Posted on Færðu inn athugasemd

gruna

Nýlega sá ég á vefmiðli fyrirsögnina „Íbúa grunar sömu aðila um endurtekin innbrot“. Ástæðan fyrir því að ég staldraði við þessa fyrirsögn var að þar er upphafsorðið íbúa í þolfalli, sem ekki er í samræmi við málhefð. Venja er að hafa þarna nefnifall, eins og er reyndar í undirfyrirsögn í sömu frétt þar sem segir „Íbúar gruna sömu aðila um endurtekin innbrot“ og einnig „Við grunum oft fólk með sakaferil og neyslu um slík brot“. Í sjálfu sér er vel skiljanlegt að fallnotkun með gruna sé eitthvað á reiki vegna þess að sögnin er notuð á tvennan hátt í hefðbundnu máli.

Annars vegar tekur hún nefnifallsfrumlag og þolfallsandlag, ég gruna þig um innbrot, en hins vegar þolfallsfrumlag og aukasetningu, mig grunar að þú hafir brotist inn (stundum er reyndar notað þágufall í stað þolfallsins). Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrri notkunin skýrð sem 'hafa grunsemdir (gagnvart e-m)', en sú síðari sem 'hafa grunsemdir (um e-ð), renna í grun (að e-ð)'. Þarna er augljóslega mjög skammt á milli og þessar setningagerðir blandast að einhverju leyti saman þegar í fornu máli - „því að þú grunaðir þegar að eigi myndi allt af heilu vera“ segir t.d. í Egils sögu.

Þetta tengist líka því að merking sagnarinnar gruna var áður að nokkru leyti önnur, þ.e. 'efast um'. Það sést t.d. á setningunni „Og ef nokkur grunar sögu mína þá má hér nú líta höfuð af honum“ úr Þórarins þætti ofsa. Þessi merking hélst a.m.k. fram á seinni hluta 19. aldar - „hefi ég eigi orðið þess var, [...] að nokkurum hafi komið til hugar að gruna hann um þjóðhollustu“, segir í Fjallkonunni 1885, augljóslega í merkingunni 'efast um þjóðhollustu hans'. En þessi merking er ekki nefnd í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924.

Á tímarit.is hef ég fundið rúmlega 20 dæmi frá 20. og 21. öld um þolfall í sambandinu gruna einhvern um eitthvað, það elsta í Morgunblaðinu 1932: „Nágrannana grunaði þær um galdur, rjeðust að húsinu að nóttu til og brendu alt sem í var.“ En í langflestum tilvikum er þó greint milli þeirra tveggja setningagerða sem nefndar voru í upphafi. Þótt lítill merkingarmunur setningagerðanna valdi því að blöndun þeirra sé skiljanleg finnst mér samt æskilegt að fylgja málhefð og halda þeim aðgreindum áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Viðskeyttar sagnmyndir

Í boðhætti er annarrar persónu fornafnið þú venjulega hengt á sagnstofninn og tekur þá ýmsum breytingum. Í stað ú kemur u, og í stað þ kemur ð, d eða t eftir lokasamhljóði (eða samhljóðasambandi) stofnsins – kalla-ðu, seg-ðu, far-ðu; kom-du, tel-du, kenn-du; gleyp-tu, rek-tu, vit-tu. En slík viðskeyting er ekki bundin við boðhátt, heldur getur líka gerst í öðrum setningagerðum þar sem annarrar persónu fornafnið fer á eftir sögninni, bæði í spurningum eins og fórstu þangað?, sagðirðu eitthvað?, og setningum sem hefjast á öðrum lið en frumlagi, eins og áðan varstu leiðinlegur, þangað skaltu fara, núna gerðirðu mér grikk.

Í boðhættinum bætist viðskeytta fornafnið við beran stofn sagnarinnar en í hinum tilvikunum bætist það aftan við beygingarendingar tíðar, háttar, persónu og tölu. Þessar myndir eru yfirleitt ekki nefndar í kennslubókum og handbókum, en þær eru hafðar með í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þar eru þær nefndar spurnarmyndir sem er ekki að öllu leyti heppilegt vegna þess að þær eru ekki bara notaðar í spurningum eins og áður segir, heldur líka í öðrum setningagerðum sem hefjast ekki á frumlaginu.

Í talmáli er viðskeyting fornafns ekki bundin við aðra persónu eintölu. Fleirtölumyndinni þið er líka skeytt við sögnina – fariði(ð) burt!, fóruði(ð) heim?. Sama má segja um þriðju persónu fornöfn, bæði í eintölu og fleirtölu – fórann burt?, varún heima?, erða(ð) satt?, gátuðau þetta?. Sama máli gegnir ef aukafallsfrumlag fer á eftir sögninni – vantarðig eitthvað?, varðér kalt?, finnstðeim gaman?. En slík viðskeyting er ekki bundin við fornöfn í frumlagshlutverki, heldur er almenn framburðarregla þegar kerfisorð (fornöfn, forsetningar, atviksorð) sem byrja á þ- eða h- standa í áherslulausri stöðu.

Þess vegna er yfirleitt ekki litið svo á að viðskeyttar myndir eins og fórann, varún o.s.frv. séu sérstakar orðmyndir, beygingarmyndir sagna, heldur tvö orð sem renna saman í framburði og því er viðskeyting annarra fornafna en þú yfirleitt ekki sýnd í ritmáli. Eina undantekningin er fornafn annarrar persónu fleirtölu, þið, þar sem viðskeyttu myndirnar koma stundum fyrir í riti. Vegna þess að sagnir enda á í annarri persónu fleirtölu fellur ð framan af fornafninu, og þar sem ð fellur oft brott í enda orðs í áhersluleysi stendur yfirleitt ekkert eftir af fornafninu nema ifariði, komiði, segiði, og slíkar myndir sjást stöku sinnum í ritmáli. Einnig er til að skrifað sé farið, komið, segið, en það er sjaldgæfara.

Það er eðlilegt að líta á spurnarmyndir í annarri persónu eintölu sem sérstakar orðmyndir vegna þess að fornafnið tekur þar miklum breytingum – u kemur í stað ú, og upphafshljóðið lagar sig að lokasamhljóði stofnsins. Það er líka hægt að færa setningafræðileg rök fyrir því að X-u-myndirnar séu sérstakar orðmyndir en ekki framburðarmyndir af X+þú, en það er of flókið til að fara út í hér. Mér finnst hins vegar ástæðulaust að sýna viðskeytingu þið og annarra fornafna en þú í riti vegna þess að sú viðskeyting lýtur almennum framburðarreglum málsins.

En þá er rétt að leggja áherslu á að stafsetning er vitanlega frjáls nema í skólum og stofnunum á vegum opinberra aðila, þannig að fólk sem vill skrifa fariði eða fariðið gerir það bara.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslensk málstefna 2021-2030

Íslensk málstefna 2021-2030 hefur nú verið birt á vef Íslenskrar málnefndar. Ég fékk drög að stefnunni til umsagnar í vor og lýsti ánægju með þau að flestu leyti og sagði: „Drögin eru mjög í þeim anda sem ég hef talað fyrir undanfarin ár og ég held að ég geti skrifað undir nánast hverja einustu efnisgrein í þeim.“ En hélt svo áfram:

„Þó er einn galli á drögunum sem mér finnst bráðnauðsynlegt að bæta úr – grundvallaratriði sem er skautað algerlega fram hjá og „glimrer ved sit fravær“. Það er málstaðallinn. Það orð (eða orðið staðall) kemur alls ekki fyrir í drögunum, og aðeins á einum stað er vikið að réttu máli og röngu. Í ljósi þess að íslensk málfarsumræða hefur í marga áratugi snúist að verulegu leyti um þessi hugtök, og gerir jafnvel enn, er óhjákvæmilegt að um þau sé fjallað ítarlega í íslenskri málstefnu. Annars heldur hin ófrjóa umræða áfram óbreytt, málinu til skaða. [. . .]

Ég er ekki andvígur því að einhver málstaðall sé til. Þvert á móti – það er mikilvægt að hægt sé að vísa til einhvers viðmiðs um vandað, formlegt mál. En það viðmið verður að vera raunhæft og má ekki ganga í berhögg við málkennd umtalsverðs hluta málnotenda. Það má heldur ekki vera einstrengingslegt, heldur verður að rúma mismunandi málvenjur. Oftast eru engin skynsamleg rök fyrir því að taka eina málvenju fram yfir aðra. Málið bíður engan skaða af tilbrigðum í framburði, beygingarmyndum, fallstjórn, merkingu orða o.s.frv.

Ég hef oft rætt þann vanda sem við stöndum frammi fyrir með íslenskan málstaðal – að okkur skortir vettvang til að ræða hann og breytingar á honum, og aðferðir til að gera breytingar á honum. Ég veit ekki hvar á að taka á þessu ef ekki í íslenskri málstefnu. Vitanlega verða einstök atriði málstaðalsins ekki hluti af málstefnunni, en hún verður að leggja einhverjar meginlínur um hann og tryggja að hann verði lagaður að þörfum samtímans. Það er forsenda fyrir því að þessi annars ágæta málstefna nýtist eins vel og hún á skilið og nauðsynlegt er.“

Þetta sagði ég í athugasemdum í vor. Í endanlegri gerð málstefnunnar er málstaðallinn vissulega nefndur, og tekið undir það að hann hljóti að taka breytingum, en við það situr. Ekkert er sagt um hvernig staðallinn eigi að breytast, hvernig eigi að standa að breytingum á honum, og hvernig hann eigi að vera. Ég er hræddur um að það leiði til þess að við hjökkum í sama farinu og mér finnst mjög slæmt að Íslensk málnefnd skuli ekki hafa haft vilja eða kjark til að taka ákveðnar á þessum málum. Nú sitjum við uppi með þessa stefnu – eða stefnuleysi – næsta áratug.

Annað sem ég sakna í málstefnunni er ítarleg umfjöllun um stöðu ensku í íslensku málsamfélagi. Við þurfum að viðurkenna að enskan er komin til að vera í samfélaginu og það er óhjákvæmilegt að hún verði hér fyrirferðarmikil í framtíðinni, samhliða íslensku, en það þarf að marka henni bás. Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Þriðja atriðið sem vantar í málstefnuna er umræða um kynhlutlaust mál – það er ekki nefnt einu orði sem er furðulegt og raunar alveg fráleitt í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um það upp á síðkastið og mun örugglega halda áfram. Skoðanir um kynhlutlaust mál eru vissulega mjög skiptar, og erfitt að ná þar nokkurri sátt, en það réttlætir ekki að málið sé ekki nefnt. Vandinn hverfur ekki þótt honum sé sópað undir teppið. Ný skýrsla sem Íslensk málnefnd hefur látið gera um kynhlutlaust mál (og ég hef ýmsar athugasemdir við) er engin afsökun fyrir því að sleppa því algerlega úr málstefnunni.

Niðurstaða mín er sú að Íslensk málstefna 2021-2030 sé frjálslynd og víðsýn og að flestu leyti mjög góð – svo langt sem hún nær. Hún nær bara alltof skammt og hætt er við að áhrif hennar verði minni en skyldi vegna þess að hún fer sums staðar eins og köttur kringum heitan graut, tekur ekki á viðkvæmum málum og ágreiningsefnum og sópar ýmsum vanda undir teppið. Það er mjög dapurlegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skýrsla um kynhlutlaust mál

Ég var að lesa skýrslu Íslenskrar málnefndar um kynhlutlaust mál og varð óneitanlega fyrir nokkrum vonbrigðum. Þar segir í upphafi:

„Í íslenskri málstefnu 2021–2030 sem nú er í vinnslu er áhersla lögð á að gera öllum sem tala íslensku jafn hátt undir höfði og gæta þess að málnotkun sé ekki útilokandi og að nota orð og orðfæri um mismunandi þjóðfélagshópa sem fólk í þeim hópum kýs sjálft en það getur þýtt að leggja þurfi af viðtekið orðfæri sem ekki er lengur viðeigandi, eða er meiðandi. Tungumálið er þáttur í sjálfsmynd einstaklinga og skiptir því miklu máli fyrir hvern og einn að vera ekki skilgreindur sem hluti af einhverju sem hann vill ekki vera. Ákveðnir hópar, einkum kynsegin fólk og femínistar, hafa barist fyrir auknu jafnrétti í málnotkun og aukinni notkun kynhlutlausra orða. Mikilvægt er að hafa í huga að kyn persónufornafna getur haft áhrif á sjálfsmyndina og það getur verið særandi að vera skilgreindur eftir kyni sem viðkomandi telur sig ekki tilheyra. Barátta þessara hópa fyrir kynhlutlausri málnotkun fellur því að markmiði málstefnunnar um að tungumálið sé ekki útilokandi.“

Undir þetta má taka heils hugar, en því miður er þessu sjónarmiði ekki fylgt eftir í skýrslunni. Þar er slegið úr og í og ekki hvatt til þess að stefna að kynhlutlausu máli. Vissulega er rétt að það er fjarri því að vera einfalt og því fylgja ýmis vandkvæði. En það er ekki næg ástæða til að gefast upp fyrir vandamálinu. Ég hef ævinlega tekið málstað íslenskunnar og hvatt til þess að hún sé notuð alls staðar þar sem þess er kostur. En þótt íslenskan sé mikilvæg eru málnotendurnir mikilvægari. Réttur tungumálsins er mikill en réttur málnotendanna er meiri. Þess vegna hefði ég vonað að í skýrslu málnefndarinnar yrði tekin eindregnari afstaða með rétti málnotenda.

En reyndar held ég að málnotendur séu komnir langt á undan málfarsyfirvöldum að þessu leyti. Mér fannst t.d. áberandi í kosningastefnuskrám flokka og í kosningaauglýsingum hversu mikið var um að notað væri hvorugkyn í stað karlkyns, og ég held að fyrir mörgu ungu fólki sé það bara sjálfsagt mál. Vitanlega verður alls konar ósamræmi og óreiða, og hugsanlega einhver misskilningur, á meðan breytingin gengur yfir – en það er fráleitt að láta eins og það sé einsdæmi. Þannig er það með allar breytingar og öll tilbrigði í málinu. Það er líka sagt: „Ef kynhlutlaust mál yrði regla án undantekninga skapast augljóslega hætta á að málfar fyrri kynslóða og einnig þorra núlifandi manna verði torskildara í framtíðinni.“ Sama má segja um allar málbreytingar. Við misskiljum ýmislegt í gömlum textum vegna þess að við áttum okkur ekki á því hvernig málið hefur breyst. En það er enginn heimsendir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Réttilega svo

Nýlega heyrði ég setningu sem fékk mig til að velta fyrir mér hvort ný setningagerð væri að koma inn í málið. Setningin var einhvern veginn svona: „Þetta var bjartsýnt plan, eiginlega heimskulega svo.“ Það sem mér fannst athyglisvert voru síðustu tvö orðin, heimskulega svo, þar sem endað er á háttaratviksorði (sem oftast endar á -lega) og svo. Þetta er algengt í ensku, þar sem setningar enda oft á and rightly so, and rightfully so, and thankfully so o.s.frv., en mér fannst þetta hljóma frekar ókunnuglega í íslensku.

Ég fór þess vegna að skoða þetta en það er er ekki auðvelt að leita að slíkum dæmum í rituðum textum svo að trúlegt er að ýmislegt hafi farið fram hjá mér. Á tímarit.is og í Risamálheildinni hef ég þó fundið slæðing af dæmum, einkum frá þessari öld. Atviksorð sem ég hef fundið í þessum dæmum eru auðveldlega, heimskulega, langsamlega, maklega, óbærilega, óhjákvæmilega, réttilega, skemmtilega, skiljanlega og syndsamlega. Langflest dæmin, líklega helmingur af heildinni, eru um réttilega.

Elsta dæmi sem ég fann um þessa setningagerð í íslensku er hálfrar aldar gamalt, í Munin 1971, þar sem segir „Hinsvegar lifir Guðjónsson þetta allt af og réttilega svo“. Í Tímanum 1983 segir „Þessi keppnisgrein hefur Íslendingum lengi verið hjartfólgin og skiljanlega svo“. Í DV 1986 segir „Stjórn Suður-Afríku hefur lengi – og réttilega svo – legið undir gagnrýni“. Í Morgunblaðinu 2002 segir „Og til að gera langa sögu stutta uppfyllir Yoshimi Battles The Pink Robots allar þær miklu væntingar, og auðveldlega svo“. Í DV 2009 segir „ríkisstjórnin verður afskaplega óvinsæl, næstum óbærilega svo“.

Ég fór að velta fyrir mér hvernig væri hægt að orða þessi dæmi á annan hátt og komst að því að það væri ekki alltaf alveg einfalt. Dæmið sem ég nefndi í upphafi mætti umorða sem Þetta var bjartsýnt plan, eiginlega heimskulega bjartsýnt; dæmið úr Tímanum 1983 gæti verið Þessi keppnisgrein hefur Íslendingum lengi verið hjartfólgin, og það er skiljanlegt; dæmið úr DV 1986 gæti verið Stjórn Suður-Afríku hefur lengi legið undir gagnrýni, og á það skilið; dæmið úr DV 2009 gæti verið ríkisstjórnin verður afskaplega óvinsæl, næstum óbærilega óvinsæl; o.s.frv.

Mér finnst lítill vafi leika á því að þessi setningagerð sé tilkomin fyrir ensk áhrif. En eins og dæmin hér á undan sýna hefur íslenska ekki neina eina aðferð til að umorða hana, og það er væntanlega ein ástæðan fyrir því að fólk grípur til hennar – hún er þægileg og einföld og umorðunin verður oft lengri og flóknari. Spurningin er hins vegar hvort okkur finnst enskur uppruni næg ástæða til að amast við henni, eða hvort við teljum hana eðlilega og gagnlega viðbót sem auðgi málið. Það verður hvert og eitt ykkar að meta.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að fljúga farþegum

Nýlega sá ég á Facebook heilmikla umræðu um setninguna „Tveim konum var flogið til Íslands“ sem hafði komið fyrir í fréttum. Hliðstæðar setningar hafa margoft verið ræddar áður í ýmsum málfarshópum. Mörgum finnst setningar af þessu tagi ótækar og segja að aðeins flugvélum (eða annars konar loftförum) sé flogið, ekki fólki. Í anda hefðbundinnar íslenskrar málfarsumræðu er tækifærið svo notað til að snúa út úr setningunni og segja fimmaurabrandara.

Það er vel þekkt víða um land að fólki sé flogið, og á sér langa hefð. Elsta dæmi sem ég fann um það í fljótu bragði var í Morgunblaðinu 1954: „Um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi kom önnur flugvél til Keflavíkurflugvallar, sótti farþegana og flaug þeim heim til sín, til Vestmannaeyja.“ Í Frjálsri þjóð 1960 segir „Þeim var flogið til Washington í sérlegri flugvél“. Í Morgunblaðinu 1972 segir „Var fuglunum þar skipað um borð í vöruflutningaflugvél, sem flaug þeim síðan til Englands ásamt nær 300 öðrum gæludýrum“ – og svo mætti lengi telja.

Vitanlega er það rétt að talað er um að fljúga flugvél. En það táknar ekki að rangt sé að tala um að fljúga farþegum. Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að sama sögnin taki andlög sem hafa mismunandi merkingarvensl við sögnina. Í þessu tilviki er nærtækt að bera fljúga saman við aka. Það er talað um að aka bíl, en líka aka farþegum án þess að fólki þyki það athugavert. Sama er að segja um keyra nema hún tekur þolfall – talað er um að keyra bíl og keyra farþega. Í máli sumra, þ. á m. mínu, tekur keyra reyndar þágufall í seinna tilvikinu – ég tala um að keyra bílinn en keyra farþegunum.

En það er athyglisvert að fólk sem hnýtir í setningar eins og fljúga farþegum minnist aldrei á það – og hugsar sennilega ekki út í það eða áttar sig ekki á því – að til skamms tíma var sögnin fljúga áhrifslaus og tók ekki með sér neitt andlag, aðeins frumlag. Fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn flaug fuglum eða örvum eða neinu öðru. Það var ekki fyrr en eftir tilkomu flugvéla í byrjun 20. aldar að þörf skapaðist á að láta fljúga fá andlag. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dagsbrún 1917: „Vélinni var flogið í 1500 til 2000 metra hæð.“ Þessa merkingu sagnarinnar er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Það er því ljóst að báðar setningagerðirnar, fljúga flugvél og fljúga farþegum, eru nýjungar í málinu, báðar frá 20. öld, þótt sú fyrrnefnda eigi sér vissulega eitthvað lengri sögu, sé kannski 30 eða í mesta lagi 40 árum eldri. En þótt seinni gerðin sé sjaldgæfari en hin er hún samt málvenja margra og á sér áratuga sögu, þannig að það væri fráleitt að gera upp á milli þessara setningagerða. Báðar hljóta að teljast rétt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skildi

Nýlega rakst ég á texta frá 1925 þar sem talað er um „skildin utan á búðirnar“. Ég hélt fyrst að skildin væri prentvilla fyrir skiltin en fór samt að skoða málið nánar. Þá kom í ljós að skildi er flettiorð í Íslenskri orðsifjabók í merkingunni 'skilti, nafnspjald' og sagt vera nýyrði í nútímamáli, tengt skjöldur. Orðið er einnig að finna í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 og meira að segja í Íslenskri orðabók sem tekur mikið af orðum frá Blöndal þótt þau hafi ekki verið notuð í marga áratugi.

Á tímarit.is er að finna örfá dæmi um skildi, það elsta sem ég fann er frá 1899 og það yngsta frá 1945. Þetta nýyrði virðist því aldrei hafa náð neinu flugi, heldur hefur skilti verið notað í staðinn. Það er tökuorð úr dönsku frá 19. öld, skylt skjöldur. Bæði orðin, skildi og skilti, eru því af sömu rót þótt leið þeirra inn í íslenskuna sé ólík - annað tökuorð en hitt íslensk nýmyndun. Mér finnst skildi fallegra orð en úr þessu verður það varla tekið upp í staðinn fyrir skilti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Glöggvi

Ég var spurður um það hvort til væri eitthvert nafnorð um þann eiginleika að vera glöggur. Fyrirspyrjandi sagðist hafa heyrt orðið talnaglöggvi nýlega og kom það spánskt fyrir sjónir. Ég hef aldrei heyrt orðið glöggvi eða samsetningar af því og það finnst hvorki í orðabókum né Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Hins vegar fann ég tvö dæmi um það á tímarit.is, bæði frá 1913.

Í tímaritinu Birkibeinum stendur: „Þessar síðasttöldu bækur eru hver annari ágætari, og bera allar vott um óþreytandi elju höf., [...] og um frábæra glöggvi, að vinna svo glögg og áreiðanleg verk úr svo varhugaverðu verkefni.“ Í upptalningu á „mállýtum“ í blaðinu Reykjavík eru m.a. nefndir: „Rangmyndaðir nýgervingar (myndaðir móti eðlislögum málsins) t. d. gleggni (í st. f.: glöggleiki, glöggvi).“

Einnig fann ég dæmi um samsetningarnar mannglöggvi í Prestafélagsritinu 1921, fjárglöggvi í Prentaranum 1936 og Morgunblaðinu 1972, og veðurglöggvi í Vikunni 1940 og Heimskringlu 1941. Þessi orð eru ekki heldur í orðabókum, en Ritmálssafn Orðabókar Háskólans hefur eitt dæmi um síðastnefnda orðið, úr bókinni Frá Suðurnesjum frá 1960. Örfá dæmi um þessi orð, sem og talnaglöggvi, er að finna á netinu.

Það eru nokkur dæmi í málinu um að nafnorð séu mynduð af lýsingarorðum með viðskeytinu -vi. Meðal þeirra eru myrkvi, af myrkur, klökkvi, af klökkur, fölvi, af fölur, dökkvi, af dökkur, þröngvi, af þröngur, og vökvi, af vökur sem er reyndar varla notað í nútímamáli. Orðið glöggvi er sem sé alveg eðlileg orðmyndun og ekkert við það að athuga að nota það sem nafnorð um það að vera glöggur.

Það þarf þó að huga að kyni orðsins. Orð sem enda á -i geta formsins vegna verið hvaða kyns sem er, en -vi-orðin sem nefnd eru hér að framan (myrkvi o.s.frv.) eru öll karlkyns. Orðið glöggvi og samsetningar af því virðist hins vegar vera haft í kvenkyni í öllum heimildum og sjálfsagt að halda því, enda ýmis hliðstæð orð í kvenkyni, t.d. göfgihöfgi o.fl.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eftir að lesa

Um daginn var ég spurður að því hvort notkun á samtengingunni eftir að væri að breytast. Nú sjást oft og heyrast setningar eins og ég fór í skólann eftir að borða morgunmat, hann fékk rauða spjaldið eftir að brjóta á sóknarmanni, ég öskraði eftir að stíga á nagla, o.s.frv. Fyrirspyrjandi taldi að þetta væri nýjung – í stað nafnháttar af aðalsögninni hefði hjálparsögnin hafa í nafnhætti og lýsingarháttur þátíðar af aðalsögninni áður komið á eftir eftir að, þannig að sagt hefði verið ég fór í skólann eftir að hafa borðað morgunmat, hann fékk rauða spjaldið eftir að hafa brotið á sóknarmanni, ég öskraði eftir að hafa stigið á nagla, o.s.frv.

Ég verð að játa að ég stóð á gati – hafði aldrei leitt hugann að þessu og aldrei tekið sérstaklega eftir þessari setningagerð. Þegar ég hugsa út í það finnst mér setningarnar með hafa eðlilegri, en hinar finnst mér samt alveg í lagi og myndi ekki gera athugasemdir við þær í yfirlestri eða kennslu. Það er erfitt að athuga hvort setningagerðin án hafa er nýleg í málinu – ef leitað er að eftir að t.d. á tímarit.is eða í Risamálheildinni kemur mikill fjöldi dæma af öðrum toga. Fyrirspyrjandi velti því fyrir sér hvort þarna kynni að vera um ensk áhrif að ræða (after eating breakfast o.s.frv.) en þar er þó ekki notaður nafnháttur þannig að mér finnst það ekki endilega trúlegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Lenging sérhljóða til áherslu

Ég fór að velta fyrir mér því stílbragði, eða hvað á að kalla það, að lengja sérhljóð í atviksorðum og lýsingarorðum til áherslu – og endurtaka viðkomandi bókstaf í riti, eins og í þessum dæmum af netinu (feitletrun mín):

  • Við eigum svooo margt fallegt fyrir öll tilefni, hátíðleg sem og hversdags.
  • Mér finnst það alveg feeerlega ósanngjarnt að við sveitafólkið skulum ekki sitja við sama borð og borgarbúar.
  • Gaaasalega finnst mér ósmart að búa til kjötbollur með ritzkexi og pakkasúpu.
  • Til sölu á mjööög góðu verði!
  • Hádegisverður og góður félagsskapur, dagurinn verður bara svo miiiklu betri.
  • Ekkert smááá gaman!
  • Naglalökkin frá Artdeco eru svo fííín!
  • Auðvitað missti ég svo einn stærri! Án djóks, hann var stóóór!
  • hmm, ohh fúúúlt, vitið þið við hvern maður getur talað útaf svona.
  • Fuuullur glervasi af jólakúlum!
  • Mikið er sonur ykkar annars sææætur.
  • mér finnst hann of hreistraður til að borða roðið, venjulega, en það er svo leiiiðinlegt að hreinsa!

Þetta er bundið við óformlegt mál og þess vegna erfitt að kanna það í prentuðum heimildum. Því er erfitt að segja hvort þessi sérhljóðslenging er nýleg aðferð til áherslu eða hefur verið tíðkuð lengi. Fyrir tilviljun rakst ég þó á dæmi frá 1958 í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans: „ekki er hann svo sææætur, blessað barnið. eins og fuglahræða móts við hina“, úr Ástarsögu eftir Steinar Sigurjónsson.

Ég fann dæmi um öll sérhljóðin nema au, en kannski var það bara vegna þess að ég mundi ekki eftir neinu algengu atviks- eða lýsingarorði með au auk þess sem það er ekki endilega eðlilegt að tákna lenginguna með því að rita mörg u. En það mætti búast við því að það væri eingöngu hægt að lengja þau sérhljóð sem eru löng í venjulegu tali, eins og í svo, mjög, smá, sætur o.fl., en svo er ekki – stuttu sérhljóðin lengjast líka, eins og í ferlega, miklu, fúlt og fullur.

Annað er að stundum gerbreytir lengingin merkingu orðsins. Ef sagt er um konu hún er svolítið lík mömmu sinni merkir það að hún hafi einhvern svip af móðurinni. En ef sagt er hún er svooolítið lík mömmu sinni merkir það að hún er nákvæm eftirmynd móður sinnar. Ef sagt er hann er rosalega skemmtilegur merkir það að hann sé mjög skemmtilegur, en ef sagt er hann er rooosalega skemmtilegur getur það (með ákveðnum málrómi og líkamstjáningu) merkt að hann sé hundleiðinlegur.