Hvað er íslenskt orð?
Í morgun var hér spurt hvort computer says no væri íslenska. Þetta er þekktur frasi sem á uppruna sinn í gamanþáttunum Little Britain frá því upp úr aldamótum og fólk bregður oft fyrir sig þótt annars sé verið að tala íslensku. Í fljótu bragði kann það að virðast fráleitt að spyrja hvort þetta sé íslenska – þetta er setning sem er tekin í heilu lagi úr ensku og öll orðin ensk. En þetta er samt gagnleg spurning því að hún knýr mann til að velta því fyrir sér hvernig við skilgreinum íslensku og íslensk orð. Hvaða skilyrði þarf orð eða orðasamband að uppfylla til að geta talist íslenska? Ef hægt er að rekja orð til frumnorrænu er það ótvírætt íslenska, en hvað með öll þau orð sem hafa bæst í málið frá upphafi Íslandsbyggðar? Er ekkert þeirra íslenska?
Auðvitað væri fráleitt að neita öllum þeim orðum um að teljast íslensk og engum dettur það í hug. Fjölmörg tökuorð almennt hafa lagað sig algerlega að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – orð eins og prestur, sápa, bíll og ótalmörg fleiri. Aðlögun dugir þó ekki alltaf til – orð eins og rúta þótti til skamms tíma vafasamt vegna uppruna síns þótt það falli alveg að málinu. Hins vegar njóta ýmis tökuorð fullrar viðurkenningar enda þótt þau hafi ekki lagað sig fullkomlega að íslensku málkerfi – orð eins og biskup „ætti“ t.d. að hafa nefnifallsendingu og vera *biskupur og nafnið Jón „ætti“ að vera *Jónn. Orð eins og bíó, partí, mótor og lager falla ekki fullkomlega að íslensku hljóðkerfi en varla er samt hægt að neita þeim um þegnrétt í málinu.
En ný orð koma ekki eingöngu úr erlendum málum. Það er sífellt verið að búa til nýyrði sem sum hver eiga sér beinar erlendar fyrirmyndir en önnur ekki. Stundum eiga þessi orð sér enga ættingja í málinu – eru bara hljóðastrengur sem er gefin ákveðin merking. Nýlegt dæmi um það er orðið kvár sem kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 árið 2020 og er notað um kynsegin fólk, hliðstætt orðunum karl og kona. En oftast eru þessi nýyrði þó leidd af orðum sem fyrir eru í málinu með afleiðslu eða samsetningu – dæmi um það eru orðin hittingur og fagn sem hér var nýlega fjallað um. Þótt íslenskur uppruni þessara orða sé ótvíræður dugir það samt ekki endilega til að málnotendur sætti sig við þau – en þau hljóta samt að teljast íslenska.
Um þetta mætti skrifa langt mál en ég legg til að við setjum okkur eftirfarandi viðmið: Frumforsenda fyrir því að hugsanlegt sé að telja eitthvert orð eða orðasamband íslenskt er að það sé notað í setningarlegu samhengi með orðum sem eru ótvírætt íslensk. Það þýðir að computer says no getur ekki talist íslenska vegna þess að það er heil setning þar sem öll orðin eru ensk. Aftur á móti gætu orð eins og næs, kúl, kósí, beila, ókei, tsjilla, fótósjoppa og fjölmörg fleiri talist íslenska samkvæmt þessu viðmiði þótt þau falli misvel að málkerfinu – og líka orð eins og aksjúalí og beisiklí sem nýlega voru hér til umræðu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru öll þessi orð iðulega notuð í íslenskum setningum innan um íslensk orð.
Ég legg áherslu á að þótt notkun í íslensku setningarsamhengi sé að mínu mati forsenda fyrir því að hægt sé að telja orð íslenskt þýðir það ekki að slík notkun geri orðið sjálfkrafa íslenskt. Þar þarf fleira að koma til, a.m.k. nokkur hefð – orðið þarf að vera komið í töluverða notkun í íslensku samhengi (og svo má auðvitað deila um hvað „töluverð notkun“ sé). Mörgum gæti líka fundist eðlilegt að gera kröfu um einhverja lágmarksaðlögun að málkerfinu en erfitt gæti reynst að ná samstöðu um viðmið í því efni. Og svo getur málkerfið líka breyst. Íslensk orð hafa fram undir þetta ekki byrjað á tsj-, en hugsanlega má segja að tilkoma framburðar eins og tsjald á orðinu tjald geri það að verkum að orðið tsjilla brjóti ekki endilega hljóðskipunarreglur málsins.
Ég held sem sé að það sé borin von að við getum svarað því í eitt skipti fyrir öll þannig að öllum líki hvort eitthvert tiltekið orð sé íslenskt eða ekki. Og ég held líka að það sé í góðu lagi. Á endanum er það málsamfélagið sem sker úr um þetta – ef málnotendur vilja nota eitthvert orð í íslensku gera þeir það og kæra sig kollótta um hvort það er kallað íslenskt eða ekki. Hér má rifja upp það sem Halldór Halldórsson prófessor sagði í skilgreiningu á réttu máli í Stíganda 1943: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ Skilgreining á íslensku orði er þá: „Það mætti því segja að það eitt sé íslenskt orð sem hlotið hefur þá viðurkenningu að vera íslenskt orð.“ Ég held að við komumst ekki mikið lengra.