Posted on Færðu inn athugasemd

Órökrétt orð

Venjulega er sagt að hægt sé að brjóta orðin upp í byggingareiningar, myndön, sem hafi afmarkaða merkingu hver fyrir sig. Oft virðist þetta vera rétt – það er enginn vandi að skipta orði eins og snjóhús niður í snjó+hús og tengja fyrri hlutann við nafnorðið snjór og þann seinni við nafnorðið hús, og segja að merking orðsins sé leidd beint af merkingu orðhlutanna – þetta er eins konar hús gert úr snjó. Við getum líka tekið orðið eldhús og skipt því niður í eld+hús, og tengt fyrri liðinn við nafnorðið eldur og þann seinni við nafnorðið hús. En yfirleitt er enginn eldur í eldhúsum núorðið, og þar að auki er eldhús herbergi, hluti húss, en ekki sjálfstætt hús. Hér er ljóst hverjar byggingareiningar orðsins eru, en merking þess ræðst ekki af merkingu þeirra.

Þegar að er gáð er þetta regla frekar en undantekning. Það má líkja orðasmíði við frjóvgun. Þótt foreldrarnir leggi til hráefnið öðlast afkvæmið sjálfstætt líf og verður smátt og smátt óháðara foreldrunum. Orð sem eru gagnsæ í upphafi þróast þegar farið er að nota þau og tengslin við upprunann geta dofnað af ýmsum ástæðum, t.d. þjóðfélags- og tæknibreytingum. Í upphafi var eldhús t.d. iðulega sjálfstætt hús þar sem eldur brann. Orðið mús í merkingunni ‘stjórntæki tölvu’ er upphaflega líking, þegin úr ensku – auðskilin vegna stærðar og lögunar tækisins og ekki síst snúrunnar – skottsins. En nú er músin iðulega þráðlaus og jafnvel talað um svæði á lyklaborðinu sem mús – af því að það hefur sama hlutverk. Þar er líkingin fokin út í veður og vind, tengslin við upprunann rofin, en merkingin helst.

Stundum kemur upp innbyrðis ósamræmi milli orðhluta. Orðið glas merkir upphaflega ‘gler, glerílát’ en sú merking hefur dofnað í huga málnotenda þannig að nú finnst okkur ekkert athugavert við að tala um plastglas – eða glerglas, þar sem sama merkingin er í raun tvítekin. Fleirtöluorðið gleraugu hefur verið í málinu frá 17. öld og er gagnsæ orðmyndun – þetta eru eins konar augu úr gleri. En nú á tímum er ekki alltaf gler í gleraugum, heldur stundum plast, og því verður til orðið plastgleraugu sem eru með plastglerjum. Vitanlega er plastgleraugu undarlegt orð ef einstakir hlutar þess eru túlkaðir bókstaflega, en það gerum við ekki í venjulegri notkun, heldur skynjum orðið gleraugu sem heiti á tilteknu fyrirbæri, óháð efni sem í þau er notað.

Þessi dæmi sýna að það getur verið varasamt að nota merkingu einstakra orðhluta sem rök fyrir því að orð sé ranglega notað. Þetta á t.d. við um ýmsar lausar samsetningar þar sem fólk deilir um hvort eigi að nota eignarfall eintölu eða fleirtölu í fyrri lið. Það er engin fleirtölumerking í fyrri lið orðsins mánaðamót frekar en í nautakjöt eða lambalæri – en það er ekki heldur nein eintölumerking í fyrri lið myndarinnar mánaðarmót frekar en í rækjusamloka og perutré. Það er ekki heldur neinn vafi á því að myndirnar mánaðamót og mánaðarmót eru notaðar í sömu merkingu. Ef á að velja milli þeirra verður það val því að byggjast á einhverju öðru en merkingu – væntanlega á hefð, og hefðin fyrir mánaðamót er vissulega sterkari.

Posted on Færðu inn athugasemd

Merking orðhluta og orða

Ný orð er hægt að mynda á ýmsan hátt úr íslensku hráefni. Ein helsta leiðin er að bæta forskeytum eða viðskeytum við rætur eða orð sem fyrir eru í málinu og mynda þannig afleidd orð. En þótt fjöldi forskeyta og viðskeyta sé til í málinu er aðeins hluti þeirra nothæfur í virkri orðmyndun. Það eru þau sem hafa tiltölulega fasta og afmarkaða merkingu í huga fólks. Af viðskeytum eru það t.d. -leg-ur, -un, -ar-i (-ur í -leg-ur og -i í -ar-i eru strangt tekið beygingarendingar en ekki hluti viðskeytanna). Það má segja að X+legur merki ‘sem líkist X, minnir á X, tengist X’ (kjánalegur er ‘sá sem líkist eða minnir á kjána’, tæknilegur er ‘sem tengist tækni’), X+un merkir ‘það að gera X’ (könnun er ‘það að kanna’), og X+ari merkir ‘sem gerir X’ (‘kennari er sá sem kennir’).

Þegar við heyrum eða sjáum nýtt orð sem er myndað með einhverju framantalinna viðskeyta er það venjulega gagnsætt – við skiljum um leið við hvað er átt, vegna þess að við þekkjum orðhlutana og vitum hvað þeir merkja, hver um sig. Vissulega geta orðin stundum verið tvíræð þrátt fyrir það, en samhengið sker þá venjulega úr. Orð eins og prentari vísaði til skamms tíma til manns sem tilheyrði ákveðinni starfsgrein sem nú er úrelt en orðið þess í stað notað um tæki. Hvort sem heldur er fellur það að framangreindri reglu og merkir ‘sá sem prentar’, og væntanlega er venjulega hægt að ráða af samhenginu hvort um er að ræða mann eða tæki.

Mörg viðskeyti hafa hins vegar svo óljósa merkingu í huga nútímafólks að þau eru ónothæf í virkri orðmyndun almennra málnotenda. Þetta eru viðskeyti eins og t.d. -ald (m.a. í kafald, folald), -erni (m.a. í þjóðerni, víðerni), -uð-ur (m.a. í söfnuður, fögnuður) og ýmis fleiri. Það er vissulega hægt að mynda ný orð með þessum viðskeytum, og það er iðulega gert í lærðri orðmyndun. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands notaði t.d. -ald til að smíða orðin mótald og pakkald fyrir fáum áratugum og þau er að finna í Tölvuorðasafni. En við þurfum að læra merkingu þeirra sérstaklega – hún er ekki augljós út frá merkingu orðhlutanna vegna þess að –ald hefur enga afmarkaða merkingu í nútímamáli. Sama máli gegnir um fjölda annarra viðskeyta.

Viðskeytin sem nú eru ógagnsæ og hafa enga sjálfstæða merkingu hafa mörg hver verið gagnsæ og virk til nýmyndunar á fyrri stigum málsins, jafnvel fyrir daga íslenskunnar. En þegar orð hefur einu sinni verið búið til og kemst í notkun fer það að lifa sjálfstæðu lífi, meira og minna óháð einingunum sem það er smíðað úr – það hættir að vera einhvers konar summa af merkingu þeirra. Við getum tengt orð eins og þjóðerni við þjóð – en hvað merkir -erni? Hefur það sömu merkingu og í víðerni, bróðerni, líferni og salerni? Það er erfitt að halda því fram að svo sé – -erni virðist ekki hafa neinn sameiginlegan merkingarþátt í þessum orðum. Við lærum merkingu orðanna í heild, hvers fyrir sig, án stuðnings af öðrum orðum með sama viðskeyti.

En sama gerist líka, þótt í minna mæli sé, með viðskeyti sem hafa tiltölulega fasta og afmarkaða merkingu í nútímamáli. Orð mynduð með þeim breyta stundum að einhverju leyti tengslunum við upprunann eða rjúfa þau. Þetta getur meira að segja gerst með algengasta og virkasta viðskeyti málsins, -leg-ur – hvað er t.d. fal- í fallegur, lé- í lélegur, eða mögu- í mögulegur? Viðskeytið -ing er algengt til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum – teikning er ‘það að teikna’, kynning er ‘það að kynna’, æfing er ‘það að æfa’. En iðulega færist merkingin frá verknaðinum yfir á afurð hans eða útkomu. Þótt við getum sagt teikning myndarinnar tók langan tíma þar sem teikning vísar til verknaðarins er miklu algengara að nota orðið um myndina sem teiknuð var – þetta er vönduð teikning.

Posted on Færðu inn athugasemd

Orðhlutar og gerð orða

Orðum málsins er hægt að skipta niður í afmarkaða hluta sem hver um sig hefur ákveðna merkingu eða hlutverk. Þessir hlutar nefnast myndön. Flest fallorð og sagnir eru fleiri en eitt myndan, en smáorð eru yfirleitt aðeins eitt (atviksorð geta þó verið fleiri). Í öllum orðum er rót, sem ber grundvallarmerkingu orðsins. Framan við rótina getur komið forskeyti, en aftan á hana viðskeyti. Hlutverk þeirra er að búa til ný orð skyldrar merkingar og rótin, en þau geta aldrei komið fyrir sjálfstæð. Forskeytin eru tiltölulega fá, og hlutverk þeirra yfirleitt að hliðra til eða neita merkingu rótarinnar, s.s. and‑, ó‑, tor‑. Viðskeyti eru aftur á móti mun stærri og fjöl­breyttari flokkur. Sum þeirra hafa (oftast) ákveðna merkingu, s.s. ‑ar(i), ‑un, ‑leg‑. Önnur er erfiðara að tengja ákveðinni merkingu, s.s. ‑il‑, ‑al‑, ‑ul‑ o.s.frv.

Rótin, ásamt forskeyti og/eða viðskeyti, ef því er til að dreifa, nefnist stofn. Stofninn er sá hluti sem helst að mestu leyti í öllum beygingarmyndum orðsins, en hann getur þó orðið fyrir ýmsum hljóðbreytingum. Stofnsérhljóð breytist iðulega, t.d. í barnbörn, mús mýs, kött-ur kett-i katt-ar, far-aferför-umfórfær-i, stórstær-ri, o.s.frv. Einnig er algengt að sérhljóð í öðru atkvæði stofns falli brott ef beygingarending hefst á sérhljóði: hamarhamr-i, akurakr-i, jökuljökl-i, höfuðhöfð-i, sumarsumr-i, gamal-l gaml-i, viturvitr-an, farin-nfarn-ir, o.s.frv. Stundum breytast samhljóð í stofni, ekki síst í sterkum sögnum: stand-astóð, gang-agekk, bind-abatt; en einnig víðar, t.d. barin-n barð-ir, falin-nfald-ir. Stundum fellur lokasamhljóð stofns saman við upphafshljóð endingar, t.d. í herð-aher-t-i, sendasen-d-i.

Við stofninn geta svo bæst beygingarendingar. Hlutverk þeirra er að sýna innbyrðis tengsl orða í setningu og afstöðu til efnisheimsins. Fallendingar sýna t.d. hver er gerandi og hver er þolandi, tíðarendingar sýna hvort setningin lýsir liðnum atburði eða yfirstandandi, töluendingar sýna hvort vísað er til eins eða fleiri, o.s.frv. Með því að bæta forskeyti eða viðskeyti við rót er búið til nýtt orð, en beygingarendingar búa aldrei til nýtt orð – hest-ur, hest-i, hest-s, hest-ar, hest-a, hest-um er sama orðið þótt það geti fengið sex mismunandi beygingarendingar. Það er líka um eitt og sama orðið að ræða í far-a, fer-ð, ­för-um, far-ið, far-i, far-ir, fór-st, fór-um, fór-uð, fór-u, fær-i, fær-ir, fær-um, fær-uð, fær-u. Þar koma fyrir níu mismunandi endingar sem sumar hverjar hafa mismunandi hlutverk eftir því hvaða afbrigði stofnsins þær tengjast.

Orð sem innihalda tvær rætur eða fleiri eru kölluð samsett, en orð sem eru mynduð af rót + forskeyti eða viðskeyti eru venjulega kölluð afleidd. Orðið Íslendingur er dæmi um þetta allt. Því má skipta í fjögur myndön: Ís+lend+ing-ur. Þarna höfum við tvær rætur, ís og land, sem báðar geta komið fyrir sjálfstæðar. Orðið Ísland er því samsett orð, og við það má bæta viðskeytinu ‑ing‑, sem táknar oft ‘einstaklingur frá einhverjum stað’ (en getur reyndar haft fleiri merkingar, sbr. KR‑ingur). Við það að orðið fær þetta viðskeyti breytist a í land í e, en það er mjög algengt að hljóð­breytingar verði í rótum þegar viðskeytum er bætt við þær. Þegar hér er komið sögu erum við komin með orðið Íslending, sem er þá stofn orðsins, og við það geta bæst beygingarendingar sem sýna hlutverk þess í setningu og afstöðu til annarra orða í setningunni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gerðir samsettra orða

Formleg tengsl liða í samsettum orðum eru einkum með tvennu móti. Algengast er að orð séu annaðhvort fast samsett (stofnsamsett), þar sem fyrri liðurinn er stofn orðsins, án beygingarendingar, t.d. snjó+hús, vit+laus, bók­+hneigður; eða laust samsett (eignarfallssamsett), þar sem fyrri liðurinn er eignarfallsmynd orðsins í eintölu eða fleirtölu, t.d. jarð-ar+verð, sjúk-ra+hús, dag-s+verk. Það virðist oft vera tilviljun hvor þessara aðferða er notuð, og jafnvel eru til tvímyndir sem geta haft mismunandi merkingu, eins og féhirðir og fjárhirðir.

Þó virðist oft vera leitast við að forðast að langir samhljóða­klasar komi fram á skilunum og það fer eftir gerð stofns og endingar fyrri hlutans hvor aðferðin hentar betur til þess. Þannig er fasta samsetningin stól+fótur liprari en lausa samsetn­ingin *stól-s+fótur væri, því að ‑lf‑ er þægilegri klasi en ‑lsf‑. Hins vegar er fasta samsetningin jarð-ar+verð liprari en *jarð+verð, því að ‑rðv‑ er óþægilegur klasi. Innskot endinganna -a og -ar sem innihalda sérhljóð hefur líka áhrif á atkvæðafjölda og hrynjandi sem getur skipt máli.

Þótt ending eignarfalls eintölu eða fleirtölu sé vissulega nýtt til að tengja samsetningarliði er í raun hæpið að líta svo á að fyrri liður samsetningarinnar sé í eignarfalli. Eignarfallsendingin hefur sem sé ekki sömu merkingu og hlutverk í samsetta orðinu og í orðinu sjálfstæðu, heldur þjónar þeim tilgangi að merkja skilin og vera bindiefni milli liðanna, auk þess sem hún brýtur oft upp erfiða samhljóðaklasa eins og áður segir. Þetta má sjá á ýmsu.

Eitt er það að stundum fá orð aðra endingu í samsetningum en ein sér. Þetta er t.d. algengt í föðurnöfnum þar sem fólk er Guðmundsson og Guðmundsdóttir þótt ævinlega sé sagt til Guðmundar. Annað er að ýmist er notuð ending eignarfalls eintölu eða fleirtölu án þess að valið þar á milli hafi merkingarlegt gildi, sbr. dæmi eins og rækjusamloka og perutré annars vegar en nautalund og lambalæri hins vegar. Í sumum tilvikum koma líka á skilunum hljóð sem ekki geta verið eignarfallsending.

Þannig er t.d. í samsetningum með rusl sem er hvorugkynsorð sem endar á -s í eignarfalli eintölu, en er ekki notað í fleirtölu – það er aldrei talað um *mörg rusl heldur mikið rusl. Því gæti maður búist við að í samsetningum væri annaðhvort notaður stofninn eða eignarfall eintölu. En hvorki *ruslfata*ruslsfata eru venjulegar samsetningar, heldur ruslafata þar sem eitthvert a kemur inn á milli samsetningarliðanna, og sama máli gegnir um aðrar samsetningar – ruslakarfa,  ruslatunna, ruslahaugur o.s.frv.

Þarna verður að líta svo á að a sé stungið inn til að forðast erfiða samhljóðaklasa. Þetta er kallað tengihljóðssamsetning eða bandstafssamsetning. Tengihljóðið er venjulega eitthvert sérhljóðanna a, i eða uruslafata, eldiviður, ráðunautur. Þessi tegund samsetningar er ekki mjög algeng í formlegu máli, en í óformlegri orðmyndun, ekki síst hjá börnum, er hún hins vegar algeng – dótabúð, stoppistöð, hoppukastali o.s.frv.

Sum kvenkynsorð sem enda á -i eru eins í öllum föllum og í samsetningum er þá algengt að skotið sé inn -s á skilunum enda þótt fyrri liðurinn hafi aldrei ‑s‑endingu einn sér; leikfimishús, keppnismaður, landhelgisgæslaathyglisverður o.fl. Oft er amast við þessu á þeim forsendum að þarna sé notuð röng beygingarmynd, og reynt að nota leikfimihús og athygliverður í staðinn – en tæpast keppnimaður eða *landhelgigæsla.

Orðið athygli var reyndar áður ekki síður hvorugkyns en kvenkyns og athyglis er rétt eignarfall af hvorugkynsorði þannig að athyglisverður er rétt myndað orð. En hin orðin eru það líka – þau eru mynduð með bindiefni eins og þau orð sem kölluð eru eignarfallssamsett. Bindiefnið er vissulega ekki fengið úr venjulegri eignarfallsendingu orðanna en þannig er það ekki heldur í orðum eins og ruslafataeldiviðurráðunautur og öðrum fullgildum og viðurkenndum orðum. Það má vel kalla s tengihljóð eða bandstaf í þessum orðum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynhlutlaus starfsheiti

Mikill meirihluti íslenskra starfsheita er karlkyns. Mörg þeirra hafa -maður sem seinni lið, s.s. vísindamaður, alþingismaður, námsmaður, verslunarmaður, verkamaður, lögreglumaður, stýrimaður, iðnaðarmaður, leiðsögumaður, formaður og fjölmörg fleiri. Ýmis önnur karlkynsorð eru líka seinni liður í mörgum starfsheitum, s.s. -stjóri í forstjóri, bílstjóri, verslunarstjóri; -herra í ráðherra, skipherra, sendiherra; -þjónn í lögregluþjónn, barþjónn, flugþjónn; o.m.fl. Mörg starfsheiti eru einnig mynduð með karlkynsviðskeytum, s.s. -ingur og -aritölvunarfræðingur, málfræðingur, heimspekingur; kennari, leikari, ljósmyndari. Svo mætti lengi telja. En þótt þessi starfsheiti séu málfræðilega karlkyns eru þeim ætlað að vera kynhlutlaus, í þeirri merkingu að þau eru eða hafa verið notuð um bæði karla og konur.

Mun færri starfsheiti eru málfræðilega kvenkyns og þau eru þá oftast eingöngu notuð um konur – flugfreyja, fóstra, hjúkrunarkona, þerna, húsfreyja, ljósmóðir, barnapía og fáein til viðbótar. Mörg þeirra þykja ekki lengur við hæfi og/eða hefur verið skipt út fyrir önnur sem eru þá iðulega karlkyns – leikskólakennari kemur í stað fóstru, hjúkrunarfræðingur í stað hjúkrunarkonu o.fl. Svo virðist sem karlmenn vilji ekki nota kvenkyns starfsheiti, eða það þyki ekki viðeigandi. Áður en hjúkrunarfræðingur leysti hjúkrunarkonu af hólmi voru karlmenn sem gegndu þessu starfi nefndir hjúkrunarmenn, karlmenn sem starfa um borð í flugvélum nefnast flugþjónar, og þeir fáu karlmenn sem hafa fengist við að taka á móti börnum voru nefndir ljósfeður. Hið óformlega starfsheiti lögga er þó notað um bæði kyn.

Í starfsheitum sem enda á -maður hefur orðið kynhlutlausa merkingu, þ.e. merkir ʻeinstaklingur af tegundinni homo sapiensʼ. En vegna þess að orðið hefur einnig merkinguna ʻkarlmaðurʼ þykir ekki alltaf heppilegt eða viðeigandi að nota þessi starfsheiti um konur. Þetta er ekki nýtt – frá því í byrjun 20. aldar voru verkamannafélög fyrir karla en konurnar stofnuðu verkakvennafélög. Það hafa líka verið búin til starfsheiti með -kona til að svara til ýmissa starfsheita með -maður, s.s. vísindakona, verslunarkona, lögreglukona og fleiri, en varla  stýrikona, iðnaðarkona, forkona. Eins hefur eitthvað borið á því að notaðar séu kvenkynsmyndir af öðrum karlkynsorðum í starfsheitum, s.s. framkvæmdastýra, verslunarstýra, hótelstýra, þula o.fl.

Milli málfræðilegs kyns annars vegar og kynferðis fólks hins vegar er ekkert beint samband, og ýmis alþekkt dæmi eru um ósamræmi þarna á milli. Þannig er kvenkynsorðið hetja ekki síður notað um karlmenn, hvorugkynsorðið skáld getur vísað til karla og kvenna, hvorugkynsorðin sprund og fljóð merkja ʻkonaʼ, og mörg fleiri dæmi mætti nefna. Það breytir því ekki að í huga málnotenda, margra hverra a.m.k., eru sterk tengsl þarna á milli. Þetta á ekki síst við um orðið maður vegna tvíeðlis þess – það er svo oft notað til að vísa til karlmanna eingöngu. Þess vegna finnst mörgum konum og kynsegin fólki, sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns, starfsheiti sem enda á -maður ekki höfða til sín, eins og kemur m.a. fram í því að oft hafa verið búin til samsvarandi starfsheiti með -kona eins og áður segir.

Það er hins vegar ekki sérlega góð lausn að setja -kona í stað -maður, eða búa til kvenkynsform eins og -stýra í stað -stjóri. Í fyrsta lagi breytir það engu fyrir kynsegin fólk – kvenkynsorðin höfða ekkert frekar til þess. Í öðru lagi er ekki hentugt að starfsheiti fari eftir kyni þess einstaklings sem gegnir starfinu. Með því er gefið í skyn að eðli starfsins sé mismunandi eftir því hvort um er að ræða karl, konu eða kvár (nýyrði um kynsegin einstakling). En þótt fólk sé hvorugkynsorð og þar með hlutlaust í einhverjum skilningi er það ekki heppilegt til nota í kynhlutlausum starfsheitum vegna þess að það hefur fleirtölumerkingu þótt það sé formlega séð eintala. Það væri auðvelt að tala um vísindafólk í staðinn fyrir vísindamenn, en ef við þurfum að tala um vísindamann lendum við í vanda.

Það hefur verið stungið upp á ýmsum leiðum til að komast hjá því að nota orðið maður og samsetningar af því í kynhlutlausu samhengi. Ríkisútvarpið hætti t.d. fyrir nokkru að velja mann ársins og velur nú manneskju ársins í staðinn. En manneskja er kvenkynsorð og tengist konum meira en körlum í huga margra, auk þess sem það er mun stirðara í samsetningum en maður. Einnig eru dæmi um að orðið man sé notað í þessum tilgangi, og orð eins og forstöðuman og alþingisman hafa verið búin til. Enn sem komið er virðast þó aðeins konur hafa tekið þetta upp, sem dregur vitanlega úr líkum á því að málnotendur skynji man sem kynhlutlaust orð. Þá hefur verið stungið upp á að nota orðið menni sem hingað til hefur aðeins verið seinni liður samsetninga eins og góðmenni, illmenni, ungmenni o.s.frv.

Það er vitaskuld æskilegt að almenn sátt sé í málsamfélaginu um merkingu og notkun orða. Það er vitað að mörgum konum og kynsegin fólki finnst karlkyns starfsheiti, sérstaklega þau sem enda á -maður, ekki höfða nægilega til sín, og vegna hinnar tvöföldu merkingar orðsins maður er það skiljanlegt. Þess vegna væri æskilegt að nota hlutlausari orð. Á hinn bóginn eru karlkyns starfsheiti svo mörg og rótgróin í málinu að það væri meiriháttar mál að skipta þeim út fyrir kynhlutlaus orð. Það er ekki heldur ljóst hvernig ætti að standa að því og hvað ætti að koma í staðinn, og um slíka breytingu yrði engin sátt í málsamfélaginu að svo stöddu. Að mínu mati er skynsamlegasta leiðin – og raunar eina leiðin – að láta málsamfélagið um þetta en reyna ekki að miðstýra því. Ef almennur vilji er til að breyta þessu breytist það smátt og smátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eintala og fleirtala í samsetningum

Oft finnst fólki rökrétt að tala fyrri liðar í samsettum orðum endurspegli merkingu orðanna. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Ritað er mánaðamót en ekki „mánaðarmót“. Fyrri hluti orðsins er í eignarfalli fleirtölu en ekki eintölu vegna þess að um er að ræða tvo mánuði sem mætast við lok annars og upphaf hins, sbr. orðið aldamót.“ Mér finnst eðlilegt að halda sig við myndina mánaðamót, en þótt það sé vissulega rétt að þar mætist tveir mánuðir leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að fyrri liður orðsins eigi að vera í fleirtölu. Elstu dæmi um mánaðarmót á tímarit.is eru næstum jafngömul og elstu dæmi um mánaðamót, og fjöldi dæma um fyrrnefndu myndina sýnir að mjög margir málnotendur hafa ekki sterka tilfinningu fyrir því að þarna eigi að vera fleirtala.

Það er líka auðvelt að benda á fjölmörg dæmi þar sem tala fyrri liðar er „órökrétt“. Þetta er líklega mest áberandi þegar fyrri liðurinn er veikt kvenkynsorð sem endar á -a eða -na í eignarfalli fleirtölu – þá er iðulega notað eignarfall eintölu þar sem fleirtalan væri „rökrétt“. Þetta eru orð eins og rækjusamloka, gráfíkjukaka, perutré og mörg fleiri. Það er væntanlega óhætt að gera ráð fyrir því að það sé fleiri en ein rækja í samlokunni, fleiri en ein gráfíkja í kökunni og fleiri en ein pera á trénu, og því væri merkingarlega eðlilegra að hafa þarna eignarfall fleirtölu – *ræknasamloka, *gráfíknakaka, *peratré. Eintölumyndin er samt notuð í staðinn, líklega vegna þess að málnotendum finnst óeðlilegt að nota mynd sem er eins og nefnifall eintölu (pera) eða eru í vafa um fallmyndina (rækja eða rækna).

Það eru líka ýmis dæmi um að notað sé eignarfall fleirtölu þar sem eintalan gæti virst „rökrétt“. Við borðum nautalund og lambalæri – engum dettur í hug að tala um *nautslund eða *lambslæri þótt enginn vafi sé á að lundin sé úr einum nautgrip og lærið af einu lambi. Við segjumst vera í bílakaupum en ekki *bílskaupum þótt við séum bara að kaupa einn bíl, og við tölum um myndaramma þótt aðeins ein mynd sé í sama ramma. Á hverjum ljósastaur er venjulega bara eitt ljós, blaðamaður vinnur yfirleitt bara á einu blaði í senn, lagasmiður þarf ekki að hafa samið nema eitt lag, og talað er um ljóðalestur hvort sem lesið er eitt ljóð eða fleiri. Þótt fyrri liður orðanna nýrnagjafi, nýrnaþegi og nýrnaígræðsla sé í fleirtölu er venjulega bara um eitt nýra að ræða, og svo mætti lengi telja.

Í stöku tilvikum er líka notuð önnur tala en búast mætti við þótt ekki sé um samsett orð að ræða, heldur orðasamband sem myndar merkingarlega heild og er eins konar ígildi samsetts orðs í huga málnotenda. Þetta eru dæmi eins og þriggja stjörnu hótel, 36 peru ljósabekkur o.fl. Talan sem kemur á undan gerir það að verkum að tölutáknun á nafnorðinu er óþörf og tala þess núllast út, ef svo má segja. Þótt myndirnar stjörnu og peru séu formlega séð eintala hafa þær ekki eintölumerkingu í þessum orðum, heldur eru hlutlausar og teknar fram yfir fleirtölumyndirnar vegna þess að þær fara betur. Þótt tala fyrri liðar í samsettum orðum geti vissulega haft merkingarlegt gildi er algengt að svo sé ekki, heldur notuð sú mynd sem fer betur, t.d. af hljóðfræðilegum ástæðum.

Oft virðist líka vera hrein hending hvort eintölu- eða fleirtölumynd er notuð í samsetningum. Þannig er það t.d. þegar viðskeytinu -legur er bætt við nafnorðið barn til að mynda lýsingarorð. Þá er hægt að nota bæði eignarfall eintölu og eignarfall fleirtölu – við höfum bæði barnslegur og barnalegur. En þau orð merkja ekki það sama. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrrnefnda orðið skýrt 'einlægur og saklaus eins og barn' en það síðarnefnda 'einfaldur, einfeldningslegur' eða 'sem líkist barni í útliti, unglegur'. Það er auðvitað engin leið að halda því fram að það séu einhverjar merkingarlegar ástæður fyrir því að nota eignarfall eintölu í fyrra orðinu en eignarfall fleirtölu í því síðara. Við þurfum einfaldlega að læra merkingu hvors orðs fyrir sig – getum ekki lesið hana að fullu út úr gerð samsetningarinnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Óhjákvæmilegt annað en

Sambandið annað en er iðulega notað með lýsingarorði til að fá fram andstæða merkingu. Við segjum það er ómögulegt annað en fallast á þetta sem er andstæðrar merkingar við það er ómögulegt að fallast á þetta. Það er hægt að nota þetta samband með fjölda lýsingarorða, en þó því aðeins að lýsingarorðið feli í sér eða taki með sér neitun af einhverju tagi, eða sé neikvætt í einhverjum skilningi. Við getum ekki sagt *það er mögulegt annað en fallast á þetta eða *það er hugsanlegt annað en fallast á þetta. Hins vegar getum við sagt það er ekki mögulegt annað en fallast á þetta, það er varla hugsanlegt annað en fallast á þetta, það er útilokað annað en fallast á þetta, það er vonlaust annað en fallast á þetta, það er fáránlegt annað en fallast á þetta o.s.frv.

Í öllum þessum dæmum neitar annað en merkingu lýsingarorðsins. Merkingin í það er ómögulegt annað en fallast á þetta er 'það er ómögulegt að fallast á þetta ekki', merkingin í það er útilokað annað en fallast á þetta er 'það er útilokað að fallast á þetta ekki', merkingin í það er fáránlegt annað en fallast á þetta er 'það er fáránlegt að fallast á þetta ekki', o.s.frv. Frá þessu er þó ein skýr undantekning. Það er sambandið óhjákvæmilegt annað en. Í venjulegu máli merkir það er óhjákvæmilegt annað en að fallast á þetta nefnilega alveg sama og það er óhjákvæmilegt að fallast á þetta annað en neitar sem sé ekki merkingunni í óhjákvæmilegt eins og það gerir í öðrum tilvikum.

Það er athyglisvert að þetta eina orð skuli skera sig þannig úr, en skýrist kannski af því að flest dæmi um sambandið neitun – lýsingarorð – annað en – gera X (t.d. ekki hugsanlegt annað en fallast á þetta, ómögulegt annað en fallast á þetta, útilokað annað en fallast á þetta) leiða til þess að X er gert (því er trúað í þessu tilviki) – neitunin og annað en upphefja hvort annað. Málnotendur virðast fella óhjákvæmilegt annað en gera X inn í þetta mynstur, þ.e. horfa á neitunarforskeytið ó- og sambandið annað en, en líta fram hjá merkingunni í -hjákvæmilegt, enda er það aldrei notað eitt og sér og er þannig séð merkingarlaust. Þetta er ekki ósvipað og með sambandið ekki ósjaldan sem oftast er notað í sömu merkingu og ósjaldan.

Svo má auðvitað spyrja hvort það standist að nota óhjákvæmilegt annað en í sömu merkingu og óhjákvæmilegt. Vissulega má halda því fram að það sé ekki „rökrétt“. En málið er ekki alltaf rökrétt, og í þessu tilviki verður að hafa í huga að um fast orðasamband er að ræða. Slík sambönd lifa að einhverju leyti sjálfstæðu lífi, þannig að merking þeirra er ekki alltaf summa eða fall af merkingu orðanna sem mynda sambandið. Þetta er auðvitað vel þekkt úr málsháttum og orðtökum, en getur líka að vissu marki gilt um margs konar önnur misjafnlega föst orðasambönd – við lærum merkingu sambandsins í heild, í stað þess að púsla henni saman úr merkingu einstakra orða þess.

Hvað sem þessu líður er ljóst að fólk sem notar sambandið óhjákvæmilegt annað en hefur það í sömu merkingu og óhjákvæmilegt, og sú notkun á sér meira en hundrað ára hefð. Sambandið kemur fyrir í prentuðum heimildum frá því í byrjun 20. aldar – á tímarit.is eru rúm 300 dæmi um það, og í Risamálheildinni á fimmta hundrað. Ég fæ ekki betur séð en í þeim öllum sé merking þess sú sem að framan greinir, þ.e. hin sama og í óhjákvæmilegt. Auðvitað er hugsanlegt að túlka sambandið bókstaflega og misskilja það, en ég held að samhengið dugi yfirleitt til að gera merkinguna ótvíræða.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mikið af fólki

Iðulega er amast við því að talað sé um mikið af fólki og sagt að þess í stað eigi að tala um margt fólk. Þetta kom t.d. margoft til umræðu í þáttum Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu, og svipaðar athugasemdir má finna í ýmsum öðrum málfarsþáttum. Í Málfarsbankanum segir: „Illa getur farið á því að nota orðasambandið mikið af einhverju um það sem er teljanlegt og eðlilegra væri að nota lýsingarorðið margur: Margir bílar (síður: „mikið af bílum“), margar flugvélar (síður: „mikið af flugvélum“). Einnig þykir mörgum sem lýsingarorðið margur fari betur með orðinu fólk: Margt fólk (síður: „mikið af fólki“).“

Orðið fólk er safnheiti og ekki til í fleirtölu frekar en t.d. sykur, mjólk, mjöl. Venjulega getur lýsingarorðið margur ekki staðið með slíkum orðum – það er ekki hægt að segja *margur sykur, *mörg mjólk, *margt mjöl eða slíkt. Þess í stað verður að segja mikið af mikið af sykri, mikið af mjólk, mikið af mjöli. Því mætti virðast sem mikið af fólki væri hliðstætt við þetta, en í athugasemdum við það samband er stundum sagt að um það gegni öðru máli vegna þess að þótt fólk sé safnheiti sé það teljanlegt, sbr. tilvitnun í Málfarsbankann hér að framan. En frá málfræðilegu sjónarmiði er það ekki rétt. Þótt fyrirbærið fólk sé vitanlega teljanlegt er orðið fólk það nefnilega ekki.

Vissulega er hægt að afmarka hóp menna, kalla hópinn fólk og telja einstaklingana í hópnum, sem ekki er hægt í sykri, mjólk og mjöli. En hins vegar er fólk ekki teljanlegt orð í þeirri merkingu að hægt sé að hafa töluorð með því – það er ekki hægt að segja *eitt fólk, *tvö/tvennt fólk o.s.frv. (þótt hugsanlega sé það að breytast).  Hér má líka benda á orðið grjót sem er safnheiti þar sem einingarnar, steinarnir, eru sæmilega stórar og vel aðgreindar – eins og er með fólk. Það er hægt að safna steinum í hrúgu, kalla hrúguna grjót og telja einstaklingana í henni. Það er samt ekki hægt að tala um *eitt grjót, *tvö/tvennt grjót, frekar en fólk – en öfugt við fólk er ekki hægt að tala um *margt grjót, heldur verður að segja mikið af grjóti.

Það er ljóst að sambandið margt fólk er mun eldra en mikið af fólki – það fyrrnefnda kemur fyrir í fornu máli en elstu dæmin um hið síðarnefnda eru frá lokum 19. aldar, og notkun þess virðist hafa aukist verulega á síðustu áratugum. Ástæðan fyrir því að sambandið margt fólk kemur upp er sú að þrátt fyrir að orðið fólk sé málfræðileg eintala er það merkingarleg fleirtala, og við hugsum um fólk sem mismunandi einstaklinga – sem við gerum ekki um steina í grjóthrúgu. Þess vegna finnst okkur eðlilegt að tala um margt fólk, og þetta er það sem raunverulega er vísað til þegar sagt er að fólk sé teljanlegt. En ef horft er á þetta frá hreinu málfræðilegu sjónarmiði er í raun órökrétt málnotkun að tala um margt fólk.

Miðað við eðli orðsins fólk og hegðun sambærilegra orða er mikið af fólki í raun það sem við væri að búast. Það væri því fráleitt að kalla það samband rangt – enda er það svo sem yfirleitt ekki gert, heldur talið „síðra“ en margt fólk. En þótt það samband sé strangt tekið órökrétt væri auðvitað jafnfráleitt að amast við því vegna þess hvað það á sér langa hefð. Þetta eru tvær aðferðir til að orða sömu merkingu, og engin ástæða til að gera upp á milli þeirra. Málið er ekki alltaf rökrétt – og á ekki að vera það.

Posted on Færðu inn athugasemd

svægi

Nýlega rakst ég á orðið svægi í fyrirsögn og frétt á Vísi. Ég kannaðist ekki við þetta orð og fann það ekki í orðabókum svo að ég gúglaði og fann örfá dæmi um það frá allra síðustu árum. Eftir að skoða þau þóttist ég vera farinn að nálgast merkinguna en spurði son minn til öryggis – hann skilur nútímamál betur en ég. Hann staðfesti að ég væri á réttri leið. Þetta er sem sé aðlögun á enska slanguryrðinu swag sem er skýrt í orðabók sem „a fashionable and confident appearance or way of behaving“ – sem sagt sjálfsörugg framkoma og í takt við tímann.

Þetta orð fellur fullkomlega að íslenskri hljóðskipun – við höfum orð sem byrja á svæ-, s.s. svæðisvæfa o.fl., og hvorugkynsorð sem enda á -ægi, s.s. vægilægi. Það er líka auðvelt að bæta við skyldum orðum af sömu rót. Þannig er hægt að nota sögnina svægja (sbr. nægjaslægja o.fl.) um að hegða sér eins og nafnorðið lýsir – í ensku er sögnin swagger skýrð sem „to walk or behave in a way that shows that you are very confident and think that you are important“. Einnig væri hægt að nota lýsingarorðið svægur (sbr. frægurslægur o.fl.) til að lýsa þeim sem sýna þessa hegðun, og um þau mætti nota nafnorðið svægir. Þarna eru komin fjögur splunkuný orð í málið.

Það er sérstaklega athyglisvert hvernig staðið er að aðlögun orðsins svægi að íslensku málkerfi. Í fljótu bragði gæti virst eðlilegast að taka það upp í íslensku í myndinni svag, en það er fyrir í málinu í sambandinu vera svag fyrir einhverju, auk þess sem enska sérhljóðið er töluvert frá íslensku a í framburði. Þess í stað er bætt -i við orðið og þá verður g-ið sjálfkrafa að j í framburð, og sérhljóð á undan ji verður óhjákvæmilega að tvíhljóði. Þannig fæst myndin svægi.

Orðið svægi er gott dæmi um það hvernig virk orðmyndun getur beitt aðlögun tökuorða til að auðga orðaforðann og halda tengingu málsins við samtímann án þess að gefa nokkurn afslátt af kröfum um vandaða íslensku. Það er ekki hægt að hafa neitt á móti þessu orði nema upprunann – en eiga orð sem falla vel að málinu að gjalda uppruna síns? Það er líka mikill kostur að auðvelt er að mynda skyld orð og koma þannig upp heilli fjölskyldu. Mér finnst þetta frábær orð og sýna lífskraft málsins vel.

Posted on Færðu inn athugasemd

Stafrænn tungumáladauði

Hugtakið „stafrænn tungumáladauði“ (digital language death) hefur tals­vert verið notað í umræðu um stöðu og lífvænleik tungumála upp á síðkastið. Það vísar til þess þegar tiltekin tungumál eða mállýskur verða smátt og smátt undir í stafrænum heimi – eru ekki nothæf eða notuð á netinu. Þar með missa þau notkunarsvið sem er sífellt að verða mikilvægara og þetta veikir málin óhjákvæmilega. Enginn vafi er á því að þetta er gagnlegt hugtak, en ýmislegt er enn óljóst í sam­bandi við merkingu þess og notkun. Það er t.d. óljóst hvort stafrænn dauði leiðir á endanum óhjákvæmilega til algers dauða, eða hvort tungu­mál getur lifað góðu lífi í raunheiminum þótt það verði undir á net­inu.

Ungverski málfræðingurinn András Kornai skrifaði þekkta grein um stafrænan tungumáladauða árið 2013. Þar tók hann nýnorsku sem dæmi um tungumál sem væri hlutfallslega margfalt minna notað á netinu en í raunheimi og virtist ekki eiga sér framtíð í stafrænum heimi. Nýlega sá ég mjög áhugaverða norska frétt um netverslun á nýnorskusvæði sem hættir að nota nýnorsku á vef sínum og skiptir yfir í bókmál til að vera sýnilegri á netinu. Miklu fleiri nota bókmálsmyndir í leit á netinu þannig að síður á nýnorsku koma síður upp. Verslunarstjórinn segir að vefurinn fái miklu fleiri heimsóknir eftir breytinguna. Þetta er skýrt dæmi um þróun í átt til stafræns dauða nýnorskunnar.

Staða íslenskunnar er vitanlega önnur en nýnorsku – í Noregi stendur valið milli tveggja opinberra og jafnrétthárra mála, bókmáls og nýnorsku, en ekki milli þjóðtungu og erlends máls eins og hér. En við þurfum samt að velta því fyrir okkur hvort eitthvað sambærilegt gæti gerst – eða sé að gerast – hér á landi. Eru einhver fyrirtæki eingöngu með vefsíður á ensku þótt markaðssetningu þeirra sé líka beint til Íslendinga? Notum við íslensk leitarorð á netinu þegar kostur er eða leitum við á ensku þótt við séum að leita að íslenskum vörum eða umfjöllunarefnum?

Þetta getur orðið vítahringur – eftir því sem enskan er meira notuð á vefsíðum og í leitum, þeim mun minni hvati er til að hafa góða vefi á íslensku. Þar að auki er hætt við að algrím leitarvélanna leiði til þess að vefsíður á íslensku komi síður upp. Hugsum út í þetta – notum íslensku þar sem kostur er!