Posted on

Framsetning málfarsábendinga

Sjálfsagt þykir mörgum nóg um þá löngu pistla sem ég hef verið að moka inn í Málvöndunarþáttinn á Facebook að undanförnu og finnst ég vera búinn að yfirtaka hópinn. Mér þykir leitt ef svo er. Ástæðan fyrir skrifum mínum er sú að mér fannst andinn í hópnum oft óþarflega neikvæður og vildi kanna hvort hér væri áhugi á umræðu og fræðslu um íslenskt mál sem ekki fæli endilega í sér ábendingar um villur, umvandanir eða hneykslun á málfari annarra.

Þegar fólk rekst á orð eða málnotkun sem því finnst framandi eða fellir sig ekki við er eðlilegt og sjálfsagt að skoða og ræða hvers eðlis þetta er – hvort um sé að ræða hreina villu sem stafi af fljótfærni eða óvönduðum vinnubrögðum, eða einhvers konar nýjung í málinu, svo sem nýtt orð, nýtt orðalag, nýja setningagerð o.s.frv. En mikilvægt er að þetta sé gert í formi fyrirspurna og vinsamlegra ábendinga. Mér sem málfræðingi finnst gaman að slíkum innleggjum og reyni oft að bregðast við þeim og miðla fræðslu ef kostur er.

En öðru máli gegnir um innlegg sem eru fyrst og fremst til þess fallin að hneykslast á málnotkun annarra og fá staðfestingu á þeirri fullvissu höfundar innleggsins að hann hafi rétt fyrir sér og tali rétt mál. Mér finnst fráleitt og fullkomlega tilgangslaust að amast við málbreytingum sem hafa komið upp fyrir mörgum áratugum eða jafnvel öldum – málfari sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði og er órjúfanlegur hluti af málkerfi þess.

Ég er nefnilega sannfærður um að fordómalaus umræða um íslensku og jákvætt viðhorf til málsins er mikilvægasta forsenda þess að það lifi áfram – ekki hvort við segjum mig eða mér langar, ég vil eða vill, hvor við annan eða við hvorn annan, kvalinn eða verkjaður, spá í þetta eða þessu, opna dyrnar eða hurðina, leggja eða byggja veg, til byggingu eða byggingar, báðir fæturnir eða báðar fæturnar, læknaritari eða heilbrigðisgagnafræðingur – svo að tekin séu örfá dæmi af atriðum sem hér hafa verið til umræðu að undanförnu.

Eftir því sem við áttum okkur betur á fjölbreytni íslenskunnar eftir aldurshópum, þjóðfélagshópum, landshlutum og tímabilum sjáum við betur að sú íslenska sem við ólumst upp við er ekki eina hugsanlega íslenskan – og ekki einu sinni endilega eina rétta íslenskan. Það hafa alla tíð verið ýmis tilbrigði í íslenskunni og notkun hennar. Hún þolir það vel og hefur alveg lifað það af – og í raun eru það þessi tilbrigði sem hafa haldið í henni lífinu. Hún hefur lagað sig að þörfum hvers tíma og verður að fá að halda áfram að gera það.

Posted on

Ný orð, tæk og ótæk

Eitt algengasta umfjöllunarefnið í Málvöndunarþættinum á Facebook er orð sem fólk hefur rekist á og kannast ekki við eða fellir sig ekki við. Það er ósköp eðlilegt – flest orð orka framandi og jafnvel fráleit þegar maður heyrir þau eða sér í fyrsta skipti. Það er haft eftir Halldóri Halldórssyni prófessor sem var öflugur nýyrðasmiður að maður þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. Þið getið prófað það.

Sum nýyrði slá þó strax í gegn, eins og t.d. þota sem kom fram 1956 og leysti af hólmi langlokuna þrýstiloftsflugvél eins og þetta fyrirbæri hét þegar ég man fyrst eftir (og maður þekkti þá aðeins sem hvít strik sem sáust oft á himninum í heiðskíru veðri). Á tímarit.is má glöggt sjá hvernig þrýstiloftsflugvél nánast hverfur úr málinu á örfáum árum. En önnur orð eiga erfiðara uppdráttar og oft ómögulegt að spá fyrir um lífvænleik nýrra orða – eða átta sig á því hvers vegna sum komast í almenna notkun en önnur ekki.

En vissulega eru ný orð af ýmsum toga og falla misvel að málinu. Stundum koma fram orð sem ekki eru mynduð í samræmi við reglur málsins – að sumra mati a.m.k. Nýlega var hér minnst á nafnorðið horfun sem er dregið af sögninni horfa – til samræmis við hlustun, af hlusta – og var mikið notað í fáein ár kringum 1990 en er nú næstum gleymt. Ýmsir ömuðust við þessu orði vegna þess að viðskeytið –un tengist venjulega aðeins sögnum sem enda á –aði í þátíð – sem horfa gerir ekki.

Annað dæmi má taka af því þegar enska orðið like (á samfélagsmiðlum) er tekið upp í íslensku sem hvorugkynsorðið læk. Í fljótu bragði virðist það falla ágætlega að málinu – í því eru engin framandi hljóð eða hljóðasambönd, og enginn vandi er að beygja það. Þeir sem hafa næga málsöguþekkingu átta sig hins vegar á því að þetta orð gæti ekki verið íslenskt að uppruna vegna þess að af sögulegum ástæðum (sem hér er óþarfi að fara út í) hafa einkvæð hvorugkynsorð aldrei æ í stofni. Hvorugkynsorð með æ eru tvíkvæð og enda á –i, s.s. kvæði, færi, tæki o.s.frv.

Athugið að hér er ég ekki að tala um reglur sem fólk hafi lært í skóla, heldur óskráðar reglur, mynstur tungumálsins – reglur sem fólk tileinkar sér ómeðvitað á máltökuskeiði. Spurningin er hins vegar hvort almennir málnotendur hafi tilfinningu fyrir þessum tveimur áðurnefndu reglum. Hvers vegna amast sumir við nýjum orðum eins og horfun og læk? Er það vegna þess að þeir hafi tilfinningu fyrir því að þessi orð falli ekki fullkomlega að íslensku – eða er það bara vegna þess að þau eru ný og þar af leiðandi framandi (og læk að auki tökuorð)?

Ég kann ekki svarið við þessu – og ekki er víst að það sama gildi um báðar áðurnefndar reglur. En ef það þarf sérstaka málsöguþekkingu til að átta sig á því að tiltekin orð falla ekki fullkomlega að málkerfinu – er þá einhver ástæða til að amast við þeim? Falla þau þá ekki að því málkerfi sem núlifandi málnotendur búa yfir – og verður það ekki að ráða, frekar en málkerfi 13. aldar?

Posted on

Opna og loka hurð eða dyrum

Því er oft haldið fram að það sé „órökrétt“ – og þar af leiðandi rangt –að tala um að opna hurðina og loka hurðinni vegna þess að hurðin sé ekki op, heldur fleki sem er notaður til að loka dyrum. Í Málfarsbankanum er sagt „eðlilegt að tala um að opna og loka dyrunum sem maður fer inn um (eins og talað er um að opna og loka gati eða opi). Síður skyldi segja: „opna hurðina, loka hurðinni“. Það er þó ljóst að þegar í fornu máli var talað um að opna, loka og lúka upp/aftur hurðum.

Í Eyrbyggju segir „Hurðin var opin en heimakona ein var í dyrunum“, í Sturlungu segir „Hann skyldi geyma að hurðir væru opnar ef þeir Þorvarður kæmu þar um nóttina“, í Laxdælu segir „hér hafa hurðir verið loknar eftir þessum manni“ og „Þeir lúka aftur hurðina og taka vopn sín“ og svo mætti lengi telja. Mikill fjöldi dæma um opna/loka hurð er líka á tímarit.is, frá 19. öld og allar götur síðan. Einnig má nefna dæmi úr bókmenntum – „Opnar Öngull hurð“ kvað Hannes Pétursson í kvæðinu „Í Grettisbúri“.

Í ýmsum orðasamböndum sem þykja góð og gild mætti líka halda því fram að notkun orðanna hurð og dyr sé ekki „rökrétt“. Það er talað um að berja á dyr eða berja að dyrum enda þótt venjulega sé barið á hurðina, ekki dyrnar. Eins er talað um að drepa á dyr og knýja dyra – þótt í Grettis sögu segi Illugi reyndar „Knýr Hösmagi hurð bróðir“. Málfarsbankinn segir líka „Bæði er hægt að læsa hurð og læsa dyrum enda er lás á hvorutveggja“ – sem fer reyndar eftir því hvernig lás er skilgreindur.

Sagnirnar opna og loka fela vitanlega í sér hreyfingu eða breytingu á ástandi, og það er óneitanlega staða hurðarinnar sem breytist en ekki dyranna. Þess vegna er ekki augljóst að einhver rökleysa felist í því að nota hurð í þessum samböndum. En það er mjög athyglisvert að skoða muninn á loka og opna í þessu samhengi í tveimur gríðarstórum textasöfnum – tímarit.is og Risamálheildinni. Sé aðeins litið á ótvíræðar sagnmyndir kemur í ljós að hlutfall dæma um hurð með loka er 38-39%, en talsvert lægra með opna, eða kringum 26-27%.

Það er sem sé talsvert algengara hlutfallslega að tala um að loka hurð en opna hurð, og merkilegt að hlutföllin eru nánast þau sömu í báðum söfnunum þótt textarnir á tímarit.is spanni 200 ár en Risamálheildin taki aðallega til texta frá 21. öld. En munurinn á loka og opna er athyglisverður og ég hef á tilfinningunni að hann sé ekki tilviljun. Þegar þarf að loka er hurðin og hreyfing hennar meira í fókus en þegar þarf að opna beinist athyglin meira að dyrunum.

Þetta styrkist enn frekar þegar skoðuð eru dæmi með lýsingarorði, lokuð/opin hurð og lokaðar/opnar dyr. Það eru sárafá dæmi um hurð í slíkum samböndum – um eða innan við 4% af heildinni. Þar er um kyrrstöðu að ræða, verið að lýsa ástandi en ekki hreyfingu. Vegna þess að hreyfingin virðist vera forsenda þeirrar tilhneigingar að nota hurð fremur en dyr með loka og opna er eðlilegt að þeirrar tilhneigingar gæti lítið þegar hreyfingin er ekki til staðar.

Merkingarleg skil dyra og hurðar hafa því alltaf verið óskýr og orðin löngum getað komið hvort í annars stað í ýmsum samböndum. Það er því engin furða að upp komi dæmi eins og standa í hurðinni, ganga út um hurðina o.fl. Ég mæli samt ekki með slíkum dæmum og fyndist æskilegt að halda sig við að tala um dyr í þeim. Hins vegar finnst mér alveg einboðið að opna hurðina og loka hurðinni sé talið gott og gilt mál.

Posted on

Kynskiptingar

Orðið fótur er vitanlega karlkynsorð og aldrei neitt annað – í eintölu. Fleirtalan, fætur, er hins vegar iðulega höfð í kvenkyni – fæturnar. Þetta er ekki nýtt – dæmi eru um kvenkynið a.m.k. frá 16. öld. Á tímarit.is má sjá að myndin fæturnar hefur verið algeng síðan seint á 19. öld þótt dæmum um hana hafi heldur fækkað á síðustu áratugum ef eitthvað er. Þar er líka fjöldi dæma um báðar fætur allt frá miðri 19. öld. Lengi hefur verið barist gegn þessari breytingu; „má óhætt fullyrða, að fyrr megi misþyrma málinu, en svo langt sé gengið“ segir í blaði frá 1939. En hvernig má skýra hana?

Endingin -ur í nefnifalli fleirtölu er langalgengust í kvenkyni – einkennir stærsta beygingarflokk kvenkynsorða, veiku beyginguna, t.d. saga – sögur, kona – konur, vika – vikur o.s.frv. Það er sennilegt að kvenkynið á fætur megi m.a. rekja til áhrifa þessara orða. Við það bætist að hljóðavíxlin ó-æ eru hliðstæð því sem er í kvenkynsorðum eins og bók – bækur, nótt – nætur, brók – brækur o.fl. Enn má nefna að oft er í sömu andrá minnst á hendur og fætur, og hönd er auðvitað kvenkynsorð. Það er því ýmislegt sem getur haft áhrif í þá átt að málnotendum finnist fætur vera kvenkyn.

En þótt orðið fótur sé oftast notað sem dæmi um karlkynsorð sem stundum verði kvenkyns í fleirtölu fer því fjarri að þetta sé eina orðið sem svo er háttað um. Sömu tilhneigingar gætir hjá ýmsum öðrum karlkynsorðum sem enda á -ur í nefnifalli fleirtölu – fingur, bændur, og svo orðum sem dregin eru af lýsingarhætti nútíðar; nemendur, eigendur o.fl. Á tímarit.is er hægt að finna allmörg dæmi um fingurnar, bændurnar, nemendurnar, eigendurnar o.s.frv. – allt frá 19. öld til þessa dags. Málnotendur virðast því tengja fleirtöluna -ur við kvenkyn eins og áður er nefnt, en við það bætist að þolfall fleirtölu í karlkynsorðum með -ur-fleirtölu er eins og nefnifallið, og það er einkenni kvenkynsorða, en þekkist ekki í öðrum karlkynsorðum en þessum.

Vissulega má það virðast undarlegt að orð skipti um kyn eftir því í hvaða tölu þau standa. Þess eru þó dæmi að slíkt sé viðurkennt og þyki eðlilegt mál. Þekktasta dæmið er foreldri, sem er hvorugkynsorð í eintölu, en fleirtalan foreldrar er karlkyns. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt eintöluna notaða í mínu ungdæmi, þótt hún hafi vissulega verið til þegar í fornu máli og eitthvað notuð alla tíð samkvæmt tímarit.is (fram um miðja 20. öld reyndar langmest í vesturíslensku blöðunum). En með ýmsum þjóðfélagsbreytingum á seinni hluta 20. aldar jókst þörfin á að tala um annað foreldra án þess að tilgreina föður eða móður, og þá margfaldaðist notkun eintölunnar foreldri.

Annað dæmi er orðið fræði. Það er vissulega gefið upp sem tvö orð í orðabókum – annars vegar kvenkynsorðið fræði sem er sagt bara til í eintölu (málfræði, stærðfræði) og hins vegar hvorugkynsorðið fræði sem er sagt bara til í fleirtölu (íslensk fræði, kristin fræði). Merkingin er þó nánast sú sama, og ég sé því enga ástæðu til annars en líta á þetta sem eitt og sama orðið sem skipti um kyn eftir tölu. Er nokkuð að því að fætur geri það líka?

Posted on

Eignarfall -ing-orða

Iðulega má sjá, jafnvel í vönduðu máli, dæmi eins og vegna lagningu, til byggingu, drottningunnar o.s.frv. í stað vegna lagningar, til byggingar, drottningarinnar. Því er oft haldið fram að þetta sé nýleg tilhneiging og það hélt ég til skamms tíma. En þetta má rekja meira en öld aftur í tímann, eins og sést ef leitað er að t.d. til byggingu og vegna byggingu á tímarit.is. Þar má finna hátt í þúsund dæmi um þessi sambönd, það elsta frá 1895 – og er þar þó um að ræða texta sem er að mestu leyti prófarkalesinn.

Ástæður þessarar breytingar eru sennilega fleiri en ein. Eitt er það að langflest kvenkynsorð hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu – annaðhvort eru nefnifall, þolfall og þágufall eins en eignarfall öðruvísi (sterk beyging, mynd – mynd – mynd – myndar) eða nefnifall er sér á báti en þolfall, þágufall og eignarfall eins (veik beyging, saga – sögu – sögu – sögu). (Nokkur kvenkynsorð sem enda á -i hafa sömu mynd í öllum föllum, svo sem gleði, en þau skipta ekki máli hér.)

Orð sem enda á -ing hafa hins vegar þrjár mismunandi myndir í eintölu (bygging – byggingu – byggingu – byggingar). Auk þeirra eru það einkum kvennanöfn sem hafa þrjár myndir, en sum þeirra hafa líka tilhneigingu til að laga eignarfallið að þolfalli og þágufalli (til Björgu í stað til Bjargar). Ef eignarfallið fær sömu mynd og þolfall og þágufall laga -ing-orðin sig að því almenna einkenni kvenkynsorða að hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu og því má segja að þannig falli þau betur að málkerfinu.

En fleira kemur til. Langflest orð sem hafa -u í þolfalli og þágufalli hafa það líka í eignarfalli (veika beygingin, saga, eins og nefnt er að framan). Með því að taka upp -u í eignarfalli laga -ing-orðin sig að því mynstri. Eignarfall er líka langsjaldgæfasta fallið og því viðkvæmt fyrir áhrifum frá öðrum beygingarmyndum. Þegar allt þetta leggst saman þarf ekki að undrast að -ing-orðin hafi tilhneigingu til að fá -u-endingu í eignarfalli í stað -ar.

Fyrir 30 árum eða svo heyrði ég í útvarpi tilkynningu frá Vegagerðinni um að tiltekinn vegur yrði lokaður „vegna lagningu klæðningar“. Þarna komu saman tvö -ing-orð sem bæði standa í eignarfalli, og bæði ættu því að fá -ar-endingu samkvæmt hefð – en annað þeirra fékk -u-endingu í staðinn. Þótt ég sé alinn upp við -ar-eignarfall og hafi enga tilhneigingu til að setja -u í staðinn finnst mér þetta hljóma mun betur en „rétta“ útgáfan, vegna lagningar klæðningar. Hins vegar gæti ég ómögulega haft -u á báðum stöðum, þ.e. vegna lagningu klæðningu, og ekki heldur víxlað endingum, vegna lagningar klæðningu.

Þótt auðvelt sé að skýra þessa tilhneigingu þýðir það ekki endilega að við eigum að láta hana hafa sinn gang – það verður hver að meta fyrir sig. En hún raskar grundvelli beygingakerfisins ekki að neinu leyti – orðin sem um er að ræða halda áfram að beygjast, bara örlítið öðruvísi en áður. Ekki er heldur um það að ræða að beygingarending sé að hverfa úr málinu því að -ar-ending í eignarfalli kvenkynsorða stendur styrkum fótum eftir sem áður. Mér finnst þetta satt að segja frekar meinlaus breyting.

Posted on

Samsettar sagnir

Í Málvöndunarþættinum á Facebook hefur einhvern tíma verið minnst á sögnin haldleggja sem mörgum finnst ekki fara vel í málinu. Samsettar sagnir af þessu tagi, með nafnorð sem fyrri lið, eru ekki ýkja margar þótt sumar eigi sér vissulega hefð. En í þessu tilviki finnst mörgum sögnin óþörf vegna þess að hefð er fyrir því að nota sambandið leggja hald á. Það er tæpast mikið einfaldara eða fljótlegra eða fallegra að segja Lögreglan haldlagði efnið en Lögreglan lagði hald á efnið. En hvers vegna verður svona sögn þá til?

Í íslensku er ekki til „forsetningarþolmynd“ eins og í ensku. Þar er hægt að segja The incident was much talked about, en við getum ekki sagt *Atburðurinn var mjög talaður um, heldur verðum að segja Atburðurinn var mjög umtalaður – þ.e., búa til samsettan lýsingarhátt þar sem forsetningunni er skeytt framan við lýsingarhátt sagnarinnar. En sögnin *umtala er ekki til – engum dettur í hug að segja *Ég umtalaði atburðinn. Það er sem sé ekkert sjálfgefið að samsettur lýsingarháttur eigi sér samsvarandi nafnhátt.

Líklegt er að í því dæmi sem hér um ræðir hafi lýsingarhátturinn haldlagður orðið til fyrst, t.d. vegna þess að blaðamenn voru ekki sáttir við að meginatriði fréttar kæmi síðast í setningu, eins og í Lögreglan lagði hald á þrjú kíló af kókaíni. Hér felst fréttin ekki í því hver lagði hald á efnið – það er nokkuð sjálfgefið – heldur hvað lagt var hald á. Þess vegna er eðlilegt að nota þolmynd, en það er ekki hægt að segja *Þrjú kíló af kókaíni var lagt hald á.

Auðvitað er hægt að búa til þolmyndina Lagt var hald á þrjú kíló af kókaíni en eftir sem áður kemur aðalatriðið síðast en ekki fyrst. Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að samsettur lýsingarháttur verði til, og sagt sé Þrjú kíló af kókaíni voru haldlögð. Lýsingarhátturinn getur líka stundum komið í stað heillar aukasetningar – hægt er að segja Einnig verður boðinn upp haldlagður varningur í stað varningur sem lagt hefur verið hald á.

Mér finnst trúlegt að sögnin haldleggja hafi síðan orðið til út frá þessum lýsingarhætti. Elstu dæmi bæði um nafnháttinn og lýsingarháttinn á tímarit.is eru að vísu frá svipuðum tíma (kringum 1980) og gefa ekki skýra vísbendingu um þetta. Hins vegar er ljóst að notkun lýsingarháttarins breiddist mun fyrr og hraðar út en nafnháttarins og annarra ótvíræðra sagnmynda. Lýsingarhátturinn nær flugi á síðasta áratug 20. aldar en sagnmyndirnar ekki fyrr en á fyrsta áratug þessarar.

Það er sem sé hægt að færa góð rök fyrir því að lýsingarhátturinn haldlagður sé eðlileg og gagnleg viðbót við íslenskan orðaforða. Hins vegar er engin brýn þörf á sögninni haldleggja – frekar en sögninni *umtala – þótt ekki sé þar með sagt að hún sé ranglega mynduð eða hana ætti að forðast. Það verður hver að gera upp við sig.

Posted on

Hvor annan

Í Málvöndunarþættinum á Facebook var eitt sinn vakin athygli á frétt í Morgunblaðinu þar sem stóð í fyrirsögn „Njóta fullkomins skilnings hvort annars“, og í fréttinni sjálfri „hvort þau hafi eitthvað náð að fylgjast með árangri hvort annars um helgina“. Það hefur verið kennt að í þessu sambandi eigi hvor að standa í sama falli (nefnifalli í þessu tilviki) og frumlag setningarinnar (þau, sem reyndar er sleppt í fyrra dæminu eins og algengt er í fyrirsögnum) en annar í eignarfalli þegar það stýrist af nafn­orði eins og í báðum þessum tilvikum (skilnings í fyrra dæminu, árangri í því seinna).

Samkvæmt þessu er sambandið rétt notað í báðum dæmunum, en höfundur innleggsins taldi það ranglega notað – og var sannarlega vorkunn, því að annars konar notkun þess er mjög útbreidd. Iðulega er hvor látið sam­beygjast annar í stað þess að sambeygjast frumlaginu – dæmin hér að ofan eru þá skilnings hvors annars og árangri hvors annars. Sama gildir um önnur afbrigði þessa sambands – oft er sagt t.d. þeim líkar vel við hvort ann­ í stað hvoru við annað, þeir hata hvorn annan í stað hvor annan, þeim er hlýtt til hvors annars í stað hvoru til annars, o.s.frv.

Þetta er engin nýjung. Dæmi er um „ranga“ notkun þessa sambands í Eintali sálarinnar sem Arngrímur Jónsson lærði þýddi í lok 16. aldar – „heldur veit oss að vér elskum hvörn annan svo vér blífum í þér og þín elska sé fullkomin í oss“. Um og eftir miðja 19. öld fara að sjást dæmi á stangli en fer mjög fjölgandi þegar kemur fram á 20. öld, einkum eftir miðja öldina, samkvæmt rannsókn sem Dagbjört Guðmunds­dóttir málfræðingur gerði í BA-ritgerð sinni. Á tímarit.is fann hún hátt á áttunda þúsund dæmi frá 20. öld um „ranga“ notkun þessa sambands – þrátt fyrir að blöð og tímarit hafi yfir­leitt verið prófarkalesin á þeim tíma.

Breytingar á þessu sambandi eru í sjálfu sér mjög skiljan­legar vegna þess að hvor / hver rýfur venjuleg tengsl orða. Í samböndum eins og tala um og líka við mynda sögn og forsetning merkingarlega heild sem hv-orðið rýfur þegar sagt er tala hvor / hver um annan og líka hvorum / hverjum við annan. Til að koma í veg fyrir það rof og halda þessari heild er hv-orðið fært aftur fyrir forsetninguna. En þar með eru tengsl for­setn­ingarinnar og andlags hennar rofin og því er eðlilegt að málnotendur fari að skynja hv-orðið sem andlag og láti það sambeygjast raunverulega andlag­inu — tala um hvorn / hvern annan og líka við hvorn / hvern annan. Sama gerist þar sem annar er andlag sagnar, eins og í aðstoða hvor / hver annan og hjálpa hvor / hver öðrum — þar rýfur hv-orðið tengsl sagnar og andlags sem leiðir til þess að það er túlkað sem hluti andlagsins, aðstoða hvorn / hvern annan og hjálpa hvorum / hverjum öðrum.

Af nærri 40 ára kennslu­reynslu tel ég mig geta fullyrt að verulegur hluti fólks notar þetta samband ekki í samræmi við það sem kennt hefur verið. Þetta staðfestist í viðamikilli rannsókn á stöðu ís­lensk­unnar sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stóðum fyrir. Þar var fólk á öllum aldri beðið að leggja mat á ýmsar setningar, þar á meðal þeim líkar vel hvorum við annan sem hefur verið talið rétt og þeim líkar vel við hvorn annan sem hefur verið talið rangt. Verulegur hluti fólks í öllum aldurshópum, frá 13 ára og upp úr, taldi að fyrri setningin, sú „rétta“, væri annaðhvort „mjög óeðli­leg“ eða „frekar óeðlileg“. Fólk sem taldi að hún væri „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“ var í minnihluta í flestum aldurshópum.

Aftur á móti taldi yfirgnæfandi meirihluti fólks í öllum ald­urs­hópum að seinni setningin, sú „ranga“, væri annað­hvort „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“, en mjög fáum fannst hún „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðli­leg“.Vegna þess hve munur aldurshópa er lítill er ekki hægt að kenna ungu kynslóðinni um þessa málbreytingu – og ekki er heldur hægt að skella skuldinni á hrakandi íslensku­kennslu. Þetta er einfaldlega málbreyting sem á sér gaml­ar rætur og er orðin svo útbreidd að óhætt er að fullyrða að mikill meirihluti landsmanna sé alinn upp við „ranga“ notkun sambandsins og hafi tileinkað sér hana á mál­töku­skeiði.

Baráttan gegn þessari breytingu er augljóslega löngu töp­uð og mér finnst ekkert vit í að halda henni áfram. Það tákn­ar auðvitað ekki að dæmin úr frétt Morgunblaðsins sem nefnd voru í upphafi eigi að hætta að teljast rétt, en verði röng í staðinn. Þetta eiga einfaldlega að vera tvö jafn­gild og jafnrétthá afbrigði. Það er ekkert að því. Tungu­málið þarf ekki alltaf að vera annaðhvort – eða; það má líka stundum vera bæði – og.

Posted on

Eintölu- og fleirtöluorð

Í Málvöndunarhópnum á Facebook og víðar er oft rætt um tölu nafnorða. Sum nafnorð eru venjulega eingöngu notuð í eintölu, önnur eingöngu í fleirtölu, og fólki bregður í brún ef orðin eru notuð í annarri tölu en venjulegt er. Þannig var nýlega rætt um eintöluna sundfat og annars staðar sá ég gerða athugasemd við fleirtöluna áburðir (á tún). Það er auðvitað ljóst að sundföt eru venjulega höfð í fleirtölu en áburður í eintölu. En er ástæða til að amast við hinu – er það beinlínis rangt?

Þótt föt séu venjulega í fleirtölu, og merki 'fatnaður', er eintalan fat vissulega til og gefin í orðabókum, og merkir 'flík'. Ég sé ekki að það ætti að skipta máli hvort orðið fat er notað eitt og sér eða í samsetningunni sundfat. Hitt er svo annað mál hvort einhver þörf er fyrir eintöluna – hvort ekki megi tala um ein sundföt eins og venja er í staðinn fyrir eitt sundfat. Það er svo sem alveg hægt að hugsa sér aðstæður þar sem merkingarmunur væri á þessu. Til eru sundföt sem eru í tvennu lagi (bikini) – þar gæti hugsanlega komið sér vel að geta talað um annan hlutann sem sundfat.

Orðið áburður í merkingunni 'efni borið á jarðveg til að auka vöxt plantna' hefur nær eingöngu verið haft í eintölu (þótt dæmi um fleirtöluna sé til frá 19. öld). Hins vegar hefur orðið líka aðra merkingu, 'smyrsl, t.d. á sár', og í þeirri merkingu hefur það lengi tíðkast í fleirtölu án þess að nokkrum finnist það athugavert - talað er t.d. um handáburði. Þarna hefur merking orðsins víkkað úr því að vera efnisheiti (slík orð eru ekki notuð í fleirtölu) yfir í að tákna einstakar tegundir af eða úr þessu efni. Fyrst ekkert er því til fyrirstöðu að láta fleirtöluna tákna tegundir þegar rætt er um smyrsl, má þá ekki líka láta hana tákna tegundir túnáburðar?

Málið snýst sem sé ekki um það hvort eintalan sundfat og fleirtalan áburðir séu til – það eru þær augljóslega, og málfræðilega er ekkert við þær að athuga. Báðar fela hins vegar í sér merkingarvíkkun orðanna sem um er að ræða – úr tegundarheiti yfir í einstök dæmi um tegundina, ef svo má segja. Það er svo smekksatriði hvort fólk fellir sig við þessa merkingarvíkkun og því verður hver að svara fyrir sig. En það má benda á að fjölmörg hliðstæð dæmi eru til í málinu – sum almennt viðurkennd, önnur ekki. Og sum slík tilvik sem áður var amast við þykja núna góð og gild.

Til skamms tíma börðust umvandarar t.d. harkalega gegn fleirtölunni keppnir og sögðu að keppni væri aðeins til í eintölu og merkti 'kapp' – eins og orðið gerir t.d. í setningunni Það var alltaf mikil keppni á milli systkinanna. En við þessa óhlutstæðu merkingu hefur bæst merkingin 'kappleikur', eins og t.d. í Systkinin háðu margar keppnir. Þessi merkingarvíkkun er a.m.k. 90 ára gömul. Nú hef ég ekki séð amast við fleirtölunni keppnir í 15-20 ár og dreg þá ályktun af því að flestir séu búnir að taka hana í sátt. Það kemur í ljós hvernig fer með sundfat og áburði.

Annars skrifaði Höskuldur Þráinsson prófessor einu sinni smágrein um þetta efni og er rétt að vísa á hana hér.

Posted on

Hvað er málrækt?

Margir telja undanhald eða uppgjöf felast í því að efast um gildi ósveigjanlegrar andstöðu gegn „málvillum“, að ekki sé talað um að viðurkenna einhverjar þeirra sem „rétt mál“. Margir amast líka við nýjum orðum eða nýbreytni í orðanotkun. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – okkur finnst að málið eigi að vera eins og við tileinkuðum okkur það í æsku, og eins og okkur hefur verið kennt að það eigi að vera.

En málvöndun og málrækt felst ekki í því að berjast gegn langt gengnum málbreytingum, amast við nýjungum í máli, eða enskuslettum sem koma og fara. Og þaðan af síður felst málrækt í því að hneykslast á, leiðrétta og hnýta í málfar annarra. Hins vegar felst málrækt í því

  • að rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir mann sjálfan og málsamfélagið;
  • að hika ekki við að beita nýsköpun í máli – setja orð í nýstárlegt samhengi og búa til ný orð ef þeirra er þörf;
  • að leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs;
  • að velja máli sínu búning sem hæfir aðstæðum og viðmælendum – nota viðeigandi málsnið;
  • að vilja kynna sér hefðir málsins og taka mið af þeim, án þess að láta þær hefta eðlilega tjáningu;
  • að sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra út á besta veg;
  • að átta sig á að málið verður að henta málsamfélaginu á hverjum tíma og stöðnun í máli er ávísun á hnignun þess;
  • að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd;
  • að gera kröfu um og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota málið á öllum sviðum, til allra þarfa;
  • að tala íslensku, hlusta á íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest.
Posted on

Málfar ungra blaðamanna

Valdimar Briem skrifaði í gær pistil í Málvöndunarþáttinn á Facebook þar sem vikið er að færslu sem ég skrifaði fyrr í vikunni. Ég get tekið undir sumt í þeim pistli en vil nefna að hvatinn að minni færslu var orðalag og framsetning athugasemda sem gerðar eru við málfar í þessum hóp og víðar – athugasemda sem jafnvel lúta að andlegu atgervi og þroska þeirra sem verður eitthvað á að mati umvandara. Fyrir utan það að vera ekki kurteislegar eru slíkar athugasemdir ekki líklegar til að bæta málfar þeirra sem um er að ræða. Um þetta erum við Valdimar sammála sýnist mér.

Til skýringar á ýmsu í málfari og orðanotkun ungra blaðamanna benti ég á að þjóðfélagið hefur breyst gífurlega á undanförnum áratugum, og ungir blaðamenn eru aldir upp í þjóðfélagi og málumhverfi sem er gerólíkt því sem við Valdimar ólumst upp í. Þess vegna er ekki við því að búast að þeim sé tamur allur sami orðaforði og okkur sem erum komin yfir miðjan aldur (eins og meirihluti þeirra sem eru virkir í þessum hópi að því er mér sýnist). En það er fráleitt sem Valdimar segir, að ungir blaðamenn „leitist stundum við að tjá sig opinberlega á röngu máli“.

Ég hef ekki varið óvönduð vinnubrögð og mun ekki gera. Vitanlega eiga allir að vanda sig við það sem þeir gera, og fólk sem hefur atvinnu af skrifum á auðvitað sérstaklega að vanda sig í meðferð málsins. Sannarlega er oft misbrestur á því. En það verður að sýna sanngirni og taka tillit til breyttra aðstæðna. Áður var allt efni blaðanna lesið yfir af þjálfuðum og vandvirkum prófarkalesurum. Síðan fór það til setjara sem einnig voru sumir hverjir miklir íslenskumenn og lagfærðu textann ef þeir sáu ástæðu til. Textinn fór því í gegnum margar síur áður en hann birtist lesendum.

Nú skrifa blaðamenn á vefmiðlum texta sem birtist iðulega á netinu um leið, ósíaður, og öll þjóðin getur skoðað – og gert athugasemdir við. Vissulega koma prófarkalesarar stundum við sögu, en oft er textinn settur á netið um leið og hann hefur verið skrifaður og prófarkalesarinn fer svo yfir hann eftir á, þegar tækifæri gefst. Það fer ekki hjá því að þessi vinnubrögð, og hraðinn og sú pressa sem blaðamenn eru undir, leiða til þess að ýmislegt sem betur mætti fara kemur fyrir sjónir lesenda. En það er ekki hægt að kenna blaðamönnunum um allt sem miður fer, heldur þeim vinnuaðstæðum sem þeir búa við.

Ég legg áherslu á, eins og ég hef gert áður, að þetta þýðir ekki að fólk eigi bara að yppta öxlum yfir öllu sem því finnst ábótavant í málfari og framsetningu. Það er sjálfsagt að benda á hroðvirknisleg vinnubrögð og þegar brugðið er út af málhefð. En það skiptir máli hvernig það er gert.