það gat gerst eru nokkrar. Í fyrsta lagi voru bæði lýsingarorðið meðvirkur og nafnorðið meðvirkni sjaldgæf, einkum það síðarnefnda – um það eru aðeins fjögur dæmi á tímarit.is fram til 1990, en um 80 um það fyrrnefnda. Dönsk áhrif voru líka orðin hverfandi þannig að merking medverkende í dönsku var málnotendum ekki ofarlega í huga. Á níunda áratugnum voru viðhorf til áfengissýki og annarra fíknisjúkdóma að breytast og umræða um þessi mál að aukast, og það kallaði á nýjan orðaforða. Þessi orð voru því strax mikið notuð í nýju merkingunni og það styrkti hana í sessi.

En komum aftur að upphafsspurningunni – hvort á að segja meðvirkur kerfinu eða meðvirkur með kerfinu? Lengst af var meðvirkur notað án þess að taka með sér nafnorð í aukafalli eða forsetningarlið – það var talað um meðvirka orsök, meðvirka ástæðu, meðvirka þátttakendur, meðvirka þjóðfélagsþegna, og einnig að vera meðvirkur í einhverju, meðvirkur um eitthvað o.s.frv. Elsta dæmi sem ég finn um meðvirkur einhverju(m) er í Lögbergi 1932 þar sem segir: „Það er eins og hinn andlegi, óforgengilegi líkami sé meðvirkur anda mannsins, þegar jarðneski líkaminn sefur og er meðvitundarlaus.“ En slík dæmi eru sárafá.

Elsta dæmi sem ég finn um að meðvirkur taki með sér forsetningarlið, meðvirkur með einhverjum, er í Tímariti hjúkrunarfræðinga 1997, þar sem segir: „Smám saman rann það upp fyrir mér að ég var orðin meðvirk með konunni.“ Þessi málnotkun breiddist svo ört út og um hana má finna fjölda dæma frá síðustu tveimur áratugum. Í Risamálheildinni er meðvirkur með einhverjum rúmlega sjö sinnum algengara en meðvirkur einhverjum. Aftur á móti verður nafnorðið meðvirkni að taka með sér forsetningarlið í þessari merkingu, meðvirkni með einhverjum. Ef notað er nafnorð í eignarfalli í staðinn, meðvirkni einhvers, er merkingin önnur – vísar til þess sem er meðvirkur en ekki þess sem meðvirknin beinist að.

Það er auðvitað mjög algengt að sami orðhlutinn (sama myndanið) sé bæði forliður í samsettu orði og forsetning eða atviksorð sem samsetta orðið tekur með sér. Þetta eru dæmi eins og eftirspurn eftir, áhugi á, aðlögun að, tillit til, umsókn um, viðbrögð við, yfirlit yfir, afskipti af, úrval úr, meðmæli með og mörg fleiri. Stundum er amast við þessari tvítekningu – Gísli Jónsson hafði t.d. ímugust á mörgum slíkum samböndum og skrifaði oft um þau í þáttum sínum í Morgunblaðinu. Stundum er vissulega hægt að komast hjá tvítekningunni en oftast verður samt merkingin önnur ef orðhlutanum er sleppt á öðrum hvorum staðnum.

Þyki fólki fara illa á tvítekningu er vissulega hægt að komast hjá henni með því að segja meðvirkur kerfinu, og dæmi um sambandið með nafnorði í aukafalli eru líka eldri en dæmin um forsetningarlið, þó dæmin séu reyndar svo fá að á þeim er lítið að byggja. Tvítekning er hins vegar óhjákvæmileg með nafnorðinu meðvirkni eins og áður segir, og hugsanlega væri heppilegt að nota hana þá líka með lýsingarorðinu. Það er þó ómögulegt að segja að annað sé réttara en hitt og á endanum er þetta smekksatriði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sérhljóðsbrottfall í áherslulausum atkvæðum

Í íslensku gildir sú meginregla um tvíkvæð ósamsett orð að áherslulausa sérhljóðið í öðru atkvæði fellur brott ef beygingarending orðsins hefst á sérhljóði. Þetta á einkum við orð með viðskeytum eins og -all, -ill og -ull, en einnig ýmis fleiri. Þannig segjum við hamar, hamar-s, en hamr-i, hamr-ar, hamr-a, hömr-um; jökul-l, jökul-s, en jökl-i, jökl-ar, jökl-a, jökl-um; hefil-l, hefil-s, en hefl-i, hefl-ar, hefl-a, hefl-um; höfuð, höfuð-s, en höfð-i, höfð-um, höfð-a; gaman, gaman-s, en gamn-i; o.s.frv.

Þetta brottfall getur síðan leitt til ýmissa annarra hljóðbreytinga í orðunum. Þegar a-ið í seinna atkvæðinu fellur brott í þágufalli fleirtölu af hamar leiðir það til þess að fyrra a-ið breytist í ö, hömrum, vegna þess að u-ið í endingunni er þá í næsta atkvæði á eftir. Þegar u-ið fellur brott í seinna atkvæði jökull lenda k og l saman og þá kemur fram svokallaður aðblástur (h-hljóð). Þegar i fellur brott í seinna atkvæði hefill koma f (v) og l saman og þá breytist önghljóð í lokhljóð – v verður b. Ýmis fleiri dæmi mætti nefna.

Brottfallsreglan er þó ekki undantekningarlaus. Áður fyrr voru það aðeins sérhljóðin a, i og u sem gátu komið fyrir í áherslulausum atkvæðum, og það eru einu hljóðin sem þetta brottfall verkar á. Nú eru í málinu ýmis tökuorð sem hafa önnur sérhljóð í áherslulausum atkvæðum ósamsettra orða, og þau hljóð falla ekki brott þótt ending hefjist á sérhljóði. Fleirtala orðsins mótor er þannig mótor-ar, ekki *mótr-ar, fleirtala orðsins lager er lager-ar, ekki *lagr-ar, þágufall eintölu af korter er korter-i, ekki *kortr-i, og svo mætti lengi telja.

En undantekningarnar eru fleiri. Fleirtalan af bikar er ekki *bikr-ar eins og búast mætti við, heldur bikar-ar, þágufallið af gjöful-l er ekki *gjöfl-an, heldur gjöful-an, þágufall nafnanna Gunnar og Kjartan er Gunnar-i og Kjartan-i, o.fl. Í sumum tilvikum virðist þágufallsendingunni -i sleppt og þágufall haft eins og þolfallið til að forðast myndir þar sem brottfall ætti að verða. Þannig er þágufallið af pipar alltaf pipar, ekki *pipr-i, og þágufall nafnanna Hugin-n og Munin-n er Hugin og Munin, ekki *Hugn-i og *Munn-i.

Það er ekki alltaf auðvelt að skýra þessar undantekningar. Þó er ljóst að brottfallið verður miklu síður í tökuorðum – það á við um mótor, lager, korter, bikar, pipar og mörg fleiri. Einnig er sennilegt að brottfall verði síður í sjaldgæfari orðum en algengum, þótt ýmis dæmi séu vissulega um brottfall í sjaldgæfum orðum. Einhver tilhneiging virðist líka vera til að forðast brottfall ef það ylli samhljóðabreytingum í stofni, eins og það myndi gera í orðum eins og gjöfull, hugull, spurull o.fl.

Brottfall verður samt oft þótt það valdi samhljóðabreytingum, eins og dæmi voru nefnd um hér að framan. En þegar Orðanefnd rafmagnsverkfræðinga var að velta fyrir sér þýðingu orðsins dynamo höfðu komið fram tvær tillögur – rafall og rafali. Nefndin ákvað að mæla fremur með veiku myndinni rafali þótt sterka myndin rafall væri algengari. Ástæðan var sú að nefndin vildi komast hjá þeirra hljóðbreytingu sem verður í beygingu rafall, þar sem b kemur í stað v í myndum þar sem brottfall verður og framburðurinn yrði því rabli sem þótti óæskilegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eðlileg þróun

Iðulega les ég á samfélagsmiðlum að ýmsir málfræðingar, þ. á m. ég, telji allar málbreytingar „eðlilega þróun“ og vilji þess vegna ekki gera neitt til að sporna við þeim – fagni þeim jafnvel. Þetta er oft sagt í hæðnis- eða hneykslunartón og haft til marks um að álit umræddra málfræðinga sé að engu hafandi, þeir hafi gefist upp í baráttunni við „málvillur“ og hvers kyns hroðvirkni og skjóti sér þess vegna á bak við einhverjar fræðikenningar. Látum svo vera í bili en komum að því síðar. En hvað merkir það að einhver málbreyting sé „eðlileg þróun“?

Margar málbreytingar – kannski flestar – eiga rætur í máltöku barna. Börn tileinka sér ekki málið með því að læra reglur sem aðrir hafa sett fram. Þau búa sér til sínar eigin reglur með því að greina – ósjálfrátt og ómeðvitað – málið sem þau heyra í kringum sig. Þessar reglur nota þau síðan til að mynda eigin orð og setningar. En þótt börnin séu ótrúlega glúrnir greinendur hafa þau ekki mikið að byggja á í upphafi, og þess vegna verða reglur þeirra óhjákvæmilega oft rangar þannig að útkoman verður önnur en í máli fullorðinna.

En börnin festa sig ekki í upphaflegum reglum, heldur endurskoða þær aftur og aftur, eftir því sem þau fá meiri gögn til að byggja á. Smátt og smátt læra þau líka undantekningar frá reglunum – beygingu orða sem fylgja ekki venjulegum mynstrum, sjaldgæfar setningagerðir o.s.frv. Það kemur samt alltaf fyrir að endanlegar reglur barnanna skila ekki nákvæmlega sömu útkomu og reglur foreldranna, eða þau tileinka sér ekki allar undantekningar frá reglunum. Það leiðir af eðli máltökunnar og gerist í öllum tungumálum. Það er eðlileg þróun.

Börnin vaxa svo upp og skila málinu þannig breyttu til næstu kynslóðar þannig að breytingin breiðist út. En þótt slík þróun sé eðlileg og óhjákvæmileg geta mjög miklar eða hraðar breytingar dregið úr hæfi málsins til að sinna hlutverki sínu sem samskiptatæki milli fólks og menningarmiðlari milli kynslóða. Þess vegna er almennt séð æskilegt að grundvallaratriði málkerfisins séu sæmilega stöðug. En það er nauðsynlegt að leggja mat á málbreytingar út frá þessu – átta sig á hvaða breytingar gætu hugsanlega raskað málkerfinu og gert málið að verra tæki og láta hinar í friði.

Málfræðingar hafa – eða ættu að hafa – betri forsendur en aðrir til að leggja slíkt mat á málbreytingar, og afstöðu málfræðinga til málbreytinga hefur stundum verið líkt við afstöðu jarðfræðinga til eldgosa. Þeir fagna þeim ekki endilega en þau verða þeim ómetanleg uppspretta þekkingar og sú þekking gerir þeim m.a. kleift að spá betur fyrir um gos og auka þannig öryggi fólks. Þótt málfræðingar fagni ekki endilega málbreytingum eða telji þær æskilegar í sjálfu sér gera þær þeim kleift að átta sig betur á eðli tungumálsins.

Þessi aukna þekking á eðli tungumálsins skilar sér m.a. í því að unnt er meta betur hvers konar breytingar gætu raskað grundvelli málkerfisins og hvort einhver merki sjáist um slíkar breytingar. Á þeim grundvelli er síðan hægt að meta hvort og hvernig ástæða sé til að reyna að hægja á einhverjum breytingum eða stöðva þær. Eðlileg þróun þarf nefnilega ekki alltaf að vera æskileg.

Posted on Færðu inn athugasemd

Honum sagðist vera létt

Ég sá á netinu umræðu um setninguna „Honum sagðist vera létt eftir að hafa birt myndirnar sjálfur“ sem stóð í DV í dag. Það voru skiptar skoðanir um hvort þessi setning stæðist – mörgum fannst frekar eiga að vera hann sagði að sér væri létt eða hann sagði sér vera létt. Það sem er óvenjulegt við þessa setningu er að frumlag sagnarinnar segjast, honum, stendur í þágufalli þótt sögnin taki venjulega nefnifallsfrumlag – hann sagðist vera leiður, hún sagðist vera glöð o.s.frv.

Það er augljóst að þágufallið er komið frá sambandinu vera létt sem segjast tekur með sér. Við segjum mér er létt, honum er létt o.s.frv. Það er svo sem ekki einsdæmi að nafnháttarsögn ráði fallinu á frumlagi aðalsagnar á þennan hátt. Sagnir eins og virðast og sýnast haga sér svipað – þær ráða ekki fallinu á frumlagi sínu, heldur kemur það frá sögninni sem þær taka með sér. Við segjum hún virtist vera glöð, hana virtist vanta peninga, henni virtist vera kalt, hennar virtist vera þörf – vegna þess að við segjum hún er glöð, hana vantar peninga, henni er kalt, hennar er þörf.

Munurinn á virðast og segjast er hins vegar sá að þegar virðast tekur nafnháttarsögn næst á eftir sér ræður sú sögn alltaf falli frumlagsins, en segjast hefur venjulega sjálfstætt nefnifallsfrumlag. Þess vegna finnst okkur eðlilegt að segja honum virtist vera létt en skrítið að segja honum sagðist vera létt – í seinna tilvikinu söknum við nefnifallsfrumlagsins. En þótt slíkar setningar séu sjaldgæfar eru þær ekki einsdæmi. Í fornu máli koma fyrir nokkur dæmi hliðstæð því sem vitnað var til í upphafi.

Þar er að vísu notuð sögnin kveðast sem þá var margfalt algengari en segjast. Í Sturlungu segir t.d. „Árna kvaðst það illt þykja“ og „Hrafni Oddssyni kvaðst það vel líka“, og í Reykdæla sögu segir „Honum kvaðst illa hug um segja“. En í fornu máli eru líka dæmi þar sem kveðast fær að hafa sitt nefnifallsfrumlag en nafnháttarsögnina sem á eftir kemur vantar þá þágufall – „Þórður kvaðst þykja tvennir kostir til“ og „Hrafn kvaðst sýnast að haldinn væri“ segir í Sturlungu, og „Þorgils kvaðst leiðast þarvistin“ segir í Flóamanna sögu.

Hér eru sem sé tveir kostir og báðir vondir. Annar er sá að leyfa segjast / kveðast að hafa sitt nefnifallsfrumlag í friði og segja hann sagðist vera létt. En þá sér þágufallsins sem nafnháttarsögnin sem kemur á eftir tekur venjulega með sér engan stað, og það truflar okkur. Hinn kosturinn er að leyfa nafnháttarsögninni að taka völdin af segjast / kveðast og ráða falli frumlagsins og segja honum sagðist vera létt, en þá truflar það okkur að frumlagið skuli ekki vera í nefnifalli.

En þótt dæmi séu um hvort tveggja í fornu máli þýðir það ekki endilega að þetta séu heppilegar setningagerðir. Sem betur fer eru nefnilega til tveir aðrir kostir, eins og nefnt er hér að framan – að nota germyndina segja í stað miðmyndarinnar segjast og annaðhvort leyfa nafnháttarsögninni að halda frumlagi sínu, hann sagði sér vera létt, eða nota skýringarsetningu í staðinn, hann sagði að sér væri létt. Ég held að það sé rétt að mæla frekar með þessum kostum en hinum tveimur.