Posted on Færðu inn athugasemd

Til skamms tíma

Í frétt á vef Feykis stendur í dag: „Það má geta þess að Arna Rún er svolítill Króksari, bjó til skamms tíma í foreldrahúsum hjá Óskari Jónssyni lækni og Aðalheiði Arnórsdóttur.“ Það vill svo til að ég þekki til á Króknum og veit því að til skamms tíma merkir þarna 'í stuttan tíma' – annars hefði ég skilið þetta sem 'þar til nú fyrir stuttu'. Á Vísindavefnum var eitt sinn spurt: „Mig langar líka að fá að vita um „til skamms tíma“. Það virðist vera mjög skipt milli þeirra sem ég hef spurt. Sumir vilja meina að það þýði „í stuttan tíma“ án tillits til hvort það var í nýlega eða fyrir löngu. En ég ólst upp við að það þýddi „var lengi en hætti fyrir stuttu“, sem sagt „var kennari til skamms tíma“ þýðir „var kennari í langan tíma en hætti fyrir stuttu síðan“.“

Ég ólst líka upp við þessa merkingu, og í svari Guðrúnar Kvaran var sagt að merkingin væri 'fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu' og vísað því til staðfestingar í dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar – og einnig í Íslenska orðabók, þar sem þó eru gefnar tvær merkingar – 'í stuttan tíma' og 'þar til nú fyrir stuttu'. Það er ljóst að mjög oft hefur sambandið fyrrnefndu merkinguna og sú síðarnefnda er útilokuð, t.d. ef setningin er í nútíð. Í Samtíðinni 1943 segir: „Húsgögnin eru fremur fátækleg og flest fengin að láni hér og hvar í þorpinu, því að tjaldað er til skamms tíma.“ Í Vísi 1946 segir: „Samningurinn er gerður til skamms tíma“. Í DV 1993 segir: „má gefa út sérstakt vegabréf sem gildir til skamms tíma og rennur út að áætlaðri ferð lokinni.“

Sé setningin aftur á móti í þátíð flækist málið. Stundum er þó ótvírætt að merkingin er 'í stuttan tíma', eins og í „Samningurinn var til skamms tíma“ í Morgunblaðinu 2020. En oft verður samhengið að skera úr. Í Tímanum 1987 segir: „Nú í haust fékk Natalja loks leyfi til að heimsækja mann sinn til München. […] Leyfið gilti til skamms tíma.“ Þarna er merkingin augljóslega 'í stuttan tíma'. Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 segir: „Fyrirkomulagið var í gildi til skamms tíma og þurfti úrskurð alþjóðadómstóls til að afnema það“ en í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hann var í gildi til skamms tíma í senn, viku eða tvær vikur.“ Þarna sýnir samhengið ótvírætt að fyrra dæmið merkir 'þar til nú fyrir stuttu' en það seinna 'í stuttan tíma'.

Í sjálfu sér má segja að það liggi miklu beinna við að skilja til skamms tíma sem 'í stuttan tíma' en 'þar til nú fyrir stuttu' – í fyrrnefnda tilvikinu hafa orðin sína venjulegu merkingu hvert fyrir sig, en í síðarnefnda tilvikinu hefur sambandið sem heild ákveðna merkingu sem ekki verður ráðin af merkingu einstakra orða þess. Þetta má bera saman við hliðstæð sambönd eins og til langs tíma og til lengri tíma sem merkja 'í langan tíma' og til stutts tíma, til styttri tíma og til skemmri tíma sem merkja 'í stuttan tíma'. Í öllum þessum samböndum halda orðin venjulegri merkingu sinni og því er ekkert undarlegt að skilningur málnotenda á sambandinu til skamms tíma breytist og farið sé að skilja það á hliðstæðan hátt og hin samböndin, þ.e. 'í stuttan tíma'.

Þetta er alveg eðlilegur skilningur og því ekki lengur hægt að halda því fram að til skamms tíma merki eingöngu 'þar til nú fyrir stuttu'. Í Málfarsbankanum segir líka: „Orðasambandið til skamms tíma merkir að jafnaði: þar til fyrir stuttu.“ Athyglisvert er að þarna er sagt „að jafnaði“ og því viðurkennt að þessi merking er ekki algild. Það er hins vegar óheppilegt að þessi breytti skilningur á sambandinu leiðir til þess að í mörgum tilvikum er það tvírætt og þarf að reiða sig á samhengi til að skilja það eins og til var ætlast – og í sumum tilvikum dugir mállegt samhengi ekki einu sinni, heldur þarf þekkingu á aðstæðum eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi. En við það verðum við líklega bara að búa – það er enginn heimsendir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er að bera virðingu fyrir það sama og virða?

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Guðveig segist bera virðingu fyrir þessum sjónarmiðum.“ Þetta er algeng málnotkun og hvarflar ekki að mér að nýta í hana eða halda því fram að hún sé röng í einhverjum skilningi, en þarna hefði ég fremur sagt Guðveig segist virða þessi sjónarmið. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið virðing skýrt 'viðurkenning og gott álit sem maður ávinnur sér frá öðrum, heiður' og í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'álit, heiður; það að virða'. Þótt sögnin virða sé vissulega skýrð 'bera virðingu fyrir' í Íslenskri nútímamálsorðabók mætti skilja skýringarnar á nafnorðinu virðing á þann veg að það sé einkum fólk fremur en skoðanir sem getur notið virðingar – sem hægt er að bera virðingu fyrir.

Þetta er samt ekki svo einfalt – það má finna ótal gömul dæmi um að virðing sé notað um annað en fólk. Í Kvennablaðinu 1913 segir: „þær bera þá virðingu fyrir þessu mikilvægasta máli íslenzku þjóðarinnar.“ Í Íslandi 1927 segir: „Maður hefir ekki getað séð það á blaðinu, að það bæri sérlega virðingu fyrir þessu ríki.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Ég hafði borið svo óstjórnlega virðingu fyrir þessu bréfi.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „En alt í einu hjer um daginn fjekk jeg djúpa virðingu fyrir þessu gamla húsi.“ Í Morgunblaðinu 1955 segir: „Við verðum að bera mikla virðingu fyrir þessu framtaki.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „Þegar maður gengur um götur Varsjár, setur mann hljóðan af virðingu fyrir þessu minnismerki.“

Í staðinn fyrir virðing væri í flestum eða öllum þessum dæmum hægt að setja orðið lotning sem einmitt er skýrt 'djúp virðing' bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. En það eru líka dæmi frá ýmsum tímum um að bera virðingu fyrir skoðunum eða sjónarmiðum og þar væri tæpast eðlilegt að tala um lotningu. Í Dagskrá 1899 segir: „látum oss líka bera virðingu fyrir skoðunum annara manna.“ Í Heimskringlu 1902 segir: „Hann sýndi virðingu fyrir skoðununum og talaði heiðarlega um mótstöðumenn sína.“ Í Alþýðublaðinu 1966 segir: „en berum fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars.“ Í Tímanum 1982 segir: „Staðreyndin er jafnframt sú að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum landverndarmanna.“

Í þessum dæmum myndi ég nota sögnina virða í stað bera virðingu fyrir. Mér finnst virða í samhengi af þessu tagi merkja 'taka tillit til, taka mark á, taka alvarlega, gera ekki lítið úr' eða eitthvað slíkt fremur en tengjast áliti eða heiðri. En mér sýnist notkun sambandsins bera virðingu fyrir í þessari merkingu hafa aukist mjög á síðustu árum. Í Alþingisræðum í Risamálheildinni eru 129 dæmi um bera virðingu fyrir skoðun / sjónarmiði, þar af aðeins ellefu frá því fyrir aldamót. Auðvitað er ekkert athugavert við það eins og áður segir – þetta sýnir bara að við leggjum ekki öll nákvæmlega sömu merkingu í ýmis orð og orðasambönd. Það er í fínu lagi, svo framarlega sem það veldur ekki alvarlegum misskilningi – sem sjaldnast er.

Posted on Færðu inn athugasemd

Smellhitta, smellpassa og aðrar smell-sagnir

Í fyrradag rakst ég á fyrirsögnina „Brasilíumaðurinn smellhitti boltann“ á mbl.is. Ég hef svo sem ótal sinnum sé sögnina smellhitta en fór samt af einhverjum ástæðum að velta henni fyrir mér. Þótt hún sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hana hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en í íslensk-enskri Orðabók Aldamóta á Snöru er hún þýdd 'smash'. Hún merkir 'hitta vel eða nákvæmlega' og væntanlega liggur sögnin smella að baki – ein merking hennar er 'hrökkva (á sinn stað), passa vel (á sínum stað)‚ ganga upp, klárast', t.d. þetta er allt að smella (saman). En smella merkir einnig 'gera snöggt hljóð' og e.t.v. vísar smell- í smellhitta einnig til smellsins sem verður þegar slegið er eða sparkað í bolta.

Eins og ég þóttist vita er sögnin ekki ýkja gömul – elsta dæmi um hana á tímarit.is er í Víkurfréttum 1985: „Margeir notaði 6-járn, smellhitti og … „lenti inn á gríni og rúllaði beint í holu“.“ Þarna er sögnin notuð um golf og líka í næstelsta dæminu, „Bingó, hann smellhitti boltann“ í DV 1985, en í DV 1989 er merkingin óeiginleg: „Kringlan hefur gengið vel og með henni virðist Pálmi hafa smellhitt naglann á höfuðið.“ Þetta eru einu dæmin um sögnina fyrir 1992 en í DV það ár er hún fyrst notuð um fótbolta: „Ég smellhitti boltann og það var frábært að sjá hann í netinu.“ Eftir það fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og langflest eru úr fótboltamáli. Á tímarit.is eru tæp 170 dæmi um hana en í Risamálheildinni eru dæmin rúm 500.

Nokkrar aðrar samsettar sagnir með smell- sem fyrri lið má finna í Risamálheildinni. Þrettán dæmi eru um smellvirka, t.d. „Síðast en ekki síst er það svo meginatriðið, þetta samspil mynda og texta, sem smellvirkar“ í Morgunblaðinu 2008. Átta dæmi eru um smellganga, t.d. „Sumir hafa látið í sér heyra síðar og þá hefur allt smellgengið upp“ í Vísi 2015. Fjögur dæmi eru um smellfalla, t.d. „Allan Fall er að smellfalla inn í liðið“ í Morgunblaðinu 2008. Sögnin smellkyssa er hins vegar miklu eldri og líklega annars eðlis– elsta dæmi um hana er „augun ætluðu blátt áfram út úr hausnum á honum, þegar hann sá hana smellkyssa stjúpuna“ í Alþýðublaðinu 1951. Þar er væntanlega vísað til hljóðsins, enda orðið kossasmellur til – elsta dæmi um það frá 1943.

En langalgengasta sögnin með þennan fyrri lið er smellpassa sem mér fannst ég hafa kunnað alla tíð og hélt að væri gömul, er í raun litlu eldri en smellhitta ef marka má tímarit.is – elsta dæmið um hana er í Íþróttablaðinu 1978: „Einhver áhorfandanna hafði verið við þessum úrslitum búinn og dró upp úr pússi sínu gulllitaða kórónu sem smellpassaði á hálfsköllótt höfuð Stenzels.“ Fáein dæmi eru um sögnina frá næstu árum en það er ekki fyrr en um miðjan tíunda áratuginn sem hún fer að verða algeng og tekur svo við sér svo að um munar á þessari öld. Alls eru tæplega 2.600 dæmi um hana á tímarit.is og nærri 4.500 í Risamálheildinni. Þarna er augljóst að um er að ræða merkinguna ‚passa vel‘ en merkingin ‚gera snöggt hljóð‘ á ekki við.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þetta skýrist senn

Forseti Íslands sagði á Bessastöðum áðan að hann vænti þess að það myndi skýrast „senn“ hver tæki við af Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum og þrátt fyrir að vera þráspurður fékkst hann ekki til að nefna nánari tímasetningu þótt á honum mætti skilja að hann væri að vísa til fáeinna daga í mesta lagi. En er hægt að negla nákvæma merkingu atviksorðsins senn niður? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'bráðum' en bráðum er aftur skýrt 'innan skamms tíma'. Í Íslenskri orðabók er senn skýrt 'bráðum, fljótlega, rétt strax'. Í fornu máli merkir orðið yfirleitt 'á sama tíma, í einu' eða 'strax, umsvifalaust'. Það er því að sjá að frá fornu máli hafi heldur teygst á þeim tíma sem orðið vísar til.

Það er ekki einsdæmi að fólk velti fyrir sé merkingu atviksorða sem vísa til tíma. Þekkt dæmi um það eru orð Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi þingmanns Framsóknarflokksins, í Kastljósi 3. október 2013: „Og þegar er verið að ræða svona mál, svona brýn mál, þá er kannski strax teygjanlegt hugtak.“ Þetta vakti mikla athygli og á Vísindavefnum er að finna ítarlegt svar við spurningunni hvort strax sé virkilega teygjanlegt hugtak. Þar segir m.a. að „þegar orðið ‚strax‘ er notað sé mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í“ og slíkur skilningur þurfi „að vera til staðar til að báðir aðilar komi sér saman um hve langt sé í teygjunni“. Nú er spurningin: Hve löng er teygjan í senn?

Posted on Færðu inn athugasemd

Ef þörf kræfi

Í dag sá ég sagnmyndina kræfist í frétt á vefmiðli: „Selenskí hafði áður sagt að hann myndi ekki undirrita lögin nema nauðsyn kræfist.“ Þarna er vissulega venja að nota myndina krefðist en kræfist er þó ekki einsdæmi. Elsta dæmið sem ég finn á tímarit.is er í Ísafold 1904: „eg aftalaði það strax daginn eftir, þó gegn því að greiða Jóni Helgasyni af mínum hálfparti […] ef hann kræfist þess.“ Í Munin 1936 segir: „Þetta gæti stafað af því, að námið kræfist slíks.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Mönnum hefir verið sagt að málið væri undirbúið og kræfist framkvæmda.“ En þetta er ekki bundið við miðmynd sagnarinnar krefja – dæmin um kræfi í stað krefði í germynd eru mun fleiri, einkum í samböndunum nauðsyn kræfi og þörf kræfi.

Í ræðu á Alþingi 1911 segir: „Og mundi hún ekki verða notuð, nema ef nauðsyn kræfi.“ Lesbók Morgunblaðsins 1929 segir: „verða þar sæti fyrir 80 áheyrendur, en koma mætti um 100 fyrir, ef nauðsyn kræfi.“ Í Rétti 1938 segir: „Varðliðið var aukið og gefin út skipun um að skjóta á fólkið, ef þörf kræfi.“ Í Fréttablaðinu 2009 segir: „Hraða átti vinnu ráðherranefndar og gera tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins um viðbótarúrræði ef þörf kræfi.“ Í héraðsdómi frá 2011 segir: „Skyldi gera tímasetta áætlun um framkvæmd úrbóta ef þörf kræfi.“ Alls er á annað hundrað dæma um myndir með kræf- í stað krefð- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um 100, þar af um 60 í samböndunum nauðsyn kræfi eða þörf kræfi.

Það er nokkuð augljóst að þessi beyging sagnarinnar krefja er tilkomin fyrir áhrif frá beygingu sagna eins og gefa, hefja og sofa. Til (ég) gef svarar (þótt ég) gæfi, til (ég) hef svarar (þótt ég) hæfi, til (ég) sef svarar (þótt ég) svæfi, þannig að það liggur beint við að álykta að til (ég) kref svari (þótt ég) kræfi. Við það bætist að til er í málinu lýsingarorðið kræfur í merkingunni ‚sem unnt er að krefjast‘, sbr. afturkræfur, endurkræfur o.fl. Þetta orð „gæti verið ísl. nýmyndun af krefja til samræmis við hefja: hæfur, skafa: skæfur o.fl.“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Svipaðar áhrifsbreytingar eru ótalmargar í beygingu sagna og annarra beygjanlegra orða í málinu, margar hverjar fullkomlega viðurkenndar. Þessi breyting er það ekki, en er eðlileg og saklaus.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mál og mannréttindi

Ég var í Eistlandi um páskana og hef verið að hugsa dálítið um samanburð á eistneska málsamfélaginu og því íslenska. Eistneska og íslenska eru óskyld tungumál en eiga það sameiginlegt að vera smáþjóðamál – þótt u.þ.b. þrisvar sinnum fleiri eigi eistnesku að móðurmáli en íslensku er eistneska málsamfélagið samt eitt það minnsta í Evrópu. Eistnesk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á verndun og eflingu eistneskunnar og m.a. sett lög sem taka til bæði opinberra aðila og einkaaðila og kveða á um eflingu og notkun eistnesku á öllum sviðum, t.d. í heitum staða og fyrirtækja, á hvers kyns skiltum, í auglýsingum og upplýsingum um vörur, í sjónvarps- og útvarpsefni, á vefsíðum o.fl. Mér sýnist að þessu sé fylgt fast eftir.

Lagasetning um notkun þjóðtungna eins og íslensku og eistnesku hefur það markmið að stuðla að notkun málanna á öllum sviðum samfélagsins og styrkja þau gagnvart ásókn erlendra tungumála. Það er eðlilegt og göfugt markmið – tungumálið er mikilvægur hluti af sjálfsmynd einstaklinga og menningu þjóðarinnar. Sérhvert tungumál er hluti af sameiginlegum menningararfi mannkyns sem æskilegt er að varðveita og smáþjóðatungumál eins og íslenska og eistneska eru í sérlega viðkvæmri stöðu vegna þess að þau nýtast hvergi utan heimalandsins. Við lagasetningu sem á að tryggja hagsmuni eins opinbers tungumáls verður hins vegar að gæta þess vel að ekki sé gengið óeðlilega á rétt þeirra sem tala önnur tungumál.

Í Eistlandi er stór rússneskumælandi minnihluti, u.þ.b. fjórðungur íbúa landsins – hluti þeirra afkomendur fólks sem var flutt til Eistlands á Sovéttímanum. Það sem gerir málið sérstaklega viðkvæmt er að rússneska er mál stórþjóðarinnar sem var löngum herraþjóð í Eistlandi – í rúm tvö hundruð ár fram til 1918 og aftur í nærri hálfa öld frá seinni heimsstyrjöldinni, og ógn frá Rússlandi vofir vitanlega enn yfir. Þess vegna er mjög eðlilegt að eistnesk stjórnvöld vilji efla eistnesku og draga úr notkun rússnesku í landinu – rússneskan tengist svo mörgu óþægilegu í sögu landsins og minnir á rússnesk yfirráð og kúgun. Við getum auðvitað tengt þetta við Danahatur og andúð á dönsku hér á landi þótt slíkt sé blessunarlega liðin tíð.

Lagasetning til styrktar eistneskunni leiðir óhjákvæmilega til þess að málleg réttindi þeirra sem eiga hana að móðurmáli verða mun meiri en réttindi þeirra sem eiga rússnesku að móðurmáli. Í ljósi þess að eistneskan er þjóðtunga og móðurmál mikils meirihluta þjóðarinnar er það ekki óeðlilegt, en spurningin er samt sú hvort stundum sé of langt gengið – hvort gengið sé á eðlileg og sjálfsögð mannréttindi hins rússneskumælandi minnihluta. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur lýst áhyggjum sínum af því að svo kunni stundum að vera en þetta er álitamál sem ég skal ekki dæma um. Hvað sem því líður er ljóst að þarna geta orðið ýmsir árekstrar milli réttinda þjóðtungunnar annars vegar og mannréttinda borgaranna hins vegar.

Staðan á Íslandi er vitanlega allt önnur en í Eistlandi. Hér hafa ekki verið nein minnihlutamál – til skamms tíma höfðu nánast allir íbúar landsins íslensku að móðurmáli og engin þörf var á að taka tillit til annarra tungumála enda er ekki vikið að stöðu annarra mála en íslensku og íslensks táknmáls í Lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011. Öfugt við eistnesku lögin taka þau eingöngu til opinberra aðila en ekki einkaaðila, og að auki hefur þeim verið mjög slælega framfylgt. Vegna þessa hefur enska getað orðið sífellt meira áberandi í almannarýminu á undanförnum árum, bæði í raunheimi og stafrænum heimi, án þess að verulega hafi verið spornað við því – stjórnvöld og almenningur hafa látið það viðgangast.

Þetta sinnuleysi hefur leitt til þess að enskan hefur unnið sér eins konar hefðarrétt – það er mjög erfitt að snúa til baka og hverfa frá þessari miklu enskunotkun án þess að það hafi margvíslegar afleiðingar. Fólk hefur flust hingað og búið hér árum saman án þess að til þess hafi verið gerðar kröfur um íslenskukunnáttu – hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum landsins nálgast 20% og á án efa eftir að hækka, og verulegur hluti þessa fólks talar ekki íslensku. Þess vegna væri umdeilanlegt að setja mjög takmarkandi reglur um enskunotkun fyrirvaralaust – það mætti segja að þar væri komið aftan að fólki. Því fara að vakna spurningar um málleg réttindi þeirra sem eiga annað móðurmál en íslensku – er tími til kominn að kveða á um þau í lögum?

Að mínu mati skiptir meginmáli í þessu hvaða skilyrði við búum fólki sem hingað kemur til að læra íslensku. Ef íslenska á áfram að standa undir nafni sem þjóðtunga þurfum við að leggja megináherslu á að fólk sem sest hér að læri málið, sjá því fyrir ókeypis íslenskunámskeiðum, gera því kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma og flétta það saman við starf sitt, og vera jákvæð og hvetjandi gagnvart ófullkominni íslensku. En ef við sinnum þessu ekki leiðir það til þess að sífellt stærri hluti íbúanna verður ekki íslenskumælandi, og þá hlýtur að koma að því að við verðum að veita öðrum tungumálum en íslensku meiri réttindi í samfélaginu en þau hafa nú. Annað væri beinlínis bæði andstætt mannréttindum og hættulegt lýðræðinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Lítilmagnar, undirhundar – og underdogs

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær var haft eftir landsliðsþjálfaranum Åge Hareide: „Stundum getur hinn svokallaði lítilmagni [underdog] slegið til baka“ og í frétt undir fyrirsögninni „Undirhundar geta stundum bitið frá sér“ á vefnum fótbolti.net voru sömu ummæli endursögð „stundum geta undirhundarnir (litla liðið eða það ólíklegra, e. underdogs) bitið frá sér“. Þarna hefur landsliðsþjálfarinn sem sé notað enska orðið underdogs og það er í öðru tilvikinu þýtt lið fyrir lið, undirhundar, en í hinu tilvikinu er fundin íslensk samsvörun, lítilmagni. Það er þó sameiginlegt með báðum fréttum að íslenska orðið er skýrt með því enska og það má velta því fyrir sér hvers vegna það er gert og hvort fyrir því sé gild ástæða eða jafnvel brýn nauðsyn.

Orðið underdog merkir 'a person or group of people with less power, money, etc. than the rest of society' eða 'einstaklingur eða hópur fólks með minna vald, peninga o.s.frv. en annað fólk í samfélaginu'. Í Ensk-íslensku orðabókinni á Snöru er orðið skýrt 'sá sem má sín minna, lítilmagni; olnbogabarn'. Orðið kemur fyrst fyrir í íslensku samhengi í Þjóðviljanum 1973: „Með nokkrum hætti er hver „topdog“ háður „underdog“ (þeim sem minna má sín).“ Í DV 2000 er haft eftir Megasi: „Ég meina, ekki er ég kvenkyns og mér finnst ég vera hryllilega mikill „underdog“.“ Í grein eftir Ármann Jakobsson í Skírni 2006 segir: „Stephenie og Bobby Jon urðu það sem Bandaríkjamenn kalla „undirhunda“ (underdog) en við köllum smælingja.“

Á síðustu 10-15 árum hefur underdog verið töluvert notað í íslensku samhengi, einkum í íþróttafréttum – oft í gæsalöppum og stundum skýrt á íslensku. Á Vísi 2012 segir: „Ég er „underdog“ en það verður einhver að vera í því hlutverki.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „Okkur líður langbest þegar við erum litla liðið eða „underdog“.“ Í Fréttatímanum 2014 segir: „Ég hef alltaf verið „underdog“ og held að mér muni alltaf líða þannig.“ Á fótbolti.net 2013 segir: „Augljóslega yrði Ísland mesti „underdog-inn“ sem kæmist á heimsmeistaramótið.“ Í DV 2017 segir: „Portúgalar eru „the underdog“ í þessari keppni eins og við Íslendingar.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Við erum alltaf svolitlir „underdogs“ (e. minni máttar).“

Skýringu á orðinu undirhundur er ekki að finna í neinum orðabókum. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í vesturíslenska blaðinu Heimskringlu 1943 en það sést fyrst í íslensku blaði 50 árum síðar. Samkvæmt Ritmálssafni Árnastofnunar kemur það þó fyrir í bók eftir Halldór Stefánsson frá 1959. Í Risamálheildinni eru um 60 dæmi um orðið frá síðustu 15 árum, megnið af samfélagsmiðlum. Dæmi úr öðrum textum eru nær öll innan gæsalappa og stundum skýrð á ensku eða íslensku. Í Kjarnanum 2018 segir: „Ernirnir hafa með undraverðum hætti tekið „undirhunda“ eða „underdog “ hlutverk sitt í fangið.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „En að þessu sinni mæta þær til leiks sem svokallaðir „undirhundar“, eða það lið sem er ólíklegra til sigurs.“

Orðið undirhundur er vitanlega íslenska í þeim skilningi að báðir hlutar þess eru íslensk orð. En upphafleg merking enska orðsins er „the beaten dog in a fight“ eða „hundur sem er sigraður í átökum“ og þótt under samsvari undir og dog samsvari hundur má deila um hvort sömu merkingarvensl milli orðhlutanna og eru í underdog fáist með tengingu þeirra í íslensku. Orðið er líka óþarft því að við höfum gömul og þekkt íslensk orð yfir þessa merkingu eins og áður er komið fram – einkum lítilmagni en einnig smælingi o.fl. Í viðtali í Stundinni 2015 segir Jón Gnarr: „hugmyndafræði Besta flokksins gekk út á alls konar fyrir aumingja, sem var skásta þýðingin sem við fundum á hugtakinu underdog“ – en sú þýðing er kannski ekki heppileg.

Hvað sem þessu líður er undirhundur greinilega komið í einhverja notkun og venst sjálfsagt eins og önnur orð, og vitanlega má segja að það sé betri kostur en að nota underdog óbreytt. Hins vegar er það umhugsunarefni að ástæða skuli talin til að skýra íslensk orð eins og lítilmagni og undirhundar með ensku orði. Hægt er að líta á þetta sem eðlilega þjónustu við lesendur – fréttaskrifarar vilja hjálpa þeim til að skilja orðið með því að benda á enskt orð sem talið er líklegra að lesendur skilji. En einnig má líta á þetta sem vantraust á lesendum – talið óvíst að þeir muni skilja þetta annars. Hvort sem heldur er finnst mér það umhugsunarefni ef málnotendur þurfa stuðning ensku til að skilja íslensku. Þá erum við á varasamri braut.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íssland

Í Málvöndunarþættinum var – ekki í fyrsta skipti – verið að hnýta í framburðinn Íssland, þ.e. stutt í [istlant], og þessi framburður hefur iðulega verið gagnrýndur á undanförnum áratugum. Helgi Hálfdanarson sagði í Morgunblaðinu 1984: „Og ástæðan til þess, að ég tel rétt að kenna börnum að lesa fremur Ísland en Íssland, er ekki sú, að framburður með einu s-i sé að líkindum algengari enn sem komið er, heldur blátt áfram sú, að landið heitir Ísland (stofnsamsett) en ekki Íssland (laust samsett) og nafnið stafsett samkvæmt því.“ Í bréfi sem Gísli Jónsson birti í Morgunblaðinu 1993 sagði: „Ísland heitir Ís-land með löngu í-i og einu s-i, af því að menn sáu fjörð fullan af ís(i). Nú segja ýmsir, og jafnvel þeir sem síst skyldi, „Íssland“ […].“

Þegar nefndir eru „þeir sem síst skyldi“ er sennilega verið að vísa til Vigdísar Finnbogadóttur. Hún hefur þennan framburð og það var stundum gagnrýnt þótt yfirleitt væri það gert undir rós. En Vigdís veit venjulega hvað hún syngur og óvarlegt að gera athugasemdir við meðferð hennar á íslensku máli. Pistil Guðmundar Andra Thorssonar í Alþýðublaðinu 1996 undir fyrirsögninni „Íssland“ má líka skilja svo að honum finnist þessi framburður hafa einhver sérstök tengsl við landið: „… því hér er allt sem ann ég. Tveir dagar í viðbót og ég verð farinn að bera það fram eins og sannur ættjarðarvinur með stuttu í-i og tveimur essum: Íssland.“ En það er fjarri því að þessi framburður sé einhver nýjung eins og sjá má í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Jón Ófeigsson menntaskólakennari sem var fær hljóðfræðingur hljóðritaði öll flettiorð í þeirri bók. Orðið Ísland hljóðritar hann á tvo vegu, [iːslant] og [i·slant], þ.e. ýmist með tveimur punktum eða einum á eftir í – tveir punktar tákna langt hljóð en einn punktur „hálfa lengd“. Orð eins og ístra hljóðritar Jón [i·sdra], og ískra er einnig sýnt með hálfri lengd á í – aftur á móti eru orð eins og t.d. ístað og íslaus eingöngu hljóðrituð með löngu í. Það er því ljóst að Jón gerði ráð fyrir tvenns konar framburði á Ísland – annars vegar framburði með löngu í eins og í ístað og hins vegar framburði þar sem í-ið hefði sömu lengd og það hefur í orðum eins og ístra og ískra. Það er sá framburður sem við skynjum sem Íssland og er því a.m.k. hundrað ára gamall.

Það er alveg rétt að heiti landsins er ekki eignarfallssamsetning, Íss-land, þótt slík samsetning gæti vissulega staðist, heldur stofnsamsetning, Ís-land. En það táknar ekki að framburður með stuttu í sé rangur. Sá framburður kemur til ef reglu um lengd sérhljóða – sem segir að sérhljóð sé stutt ef tvö eða fleiri samhljóð fara á eftir – er beitt á orðið í heild, en ekki á hvern orðhluta fyrir sig. Það er eðlilegt og algengt í samsettum orðum, ekki síst örnefnum eins og ég hef skrifað um. Reglan tekur þá mið af bæði lokahljóði fyrri hlutans, s, og upphafshljóði þess seinni, l, og útkoman verður stutt í – en ef reglan miðar aðeins við samhljóð fyrri hlutans, s, verður í langt. Hvort tveggja er fullkomlega eðlilegur framburður og engin ástæða til að gera þar upp á milli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ástríða og Ástríður

Í Málvöndunarþættinum hefur verið nokkur umræða um framburð orðsins ástríða sem skýrt er 'áköf löngun' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er komið af sögninni stríða með forliðnum á, sbr. sambandið stríða á sem getur m.a. merkt 'leita fast á'. Í Málfarsbankanum segir: „Orðið ástríða skiptist þannig milli lína: á-stríða.“ Ekkert er hins vegar sagt um framburð orðsins en út frá þessum uppruna mætti búast við að orðið væri borið fram með löngu á, [au:striða], eins og flest orð sem mynduð eru á sama hátt, t.d. á-skorun, á-skilja, á-skapa, á-sjóna, á-sláttur o.s.frv. Sá framburður er vissulega algengur, en einnig er algengt að orðið sé borið fram með stuttu á, [austriða], eins og í orðinu ást. Mörgum fellur sá framburður ekki í geð.

Framburður með stuttu á er a.m.k. þrjátíu ára gamall en sennilega mun eldri. Elsta dæmi sem ég hef fundið um að varað sé við honum er í dálknum „Hvað skal segja?“ í Morgunblaðinu 1996. Þar segir: „Nafnorðið ástríða er myndað af því, að eitthvað stríðir á einhvern. Í framburði hlýtur það því að skiptast í á-stríða.“ Árið eftir sagði Gísli Jónsson í þætti sínum í Morgunblaðinu: „Greina verður á milli kvenmannsnafnsins Ástríður og fleirtölunnar af ástríða. Í kvenheitinu er á-ið stutt, eins og í ást, en í hinu orðinu er á-ið langt, enda er það forskeyti, orðið samsett á-stríður.“ Framburður orðsins ástríður var líka Pétri Péturssyni þul mjög hugleikinn og hann skrifaði nokkrum sinnum um málið í Morgunblaðinu.

Önnur orð sýna þó að framburður orða af þessu tagi hefur verið á reiki fyrr. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Hyggjum að skiptingu orðanna ástand og ástúð í framburði! Réttur framburður er á-stand og ást-úð. (Ath. á-stúð er rangur framburður.)“ Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1993: „Umsjónarmaður hefur heyrt undarlegan framburð kvenmannsnafnsins Ástríður, og það jafnvel hjá þeim sem prýðilega eru talandi. Er þá kvenheitið borið fram eins og fleirtala af samnafninu ástríða, það er „á-stríður“. Ástríða er náttúrlega eitthvað það sem stríðir á mann. En kvenmannsnafnið er auðvitað samsett af ást. […] Engum manni dettur í hug að bera karlheitið Ástráður fram „á-stráður“, enda auðvelt að snúa út úr slíku.“

Þessi dæmi benda til þess að óvissa í framburði orða sem byrja á ást- sé a.m.k. fjörutíu ára gömul. Hún kemur einkum þannig fram að orð þar sem á- er forliður og búast mætti við löngu sérhljóði séu borin fram með stuttu sérhljóði (a.m.k. ástríða og e.t.v. ástand ef marka má dæmið úr Gætum tungunnar) eða þannig að orð mynduð af nafnorðinu ást þar sem búast mætti við stuttu sérhljóði séu borin fram með löngu sérhljóði (á-stúð, Á-stríður – sem reyndar mun fremur komið af *Ásríður sem upphaflega var *Ásfríður). Þótt Gísli Jónsson segi að engum detti í hug að bera Ástráður fram Á-stráður er ég nokkuð viss um að hafa heyrt það. Í seinna tilvikinu er hugsanlega um ofvöndun að ræða sem rekja má til leiðréttinga á framburði orðsins ástríða.

Vissulega er ljóst að framburður með löngu á er hinn upphaflegi í orðinu ástríða, og trúlegt að stutta hljóðið sé tilkomið vegna þess að málnotendur tengi orðið við ást sem er mjög skiljanlegt því að merkingarsvið orðanna skarast. En það þýðir ekki að framburður með stuttu sérhljóði sé rangur. Í íslensku eru sérhljóð að jafnaði stutt á undan tveimur eða fleiri samhljóðum en löng annars, en í samsettum orðum getur verið misjafnt hvort reglan verkar innan hvers orðhluta fyrir sig eða í orðinu öllu í einu. Ef reglan verkar sérstaklega í hvorum orðhluta í á-stríða verður sérhljóðið langt, en ef hún verkar í orðinu öllu tekur hún tillit til st í upphafi seinni hlutans sem gefur stutt sérhljóð. Hvort tveggja á sér fjölda fordæma í málinu og er fullkomlega eðlilegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þrotaður

Í fyrradag var lýsingarorðið þrotaður nefnt hér en málshefjandi sagðist hafa heyrt það öðru hverju undanfarin ár. Það er hvorki flettiorð í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en hins vegar hefur það tvisvar verið að finna í listum um slangur í Fréttablaðinu, í fyrra skiptið í ársbyrjun 2014 undir yfirskriftinni „Slangur ársins 2013“ þar sem það er aðeins skýrt 'lélegur'. Árið 2015 var skýringin hins vegar mun ítarlegri: „Þrotaður/Þrotabú = Að vera búinn á því. Orðið þrotabú er notað yfir þá sem eru alveg búnir á því, hvort sem það er þreyta eða eitthvað annað. Þeir sem hafa gert mörg mistök eða eru ekki að gera góða hluti í lífinu geta eru ýmist þrotaðir eða þrotabú.“ Á tímarit.is eru innan við tíu dæmi um orðið.

Orðið hefur hins vegar blómstrað í óformlegu málsniði á síðustu árum. Í Risamálheildinni er hátt á áttunda hundrað dæma um það, næstum öll af samfélagsmiðlum (twitter). Þau elstu eru frá 2012 og notkunin virðist hafa aukist mjög hratt fram til 2015 en verið í nokkru jafnvægi síðan. Þegar orðið er notað um ástand fólks virðist merkingin oftast vera 'að þrotum kominn, búinn á því' en ef það er notað um eitthvað annað, svo sem frammistöðu fólks (t.d. listafólks), atburði, aðstæður eða hluti, er merkingin fremur 'lélegur, úreltur, leiðigjarn, búinn að vera' eða eitthvað slíkt – svipað og þreytt er oft notað. Vissulega eru þó engin skörp skil þarna á milli og eins og algengt er með lýsingarorð sem lýsa ástandi fer túlkunin eftir aðstæðum hverju sinni.

„„Það er frekar þrotað bara, ef ég á að segja eins og er“ segir á vef Ríkisútvarpsins 2020 um útgöngubann í covid. Á Vísi 2018 segir: „Víkingar eru í dauðafæri að næla í þriðja sigur sinn í röð er liðið fær hið þrotaða botnlið Keflavíkur í heimsókn.“ Á fótbolti.net 2019 segir: „Hann spilar þrotaðan fótbolta og hefur þrotaða og karakterslausa nærveru.“ Í Kjarnanum 2014 segir: „Nota þrotaðan Samsung Galaxy Young síma.“ Dæmi af twitter: „Þessi leikur hérna í Vesturbænum er gjörsamlega þrotaður“ (2014), „Þetta er þrotaðasti þriðjudagur ever“ (2015), „Ég er svo þrotuð og leiðinleg í dag“ (2015), „Þetta er svo þrotuð umræða finnst mér“ (2016), „Aðeins minni kvíði en ótrúlega þrotuð og þreytt“ (2016), „Það er þrotuð þjónusta!“ (2017).

Lýsingarorð sem enda á -aður eru yfirleitt upphaflega lýsingarháttur þátíðar af sögn, en sögnin þrota er ekki notuð í nútímamáli og hana er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók. Sögnin hefur þó verið til í málinu og er m.a. nefnd í Íslenskri orðsifjabók í merkingunni 'ganga til þurrðar, skorta' og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem hún er skýrð 'faa Ende, mangle, fattes' sem merkir u.þ.b. það sama. Þar kemur fram að sögnin tók þolfallsfrumlag – einhvern þrotar eitthvað. Í Ritmálssafni Árnastofnunar eru fjögur dæmi um sögnina, öll frá 16. og 17. öld, og þau örfáu dæmi sem ég fann um hana á tímarit.is virðast flest eða öll vera úr gömlum textum. Hún virðist því með öllu horfin úr málinu.

Þótt lýsingarorðið þrotaður líti út eins og lýsingarháttur þátíðar af þrota er ekki líklegt að það sé myndað af sögn sem varla hefur verið notuð í fleiri aldir. Væntanlega er það fremur leitt af nafnorðinu þrot sem vitanlega er af sömu rót og notað í samböndum eins og komast í þrot og vera að þrotum kominn. Einnig gætu verið tengsl við orðið þrotabú eins og í áðurnefndri orðaskýringu í Fréttablaðinu en ég átta mig ekki á því hversu mikið það er notað í þessari merkingu. Einhver dæmi er þó að finna í Risamálheildinni eins og „Er ég algjört þrotabú ef ég er að pæla í að rölta niður í vinnu og tékka á stemmaranum á fyrsta sumarfrídeginum mínum?“ á twitter 2016. En hvað sem þessu líður er þrotaður ágætt orð og fellur vel að málinu.