Posted on Færðu inn athugasemd

Ekkert smá fjölhæft orð

Fjöldi íslenskra orða hefur forliðinn smá-, stofn lýsingarorðsins smár. Þar má nefna smábátur, smábær, smákrimmi, smálán, smámunir, smásaga, smásjá, smáþjóð og fjölmörg önnur. En í nútímamáli kemur smá líka mjög oft fyrir sem sjálfstætt orð. Í Slangurorðabókinni frá 1982 er það gefið upp sem atviksorð í merkingunni 'smávegis, aðeins' með dæmunum æ lækkaðu smá í fóninum og má ég stela mér smá? Í Íslenskri orðabók er það einnig gefið upp sem atviksorð og sagt óformlegt en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt geta verið bæði atviksorð og lýsingarorð. Lýsingarorðið, sem ekki er nefnt að sé óformlegt, er skýrt 'dálítill, svolítill' með dæmunum geturðu gefið mér smá eplasafa? og hann gat gert við bílinn með smá aðstoð.

Væntanlega er smá upphaflega stytting úr smávegis sem er gamalt orð. Í dæmunum hér að framan er hægt að setja smávegis í stað smá en það er alls ekki alltaf hægt sem sýnir að að tengsl smá við upprunann hafa dofnað og orðið er farið að lifa sjálfstæðu lífi í ýmsum merkingum. Það vísar oft til tímalengdar, t.d. í „Það leið smá tími meðan við vorum að bíða eftir honum út“ í Morgunblaðinu 1996. Þarna er varla hægt að segja *smávegis tími. Það breytir líka merkingu að setja smávegis í stað smá þegar það merkir 'smátt og smátt', eins og í „Síðar jörðin myndaðist hefir farið smá hlýnandi þar“ í Lesbók Morgunblaðsins 1958. En svo er smá líka mjög algengt í sambandinu eftir smá þar sem það er stytting á smá stund og er því í raun nafnorð.

Elsta dæmi sem ég finn um smá sem sjálfstætt orð er í Akureyrarpóstinum 1886 þar sem segir: „En þegar um alvarlegt efni er að ræða, má enginn smá ágreiningur valda flokkadráttum.“ Lengi framan af virðist smá hafa verið algengast með neitun, bæði sem atviksorð og lýsingarorð, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er atviksorðsmerkingin eingöngu tilgreind í sambandinu ekkert smá sem er sagt óformlegt og skýrt 'ekki lítið' (raunar væri 'mjög' eðlilegri skýring) með notkunardæminu húsið þeirra er ekkert smá glæsilegt. En ekkert/engin/enginn smá getur líka staðið sem lýsingarorð, í merkingunni 'mjög stór'. Sambandið ekkert smá er enn mjög algengt, en smá er líka mjög oft notað án þess að neitun fylgi, einkum á seinni árum.

Í ýmsum dæmum þar sem smá stendur á undan lýsingarorði eða nafnorði er vissulega ekki hægt að útiloka að það sé í raun fyrri hluti samsetts orðs frekar en sjálfstætt orð þótt orðabil sé á milli í prentuninni, en eðlileg áhersla mælir gegn því. Við það bætist að smá er oft notað með orðum sem tákna stærð og því fælist annaðhvort tvítekning eða mótsögn í orðinu ef um samsetningu væri að ræða. Í Vísi 2018 segir: „Við vorum með eitt fall, smá lítil mistök.“ Á mbl.is 2020 segir: „bumban á mér var smá stór.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Þetta var samt enginn smá risi ef ég man rétt.“ Erfitt er að hugsa sér *smálítill og *smástór sem lýsingarorð eða *smárisi sem nafnorð. Í dæmunum smá lítil og smá stór er líka erfitt eða útilokað að setja smávegis í stað smá.

Á síðustu árum hefur smá orðið gífurlega algengt – í Risamálheildinni eru um 560 þúsund dæmi um það. Megnið af þeim er af samfélagsmiðlum en þó eru um 100 þúsund dæmi úr öðrum textum þannig að það á líka traustan sess í formlegra málsniði. Vissulega er talsvert af þessum dæmum um lýsingarorðið smár en það er mikill minnihluti. Notkun orðsins er mjög fjölbreytt – fyrir utan að standa með lýsingarorðum og nafnorðum stendur það oft með atviksorðum, ekkert smá vel, og í lok segðar: „Trylltur súkkulaðibúðingu sem fær þig til að skæla smá“ segir í Morgunblaðinu 2021, „jú fyrirgefðu ég var kannski að rugla smá“ segir á Bland.is2004, „bræðið smjör í potti og kælið smá“ segir á Bland.is 2010. Ýmis fleiri afbrigði mætti nefna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Í fullu fangi

Í fyrrakvöld heyrði ég sagt í sjónvarpsfrétt: „Flestir ættu líklega í fullu fangi með að ganga upp hátt í 3000 tröppur.“ Mér fannst augljóst að þarna væri verið að nota orðasamband sem ég þekki í myndinni eiga fullt í fangi með og hugsaði með mér að það væri greinilega að breytast, enda hef ég heyrt þessa mynd áður fyrir ekki löngu. Það er svo sem ekkert einsdæmi að föst orðasambönd breytist með tímanum, sérstaklega ef uppruni þeirra eða líkingin sem þau byggjast á er ekki alveg ljós. Oft kalla slíkar breytingar fram athugasemdir um misskilning, afbökun, vankunnáttu og annað slíkt. En ég fór að kanna málið og komst að því að þetta orðasamband á sér ýmis tilbrigði og því fer fjarri að eiga í fullu fangi sé einhver nýjung eins og ég hélt.

Í bókinni Mergur málsins skrifar Jón G. Friðjónsson ítarlega um eiga fullt í fangi og hafa fullt í fangi sem hvort tveggja merkir 'eiga í erfiðleikum með, geta með erfiðismunum, mega hafa sig allan við'. Jón bendir á að hafa sé upphaflega sögnin í orðasambandinu sem eigi rætur í fornu máli – í Snorra-Eddu segir um Þór: „hann hefur fullt fang að berjast við Miðgarðsorm.“ Sögnin eiga kemur inn í sambandið á 19. öld – „myndina eiga fullt í fangi (með e-ð) […] má rekja til merkingarinnar 'eiga í erfiðleikum með e-ð'“ segir Jón. Langalgengast er að forsetningin með fylgi öllum afbrigðum sambandsins en einnig hefur alltaf verið nokkuð um forsetninguna við – „Höfðu þeir kolsýrutæki og áttu fullt í fangi við eldinn“ segir í Morgunblaðinu 1964.

Auk afbrigða með eiga/hafa fullt í fangi nefnir Jón myndina sem ég heyrði í sjónvarpinu, í fullu fangi, sem kemur fyrir þegar á 19. öld. Í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags 1884 segir: „höfðu Englendingar þeir, er þar stóðu fremstir fyrir, í fullu fangi að verjast.“ Í Æringja 1908 segir: „Dætur átti Karl margar, og átti hann í fullu fangi með að sjá þeim fyrir kvonfangi.“ Á tímarit.is er á þriðja hundrað dæma um í fullu fangi, langflest með eiga þótt hafa bregði fyrir. Dæmin eru sárafá lengi framan af en fjölgar á seinustu áratugum 20. aldar og einkum eftir aldamót. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt á fjórða hundrað, meginhlutinn frá því eftir 2010 þannig að notkun þessa afbrigðis orðasambandsins virðist vera að færast talsvert í vöxt.

Þetta dæmi sýnir vel að þótt við heyrum afbrigði orðasambands sem hljómar ókunnuglega þarf ekki að vera um nýjung eða misskilning að ræða – afbrigðið getur verið gamalt þótt við þekkjum það ekki, og það er ekkert óvenjulegt eða óeðlilegt þótt upp komi mismunandi tilbrigði orðasambanda sem fólk áttar sig ekki alveg á. Í Íslenzku orðtakasafni segir Halldór Halldórsson: „Líkingin í orðtakaafbrigðunum er dregin af því, er menn hafa fangið fullt af e-u, sem erfitt er að bera.“ Jón G. Friðjónsson segir aftur á móti: „Líkingin vísar trúlega til fangbragða […].“ Þar eð tveir helstu sérfræðingar okkar í orðasamböndum eru ekki sammála um líkinguna að baki sambandinu er ekki undarlegt að ýmis tilbrigði þess komi upp hjá venjulegum málnotendum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Víst þetta er svona

Orðið víst er hvorugkyn af lýsingarorðinu vís, en auk þess atviksorð sem hefur þrjár skyldar merkingar samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók: 'öruggt' (er alveg víst að þú komir í kvöld?); 'væg staðfesting á einhverju' (það er víst kominn föstudagur); og 'sagt sem andmæli, öfugt við það sem annar heldur fram' (hún kann ekki að hjóla – víst kann hún það). En á seinustu árum hefur orðið fengið nýtt hlutverk sem 'samtenging í aukasetningu, táknar ástæðu eða orsök, sem leiðir til röklegrar afleiðingar eða ályktunar'. Þannig skýrir Íslensk nútímamálsorðabók samtenginguna fyrst, en myndin víst er einmitt oft notuð þar sem hefðbundið er að nota fyrst, t.d. hún fékk sér blund víst hún var ein heima svo að einu dæma orðabókarinnar sé breytt.

Samtengingin fyrst er í nútímamáli ýmist notuð með eða án og svo virðist hafa verið alla tíð – dæmi eru um hvort tveggja í Postillu eftir Anthonius Corvinus sem Oddur Gottskálksson þýddi og kom út 1546: „Fyrst þeir flýðu frá honum þá syndguðust þeir“ og „fyrst að þeir höfðu í svo mörg ár beðið hans tilkomu“. Í upptalningu samtenginga í Íslenzkri málfræði sinni nefnir Björn Guðfinnsson aðeins fyrst, og ég hef grun um að stundum hafi verið amast við fyrst að ekki síður en sem að, ef að, hvort að og þegar að, þótt ég finni ekki dæmi um það í fljótu bragði. En sama máli gegnir þegar víst er notað í stað fyrst – þá fylgir ýmist eða ekki. Þannig er bæði sagt hún fékk sér blund víst hún var ein heima og hún fékk sér blund víst að hún var ein heima.

Þessi notkun víst er a.m.k. hátt í þrjátíu ára gömul. Elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Eyjafréttum 1996: „Og víst ég er nú búinn að stinga niður penna, þá er hér ein opinber fyrirspum til bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum.“ Í Munin 2001 segir: „En víst þú ert enn að lesa þá get ég svo sem sagt þér, eða í raun skrifað þér frá hugmyndinni minni.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Og víst ég var byrjaður að haltra, því þá ekki að hósta líka eins og berklaveikt skáld.“ Á Vísi 2006 segir: „Víst að það er verið að endurskapa fornan galdur er það kannski hugmynd að prófa spila þessa plötu aftur á bak.“ Dæmi í fjölmiðlum eru vissulega ekki ýkja mörg en eitt sást þó í mbl.is í gær: „Sem er svo sem ekki fjarrænt víst ég drekk ekki áfengi yfir höfuð hvort eð er.“

Þessa breytingu má nær örugglega rekja til hljóðfræðilegs misskilnings – framburðarmunur fyrst og víst í eðlilegu tali er oft sáralítill. Hljóðin f og v eru nauðalík, bæði tannvaramælt önghljóð – eini munurinn er sá að f er óraddað en v raddað en sá munur er ekki áberandi í áhersluleysi. Munur á stuttu sérhljóðunum i í fyrst og í í víst er líka mjög lítill í áhersluleysi og á undan st fellur r oft brott að miklu eða öllu leyti. Í ritmáli er munurinn hins vegar augljós og það er vel hugsanlegt að þessi breyting sé margra áratuga gömul í talmálinu þótt hún hafi fyrst orðið áberandi með tilkomu netsins og samfélagsmiðla kringum aldamót þegar óyfirlesinn texti frá venjulegu fólki sem aldrei hafði birt neitt á prenti fór að koma fyrir almenningssjónir.

Það er a.m.k. ljóst að þessi málnotkun sást oft á samfélagsmiðlum frá upphafi þeirra og var þar oft til umræðu. Árið 2002 birtist innleggið „Víst að Guð er ekki til hvernig varð fólkið þá til??“ á Hugi.is og við það var skrifuð athugasemdin: „Hefur væntanlega ætlað að segja "Fyrst að Guð er ekki til hvernig varð fólkið þá til??" fer agalega í taugarnar á mér að sjá fólk skrifa "víst að" í staðin fyrir "fyrst að".“ Á Hugi.is, Bland.is, Málefnin.com og Twitter má finna hundruð athugasemda frá undanförnum 20 árum við þessa málnotkun. Hún hefur líka verið gagnrýnd í málfarsþáttum fjölmiðla – í Morgunblaðinu 2016 sagði Eva S. Ólafsdóttir: „Enn ein hvimleið villa sem heyrist oft er þegar fólk notar atviksorðið „víst“ í stað samtengingarinnar „fyrst“.

Það má vissulega hafa uppi þá mótbáru gegn þessari nýju notkun víst sem samtengingar að orðið sé atviksorð (og hvorugkyn lýsingarorðs) og merki allt annað. En nákvæmlega sama má segja um fyrst. Það er líka atviksorð (og hvorugkyn töluorðs) sem merkir allt annað en samtengingin, og notkun fyrst sem samtengingar er nýjung líka – vissulega nokkurra alda gömul en kemur ekki fyrir í fornu máli. Það má alveg halda því fram að ekki sé óeðlilegra – eða meiri málspjöll – að gera víst að samtengingu en það var á sínum tíma að gera fyrst að samtengingu. Auðvitað er eðlilegt að þessi nýjung falli ekki í kramið hjá fólki sem ekki er alið upp við hana en mér finnst ástæðulaust að ergja sig sérstaklega yfir henni eða berjast harkalega gegn henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að keyra mig eða mér – að keyra bílinn eða bílnum

Í „Póstinum“ í Vikunni var spurt árið 1943 hvort réttara væri að segja „Hann keyrði hann í bílnum, eða: hann keyrði honum í bílnum“. Svarið var: „Ef orðið „keyra“ er notað, þá á að segja keyra hann. – Annars er orðið ,,keyra“ ekki góð íslenzka, og er betra að nota „aka“. Í þessu tilfelli: Hann ók honum í bifreiðinni.“ Vitanlega er keyra gömul og fullgild íslenska í merkingunni 'reka, knýja áfram' en þarna er átt við notkun orðsins í merkingunni 'aka' sem áður þótti hæpin – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er spurningarmerki við hana. Hún er þó gömul – í Iðunni 1884 segir: „einusinni keyrði vagn yfir mig af því jeg ætlaði að forða barni“ og í Morgunblaðinu 1915 segir: „Maðurinn sem keyrir bifreiðina er Jón Sigmundsson.“

Þessi notkun sagnarinnar er þó löngu viðurkennd og merkingin 'fara um á bíl' er fyrsta skýring sagnarinnar í Íslenskri nútímamálsorðabók. Aftur á móti er enn deilt um fallstjórnina. Í Málfarsbankanum segir: „Sögnin keyra stýrir venjulega þolfalli. Hann keyrði ömmu sína heim. Hún keyrði bílinn inn í bílskúr. Sögnin aka stýrir hins vegar yfirleitt þágufalli. Hún ók öllum heim. Hann ók bílnum inn í bílskúr.“ Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1993: „Keyra stýrir alltaf þolfalli, aka stýrir alltaf þágufalli. Hins vegar veit umsjónarmaður […] að keyra stýrir nú stundum þágufalli, a.m.k. í talmáli: *Viltu keyra mér heim.“ Orðin „keyra stýrir nú stundum þágufalli“ benda til að Gísli hafi talið þetta nýjung í málinu fyrir 30 árum en því fer þó fjarri.

Það verður ekki betur séð en þágufall hafi verið notað með keyra við hlið þolfalls frá því að farið var að nota hana í merkingunni 'aka', þótt þolfallið hafi vissulega alltaf verið mun algengara. Í Kvennablaðinu 1905 segir: „Þá hefði einhver annar fengið að keyra mér.“ Í Kvennablaðinu 1915 segir: „eg […] keyrði henni á sleðaferðinni í vetur.“ Í Morgunblaðinu 1926 segir: „Víða var farið að rífa upp steina og keyra þeim burt úr landi sem síðar á að rækta.“ Í Bændablaðinu 2020 segir Þorsteinn Guðmundsson: „Ég ólst upp við að segja „keyra mér“ enda átti það að vera í mína þágu.“ Sama segi ég – keyra mér er mitt mál og ég tel mig vera alinn upp við það. Ljóst er að notkun þágufallsins í vísun til farþega á sér langa og ríka hefð.

Sögnin aka stjórnar þágufalli á andlagi sínu hvort sem það vísar til farþega eða farartækis – ég ók henni heim og ég ók bílnum. Þau sem nota þágufall með keyra þegar vísað er til farþega nota hins vegar yfirleitt þolfall í vísun til farartækis – ég keyrði henni heim en ég keyrði bílinn. Eða það hélt ég – þannig er a.m.k. mitt mál. En þegar ég fór að skoða þetta fann ég töluvert af dæmum um að þágufall væri notað í vísun til farartækis. Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Þú veist sjálfur ósköp vel, að jeg gaf þjer ekki leyfi til að Jón keyrði bílnum.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Það er leiðinlegt að konan þín skyldi keyra bílnum í skurð.“ Töluvert af slíkum dæmum er í Risamálheildinni þannig að notkun þágufallsins í vísun til farartækis virðist færast í vöxt.

Gísli Jónsson taldi líklegt að notkun þágufalls um farþega væri „áhrif frá fallstjórn sagnarinnar að aka, þegar hún hefur sömu merkingu og keyra“. En það er ástæðulaust að horfa einungis til aka í þessu sambandi. Fleiri sagnir svipaðrar merkingar taka líka þágufall – við tölum um að skutla mér, skjóta mér og e.t.v. fleira. Frá merkingarlegu sjónarmiði er þágufallið fullkomlega eðlilegt þarna og engin ástæða til annars en telja það jafnrétt og þolfallið enda á það sér langa hefð eins og áður segir. Þágufall í vísun til farartækis er trúlega tilkomið vegna áhrifa frá aka en það er mun yngra og dæmin um það eru miklu færri og langflest frá þessari öld. Það er því álitamál hvort það hafi náð þeirri stöðu að vera málvenja og eiga þar með að teljast „rétt mál“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Breytingar á sagnbeygingu

Í gær sá ég hneykslast á því í Málvöndunarþættinum að í Krakkafréttum Ríkisútvarpsins hefði verið sagt „Starfsmenn dýragarðsins útbjóu ýmsar kræsingar handa pöndunum“, og í fyrradag var á sama vettvangi vísað í að í fréttum Ríkisútvarpsins hefði verið sagt „Tveir jarðskjálftar yfir þremur að stærð skuku Reykjanesskaga í morgun“. Þarna eru það myndirnar útbjóu og skuku sem verið er að gera athugasemdir við – venjulegar og viðurkenndar beygingarmyndir eru útbjuggu og skóku og sú mynd var reyndar mjög fljótlega sett í fréttina í stað skuku. Þótt engin ástæða sé til að ætla að myndirnar útbjóu og skuku séu útbreiddar, og þær hljóti (enn sem komið er) að teljast rangt mál, er ómaksins vert að velta því fyrir sér hvernig þær koma til.

Langflestar sagnir málsins eru veikar, mynda þátíð með sérstakri endingu sem er ýmist -ði, -di eða -ti eftir gerð stofnsins (tala – talaði, dæma dæmdi, missa missti). En (út)búa og skaka eru hins vegar sterkar sagnir, sem merkir að þær mynda þátíð með sérhljóðabreytingum, svokölluðum hljóðskiptum – oftast breytast reyndar einhver samhljóð líka. Sterkar sagnir eru ekki nema eitthvað á annað hundrað, sumar sjaldgæfar en margar meðal algengustu sagna málsins, svo sem vera, ganga, koma, fara, geta o.s.frv. Tíðnin verður þeim til lífs – börn á máltökuskeiði heyra ýmsar myndir þeirra snemma og læra þær. Sumar þeirra eiga beyginguna sameiginlega með nokkrum öðrum sem auðveldar börnunum námið, en aðrar eru einar á báti.

Vegna óregluleikans þurfum við að læra fleiri beygingarmyndir sterkra sagna en veikra. Í veiku sögnunum nægir oftast að læra nafnháttinn og af honum er hægt að leiða aðrar myndir með almennum reglum. Það er alkunna að börn á máltökuskeiði beita iðulega þessum almennu reglum á sterkar sagnir áður en þau læra beygingu þeirra – segja t.d. bítti eða bítaði í stað beit, gefði í stað gaf, leikaði í stað lék, hlæði í stað hló, takti í stað tók o.s.frv. Þetta er fullkomlega eðlilegt stig í máltökunni og ástæðulaust að gera sér rellu út af því – börnin læra hefðbundna beygingu þessara sagna venjulega smátt og smátt án þess að vera leiðrétt. En stöku sinnum getur þó brugðið út af því og óhefðbundnar en reglulega myndaðar beygingarmyndir lifað áfram.

Þannig hefur það væntanlega orsakast að sumar sagnir sem voru sterkar í fornu máli hafa orðið veikar – beygjast reglulega. Sögnin hjálpa var t.d. halp í þátíð í fornu máli en er nú hjálpaði, bjarga var barg en er nú bjargaði, fela var fal en er nú faldi, blanda var blett en er nú blandaði, blóta var blét en er nú blótaði. Sumar sagnir hafa fengið veika beygingu en sú sterka lifir enn, oft í annarri eða þrengri merkingu – snerta var snart í þátíð en er nú líka snerti, verpa var varp en er nú líka verpti, flá var fló en er nú líka fláði. Sumar sagnir hafa lagt af stað í átt til veikrar beygingar en eru ekki komnar alla leið, eins og ala(st) sem ég skrifaði um nýlega sem er ól(st) í þátíð en nú stundum aldi(st), og nema sem er venjulega nam í þátíð en numdi bregður fyrir.

Þátíðarmyndir búa í eintölu byrja allar á bjó- en fleirtölumyndirnar eru gerólíkar og byrja allar á bjugg- – aðeins fyrsta hljóðið, b, er sameiginlegt. Það er ekkert undarlegt að eintalan hafi þarna áhrif á fleirtöluna – elsta dæmi um myndina bjóu er frá því snemma á 19. öld og örfá dæmi eru um hana á tímarit.is. Jón Helgason prófessor sagði í Fróni 1944: „Og þegar höfuðskáld eins og Einar Benediktsson segir […] bjóu fyrir bjuggu (Langspilið), af því að ríms er þörf við dóu, þá sé ég ekki að höfð verði vægari orð en að hér sé farið langt út fyrir takmörk hins leyfilega.“ Einar hefði samt varla notað þessa mynd nema hann hefði þekkt hana. Í  Risamálheildinni eru 25 dæmi frá þessari öld um bjóu og bjóum, nær öll af samfélagsmiðlum.

Myndin skuku er ekki heldur einsdæmi – um hana eru um 10 dæmi á tímarit.is, það elsta í Tímanum 1989: „Allharðir jarðskjálftar skuku norðurhluta Kína í fyrrinótt.“ Gísli Jónsson vakti athygli á þessari mynd í Morgunblaðinu: „Sögnin að skaka beygist eins og taka: skaka-skók-skókum-skekinn (6. hljóðskiptaröð). En heyra mátti á einni útvarpsstöð: „Jarðskjálftarnir sem skuku Los Angeles...“.“ Í Risamálheildinni eru tæp 20 dæmi um skuku og skukum. Sögnin skaka er ekki ýkja algeng og því ekki óvænt að beyging hennar sé á reiki, en það liggur hins vegar ekki í augum uppi hvernig eigi að skýra myndina skuku því að u er ekki annars staðar í beygingunni. Hugsanlega eru þarna áhrif frá u í persónuendingum fleirtölunnar – -um, -uð, -u.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ofsa ertu góður gæi

Orðin ofsi, rosi, svaki og voði eru öll veik karlkynsorð og ákveðinn merkingarlegur svipur með þeim. Orðið ofsi er algengt í merkingunni 'ákafi í skapi, skapbræði' en einnig 'veðurofsi', rosi merkir 'hvassviðri með kalsarigningu, slyddu eða krapaéljum, rosaveður' en er frekar sjaldgæft í nútímamáli í þeirri merkingu, svaki merkir 'ofsi‘ eða 'ruddalegur maður' en er eiginlega horfið úr málinu, og voði er algengt og merkir 'háski, hætta, tjón'. En aukafallsmyndir þessara orða, ofsa, rosa, svaka og voða, eru hins vegar mikið notaðar til áherslu, ýmist sem fyrri hluti lýsingarorða og atviksorða með -legur/-lega eða einar sér – ofsalegur fjöldi, rosalegur þrjótur, svakalegur kjáni, voðalegur sauður; ofsa bjartsýni, rosa leiðindi, svaka partí, voða gaman.

Orðin ofsa, rosa, svaka og voða eru öll flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók og skráð þar sem atviksorð með merkingunni 'til áherslu: mjög' – svaka sagt „óformlegt“. Í notkunardæmum standa þau öll með lýsingarorði og hafa þannig stöðu atviksorðs – hún var ofsa flott á ballinu, hann er rosa bjartsýnn, þetta var svaka góður matur, kettlingarnir eru voða sætir. En eins og dæmin hér að framan sýna geta þau líka staðið með nafnorðum – haft stöðu lýsingarorðs. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er rosa einnig flokkað sem lýsingarorð „notað í óformlegu máli og er ekki fullkomlega viðurkennt“ og í Slangurorðabókinni frá 1982 eru ofsa og svaka talin bæði atviksorð og lýsingarorð, rosa aðeins atviksorð en voða er ekki með.

Jón G. Friðjónsson hefur bent á að notkun ofsa- sem áhersluforliður er gömul – orð eins og ofsafé og ofsaher koma fyrir í fornu máli og orð á við ofsaakstur, ofsakátur og mörg fleiri eru algeng í nútímamáli. Það er hins vegar oft álitamál hvort á að líta á eignarfallsmyndir af þessu tagi sem hluta samsettra orða – áhersluforliði – eða sem sérstök áhersluorð. Bæði ofsa fé og ofsa her er ritað í tvennu lagi í handritum en það segir ekkert því að orðaskil eru oft höfð með öðru móti í handritum en nú er venja. Samkvæmt ritreglum á að rita eitt orð sé „nafnorði í eignarfalli skeytt framan við nafnorð, lýsingarorð eða atviksorð til að auka vægi eða herða á merkingu þess“ – en það segir ekki endilega að um eitt orð sé að ræða í máltilfinningu fólks.

Það má reyndar færa rök að því að málnotendur skynji ofsa, rosa, svaka og voða sem sjálfstæð orð frekar en forliði samsetninga, a.m.k. með lýsingarorðum. Það er nefnilega hægt að slíta þau frá orðinu sem þau eiga við eins og sést vel í Stuðmannatextanum „Herra Reykjavík“: „Ofsa hefurðu stóra vöðva“, „rosa ertu‘ í fínum skóm“ og „voða ertu‘ í flottum buxum“. Þarna vantar bara svaka en dæmi um það eru auðfundin – „svaka ertu orðinn feitur maður“ í Morgunblaðinu 2019. Þetta er ekki hægt með áhersluforliði eins og t.d. blind-, mold-, stein- og ösku­- – það er útilokað að segja *blind ertu fullur, *mold er hún rík, *stein var hann hissa, *ösku var hann reiður. Með nafnorðum virðast orðin aftur á móti ýmist vera áhersluforliðir eða sjálfstæð orð.

Áhersluorðin ofsa, rosa, svaka og voða eru gífurlega algeng í nútímamáli – tugir þúsunda dæma eru um þau í Risamálheildinni (nema ofsa). Þau tilheyra óformlegu málsniði – rúm 90% dæma um þau eru af samfélagsmiðlum. Samsvarandi orð með -legur/-lega eru mun algengari en formlegri þótt tæp 80% dæma um þau séu af samfélagsmiðlum. Síðarnefndu orðin eru eldri, frá 19. öld eða fyrr, og höfðu upphaflega bókstaflega merkingu – ofsalegt vestanveður, rosaleg veðrátta, svakalegt illmenni, voðalegt augnaráð svo að tekin séu dæmi frá seinni hluta 19. aldar. Á 20. öld breyttust þau svo smátt og smátt í áhersluorð – „Í yngri dæmum virðast öll tengsl við upprunann horfin, hin herðandi merking er ein eftir“ segir Jón G. Friðjónsson t.d. um rosalegur.

Trúlegt er að ofsa, rosa, svaka og voða sem sjálfstæð orð hafi komið til sem styttingar á -legur/-lega-orðunum. Dæmi eru um ofsa og voða frá fyrsta hluta 20. aldar og þau hafa verið mjög algeng síðan. Í Heimskringlu 1910 segir: „Þeir sífelldu þurkar og ofsa hitar, sem verið hafa í alt sumar, hafa kipt vexti úr öllum jarðargróðri.“ Í Norðurlandi 1910 segir: „hann hefur frá barnæsku haft ranga, voða ranga, hugmynd um Guð kristinna manna.“ Elstu dæmi um rosa og svaka eru nokkuð yngri. Í Fálkanum 1940 segir: „jeg veit dáltið rosa-spennandi. Alveg rosa-rosa, skilurðu.“ Í Vísi 1941 segir: „Svaka sveitó!“ Þessi orð verða síðan smátt og smátt algengari, sérstaklega eftir 1980, og engin ástæða til annars en telja þau góð og gild.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hæðst, stæðst, smæðst og fæðst

Í fyrradag voru hér nefndar myndir eins og hæðsti og hæðsta sem fyrirspyrjandi sagðist oft heyra og sjá, og spurði hvort þetta væri einhver málbreyting. Vissulega má þarna tala um málbreytingu en hún er fjarri því að vera ný. Björn Karel Þórólfsson segir í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld: „Í efsta stigi af hár er frá því á 16. öld stundum skotið inn ð-i, af áhrifum nafnorðins hæð. […] Rithátturinn með ð-i er mjög algengur á 17. og 18. öld […].“ Fleiri hliðstæð dæmi má nefna – rithátturinn stæðstur fyrir stærstur kemur fyrir um 1700 og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru myndirnar hæstur, stærstur, smæstur og fæstur hljóðritaðar bæði með og án ð en ð-myndirnar sagðar „pop.“, þ.e. tilheyra hversdags(tal)máli.

Áður en stafsetning var samræmd og almenn stafsetningarkennsla hófst skrifaði fólk meira og minna eftir framburði og myndir með ð sjást því oft í eldri ritum eins og áður segir. En á 20. öld þegar farið var að kenna stafsetningarreglur sem miðuðust við stofn orða var ð-ið bannfært eins og Gísli Jónsson útskýrði í Morgunblaðinu 1986: „Efsta stig lýsingarorða er myndað af stofninum og stofn lýsingarorða kemur fram í kvenkyni. Kvenkynið af hár er , og þar af kemur með i-hljóðvarpi hæstur (ekkert r af því að það er ekki í kvenkyninu, og því síður ð). Kvenkynið af stór er líka stór, af því að hér er r-ið stofnlægt, og því verður efsta stig (einnig með i-hljóðvarpi) stærstur. Hér á r-ið heima, samanber kvenkynið, en að sjálfsögðu ekkert ð.“

Í greininni „Nokkrar athuganir á rithætti þjóðsagnahandrita í safni Jóns Árnasonar“ sem Árni Böðvarsson gaf út í Studia Islandica 1960 segir: „Alþekkt er að skólanemendur nú á dögum riti hæðstur fyrir ,,hæstur“ í ýmsum fallmyndum orðsins, og er það í samræmi við almennan framburð. […] Sami ritháttur er og algengur í orðinu „stærstur“, sem þá er ritað stæðstur eftir framburði.“ Það er því að sjá að bæði hæðstur og stæðstur hafi verið venjulegur framburður upp úr miðri síðustu öld – og tíðkast að einhverju leyti enn þótt líklega sé hann á undanhaldi. Þannig segir Eva S. Ólafsdóttir í Morgunblaðinu 2016: „Jafnframt heyrast enn villur sem ég man eftir frá því að ég var barn, þ.e. […] *hæðstur (hæstur) og *stæðstur (stærstur).“

En þrátt fyrir meira en hundrað ára stafsetningarkennslu og prófarkalestur hafa myndir með ð alla tíð laumast inn í ritað mál eins og Árni Böðvarsson nefnir. Á tímarit.is er þannig á fjórða þúsund dæma um hæðst- og um 400 um stæðst- en hins vegar ekki nema tæplega 80 um smæðst- og innan við 20 um fæðst-. Í Risamálheildinni sem aðallega hefur að geyma texta frá þessari öld er á fjórða þúsund dæma um hæðst- og hátt á þriðja þúsund um stæðst- en aðeins fimm um smæðst- og engin um fæðst-. Næstum öll dæmin um ð-myndirnar, um 95% þeirra, eru af samfélagsmiðlum. Í óformlegu ritmáli eru myndirnar hæðst- og stæðst- greinilega sprelllifandi sem bendir til að framburður með ð sé það líka – smæðst- og fæðst- er hins vegar horfið.

Myndina hæðst- má skýra með áhrif frá nafnorðinu hæð eins og áður segir – en hvað með stæðst-, smæðst- og fæðst-? Í smæðst- gæti verið um áhrif frá nafnorðinu smæð að ræða, en hin orðin tvö eiga sér engin skyld orð með ð. Trúlegt er að ð-ið hafi komið inn í efsta stig þeirra fyrir áhrif frá hæðst- – málnotendum hefur fundist að þar sem miðstig orðanna hefði sama hljóðafar, hærri, stærri, smærri og færri, hlyti það sama að gilda um efsta stigið. Framburður með ð á sér aldagamla hefð og ég er ósammála Málfarsbankanum sem segir: „Ekki á að heyrast neitt ð-hljóð í framburði orðsins hæstur.“ En af hagkvæmnisástæðum styð ég samræmda stafsetningu og mæli því með að við höldum okkur við að skrifa efsta stig orðanna án ð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að ná í úrslit

Í gær sá ég frétt á mbl.is með fyrirsögninni „Markmiðið að ná í úrslit“. Fréttin fjallaði um þátttöku karlaliðs Tindastóls í undankeppni Evrópubikars FIBA og í henni er lýst langri leið í úrslitakeppnina, gegnum tvöfalda riðlakeppni, og ég hugsaði með mér að þarna væri greinilega mikill metnaður á ferðum að ætla sér að komast í úrslitakeppnina. En ég fór að efast um þennan skilning þegar ég las fréttina til enda, því að í lokin er haft eftir fyrirliða Tindastóls: „Markmiðið er að sjálfsögðu að ná í einhver úrslit úr þessum tveimur leikjum og komast áfram.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið úrslit skýrt 'það hvernig e-u lyktar, niðurstaða, lyktir' en í íþróttum merkir það einnig oft 'lokakeppni, lokastig keppni þar sem skorið er úr um sigurvegara'.

Ég skildi „ná í úrslit“ í fyrirsögninni upphaflega þannig að átt væri við að 'komast í lokakeppnina', og þá merkingu hefur þetta orðalag vissulega oft – dæmi má taka úr tveimur fréttum Ríkisútvarpsins 2021: „Spænskt lið hefur aldrei áður náð í úrslit Meistaradeildarinnar“ og „Guðni kastar í undanúrslitum kringlukastsins í nótt og segir að á góðum degi muni hann ná í úrslit“. En sú merking getur augljóslega ekki átt við í lokasetningu áðurnefndrar fréttar, „ná í einhver úrslit úr þessum tveimur leikjum og komast áfram“. Þarna hlýtur úrslit að merkja 'góð úrslit', 'viðunandi úrslit' eða eitthvað slíkt. Sú merking orðsins er ekki einsdæmi en virðist ekki vera gömul – hefur þó tíðkast í a.m.k. 15 ár, og hefur verið að breiðast út á síðustu árum.

Á fótbolti.net 2008 segir: „Íslensk knattspyrna þarf fleiri góð úrslit og við eigum að ná í úrslit í svona leikjum eins og í dag.“ Á 433 2013 segir: „Að ná í úrslit hefur hikstað, við höfum fengið gagnrýni fyrir það.“ Á mbl.is 2014 segir: „Við erum í þeirri stöðu að við verðum að ná í úrslit á móti annað hvort FH eða Stjörnunni.“ Í DV 2017 segir: „Hann kom inn og byrjaði að ná í úrslit og fékk alla með sér.“ Á Vísi 2019 segir: „Við höfum ekki verið að ná í úrslit þrátt fyrir að vera betri aðilinn í leikjum fyrr í sumar.“ Á vef RÚV 2021 segir: „Við setjum alveg á okkur pressu sjálfar að standa okkur í þessum leik á morgun og ná í úrslit. Við vitum líka að ef við ætlum að ná úrslitum að þá verður hver einasti leikmaður í okkar liði að hitta á sinn besta dag.“

Hér hefur merking orðsins úrslit hnikast til en það er svo sem ekki einsdæmi að orð hafi jákvæða merkingu án ákvæðisorðs en neikvæða ef neikvæðu ákvæðisorði er bætt við. Hægt er að sleppa atviksorðinu úr mér líkar vel við þig og halda sömu merkingu, en ef því er sleppt úr mér líkar illa við þig snýst merkingin við. Svipað er þegar góð eða einhverju slíku er sleppt úr góð úrslit án þess að merking breytist. Líklega á þetta rætur í ensku þar sem talað er um get some results í sömu merkingu. Í ensku er þó annað orð, finals, notað yfir úrslitakeppni en í íslensku getur þessi nýja tvíræðni orðsins úrslit valdið misskilningi eins og sum dæmin hér að framan sýna – ég veit ekki enn hvort markmið Tindastóls er að komast í úrslitakeppni Evrópubikarkeppninnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Enskættuð orðasambönd í íslensku

Í gær sagðist hópverji hafa rekist nokkrum sinnum undanfarið á orðalag eins og ég sé engan harm í, og ekki bara hjá yngra fólki. Það er nokkuð ljóst að á bak við þetta liggur enska orðalagið I see no harm in og örfá dæmi má finna um þessa málnotkun í Risamálheildinni – og einnig dæmi sem virðast byggjast á enska orðasambandinu do no harm. Á Hugi.is 2003 segir: „ég sé engan harm í því sem bgates er að gera.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Þeir eru bara að taka í burtu möguleika sem gerir þessum “casual” spilurum engan harm.“ Á Bland.is 2008 segir: „er ekki viss, ég borðaði sterkan mat þegar ég var ólétt og gerði engan harm.“ Í Feyki 2012 segir: „Knapinn skutlar sér á eftir hestinum og saman komast þeir í land og enginn harmur skeður.“

Örfá dæmi til viðbótar má finna á netinu, öll af samfélagsmiðlum eins og dæmin hér að framan nema dæmið úr Feyki. Það er því ekki að sjá að þetta orðalag sé komið mikið inn í málið, þótt vitanlega geti það verið miklu algengara í talmáli en ritmálsdæmin benda til. En auðvelt er að benda á dæmi um ýmis orðasambönd sem eiga sér augljóslega erlenda – nær alltaf enska – fyrirmynd og hafa breiðst út í málinu á allra síðustu árum, ekki bara í óformlegu málsniði. Gott dæmi um þetta er eins og enginn sé / væri morgundagurinn sem augljóslega er sniðið eftir as if there was / were no tomorrow. Þetta samband sást fyrst á prenti í árslok 2005 en varð fljótlega ótrúlega algengt – 570 dæmi eru um það á tímarit.is og rúm 2600 í Risamálheildinni.

Almennt séð finnst mér að orð og orðasambönd eigi ekki að gjalda uppruna síns og ég sé ekkert að því þótt orðalag sem augljóslega er ættað úr ensku sé tekið upp í íslensku – ef það fellur að málinu. Eins og ég hef áður skrifað um sé ég þess vegna enga ástæða til að amast við eins og enginn sé / væri morgundagurinn – það hvorki breytir né útrýmir einhverju sem fyrir er í málinu og vel má færa rök að því að það auðgi málið, þótt sjálfsagt mætti líka halda því fram að það sé ofnotað. Öðru máli gegnir um sjá engan harm í og gera engan harm – þar er orðið harmur augljóslega notað í ensku merkingunni, 'mein, skaði, tjón' en ekki í þeirri íslensku, 'mikil og þungbær sorg'. Þarna er merkingu orðsins breytt að óþörfu – forðumst þessi sambönd í íslensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Margir orðrómar

Í gær var hér nefnt í innleggi að fleirtalan orðrómar sæist nú oft en hefði áður verið leiðrétt. Það er rétt – í málfarshorni Morgunblaðsins sagði t.d. árið 2019: „Fleirtalan „orðrómar“ ber þess merki að hafa orðið til við enskulestur; enskan á rumo(u)rs […]. Orðrómur er í stórum dráttum óljós og óstaðfest fregn. Og það er eintöluorð.“ En á hverju byggist sú staðhæfing að orðrómur sé eintöluorð? Orðið kemur vissulega aðeins fyrir í eintölu í fornu máli og fram á 20. öld en elstu dæmi um fleirtölumyndir orðsins eru þó meira en hundrað ára gamlar og varla ensk áhrif. Elsta dæmi sem ég finn er í Morgunblaðinu 1913 þar sem segir: „Taldi hann mjög miður farið, hversu mikið væri hjalað um njósnarmálin, og hve rangir orðrómar bærust af þeim.“

Fleirtölumyndum orðsins bregður fyrir stöku sinnum alla 20. öldina þótt þær hafi ekki verið algengar til skamms tíma – alls eru hátt í 150 dæmi um þær á tímarit.is. En eftir aldamót verður fleirtalan skyndilega mjög algeng, og í Risamálheildinni eru hátt í 2700 dæmi um fleirtölumyndir orðsins. Fleirtölubeyging þess er gefin athugasemdalaust í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls sem er auðvitað lýsandi en ekki stýrandi. Það eru því engin beygingarleg rök fyrir því að segja að orðrómur sé eintöluorð – fleirtala orðsins er greinilega til þótt amast sé við henni. Ekki er heldur hægt að finna augljós merkingarleg rök gegn fleirtölunni – af hverju ætti orð sem merkir 'óljós og óstaðfest fregn' ekki að geta verið til í fleirtölu?

Ástæðan fyrir því að orðrómur var áður aðeins í eintölu en er nú iðulega í fleirtölu virðist vera sú að merking orðsins hefur hnikast til. Áður merkti það 'umtal, almannarómur' (Íslensk orðabók gefur líka merkinguna 'lof, hrós' sem sögð er forn og úrelt) – var sem sé fremur almennt og óafmarkað. Þess vegna var fleirtalan ekki notuð, eins og sjá má á skýringarorðunum umtal og almannarómur sem eru ekki heldur höfð í fleirtölu í nútímamáli. Í nútímamáli er vísun orðsins ekki jafn óljós – það vísar til mun skilgreindari og afmarkaðri fregnar en áður og þar með verður eðlilegt að nota það í fleirtölu. Það eru fjölmörg hliðstæð dæmi í málinu þar sem eintöluorð með óhlutstæða merkingu fara að vísa til einhvers afmarkaðs og fá þá fleirtölu.