Posted on Færðu inn athugasemd

Ég vill

Ein sú „málvilla“ sem oftast er amast við er þegar fólk segir ég vill í stað hins hefðbundna ég vil. Þessi málbreyting virðist ekki vera ýkja gömul – einstöku dæmi má finna um hana í ritum frá fyrsta hluta 20. aldar og eldri en þau gætu verið rit- eða prentvillur. Elsta dæmið á tímarit.is er úr Framblaðinu 1933: „Þó vill ég engan þeirra.“ Í auglýsingu frá Lofti Guðmundssyni ljósmyndara í Kirkjuritinu 1936 segir: „15 Foto myndatakan er sú EINA sem ég vill mæla með — en hún fæst hjá mér.“ Í Íslendingi 1937 segir: „Ennfremur vill ég taka það fram, að svo að segja öll störf í verksmiðju minni eru unnin í ákvæðisvinnu.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1943 segir: „Ég vill fá bílstjóra, sem er aðgætinn og varkár og á aldrei neitt á hættunni.“

Dæmi um ég vill á tímarit.is eru mjög fá framan af, en fer fjölgandi upp úr 1960. Þau verða þó aldrei mörg, enda má búast við að prófarkalesarar hafi yfirleitt leiðrétt þau fyrir prentun. Elsta dæmi sem ég finn um að amast sé við þessari beygingu er í móðurmálsþætti Vísis (eftir Eirík Hrein Finnbogason) 1956 þar sem segir: „Margir kunna eigi með sögnina að vilja að fara, segja ég vill í staðinn fyrir ég vil, sem er hið rétta. Þetta, ég vill, lætur í eyrum þeirra, sem með sögnina kunna að fara, eins og sagt væri ég syngur í staðinn fyrir ég syng, ég talar í staðinn fyrir ég tala.“ Í kveri Helga Hálfdanarsonar frá 1984, Gætum tungunnar, segir: „Rétt er að segja: Ég vil, þú vilt, hann vill, hún vill, barnið vill. (Ath.: ég vill er rangt; ég vil er rétt.)“

Haraldur Bernharðsson skrifaði ítarlega grein um þessa breytingu í Íslenskt mál 2005. Hann bendir á að langflestar sagnir málsins hafa aðeins tvær mismunandi myndir í framsöguhætti eintölu nútíðar, þótt persónurnar séu þrjár. Annaðhvort eru fyrsta og þriðja persóna eins, en önnur persóna frábrugðin (ég lesþú lesthann/hún/hán les, ég ferþú ferðhann/hún/hán fer) eða önnur og þriðja persóna eru eins, en fyrsta persóna frábrugðin (ég talaþú talarhann/hún/hán talar, ég horfiþú horfirhann/hún/hán horfir). Sögnin vilja hefur aftur á móti þrjár mismunandi myndir – engar tvær persónur eru eins: ég vilþú vilthann/hún/hán vill. Það má líta á ég vill sem tilhneigingu til að fella sögnina að fyrrnefnda mynstrinu. Einnig eru dæmi um að þriðja persónan verði hann/hún/hán vil í stað vill – þar er verið að fella sögnina að hinu mynstrinu.

En kannski hangir meira á spýtunni. Gísli Jónsson skrifaði í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1981: „Þegar krakkar, og jafnvel fullorðið fólk, segir ég vill, hélt ég um sinn að málið væri svo einfalt að um hreina áhrifsbreytingu væri að ræða frá þriðju persónu: hann, hún eða það vill. En þetta reyndist ekki svo. Sannorðar, málnæmar mæður, sem vandlega hafa gaumgæft orð barna sinna, hafa tjáð mér að málið sé miklu flóknara. Hér skiptir afstaða máli, eða það sem kalla mætti horf. Barn segir ég vill, í jákvæðri merkingu og til áherslu, þetta er kröfutónn og frekjutónn: ég vill fá þetta, en sama barn segir: ég vil ekki. Ég vil ekki borða hafragraut. Og það sem meira er: Þetta fer þannig inn í þriðju persónu, að börn segja líka: Hann vill fá þetta, en hann vil þetta ekki.“

Og fleira kemur til. Í áðurnefndri grein hefur Haraldur Bernharðsson það eftir Stefáni Karlssyni handritafræðingi „að hann hafi í kringum 1950 unnið með manni sem jafnan sagði ég vill; sá mun hafa verið Eyfirðingur, fæddur um 1930. Þegar fundið var að þessum talshætti svaraði maðurinn því til að sér fyndist eðlilegt að konur segðu ég vil en karlar ég vill“. Ég hef líka heyrt fleiri dæmi um þetta. Trúlegt er að þarna séu einhvers konar áhrif frá kynbeygingu lýsingarorða eins og sæll, þar sem sagt er komdu/vertu sæll við karlmenn og komdu/vertu sæl við konur. Hins vegar beygjast íslenskar sagnir vitaskuld ekki í kynjum þannig að það er ekki trúlegt að þetta eigi eftir að breiðast út.

Það er ljóst að fjölmargar hliðstæðar breytingar hafa orðið á undanförnum öldum án þess að þær trufli okkur hið minnsta og án þess að þær hafi spillt beygingarkerfinu eða veikt það. Í raun má færa rök að því að þessi breyting styrki kerfið með því að færa sögnina undir reglulegt beygingarmynstur. En ég veit að mjög mörgum er mikið í nöp við ég vill og finnst það hræðilega ljótt, og ég vil ekki verða þess valdandi að fólki svelgist á morgunkaffinu með því að mæla þessari breytingu sérstaklega bót.

Posted on Færðu inn athugasemd

Af banönum og bönunum

Eitt af því sem fólk veltir stundum fyrir sér – og deilir um – er þágufall fleirtölu af orðinu banani. Er það banönum eða bönunum? Ég man eftir umræðu um þetta oftar en einu sinni í þættinum Daglegt mál sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins um áratuga skeið. Í eitt slíkt skipti, fyrir um 40 árum, svaraði umsjónarmaðurinn því til að vænlegast væri að leita til bænda og spyrja þá hvernig þeir hefðu orðið valt­ari í umræddu falli – og fara svo eins með banani. Þótt ég sé úr sveit kom þetta svar mér að litlu gagni. Í minni sveit var nefnilega bara til einn valtari. Hann gekk milli bæja og var einfaldlega kallaður Valtarinn með ákveðnum greini. Það reyndi því aldrei á það hvernig fleirtala orðs­ins væri, og þess vegna er ég enn í dag jafn ófróður um það hvernig þágu­fall fleirtölu af banani eigi að vera.

Gísli Jónsson ræddi þetta einu sinni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu. Hann taldi að myndin ætti að vera banönum, en myndin bönunum væri þágufall fleirtölu með greini af orðinu bani. Það er vissulega rétt, þótt ég eigi reyndar erfitt með að hugsa mér aðstæður þar sem bani væri notað í þágufalli fleirtölu með greini. En þótt svo væri útilokar það auðvitað ekki að samhljóða mynd geti verið þágufall fleirtölu af banani – slíkt samfall beygingarmynda af mismunandi orðum er mjög algengt í málinu. Enda eiga báðar myndirnar sér langa hefð í málinu. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um banönum, það elsta frá 1886, en rúm 500 dæmi um bönunum, það elsta frá 1922. Hlufall síðarnefndu myndarinnar virðist heldur fara hækkandi.

Orð af íslenskum uppruna sem hafa tvö a í stofni fá yfirleitt mynstrið ö – u á undan endingunni -um – þ.e., ö kemur í staðinn fyrir fyrra a-ið og u í stað þess síðara. Þannig er þágufall fleirtölu af kafari köfurum, af blandari blöndurum, o.s.frv. Sama gildir í lýsingarorðum – þágufall eintölu í karlkyni og fleirtölu allra kynja af fatlaður er fötluðum. Mynstrið er líka að finna í sagnbeygingu – 1. persóna fleirtölu í þátíð af kallaði er kölluðum, af talaði töluðum, o.s.frv. En tökuorð haga sér iðulega öðruvísi, og halda fyrra a-inu óbreyttu en setja ö í stað þess síðara á undan -um. Þannig er þágufall fleirtölu af skandali yfirleitt skandölum en ekki sköndulum, af ballaða ballöðum en ekki bölluðum, af Arabi Aröbum en ekki ­Örubum, af albanskur albönskum en ekki ölbunskum o.s.frv.

En svo gerist það oft með tímanum að tökuorðin laga sig að beygingarmynstri íslensku orðanna og til verða tvímyndir, eins og banönum og bönunum. Af kastali er til bæði kastölum og köstulum, af sandali er til bæði sandölum og söndulum, af Japani er til bæði Japönum og Jöpunum, þótt síðarnefnda myndin sé sjaldgæf – o.s.frv. Undantekningarlaust virðist síðarnefnda myndin vera yngri, og oftast sjaldgæfari en sú fyrrnefnda. Það er athyglisvert að sama fólk virðist oft nota báðar myndirnar til skiptis, án þess að ætla það eða átta sig á því. Ég hef heyrt mann nota sandölum og söndulum með stuttu millibili í samtali, og á netinu má finna allnokkra texta sem hafa að geyma bæði banönum og bönunum.

Báðar myndirnar, banönum og bönunum, samræmast íslensku beygingarkerfi og segja má að síðarnefnda myndin sé til marks um meiri aðlögun orðsins að hegðun íslenskra orða en sú fyrrnefnda. Fyrir báðum er líka löng hefð þannig að engin ástæða er til annars en telja báðar góðar og gildar – sem og aðrar tvímyndir sem hér hafa verið nefndar. Ég sæi ekki heldur ástæðu til að amast við myndinni Jöpunum ef hún breiddist út, og Örubum (sem stöku dæmi eru til um) væri líka í samræmi við kerfið. Hins vegar bregður stundum fyrir myndum með ö á báðum stöðum – bönönum, köstölum, söndölum. Þær falla ekki að neinu íslensku beygingarmynstri heldur eru einhvers konar sambland af tveimur. Þess vegna finnst mér rétt að mæla gegn þeim myndum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hin Norðurlöndin

Í Málfarsbankanum segir: „Norðurlönd eru ein heild og Ísland er venjulega talið hluti hennar. Fleirtöluorðið Norðurlönd, í þessari merkingu, er ekki fleirtala orðsins Norðurland […]. Miðað við þetta stenst ekki að segja að Noregur sé eitt „Norðurland“, Danmörk sé annað „Norðurland“ o.s.frv. […] Í stað þess að segja að „þrjú Norðurlönd“ séu í Evrópusambandinu má t.a.m. tala um þrjár norrænar þjóðir eða þrjú norræn ríki í Evrópusambandinu. Í stað þess að segja að kona frá „einu Norðurlandanna“ sé framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum má t.d. tala um að kona frá Norðurlöndunum eða kona frá einhverju norrænu landanna sé framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum.“

Hér er sem sé sagt að ekki sé hægt að tala um eitt Norðurlandþrjú Norðurlönd o.s.frv. vegna þess að Norðurlönd sem heiti á hópi ríkja sé ekki fleirtala af Norðurland. Þetta má til sanns vegar færa, enda er það ekki heldur almenn málvenja að nota eintöluna Norðurland í þessari merkingu. Slík dæmi koma vissulega fyrir – „Svíþjóð er það Norðurland sem tekur við flestu flóttafólki“, „Hafa sömu réttindi og heimamenn í því Norðurlandi sem þeir dveljast í“, o.fl. – en eru sjaldgæf. En í dæmum eins og eitt Norðurlandanna og á hinum Norðurlöndunum er alls ekkert verið að nota eintöluna Norðurland. Hvað er þá að þeim?

Á bak við andstöðu við slík dæmi hlýtur að liggja sú hugmynd að það sé ekki „rökrétt“ að tala um eitt Norðurlandanna eða hin Norðurlöndin vegna þess að heitið Norðurlönd vísi til heildar, ekki einstakra landa. Með því að tala um eitt Norðurlandanna sé verið að segja að hægt sé að brjóta þessa heild upp í eitt Norðurlandannað Norðurland o.s.frv. En við getum borið þetta saman við orðið hjón. Það er fleirtöluorð sem á sér enga eintölu, rétt eins og Norðurlönd. Það kemur samt ekki í veg fyrir að við getum talað um annað hjónanna og bæði hjónin án þess að nokkur geri athugasemd við það. Ég sé ekki muninn á því og að tala um eitt Norðurlandanna og öll Norðurlöndin.

Lítum einnig á setningar eins og þessa, úr Þjóðólfi 1849: „Búið að kveykja, bóndinn á hjónarúminu, smalinn sofandi, hitt fólkið vakandi og við vinnu.“ Hér eru bóndinn og smalinn hluti af heimilisfólkinu, en til viðbótar er „hitt fólkið“. Setningar af þessu tagi eru auðvitað mjög algengar í málinu og aldrei gerðar athugasemdir við þær. En ég sé engan mun á þessu og t.d. „Sjálfsagt virðist að Ísland gangi að svona samningum við hin Norðurlöndin“ í Iðunni 1926 – og ótal öðrum sambærilegum. Þarna er gert ráð fyrir að Ísland sé hluti af Norðurlöndunum, en til viðbótar eru „hin Norðurlöndin“. Bæði fólk og Norðurlönd eru heild, en samt er hægt að tala um einstakar einingar í þessari heild. Í kverinu Gætum tungunnar er líka sagt rétt að segja „Fólkinu þykir vænt hverju um annað“.

Það má vel halda því fram mín vegna að hin Norðurlöndinöll Norðurlöndmörg Norðurlandanna og hliðstæð sambönd séu ekki „rökrétt“ – og sama hlýtur þá að gilda um bæði hjóninhitt fólkið o.s.frv. En það skiptir bara engu máli. Það er hægt að tína til ótal dæmi um „órökrétt“ mál, sem þjónar þó fullkomlega tilgangi sínum og er viðurkennt í málsamfélaginu. Sú hugmynd eða krafa að tungumálið eigi alltaf að vera „rökrétt“ ber vott um djúpstæðan en almennan misskilning á eðli tungumálsins. Tungumálið er ekkiá ekki að vera og má ekki vera fullkomlega „rökrétt“. Sú krafa geldir málið, drepur niður lífsmagn þess.

Á tímarit.is eru þúsundir dæma um framangreint orðalag sem má rekja aftur til 19. aldar og var mjög algengt alla 20. öldina og fram á þennan dag. Það er því greinilega í samræmi við máltilfinningu stórs hóps málnotenda. Að hafna því orðalagi, en leggja í staðinn til orðalag sem fáum er tamt, er til þess fallið að skapa óvissu og rugling í málnotkun og er því ekki málvöndun, heldur málspjöll.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að forða slysi

Sögnin forða er iðulega notuð í merkingunni 'afstýra, komast hjá' en oft er þó amast við notkun hennar í þeirri merkingu. Þannig segir Málfarsbankinn: „Sögnin forða merkir: koma undan, bjarga. Hún forðaði barninu frá bráðum bana. Það stangast á við merkingu orðsins þegar tekið er til orða á þessa leið: „Hún forðaði slysinu.“ Eðlilegra gæti verið að orða þetta fremur t.d. svona: Hún komst hjá slysi eða Hún forðaði sér frá því að lenda í slysi.“ Svipaðar athugasemdir má finna í fjölmörgum málfarspistlum og ritum frá undanförnum áratugum, en þær byggjast á misskilningi á þessu orðalagi eins og hér verður sýnt fram á.

A.m.k. 150 ára órofin hefð er fyrir því að forða einhverju geti haft merkinguna 'afstýra, komast hjá'. Í Tímanum 1872 segir „forðað þeirri eyðilegging, sem annars hefði berlega legið fyrir höndum.“ Í Ísafold 1876 er talað um „að leita láns úr landssjóði til að forða hallæri hjer í sjávarsveitunum“. Í Norðanfara 1877 segir „farið er að skjóta saman stórfje til að forða meiri mannfelli“. Í Fróða 1882 segir „sendu þangað matvæli á 10 hestum til að forða hungursneyð í bráð“. Í Þjóðólfi 1883 segir „svo málleysu sé forðað“. Í Ísafold 1888 segir „þar varð forðað miklu óhappi“. Í Ísafold 1891 segir „Hjer hafa hollar hendur að hlúð og forðað grandi“. Svo mætti lengi telja.

En fleira kemur til. Í Þjóðólfi 1856 segir „til að forða þeim kúgun þeirri, sem hér er kvartað yfir“. Í Þjóðólfi 1863 segir „að forða Reykvíkingum öllu grandi, öllum vansa“. Í Kristilegu smáriti handa Íslendingum 1865 segir „Vak þú yfir mér í dag, og forða mér öllu illu“. Í Baldri 1868 segir „geta þó fengið björg til að forða sjer hungri.“ Í Þjóðólfi 1869 segir „til að forða þeim eyðingu“. Í Þjóðólfi 1873 segir „biðja stjórnina að forða sér húngrs-dauða“. Eldri dæmi eru líka til: „Forða mér þeirri eilífu hrellingu í helvíti“ segir í Eintali sálarinnar frá 1599. „Forða mér öllu vondu athæfi / ofneyslu / ofdrykkju“ segir í Kristilegri bænabók frá 1611 – og fleiri dæmi mætti nefna.

Í þessum dæmum tekur forða sem sé með sér tvö þágufallsandlög, forða einhverjum einhverju, eins og t.d. lofahann lofaði mér öllu fögru. Það er alkunna að lofa getur sleppt fyrra andlaginu en haldið því seinna eftir – hann lofaði öllu fögru. Ekki verður betur séð en uppruna dæma eins og forða mannfelli / hungursneyð /óhappi / grandi o.s.frv. megi greina á sama hátt – þ.e., á bak við þau liggi forða (þjóðinni) mannfelli / hungursneyð, forða (sér) óhappi / grandi, o.s.frv. Í dæmum eins og forða slysi, forða tjóni, forða óhappi er þágufallsandlagið upprunnið sem seinna andlag sagnarinnar, en andlagið í forða sér, forða lífi sínu, forða barninu o.s.frv. sem það fyrra.

Þótt lofa taki tvö þágufallsandlög er auðvelt að greina milli þeirra vegna þess að merkingarleg vensl þeirra við sögnina eru ólík. Annað þeirra – það fyrra ef þau fylgja sögninni bæði – vísar til þess sem loforðið er gefið, hitt vísar til þess sem lofað er. Svipað er með forða – þegar sögnin tekur tvö andlög vísar það fyrra til þess sem forðað er frá einhverju(m), það seinna til þess sem einhverju(m) er forðað frá. Vissulega hefur hegðun sagnarinnar breyst þannig að nú tekur hún ekki með sér þessi tvö andlög í einu. En hún tekur eftir sem áður tvenns konar andlög. Þess vegna er nákvæmlega ekkert athugavert við að forða slysi, og tímabært að það verði viðurkennt sem rétt og vönduð íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Utangarðs

Þegar ég var að alast upp á norðlensku framsóknarheimili á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var vitanlega keyptur þar Dagur, blað framsóknarmanna á Akureyri – sem ég las mér til ánægju. Eitt það skemmtilegasta í því blaði voru fréttir frá fréttaritara blaðsins í Þistilfirði, Óla á Gunnarsstöðum, sem skrifaði mjög skemmtilega um hvers kyns stóra og smáa atburði þar í sveitinni. Ein eftirminnilegasta frétt Óla hafði fyrirsögnina „Negri í Þistilfirði“. Þar var innan um aðrar sveitarfréttir sagt frá því að á Gunnarsstöðum væri vetrarmaður frá Gana, svartur á hörund, „og mun það líklega heldur sjaldgæf sjón hér á landi“.

Á undanförnum árum hefur oft verið vitnað í þessa fyrirsögn, „Negri í Þistilfirði“, ýmist til að hneykslast á henni eða gera gys að henni. Hvort tveggja er ástæðulaust og algerlega í ósamræmi við anda fréttarinnar. Frásögnin þar er gamansöm og án nokkurra fordóma – negri var einfaldlega það orð sem var notað á þessum tíma, a.m.k. það orð sem eldra fólk hafði alist upp við, rétt eins og við töluðum um kynvillinga eins og ekkert væri sjálfsagðara. En tímarnir breytast og orð eins og negri, kynvillingur, fáviti og önnur slík þykja ekki við hæfi í opinberri umræðu lengur – sem betur fer. Það þýðir ekki að einhver illur hugur hafi verið bak við notkun þeirra á sínum tíma.

Á vef Þjóðskrár Íslands er orðið utangarðsskrá notað yfir skrá um fólk sem þarf að skrá vegna tímabundinnar búsetu en fer ekki inn í þjóðskrá. Orðið utangarðsskrá virðist hafa verið í notkun í meira en 30 ár en í nýjum lögum um skráningu einstaklinga sem tóku gildi 1. janúar sl. er orðið kerfiskennitöluskrá notað í staðinn – orðið utangarðsskrá virðist þó ekki hafa verið í eldri lögum. Það leikur varla vafi á því að orðið utangarðsskrá er gildishlaðið og hefur hugrenningatengsl við orð eins og utangarðsmaður, utangarðsfólk og önnur slík.

Ég legg áherslu á að ég hef enga ástæðu til að ætla að einhver illur hugur búi að baki þessari orðanotkun. En hún er barn síns tíma, rétt eins og orðin sem ég nefndi áður. Þess vegna er óviðunandi að þetta orð sé notað á vef opinberrar stofnunar, sérstaklega þegar annað orð er notað um fyrirbærið í gildandi lögum. Þetta minnir okkur á hvað tungumálið er máttugt tæki – til góðs og ills. Með orðanotkun okkar og orðavali getum við, vitandi eða óafvitandi, mótað bæði okkar eigin hugmyndir og skoðanir annarra. Þess vegna þurfum við að gæta okkar vel þegar rætt er um viðkvæm álita- og deilumál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Uns

Samtengingin uns (áður rituð unz) er nokkuð algeng í nútímamáli en þó líklega bundin við fremur formlegt ritmál – kemur tæpast fyrir í talmáli. Þetta er tíðartenging sem merkir 'þangað til' og er komin af und es samkvæmt Íslenskri orðsifjabókes var fornt tilvísunarorð og und merkti 'til þess, fram að því' eða eitthvað í þá átt.

Í Íslendingasögum kemur uns samtals 36 sinnum fyrir. Það þarf ekki að skoða dæmin um orðið vandlega til að átta sig á sérkennilegum samnefnara þeirra flestra: Öll nema fjögur tengja tíðarsetningu með sögninni koma. Þetta getur ekki verið tilviljun. Önnur tíðartenging fornmálsins, þar til, tengist ekki ákveðinni sögn á neinn sambærilegan hátt.

Á þessu er hægt að hugsa sér tvær skýringar. Önnur er sú að uns hafi ekki merkt bara 'þangað til' eins og hún gerir í nútímamáli, heldur hafi falist í henni einhver merkingarþáttur til viðbótar sem tengi hana við koma. Það er ekki augljóst hver sá merkingarþáttur gæti verið – og hann er a.m.k. löngu horfinn því að uns hefur engin sérstök tengsl við koma í nútímamáli.

Hin skýringin er sú að þetta sé ritvenja, einhvers konar formúla – höfundar eða skrásetjarar sagnanna hafi lært að venja væri að uns tengdist koma, og hafi fylgt þeirri venju, án þess að hún ætti sér neina merkingarlega skýringu. Ég á ekkert svar við því hvor þessara skýringa sé rétt – og svo gæti vitanlega verið einhver þriðja skýring sem mér hefur ekki dottið í hug.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nýja þolmyndin

Einhver mest áberandi nýjung í íslenskri setningagerð undanfarna áratugi er hin svokallaða „nýja þolmynd“ – setningar eins og það var barið mig í stað ég var barin(n) og það var hrint mér í stað mér var hrint. Fyrir utan „þágufallssýkina“ svokölluðu er nýja þolmyndin líklega sú málbreyting sem kallar fram hörðust viðbrögð hjá fólki. Það er kannski engin furða – hún er gerólík hefðbundnu þolmyndinni og fer því ekki fram hjá okkur. Mörgum finnst hún ljót, og ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu. Í staðinn skulum við reyna að átta okkur á eðli þessa fyrirbæris.

Í hefðbundinni þolmynd er germyndarandlag (þolandi) gert að frumlagi – (einhverbarði mig > ég var barin(n). Gerandinn (einhver) víkur úr frumlagssæti og er annaðhvort alveg sleppt úr setningunni eða hafður í forsetningarlið – ég var barin(naf einhverjum. Ef germyndarandlagið er í þolfalli (mig) verður það að nefnifallsfrumlagi í þolmynd (ég), en ef það er í þágufalli eða eignarfalli heldur það falli sínu í þolmynd – (einhverhrinti mér > mér var hrint. Það sem einkennir „nýju þolmyndina“ er að andlagið heldur germyndarstöðu sinni á eftir aðalsögninni í stað þess að færast í frumlagssæti eins og það gerir í hefðbundinni þolmynd, og heldur jafnframt aukafalli sínu, hvort sem það er þolfall (það var barið mig) eða þágufall (það var hrint mér).

Þessi nýja þolmynd var fyrst nefnd á prenti svo að ég viti í fyrsta þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1979. Gísli tilfærir setninguna Það var barið mig í bakið og kallar hana „fátæklegt barnamál“. Í kverinu Gætum tungunnar sem Helgi Hálfdanarson samdi 1984 tilfærir hann setninguna Það var sagt honum að fara og segir að rétt væri Honum var sagt að fara. En þessi setningagerð á sér þó talsvert eldri rætur. Elsta dæmi sem ég hef séð er í bréfi sem níu ára barn skrifaði árið 1939. Þar stendur „þangað til verður jarðað afa“ – þ.e., þangað til afi verður jarðaður. Þótt setningin hefjist ekki á það eins og algengast er um setningar af þessu tagi er þetta greinilega sama setningagerð. Það sést á því að andlagið, afa, stendur í aukafalli á eftir sögninni.

Fyrstu rannsóknina á þessari setningagerð gerðu Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling um aldamótin, og birtu í tímaritinu Íslensku máli 2001. Þær rannsökuðu einkum 15-16 ára unglinga á ýmsum stöðum á landinu, en einnig nokkra fullorðna til samanburðar. Niðurstöðurnar voru þær að u.þ.b. 60% unglinganna sögðust geta sagt setningar á við þær sem hér hafa verið nefndar, en aðeins örfá prósent fullorðna fólksins. Ýmsar rannsóknir hafa síðan verið gerðar á þessari setningagerð og staðfesta allar að hún er að breiðast út – þau sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni yfirleitt á fullorðinsárum þótt frá því séu undantekningar, og þótt dragi úr tíðni hennar hjá sumum.

Í rannsóknarverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ voru þátttakendur á öllum aldri spurðir um álit á setningunni Síðan var borðað kökuna (í framhaldi af Afmælisbarnið blés á kertin). Í aldurshópunum innan við þrítugt fannst yfir 40% málhafa setningin „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“. Í aldurshópunum yfir fertugt fannst aftur á móti um eða yfir 95% málhafa setningin „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“. Aldurshópurinn milli þrítugs og fertugs er svo þarna mitt á milli. Það er fólk fætt á árunum 1977-1986, þannig að árgangurinn sem Sigríður og Joan rannsökuðu (f. 1984) er meðal þeirra yngstu í þeim hópi.

En ein áhugaverð spurning í þessu sambandi er hvort nýja þolmyndin sé líkleg til að útrýma þeirri hefðbundnu. Því er ekki hægt að svara með vissu á þessari stundu, en þetta fer væntanlega að verulegu leyti eftir því hvort báðar setningagerðirnar hafa sömu merkingu og sama hlutverk. Ýmislegt bendir þó til að merkingar- og notkunarsvið nýju þolmyndarinnar falli ekki alveg saman við þá hefðbundnu, og sé það rétt er vel hægt að hugsa sér að báðar lifi áfram hlið við hlið, hvor með sitt hlutverk. Fólk eins og ég, sem ekki hefur nýju þolmyndina í máli sínu, á erfitt með að meta þetta, en ítarleg umræða og greining á þessu er of fræðileg fyrir þennan vettvang.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég gæti hafa gert þetta

Í íslensku eru iðulega notuð sambönd með tveimur eða jafnvel þremur hjálparsögnum – ég mun hafa selt húsið, húsið hefur verið selt, húsið mun hafa verið selt, o.s.frv. Í slíkum tilvikum er röð hjálparsagnanna yfirleitt föst og óbreytanleg. Það er ekki hægt að segja *ég hef munu selja húsið, *húsið hefur munu vera selt, *húsið er haft munu selja, *húsið er munu hafa selt eða neitt slíkt – það er alveg fráleitt. Frá þessu er þó ein undantekning – samband sagnanna geta og hafa. Við getum sagt bæði ég hefði getað gert þetta og ég gæti hafa gert þetta – hvort tveggja er algengt og full-komlega eðlilegt í nútímamáli, bæði formlegu og óformlegu. En síðarnefnda sambandið er áhugavert af ýmsum ástæðum.

Þegar geta er hjálparsögn tekur hún venjulega með sér lýsingarhátt þátíðar af aðalsögninni – ég get gert þetta, við getum komið, þau gátu lesið bókina, o.s.frv. Ef aðalsögnin í slíkum dæmum er hafa stendur hún líka í lýsingarhætti þátíðar eins og aðrar sagnir – ég get haft þig með, við getum haft þetta svona. En ef hafa er ekki aðalsögn heldur hjálparsögn (tekur með sér enn aðra sögn) stendur hún í nafnhætti á eftir geta, ekki í lýsingarhætti þátíðar – ég get hafa gert þetta, ekki *ég get haft gert þetta. Reyndar má finna dæmi af síðarnefndu tegundinni á netinu, s.s. „Ég skil að viðkomandi fjarvist gæti haft dregið úr afköstum á vinnustað þínum“, en þau eru sárafá. Fleiri dæmi eru hins vegar um myndina hafað, s.s. „Þessar upphæðir gætu hafað lækkað eitthvað síðan“. Þar virðist vera um einhver konar lýsingarhátt þátíðar að ræða, þótt það sé ekki hinn venjulegi lýsingarháttur sagnarinnar.

Röðin geta + hafa kemur ekki fyrir í fornu máli (reyndar er hafa + geta sárasjaldgæf þar líka). Elstu öruggu dæmin um hana eru frá því um miðja 19. öld, og sambandið er mjög sjaldgæft fram um 1880. Eftir það fjölgar dæmum smátt og smátt, og tíðnin eykst svo verulega kringum 1940. Það ár skrifaði Björn Guðfinnsson grein í Andvara undir titlinum „Tilræði við íslenzkt mál“. Þar fjallar hann um margs kyns villur og ambögur í þýddri smásögu sem þá hafði nýlega birst í tímariti, og skiptir þessum hnökrum í ýmsa flokka. Einn þeirra heitir „dönskuhroði“ og þar er tilfærð setningin „Hún getur hafa (kan have) borið grímu“. Engin frekari skýring fylgir á fordæmingu þessarar setningar en kan have í sviga sýnir að Björn hefur talið þessa setningagerð komna úr dönsku – og þar af leiðandi vonda íslensku.

Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust í dagblöðum upp úr 1980 stendur: „Sagt var: Hann getur hafa komið í gær. Rétt væri: Hann hefur getað komið í gær, Eða: Hann kann að hafa komið í gær.“ Hér er þetta sett fram eins og getur hafa merki það sama og hefur getað, en það er ekki rétt. Merkingin í hann hefur getað mætt í skólann er ekki sú sama og í hann getur hafa mætt í skólann. Í fyrri setningunni felst að hann hafi raunverulega mætt, en sú seinni merkir 'það er hugsanlegt að hann hafi mætt'. Eðlilegt framhald af þeirri fyrri væri t.d. . . . þrátt fyrir sóttvarnaráðstafanir, en af þeirri seinni t.d. . . . án þess að ég viti af því. Eðlilegt framhald af ég hef getað lyft þessum steini væri t.d. alltaf þegar ég hef reynt, en eðlilegt framhald af ég get hafa lyft þessum steini væri fremur en ég man það ekki.

Þegar gert er upp á milli tilbrigða í máli, t.d. mig/mér langar, ég vil/vill, hurðir/hurðar o.s.frv., hafa bæði (öll) afbrigðin venjulega sömu merkingu. Möguleikar tungumálsins til tjáningar eru þeir sömu hvort sem við segjum mig langar eða mér langar. En í þessu tilviki gegnir öðru máli, og röðin geta + hafa hefur „fyrir löngu öðlast fastan sess í íslensku enda er skýr merkingarmunur á orðasamböndum hefði getað og gæti hafa“ segir Jón G. Friðjónsson. Þegar geta stendur á eftir hafa merkir hún 'vera fær um' en ef hún stendur á undan felur hún oftast í sér möguleika sem ekki er ljóst hvort hefur raungerst. Þarna er vissulega oft stutt á milli, og það virðist vera eitthvað misjafnt hvaða tilfinningu málnotendur hafa fyrir þessu. En það auðgar málið að hafa þessi tvö sambönd en ekki bara eitt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misnotkun tungumálsins

Yfirlýsing Hraðfrystihússins-Gunnvarar vegna hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270“ er sorglegt dæmi um misnotkun tungumálsins sem mætti nota sem kennsluefni í orðræðugreiningu. Skoðum hana lið fyrir lið.

  • rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveiru um borð í skipinu til Landhelgisgæslunnar“ – ef ég skil málið rétt hefði það ekki bara verið rétt, heldur skylt samkvæmt lögum. Það verður ekki ráðið af þessu orðalagi.
  • láta þeim yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar.“ Hér er látið líta svo út sem um eitthvert matsatriði sé að ræða, en í reglum segir „LHG [...] leiðbeinir um sóttvarnahöfn sem skipi er vísað til í samráði við sóttvarnalækni“.
  • Slík framkvæmd hefði enda verið í samræmi við þær leiðbeiningar, sem viðhafa ber í þessum aðstæðum“ er orðalag sem er notað til að komast hjá að segja að lög og reglur voru beinlínis brotin.
  • Því miður fórst það fyrir“ að tilkynna um smit um borð í skipinu. Á íslensku merkir farast fyrir að eitthvað hafi gleymst eða lent í útideyfu. Það merkir ekki að það hafi beinlínis verið hunsað eða því hafnað eins og þarna var.
  • ábyrgð á þeim mistökum“ – hér er enn notað rangt orð til að breiða yfir alvarleik málsins. Merking orðsins mistök er 'yfirsjón, handvömm, vangá'. En þetta voru engin mistök, heldur einbeittur brotavilji.
  • mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla.“ Þetta er klisja. Að axla ábyrgð merkir 'taka á sig ábyrgð' – ábyrgð sem manni er ekki endilega skylt að bera, og taka afleiðingum gerða sinna. Ekkert bendir til þess að það standi til.
  • Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum.“ Gott, en það dregur töluvert úr einlægni afsökunarbeiðninnar að það skuli endurtekið að um mistök hafi verið að ræða.
  • Það var aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skipsins í hættu“ –  þakka skyldi. Það er örugglega aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stofna lífi sjómanna í hættu, en stórkostlegt gáleysi og brot á reglum og lögum geta jafngilt því.
  • fyrirtækinu þykir þungbært að sitja undir ásökunum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfsmanna.“ Hér er málinu drepið á dreif – þetta er ekki ásökun, heldur lýsing á staðreyndum. Þetta er sagt þungbært til að reyna að skapa samúð með fyrirtækinu.
  • Ítrekað skal að fyrirtækinu þykir miður að ekki hafi verið brugðist við með réttum og viðeigandi hætti.“ Orðalagið þykir miður er auðvitað ekki í neinu samræmi við alvarleik málsins. Og með réttum og viðeigandi hætti er sakleysislegt orðalag um það sem í raun virðist vera lagaskylda.
  • Nú er verkefnið að styðja við þá áhafnarmeðlimi sem glíma við veikindi og byggja upp á ný það traust sem hefur glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins vegna atviksins.“ Hér gefa menn sér að þarna hafi áður ríkt traust. Og atvik er ansi bragðdauf lýsing á málinu.
  • Alls staðar er talað um fyrirtækið til að firra einstaklinga ábyrgð – „Fyrirtækið telur ljóst“, „ábyrgð … mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla“, „Fyrirtækið biður … afsökunar“, „fyrirtækinu þykir þungbært“, „fyrirtækinu þykir miður“, „traust … glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins“.

Í þessu máli hefur augljóslega verið brotið gróflega á rétti sjómanna og það má ekki líðast. En það má heldur ekki líðast að misnota tungumálið á þann hátt sem gert er í þessari yfirlýsingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Máltækni

Máltækni er tiltölulega nýlegt orð í íslensku – þýðing á því sem á ensku nefnist language technology. Einnig hefur orðið tungutækni verið notað um sama hugtak. Í stuttu máli má segja að með máltækni sé átt við hvers kyns samvinnu tungumáls og tölvutækni sem hefur einhvern hagnýtan tilgang; beinist að því að hanna eða útbúa einhvern hugbúnað eða tæki sem nýtist mönnum í starfi eða leik. Þessi samvinna hefur tvær hliðar og felst annars vegar í notkun tölvutækninnar í þágu tungumálsins; hins vegar í notkun tungumálsins í þágu tölvutækninnar.

Það er hægt að nýta tölvu- og upplýsingatækni á ýmsan hátt til þess að auðvelda mönnum að nota tungumálið. Þar má nefna ýmiss konar leiðréttingarforrit fyrir stafsetningu og málfar. Slíkur búnaður fylgir til dæmis algengum forritapökkum eins og Microsoft Office og LibreOffice á ýmsum tungumálum. Einnig er hægt að sækja viðbætur af þessu tagi fyrir ýmsa vafra. Íslensk stafsetningarleiðréttingarforrit eru til, svo sem Púki og Skrambi, en ekkert málfræðileiðréttingarforrit er til fyrir íslensku.

Hér má einnig telja ýmiss konar hjálpartæki handa fólki sem á erfitt með mál eða lestur sökum einhvers konar fötlunar. Talgervill, sem er búnaður sem les upp ritaðan texta, var fyrst gerður fyrir íslensku um 1990 en nýjasti talgervillinn kom á markaðinn 2012. Hann var gerður á vegum Blindrafélagsins og býr yfir tveimur röddum, karlmannsrödd sem nefnist Karl og kvenmannsrödd sem nefnist Dóra.

Talgreinir breytir töluðu máli í ritaðan texta. Slíkur búnaður fyrir íslensku var gerður árið 2012 í samvinnu Google við íslenska aðila og er nú í símum með Android-stýrikerfi og í Google Chrome-vafranum. Hægt er að nota talgreininn við leit á netinu, til að skrifa smáskilaboð og tölvupóst, minnisatriði og fleira. Einnig er hægt að prófa talgreini á vef Háskólans í Reykjavík. Slíkur búnaður getur vitaskuld nýst öllum málnotendum en ekki síst fólki sem eru hreyfihamlað og á erfitt með að nota lyklaborð til að rita texta.

Eitt veigamesta svið máltækni eru vélrænar þýðingar, þar sem hugbúnaður er notaður til að þýða texta af einu máli á annað. Google Translate er þekktasti búnaðurinn á þessu sviði og getur þýtt milli fjölda tungumála, þar á meðal milli íslensku og annarra mála. Gæði þýðinganna eru misjöfn en fara vaxandi eftir því sem búnaðurinn er lengur í notkun og hefur fleiri gögn til að læra af. Ekkert gott þýðingarforrit hefur enn verið þróað fyrir íslensku.

En tungumálið er ekki bara þiggjandi í samvinnu við tölvutæknina. Það er líka notað á margvíslegan hátt til að gera tæknina aðgengilegri og auðvelda mönnum að nýta sér hana. Þar má nefna ýmiss konar þjónustuver þar sem tölva hlustar á erindi notandans og greinir merkingu þess. Sú greining er síðan send til gagnabanka, þar sem er að finna svör við margvíslegum fyrirspurnum, og viðeigandi svar sótt í bankann. Því svari er svo breytt í eðlilega setningu og hún send til tölvubúnaðar sem les hana fyrir notandann. Þetta ferli er alsjálfvirkt og byggist á margvíslegri og flókinni greiningu á tali notandans; hljóðgreiningu, orðgreiningu, setningagreiningu, merkingargreiningu og fleira.

Einnig má nefna notkun málsins við stjórn tölva og ýmiss konar tölvustýrðra tækja. Það fer mjög í vöxt að slíkum tækjum sé stjórnað með venjulegu máli, annað hvort rituðu eða töluðu. Skipanir eru þá ýmist slegnar inn á lyklaborð eða talaðar í hljóðnema, í stað þess að ýta á takka eða velja kost í valmynd. Þetta mun á næstunni taka til sífellt fjölbreyttari tækja, svo sem ýmiss konar framleiðslutækja, heimilistækja og bíla. En slík tæki skilja yfirleitt ekki íslensku – enn sem komið er.

Til að tölvur og tæki skilji íslensku slíkt þarf að byggja upp þekkingargrunna sem hafa að geyma margvíslegar og nákvæmar upplýsingar um tungumálið. Til að hægt sé að þróa forrit til málfarsleiðréttingar þarf til dæmis að liggja fyrir nákvæm og ítarleg greining á íslenskri setningagerð – mun nákvæmari og ítarlegri en finna má í handbókum og kennslubókum. Það er ekki hægt að útbúa leiðréttingarforrit nema skrá nákvæmlega hvaða setningagerðir eru leyfilegar í málinu og hverjar ekki og jafnframt semja lýsingu á því hvernig eigi að lagfæra það sem betur má fara.

Sprenging í hagnýtingu gervigreindar og vélræns náms á síðustu árum hefur leitt til þess að mikilvægasta forsenda þess að þróa máltæknibúnað er nú gríðarstór málleg gagnasöfn – orðasöfn, textasöfn, hljóðsöfn og fleira. Þær aðferðir sem nú eru mest notaðar byggjast á því að tölvur eru látnar lesa gríðarlega mikið af gögnum og læra af þeim – finna í þeim mynstur sem þær geta síðan notað til að byggja upp þekkingargrunna um tungumálið. Þessa þekkingargrunna er svo aftur hægt að nýta í gerð margs kyns hugbúnaðar til málvinnslu, svo sem leiðréttingabúnaðar, þýðingaforrita, talgervla, talgreina og svo framvegis.

Uppbyggingarstarf í máltækni er dýrt. Það kostar jafnmikið að koma upp máltækni fyrir íslensku og fyrir tungumál milljónaþjóða. Margs konar máltæknibúnaður er vissulega góð markaðsvara og skilar miklum tekjum sem standa undir háum þróunarkostnaði – ef markaðurinn er nógu stór. En því er ekki að heilsa á Íslandi. Vegna smæðar markaðarins er ljóst að það verður seint arðvænlegt að þróa dýran máltæknibúnað fyrir íslensku. Vilji Íslendingar að íslenska sé nothæf innan tölvu- og upplýsingatækninnar þarf opinber stuðningur við þróunarstarf að koma til.

Þegar mikilvægi máltækni fyrir íslensku er metið verður að líta til þess að upplýsingatæknin er orðin mikilvægur þáttur í daglegu lífi alls almennings í landinu. Ef ekki verður hægt að nota íslensku á öllum sviðum upplýsingatækninnar kemur upp splunkuný staða, sem ekki á sér hliðstæðu fyrr í málsögunni. Þá verður orðið til mikilvægt svið í daglegu lífi venjulegs fólks, þar sem móðurmálið er gagnslítið eða ónothæft. Hvaða áhrif hefði slíkt umdæmistap á málnotendur og málsamfélagið? Hvað gæti gerst ef móðurmálið yrði ekki lengur nothæft í nýrri tækni og öðru sem er nýtt og spennandi; á sviðum þar sem nýsköpun af ýmsu tagi á sér stað; og á sviðum þar sem ný atvinnutækifæri bjóðast?

En íslensk máltækni hefur ekki eingöngu gildi fyrir tungumálið og varðveislu þess. Málnotendurnir og hagsmunir þeirra skipta ekki síður máli. Það er mannréttindamál að geta notað móðurmálið á öllum sviðum daglegs lífs, bæði í starfi og leik – líka innan upplýsingatækninnar. Til að svo megi verða þarf allur algengur hugbúnaður að vera á íslensku, leiðréttingarhugbúnaður fyrir íslenskan texta þarf að vera til, það þarf að vera hægt að tala við ýmis tölvustýrð tæki á íslensku, til þurfa að vera þýðingarforrit sem geta þýtt milli íslensku og annarra mála, og málnotendur þurfa að eiga aðgang að hugbúnaði sem getur unnið flóknar upplýsingar úr texta- og gagnasöfnum og leitað í þeim á margvíslegan hátt. Enn vantar mikið upp á að þessi markmið náist.