Posted on

Hvor annan

Í Málvöndunarþættinum á Facebook var eitt sinn vakin athygli á frétt í Morgunblaðinu þar sem stóð í fyrirsögn „Njóta fullkomins skilnings hvort annars“, og í fréttinni sjálfri „hvort þau hafi eitthvað náð að fylgjast með árangri hvort annars um helgina“. Það hefur verið kennt að í þessu sambandi eigi hvor að standa í sama falli (nefnifalli í þessu tilviki) og frumlag setningarinnar (þau, sem reyndar er sleppt í fyrra dæminu eins og algengt er í fyrirsögnum) en annar í eignarfalli þegar það stýrist af nafn­orði eins og í báðum þessum tilvikum (skilnings í fyrra dæminu, árangri í því seinna).

Samkvæmt þessu er sambandið rétt notað í báðum dæmunum, en höfundur innleggsins taldi það ranglega notað – og var sannarlega vorkunn, því að annars konar notkun þess er mjög útbreidd. Iðulega er hvor látið sam­beygjast annar í stað þess að sambeygjast frumlaginu – dæmin hér að ofan eru þá skilnings hvors annars og árangri hvors annars. Sama gildir um önnur afbrigði þessa sambands – oft er sagt t.d. þeim líkar vel við hvort ann­ í stað hvoru við annað, þeir hata hvorn annan í stað hvor annan, þeim er hlýtt til hvors annars í stað hvoru til annars, o.s.frv.

Þetta er engin nýjung. Dæmi er um „ranga“ notkun þessa sambands í Eintali sálarinnar sem Arngrímur Jónsson lærði þýddi í lok 16. aldar – „heldur veit oss að vér elskum hvörn annan svo vér blífum í þér og þín elska sé fullkomin í oss“. Um og eftir miðja 19. öld fara að sjást dæmi á stangli en fer mjög fjölgandi þegar kemur fram á 20. öld, einkum eftir miðja öldina, samkvæmt rannsókn sem Dagbjört Guðmunds­dóttir málfræðingur gerði í BA-ritgerð sinni. Á tímarit.is fann hún hátt á áttunda þúsund dæmi frá 20. öld um „ranga“ notkun þessa sambands – þrátt fyrir að blöð og tímarit hafi yfir­leitt verið prófarkalesin á þeim tíma.

Breytingar á þessu sambandi eru í sjálfu sér mjög skiljan­legar vegna þess að hvor / hver rýfur venjuleg tengsl orða. Í samböndum eins og tala um og líka við mynda sögn og forsetning merkingarlega heild sem hv-orðið rýfur þegar sagt er tala hvor / hver um annan og líka hvorum / hverjum við annan. Til að koma í veg fyrir það rof og halda þessari heild er hv-orðið fært aftur fyrir forsetninguna. En þar með eru tengsl for­setn­ingarinnar og andlags hennar rofin og því er eðlilegt að málnotendur fari að skynja hv-orðið sem andlag og láti það sambeygjast raunverulega andlag­inu — tala um hvorn / hvern annan og líka við hvorn / hvern annan. Sama gerist þar sem annar er andlag sagnar, eins og í aðstoða hvor / hver annan og hjálpa hvor / hver öðrum — þar rýfur hv-orðið tengsl sagnar og andlags sem leiðir til þess að það er túlkað sem hluti andlagsins, aðstoða hvorn / hvern annan og hjálpa hvorum / hverjum öðrum.

Af nærri 40 ára kennslu­reynslu tel ég mig geta fullyrt að verulegur hluti fólks notar þetta samband ekki í samræmi við það sem kennt hefur verið. Þetta staðfestist í viðamikilli rannsókn á stöðu ís­lensk­unnar sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stóðum fyrir. Þar var fólk á öllum aldri beðið að leggja mat á ýmsar setningar, þar á meðal þeim líkar vel hvorum við annan sem hefur verið talið rétt og þeim líkar vel við hvorn annan sem hefur verið talið rangt. Verulegur hluti fólks í öllum aldurshópum, frá 13 ára og upp úr, taldi að fyrri setningin, sú „rétta“, væri annaðhvort „mjög óeðli­leg“ eða „frekar óeðlileg“. Fólk sem taldi að hún væri „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“ var í minnihluta í flestum aldurshópum.

Aftur á móti taldi yfirgnæfandi meirihluti fólks í öllum ald­urs­hópum að seinni setningin, sú „ranga“, væri annað­hvort „mjög eðlileg“ eða „frekar eðlileg“, en mjög fáum fannst hún „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðli­leg“.Vegna þess hve munur aldurshópa er lítill er ekki hægt að kenna ungu kynslóðinni um þessa málbreytingu – og ekki er heldur hægt að skella skuldinni á hrakandi íslensku­kennslu. Þetta er einfaldlega málbreyting sem á sér gaml­ar rætur og er orðin svo útbreidd að óhætt er að fullyrða að mikill meirihluti landsmanna sé alinn upp við „ranga“ notkun sambandsins og hafi tileinkað sér hana á mál­töku­skeiði.

Baráttan gegn þessari breytingu er augljóslega löngu töp­uð og mér finnst ekkert vit í að halda henni áfram. Það tákn­ar auðvitað ekki að dæmin úr frétt Morgunblaðsins sem nefnd voru í upphafi eigi að hætta að teljast rétt, en verði röng í staðinn. Þetta eiga einfaldlega að vera tvö jafn­gild og jafnrétthá afbrigði. Það er ekkert að því. Tungu­málið þarf ekki alltaf að vera annaðhvort – eða; það má líka stundum vera bæði – og.

Posted on

Eintölu- og fleirtöluorð

Í Málvöndunarhópnum á Facebook og víðar er oft rætt um tölu nafnorða. Sum nafnorð eru venjulega eingöngu notuð í eintölu, önnur eingöngu í fleirtölu, og fólki bregður í brún ef orðin eru notuð í annarri tölu en venjulegt er. Þannig var nýlega rætt um eintöluna sundfat og annars staðar sá ég gerða athugasemd við fleirtöluna áburðir (á tún). Það er auðvitað ljóst að sundföt eru venjulega höfð í fleirtölu en áburður í eintölu. En er ástæða til að amast við hinu – er það beinlínis rangt?

Þótt föt séu venjulega í fleirtölu, og merki 'fatnaður', er eintalan fat vissulega til og gefin í orðabókum, og merkir 'flík'. Ég sé ekki að það ætti að skipta máli hvort orðið fat er notað eitt og sér eða í samsetningunni sundfat. Hitt er svo annað mál hvort einhver þörf er fyrir eintöluna – hvort ekki megi tala um ein sundföt eins og venja er í staðinn fyrir eitt sundfat. Það er svo sem alveg hægt að hugsa sér aðstæður þar sem merkingarmunur væri á þessu. Til eru sundföt sem eru í tvennu lagi (bikini) – þar gæti hugsanlega komið sér vel að geta talað um annan hlutann sem sundfat.

Orðið áburður í merkingunni 'efni borið á jarðveg til að auka vöxt plantna' hefur nær eingöngu verið haft í eintölu (þótt dæmi um fleirtöluna sé til frá 19. öld). Hins vegar hefur orðið líka aðra merkingu, 'smyrsl, t.d. á sár', og í þeirri merkingu hefur það lengi tíðkast í fleirtölu án þess að nokkrum finnist það athugavert - talað er t.d. um handáburði. Þarna hefur merking orðsins víkkað úr því að vera efnisheiti (slík orð eru ekki notuð í fleirtölu) yfir í að tákna einstakar tegundir af eða úr þessu efni. Fyrst ekkert er því til fyrirstöðu að láta fleirtöluna tákna tegundir þegar rætt er um smyrsl, má þá ekki líka láta hana tákna tegundir túnáburðar?

Málið snýst sem sé ekki um það hvort eintalan sundfat og fleirtalan áburðir séu til – það eru þær augljóslega, og málfræðilega er ekkert við þær að athuga. Báðar fela hins vegar í sér merkingarvíkkun orðanna sem um er að ræða – úr tegundarheiti yfir í einstök dæmi um tegundina, ef svo má segja. Það er svo smekksatriði hvort fólk fellir sig við þessa merkingarvíkkun og því verður hver að svara fyrir sig. En það má benda á að fjölmörg hliðstæð dæmi eru til í málinu – sum almennt viðurkennd, önnur ekki. Og sum slík tilvik sem áður var amast við þykja núna góð og gild.

Til skamms tíma börðust umvandarar t.d. harkalega gegn fleirtölunni keppnir og sögðu að keppni væri aðeins til í eintölu og merkti 'kapp' – eins og orðið gerir t.d. í setningunni Það var alltaf mikil keppni á milli systkinanna. En við þessa óhlutstæðu merkingu hefur bæst merkingin 'kappleikur', eins og t.d. í Systkinin háðu margar keppnir. Þessi merkingarvíkkun er a.m.k. 90 ára gömul. Nú hef ég ekki séð amast við fleirtölunni keppnir í 15-20 ár og dreg þá ályktun af því að flestir séu búnir að taka hana í sátt. Það kemur í ljós hvernig fer með sundfat og áburði.

Annars skrifaði Höskuldur Þráinsson prófessor einu sinni smágrein um þetta efni og er rétt að vísa á hana hér.

Posted on

Hvað er málrækt?

Margir telja undanhald eða uppgjöf felast í því að efast um gildi ósveigjanlegrar andstöðu gegn „málvillum“, að ekki sé talað um að viðurkenna einhverjar þeirra sem „rétt mál“. Margir amast líka við nýjum orðum eða nýbreytni í orðanotkun. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – okkur finnst að málið eigi að vera eins og við tileinkuðum okkur það í æsku, og eins og okkur hefur verið kennt að það eigi að vera.

En málvöndun og málrækt felst ekki í því að berjast gegn langt gengnum málbreytingum, amast við nýjungum í máli, eða enskuslettum sem koma og fara. Og þaðan af síður felst málrækt í því að hneykslast á, leiðrétta og hnýta í málfar annarra. Hins vegar felst málrækt í því

  • að rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir mann sjálfan og málsamfélagið;
  • að hika ekki við að beita nýsköpun í máli – setja orð í nýstárlegt samhengi og búa til ný orð ef þeirra er þörf;
  • að leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs;
  • að velja máli sínu búning sem hæfir aðstæðum og viðmælendum – nota viðeigandi málsnið;
  • að vilja kynna sér hefðir málsins og taka mið af þeim, án þess að láta þær hefta eðlilega tjáningu;
  • að sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra út á besta veg;
  • að átta sig á að málið verður að henta málsamfélaginu á hverjum tíma og stöðnun í máli er ávísun á hnignun þess;
  • að tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd;
  • að gera kröfu um og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota málið á öllum sviðum, til allra þarfa;
  • að tala íslensku, hlusta á íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest.
Posted on

Málfar ungra blaðamanna

Valdimar Briem skrifaði í gær pistil í Málvöndunarþáttinn á Facebook þar sem vikið er að færslu sem ég skrifaði fyrr í vikunni. Ég get tekið undir sumt í þeim pistli en vil nefna að hvatinn að minni færslu var orðalag og framsetning athugasemda sem gerðar eru við málfar í þessum hóp og víðar – athugasemda sem jafnvel lúta að andlegu atgervi og þroska þeirra sem verður eitthvað á að mati umvandara. Fyrir utan það að vera ekki kurteislegar eru slíkar athugasemdir ekki líklegar til að bæta málfar þeirra sem um er að ræða. Um þetta erum við Valdimar sammála sýnist mér.

Til skýringar á ýmsu í málfari og orðanotkun ungra blaðamanna benti ég á að þjóðfélagið hefur breyst gífurlega á undanförnum áratugum, og ungir blaðamenn eru aldir upp í þjóðfélagi og málumhverfi sem er gerólíkt því sem við Valdimar ólumst upp í. Þess vegna er ekki við því að búast að þeim sé tamur allur sami orðaforði og okkur sem erum komin yfir miðjan aldur (eins og meirihluti þeirra sem eru virkir í þessum hópi að því er mér sýnist). En það er fráleitt sem Valdimar segir, að ungir blaðamenn „leitist stundum við að tjá sig opinberlega á röngu máli“.

Ég hef ekki varið óvönduð vinnubrögð og mun ekki gera. Vitanlega eiga allir að vanda sig við það sem þeir gera, og fólk sem hefur atvinnu af skrifum á auðvitað sérstaklega að vanda sig í meðferð málsins. Sannarlega er oft misbrestur á því. En það verður að sýna sanngirni og taka tillit til breyttra aðstæðna. Áður var allt efni blaðanna lesið yfir af þjálfuðum og vandvirkum prófarkalesurum. Síðan fór það til setjara sem einnig voru sumir hverjir miklir íslenskumenn og lagfærðu textann ef þeir sáu ástæðu til. Textinn fór því í gegnum margar síur áður en hann birtist lesendum.

Nú skrifa blaðamenn á vefmiðlum texta sem birtist iðulega á netinu um leið, ósíaður, og öll þjóðin getur skoðað – og gert athugasemdir við. Vissulega koma prófarkalesarar stundum við sögu, en oft er textinn settur á netið um leið og hann hefur verið skrifaður og prófarkalesarinn fer svo yfir hann eftir á, þegar tækifæri gefst. Það fer ekki hjá því að þessi vinnubrögð, og hraðinn og sú pressa sem blaðamenn eru undir, leiða til þess að ýmislegt sem betur mætti fara kemur fyrir sjónir lesenda. En það er ekki hægt að kenna blaðamönnunum um allt sem miður fer, heldur þeim vinnuaðstæðum sem þeir búa við.

Ég legg áherslu á, eins og ég hef gert áður, að þetta þýðir ekki að fólk eigi bara að yppta öxlum yfir öllu sem því finnst ábótavant í málfari og framsetningu. Það er sjálfsagt að benda á hroðvirknisleg vinnubrögð og þegar brugðið er út af málhefð. En það skiptir máli hvernig það er gert.

Posted on

Að voka

Ég staldraði við þegar ég sá þessa fyrirsögn: „Flugbíllinn vokti í mínútu“. Ég þekki sögnina voka um það að fuglar sveimi yfir bráð en þessa notkun kannaðist ég ekki við. Þess vegna fletti ég sögninni upp á málið.is og fékk upp þessa skilgreiningu úr Flugorðasafni: „Halda þyrlu eða hnitu nokkurn veginn kyrri á flugi miðað við jörðu eða lofthjúp.“

Sögnin hefur sem sé verið nýtt þarna sem þýðing á enska orðinu hover. Það finnst mér vel til fundið – í íðorðastarfi er um að gera að nýta orð sem fyrir eru í málinu ef hægt er og hnika merkingu þeirra til eða víkka hana ef þess gerist þörf, svo framarlega sem engin hætta sé á að það valdi misskilningi.

Í Flugorðasafninu er nefnt að þátíð sagnarinnar sé vokti og þannig er hún höfð í fyrirsögninni og upphafi fréttarinnar, en í næstu efnisgrein er þátíðarmyndin vokaði. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur þá mynd vissulega upp líka (og þá er nútíðin vokar en ekki vokir), en mikilvægt er að gæta samræmis innan sömu fréttar.

Posted on

Verknaðarnafnorð

Mörg nafnorð eru mynduð af sögnum til að tákna þá athöfn eða verknað sem í sögninni felst. Í þessari orðmyndun eru oftast notuð viðskeyti – þau helstu eru -un (hanna – hönnun), -(n)ing (mæla – mæling) og 'sla (keyra – keyrsla). Viðskeytin hafa með sér nokkur verkaskipti – þannig er –un nær eingöngu notað á sagnir sem enda á -aði í þátíð. Nú vill svo til að nánast allar sagnir sem bætast við í málinu eru af þeirri gerð, og þess vegna er –un það eina af þessum viðskeytum sem er notað eitthvað að ráði í nýmyndun orða – af öðrum sögnum er oftast löngu búið að mynda nafnorð, þótt það sé vissulega ekki algilt.

Stundum þróast orð með þessum viðskeytum yfir í það að merkja afurð verknaðarins, frekar en verknaðinn sjálfan. Þannig er t.d. með orðið teikning, sem getur vissulega merkt verknaðinn (teikning myndarinnar tók langan tíma) en er þó langoftast notað um afurðina (teikningin er falleg). Þá er stundum myndað nýtt orð með öðru viðskeyti af sögninni til að tákna verknaðinn – í þessu tilviki orðið teiknun sem aldrei getur merkt afurðina.

Vegna þess að -un er langvirkast af þessum viðskeytum er það stundum notað á sagnir af öðrum flokkum en hefð er fyrir. Í Málvöndunarþættinum á Facebook var í dag til umræðu orðið afmáning sem kom fyrir í frétt í Morgunblaðinu og kom sumum spánskt fyrir sjónir – vildu heldur nota afmáun. Hvorugt orðið er reyndar nýtt – bæði koma fyrir þegar á 19. öld. En vegna þess að sögnin afmá endar ekki á -aði í þátíð samræmist afmáning málhefðinni betur en afmáun. Hvort það dugi til að hafna afmáun læt ég liggja milli hluta, og hvort orðið fer betur í málinu er vitanlega smekksatriði.

Í tengslum við þessa umræðu var nefnt orðið horfun. Þetta orð kom skyndilega inn í málið síðla árs 1986 þegar Stöð 2 hóf útsendingar og fór að metast við Ríkissjónvarpið um það á hvora stöðina væri meira horft. Þá var búið til nafnorðið horfun (og jafnvel áhorfun), væntanlega með hlustun sem fyrirmynd. En sú fyrirmynd var ekki heppileg því að þótt hlusta endi á -aði í þátíð og myndi eðlilega nafnorð með -un gerir horfa það ekki – enda ömuðust margir við þessu orði. Það var þó mikið notað næstu árin (eins og sjá má á tímarit.is). En eftir 1994 dettur það nær algerlega úr notkun og orðið áhorf (sem er gamalt en Baldur Jónsson prófessor hafði stungið upp á að nota þegar 1987) kemur í staðinn.

Posted on

Ný lýsingarorð

Nýleg lýsingarorð sem enda á -aður og lýsa ástandi eða eiginleikum fólks hafa undanfarið verið til umræðu í Málvöndunarþættinum á Facebook – orð eins og lyfjaður, verkjaður, vímaður og fleiri. Mörgum finnst þessi orð torkennileg, eins og algengt er með ný orð, og amast heldur við þeim. En er ástæða til þess?

Vissulega er oft hægt að haga máli sínu þannig að þessara orða sé ekki þörf. Í stað þess að segja að einhver sé vímaður má eins segja að hann sé í vímu, í stað þess að einhver sé lyfjaður má segja að hann sé undir áhrifum lyfja o.s.frv. En það eru ekki í sjálfu sér rök gegn orðunum að hægt sé að orða hlutina á annan hátt.

Einu málfræðilegu rökin sem ég hef séð gegn orðum af þessu tagi eru þau að lýsingarorð sem enda á -aður séu yfirleitt upprunalega lýsingarháttur þátíðar af sögnum – sofnaður af sofna, grunaður af gruna, blandaður af blanda o.s.frv. Orðin sem nefnd eru í upphafi eru hins vegar leidd af nafnorðum.

Það er þó ekki einsdæmi að lýsingarorð af þessu tagi séu (eða virðist vera) leidd af nafnorðum. Nefna má orð eins og gallaður, gáfaður, kjarkaður, skeggjaður, timbraður, ættaður og fleiri þar sem ekki verður séð að sögn liggi að baki – auk samsetninga eins og (ber)rassaður, (kald)rifjaður, (rauð)nefjaður, (tví)eggjaður o.fl.

Mörg slík orð eru e.t.v. upphaflega leidd af sögn sem er sjaldgæf eða horfin úr málinu, en samstofna nafnorð algengt. Þannig er það t.d. með orð eins og skýjaður og vængjaður – sagnirnar skýja og vængja eru mjög sjaldgæfar en nafnorðin ský og vængur mjög algeng. Þá er eðlilegt að málnotendur túlki það svo að lýsingarorðið sé leitt af nafnorðinu.

Oft er sagt að í nútímamáli sé tilhneiging til að ofnota nafnorð. Í þessu tilviki er verið að draga úr notkun nafnorða, þótt í litlu sé, með því að nota lýsingarorð í staðinn. Að öllu samanlögðu sé ég enga ástæðu til að amast við orðum af því tagi sem nefnd eru í upphafi. Hins vegar þurfum við auðvitað tíma til að venjast þeim eins og öðrum nýjum orðum.

Posted on

Að byggja veg

Sögnin byggja er iðulega notuð þar sem ýmsum finnst að aðrar sagnir ættu betur við. Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að byggja hús og ýmislegt fleira en hins vegar að smíða skip, leggja vegi og gangstéttir.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 eru tekin dæmin „Þarna var byggður vegur í fyrra“ og „Þar var byggður flugvöllur í fyrra“ og sagt að rétt væri lagður eða gerður vegur og gerður flugvöllur. Í nútímamáli er sögnin yfirleitt tengd einhvers konar byggingum, yfirleitt húsum, en í fornu máli merkti hún 'nema, taka sér bólfestu' – „Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland“ segir í Landnámabók.

Þá sjaldan talað er um að byggja hús í forntextum merkir það 'dveljast í húsi' – „Þessa skemmu byggði jarlsdóttir og hennar þjónustukonur“ segir í Víglundar sögu. Síðan hliðrast merkingin þannig að byggja hús fer að merkja 'reisa hús' eins og t.d. í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar 1540 – „sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi“. Í margar aldir voru einhvers konar hús nánast einu mannvirkin sem gerð voru á Íslandi, og því eðlilegt að merking byggja væri tengd við hús. En þetta fór að breytast á 19. öld og þá var farið að nota sögnina um margvísleg önnur mannvirki og manngerða hluti hérlendis og erlendis.

Í Skírni 1827 segir: „Egyptalands stjórnari hefur látid mörg og stór herskip byggja“ og í Skírni 1843 segir: „Í ágústmánaði í firra sumar var birjað á að biggja tvær fjarskamiklar járnbrautir í Austurríkji“. Á 20. öld bætast svo við fjölmörg orð – „á nú að byggja til viðbótar 326 flugvélar og 10 stór loftskip“ segir í Morgunblaðinu 1914, og elsta dæmi um byggja flugvöll er úr Sovétvininum 1934: „Einnig ruddu þeir ísinn á stórum svæðum og byggðu »flugvelli«.“

Elsta dæmi sem ég hef fundið um byggja veg er í Víkverja 1874 þar sem segir: „hvergi á Suðurlandinu er neinum örðugleikum bundið að byggja vegi sem aka má vögnum á“. Um þær mundir var skipuleg vegagerð að hefjast á Íslandi og þetta orðalag virðist stafa af þeirri tilfinningu málnotenda að um einhvers konar „byggingu“ sé að ræða og orðið þá haft í merkingunni 'mannvirki' eða eitthvað slíkt. Þetta sést þegar orðin vegur og stígur eru borin saman. Á tímarit.is má finna a.m.k. tvö hundruð dæmi um sambandið leggja stíg, en aðeins fjögur um byggja stíg, öll frá seinustu árum.

Í þeim dæmum er um að ræða raunveruleg mannvirki, eins og sést á frásögn í Fréttablaðinu 2013 um framkvæmdir á Þingvöllum: „Verja eigi allt að 60 milljónum króna til að byggja stíga, palla og girðingar.“ Margir nýlegir stígar á Þingvöllum eru einmitt timburmannvirki. Svipað má segja um orðið slóð – allmörg dæmi eru um leggja slóð en engin um byggja slóð. Þetta er varla tilviljun heldur hlýtur að sýna að í máltilfinningu fólks eru hvorki stígar né slóðir neins konar byggingar, þótt vegir séu það samkvæmt máltilfinningu margra. Það er því ekki hægt að kenna fákunnáttu málnotenda um orðalagið byggja veg, heldur veitir það okkur innsýn í tilfinningu þeirra fyrir merkingu orða.

Á tímarit.is má finna þúsundir dæma frá síðustu tveimur öldum um að sögnin byggja sé notuð um ýmislegt sem ekki eru „byggingar“ í hefðbundnum skilningi. Það virðist ljóst að í máli mjög margra hefur sögnin víðari merkingu en kennt hefur verið og er notuð um margvísleg mannvirki og manngerða hluti. En sá greinarmunur sem málnotendur gera á vegum annars vegar og stígum og slóðum hins vegar er gott dæmi um að tilbrigði í máli eiga oft rætur í máltilfinningu sem ekki er endilega ástæða til að berja niður. Það er engin ástæða til að amast við því að tala um að byggja vegi eða byggja flugvelli.

Posted on

Þjóðfélagsbreytingar og málfar

Ég sé oft á Fésbók, m.a. í þessum hópi, að fólk furðar sig eða hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna. Það er alveg skiljanlegt – ég stend mig iðulega að því sjálfur að hrista hausinn yfir einhverju sem ég sé eða heyri í fréttum og brýtur í bága við það málfar og orðfæri sem ég þekki og ólst upp við. En ég er kominn á sjötugsaldur - alinn upp í sveit fyrir u.þ.b. hálfri öld. Það umhverfi sem blaðamenn (og annað fólk) á þrítugsaldri hafa alist upp í er gerólíkt – á nánast öllum sviðum. Samfélagið hefur gerbreyst, tæknin hefur gerbreyst, tengsl við útlönd hafa margfaldast - allt umhverfi okkar hefur breyst meira en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.

Og breytt þjóðfélag þýðir líka breytt málumhverfi og því fylgir breytt orðfæri – það þarf að tala um ótalmörg ný hugtök, fyrirbæri og svið þjóðlífsins, en ýmis hugtök, fyrirbæri og svið sem flestir þekktu fyrir nokkrum áratugum eru nú á fárra vörum eða jafnvel aðeins minning. Þess vegna er ekki við því að búast að fólk á þrítugsaldri hafi vald á öllu sama orðfæri og við sem munum tímana tvenna. Það hefur einfaldlega ekki fengið tækifæri til að tileinka sér það orðfæri sem tíðkaðist á ýmsum sviðum. En á móti kann þetta unga fólk að tala um allt mögulegt sem við höfum ekki hundsvit á.

Þetta þýðir ekki að við eigum bara að yppta öxlum og láta það afskiptalaust ef brugðið er út af málhefð, þótt rétt sé að hafa í huga að stundum er til önnur hefð en sú sem við þekkjum – hefðir geta verið mismunandi eftir landshlutum, og til getur verið eldri eða yngri hefð en sú sem við höfum vanist. Það er sjálfsagt að leitast við að halda í það orðfæri sem hefð er fyrir, og benda á ef út af bregður. En það er heppilegra að gera það í formi fræðslu og ábendinga en furðu og hneykslunar, þar sem jafnvel er gert lítið úr þeim sem verður eitthvað á að mati umvandara. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málbreytingar, málvillur og málstaðall

Góðir áheyrendur.

Ég þakka fyrir boð um að tala hér á þessu málþingi. Tungumálatöfrar eru mjög merkilegt framtak og ég óska gömlum nemanda mínum, Önnu Hildi, og öðrum aðstandendum til hamingju með það. Í byrjun ætla ég að ræða svolítið um hverjir þessir töfrar tungumálsins séu.

Í hverju tungumáli felast menningarverðmæti. Sérhvert tungumál er einstakt á einhvern hátt – orðaforði þess, setningagerð og hljóðkerfi eru frábrugðin öllum öðrum tungumálum, merk­ingar­blæbrigðin sem það getur tjáð geyma reynslu kynslóðanna og eru önnur en í öðrum málum. Tungumál sem deyr er að eilífu glatað – þótt við höfum um það miklar ritheimildir og upptökur, sem sjaldnast er, verður það aldrei endurvakið í sömu mynd því að tungumál lærist ekki til hlítar nema berast frá manni til manns – frá foreldrum til barna.

Sérhvert tungumál er líka merkilegt og einstakt frá fræðilegu sjónarmiði vegna þess að það getur hjálpað okkur að komast að einhverju um eðli mannlegs máls. Íslenska er t.d. viðfangsefni fræðimanna víða um heim og dæmi úr íslensku eru notuð í kennslu í miklum fjölda erlendra háskóla. Ástæðan er ekki síst sú að íslenskan er náskyld ensku og lík henni á margan hátt, þannig að auðvelt er að bera málin saman og láta sérkenni íslenskunnar í beygingum og setn­inga­­gerð varpa ljósi á eðli mismunar málanna og ýmissa fyrirbæra í þeim.

Á Íslandi er tungumálið er líka beintenging okkar við sögu og menningu þjóðarinnar fyrr á tímum. Íslendingar njóta þeirra forréttinda umfram flestar aðrar þjóðir að geta tiltölulega auð­veld­lega lesið texta allar götur frá upphafi ritaldar fyrir 900 árum, án þess að þeir séu þýddir á nútímamál. Ef íslenskan tekur róttækum breytingum, eða hættir að vera lifandi tungumál, missum við ekki bara bein tengsl við Hávamál og Njálu, heldur líka við Íslenskan aðal og Íslandsklukkuna, Engla alheimsins og Kalda­ljós, og meira að segja Ungfrú Ísland og Sextíu kíló af sólskini.

Vitanlega er tungumálið ekki síður félagslegt fyrirbæri – langsamlega mikil­vægasta sam­skipta­tæki okkar við annað fólk. Þess vegna má það ekki staðna, heldur þarf að vera lifandi og laga sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Hún verður að þola tilbrigði í fram­burði, beyg­ingum og setningagerð, og að ný orð komi inn í málið og gömul orð fái nýja merkingu. Hún má ekki verða einkaeign ákveðinna hópa, og það má ekki nota hana og tilbrigði í beitingu hennar til að mismuna fólki eða skipa því í andstæðar fylkingar. Við þurfum að styðja þau sem vilja lifa og starfa í íslensku samfélagi til að ná góðu valdi á þessu mikilvæga samskiptatæki en megum ekki láta takmarkaða íslenskukunnáttu fólks bitna á því á nokkurn hátt.

En síðast en ekki síst er tungumálið útrás fyrir tilfinningar okkar – ást og gleði, hatur og reiði, sorg og hryggð, vonir og þrár – en líka tæki okkar til sköpunar, miðlunar og frjórrar hugsunar. Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði, móður­mál okkar, er hluti af okkur sjálfum, einkaeign okkar jafnframt því að vera sam­eign alls málsamfélagsins og í vissum skilningi alls mannkyns. Þetta hljómar eins og þversögn – og er þversögn. Það er ekki einfalt að umgangast málið þannig að öll hlutverk þess séu höfð í heiðri.

Það er samt það sem við þurfum að reyna að gera – með umburðar­lyndi, virðingu og tillitssemi að leiðarljósi. En því miður skortir oft á það í umræðum um tungumálið. Fjöldi fólks stundar það að hnýta í málfar annarra sem tala ekki eins og þessum sjálfskipuðu verndurum tungunnar þykir rétt – fólks sem fylgir ekki hinum óopinbera íslenska málstaðli.  Þessi málstaðall, viðmið um rétt mál og rangt, varð til á 19. öld þótt rætur hans séu vissulega í fornmáli, og komst í endanlegt form á fyrri hluta 20. aldar. Hann miðast því við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80–100 árum. Síðan þá hefur eiginlega allt breyst í íslensku þjóðfélagi og það væri mjög undarlegt ef sama málsnið þjónaði þörfum okkar núna og fyrir einni öld. Enda er það auðvitað ekki svo. Íslenskan – daglegt mál – hefur breyst talsvert undanfarna öld. Ýmsar málbreytingar hafa komið upp og breiðst út, og jafnvel náð til verulegs hluta landsmanna, án þess að verða hluti af staðlinum.

Samkvæmt þessum staðli á ekki að segja „mér langar“ heldur „mig langar“, ekki „ég vill“ heldur „ég vil“, ekki „við hvorn annan“ heldur „hvor við annan“ ekki „hjá sitthvorri“ heldur „sinn hjá hvorri“, ekki „ef hann sé heima“ heldur „ef hann er heima“, ekki „eins og mamma sín“ heldur „eins og mamma hennar“, ekki „vegna lagningu“ heldur „vegna lagningar“, ekki „það var hrint mér“ heldur „mér var hrint“, ekki „rétta upp hendi“ heldur „rétta upp hönd“, ekki „ég er ekki að skilja þetta“ heldur „ég skil þetta ekki“, ekki „báðir tónleikarnir“ heldur – ja, hvað? „Hvorir tveggja tónleikarnir“? „Hvorirtveggju tónleikarnir“? Hver segir það eiginlega?

Það sem ekki á að segja, þau afbrigði sem samræmast ekki staðlinum, eru kölluð málvillur, þrátt fyrir að talsverður hluti þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli – í sumum tilvikum meirihluti – noti þau. En hugum aðeins að því hvað við erum að segja með þessu. Erum við að segja að fólk sem elst upp í íslensku málumhverfi og tileinkar sér íslensku á máltökuskeiði kunni ekki íslensku? Getur málbreyting sem hefur náð til umtalsverðs hluta málnotenda verið villa? Hvaða vit er í því? Athugið að málstaðallinn sem notaður er til að skilgreina villurnar er mannanna verk, og það er á margan hátt tilviljanakennt hvað rataði inn í hann. Margar breytingar sem orðið hafa frá fornmáli komust inn í staðalinn og eru viðurkenndar og ekki taldar villur.

Þetta táknar ekki að rétt sé að viðurkenna öll afbrigði frá staðlinum, eða vísa hugtakinu málvilla út í hafsauga. Mér finnst alltaf best að nota skilgreiningu nefndar um „málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum“ frá 1986: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Í samræmi við þetta er alveg eðlilegt að kalla tilviljanakennd og einstaklingsbundin frávik frá staðlinum málvillur, en ef frávikin eru farin að ná til hóps af fólki og börn farin að tileinka sér þau á máltökuskeiði er eðlilegt að tala um málbreytingu en ekki villu. Það er að mínu mati mjög brýnt að breyta málstaðlinum sem hefur gilt undanfarna öld, viðurkenna staðreyndir og taka inn í staðalinn ýmsar breytingar sem hafa verið í gangi og verða ekki stöðvaðar.

Það má nefnilega ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist ís­lensk­an ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Þótt sumir tali svolítið öðruvísi íslensku en þá sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum gefur það mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana. Íslenskan er nefnilega alls konar. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Og síðast en ekki síst: Íslenska með hreim og beygingarvillum er líka íslenska.

Fyrir viku, laugardaginn 1. júní, birtist í Fréttablaðinu frábær pistill eftir Sif Sigmarsdóttur, rithöfund í London og annan gamlan nemanda minn. Þar segir meðal annars:

Eins og margir íslenskir foreldrar sem búa erlendis hélt ég í einfeldni minni að börnin yrðu fyrirhafnarlaust jafnvíg á íslensku og ensku. En þvert á það sem ég hafði heyrt verða börn ekki sjálfkrafa tvítyngd. Þótt báðir foreldrar á heimilinu séu íslenskir, tali alltaf íslensku, lesi fyrir börnin á íslensku og hrifsi daglega af þeim Netflix-fjarstýringuna og neyði þau til að horfa á rispaðan DVD-disk með Skoppu og Skrítlu er enskan þeim tamari.

Tungumál í lífi tvítyngdra barna eiga í stöðugri samkeppni. Tungumálið sem er ríkjandi í umhverfi þeirra – tungumálið sem er talað í skólanum, sem vinirnir tala og þau heyra í sjónvarpinu – nær oft yfirhöndinni.

Hér á Íslandi er þetta enn flóknara fyrir börn af erlendum uppruna og samkeppnin enn meiri. Þau hafa tungumál foreldranna á heimilinu, íslenskuna í skólanum, en enskuna í sjónvarpinu og á netinu. Þau þurfa í raun að vera þrítyngd. Rannsóknir sýna að í fjöltyngdu umhverfi, eins og þessi börn búa í, skiptir viðhorf til tungumálanna miklu máli. Ef börnin tengja íslenskuna fyrst og fremst við skólann, þar sem þau standa oft höllum fæti, en enskuna við skemmtun og afþreyingu er veruleg hætta á að þau leggi ekki rækt við íslenskuna og hún verði undir. Þess vegna skiptir gífurlegu máli að sinna þessum börnum vel og sjá til þess að íslenskan í umhverfi þeirra verði skemmtileg.

Fyrir ári hafði blaðið Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík, samband við mig og bað mig að svara spurningunni „Why is Icelandic such a difficult language to learn?“ eða „Hvers vegna er íslenska svona erfið?“. Þetta er goðsögn sem margir þekkja, að íslenska sé með erfiðustu málum. Vissulega er ýmislegt í íslensku sem getur verið snúið, en það fer þó að talsverðu leyti eftir móðurmáli málnemans og þeim tungumálum sem hann hefur haft kynni af. Íslenska hefur ríkulegar beygingar miðað við ensku t.d., en slíkt ætti ekki að koma fólki af slavneskum uppruna á óvart. Það eru ákveðin sérkenni í íslensku hljóðkerfi og setningagerð sem geta vafist fyrir útlendingum, en þegar á heildina er litið er varla hægt að segja að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál.

En hitt er vissulega rétt að mörgum útlendingum finnst íslenska erfið og hika við að tala hana við Íslendinga. Ég held að ein ástæðan fyrir því sé sú að Íslendingar eru ekki – eða hafa ekki verið – sérlega umburðarlyndir gagnvart beygingarvillum, erlendum hreim, og öðrum merkjum um ófullkomna íslensku. Ísland var til skamms tíma eintyngt samfélag og við vorum því ekki vön því að heyra útlendinga reyna að tala málið og hætti til að gagnrýna tilraunir þeirra til þess harkalega. En málfærni fæst ekki nema með æfingu, og til að ná valdi á tungumáli þurfum við að fá tækifæri til að nota það við mismunandi aðstæður. Því miður eru Íslendingar mjög gjarnir á að skipta yfir í ensku um leið og þeir átta sig á því að viðmælandinn talar íslensku ekki reiprennandi. Þetta þarf að breytast – við þurfum að vera þolinmóðari og umburðarlyndari gagnvart ófullkominni íslensku.

Það er hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að samfélags- og tækni­breytingar síðustu 10 ára eða svo valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum. Eins og áður segir ræður viðhorf málnotenda til móðurmáls síns, ekki síst við­horf ungu kynslóðarinnar, miklu um framtíðarhorfur málsins. Það eru ýmsar vísbendingar um að ungir Íslendingar líti ekki á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfs­mynd sinni og þau sem eldri eru og hafi ekki jafnjákvætt viðhorf til málsins. Ungt fólk nú á dögum sér allan heiminn sem leiksvið sitt – það vill geta lært, starfað og búið erlendis og veit að íslenskan gagnast því lítið utan Íslands. Ef ekki verður heldur hægt að nota málið alls staðar á Íslandi, og jafnvel ekki inni á heimilinu í samskiptum við stafræna aðstoðarmenn og önnur tölvustýrð tæki, er hætt við að unga kyn­slóðin missi trú á íslenskuna og gagnsemi hennar.

Grundvöllur að framtíð íslenskunnar er lagður á máltökuskeiði. Ekkert er jafnmikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að styrkja íslenskuna – að því tilskildu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals með börnum sínum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar geti áfram notað íslensku á öllum sviðum – og vilji gera það.

Takk fyrir áheyrnina – áfram íslenska!