Posted on Færðu inn athugasemd

Sími – frábært orð, en ógagnsætt

Einhvern tíma á skólaárum mínum, annaðhvort í gagnfræðaskóla eða á fyrstu árum í menntaskóla, lét íslenskukennarinn okkur skrifa niður þau nýyrði sem best þóttu heppnuð ásamt höfundum þeirra – sem auðvitað voru allt karlmenn. Kannski á ég þennan lista enn þótt ég finni hann ekki í svipinn en ég man eitthvað af honum – a.m.k. orðin samúð eftir Björn Bjarnason frá Viðfirði og andúð sem Sigurður Guðmundsson skólameistari bjó til. Þetta eru mjög góð orð og tiltölulega gagnsæ, a.m.k. fyrri hlutinn, þótt tengsl seinni hlutans -úð við orðið hugur eða hugð liggi kannski ekki í augum uppi. En svo var það auðvitað orðið sími sem kallað hefur verið „eitt snjallasta nýyrði, sem komið hefur upp“ – og það maklega að margra mati.

Áður höfðu verið notuð orð eins og hljómþráður, hljóðberi, hljóðþráður, málþráður, málmþráður og talþráður til að þýða telefon (og/eða telegraf) en sími sást fyrst á prenti í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum sem kom út 1896. Þar er að finna flettiorðin Telefon sem skýrt er 'talsími, hljómberi' og Telegraf sem skýrt er 'ritsími (fréttaþráðr, málþráðr, fréttafleygir)'. Aðalhöfundur orðabókarinnar var Jónas Jónasson frá Hrafnagili en Steingrímur Thorsteinsson og Pálmi Pálsson kennarar við latínuskólann voru fengnir „til þess að yfirfara handritið undir prentun og laga það sem laga þyrfti“. Pálma er jafnan eignaður heiðurinn af orðinu sími sem kemur fyrir í fornu skáldamáli, þó ekki síður í hvorugkynsmyndinni síma.

Í formála orðabókarinnar segir Björn Jónsson: „En […] þýðingar þær, er notaðar hafa verið á orðinu Telegraf […] eru hver annari lakari að vorum dómi: «fréttaþráðr », «fréttafleygir», «málþráðr» (sem eins getr verið Telefon, eða öllu heldr þó), «endariti», og þar fram eftir götunum. Höfum vér eigi hikað við að stinga þar upp á alveg nýju orði, þótt vér göngum að því vísu, að ýmsir muni tjá sig «eigi kunna við það». Orð þetta («ritsími», eða að eins «sími») hefir þá kosti fram yfir «þráðr» og samsetningar af því orði, vegna þess að það er nú lítt tíðkað í málinu, þá ríðr það ekki í bága við aðrar merkingar, eins og orðið «þráðr» gerir svo meinlega; það er mjög hljómþítt; og það er einkar-vel lagið til afleiðslu og samskeytinga.“

Björn heldur áfram: „Teljum vér engan vafa á því, að orð þetta þætti góðr gripr í málinu, ef jafnsnemma hefði verið upp hugsað eins og hin orðin («fréttafleygir» o.s.frv.). Fáum vér eigi skilið, að oss þurfi að verða meira fyrir að segja «að síma», heldr en enskumælandi lýð «to wire».“ Orðið sími sló líka í gegn strax í lok 19. aldar enda er það eins vel heppnað orð og verða má. Það hefur einungis að geyma algeng hljóð og enga samhljóðaklasa – er því auðvelt í framburði og „hljómþýtt“ eins og Björn sagði. Það tilheyrir mjög stórum beygingarflokki og hefur engin hljóðavíxl í beygingunni og er því auðvelt í meðförum. Það er stutt og því mjög þægilegt í samsetningum og afleiðslu – sögnin (tal/rit)síma var t.d. strax búin til.

Valdimar Ásmundsson sagði þó í Fjallkonunni 1898: „Bezt hygg ég að taka upp útlenda orðið „telegraf“, eins og allar aðrar þjóðir hafa gert, og eins „telefón“, og svo mundu forfeður vorir líka hafa gert á gullöld íslenzkunnar (sbr. ,,symfón“).“ Og Þórarinn Eldjárn sagði í Morgunblaðinu 2015: „Fónn hefði ekki verið neitt ósíslenskulegra orð fyrir þetta áhald. Sími hefur ekkert fram yfir fón annað en hreinan uppruna.“ Orðið er nefnilega ekki „gagnsætt“ þótt við getum svo sem reynt að telja okkur trú um að svo sé, vegna þess að sími/síma merki ‚þráður‘ þótt það sé nú „lítt tíðkað í málinu“. En venjulegir málnotendur hafa ekki hugmynd um það – og auk þess væri það gagnsæi horfið í nútímamáli vegna þess að allir símar eru nú þráðlausir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Rúta eyðilagðist af eldi

Í gær var hér spurt út í fyrirsögn á mbl.is, „Rúta eyðilagðist af eldi við Selfoss“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa „lesið að það sé ekki hægt að láta gerandann í ljós með forsetningarlið af + þgf. í lok slíkra setninga“. Í umræðum var bent á að það er meginregla í íslensku að gerandi þarf að vera lifandi vera en ekki t.d. náttúruafl til að geta komið fram í forsetningarlið í þolmynd eins og Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling hafa fjallað um. Þær taka dæmið „Húsið var eyðilagt“ og segja að þar sé ekki hægt að bæta við „af eldi“ vegna þess að eldurinn er ekki lifandi vera og getur því ekki verið gerandi. En „ef eldur eða snjóflóð hefði eyðilagt húsið væri eðlilegt að nota miðmynd og segja […] Húsið eyðilagðist í eldi/í snjóflóðinu.“

Vissulega eru ekki mörg þolmyndardæmi á við húsið var eyðilagt af eldi á tímarit.is en þau eru þó til. Dæmi um miðmynd með af-lið eins og í fyrirsögninni eru hins vegar gömul eins og einnig var bent á í umræðum – ekki bara um eyðileggjast af eldi, heldur líka af vatni, af sprengingu, af skriðuhlaupum, af eldgosi, af þurrkum, af stormi o.s.frv. Slík dæmi skipta hundruðum – það elsta er í Skírni 1830 þar sem talað er um „gömlu borgirnar Herkúlaneum og Pompeji, sem eyðilögðust af ösku úr Vesúf á fyrstu öld eptir Krist“. Í ljósi fjölda slíkra dæma má því spyrja hvort það sé rangt sem fyrirspyrjandi hafði fyrir satt og Sigríður og Joan halda fram, að ekki sé hægt að hafa geranda í af-lið í dæmum eins og því sem vitnað var til í upphafi.

En hér þarf að athuga að nafnorð í forsetningarlið með af í slíkum dæmum þarf ekki að tákna raunverulegan geranda, heldur getur oft táknað einhvers konar ástæðu eða áhrifavald. Þetta sést vel í dæmum eins og vera úrvinda af þreytu, deyja af ást, æpa af sársauka o.s.frv. Í þeim dæmum er nafnorðið á eftir af vissulega einhvers konar ástæða þess sem sögnin lýsir, en samt ekki gerandi í venjulegum skilningi enda eru þetta ekki þolmyndarsetningar. Þegar um slíkt er að ræða er oftast hægt að nota aðrar forsetningar í staðinn fyrir afúrvinda úr þreytu, deyja úr ást, æpa vegna sársauka o.s.frv. Þetta er aftur á móti ekki hægt í þolmyndardæmum eins og hann var étinn af hákarli – þar er útilokað að nota aðra forsetningu en af í vísun til geranda.

Í dæminu rútan eyðilagðist af eldi er hægt að nota aðrar forsetningar en af, t.d. í eldi eins og áður kom fram en einnig vegna elds. Slíkt væri ekki hægt ef um raunverulegan geranda væri að ræða eins og áður segir. Það þýðir að dæmi eins og fyrirsögnin sem nefnd var í upphafi geta alveg samræmst því að ekki sé hægt að hafa geranda í af-lið nema um lifandi veru sé að ræða. Og það þýðir þá líka að í svipuðum þolmyndardæmum sem vissulega koma fyrir þótt sjaldgæf séu eins og áður segir, eins og  „Húsið er þó nær eyðilagt af eldi og vatni“ í Tímanum 1954, þarf ekki að líta svo á að af-liðurinn vísi til geranda, enda koma aðrar forsetningar fyrir í sambærilegum dæmum – „Elsta hús Siglufjarðar eyðilagt í eldi“ segir í Morgunblaðinu 1948.

Posted on Færðu inn athugasemd

Niðurstaðan byggir á þessu

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að gera greinarmun á notkun sagnarinnar byggja og miðmynd hennar byggjast. Dæmi: Þetta mat er byggt á sjálfstæðri rannsókn. Hann byggir þetta mat á sjálfstæðri rannsókn. Þetta mat byggist á sjálfstæðri rannsókn. Síður: „þetta mat byggir á sjálfstæðri rannsókn“.“ Í Íslenskri orðabók er „e-ð byggir á e-u“ merkt „!?“ sem þýðir að það teljist ekki gott mál og vísað á „e-ð byggist á e-u“. Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1998: „Samningarnir byggjast á gagnkvæmu trausti. Þeir byggja ekki neitt, af því að þeir kunna það ekki.“ Hann nefnir hliðstætt dæmi: „Enginn segir: Samningurinn „grundvallar“ á gagnkvæmu trausti, heldur grundvallast. […] Miðmynd er þarna höfð í þolmyndarmerkingu.“

Þetta er út af fyrir sig rétt, svo langt sem það nær. En þarna er ekki tekið tillit til gamallar og ríkrar málvenju. Það hefur nefnilega verið algengt a.m.k. síðan fyrir miðja 19. öld, og er enn, að nota sambandið byggja á á þann hátt sem þarna er varað við. Í Nýjum félagsritum 1841 segir: „Útskíríngu gamla testamentisins nema menn þá ekki, en hún er þó öldúngis ómissandi til þess að geta rétt skilið hið nýa, sem opt byggir á hinu gamla.“ Í Tíðindum frá þjóðfundi Íslendinga 1851 segir: „Það er og eitt athugavert við þetta frumvarp, að það byggir á ókomnum lögum, eða á öðrum lögum en þeim, sem þar standa.“ Í Þjóðólfi 1869 segir: „Það var einkennilegt við þetta frumvarp, að það byggir á því, að Ísland hafi verið innlimað í Danmörk 1662.“

Hliðstæð dæmi frá 19. öld, þar sem byggja á tekur ekki með sér geranda, eru fjölmörg, og þessi notkun sambandsins hefur verið mjög algeng alla tíð síðan. Af Risamálheildinni má ráða að hún sé algengari í nútímamáli en byggjast á, en það er ljóst að samböndin eru oft notuð jöfnum höndum í sömu merkingu, jafnvel innan sömu málsgreinar. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þær skiptast aftur í tvennt: þær sem byggja á að kaupa til að selja aftur og hinar sem byggjast á því að kaupa til að eiga.“ Í DV 2016 segir: „Aðstoð við flóttamenn á ekki að byggja á því hverrar trúar þeir eru heldur á að byggjast á mannúð.“ Í Kjarnanum 2017 segir: „Ekki stöðugleika sem byggir á því að festa ranglæti í sess heldur stöðugleika sem byggist á samfélagslegri sátt.“

Það má vissulega halda því fram að þessi notkun byggja á sé „órökrétt“ vegna þess að byggja krefjist geranda eins og fram kemur í orðum Gísla Jónssonar hér að framan. En eins og ég hef iðulega skrifað um er ekki hægt að hafna rótgróinni málvenju á þeirri forsendu að hún sé „órökrétt“ – þá fengi ansi margt að fjúka. Og reyndar þarf ekki heldur að líta svo á að eitthvað sé „órökrétt“ við þessa notkun. Það má nefnilega ekki einblína á sögnina byggja – samband sagnar og forsetningar/atviksorðs fær oft sérstaka merkingu sem víkur frá grunnmerkingu sagnarinnar og það má segja að sambandið byggja á hafi fengið merkinguna 'hvíla á'. Á hana er komin löng og rík hefð og hún er augljóslega rétt mál sem engin ástæða er til að amast við.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þegar hér er komið við sögu

Sambandið þegar hér / þar / þarna er / var komið sögu(nni) er gamalt í málinu og kemur fyrir þegar í fornu máli – „var kominn til Ólafs konungs þá er hér er komið Ólafs sögu“ segir t.d. í Fóstbræðra sögu og „þar til er nú er komið sögunni“ í Færeyinga sögu. Elsta dæmið á tímarit.is er í Skírni 1844: „Hjer við bættist, að nú var kominn tími til, þá hjer var komið sögunni, að kjósa fulltrúa.“ Í nokkrum elstu dæmum á tímarit.is er notuð myndin sögunni og sú mynd er algengari en sögu fram um 1930. Einnig var á þeim tíma algengt að eignarfornafn eða nafnorð í eignarfalli fylgdi sögu, t.d. „Þegar hjer var komið sögu vorri, var en nýja þingseta byrjuð“ í Skírni 1870 og „Þegar hér var komið sögu læknisins, litu allir ósjálfrátt til himins“ í Vísi 1914.

Sambandið þegar hér er komið sögu víkur frá eðlilegu talmáli á ýmsan hátt eins og algengt er um föst orðasambönd – í orðaröð, orðanotkun og beygingu. Eðlilegt mál væri t.d. þegar sagan er komin hingað, þegar hingað er komið í sögunni eða eitthvað slíkt. Það er eðlilegt að venjulegir málnotendur átti sig ekki á gerð sambandsins, t.d. að sögu er í raun þágufallsfrumlag með koma (sögunni er komið hér) því að koma tekur venjulega nefnifallsfrumlag (nema í koma í hug / til hugar). Í slíkum tilvikum má búast við að föst orðasambönd breytist, og sú er raunin með þetta – „Í nútímamáli bregður fyrir í sömu merkingu orðasambandinu þegar hér var komið við sögu en ekki styðst það við málvenju“ segir Jón G. Friðjónsson í Merg málsins (2006).

Sambandið koma við sögu þar sem koma við merkir 'snerta, tengjast' er einnig mjög algengt í málinu og hefur verið lengi „Millum þeirra sitja þrjár konur, er tákna þær borgir, er svo mjög koma við sögu siðabótarinnar“ segir t.d. í Skírni 1869. En í seinni tíð slær samböndunum þegar hér er komið sögu og koma við sögu iðulega saman eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1948: „Á stríðsárunum hafði hann verið starfandi í fjármálaráðuneytinu og var er hér var komið við sögu verzlunarmálaráðherra.“ Annað dæmi er í Fylki 1969: „Þegar hér er komið við sögu, hafði Þórunn Jónsdóttir frá Túni haft á hendi matsölu, rekið matsölu, í Þingholti við Heimagötu um tveggja ára skeið.“

Þetta eru einangruð dæmi, en árið 1973 eru tvö dæmi, 1974 og 1975 þrjú hvort ár, og eftir það fer dæmunum ört fjölgandi, einkum þó eftir miðjan níunda áratuginn. Alls er hátt á áttunda hundrað dæma um þegar hér / þar er / var komið við sögu á tímarit.is, og hátt á níunda hundrað í Risamálheildinni. Þessi dæmi eru úr textum af öllu tagi og ekki síður úr formlegu málsniði en óformlegu. Þótt Jón G. Friðjónsson hafi sagt „ekki styðst það við málvenju“ er rétt að hafa í huga að þau orð eru hátt í 20 ára gömul. Á þeim tíma var sambandið talsvert sjaldgæfara en nú en málvenjan hefur fest sig í sessi. Því er óhjákvæmilegt að taka þegar hér er komið við sögu í sátt og viðurkenna það sem gott og gilt mál, við hlið þegar hér er komið sögu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Bölvað gagnsæið

„Hingað til hefur það verið talin ein höfuðprýði og meginkostur íslenzkrar tungu, hve gagnsæ orðin eru“ sagði Gísli Magnússon í Samvinnunni 1971. Sigurður Líndal sagði í Málfregnum 1988: „[O]rð af innlendum uppruna eru einatt gagnsæ, þannig að hver maður, sem málið kann, getur skilið þau.“ Sigurður Kristinsson sagði í Skírni 2001: „[Í]slenskan hefur það sérkenni sem oftast er kostur að vera gagnsæ. Flókin hugtök má þýða á íslensku með því að setja saman orð á þann hátt að merking hugtaksins blasir við þeim sem heyrir á það minnst í fyrsta skipti.“ Ágústa Þorbergsdóttir er varfærnari: „Með gagnsæi er átt við að orðið sé lýsandi og hægt sé að lesa út úr orðinu merkingu þess eða a.m.k. vísbendingu um merkingu þess“, Orð og tunga 2020.

Ég held að gagnsæið sé stórlega ofmetið. Vissulega getur verið hjálp í því að geta tengt ný orð við önnur kunnugleg, en sú tenging dugir þó sjaldnast til að skýra nýju orðin til fulls – yfirleitt þurfum við að læra hvernig tengingunni er háttað. Gott dæmi er orðið útihús sem við getum tengt við atviksorðið úti og nafnorðið hús, en dugir það? Við getum giskað á að þetta sé einhvers konar hús, en úti segir ekki mikið – öll hús eru úti í einhverjum skilningi. Við þurfum að læra sérstaklega að orðið merkir 'önnur hús en íbúðarhús á sveitabæ, t.d. fjós og fjárhús' – ekkert í orðinu sjálfu gefur vísbendingu um þá merkingu. Og gleraugnahús er ekki einu sinn hús – nærtækast væri að giska á að það merkti 'gleraugnaverslun' enda hefur það verið notað þannig.

Oft er líka teygt ansi mikið á gagnsæinu. Bergljót S. Kristjánsdóttir segir í Ritinu 2011: „En af því hve íslensk orð eru gjarna gagnsæ mætti líka taka mið af að orðið hryðjuverkamaður er stofnskylt sögninni „hrjóða“ sem merkir ,að ryðja burt‘ – og tengja það samtímahugmyndum um hryðjuverkamenn og sprengjur.“ Ég stórefa að almennir málnotendur átti sig á þessari tengingu við hina sjaldgæfu sögn hrjóða. Í Lesbók Morgunblaðsins 1999 segir Eiður Guðnason: „Þota og þyrla eru nokkuð gagnsæ orð og fela að auki í sér hljóðlíkingu.“ Þótt þota og þyrla séu frábær orð og eigi vel við þau fyrirbæri sem þau lýsa gætu þau líka vísað til fjölmargra annarra og gerólíkra fyrirbæra – og gera það í samsetningum, s.s. snjóþota, sláttuþyrla o.fl.

Í áðurnefndri grein Sigurðar Kristinssonar viðurkennir hann að vissulega geti „gagnsæi íslenskunnar verið galli ef hin gagnsæja merking gefur villandi hugmynd um fyrirbærið sem vísað er til“. Þessi galli kom mjög greinilega í ljós í nýlegri umræðu um orðið feðraveldi sem sumum fannst villandi og tengjast feðrum á óheppilegan hátt. Slíkar tengingar trufla fólk oft meðan orð eru nýleg eða ekki mjög þekkt, en svo er eins og mörg algeng orð, einkum þau sem tengjast engum viðkvæmum málum eða tilfinningum, hætti með tímanum að vekja slík hugrenningatengsl. Alþekkt dæmi er eldhús sem við tengjum sjaldnast við eld og hús jafnvel þótt þeir orðhlutar séu augljósir í samsetningunni – orðið lifir sjálfstæðu lífi óháð upprunanum.

Jón Hilmar Jónsson nefnir annan galla í Málfregnum 1988: „Það er og einkenni gagnsærra samsetninga og kann að þykja ókostur að þær hneigjast til að marka sér þrengra merkingarsvið en þau orð hafa sem þær standast á við. í því sambandi má nefna erlenda orðið „video“ sem bundið er víðu merkingarsviði. Íslenska orðið myndband og samsetningar af því hafa hvert um sig miklu þrengri vísun og merkingu.“ Reyndar er myndband dæmi um orð sem hefur slitið sig frá uppruna sínum á þeim 35 árum sem liðin eru. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt bæði 'segulband sem geymir mynd og hljóð, myndbandsspóla' og 'stutt kvikmynd eða myndskeið, einkum í tengslum við popptónlist'. Merkingin hefur þróast með merkingarmiðinu.

Ég held sem sé að þótt gagnsæið geti vissulega haft kosti séu ókostirnir síst minni. Þess vegna er oft heppilegra að taka upp erlend orð og laga þau að hljóðkerfi og beygingakerfi íslenskunnar en leggja ofuráherslu á að ný orð eigi sér íslenska ættingja – séu „gagnsæ“. Þórarinn Eldjárn tók goðsögnina um gagnsæi íslenskunnar ágætlega fyrir í Morgunblaðinu 2015 og sagði: „Ekkert orð er gagnsætt nema það sé samsett úr öðrum orðum eða leitt af öðru orði. Ef samsetningarnar eru leystar upp eða frumorðið fundið endum við alltaf á orðum sem eru ekkert frekar gagnsæ í íslensku en í öðrum málum.“ Hann mælti með tökuorðum og sagði: „Hvorugkynsnýyrðið app, fleirtala öpp, er […] mun betra orð en hið „gagnsæja“ smáforrit.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Stórátak fyrir íslenskuna

Við Ólína Þorvarðardóttir ræddum stöðu og framtíð íslenskunnar við Gunnar Smára Egilsson í „Rauða borðinu“ á Samstöðinni í gær. Okkur greindi á um sumt, eins og t.d. hver réttur enskunnar eigi að vera í íslensku málsamfélagi. Ég held að það sé einfaldlega raunsætt mat að enskan sé komin til að vera og í stað þess að berja hausnum við steininn með það þurfum við að taka þetta mál til alvarlegrar umræðu og marka enskunni bás, draga víglínu sem við ætlum að verja eins og Kári Stefánsson sagði í viðtali í sumar. Um þetta vorum við Ólína ekki sammála, sem er í góðu lagi. En við vorum innilega sammála um það grundvallaratriði að stórátaks sé þörf til að tryggja framtíð íslensku sem aðalsamskiptatungumáls í landinu.

Snorri Másson sagði nýlega í grein: „Tvær leiðir eru færar til að snúa þróuninni við. Annars vegar kemur til greina að ráðast í stórátak á vegum hins opinbera af slíkri stærðargráðu að annað eins hefur ekki þekkst og það átak þyrfti að taka til allra sviða tungumálsins. Hins vegar kemur til dæmis til greina takmarka innflutning fólks vegna atvinnu verulega í því skyni að minnka álag á tungumálið. Hið síðarnefnda hugnast líklega hvorki stjórnvöldum né atvinnurekendum, þannig að eftir situr stórátaksleiðin.“ Ég held reyndar að síðarnefnda leiðin sé ekki bara ófær heldur líka óskilvirk. Ensk áhrif og þrýstingur á íslenskuna kemur eftir miklu fleiri leiðum en með erlendu vinnuafli og takmörkun á innflutningi fólks hefði því ekki mikið að segja.

Innan stórátaksleiðarinnar er í fyrsta lagi þörf á vitundarvakningu um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur, sem tjáningartækis og menningarmiðlara. Um leið þarf að gæta þess að reka þetta átak ekki á þjóðernislegum nótum. Í öðru lagi þarf stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – menntun kennara, samningu kennsluefnis, framboði ókeypis námskeiða og hvatningu til íslenskunáms. Um leið þarf að auðvelda fólki að stunda nám á vinnutíma og í tengslum við vinnu. Í þriðja lagi þarf að sjá fólki, ekki síst börnum og unglingum, fyrir fjölbreyttu efni á íslensku – fræðsluefni, menningarefni, skemmtiefni, afþreyingu o.fl. Sumt af þessu þarf að vera vandað en það þarf líka að framleiða „rusl“ – aðalatriði er að þetta sé efni sem fólk sækir í.

Eins og Snorri Másson benti á í áðurnefndri grein verður því miður ekki séð að stjórnvöld hafi vilja eða getu til að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Fyrir tæpu ári var þó tilkynnt um stofnun sérstakrar ráðherranefndar um íslenska tungu sem í sitja fimm ráðherrar. Í fréttatilkynningu um stofnun nefndarinnar segir að henni sé „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast“ og „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Einnig segir: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu.“ Í sáttmálanum eru vissulega nefndar ýmsar aðgerðir sem tengjast íslensku og íslenskukennslu, einkum þessar:

(1) „Mótuð verður skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.“ (2) „Rík áhersla verður lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu.“ (3) „Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.“ (4) „Stuðningur við börn af erlendum uppruna verður aukinn í skólakerfinu.“ (5) „Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.“

Þetta eru allt saman mikilvægar aðgerðir en nú þegar kjörtímabilið er hálfnað verður ekki vart við að þeim hafi verið hrint í framkvæmd, og lítið hefur heyrst frá ráðherranefndinni síðan hún var stofnuð. Samkvæmt endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í janúar stóð til að leggja fram þingsályktunartillögu um „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ í mars. Það var ekki gert, en drög að tillögunni voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í júní og samkvæmt þingmálaskrá á að leggja hana fram í október – það eru að verða síðustu forvöð. Í áðurnefndum drögum er vissulega að finna ýmsar mikilvægar aðgerðir, en hvorki í fjárlögum næsta árs né fjármálaáætlun næstu fimm ára er að finna neinar vísbendingar um að þær verði fjármagnaðar.

Íslenskan er ekkert í dauðateygjunum. Hún er auðvitað sprelllifandi og verður það næstu áratugina. En að óbreyttu mun hún smátt og smátt hörfa, missa ákveðin svæði og svið – það verða til heilu hverfin eða jafnvel þorpin þar sem hún gagnast ekki, og sviðum eins og ferðaþjónustunni þar sem hún er ekki notuð mun fjölga. Á endanum kemur að því að unga kynslóðin gefst upp á íslenskunni. Auðvitað er hægt að benda á að undanfarin 200 ár hafi oftsinnis verið hrópað úlfur, úlfur – og íslenskan lifi enn. En eins og ég hef skrifað um eru aðstæður nú algerlega fordæmalausar. Vissulega getur verið – og er vonandi – að íslenskan lifi þótt lítið verði að gert. En höfum við efni á að taka áhættuna – og viljum við það?

Posted on Færðu inn athugasemd

Feðraveldi og karl(a)veldi

Hér hefur orðið mikil umræða um orðið feðraveldi og merkingu þess. Í þeirri umræðu skiptir máli að hafa í huga að feðraveldi er í raun og veru íðorð sem vísar til ákveðins hugtaks sem á ensku heitir patriarchy og er skýrt 'a society in which the oldest male is the leader of the family, or a society controlled by men in which they use their power to their own advantage'. Það er komin meira en hundrað ára hefð á notkun orðsins feðraveldi yfir þetta hugtak – það var notað þegar í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 sem samsvörun við danska orðið patriarkat sem er skýrt 'form for samfundsmæssig organisation hvor magtudøvelsen ligger hos faderen som familiens eller klanens overhoved, og hvor arv og slægtskab regnes efter mandslinjen'.

Ljóst er að orðið er oft notað í neikvæðu samhengi og sumum fannst sneitt ómaklega að feðrum með notkun þess og töldu betra að nota orðið karl(a)veldi í staðinn. En orðin merkja ekki endilega það sama þótt vissulega sé skörun milli þeirra. Fyrrnefnda orðið er skýrt 'samfélagsform þar sem faðirinn fer með völdin og er höfuð fjölskyldunnar eða ættarinnar' í Íslenskri nútímamálsorðabók en það síðara 'fyrirkomulag þar sem karlmenn eru í helstu valdastöðum'. Í safninu „Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði“ í Íðorðabankanum er feðraveldi skilgreint svo: „(1) samfélagshættir þar sem ættfaðirinn ræður mestu í samfélaginu (gamalt); (2) rótgrónar formgerðir í samfélögum sem byggjast á yfirburðum karla og undirokun kvenna.“

Þarna er sem sé verið að segja að merking orðsins hafi hnikast til – það vísar ekki lengur bókstaflega til (ætt)feðra eins og það gerði, heldur til sambærilegrar þjóðfélagsskipunar. Það eru auðvitað ótal dæmi um það í málinu að merking samsettra orða sé ekki summa eða fall af merkingu orðhlutanna þótt hún hafi verið það í upphafi. Ég hef skrifað um nokkur slík dæmi, eins og eldhús, örvhent, brúðkaup o.fl. Þarna er alltaf hætta á að hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar trufli okkur eða villi um fyrir okkur, en eins og ég hef oft sagt finnst mér yfirleitt mjög hæpið að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð, jafnvel þótt þau merki eitthvað annað en þau líta út fyrir að merkja í fljótu bragði. Við þurfum að horfa á heildina, ekki orðhlutana.

Á tímarit.is má sjá að orðin karlveldi sem birtist fyrst 1952 og karlaveldi sem birtist fyrst 1966 voru mikið notuð á árunum 1980-1990 en síðan þá hefur verulega dregið úr notkun þeirra. Aftur á móti hefur notkun orðsins feðraveldi sem birtist fyrst 1911 aukist mikið á þessari öld. Svo getur fólk deilt um það hvort hér ríki feðraveldi eða karlaveldi – eða hvort tveggja – en sú umræða á ekki erindi í þennan hóp. Það sem skiptir máli er til hvaða hugtaks verið er að vísa með orðinu feðraveldi og tæpast leikur vafi á því að verið er að vísa til þess sem lýst er í skilgreiningunni úr „Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði“. Þar sem feðraveldi er skilgreint íðorð sem samsvarar erlendum orðum um sama hugtak finnst mér eðlilegt að halda sig við það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fokk feðraveldi!

Í dag hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um kjörorðið „Fokk feðraveldi“ sem var áberandi í kvenna- og kváraverkfallinu í gær. Í „Bítinu“ á Bylgjunni í morgun lýsti þáttastjórnandi óánægju með notkun þess og taldi „slíkt orðbragð ekki vera sæmandi“. Það er líklega einkum notkun orðsins fokk sem sumum finnst ósmekkleg þótt ég hafi líka séð athugasemdir við notkun orðsins feðraveldi, t.d. í eftirfarandi Facebookfærslu: „Þegar ég sá skiltið "Fokk feðraveldið" þá ákvað ég að sitja heima. Ég get ekki tekið undir þessi skilaboð, því ég skil þetta ekki. Ég vil að við breytum samfélaginu saman. Feður eru nauðsynlegir.“ En eins og mörg hafa bent á er þetta misskilningur á orðinu feðraveldi.

Orðið feðraveldi er meira en hundrað ára gamalt í málinu. Á tímarit.is eru 1400 dæmi um það, hið elsta frá 1911, og það er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – þýtt „Patriarkat“. Í grein eftir Guðmund Sveinsson í Samvinnunni 1962 segir: „Víðast hvar náðu karlmenn þó snemma forystunni og upphófst „feðraveldi“ svokallað „patríarkí“, og hefur haldizt allt fram til þessa dags.“ Í grein eftir Helgu Sigurjónsdóttur í DV 1982 segir: „Orðið pater, sem partriarkat er myndað af, er latneskt og merkir faðir og því er réttasta þýðingin á orðinu feðraveldi. Það er einnig sá skilningur sem lengst af var lagður í hugtakið og ekki að ófyrirsynju þar sem hin forna skipan var veldi „feðra“ nánast í orðsins fyllstu merkingu.“

Sumum finnst ótækt að nota orðið fokk vegna tengsla við enska orðið fuck sem vissulega þykir mjög dónalegt í upprunamálinu, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið fokk gefið sem 'upphrópun sem táknar vanþóknun eða reiði' og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál, gróft“. Þess er þó að gæta að nafnorðið fokk ('lítilfjörlegt dútl') og sögnin fokka ('gaufa, dunda') eru gömul íslensk orð og þótt upphrópunin fokk eigi án efa rætur í fuck gætu eldri orðin hafa haft áhrif á hana og e.t.v. mildað merkinguna. Hvað sem því líður er ljóst að fokk hefur verið notað sem upphrópun eða blótsyrði í íslensku frá því á áttunda áratug síðustu aldar eins og kemur fram í BA-ritgerð Einars Lövdahl Gunnlaugssonar og grein Veturliða Óskarssonar.

Í slangurorðakönnun verkefnisins „Íslenskt unglingamál“ kom í ljósfokk (og orð leidd af því) var mjög algengt orð meðal unglinga og notkun þess var mjög fjölbreytt – stundum gegndi það „hlutverki upphrópunar, rétt eins og t.d. eða úff“, og stundum var það „e.k. áhersluliður líkt og mega eða ýkt.“ Því fer sem sé fjarri að orðið sé alltaf notað sem gróft blótsyrði í íslensku – „Ljóst er að merkingarsvið þess er afar vítt og skýringin sem einn þátttakandi slangurorðakönnunarinnar skrifaði, virðist raunar býsna lýsandi: FOKK er notað alla daga alltaf það er hægt að nota það fyrir allt og ekkert.“ UN Women hefur notað kjörorðið „Fokk ofbeldi“ síðan 2015. „Fokk feðraveldi“ er hliðstætt – en auðvitað er þetta spurning um smekk.

Posted on Færðu inn athugasemd

Var íslenskan fullkomin um 1950?

Um daginn rakst ég á grein með titlinum „Nýja Fjölnismenn“ í Fréttablaðinu 2010. Þar segir: „Undir lok átjándu aldar var íslenzkan orðin mjög lúin og dönskuskotin, þótt fólk í sveitum landsins hafi eflaust ennþá kunnað gamla góða málið. Að frumkvæði danska málfræðingsins Rasmusar Rasks hófu Fjölnismenn, með skáldið Jónas Hallgrímsson í farabroddi, að hreinsa málið og tókst að endurreisa það, svo að næstu hundrað árin eða fram yfir 1950 var hér töluð góð íslenzka.“ Eftir það hefur málinu farið hnignandi að mati greinarhöfundar sem spyr: „Hverjum er um að kenna, að málið er á leið til fjandans“? og er sannarlega ekki einn um þá skoðun eins og sjá má í Málvöndunarþættinum á Facebook,  athugasemdadálkum vefmiðla o.v.

En af málfarsumræðu í íslenskum blöðum á árunum kringum 1950 verður sannarlega ekki dregin sú ályktun að þá hafi verið töluð góð íslenska á Íslandi. Þvert á móti – sjaldan hefur eins mikið verið skrifað um hvers kyns „málvillur“ sem vaði uppi og á þessum tíma. Hér voru nýlega tekin nokkur dæmi frá fimmta og sjötta áratugnum um fordæmingu „þágufallssýki“ og ótal önnur dæmi mætti taka. En það er athyglisvert að við flestar þær „málvillur“ sem voru komnar fram og orðnar útbreiddar fyrir 1950 er verið að gera athugasemdir enn í dag. Það er táknrænt að 1950 er einmitt dánarár Björns Guðfinnssonar prófessors sem í huga margra er holdgervingur rétts máls. Það er eins og umræðan hafi staðnað við lát hans og málstaðallinn steingerst.

Árið 1986 var í fyrsta sinn sett fram skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“, í álitsgerð sérstakrar nefndar sem menntamálaráðherra skipaði. Þar segir: „Nauðsynlegt er að átta sig vel á því að rétt mál er það sem er í samræmi við mál­venju, rangt er það sem brýtur í bága við mál­venju.“ Árið 2002 svaraði Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor spurningunni „Hvað er rétt og hvað er rangt í máli“ á svipaðan hátt á Vísindavef Háskóla Íslands: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Ari Páll var á þessum tíma forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar og því má segja að þetta komist eins nálægt því og verða má að vera opinber skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“.

Samt er enn verið að amast við sömu atriðunum og um 1950 og telja þau ýmist röng eða óæskileg – í Málfarsbankanum, í Handbók um íslensku, í málfarspistlum í fjölmiðlum, í Facebookhópum, í kennslubókum, í samræmdum prófum (meðan þau tíðkuðust) og víðar. Þetta eru atriði eins og „þágufallssýki“, hendi eða hend í stað hönd, vera ofan í í stað vera niðri í, þora því í stað þora það, keyra mér í stað keyra mig, hæðst og stæðst í stað hæst og stærst, föðurs í stað föður, forða slysi í stað forða frá slysi eða forðast slys, þaga í hel í stað þegja í hel, á og í stað æja og heyja, og ótalmörg önnur. Allt eru þetta þó tilbrigði sem voru komin fram fyrir 1950 og eru ótvírætt rétt mál samkvæmt skilgreiningunni sem vísað er í hér að framan.

Í grein í Ritinu 2013 segir Höskuldur Þráinsson prófessor frá námskeiði sem hann var með við Háskóla Íslands vorið 2012 og hét „Eru málvillur rétt mál.“ Þar fengu nemendur „það verkefni að skoða hvort einhver þeirra atriða sem menn hefðu fundið að í blöðum og tímaritum snemma á síðustu öld virtust hafa liðið undir lok, horfið úr málinu eða hörfað umtalsvert þegar leið á öldina eða í upphafi þessarar. Þar er skemmst frá að segja að yfirleitt var ekki hægt að finna nein dæmi um slíkan árangur. […] Í aðalatriðum virtust menn sem sé vera að hjakka ár eftir ár og áratug eftir áratug í sömu atriðunum í þessum málfarsathugasemdum, m.a. í þágufallssýkinni alræmdu. Það bendir til þess að árangurinn hafi ekki orðið mjög mikill.“

Málfarsumræða á þessum nótum er ótrúlega ófrjó og gagnslítil og sannarlega ekki til þess fallin að efla áhuga ungs fólks á íslenskunni. En ekki nóg með það – hún getur beinlínis gert skaða. Höskuldur segir: „Leiðrétting á stöku atriði sem styðst við reglu í máli þess sem í hlut á getur gert hann óöruggan, valdið því að hann hættir að treysta málkennd sinni og jafnvel eyðilagt regluna í máli hans og þannig í raun valdið málspjöllum.“ Við þurfum að hætta að amast við tilbrigðum sem komu upp fyrir mörgum áratugum, hafa náð til verulegs hluta þjóðarinnar og eru ótvírætt „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu – við þurfum að þora að viðurkenna þessi tilbrigði sem góða og gilda íslensku. Íslenskan má nefnilega vera alls konar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Öll kvár í verkfalli

Flest vita væntanlega – og verða áþreifanlega vör við – að það er kvennaverkfall í dag eins og nokkrum sinnum áður undanfarna tæpa hálfa öld. En að þessu sinni eru það ekki bara konur sem leggja niður störf, heldur líka kvár. Það hefur leitt til þess að orðið kvár hefur verið mjög áberandi í fréttum að undanförnu, en borið hefur á því að fólk kannist ekki við orðið, átti sig ekki á merkingu þess, og kunni ekki með það að fara. Það er mjög eðlilegt – þetta er nýlegt orð sem hingað til hefur aðallega verið notað í tengslum við kynsegin samfélagið. Og það er ekki bara orðið sem er nýtt – merkingarmið þess er líka nýtt í huga langflestra málnotenda. Við erum flest alin upp við það að kynin séu bara tvö en þurfum nú að laga okkur að nýjum veruleika.

Orðið kvár vísar til fólks sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar, hvorki sem karl né konu. Orðið tengist engu sérstöku – er bara hljóðaröð sem var ónotuð í málinu. Það kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2020 en hafði áður eitthvað verið notað í kynsegin samfélaginu. Einnig komu fram orðin mágkvár og svilkvár sem nota má um kynsegin fólk sem hliðstæður við mágur / mágkona og svili / svilkona. Enn fremur var nefnt að hægt væri að nota -kvár sem seinni lið í samsetningum í stað -kona eða -maður. Í sömu keppni kom einnig fram orðið stálp (sbr. lýsingarorðið stálpaður) sem hliðstæða við strákur og stelpa. Vitanlega er eðlilegt að það taki tíma að venjast þessum orðum og fólk felli sig misvel við þau í byrjun.

Orðið kvár er hvorugkynsorð og því endingarlaust í nefnifalli og þolfalli fleirtölu eins og hvorugkynsorð eru jafnan – öll kvár eru í verkfalli, ég hitti mörg kvár, o.s.frv. En þótt flest orð með þessa stofngerð séu hvorugkyns – hár, tár, sár, ár o.fl. – segir stofngerðin ekki ótvírætt til um kynið því að -ár er líka til í karlkynsorðum (klár) og kvenkynsorðum (ár). Þetta stuðlar að því að fólk sem er óvant orðinu gefur því stundum endingar í föllum sem eiga að vera endingarlaus og segir t.d. kvárar í nefnifalli fleirtölu og kvára í þolfalli. Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt því að það sýnir hversu sterkt beygingarkerfið er í okkur – málkenndinni finnst að þarna eigi að vera ending því að vissulega er langalgengast að orð fái endingar í þessum föllum.

En þarna á sem sé ekki að vera nein ending frekar en í öðrum hvorugkynsorðum, þótt eðlilegt sé að fólk sem er óvant orðinu geri mistök í meðferð þess. Undanfarna daga hef ég tvisvar orðið var við aðra beygingu orðsins í Ríkisútvarpinu og sent ábendingar um það, og í bæði skiptin var brugðist vel við og beygingin leiðrétt umsvifalaust. Þegar við venjumst orðinu venjumst við líka endingarleysinu í nefnifalli og þolfalli fleirtölu og það hættir að trufla málkenndina, rétt eins og endingarleysið í mörg hár / sár / tár / ár truflar okkur ekki neitt. Mikil notkun orðsins í tengslum við verkfall kvenna og kvára leiðir væntanlega til þess að almennir málnotendur læra orðið og átta sig á merkingu þess og beygingu. Það er gott, því að þetta er mikilvægt orð.