Posted on Færðu inn athugasemd

Enginn dagur eins

Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust upphaflega í dagblöðum 1982 segir:

  • Sagt var: Í þessari vinnu er enginn dagur eins.
  • Rétt væri: Í þessari vinnu eru engir tveir dagar eins.
  • Eða: Í þessari vinnu er enginn dagur sem annar.

Þetta sýnir að orðalag af þessu tagi, þ.e. enginn dagur er eins, hefur verið farið að láta á sér kræla fyrir 40 árum – annars hefði ekki þótt ástæða til að vara við því. Athugun sýnir að þetta orðalag er a.m.k. 70 ára gamalt í málinu og virðist hafa farið að breiðast nokkuð út á áttunda áratug síðustu aldar, en þó einkum á síðasta aldarfjórðungi.

Í Heimilisritinu 1951 segir: „Ég hef sagt, að ferðalög okkar hafi verið viðburðasnauð, og þó var enginn dagur eins.“ Í Vísi 1969 segir: „Mér finnst þetta tilbreytingarríkt og enginn dagur er eins.“ Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „En enginn er eins.“ Í Kirkjuritinu 1977 segir: „Og svo auðug er sköpun Guðs að enginn dagur er eins.“ Í DV 1983 segir: „Stíllinn er hið djúpa ego þar sem enginn er eins.“ Í Tímanum 1996 segir: „Það er enginn eins.“ Í DV 1996 segir: „hver þeirra hefur sinn persónuleika og það er enginn eins.“ Eftir þetta fer dæmum ört fjölgandi.

Mörgum finnst setningar af þessu tagi ófullkomnar vegna þess að eins hljóti að kalla á samanburð sem vanti í setninguna – eins og hvað? En það eru í sjálfu sér ekki nægileg rök til að hafna þessu orðalagi vegna þess að í málinu má finna ýmislegt sambærilegt sem þykir gott og gilt. Í setningu eins og það eru allir jafnir má spyrja jafnir hverju? Svipað má segja um dæmi eins og allir eru líkir og systurnar eru ólíkar. Stundum er innbyrðis bætt við til að gera setningarnar ótvíræðar, allir eru líkir inbyrðis, systurnar eru innbyrðis ólíkar, en það er ekki nauðsynlegt – setningarnar skiljast yfirleitt án þess.

Setningar á við enginn er eins merkja ævinlega 'enginn er eins og annar slíkur' – enginn dagur er eins og annar dagur, enginn maður er eins og annar maður o.s.frv. Viðmiðið er í raun innbyggt í eins, alveg á sama hátt og það er innbygt í ólíkar í systurnar eru ólíkar sem merkir 'systurnar eru ólíkar hvor/hver annarri'. Í báðum tilvikum er hægt að breyta samanburðinum með því að nefna viðmiðið sérstaklega – enginn dagur er eins og brúðkaupsdagurinn, systurnar eru ólíkar mömmu sinni (sem segir ekkert um hvort systurnar séu líkar eða ólíkar hvor/hver annarri). En sé viðmiðið ekki nefnt eru setningarnar túlkaðar þannig að það sé innbyggt.

Það er sem sé ekki hægt að hafa það á móti setningum á við enginn dagur er eins að þær séu „órökréttar“ eða eigi sér ekki hliðstæðu í málinu. Hins vegar er ekki langt síðan þetta orðalag fór að breiðast út og þess vegna hljómar það ankannanlega í eyrum margra sem ekki hafa alist upp við það. Ég lét þetta lengi vel fara í taugarnar á mér og skil vel fólk sem sama gildir um. En hér gildir að sýna umburðarlyndi gagnvart mismunandi málvenjum þótt þær falli ekki að manns eigin málkennd. Þetta orðalag er orðið fast og útbreitt í málinu og ekki ástæða til að berjast gegn því. Hér finnst mér eiga við að vitna í sjálfan mig:

„Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum, finnst mér mál til komið að viðurkenna hana sem málvenju og þar með „rétt mál“. Það þarf ekki endilega að þýða að hún sé talin æskileg í hvaða málsniði sem er, en það þýðir að hún er ekki fordæmd og fólk sem hefur hana í máli sínu er ekki litið hornauga eða hneykslast á því.“ Það er ljóst að þetta orðalag uppfyllir öll framangreind skilyrði og vel það. Málfarsbankinn segir líka: „Vel gengur að segja engir dagar eru eins.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Einelti og að einelta

Orðið einelti er mjög algengt í nútímamáli og kemur fyrir í ýmsum samböndum – talað er um alvarlegt einelti, gróft einelti, mikið einelti, verða fyrir einelti, þola einelti, beita einelti, gerendur eineltis, þolendur eineltis, fórnarlömb eineltis og margt fleira. Orðið er gamalt í málinu en lengst af kom það nær eingöngu fyrir í sambandinu leggja í einelti. Undantekningar eru örfáar, t.d. „þá finst mér ástæða til að átelja verðlagsnefndina, fyrir alveg óskiljanleg mistök og einkennilegt einelti við mjólkursöluverðið“ í Landinu 1916 og „Þetta var upphaf eineltis, sem átti eftir að taka á sig æ ískyggilegri mynd“ í Morgunblaðinu 1969. Dæmi eru um að einelti sé haft í kvenkyni, og kvenkynsmyndin einelta kemur einnig fyrir í fáeinum gömlum dæmum, þ. á m. einu frá um 1500.

Árið 1975 lagði Halldór Halldórsson prófessor til að orðið einelti yrði tekið upp sem þýðing á interception í flugmáli, og sú merking orðsins er gefin í FlugorðasafniÍðorðabankanum). Um þessa tillögu sagði hann: „Það má vera, að sumum virðist það furðudjarft að taka orð, sem aðeins er notað í einu orðasambandi, í þessu tilviki að leggja einhvern í einelti, og gefa því nýja merkingu. Ég skil þetta sjónarmið vel, en er þó ekkert hræddur við slíkar nýmyndanir. […] Við nýyrðamyndun verður að beita flestum tiltækum ráðum. Orð úr orðtökum eru að þessu leyti enginn helgur dómur.“ Halldór hefði varla lagt þetta til ef orðið hefði þá verið farið að breiðast út í öðrum samböndum en með leggja.

En um eða rétt fyrir 1980 var orðið slitið frá sögninni leggja og farið að nota það sem íðorð í uppeldisfræði og fleiri greinum sem samsvörun við mobbing (eða bullying) á ensku. Í Dagblaðinu 1981 segir „Þá er sagt að fjölskylda hans hafi hjálpað honum að byggja upp þennan blekkingavef í því skyni að losa hann úr eineltinu“, og í Tímariti Máls og menningar 1982 segir „Einar Hjörleifsson skrifaði um einelti og stríðni í skólanum“. Í NT haustið 1984 er opnugrein sem heitir „Er barnið þitt beitt ofbeldi í skólanum?“ og þar kemur orðið einelti fyrir í ýmsum samböndum þannig að það er greinilega komið í umferð sem íðorð. Dæmum um orðið fer svo mjög ört fjölgandi á tíunda áratugnum og einkum á þessari öld.

Stundum bregður sögninni einelta einnig fyrir. Elsta dæmið um hana er í „Rökfræði“ Arnljóts Ólafssonar í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891, en merkingin er þar nokkuð önnur en í nafnorðinu. En í Íslendingi 1919 segir „Virðist ekkert annað mál komast að hjá Degi sjálfum, þegar hann er að einelta Björn Líndal“. Þarna merkir sögnin greinilega 'leggja í einelti'. Sama máli gegnir um dæmi úr Neista 1950: „Ein af starfsaðferðum kommúnista er að einelta forystumenn Alþýðufl.“, og úr Lesbók Morgunblaðsins 1963: „Hann eineltir okkur — andskotinn!“ Fáein dæmi eru svo frá síðustu 30 árum, eftir notkun nafnorðsins einelti jókst. Halldór Halldórsson stakk reyndar upp á sögninni einelta sem þýðingu á intercept árið 1975 en sú tillaga virðist ekki hafa hlotið hljómgrunn.

En sögnin einelta er sjaldgæf enn sem komið er og kemur mörgum spánskt fyrir sjónir eins og aðrar nýjungar í máli. Stundum er hún kennd við barnamál: „Einelti er svo mikið rætt í skólunum að börnin hafa mörg hver gert nafnorðið að sögn og hafa ófáir kennarar brosað í laumi yfir orðavali nemenda sinna sem segja „Hann var að einelta hana““ segir í Fréttatímanum 2012. En ekki verður séð að neitt sé athugavert við þessa sögn. Samsettar sagnir með -elta sem síðari lið eru til í málinu, s.s. hundelta. Því er líka oft haldið fram að íslenska sé „sagnamál“, og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs ef þess er kostur – tala um að kanna frekar en gera könnun, rannsaka frekar en framkvæma rannsókn, o.s.frv. Ég er ekki að leggja til að við hættum að tala um að leggja í einelti – en er ekki ágætt að eiga kost á að nota sögnina einelta í staðinn?

Einnig veltir fólk stundum fyrir sér hvaða orð sé heppilegt að nota um gerendur eineltis. Ýmis orð hafa verið notuð, s.s. hrekkjusvíntuddieineltishrotti o.s.frv. en í ljósi þess að einelti er nú notað sem íðorð eins og áður segir væri heppilegt að eiga kost á að nota íðorð sem svarar nákvæmlega til þess um gerendur. Ég hef stungið upp á orðinu eineltir. Það er lipurt og hefur skýr tengsl við einelti. Í almennu máli er auðvitað hægt að halda áfram að nota hrekkjusvín og önnur orð sem áður er vísað til.

Posted on Færðu inn athugasemd

Áhrifslausar forsetningar

Forsetningin frá stjórnar alltaf þágufalli og forsetningarnar til og milli stjórna alltaf eignarfalli. Eða næstum alltaf. Undantekning er þegar þessar forsetningar eru notaðar í samböndum sem tákna afstöðu tveggja stærða eða upphæða hvorrar til annarrar. Nokkur dæmi af tímarit.is: „aðgerðin myndi taka allt frá tvo upp í átta tíma“, „ímynda sér að þeir væru að borða frá þrjá og upp í 30 gómsæta M&M-súkkulaðimola“, „Refirnir framleiða að meðaltali þrjá til fjóra hvolpa á ári, oturinn frá fjóra til sex hvolpa á ári“, „væri hægt að spara milli tvo og þrjá milljarða á ári í heilbrigðisþjónustunni“, „Með stofnun félagsins innleysir FL Group milli þrjá og fjóra milljarða í hagnað“, „hann féll milli fjóra og fimm metra niður af klettasyllu“, „maður kom alltaf með einn til tvo kassa af bjór með sér úr túrum“, „Á hverju fagsviði verður samið við tvo til þrjá aðila“.

Þarna koma fyrir samböndin frá tvo til, frá þrjá til, frá fjóra til; milli tvo og, milli þrjá og, milli fjóra og; X til tvo, X til þrjá, X til fjóra. Það eru bara tölurnar einn, tveir, þrír og fjórir sem beygjast þannig að ástæðulaust er að skoða hærri tölur. Ég vel eingöngu dæmi með karlkyni vegna þess að þar er hægt að sjá fallið ótvírætt – í kvenkyni og hvorugkyni eru nefnifall og þolfall eins (tvær/tvö, þrjár/þrjú, fjórar/fjögur), og í sama gildir um karlkyn tölunnar einn. Í öllum þessum dæmum er hins vegar ótvírætt um þolfall að ræða vegna þess að engin tvö föll hafa sömu mynd í karlkyni talnanna tveir, þrír og fjórir. Í fljótu bragði virðist því sem forsetningarnar frá, milli og til stjórni þolfalli í slíkum dæmum þótt þær stjórni þágufalli og eignarfalli annars.

En málið er ekki svo einfalt. Það er nefnilega hægt að finna fjölda dæma um að þessar forsetningar virðist stjórna þágufalli í sambærilegum dæmum – ekki bara frá, heldur líka milli og til. „24 sakborningar voru ákærðir fyrir brot gegn fleiri börnum (frá tveimur til sex)“, „við getum tekið við allt frá tveimur til tólf gestum í heimsókn í einu“, „munar sennilega milli tveimur til þremur metrum“, „Má ætla að Sambandið hafi tapað á milli tveimur og þremur milljörðum króna“, „Guðjón sem leikstýrir milli tveimur og fjórum sýningum á ári“, „meðal annars varið milli þremur og fjórum þúsundum króna til þess að endurbæta íþróttavöllinn“, „Á milli þremur og fjórum milljörðum króna var lýst í bú hans“, „þá var lagt upp með að hún væri í tveimur til fjórum senum“.

Ef að er gáð kemur í ljós að á undan sambandinu kemur alltaf sögn eða forsetning sem stýrir þágufalli: brot gegn tveimur börnum, tekið við tveimur gestum, munar tveimur til þremur metrum, tapaði tveimur milljörðum, leikstýrir tveimur sýningum, varið þremur þúsundum, lýsti þremur milljörðum, í tveimur til fjórum senum. Í dæmum með frá gæti þágufallið vissulega verið komið þaðan frekar en frá sögn eða forsetningu þar á undan, en í dæmum með milli og til hlýtur þágufallið að vera komið frá viðkomandi sögn eða forsetningu. Eina skýringin á þessu er sú að forsetningarnar frá, milli og til stjórni í raun alls ekki falli í þessum samböndum heldur hleypi fallstjórn undanfarandi sagnar eða forsetningar í gegnum sig, ef svo má segja. Á eftir frá, milli og til kemur þess vegna þolfall ef sögnin eða forsetningin á undan stýrir þolfalli, þágufall ef hún stýrir þágufalli.

Hér verður þó að hafa fyrirvara. Það er nefnilega stundum hægt að láta forsetningarnar stýra sínum „eðlilegu“ föllum í þessum samböndum, í dæmum eins og „Húsin höfðu frá tveimur til fjögra palla“ (í stað tvo til fjóra palla), „munu þær hafa tekið frá þremur til fjögurra marka“ (í stað þrjár til fjórar merkur), „er fjöldi þeirra nú á milli tveggja og þriggja milljóna á ári“ (í stað tvær og þrjár milljónir) o.fl. Ég hef ekki skoðað við hvaða aðstæður bæði afbrigðin ganga, eða hvort annað afbrigðið er skyldubundið við tilteknar aðstæður. Einnig verður að benda á að þetta er bundið við að um tölur sé að ræða. Í öðrum tilvikum stjórna forsetningarnar venjulegum föllum: frá hausti til vors, frá Reykjavík til Akureyrar, milli fjalls og fjöru, milli Hellu og Hvolsvallar o.s.frv.

Posted on Færðu inn athugasemd

Löggilt gamalmenni

Af því að ég verð bráðum 67 ára fór ég að skoða aðeins orðalagið löggilt gamalmenni. Þetta orðalag virðist ekki vera mjög gamalt. Elstu dæmin á tímarit.is eru frá 1981 en allt frá þeim tíma eru allnokkur dæmi um það frá hverju ári. Ég veit ekki hvort einhver sérstök ástæða hefur verið fyrir uppkomu þess á þessum tíma – hvort einhverjar lagabreytingar kunna að liggja þar að baki.

Langoftast virðist átt við 67 ára aldur sem er almennur ellilífeyris- og eftirlaunaaldur en þó eru dæmi um annað: „Sjálfur er ég tæplega 63 ára og telst orðið löggilt gamalmenni“; „hann stendur á sextugu, en „samkvæmt lögum er ég orðinn löggilt gamalmenni“, segir Guðmundur“. Í þessum tilvikum voru mælendur komnir á eftirlaun samkvæmt sérstökum reglum, þótt þeir væru ekki orðnir 67 ára.

Þetta orðalag er líklega oftast notað í hálfkæringi eða biturð eins og ýmis dæmi á tímarit.is sýna: „„Á næsta ári verð ég löggilt gamalmenni,“ sagði Kristinn og hló“; „Eftir að við erum orðin „löggilt gamalmenni“, eins og fólk segir stundum í hálfkæringi þegar það fær rétt til ellilauna“; „samkvæmt lögum er ég orðinn löggilt gamalmenni“, segir Guðmundur og brosir“; „Þeir, sem ekki eru orðnir „löggilt gamalmenni“ eins og það var svo biturlega orðað af þátttakendum á námskeiðinu“; o.fl. Mjög oft er þetta líka haft innan gæsalappa og iðulega tekið fram að fólk hafi notað það um sjálft sig.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gengisbreyting lýsingarorða

Eins og kunnugt er breytist orðaforði málsins og orðanotkun ekki aðeins á þann hátt að nýyrði og tökuorð bætist við; einnig koma til breytingar á merkingu gamalla orða, sem verið hafa í málinu frá fornu fari. En merkingarbreytingar eru hvorki jafn áberandi né sama eðlis í öllum orðflokkum. Nafnorð eru oft heiti ákveðinna hluta, og sagnir eiga oft við einhverja verknaði; það er því oft auðveldara að negla merkingu þeirra niður, ef svo má segja, en t.d. merkingu lýsingarorða.

Hvaða lýsingarorð við notum byggist nefnilega oft á huglægu mati okkar, hvers og eins, en tengist engu sérstöku í umhverfi okkar. Ef við sjáum mann á hlaupum, getum við væntanlega orðið sammála um að það sem við sjáum sé maður, og hann sé að hlaupa, því að við getum tínt til ákveðin sýnileg eða áþreifanleg atriði sem einkenni fyrirbærið mann og athöfnina að hlaupa. En ef okkur greinir á um hvort einhver bíll sé góður, ágætur, sæmilegur, frábær, lélegur eða æðislegur, þá getum við ekki skorið úr því á sama hátt, þ.e.a.s. með tilvísun til ákveðinna ytri einkenna.

Það er ekkert samkomulag um það hvernig bíll þurfi að vera til að geta talist góður, ágætur o.s.frv. Það má að vísu hugsa sér slíkt samkomulag, t.d. að þeir sem prófa bíla og gefa þeim umsagnir fyrir blöðin kæmu sér saman um nákvæmlega hvernig góður bíll ætti að vera, ágætur bíll o.s.frv. En þá værum við búin að breyta þessum lýsingarorðum í eins konar fræðiheiti á þessu sviði, og þetta hefði engin áhrif á notkun þeirra í öðru samhengi. Og ef verið væri að tala t.d. um bók, væri þessi leið líka ófær.

Þetta veldur því að merking og notkun lýsingarorða, einkum þeirra sem tákna magn eða gæði, er alltaf á dálitlu flökti.  Ég sá skýrt dæmi um það  um daginn þegar ég rak augun í einkunnastiga þann sem notaður er í plötudómum NT. Röð lýsingarorða í þeim stiga var nefnilega ekki í samræmi við þá merkingu sem ég hef lagt í orðin. Bestu plöturnar fengu þar einkunnina meistaraverk, síðan kom frábært og mjög gott, og hef ég ekkert við það að athuga; en síðan komu einkunnirnar gott, ágætt og sæmilegt, í þessari röð ofan frá. Og það var staða orðsins ágætt í þessari röð sem kom mér á óvart.

Það er ekki ýkja langt síðan ágætur var eitt sterkasta lýsingarorðið, sbr. það að efsti hluti einkunnastiga í skólum nefnist ennþá ágætiseinkunn. En nokkuð er síðan orðið fór að falla í verði, og mig rámar í að fyrir nokkrum árum hafi verið deilt um það í blöðum hvort væri betra, ágætt eða mjög gott. Samkvæmt þessum einkunnastiga virðist ágætt meira að segja komið niður fyrir gott, eitt og sér, hvað þá mjög gott, og er bara næst fyrir ofan sæmilegt. Örlög þessara tveggja orða, ágætur og sæmilegur, hafa því orðið svipuð, því að verðfall lýsingarorða er engin ný bóla. Orðið sæmilegur merkti að fornu 'sá sem sæmir einhverjum', og það var því miklu betra þá en nú að vera sæmilegur.

En það er oft erfitt að gera sér grein fyrir því hvort og að hve miklu leyti merking lýsingarorðs hefur breyst. Það er vegna þess að notkun lýsingarorðs byggist á huglægu mati notandans, eins og áður sagði; og við getum ekki alltaf verið viss um hvert mat hans er.  Það má taka dæmi af orðinu frábær, sem ennþá virðist halda stöðu sinni ofarlega eða efst í stiganum. En þetta orð hefur ekki alltaf merkt það sem það merkir nú, a.m.k. ekki eingöngu. Í fornmálsorðabókum er það sagt merkja annaðhvort 'ágætur' eða 'óvenjulegur'. Oft er það svo að ekki er hægt að ráða af samhenginu hvort á við.

Það á t.d. við um eftirfarandi dæmi úr Reisubók Jóns Indíafara, sem rituð er á seinni hluta 17. aldar, en þar segir á einum stað: „Kvinna hans tók fegins hendi við mér og sagði mig Guði velkominn með frábæru blíðlæti.“ Hér geta báðar merkingarnar staðist. Hægt er að hugsa sér að Jón sé þarna að láta í ljós ánægju sína með móttökurnar, og orðið sé notað u.þ.b. í nútímamerkingu. En hitt er líka til, að þarna sé aðeins um að ræða hlutlausa lýsingu þess að blíðlæti kvinnunnar hafi verið óvenju mikið.

Á öðrum stað segir Jón svo: „Og er þau litu í brunninn, gáfu þau mikið hljóð af sér og sögðu, að þar flyti eitt dautt meybarn í brunninum. Slíkt frábært tilfelli barst skyndilega um borgina ...“ Tæplega er ástæða til að ætla að Jón Indíafari hafi haft svo sérkennilegan húmor að honum hafi þótt þetta fyndið, heldur mun frábært þarna merkja 'óvenjulegt'.

(Þessi pistill var upphaflega fluttur í útvarpsþættinum Daglegt mál sumarið 1984.)

Posted on Færðu inn athugasemd

Utankjörfundur

Orðið utankjörfundaratkvæðagreiðsla er eitt lengsta orð málsins, 29 bókstafir og 10 atkvæði. Sé það sett í fleirtölu með greini er það utankjörfundaratkvæðagreiðslurnar, 33 bókstafir og 11 atkvæði. Öllu lengri verða íslensk orð varla eins og lýst er í grein Magnúsar Snædal, „Hve langt má orðið vera“, í Íslensku máli 1992. Orðið er fullkomlega gagnsætt, merkir 'atkvæðagreiðsla utan kjörfundar' – þegar fólk greiðir atkvæði fyrir kjördag (áður en kjörfundur hefst) eða annars staðar en á þeim stað þar sem það er á kjörskrá. Þetta orð er a.m.k. 70 ára gamalt í málinu. Oft er líka notað orðið utankjörstaðaatkvæðagreiðsla í sömu merkingu – það er jafnmörg atkvæði en einum bókstaf styttra.

En utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur svo getið af sér afkvæmið utankjörfundur, sem er a.m.k. 20 ára gamalt. Í Fréttablaðinu 2002 er fyrirsögnin: „Utankjörfundur: Ríflega 1.900 manns hafa kosið“ og í fréttinni er talað um „atkvæðagreiðslu utan kjörfundar“. Í DV 2004 segir: „Utankjörfundur vegna kjörs forseta íslands hófst þann 1. maí hjá sýslumönnum og hreppstjórum.“ Í kosningalögum segir í 80. gr.: „Kjörfund skal setja á kjörstað kl. 9 árdegis, en yfirkjörstjórn getur þó ákveðið að kjörfundur skuli hefjast síðar, þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi.“ Atkvæði greidd á öðrum stað eða tíma eru greidd utan kjörfundar – en í lögunum er ekki til neitt sem heitir utankjörfundur.

Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig orð æxlast af orði. Fólki hefur fundist langlokan utankjörfundaratkvæðagreiðsla of stirð og viljað fá liprara orð í staðinn – utankjörfundur er rúmlega helmingi styttra, 14 bókstafir í stað 29, og helmingi færri atkvæði, fimm í stað tíu. Það má kannski bera þetta saman við bæjarnafnið Utanverðunes í Hegranesi í Skagafirði. Væntanlega hefur einhvern tíma verið sagt hann býr í utanverðu Nesi (þ.e. Hegranesi) en svo hefur fólk farið að skynja Utanverðunesi sem eina heild og úr því orðið bæjarnafn.

Auðvitað er Utanverðunes fullkomlega „órökrétt“ orð, ef út í það er farið – og sama máli gegnir um utankjörfund. En það skiptir bara engu máli. Orðið þjónar ákveðnum tilgangi og við vitum hvað það merkir. Krafa um að tungumálið sé alltaf „rökrétt“ er krafa um gelt og dautt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Virðing við málnotendur

Í bók sem ég hef verið að skrifa er kafli sem heitir „Virðing við viðmælendur“. Prófarkalesari gerði athugasemd við þetta og vildi breyta því – benti réttilega á að í Málfarsbankanum segir: „Sagt er virðing fyrir, ekki „virðing við“.“ En þarna er ekki nema hálf sagan sögð. Vissulega er sagt bera virðingu fyrir – ég get ekki sagt *bera virðingu við og veit ekki af neinum sem segja það. En bera virðingu fyrir er fast orðasamband og þótt virðing taki með sér forsetninguna fyrir í því þýðir það ekki endilega að sama forsetningin sé notuð í öðrum samböndum.

Við leit á tímarit.is kemur fram á fjórða þúsund dæma um virðing við, það elsta í Þjóðólfi 1850: „vjer gætum þá fyrst að rjettu eðli stjórnarskipunar, og að tilhlýðilegri virðingu við konungsvaldið, ef vjer látum konunginn og alþingi hafa löggjafarvaldið jöfnum höndum.“ Í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1880 segir: „Til virðingar við Frey kendu Svíar kostgripi við göltinn, sem, eins og kunnugt er, var reiðskjóti Freys.“ Í Skólablaðinu 1910 segir: „Hlýðni og virðing við yfirboðna á heimilum og í skólum er eitt af því allra nauðsynlegasta ef uppeldi og stjórn á að verða að gagni.“ O.s.frv.

Vitanlega er fráleitt að halda því fram að virðing við sé „ekki sagt“ – sé „rangt“. Það er augljóslega mjög algengt og á sér langa hefð. En ekki nóg með það – virðing við merkir ekki alveg það sama og virðing fyrir. Að bera virðingu fyrir merkir 'að líta upp til, bera lotningu fyrir' eða eitthvað í þá átt. En virðing við merkir fremur 'kurteisi, tillitssemi' eða eitthvað slíkt. Það er t.d. sagt „Af virðingu við aðstandendur þess látna verður nafn hans ekki birt að svo stöddu“. Þarna væri alveg óviðeigandi að segja „Af virðingu fyrir aðstandendum þess látna verður nafn hans ekki birt að svo stöddu“.

Þess vegna er virðing við fullkomlega jafnrétt og virðing fyrir – þar sem við á. Þetta er gott dæmi um hversu varasamt það er að setja fram afdráttarlaus og skýringalaus boðorð um rétt og rangt án þess að hugsa málið til enda. Það er ekki málrækt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvaða orð nota konur um sig sjálfar?

Meðal þess sem þarf að huga að í umræðu um mál og kyn er hvernig fólk talar um sig sjálft. Tala karlmenn um sig sem menn eða karla? Tala konur um sig sem menn eða konur – eða manneskjur? Ég skoðaði þetta svolítið í Risamálheildinni sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, nær öllum frá þessari öld. Ég leitaði að samböndunum Ég er mikill ___maður og Ég er mikil ___manneskja þar sem ___ stendur fyrir hvaða fyrripart sem er, og skoðaði kyn mælandans – langoftast er hægt að komast að því með því að skoða textana sem dæmin eru úr. Til samanburðar skoðaði ég líka dæmi um Ég er mikill ___karl og Ég er mikil ___kona.

Setningar af þessu tagi eru heppilegar vegna þess að lýsingarorðið mikil(l) tryggir að í þeim felst oftast sjálfslýsing. Þarna er ekki um að ræða fastmótað starfs- eða hlutverksheiti eins og alþingismaður, sjómaður, formaður eða eitthvað slíkt, heldur mat fólks á dæmigerðum eiginleika sínum. Því eru þessi orð oft frekar sjaldgæf og jafnvel einnota. Það reyndust vera 213 dæmi um Ég er mikill ___maður í safninu. Þar af var kona mælandi í 25 dæmum og af þeim voru 15 úr Alþingisræðum sem þó eru aðeins 13,5% af heildartextamagninu. Um sambandið Ég er mikil ___manneskja var 51 dæmi og kona mælandi í öllum tilvikum. Um Ég er mikil ___kona voru svo 24 dæmi en aðeins fjögur um Ég er mikill ___karl.

Það er athyglisvert að af þeim 25 dæmum um samsetningar með -maður sem konurnar notuðu voru 12 um orðið talsmaður og 7 um orðið stuðningsmaður. Þessi orð eru einmitt ódæmigerð fyrir orð í þessari setningagerð, a.m.k. talsmaður – tákna hlutverk fremur en vera sjálfslýsing. Að auki er ekki hægt að vera bara talsmaður eða stuðningsmaður, heldur verður eitthvað meira að fylgja. Þetta sýnir glöggt að konur nota sjaldnast samsetningar með -maður þegar þær lýsa sjálfum sér. Ef við sleppum talsmaður og stuðningsmaður eru sex dæmi um að konur noti samsetningar með -maður, 51 dæmi um að konur noti samsetningar með -manneskja, og 21 dæmi um að konur noti samsetningar með -kona.

Samkvæmt þessu er maður ekki heppilegt sem kynhlutlaust orð – og manneskja ekki heldur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Stjak, ýt og hrind

Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður er vel máli farinn og orðheppinn. Í handknattleikslýsingu í gær lýsti hann aðförum leikmanns þannig að þær væru „stjak meira en ýt og alls ekki hrind“. Þarna eru þrjú orð sem ég geri ráð fyrir að flestum þyki ókunnugleg – stjak, ýt og hrind. Þetta eru nafnorð, væntanlega hvorugkynsorð, og augljóslega leidd af sögnunum stjaka, ýta og hrinda.

Orðmyndun af þessu tagi, þar sem sögn er gerð að nafnorði með því að sleppa -a aftan af henni, er algeng í málinu þótt ekki sé alltaf augljóst hvort um slíka orðmyndun er að ræða eða hvort verið er að mynda sögn af nafnorði með því að bæta við -a. En nafnorð eins og grenj og klifr eru augljóslega leidd af sögnum. Þessi orðmyndun er líka algeng í óformlegu máli, t.d. í myndasögum – orð eins og hugs, roðn, grát, hneyksl o.m.fl.

Algengast er þó að nota viðskeyti í þessum tilgangi, t.d. -un eða -ing – orðin stjökun, ýting og hrinding eru öll til í málinu. Tvö þau fyrrnefndu eru vissulega sjaldgæf en öll eru þau í Íslenskri orðabók og skýrð hvert með öðru. Í DV 1981 segir t.d. „Þeir féllu um hvern annan þveran, ýmist með krampa af þreytu eða við minnstu stjökun“ og í Alþýðublaðinu 1973 segir „Eftir miklar ýfingar og ýtingar og tvær fundafrestanir brá ríkisstjórnin svo á það ráð að fresta afgreiðslu málsins“. Orðið hrinding er svo algengt að ástæðulaust er að taka dæmi um það.

En orðið stjak er þó ekki nýsmíði Einars Arnar. Það kemur t.d. fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og einhver dæmi má finna um það á tímarit.is, t.d. úr Þjóðólfi 1895: „Hélt hann sér mest innanborðs, því hann er orðinn maður háaldraður og vill sem mest leiða hjá sér stjak og óró.“ Einnig kemur orðið fyrir í Tölvuorðasafni.

Orðið ýt er líka til þótt það sé enn sjaldgæfara. Eina dæmi Ritmálssafns Orðabókar Háskólans er úr Sögu Reykjavíkurskóla eftir Heimi Þorleifsson þar sem vitnað er í fundabók íþróttafélagsins Kára í Menntaskólanum í Reykjavík 1908 um orðasmíð skólapilta í nýjum íþróttagreinum: „Í lyftingum er t.d. talað um „ýt, rykk og hnykk“ í staðinn fyrir snörun og pressu.“

Aftur á móti hef ég ekki fundið dæmi um orðið hrind, enda er hrinding miklu algengara og þekktara en bæði stjökun og ýting. Það er samt ekkert að orðinu hrind og þótt yfirleitt lægi vissulega beinna við að nota hið vel þekkta orð hrinding er hrind ekki óeðlilegt í framhaldi af stjak og ýt vegna þess að það er myndað á sama hátt.

Þótt gömul dæmi séu um orðin stjak og ýt í málinu veit ég ekki hvort Einar Örn þekkti þau – og finnst það raunar ólíklegt, miðað við hversu sjaldgæf þau eru. Mér finnst langlíklegast að hann hafi búið orðin stjak, ýt og hrind til á staðnum enda áttu þau miklu betur við í þessu samhengi en stjökun, ýting og hrinding. Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig frjó orðmyndun og leikur með málið getur lífgað upp á frásögn. Við megum ekki amast við rétt mynduðum orðum á þeim forsendum að þau séu „ekki til“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Út í Hróa og hef ekki guðmund

Orðasambandið út í hött sem merkir 'fráleitt, út í bláinn' tíðkast a.m.k. síðan á 18. öld. Í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir: „Líkingin er óljós en hugsanlega merkir höttur hér 'fjallstindur' og bein merking væri þá 'svara út í fjallið' […]. Önnur og trúlegri er sú skýring að höttur merki hér 'himinn, loft' og samsvarar orðatiltækið þá hinu samræða orðatiltæki svara út í bláinn/loftið […].“ En fyrir nokkrum áratugum var farið að snúa út úr þessu orðasambandi og segja út í Hróa hött. Væntanlega hefur þetta verið gert bæði í gríni og til áhersluauka – það sem er út í Hróa hött er enn fráleitara en það sem er bara út í hött.

Elsta dæmið sem ég hef fundið um út í Hróa hött er í Helgarpóstinum 1982 og þar er meira að segja bætt enn í: „Þetta er allt út í Hróa hött og Marian, eins og Gulli myndi segja.“ Þetta er í kvikmyndagagnrýni eftir Árna Þórarinsson og má geta sér þess til að sá Gulli sem þarna er vitnað til sé Guðlaugur Bergmundsson sem einnig skrifaði kvikmyndagagnrýni í blaðið á þessum tíma, hvort sem hann er upphafsmaður sambandsins út í Hróa hött eða ekki. Þetta samband fór allavega á flug upp úr þessu en fljótlega kom einnig fram styttingin út í Hróa. Bæði þessi sambönd hafa verið notuð jöfnum höndum undanfarin 40 ár.

Í út í Hróa er hötturinn alveg dottinn út úr sambandinu og uppruni sambandsins í raun óskiljanlegur nema þeim sem þekkja söguna. Þarna er orðið til nýtt orðtak. Vegna þess að ég man eftir því þegar farið var að nota út í Hróa hött og út í Hróa tengi ég þetta alltaf við út í hött – en hvað með fólk sem er yngra og hefur alist upp við þessi sambönd? Lítur það á þau sem útúrsnúning eða sem fullgild orðtök, án þess að tengja þau nokkuð við upprunann? Ég veit það ekki, en það væri gaman að fá álit lesenda á því.

Í vangaveltum um þetta fór ég að hugsa um annan útúrsnúning – eða afbökun, ef fólk vill heldur nota það orð – á orðasambandi. Það er þegar sagt er ég hef ekki Guðmund um þetta í merkingunni 'ég veit ekkert um þetta'. Þetta hefur örugglega einnig orðið til í gríni og nokkuð augljóst að sambandið ég hef ekki hugmynd um þetta liggur að baki – þótt hljóðfræðilegur munur á hugmynd og Guðmund sé nokkur eru orðin samt nógu lík til að fólk áttar sig sennilega á merkingunni út frá aðstæðum, enda þótt það þekki ekki sambandið ég hef ekki Guðmund sem ég átta mig ekki á hversu útbreitt er.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta er í umræðu um tónlistarstefnur í Morgunblaðinu árið 2000: „Ég hef ekki Guðmund um hvort þetta er „house“ eða „garage“.“ Slæðingur af dæmum er um þetta á netinu, mörg skrifuð hef ekki guðmund sem gæti e.t.v. bent til þess að fólk væri hætt að tengja þetta við nafnið Guðmundur – og hugsanlega við hugmynd líka. Það er sem sé möguleiki að hef ekki guðmund sé orðið að orðtaki sem hefur merkingu sem heild í stað þess að merking þess sé samsett úr merkingu einstakra orða. Ég nota þetta oft sjálfur – áður fyrr sem meðvitað grín en nú held ég að ég noti það sem venjulegt mál við ýmsar aðstæður.

Þarna eru sem sé að verða til eða orðin til tvö ný orðtök – út í Hróa og hef ekki guðmund. Í umræðu um það fyrrnefnda sagði Jón G. Friðjónsson einu sinni: „Ég hef lengi látið útúrsnúninga af þessum toga fara í taugarnar á mér, tel að slík iðja sé til þess fallin að rugla málkennd ungu kynslóðarinnar.“ Ég skil þetta sjónarmið en er því algerlega ósammála. Ég held þvert á móti að nýsköpun af þessu tagi, leikur með tungumálið, sé til þess fallin að auka áhuga á íslenskunni meðal ungs fólks. Það er einmitt það sem hún þarf allra mest á að halda.