Category: Málfar

Magaermisaðgerð

Í gærkvöldi heyrði ég orðið magaermisaðgerð notað í sjónvarpsfréttum. Mér fannst það athyglisvert – ég hefði búist við magaermaraðgerð vegna þess að kvenkynsorðið ermi fær -ar-endingu í eignarfalli eintölu, ermar. Þegar ég fór að skoða þetta kom þó í ljós að myndin magaermisaðgerð er töluvert notuð, meira en magaermaraðgerð að sjá – fyrrnefnda myndin er t.d. notuð í Læknablaðinu og í kynningarefni frá Klíníkinni. Í Risamálheildinni eru 79 dæmi um magaermisaðgerð en 68 um magaermaraðgerð – og auk þess 18 um magaermiaðgerð þar sem fyrri hlutinn er ber stofn og 10 um magaermaaðgerð þar sem fyrri liðurinn virðist vera í eignarfalli fleirtölu. Allar myndirnar sjást fyrst á prenti á árunum 2016-2017.

Í fljótu bragði mætti ætla að magaermisaðgerð væri rangt myndað orð, samræmdist ekki íslenskum orðmyndunarreglum, þar sem fyrri liður þess væri röng eignarfallsmynd – og vissulega er eignarfallið af ermi aldrei *ermis. Hins vegar er það vel þekkt að kvenkynsorð sem enda á -i bæti við sig -s þegar þau eru fyrri liður samsetninga – keppnismaður, landhelgisgæsla, leikfimishús o.s.frv. Fyrri liður þessara orða, keppni, landhelgi, leikfimi, er eins í öllum föllum eintölu – við fáum aldrei *keppnis, *landhelgis, *leikfimis í orðunum einum og sér. Þess vegna er fyrri liðurinn ekki í eignarfalli í þessum orðum og -s ekki eignarfallsending, heldur er stofninn notaður og milli hans og seinni hlutans kemur tengihljóð (tengistafur, bandstafur).

Slík orðmyndun er algeng í málinu og góð og gild, þótt áður hafi oft verið gerðar athugasemdir við hana vegna þess misskilnings að þar væri um ranga eignarfallsmynd að ræða. Ekkert er því til fyrirstöðu að líta svo á að magaermisaðgerð sé myndað á sama hátt – af stofninum magaermi að viðbættu tengihljóðinu -s. Vissulega er sá munur á orðinu ermi og hinum orðunum sem nefnd voru, keppni, landhelgi, leikfimi, að þau eru óbreytt í eignarfalli eintölu en ermi fær -ar-endingu. En í öllum þessum orðum er eðlilegast að líta svo á að -i sé ekki beygingarending (í nefnifalli, þolfalli og þágufalli), heldur hluti stofnsins en falli brott í eignarfallinu ermar vegna þess að endingin hefst á sérhljóði (ermi+ar > ermar) eins og ótal önnur dæmi eru um í málkerfinu.

En vitanlega eru bæði stofnsamsetningin magaermi+aðgerð og eignarfallssamsetningin magaerm+ar+aðgerð líka rétt mynduð orð, og þar eð þær samsetningaraðferðir eru miklu algengari en samsetning með tengihljóði hefði e.t.v. mátt búast við að þær yrðu frekar fyrir valinu en magaermi+s+aðgerð (samsetning með eignarfalli fleirtölu, magaerm+a+aðgerð, er líka orðmyndunarlega rétt en merkingarlega ólíklegri). Það er samt ljóst að málnotendum finnst vanta einhverja tengingu milli orðhlutanna ef ber stofninn er hafður í fyrri hluta orða af þessu tagi þannig að magaermiaðgerð er ólíklegri mynd enda mun sjaldgæfari. Aftur á móti er magaermaraðgerð eðlileg mynd, eins og magaermisaðgerð, og smekksatriði hvor er valin.

Gleraugnahús

Einu sinni var ég að skrifa um það að þrátt fyrir að merking samsettra orða sé oft gagnsæ, í þeim skilningi að við getum tengt einstaka liði þeirra við önnur orð sem við þekkjum, þá geta tengsl liðanna verið með ýmsu móti og oft þarf að læra sérstaklega hvernig þeim sé háttað í hverju orði. Ég tók dæmi af orðinu hús sem „birtist t.d. í fjölmörgum ólíkum samsetningum. Þannig vísar timburhús til efnis hússins, einingahús fremur til byggingaraðferðar, íbúðarhús til nýtingar, fjölbýlishús til skipulags, eldhús og þvottahús eru ekki einu sinni hús, heldur herbergi – að ekki sé talað um gleraugnahús og nálahús“. Guðrún Kvaran segir um tvö þau síðastnefndu: „Fleiri merkingar eru auðvitað í hús eins og til dæmis 'hulstur, hylki' […].“

Elsta dæmi um gleraugnahús í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr bréfi frá séra Árna Helgasyni árið 1826: „til gullsmiðsins eru komin gleraugnahús conferensr. í þeim tilgangi.“ Elsta dæmi á tímarit.is er í Norðanfara 1876: „Þeir höfðu ýmsa gripi, helzt krossa og róðukrossa, neftóbak og tóbaksdósir og gleraugnahús.“ Í Ísafold 1891 eru auglýst „Gleraugnahús sjerstök“. Í Ísafold 1892 segir: „Tapazt hefir í gær á götum bæjarins silfurgleraugnahús vandað.“ Þar er orðið haft í eintölu en fleirtalan virðist þó vera mun algengari og í flestum orðabókum er orðið gefið upp sem fleirtöluorð. Þannig er ég líka vanur því. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er eintalan þó gefin upp, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

En nýlega áttaði ég mig á því að þetta orð, sem ég hef þekkt frá barnsaldri og nota iðulega enn í dag, virðist vera nær horfið úr málinu. Ég komst svo að því að ég er ekki einn um að hafa veitt þessu eftirtekt. Þórður Helgason sagði í Morgunblaðinu 2013: „Hins vegar gerist það stundum að ágætum heitum hluta er gert að hverfa sakir þess að hluturinn breytir um form. Önnur orð setjast á þá í staðinn. Gott dæmi um slíkt er hið fallega orð gleraugnahús, orð sem ég ólst upp við og sakna. Gleraugnahús höfðu eins konar dyr sem hægt var að opna og loka. Skyndilega var slíkum húsum lokað hinsta sinni en við tóku lágkúrulegri orð eins og hulstur eða hylki sem engin reisn er yfir. Dagar gleraugnahúsa voru taldir.“

Orðið hefur svo sem aldrei verið mjög algengt á prenti. Á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um það, hátt í helmingur úr nöfnum verslana. Í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi um orðið frá þessari öld, þar af þrjú þar sem orðið er beinlínis til umfjöllunar (dæmin frá Guðrúnu Kvaran og Þórði Helgasyni sem nefnd eru hér að framan). Orðið gleraugnahulstur er svo sem ekki algengt heldur en þó eru 58 dæmi um það í Risamálheildinni og auk þess er mjög oft bara talað um hulstur. Stundum þykir greinilega ástæða til að skýra gleraugnahús með öðru orði í sviga: „Gleraugun eru í gleraugnahúsi (gleraugnahulstri) sem er klætt með brúnu gerviefni að utanverðu en fóðrað að innanverðu með vínrauðu flaueli“ segir í lýsingu í Sarpi.

Ein ástæða þess að orðið gleraugnahús hefur vikið fyrir öðrum orðum gæti verið breytt hönnun – eins og Þórður Helgason nefnir höfðu gleraugnahús áður „eins konar dyr sem hægt var að opna og loka“ en í seinni tíð er oft um að ræða hylki eða hulstur sem gleraugunum er smeygt í, eða sem er lokað með rennilás, og þá liggur líkingin við hús ekki eins beint við. Hugsanlega finnst málnotendum líka að gleraugnahús hljóti að vera bygging frekar en hulstur – á seinni hluta síðustu aldar voru til verslanirnar Gleraugnahúsið og Gleraugnahús Óskars og það kann að hafa stuðlað að tengslum orðsins við byggingar í huga málnotenda. En hver sem ástæðan kann að vera á ég ekki von á að gleraugnahús lifni aftur við.

Milliskyrtur, nærskyrtur – og farsímar

Nýjum orðum í málinu, ekki síst tökuorðum, er oft fundið það helst til foráttu að þau útrými eldri orðum sömu merkingar og stuðli þannig að málfátækt. Eins og ég hef áður skrifað um veit ég ekki hvað oft ég hef séð því haldið fram að orðið snjóstormur sé að útrýma gamalgrónum orðum eins og bylur, stórhríð, kafald o.fl. Einföld athugun leiðir í ljós að því fer fjarri að svo sé, og oftast eru slíkar áhyggjur reyndar byggðar á misskilningi sem er svo sem eðlilegur – við tökum miklu frekar eftir því sem er nýtt og framandi en því sem við erum vön, og ýkjum því ómeðvitað tíðni nýrra orða. Samt sem áður gerist það auðvitað oft að orð hverfa úr málinu og fyrir því geta verið ýmsar ástæður – ekki endilega þær að önnur orð ýti þeim í burtu.

Fyrir nokkrum árum var ég að horfa á sjónvarpsviðtal við aldraðan kaupmann og kipptist við þegar hann nefndi orðið milliskyrta. Þetta var orð sem ég mundi vel eftir úr mínu ungdæmi en hafði ekki heyrt lengi. Athugun á tímarit.is staðfesti þá tilfinningu mína að orðið væri að hverfa úr málinu – þar eru 1215 dæmi um orðið en þar af aðeins ellefu frá þessari öld, sum þeirra úr eldri textum. Í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi frá þessari öld um orðið og það er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er hins vegar í Íslenskri orðabók og skýrt 'skyrta til að hafa milli nærskyrtu og ytri flíkur'. Orðið nærskyrta er þar skýrt 'skyrta til að vera í næst sér' en það orð er reyndar einnig á mikilli niðurleið – rúm 30 dæmi frá þessari öld á tímarit.is.

Öfugt við milliskyrta er nærskyrta þó í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt 'nærbolur' – sem er einmitt orðið sem hefur komið í staðinn. En milliskyrta er það sem nú heitir bara skyrta. Þegar talað var um tvenns konar skyrtur þurfti að greina þar á milli – önnur tegundin var nærskyrtur, hin milliskyrtur. En þegar nærbolur kemur í staðinn fyrir nærskyrtu er ekki lengur þörf á að greina milli tveggja tegunda af skyrtum og því hægt að stytta milliskyrta í skyrta. Við það bætist að sennilega ganga karlmenn frekar í skyrtum næst sér en áður, án þess að vera í nærbol. Hvort tveggja dregur úr þörf fyrir aðgreiningu milli mismunandi tegunda af skyrtum og ég held að þetta sé meginskýringin á því að við tölum ekki lengur um milliskyrtur.

Þetta er dæmi um orð sem hefur horfið úr málinu vegna þess að ekki var þörf fyrir það lengur – ekki vegna þess að fyrirbærið sem það vísar til sé úrelt eða horfið, heldur vegna þess að ekki er lengur þörf á tiltekinni aðgreiningu. Þetta er alltaf að gerast. Annað og nýlegra dæmi er orðið farsími. Það orð er tiltölulega nýlegt, sást fyrst á prenti fyrir tæpum 40 árum og varð fljótlega mjög algengt, sérstaklega eftir 1990. En á síðustu árum hefur dregið verulega úr notkun orðsins – ekki vegna þess að farsímum fari fækkandi, heldur þvert á móti. Nú er farsími hinn sjálfgefni sími og grunnorðið fær því þá merkingu. Svona er orðaforðinn í sífelldri endurnýjun – ný orð koma inn og önnur hverfa. Það er eðlilegt, þótt vissulega geti verið eftirsjá að góðum orðum.

Andvaraleysi og ábyrgðarleysi stjórnvalda

Þegar drög að aðgerðaáætlun um eflingu íslenskunnar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í vor sendi ég ítarlegar athugasemdir við þau sem ég birti einnig hér. Þar fagnaði ég áherslu á kennslu íslensku sem annars máls en benti á ýmislegt sem mér fannst vanta í áætlunina. Meginathugasemdir mínar vörðuðu þó fjármögnun hennar. Ég benti á að kostnaðaráætlun vantaði og lagði áherslu á mikilvægi þess að kostnaðarmat einstakra aðgerða fylgdi þegar aðgerðaáætlunin yrði lögð fram sem þingsályktunartillaga sem á að gera nú í október. Ég hef líka bent á að ekkert í fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem lögð var fram í vor bendir til þess að til standi að auka fjárveitingar til íslenskukennslu svo að nokkru nemi á næstunni.

Nú hef ég verið að skoða fjárlagafrumvarp ársins 2024 og leita að vísbendingum um að til standi að bæta verulega í hvað varðar kennslu íslensku sem annars máls. Framsetning frumvarpsins er reyndar ekki með þeim hætti að auðvelt sé að átta sig á þessu, en ég hef ekki fundið mikið. Undir lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“, segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 115 m.kr. vegna tímabundinnar fjárheimildar sem kom inn í fjárlögum 2023 vegna eflingar íslenskukennslu fyrir innflytjendur en fellur nú niður.“ Undir lið 30.1, „Vinnumál og atvinnuleysi“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til tveggja ára um 120 m.kr. vegna íslenskunámskeiða fyrir flóttafólk.“

Þarna er sem sé verið að lækka framlög til íslenskukennslu um 115 milljónir í einum lið en hækka þau um 120 milljónir í öðrum – nettóaukning er fimm milljónir sem er auðvitað aðeins dropi í hafið. Reyndar er ekki verið að tala um sama hópinn og þótt það sé góðra gjalda vert að auka íslenskukennslu flóttafólks er fráleitt að skerða fé til íslenskukennslu innflytjenda á móti. En auk þess segir undir lið 18.30, „Menningarsjóðir“: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til eins árs um 75 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar tungu.“ Það er auðvitað ánægjuefni svo langt sem það nær. En aðgerðaáætlunin er metnaðarfull og í mörgum liðum og ljóst að 75 milljónir hrökkva skammt til að hrinda henni í framkvæmd.

Nú er hugsanlegt – og vonandi – að mér hafi sést yfir háar upphæðir til íslenskukennslu í frumvarpinu, og eins er vitanlega mögulegt að fjárveitingar til íslenskukennslu verði stórauknar í meðförum Alþingis. Ég leyfi mér samt ekki að vera bjartsýnn á það. Því miður sýnist mér fátt benda til þess að stjórnvöld geri sér grein fyrir mikilvægi málsins eða átti sig á alvarlegri stöðu íslensks málsamfélags. Það stefnir í að íslenska verði ekki aðalsamskiptamálið í landinu um miðja öldina, það stefnir í að til verði samfélög fólks sem kann ekki íslensku og á þess ekki kost að taka fullan þátt í samfélaginu – fólks á lágum launum með litla menntun. Þetta er stórhættulegt fyrir íslenskuna og fyrir lýðræðið í landinu – en við erum ekkert að gera í því.

Hvar aldist þú upp?

Fyrir rúmum 40 árum þegar ég var enn í námi vann ég smátíma við framburðarathuganir í Skagafirði á vegum verkefnisins Rannsókn á íslensku nútímamáli sem Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason stóðu að. Við fórum tveir milli bæja og töluðum við fólk á ýmsum aldri og reyndum að fá fram eðlilegan framburð þess. Einu sinni var ég að ræða við rúmlega áttræðan bónda og spurði eitthvað sem svo: „Hvar aldist þú upp?“ Bóndinn hváði og var augljóslega forviða á að maður sem gaf sig út fyrir að vera málfræðingur gerði slíka villu. Ég áttaði mig strax á þeim mistökum sem ég hafði gert og reyndi einhvern veginn að breiða yfir þau en ég er hræddur um að bóndinn hafi ekki haft mikla trú á lærdómi mínum og kunnáttu eftir þetta.

Eins og ég vissi vel – þótt ég gleymdi því þarna við óheppilegar aðstæður – á nefnilega að segja ólst, ekki aldist, eins og Málfarsbankinn bendir á: „Hann ólst upp á Akureyri. Ekki: „hann aldist upp á Akureyri“.“ Fyrst ástæða þykir til að vara við myndinni aldist hefur hún augljóslega verið eitthvað notuð, og ég hlýt að hafa alist upp við hana fyrst ég notaði hana þarna. En oft hafa verið gerðar athugasemdir við hana. Gísli Jónsson sagði t.d. í Morgunblaðinu 1989: „í sveitinni, þar sem ég ólst upp (ekki „aldist“ eins og glapyrðingar segja nú um stundir)“ og í ræðu á Alþingi 2008 sagði Árni Johnsen: „Það var t.d. ekki skemmtilegt fyrir okkur þegar ég hlustaði á einn af forustumönnum íslenska háskólasamfélagsins nota þessi orð: „Ég aldist upp.““

Myndin aldist er gömul – elsta dæmi um hana er í Sunnanfara 1897: „Aldist hann upp hjá þeim í lítilli menntun til fermingaraldurs.“ Í Frækorni 1911 segir: „Aldist hann upp í sveit.“ Samsetningin uppaldist er líka til. Í Templar 1911 segir: „Kristján heitinn gat verið ágætur læknir og mikilsmetinn maður, en hann lærði list sína og uppaldist á brennivínsöldinni.“ En þótt þessi beyging komi helst fyrir í miðmyndinni aldist eru líka dæmi um aldi í germynd. Í Morgunblaðinu 1935 segir: „Kópurinn, sem Teitur Stefánsson á Akranesi bjargaði í sumar og aldi upp heima hjá sjer hefir nú verið skotinn.“ Í Vísi 1940 segir: „þegar börnin af fyrra hjónabandi hennar voru uppkomin tók hún að sér nokkur umkomulaus börn og aldi upp.“

Myndin aldist kemur fyrir í blöðum og tímaritum öðru hverju allra 20. öldina og er algeng enn. Í Risamálheildinni eru hátt í 300 dæmi um hana og einnig hljóðverptu myndirnar öldust og öldumst, einkum af samfélagsmiðlum. Það er auðvitað ekki einsdæmi að sterkar sagnir hafi tilhneigingu til að fá veika beygingu. Sumar slíkar breytingar eru um garð gengnar og fyllilega viðurkenndar – hjálpa var halp í þátíð í fornu máli en er nú hjálpaði, bjarga var barg en er nú bjargaði, fela var fal en er nú faldi, o.fl. Breytingin ól(st) verður aldi(st) er algerlega hliðstæð en ekki gengin í gegn og ekki viðurkennd. Í ljósi aldurs og tíðni veiku þátíðarinnar eru samt engar forsendur til annars en viðurkenna veiku beyginguna sem rétt mál við hlið þeirrar sterku.

Nærur, naríur og nærjur

Ég ólst upp við að nota orðið brók um nærbuxur – ég man ekki hvort ég þekkti einu sinni orðið nærbuxur en hafi svo verið hefur mér örugglega þótt það pempíulegt. Einhvern tíma á unglingsárum lærði ég svo að brók þætti frekar ófínt orð og nærbuxur væri orðið sem siðað fólk notaði. Ég hef svo sem aldrei komist að því hvort notkun orðanna eða viðhorf til þeirra breyttist á einhverjum vissum tíma, eða hvort notkunin er eitthvað landshlutabundin. Dæmum um nærbuxur á tímarit.is hefur reyndar fjölgað mun meira á undanförnum áratugum en dæmum um brók en þetta eru vitanlega orð sem örugglega eru margfalt meira notuð í talmáli en í formlegu ritmáli þannig að þetta er ekki alveg að marka.

En um miðjan níunda áratug síðustu aldar fara að sjást á prenti tvö ný orð um þennan fatnað – fleirtöluorðin nærur og naríur. Hvorugt orðið er í Íslenskri nútímamálsorðabók en það fyrrnefnda er í Íslenskri orðabók. Elstu dæmin um orðin eru nokkurn veginn jafngömul. Það fyrrnefnda sést fyrst í Stúdentablaðinu 1984: „sá tími kemur að við förum að laumast út í garð á stuttbuxum eða bara á nærunum.“ Síðarnefnda orðið sést fyrst í Eyjafréttum 1985: „halir voru heldur nöturlega klæddir, eða eingöngu á naríunum.“ Slæðingur af dæmum um bæði orðin kemur svo fyrir á næstu árum þar á eftir, það síðarnefnda stundum innan gæsalappa sem sýnir að það hefur þótt eitthvað framandi.

Í Degi 1997 segir: „Tungumál barnanna er stöðugt í mótun, þannig er áhersluorðið „ýkt“ í daglegri notkun, stuttermabolur heitir nú „stuttbolur“ og nærbuxur heita „naríur“.“ Þetta sýnir að orðið naríur hefur þarna verið að breiðast út. Í Risamálheildinni er á þriðja þúsund dæma um orðið, langflest úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla eins og við er að búast. Dæmin um nærur eru mun færri en þó rúmlega þúsund, einnig flest af samfélagsmiðlum. Orðið nærur er væntanlega stytting úr nærbuxur – ágætt orð og fellur vel að málinu. Orðið naríur hlýtur að vera skylt og hafa orðið til við einhvers konar hljóðavíxl sem ég botna ekki í. En hvað sem um upprunann má segja er ljóst að orðið hefur unnið sér hefð í málinu.

Enn ein mynd, sem ég þekkti ekki fyrr en ég fór að skrifa um þetta, er nærjur. Sú mynd er ekki heldur í orðabókum og virðist nokkuð yngri en hinar – elsta dæmið sem ég finn um hana er í Degi-Tímanum 1997: „Þar sem við stormum ábúðarfull með geysimikilvægt erindi í bankann að borga gíróseðilinn frá stöðumælaverðinum, eða kaupa nærjur í Kjörgarði.“ Um þessa mynd eru aðeins fimm dæmi á tímarit.is, en í Risamálheildinni eru dæmin um 170, öll nema tvö af samfélagsmiðlum þar sem hún virðist hafa verið orðin algeng upp úr aldamótum. Væntanlega er þessi mynd orðin til úr naríura-ið tvíhljóðast og verður æ, e.t.v. fyrir áhrif frá nærur og nærbuxur, og í-ið verður j eins og eðlilegt er á undan sérhljóði. Þetta er skemmtileg fjölbreytni.

Dansar hann við dömurnar

Orðið dama hefur lengi verið mjög algengt í málinu þótt líklega hafi dregið eitthvað úr notkun þess á síðustu árum. Það merkir upphaflega 'hefðarkona, frú; látprúð og snyrtileg stúlka eða kona' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók og er tökuorð úr dönsku, enda hefur það ekki alltaf þótt góð og gild íslenska – er t.d. merkt með spurningarmerki í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri orðabók er orðið skilgreint 'kona, vel klædd stúlka', 'stúlka með yndisþokka í fasi' og 'hefðarkona' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skilgreint sem 'kona' (dæmi: hann mætti á ballið með dömu) og 'fáguð kona' (dæmi: hún klæðir sig eins og dama). Það virðist nokkuð ljóst að það er ekki alltaf hægt að setja dama í stað kona.

Það þarf ekki að leita lengi til að sjá að orðið dama er oft notað í neikvæðu eða vafasömu samhengi. Í Morgunblaðinu 2010 er talað um „dömurnar hans Geira á Goldfinger.“ Í Fréttablaðinu 2010 er auglýst: „Dömurnar á Rauða Torginu eru yndislegur og síbreytilegur hópur kvenna sem elska símadaður.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Ekki fylgdi sögunni hvort leikarinn ætlaðist til að dömurnar gengju í Háloftaklúbbinn með sér.“ Í DV 2012 segir: „Bond kemst í lífsháska og dömurnar kikna í hnjánum yfir honum eins og áður.“ Í DV 2020 segir: „Götukappakstur, testósterónkeppni og bikiníklæddar dömur tilheyra liðinni tíð.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Það var eldri dama! Sú var gagnslaus á áður óséðu stigi!“

Þetta eru bara örfá dæmi af ótalmörgum sem mætti taka. Það er samt ekki svo að meginhluti dæmanna sé af þessu tagi. Oftast er orðið notað um klæðnað, útlit, framkomu o.þ.h., eins og skilgreiningar orðabóka nefna – aldrei í vísun til hugmynda, skoðana, þekkingar eða orða þeirra kvenna sem um ræðir. Nema þá í sérstökum tilgangi. Í umræðu hér um tillögu eða ósk frá hópi ungra kvenna skrifaði (karl)maður – sem fann tillögunni allt til foráttu: „Ef ég skil dömurnar rétt …“ Þarna er dömurnar – orð sem á við ytri þætti og oft er notað í neikvæðu samhengi – augljóslega notað til að gera lítið úr konunum og hugmyndum þeirra. Með slíkri orðanotkun dæmir fólk sig úr leik í málefnalegri umræðu. Ekki gera lítið úr þeim sem við erum ósammála.

Ábyrgð stjórnvalda á íslensku sem öðru máli

Á Samstöðinni var í fyrrakvöld rætt við Aleksöndru Leonardsdóttur sérfræðing hjá ASÍ um stöðu íslensku meðal innflytjenda og kennslu íslensku sem annars máls. Þetta var frábært viðtal þar sem margt fróðlegt kom fram – um ýmislegt af því hefur verið skrifað hér á þessum vettvangi en öðru hafði ég ekki áttað mig á. Meginniðurstaðan af viðtalinu var sú að það stendur upp á stjórnvöld að gera miklu betur. Ýmsar aðgerðir eru boðaðar í aðgerðaáætlun sem til stendur að leggja fyrir Alþingi í haust en miklu meira þarf til. En aðalatriðið er að þótt áætlunin verði samþykkt fylgir henni ekkert fé, og hvorki verður séð á fjárlögum 2024 né fjármálaáætlun næstu fimm ára að ætlunin sé að auka verulega fé til kennslu íslensku sem annars máls.

Það má halda því fram að rótin að vandanum sé sú að engin formleg stefna er til í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Aleksandra lýsti því þannig að hér væri þess í stað rekin óformleg Gastarbeiter-stefna eins og í Þýskalandi og víðar í Evrópu á árum áður, sem gengi út á það að bjóða fólki að koma hingað til að vinna en gera ekki ráð fyrir að það settist hér að, og þess vegna væri ekki talin ástæða til að leggja áherslu á að kenna því íslensku eða rótfesta það í samfélaginu að öðru leyti. En auðvitað gengur þetta ekki eftir – meginhluti fólksins sest hér að og býr hér árum og áratugum saman, margt án þess að læra nokkurn tíma nema hrafl í íslensku. Enda eru orðin hér til samfélög þar sem íslenska er ekki notuð – og þeim mun fara fjölgandi.

Einn þáttur stefnuleysisins er sá að eftir uppstokkun ráðuneyta heyra málefni íslenskunnar undir mörg ráðuneyti. Kennsla íslensku sem annars máls í grunn- og framhaldsskólum er á ábyrgð Mennta- og barnamálaráðuneytisins, íslenska sem annað mál á háskólastigi heyrir undir Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, íslenskukennsla fullorðinna er á verksviði Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, og málefni íslenskunnar að öðru leyti eru undir Menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Þetta hefur iðulega þau áhrif að hvert ráðuneyti vísar á annað og ábyrgð á málum er mjög óljós. Fagleg þekking á málefnum íslensku sem annars máls innan stjórnarráðsins er lítil og dreifð. Úr þessu er mjög mikilvægt að bæta.

Um 70 þúsund erlendir ríkisborgarar búa nú á Íslandi. Sum þeirra kunna íslensku nokkurn veginn, önnur að einhverju leyti, en mörg lítið sem ekkert. Rannsóknir sýna þó að innflytjendur vilja yfirleitt læra íslensku en gefast oft fljótlega upp – sjaldnast vegna þess að tungumálið sé svo erfitt, heldur af ytri ástæðum. Þótt talsvert framboð sé af íslenskunámskeiðum eru þau oft óaðgengileg. Það þarf að greiða fyrir þau, og þótt fólk sem er komið inn á vinnumarkaðinn geti fengið styrk frá stéttarfélagi sínu þarf það að leggja út fyrir námskeiðunum og bíða síðan eftir því að fá endurgreitt, og það getur verið erfitt fyrir láglaunafólk að leggja út tugi þúsunda. Það er nauðsynlegt að breyta skipulaginu hvað þetta varðar til að fólk ráði við að taka námskeiðin.

Fólk sem kemur hingað til að vinna er flest á barneignaaldri og á margt börn. Þetta fólk vinnur yfirleitt láglaunastörf og þarf að vinna langan vinnudag til að ná endum saman, jafnvel vera í fleiri en einu starfi og vinnur oft vaktavinnu. Það er skiljanlegt að fólkið kjósi frekar að nota þann litla frítíma sem það hefur til að vera með börnum sínum en setjast á íslenskunámskeið. Það er því grundvallaratriði að kennslan fari fram á vinnutíma og fléttist helst saman við vinnuna. Aleksandra benti einnig á að til að sækja íslenskunám, sérstaklega á landsbyggðinni, væri eiginlega nauðsynlegt að vera á bíl vegna skorts á almenningssamgöngum, en láglaunafólk sem er nýlega komið til landsins er sjaldnast á bíl. Bætt aðgengi að námskeiðum er mikilvægt.

Sú íslenskukennsla sem er í boði er mjög misjöfn, að magni, innihaldi og gæðum. Samræmingu skortir algerlega, sem og stöðupróf sem geri mögulegt að átta sig á stöðu fólks, og evrópski tungumálaramminn hefur ekki verið nægilega vel innleiddur – það þarf að samræma kröfur sem gerðar eru eftir tiltekið nám. Þau námskeið sem eru í boði eru flest á lægstu stigum – brýn þörf er á framhaldsnámskeiðum. Nemendahópar eru líka oft mjög sundurleitir að uppruna, bakgrunni og hæfni. Yfirleitt er gert ráð fyrir að þau hafi öll farið gegnum „hefðbundið“ menntakerfi – og tali ensku – en því fer fjarri. Það vantar líka mun meiri rannsóknir á íslensku sem öðru máli – hvernig eigi að kenna hana, hvernig námsefni eigi að vera o.s.frv.

En jafnvel þótt fólk ljúki þeim námskeiðum sem í boði eru og ætli sér að fara að nota íslensku er það sífellt barið niður. Námið er einskis metið, það færir fólkinu engan ávinning. Stöðugt eru gerðar athugasemdir við málnotkun fólksins – hreim, beygingar o.fl. Íslendingar gefa sér oft ekki þann tíma sem þarf til samskipta við fólk sem hefur ekki málið fullkomlega á valdi sínu og skipta yfir í ensku. Rannsóknir sýna að fyrsta tungumál sem innflytjendur læra á Íslandi er enska, jafnvel fólk sem hefur ekki nema mjög takmarkaðan bakgrunn í ensku. Samt er ætlast til að innflytjendur læri íslensku til að fá fullan aðgang að samfélaginu og skortur á íslenskukunnáttu jafnvel notaður til að halda fólki niðri í launum. Þessu verður að breyta.

Karllægni orðabóka og gervigreindartexta

Í Vísi í dag er áhugaverð frétt af umræðum um karllægni íslenskunnar á opunarviðburði Ungra athafnakvenna um daginn. Þar er haft eftir Maríu Guðjónsdóttur formanni félagsins: „Þegar orðið athafnamaður er skoðað í orðaneti Árnastofnunar koma upp fullt af orðum til að lýsa því hvað athafnamaður er.“ Sem dæmi um þessi orð eru nefnd forstjóri, fjárfestir, ráðherra, kvótakóngur, brautryðjandi, viðskiptamaður, bankastjóri, þingmaður, útgerðarmaður og mjög mörg önnur orð. Og María bætir við: „En þegar orðið athafnakona er skoðað í orðanetinu, koma upp fimm orð: Framtakssemi, umbrotamaður, athafnamaður, umsvifamaður og umsýslumaður“ sem eru „auðvitað ekki lýsandi fyrir orðið athafnakona í nútímasamfélagi að sögn Maríu.“

Hér er komið að eilífum vanda höfunda og ritstjóra orðabóka. Orðabækur eru yfirleitt lýsandi – þær endurspegla málið eins og það er notað í þeim heimildum sem liggja til grundvallar. Þær heimildir eru yfirleitt að megninu til prentaðir textar, og fram undir þetta hafa karlmenn skrifað meginhluta þess sem hefur birst á prenti – á Íslandi og víðast hvar. Þessir textar eru ekki bara skrifaðir af körlum, frá sjónarhorni karla – þeir fjalla líka að verulegu leyti um karla. Vissulega hefur þetta breyst töluvert á síðustu árum, og vissulega nýta orðabækur einnig heimildir úr töluðu máli. En það breytir því ekki að nánast óhjákvæmilegt er að lýsandi orðabækur hafi karlaslagsíðu – ekki vegna þess að það sé ritstjórnarstefna, heldur vegna efniviðarins.

Lýsandi orðabækur eru þannig yfirleitt íhaldssamar í eðli sínu – stuðla að því að viðhalda ríkjandi viðhorfi og gildum. En í sumum tilvikum eru orðabækur ekki eingöngu lýsandi, byggjast ekki eingöngu á málnotkun í þeim textum sem liggja að baki, heldur er þar að einhverju leyti beitt meðvitaðri stýringu, byggðri á einhverri hugmyndafræði. Íslenskar orðabækur eru yfirleitt mestanpart lýsandi en þó má þar finna dæmi um málstýringu. Í fyrstu tveim útgáfum Íslenskrar orðabókar, frá 1963 og 1982, eru t.d. ýmis orð sem þykja „vafasöm“ af einhverjum ástæðum merkt með spurningarmerki sem táknar „vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“. Þetta hefur hins vegar verið mildað í nýjustu útgáfunni, frá 2002.

Auðvitað felst líka (dulin og jafnvel ómeðvituð) málstýring í vali þeirra orða sem rata inn í orðabækur. Á seinustu árum hafa að vísu orðið til margvísleg gögn, t.d.  tíðniupplýsingar, sem hægt er að byggja orðaval á að einhverju leyti. En samt er óhjákvæmilegt að huglægt mat ritstjóra ráði þar einhverju, og það huglæga mat byggist m.a. á meðvituðum og ómeðvituðum hugmyndum og viðhorfum. Á t.d. að skýra orð sem finnast í (eldri) textum en þykja nú óviðurkvæmileg – orð eins og kynvillingur, negri, fáviti og önnur slík? Eða á að sleppa þeim? Á að taka með ný orð sem ekki hafa unnið sér mikla hefð en skipta máli fyrir ákveðna hópa – orð eins og kvár, stálp, leghafi og önnur slík? Um þetta má deila – og er deilt.

Í áðurnefndu viðtali segir formaður Ungra athafnakvenna: „Við viljum skora á Árnastofnun að ráðast í breytingar en það er ekkert meint öðruvísi en góðfúslega. Því að öll þróun og umbætur byggir svolítið á því að við séum öll að hjálpast að og það er okkar viðhorf hjá UAK; að benda Árnastofnun á að bæta úr í orðanetinu eins og til dæmis varðandi lýsingu á því hvað orðið athafnakona stendur fyrir.“ Þarna er sem sé verið að biðja um stýringu – biðja um að lýsingu orðsins athafnakona (eða í þessu tilviki tengdum orðum) í Íslensku orðaneti verði breytt handvirkt, þrátt fyrir að þær breytingar eigi sér ekki stoð í þeim textum sem orðanetið byggir á. Þetta er í sjálfu sér mjög skiljanleg ósk, en ekki ljóst hvort og hvernig eigi að verða við henni.

En þessi vandi er ekki bundinn við orðabækur. Í fyrra var t.d. töluvert fjallað um kynjahalla í þýðingum Google Translate á íslensku og þar var ástæðan hin sama – þýðingarvélin byggir á textum og þýðingum sem hún hefur aðgang að og sá kynjahalli sem þar er endurspeglast í þýðingunum. Sami vandi kemur upp, eiginlega í öðru veldi, nú á tímum gervigreindar. Gervigreindin vinnur úr þeim textum sem aðgengilegir eru, og þeir eru sama marki brenndir og textarnir sem orðabækur byggjast á – þeir eru að meirihluta skrifaðir af körlum, um karla. Ef ekkert er að gert ganga því viðhorf og viðmið karlanna aftur í þeim textum sem gervigreindin semur. Þetta er þekkt og mikið rætt vandamál sem verður að leysa – en það er ekki auðvelt.

Að falast eftir

Sambandið falast eftir er vel þekkt í málinu og hefur verið notað a.m.k. frá því seint á 19. öld – elstu dæmi sem ég hef fundið um það eru frá 1886. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'biðja um' með notkunardæminu hann falaðist eftir fjárhagsaðstoð hjá bænum. Í Íslenskri orðabók er vísað úr falast eftir e-u í fala e-ð, sem er skýrt 'biðja um e-ð (sér til handa)', og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin 'spörge om n-t kan faas'. Þessar skýringar eru í sjálfu sér réttar en ófullnægjandi, því að í þeim virðist alltaf gert ráð fyrir því að það sem falast er eftir sé eitthvað áþreifanlegt eða einhver efnisleg gæði. En svo er ekki alltaf, heldur er sambandið oft notað þegar verið er að biðja um einhverjar aðgerðir eða athafnir.

Elsta dæmi sem ég finn um slíka notkun er í Þjóðólfi 1910: „Segir í sömu grein, að H. Þ. hafi falast eftir því, að B.J. „notaði fægitól hegningarlaganna til þess að „garfa“ goðum líkt hörund velnefnds þjóðmennis [...].“. Í Ísafold 1916 segir: „ekki hefði hann reynst nothæfur þar; hefði helzt falast eftir því að mega bera inn skjöl til þingmanna, meðan fundur stóð yfir.“ Í Tímanum 1929 segir: „í fundarlok lýsti Jón því yfir að á Framsókn og „Sjálfstæðismönnum“ væri enginn munur og falaðist eftir því að þessir flokkar sameinuðust gegn Jafnaðarmönnum.“ Í Vísi 1933 segir: „Hann er þar að falast eftir því, að komast í stjórn með framsóknarmönnum.“ Þessi notkun sambandsins er vitaskuld enn mjög algeng, eins og sú sem orðabækurnar lýsa.

Nýlega rakst ég þó á sambandið falast eftir notað í merkingunni 'grennslast fyrir um'. Ég fór að skoða þetta nánar og fann slæðing af dæmum, það elsta í Degi 1992: „Hann átti kærustu fram í sveit og þar sem ég átti bíl var hann að falast eftir því hvort ég gæti orðið honum að liði við að sækja hana.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 2000: „Leiðsögumaður hópsins á rútunni falaðist eftir því hvort unnt væri fyrir okkur að flytja hópinn með okkur upp í Kverkfjöll.“ Í DV 2001 segir: „Í tilfelli Bjarka hef ég samband við hann sjálfan […] og falast eftir því hvort hann gefi kost á sér í landsliðið.“ Í Víkurfréttum 2017 segir: „„Ég falaðist eftir því hvort það væru einhver verkefni þessu tengd, og þá helst jarðvarmanum.“ Örfá fleiri dæmi má finna á netinu.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt hvernig þessi notkun sambandsins kemur til. Í venjulegri notkun þess er í raun og veru oft spurnarmerking – ef sagt er hann falaðist eftir því að ég yrði honum að liði má skilja það sem 'hann spurði hvort ég gæti orðið honum að liði' og þá er stutt yfir í að setningin taki á sig form óbeinnar spurningar og verði hann falaðist eftir því hvort ég gæti orðið honum að liði. En þótt þessi breyting á notkun sambandsins sé skiljanleg er ekki þar með sagt að hún sé æskileg. Dæmin um hana virðast enn sem komið er vera mjög fá og ekkert sem bendir til þess að hún sé orðin málvenja einhverra hópa. Þess vegna hvet ég til að við virðum málhefðina og höldum áfram að nota falast eftir eingöngu í merkingunni 'biðja um'.