Posted on Færðu inn athugasemd

Málið og fullveldið

Tungumálið skapar sérstakan menningarheim sem bæði bægir frá áhrifum annarra menningar­heima og torveldar aðgang okkar að öðrum menn­ingar­heimum. En á síðustu árum hafa vissulega orðið gífurlegar þjóðfélagsbreytingar sem gætu stuðlað að því að rýra menningarlegt fullveldi landsins. Þau áhrif koma í gegnum þá menningu og menningarheima sem fólk kemst nú í nánari snertingu við en áður, en áhrifin á tungumálið gætu þó reynst afdrifarík­ust.

Land, þjóð og tunga hefur lengi verið órjúfanleg þrenning í huga margra Íslend­inga. Það er lítill vafi á því að sérstakt tungumál var frumforsenda þess að Íslend­ingar litu á sig sem sérstaka þjóð og kröfðust sjálfstæðis á 19. öldinni. Spurn­ingin er hins vegar hvort þetta hafi breyst eða sé að breytast. Er tungumálið orðið veigaminni þáttur en áður í sjálfsmynd Íslendinga? Guðmundur Hálf­danarson prófessor hefur t.d. haldið því fram að „náttúran sé að taka við af tungumálinu og menningunni sem helsta viðmið íslenskrar þjóðernisstefnu – eða mikilvægasta tákn þess sem gerir okkur að Íslendingum og greinir okkur frá öðrum þjóðum“.

Um þetta er vissulega ágreiningur, en hvað sem því líður virðist unga kynslóðin ekki líta á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni og þau sem eldri eru. Skilgreiningin á menningarlegu fullveldi er vissulega ekki á hreinu og því er erfitt að segja hvenær og hvernig það gæti glatast. Þótt svo færi að Íslendingar legðu íslensku af, eða hún yrði ekki nothæf nema á afmörkuðum sviðum, þarf það ekki að leiða sjálfkrafa til þess að menn­ingarlegt fullveldi glatist. Ég geri t.d. ráð fyrir að Írar telji sig menningarlega fullvalda þjóð þótt flestir þeirra noti ensku í öllu daglegu lífi.

Vitanlega felst menningarlegt fullveldi ekki í ein­angrunarstefnu og það er út af fyrir sig ekki sjálfgefið að það drægi úr menningar­starfsemi og nýsköpun á sviði menningar þótt hér væri töluð enska í stað íslensku. Þannig segir Kristján Árnason prófessor, í andsvari við hugmyndum Guðmundar Hálfdanar­sonar sem nefndar voru hér áður: „Íslensk menning hefur notað íslensku en það væri vel hugsanlegt – þó ég sé ekki að mæla með því – að íslensk menning notaði annað tungumál en menningin yrði þá að sjálfsögðu eitthvað öðruvísi en sú sem við höfum haft.“

En íslensk menning á ensku yrði síður aðgreind frá menningu annarra þjóða, og vegna þess hve samfélagið er fámennt eru líkur á að það yrði aðallega þiggjandi á sviði menningar, ef þeirri vörn sem tungumálið veitir yrði kippt brott. Það er nefnilega hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að ýmsar samfélags- og tækni­breytingar síðustu 5-10 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum.

Við því þarf að bregðast, því að þrátt fyrir alþjóðavæðingu og tækniframfarir er íslenskan enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, og fyrir einstaklingana sem eiga hana að móður­máli. Fyrir því eru fleiri ástæður en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Menningarlegt fullveldi

Þegar Ísland fékk full­veldi 1918 má segja að hlutverki íslensk­unnar í sjálfstæðis­baráttunni hafi lokið – og þó. Það er nefnilega til annars konar fullveldi en það stjórnarfarslega fullveldi sem við öðluðumst fyrir einni öld. Það er menningarlegt fullveldi, sem virðist fyrst nefnt á prenti í grein sem birtist í fréttablaðinu Skildi í Vest­mannaeyjum á fimm ára afmæli fullveldisins, 1. desember 1923, en þar segir: „Mörg þjóð hefir orðið að fórna blóði sinna bestu sona til þess að öðlast stjórnarfarslegt fullveldi. Svo mikils virði hefir það verið þeim. Þó er andlegt menningarlegt fullveldi engu minna virði.“

Á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar var oft talað um menningarlegt fullveldi, ekki síst í tengslum við Kanasjónvarpið svokallaða. Því var haldið fram að út­sendingar þess út fyrir herstöðina væru brot á íslenskri menningarhelgi og ógnuðu menningarlegu fullveldi Íslands. En menningarlegt fullveldi er vandmeðfarið hugtak vegna þess að skilgreining þess er ekki skýr – enn óskýrari en skilgreining stjórnarfarslegs fullveldis. Það er þó ljóst að flestir sem nota hugtakið telja tungumálið eitt það helsta sem þar þurfi að huga að.

Í bæklingnum Íslenzk menningarhelgi sem Þórhallur Vilmundarson prófessor samdi 1964 leggur hann áherslu á nauðsyn þess „að standa trúan vörð um tungu okkar og önnur arftekin þjóðarverðmæti, sem greina okkur frá öðrum þjóðum og ein veita okkur sjálfstætt, jákvætt gildi í samfélagi þjóðanna“ og gæta þannig íslenskrar menningarhelgi. „[…] íslenzk tunga og þjóðleg menningarverðmæti eru einangrunarfyrirbæri í þeim skiln­ingi, að þau væru ekki til, ef þjóðin hefði ekki fengið að lifa lífi sínu í þessu landi án þess að verða fyrir of stríðum erlendum áhrifum“, segir Þórhallur.

Á síðustu árum hefur umræðan um menningarlegt fullveldi risið aftur og nú í tengslum við stjórnarfarslegt fullveldi, ekki síst umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusam­band­inu. Lítill vafi er á því að aðild að ESB hefði í för með sér nokkurt framsal fullveldis, en spurn­ingin er hvort og þá að hvaða marki slík full­veldis­skerðing hefði áhrif á íslenska tungu og stöðu hennar – bæði réttar­stöðu og stöðu í samfélaginu og gagnvart öðrum tungum. Frá stofnun árið 1957 hefur Evrópusambandið lagt áherslu á að virða þjóðtungur sam­bands­ríkj­anna.

Þegar ný ríki hafa verið tekin inn í sambandið hafa opinber mál þeirra jafnframt orðið opin­ber mál sambandsins. Þótt Íslendingar tækju á sig einhverja skerðingu á stjórnarfarslegu fullveldi við inngöngu í Evrópusambandið yrði það síst til þess að veikja stöðu íslenskunnar – þvert á móti má færa að því rök að staða tungunnar myndi styrkjast við aðild. Slíkt hefur t.d. gerst með írsku, sem fékk stöðu opinbers tungumáls innan ESB árið 2007. Ekki eru miklar líkur á að Ísland afsali sér stjórnarfarslegu fullveldi í hendur Evrópusambandsins á næstunni, en framtíð menningarlegs fullveldis landsins er meira vafamál. Þar er tungumálið lykilatriði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málið og sjálfstæðisbaráttan

Það hefur lengi verið viðtekin skoðun að íslenskan sé helsta réttlæting og forsenda fullveldis Íslands. Alkunna er að tungan lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar á 19. öld var áhersla lögð á tungumálið og mikilvægi þess fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund. Iðulega var sett samasemmerki milli hnign­unar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. Hnignun tungumálsins var einnig tengd við afturför á öðrum sviðum. Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóð­ríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðar­brot sem töluðu mismunandi tungumál.

Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðu­lega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. Það gerðu Danir hins vegar ekki á Íslandi. Því var það að þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslend­inga á 19. öld var sú bar­átta fyrst og fremst háð innanlands en ekki við dönsk stjórn­völd. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungan var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslend­inga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notuð til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungan vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var hún vopnið.

Stjórnarskrá Íslands kveður ekki á um opinbera stöðu íslensku, þótt hugmyndir um slíkt hafi nokkrum sinnum komið fram, t.d. í skýrslu stjórnlaganefndar frá 2011. Með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 fékk íslensk tunga þó stöðu sem opinbert tungumál á Íslandi. Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sumarið 2011 er ekkert ákvæði um þjóðtungu en nefnt í skýringum að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum stjórnarskrárinnar. E.t.v. má ætla að ráðið hafi talið að slíkt ákvæði gæti orðið grundvöllur einhvers konar mis­mununar, nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningarlegra samfélags en áður. En tillaga um bæta ákvæði um íslenska tungu í stjórnarskrá hefur nú verið lögð fram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Marxísk sjálfsgagnrýni

Kringum 1980 umgekkst ég töluvert fólk úr ýmsum kommúnistasamtökum sem blómstruðu á Íslandi um það leyti, einkum KSML og EIKml. Þótt ég gengi aldrei í nein þessara samtaka fór ekki hjá því að ég fengi nasasjón af ýmsu í starfsháttum þeirra. Meðal þess sem okkur sem utan stóðu þótti sérkennilegast – og fyndnast – var hin eilífa sjálfsgagnrýni sem félagarnir stunduðu. Hún náði hámarki þegar tveir vinir mínir skiptu um lið, fóru úr KSML í EIKml, og skrifuðu af því tilefni 18 blaðsíðna sjálfsgagnrýni sem var dreift meðal félaga. Þetta veit ég vegna þess að plaggið var vélritað á stensla og síðan fjölritað (á þessum tíma var ljósritun munaður sem námsmenn gátu vart leyft sér) – og þeir fengu mig til að vélrita það af því að ég átti rafmagnsritvél (og var betri í vélritun).

Síðan þetta var hef ég haft lítil kynni af sjálfsgagnrýni þótt örugglega mætti segja að ég hefði mátt stunda hana meira. En nú er komið að því. Mér urðu á tvenn slæm mistök í Facebook-hópnum Málspjall í gær sem ég þarf að biðjast afsökunar á. Þar var sett inn spurningin „Hvað finnst málfróðum um notkun á sögninni að ávarpa“ í samhenginu „ávarpaði […] þær hugmyndir“. Nú tek ég fram að ég er alls ekki að áfellast fyrirspyrjanda. Það er ekkert augljóst að þessi fyrirspurn brjóti reglur hópsins um jákvæða og málefnalega umræðu, og í lýsingu hópsins er hvatt til spurninga „um málfarsleg atriði sem verða á vegi fólks“. Áþekkar fyrirspurnir hafa líka nokkrum sinnum verið settar inn, og þeim verið svarað.

Hins vegar sýnir reynslan að spurningar af þessu tagi kalla iðulega fram hneykslun og fordæmingu sem ekki er í anda hópsins. Þess vegna hefði ég átt að eyða færslunni og skrifa fyrirspyrjanda og biðja hann að orða spurninguna öðruvísi – spyrja t.d. frekar um aldur og útbreiðslu þessa orðalags en hvað lesendum fyndist um það. En það gerði ég ekki, heldur datt í þann pytt að fordæma orðalagið og segja: „Þetta er orðið nokkuð algengt og fer skelfilega í taugarnar á mér, af því að mér finnst þetta sýna bæði skort á málkunnáttu og skort á gagnrýninni hugsun.“ Það er vissulega alveg rétt að þetta fer í taugarnar á mér, en það afsakar ekki framhaldið. Það er skýrt brot á þeirri umræðuhefð sem ég hef boðað og vil að hér sé fylgt, og ég bið ykkur öll afsökunar á því.

Sem betur fer kom blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sem fyrirspurnin spratt af inn í umræðuna og sagði: „Það kom mér á óvart að sjá þessa umræðu þar sem ég hélt að það væri alveg eðlilegt að nota sögnina með þessum hætti. Greinilega orðið ansi algengt víða í kringum mig.“ Þegar ég las þetta fór ég að hugsa málið betur og áttaði mig á því að þarna væri kannski ekki um að ræða hráa enskuþýðingu sem bæri vott um hroðvirkni og hugsunarleysi, heldur hefði sögnin ávarpa einfaldlega þessa merkingu í máli margra. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég hef iðulega heyrt þessa notkun hjá harðfullorðnu fólki, t.d. stjórnmálamönnum sem örugglega vilja tala gott mál.

En í stað þess að hneykslast hefði ég mátt muna eftir pistli sem ég skrifaði í fyrra um það þegar fólk „hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna“. Blaðamaðurinn sem skrifaði umræddan texta sagði líka í umræðunni í gær: „Hvet ykkur öll til þess að senda blaðamönnum tölvupóst ef þið rekið augun í svona villur.“ Ég hef líka hvatt til þess, og stundum gert það. Haldið endilega áfram að spyrja um málfar hér í hópnum – til þess er hann. En ekki spyrja hvað fólki finnist um tiltekin atriði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Frumlagsfall

Flest sagnorð taka með sér nafnorð eða fornöfn, eitt eða fleiri, til að tákna þátttakendur í þeirri athöfn, atburði eða aðgerð sem sögnin lýsir. Mjög oft stendur eitt þessara nafnorða eða fornafna fyrir þann eða þá sem framkvæmir það sem í sögninni felst, og kemur þá oftast á undan sögninni. Í setningunni Guðrún las bókina er það Guðrún sem framkvæmir þá athöfn að lesa, og í setningunni Sveinn brosti er það Sveinn sem framkvæmir þá athöfn að brosa. Þess vegna er talað um nafnorðið eða fornafnið sem geranda í slíkum setningum. Hver sögn tekur aðeins með sér einn geranda og önnur nafnorð eða fornöfn í setningunni hafa því önnur merkingarleg hlutverk (eru t.d. þolendur, þiggjendur o.fl.).

En ýmsar sagnir taka ekki með sér geranda vegna þess að þær lýsa ekki athöfn eða aðgerð, heldur tilfinningu, skynjun, upplifun eða einhverju slíku. Þannig er t.d. með sagnir eins og kvíða, langa og finnast. Þessar sagnir taka allar með sér nafnorð eða fornafn sem táknar þann eða þá sem fær þá tilfinningu eða upplifir þá skynjun sem í sögninni felst. Í setningunni Þór kvíðir fyrir prófinu er það Þór sem fær kvíðatilfinningu, í setningunni Sigríði langar í súkkulaði er það Sigríður sem fyllist súkkulaðilöngun, og í setningunni Sigrúnu finnst maturinn góður er það Sigrún sem upplifir tiltekna skynjun á matnum (gott bragð). Þór, Sigríður og Sigrún eru ekki gerendur í þessum setningum vegna þess að þau aðhafast ekkert, framkvæma enga athöfn eða aðgerð. Það mætti fremur kalla þau skynjendur.

Gerandi er ævinlega í nefnifalli, en nafnorð og fornöfn sem gegna öðrum merkingarlegum hlutverkum en gerandahlutverkinu fá mismunandi föll eftir því með hvaða sögn þau standa. Engar einfaldar reglur gilda um það hvaða sagnir af þessu tagi taka hvaða fall. Þannig tekur kvíða nefnifall – Ég kvíði fyrir prófinu – en langa tekur þolfall – Mig langar í súkkulaði. Langalgengast er þó að sagnir sem tákna tilfinningu, skynjun eða upplifun taki með sér nafnorð eða fornafn í þágufalli – Mér finnst maturinn góður, Honum leiðist í skólanum, Henni líkar við alla, o.s.frv. Þetta leiðir til þess að í nútímamáli er sterk tilhneiging til að þær sagnir af þessu tagi sem hafa tekið með sér nefnifall eða þolfall taki þágufall í staðinn. Þannig er algengt að sagt sé Mér kvíðir fyrir prófinu, Þeim hlakkar til jólanna, Honum langar í súkkulaði, Henni dreymdi illa, o.s.frv.

Þessi breyting, sem hefur verið kölluð „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“, er ekki ný af nálinni – rætur hennar má rekja a.m.k. til 19. aldar og jafnvel lengra aftur. Nýlegar rannsóknir sýna að notkun þágufalls í stað nefnifalls eða þolfalls með sögunum af þessu tagi er mjög algeng um allt land og breiðist smátt og smátt út. Það má færa rök að því að þetta sé skiljanleg og „eðlileg“ málbreyting – vegna þess að yfirgnæfandi meirihluti sagna sem tákna tilfinningu, skynjun eða upplifun tekur með sér þágufall er hvorki óvænt né óeðlilegt að þessar sagnir hafi áhrif á hinar sem taka nefnifall eða þolfall og eru miklu færri. Þrátt fyrir það er þessi málnotkun („þágufallssýki“ eða „þágufallshneigð“) ekki viðurkennd sem „rétt mál“ í hinum óopinbera íslenska málstaðli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Greynir

Greiningarhugbúnaðurinn Greynir sem Vilhjálmur Þorsteinsson og fyrirtæki hans Miðeind hefur skrifað er opinn og öllum aðgengilegur á netinu. Þar er hægt að finna margvíslegar upplýsingar um orðanotkun í fréttum íslenskra fjölmiðla, einkum um fólk og staði. Einnig er hægt að skoða hvernig tíðni einstakra orða í fréttum hefur þróast undanfarna mánuði og ár. Síðast en ekki síst er hægt að láta Greyni greina texta, beygingarlega og setningafræðilega.

Það er nóg að að slá eða líma texta inn í textareitinn og smella svo á „Greina“. Textinn kemur þá neðar á skjáinn (fyrir neðan línu þar sem stendur „Málgreining - Smelltu á málsgrein til að sjá trjágreiningu hennar“) og ef farið er með bendilinn yfir einstök orð hans birtist málfræðileg greining þeirra. Ef smellt er á textann birtist setningafræðihrísla hans með greiningu. Einnig er hægt að fara í fréttayfirlit Greynis og smella þar á frétt og fá greiningu hennar.

Athugið að greiningin er vélræn og óhjákvæmilega eru villur í henni. Ég er samt sem áður viss um að þessi hugbúnaður getur nýst kennurum, nemendum og öllum almenningi á ýmsan hátt. Auk þess sem hér hefur verið nefnt er þarna að finna ýmiss konar tölfræði um notkun Greynis og gögnin sem hann byggist á, svo og nánari upplýsingar um hugbúnaðinn og gögnin.

Posted on Færðu inn athugasemd

Risamálheildin

Risamálheildin er safn íslenskra texta af ýmsu tagi, aðallega frá síðustu 20 árum. Þar eru textar af öllum helstu fréttamiðlum landsins, dómar, lög, þingræður, efni af Wikipediu og Vísindavefnum, blogg, efni úr héraðsfréttablöðum, íþróttafréttamiðlum og ýmsum sérritum. Textamagnið er gífurlegt – alls er þetta 1,64 milljarður orða sem jafngildir 20-30 þúsund meðalstórum skáldsögum. Athugið að textar frá þessu ári eru ekki enn komnir þarna inn.

Það er hægt að leita í Risamálheildinni á margvíslegan hátt. Hér er t.d. leitað að orðinu stjórnarskrá. Þá fæst bara þessi tiltekna orðmynd, þ.e. nefnifall, þolfall og þágufall eintölu án greinis, en til að fá allar beygingarmyndir þarf að velja „uppflettimynd“ eins og hér hefur verið gert. Svo er líka hægt að velja „Útvíkkuð“, setja inn atkvæð og velja „inniheldur“, velja svo „Bæta við leitarorði“ og skrifa um, og velja aftur „Bæta við leitarorði“, velja „Lemma“ til að fá allar beygingarmyndir, og leyfa „allt að“ eitt orð á milli. Þá fást dæmi eins og þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskránaatkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá o.m.fl.

Það er líka hægt að leita eftir málfræðilegri greiningu. Hugsum okkur t.d. að við viljum leita að „nýju þolmyndinni“ svokölluðu – það var barið migþað var hrint mér o.þ.h. Þá getum við byrjað á að setja inn það, valið „Bæta við leitarorði“ og skrifað var, aftur „Bæta við leitarorði“, valið „Sagnháttur“ og síðan „Lýsingarháttur þátíðar“, og enn „Bæta við leitarorði“, valið „Flokkun fornafns“ og „Persónufornafn“, og svo „Bæta við skilyrði (og)“ og „er ekki“ og „nefnifall“. Athugið að „nýja þolmyndin“ er mun fjölbreyttari en þetta – hér er aðeins verið að gefa einfalt dæmi um möguleikana. En þessi leit skilar fjölda dæma – mörg þeirra eiga að vísu ekki við, en þarna eru þó dæmi eins og það var barið mig (af Bleikt.is), það var náð honum (af Fótbolti.net) o.fl.

Risamálheildinni fylgja ítarlegar notkunarleiðbeiningar þar sem sýnd eru ýmis dæmi um fjölbreyttar leitarfyrirspurnir. Það tekur tíma að setja sig inn í það allt, en það er engin þörf á að átta sig á öllum möguleikum strax í byrjun – það getur komið smátt og smátt. Ég er ekki í vafa um að það er hægt að nota Risamálheildina til að sýna nemendum allt mögulegt og láta þá vinna fjölbreytt verkefni um orðtíðni, orðaforða, orðanotkun og margt fleira.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tilvísunartengingar - ekki tilvísunarfornöfn

Fyrir 40 árum sat ég í námskeiði um setningafræði í Háskóla Íslands. Kennarinn var Höskuldur Þráinsson sem þá var nýkominn þar til starfa frá námi í Bandaríkjunum. Hann hafði þann hátt á í kennslunni að leggja fyrir okkur verkefni af öðru tagi en við höfðum kynnst áður. Þau verkefni sem ég hafði gert áður í há­skólanámi mínu höfðu flest þann tilgang að athuga hvort nem­andinn  hefði tileinkað sér það sem hann átti að vera búinn að læra í tímum og af les­efn­inu, eða voru til þess ætluð að finna einhverja tölu sem væri hægt að hengja á nemendur og kalla einkunn.

Þessi verkefni voru hins vegar mikilvægur hluti kennslunnar, e.t.v. sá mikilvægasti – í þeim fengum við sjálf að „uppgötva“ eitthvað og Höskuldur var einkar laginn við að láta nemendum finnast að þeir væru sjálfir að uppgötva stórmerkilegar nýjungar. Þar bar hæst þá „uppgötvun“ mína og annarra í námskeiðinu að sem og er væru ekki tilvísunarfornöfn eins og við höfð­um öll lært hjá Birni Guðfinnssyni, heldur samtengingar. Það lét Höskuldur okkur upp­götva með því að setja fyrst fram nokkrar einfaldar staðreyndir og síðan fá­einar setn­ingar og láta okkur svo skoða þetta í samhengi. Þá varð niðurstaðan augljós og óumflýjanleg.

Ég kunni minn Björn Guðfinnsson og hafði staðið í þeirri meiningu fram að þessu að málfræðigreining hans væri hafin yfir efa. Heimsmynd mín hefur því sjaldan orðið fyrir þyngra höggi en þegar ég var látinn gera þessa uppgötvun, og ekkert hefur kennt mér meira um gagn­rýna hugsun. Í gagnfræðaskóla var ég mjög sjóaður í því að finna fall tilvísunarfornafna, sem ekki var á allra færi, en þarna reyndist sú kunnátta allt í einu óþörf, gagns­laus – og raunar hlægileg. En ég sannfærðist, og hefur alla tíð síðan fundist þessi endurskilgreining Höskuldar á sem og er, sem birtist í svo í greininni „Tilvísunarfornöfn“ í Íslensku máli 1980, vera frábært dæmi um einfalda og skýra málfræðilega röksemdafærslu.

Samt er enn, 40 árum síðar, verið að kenna sumum íslenskum börnum og unglingum að sem og er séu tilvísunarfornöfn. Ég veit ekki hversu víða þetta er gert, en hef sannfrétt að það sé í einhverjum skólum. Ég verð að játa að það er ofar mínum skilningi. Auðvitað er mér vel ljóst að þótt eitthvað sé kennt á háskólastigi á það ekki endilega alltaf erindi í grunnskólakennslu. Auðvitað þarf að setja kennsluefni í grunnskóla fram á þann hátt að hæfi nemendum, og þá getur þurft að víkja frá fræðilegri nákvæmni til einföldunar. En hér er bara ekki um slíkt að ræða. Þvert á móti – það er miklu flóknara að kenna það að sem og er séu tilvísunarfornöfn en að þau séu tengingar.

Í hvaða grein annarri en íslensku myndi það þekkjast að enn sé verið að kenna eitthvað sem sýnt hefur verið fram á fyrir 40 árum að er kolrangt? Hvers á íslenskan að gjalda?

Posted on Færðu inn athugasemd

Tvenns konar s

Í lýsingum á íslenskum málhljóðum er sagt að s sé myndað þannig að tungan leggist upp að tannberginu (stallinum aftan við efri framtennur) og myndi öng (þrengingu) sem loftstraumurinn frá lungunum þrýstist um. Í flestum lýsinganna er gert ráð fyrir að það sé tungubroddurinn sem myndar þrenginguna, en í Mállýskum I segir Björn Guðfinnsson þó að þrengingin myndist „milli tungubrodds (og stundum tungufitjar) og neðri hluta tannbergs“. Tungufit eða (tungublað) er sá hluti tungunnar sem er næst fyrir aftan tungubroddinn.

Þegar ég fór að kenna hljóðfræði fyrir 35 árum áttaði ég mig fljótlega á því að ég mynda þrenginguna í s ekki með tungubroddinum heldur tungufitinni/tungublaðinu, en tungubroddurinn er sveigður niður og liggur fyrir aftan framtennur í neðri gómi. Ég spurði nemendur hvernig þeir mynduðu s og u.þ.b. helmingur þeirra reyndist mynda þrengingu með tungubroddinum en hinn helmingurinn myndaði eins og ég. Eftir þetta spurði ég alltaf að þessu þegar ég kenndi hljóðfræði og niðurstaðan var alltaf svipuð, þótt yfirleitt væru öllu fleiri með tungubroddsmyndun. Ég hef hins vegar aldrei kannað hvort einhver heyranlegur munur sé á s-hljóðum fólks eftir því hvora aðferðina það notar.

Það er rétt að hafa í huga að íslenska er sérstök að því leyti að hún hefur aðeins eitt s-hljóð en flest tungumál í kringum okkur hafa fleiri. Enska hefur t.d. samsvarandi raddað hljóð eins og í zero, auk hljóða þar sem þrengingin er aðeins aftar eins og upphafshljóðið í she og samsvarandi raddað hljóð í treasure, og svo tvinnhljóðin í chill og jam. En vegna þess að íslenska hefur aðeins eitt hljóð af þessu tagi hefur það verulegt svigrúm og getur hljómað á talsvert mismunandi hátt án þess að ruglast saman við nokkuð annað – og án þess að við tökum eftir því. Fólk sem er að læra íslensku verður hins vegar oft dálítið ruglað í ríminu vegna þess að það heyrir fjölbreytt s-hljóð og heldur að munur hljóðanna hafi eitthvert gildi.

Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að íslenskt s skuli vera myndað á fleiri en einn hátt. Setjum okkur í spor barns á máltökuskeiði sem er að ná valdi á íslenskum málhljóðum. Barnið skoðar vitanlega ekki upp í foreldra sína til að sjá hvernig þau myndi s, heldur reynir að beita eigin talfærum til að mynda svipað hljóð og það heyrir í umhverfi sínu. Sum börn prófa að mynda þrengingu með tungubroddinum og mynda hljóð sem þau finna að umhverfi samþykkir, þannig að þau hafa enga ástæðu til að endurskoða tilgátu sína. Önnur prófa að nota tungufit/tungublað til að mynda þrenginguna og finna einnig að umhverfið samþykkir þeirra sþannig að þau halda sig við það.

Þetta hefur aldrei verið rannsakað neitt. Við vitum ekki hlutföllin milli þessara tveggja aðferða, við vitum ekki hvort einhver kerfisbundinn heyranlegur munur er á þeim, við vitum ekki hvort þessi mismunandi hljóðmyndun tengist aldri, kyni, landshlutum, eða jafnvel genum. Ég gerði nýlega örlitla könnun á þessu á Facebook sem um 90 manns á ýmsum aldri tóku þátt í. Rétt tæpur helmingur sagðist mynda s með tungubroddi en rúmur helmingur með tungufit/tungublaði. Í yngsta aldurshópnum, hjá fólki fæddu eftir 1990, var tungubroddsmyndun í meirihluta en þátttakendur á þeim aldri voru svo fáir að það er ekki marktækt. Ekki var heldur hægt að lesa neitt um kynjamun út úr niðurstöðunum, og upplýsingar um uppruna fólks vantar. Þetta er því enn órannsakað mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skýr og óskýr framburður

Stundum er sagt að skýr framburður felist í því að „bera fram alla stafina“ en það er villandi orðalag af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi berum við ekki fram stafi, heldur hljóð – bókstafirnir eru hins vegar fulltrúar hljóðanna í riti, og þessu tvennu má ekki rugla saman. Í öðru lagi er það rangt að hver einasti bókstafur í orðinu rituðu skuli alltaf eiga sér fulltrúa í framburðarmynd þess. Mjög algengt er að einhver hljóð sem koma fram í sumum beygingarmyndum orðs, t.d. lokahljóð stofns, komi ekki fram í öðrum myndum orðsins eða skyldum orðum, án þess að nokkur ástæða sé til að tala um óskýrmæli. Þótt g sé í stofni lýsingarorðsins margur og f (borið fram v) í nafnhætti sagnarinnar þurfa ber fólk aldrei fram neitt g-hljóð í hvorugkyninu margt, eða f/v í þátíðinni þurfti. Við segjum öll mart og þurti þótt g og f séu auðvitað skrifuð í þessum myndum.

Dæmi á við þessi eru mýmörg í málinu, einkum í samhljóðaklösum sem myndast þegar ending sem hefst á samhljóði bætist við stofn sem endar á tveimur (eða fleiri) samhljóðum, eins og í marg+t, þurf+ti. Þá er algengast að miðhljóð klasans (eitt eða fleiri) falli brott, en upphafs- og endahljóð hans standi eftir. Ekki er þetta þó algilt, og útilokað að gefa nákvæma lýsingu á slíkum brottföllum vegna þess að orð sem virðast sambærileg haga sér ekki alltaf eins. Sum brottföll eru algild, eins og í margt og þurfti, en önnur eru háð einstaklingum, talhraða, málsniði o.fl. Í slíkum tilvikum er oft álitamál hvort réttlætanlegt er að tala um „óskýran“ framburð – og eins hvenær hægt er að tala um ofvöndun, þ.e. að framburðurinn sé lagaður um of að stafsetningunni.

Það er fullkomlega eðlilegt að fella brott áherslulaus sérhljóð í enda orðs ef næsta orð hefst á sérhljóði. Ég sagði ekki neitt berum við fram Ég sagð' ekki neitt og Þeir fóru út berum við fram Þeir fór' út. h fellur einnig brott í upphafi áherslulausra orða í eðlilegu, samfelldu tali; Fór hann burt? berum við fram Fór 'ann burt? og Ég sýndi henni hann berum við fram Ég sýnd 'enn 'ann. Þegar h fellur framan af fornöfnunum henni og hann í seinna dæminu byrja þau á sérhljóði (enni og ann). Þá eru komin saman sérhljóð í upphafi orðanna og sérhljóð í enda næsta orðs á undan og þau síðarnefndu falla þá brott í samræmi við áðurnefnda reglu. Skemmtilegasta dæmið um þetta er ljóðlína Stuðmanna, Ann 'ann 'enn enn, þ.e. Ann hann henni ennh er hins vegar borið fram í slíkum tilvikum ef orðin bera áherslu.

Ýmiss konar samlaganir eru algengar milli orðhluta í samsettum orðum, oftast þannig að fyrsta hljóðið í seinni orðhlutanum leitast við að laga seinasta hljóðið í þeim fyrri að sér, t.d. hvað varðar röddun. Þannig berum við fram f í Hafsteinn vegna þess að næsta hljóð, s, er óraddað; en í Hafrún berum við fram v vegna þess að r er raddað. Í upphafi ýmissa fornafna og atviksorða er borið fram ð í stað þ, þegar þessi orð standa í áherslulausri stöðu í setningum. Þannig berum við Ég sýndi þér það venjulega fram Ég sýndi ðér ðað, en þurfi hins vegar að leggja áherslu á orðin er borið fram þ; Ég sýndi ðér ÞETTA. Nefhljóð fá mjög oft sama myndunarstað og eftirfarandi lokhljóð. Þannig er eðlilegt að bera komdu fram kondu og innbær fram imbær – sbr. líka að algengt gælunafn af Ingibjörg er Imba, ekki Inba.

Ekkert af því sem hér hefur verið nefnt er ástæða til að kalla óskýrmæli – þvert á móti er flest af því eðlilegur vandaður framburður. Á hinn bóginn er venja að kenna það við óskýrmæli þegar rödduð önghljóð, ð, g og v, falla brott milli sérhljóða og í enda orðs. Þannig er algengt að fólk beri dagblað fram dabla, og felli því brott bæði g og ð. Smáorð eins og og og það eru líka oft borin fram o og þa (eða ða inni í setningu). Brottfall af þessu tagi leiðir til þess að forsetningarnar og af falla iðulega saman í framburði, verða báðar að a, og það leiðir aftur til samblöndunar orðasambanda með þessum forsetningum. Til óskýrmælis má líka telja það þegar tvíhljóð einhljóðast, eins og oft gerist; einkum með stutt tvíhljóð, og frekar í áherslulausum atkvæðum. Sem dæmi má nefna námsbakur í stað námsbækur, vitlust í stað vitlaust, og solskin í stað sólskin.