Að brenna fyrir eitthvað/einhverju

Sambandið brenna fyrir einhverju er mjög algengt um þessar mundir, og ég fór að skoða það í framhaldi af því að hér var spurt í gær hvernig það væri hugsað. Þá kom í ljós að þrátt fyrir tíðni þess er það ekki að finna í helstu orðabókum, hvorki Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók. Merkingin er þó ljós – eitthvað í átt við 'vera einhverjum hjartans mál' eða 'bera eitthvað fyrir brjósti'. Sögnin brenna er líka notuð í ýmsum samböndum skyldrar merkingar, eins og hafa brennandi áhuga á einhverju, vera brennandi í andanum, eitthvað brennur á einhverjum, og einnig er talað um eldhuga. Það er því ekki hægt að segja annað en merkingin í brenna fyrir einhverju sé eðlileg og gagnsæ út frá öðrum samböndum í málinu.

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið í þessari merkingu er í Bjarma 1954: „Enn í dag skapar hann nýja menn, sem brenna fyrir því að flytja orð hans og ríki til annarra.“ Næsta dæmi er líka í Bjarma 1961: „Hann kallar oss til starfa meðal kynslóðar vorrar og felur oss hlutverk, sem vér hljótum að brenna fyrir að vinna að.“ Þriðja dæmið er í Morgunblaðinu 1961: „Því að aðeins menn, sem brenna fyrir hinu rétta geta gert sér vonir um að bera sigurorð af þeim, sem berjast fyrir hinu ranga.“ Fjórða dæmi er í Bjarma 1970: „Það er gleðilegt að sjá, að hér eru einnig nokkrir, sem brenna fyrir útbreiðslu Guðs ríkis.“ Athyglisvert er að í öllum þessum dæmum er verið að fjalla um trúarleg efni, sem og í einu dæmi til viðbótar frá síðustu öld, í Bjarma 1997.

Ég finn sem sé aðeins fimm dæmi frá því fyrir aldamót, og 25-30 til viðbótar fram til 2013. En á árunum 2014-2015 verður þetta samband skyndilega mjög algengt og fljótlega eftir það fór sumum að þykja nóg um. Þannig segir Jón Sigurðsson í grein í Skírni 2017: „Núorðið eru menn ekki brennandi í andanum, fullir brennandi áhuga eða eldheitir hugsjónamenn, heldur heyrist oft sagt: ,,Hann brennur fyrir náttúruvernd.“ En tíðni sambandsins í þessari merkingu hefur þó margfaldast síðan 2017 – sennilega eru a.m.k. þúsund dæmi um það í Risamálheildinni frá síðustu fimm árum (útilokað er að nefna nákvæma tölu vegna þess að sambandið brenna fyrir getur líka haft aðrar merkingar). Það er sannarlega hægt að tala um þetta sem tískuorðasamband.

Það er ekki gott að segja hvernig þetta samband kemur upp, og enn óljósara hvers vegna það verður skyndilega svona vinsælt. Í umræðum var bent á að það ætti sér hliðstæðu í dönsku (þar sem það þætti líka ofnotað), brænde for noget sem skýrt er „være meget ivrig og engageret“ eða 'vera mjög ákafur og áhugasamur' og hefur því sömu merkingu og íslenska sambandið. En áhrif dönsku á íslensku eru sáralítil núorðið og einhvern veginn finnst mér ekki líklegt að sprengingu í notkun þess megi rekja til dönsku. Í ensku er einnig til burn for someone or something sem skýrt er „to desire someone or something very much“ eða 'þrá einhvern eða eitthvað mjög mikið' sem er skylt en þó dálítið annað og óvíst að það skýri notkunina í íslensku.

Þótt sambandið sé ekki í orðabókum eins og áður segir kemur það fyrir í Málfarsbankanum sem segir: „Frekar er sagt brenna fyrir einhverju en brenna fyrir eitthvað.“ Vissulega er notað þágufall í elstu dæmunum en þolfall kemur samt fljótlega fram – „Við þurfum hjörtu sem brenna fyrir sannleikann og þekkinguna á Guði“ segir í Bjarma 1997. Í fljótu bragði sýnist mér að þágufallið sé heldur algengara en þolfallið. Val þágufalls fram yfir þolfall gæti því byggst bæði á aldri og tíðni, en í hvorugu er þó grundvallarmunur á föllunum. Það er hins vegar athyglisvert að Málfarsbankinn nefnir aðeins hvoru fallinu er mælt með, en gerir enga athugasemd við notkun sambandsins yfirleitt, enda engin ástæða til að amast við því.

Nýju verkalýðsfélög ríkisins

Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Sagt var: Þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins. Rétt væri: Þeir ganga í verkalýðsfélög ríkisins. Eða: Þeir ganga í hin nýju verkalýðsfélög ríkisins.“ Þetta skýrist af þeirri almennu reglu að (í máli flestra) er ákveðinn greinir ekki hafður á nafnorði sem tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli (eignarfallseinkunn – *bókin Jóns). Þótt við getum sagt þeir ganga í nýju verkalýðsfélögin gengur *þeir ganga í nýju verkalýðsfélögin ríkisins ekki, heldur verður að sleppa greininum og þá fáum við þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins. En það leysir samt ekki vandann því að venjulega standa lýsingarorð í veikri beygingu, eins og nýju þarna, aðeins með ákveðnum nafnorðum, eins og verkalýðsfélögin.

Þess vegna er setningin þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins ekki talin rétt í Gætum tungunnar en settar fram tvær tillögur í staðinn. Önnur er þeir ganga í verkalýðsfélög ríkisins – þar er lýsingarorðið haft í sterkri beygingu í stað veikrar, í stað nýju. Eins og áður segir standa lýsingarorð í veikri beygingu venjulega með ákveðnum nafnorðum, þ.e. nafnorðum með ákveðnum greini (nýju verkalýðsfélögin), en lýsingarorð í sterkri beygingu með óákveðnum nafnorðum (ný verkalýðsfélög). Þetta gengur því upp setningafræðilega en gallinn við það er að merkingin er ekki alveg sú sama. Ef sagt er þeir ganga í ný verkalýðsfélög ríkisins er eins og verið sé að kynna þessi félög til sögunnar – þau hafi ekki verið nefnd áður. Það er óheppilegt.

Hinn kosturinn sem nefndur er í Gætum tungunnar er að nota lausan greini í stað þess viðskeytta – þeir ganga í hin nýju verkalýðsfélög ríkisins. Það gengur vissulega upp setningafræðilega því að lausi greinirinn lýtur öðrum lögmálum á því sviði en sá viðskeytti. En í staðinn kemur annar vandi – hætta á stílbroti. Mörður Árnason segir um dæmi af þessu tagi í Málkrókum: „Hugsanlega á hér þátt feimni við lausa greininn, að mönnum finnist ankannalegt að nota hinn – hin – hið framanvið lýsingarorðið og nafnorðið, óþarflega stirt og hátíðlegt. Á því hefur að minnsta kosti borið síðari ár að ritfært fólk og vel máli farið, einkum af yngri kynslóð, forðast þetta stílbrigði, væntanlega af því að það hefur hátíðlegan blæ og getur valdið stirðleika.“

Þetta er alveg rétt og samræmist t.d. því að dæmi um lausan greini í þeim hluta Risamálheildarinnar sem helst sýnir óformlegt málsnið, samfélagsmiðlahlutanum, eru margfalt færri en í öðrum hlutum hennar. En Mörður bendir reyndar á fleiri leiðir en nefndar eru í Gætum tungunnar. Í staðinn fyrir að nota eignarfallseinkunn í útgerðin er nauðsynlegi hluti atvinnulífsins megi setja forsetningarlið og segja nauðsynlegi hlutinn af atvinnulífinu eða snúa orðaröðinni við og segja atvinnulífsins nauðsynlegi hluti – sem hann viðurkennir að vísu að sé „á jaðri venjulegrar íslensku“. En Mörður hallast þó að lausa greininum og segir: „Í réttu samhengi er þetta málform einsog konungur á veldisstóli, og stundum er einskis annars kostur.“

Ég verð að játa að mér finnst enginn kostur góður í þessu. Mér finnst setningar eins og sú sem amast er við í Gætum tungunnar, þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins, ekki fullkomlega eðlilegar, og ekki heldur seldar voru veitingar í nýja mötuneyti skólans, nýju nemendur hefja nám í dag, en eldri á morgun, útgerðin er nauðsynlegi hluti atvinnulífsins og ríkisendurskoðun er góði hirðir opinberra stofnana svo að vitnað sé í dæmi úr Gætum tungunnar og Málkrókum. En mér finnst ekki ganga að nota sterka beygingu í þessum dæmum því að það breytir merkingunni, og mér finnst lausi greinirinn oftast of formlegur. Fyrir utan einhvers konar umorðun er líklega þrátt fyrir allt skást að segja það sem „sagt var“ í Gætum tungunnar.

Hundruðir

Orðin hundrað og þúsund eru oft spyrt saman sem von er vegna merkingarlegrar hliðstæðu, en á þeim er einn grundvallarmunur – þúsund var þegar í fornu máli til sem bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð og hvort tveggja er fullkomlega viðurkennt í nútímamáli, en hundrað er aðeins viðurkennt sem hvorugkynsorð. Í kverinu Gætum tungunnar segir t.d.: „Sést hefur: Hundruðir manna voru drepnir. Rétt væri: Hundruð manna voru drepin. (Fleirtalan af hundrað er hundruð, en af þúsund ýmist þúsund eða þúsundir.)“ Kvenkynsmyndin hundruðir sem þarna er varað við er þó mjög algeng í nefnifalli og þolfalli fleirtölu – hátt á þriðja þúsund dæma er um hana á tímarit.is og á fimmta þúsund í Risamálheildinni, þar af talsverður hluti úr formlegu málsniði.

Elsta dæmi sem ég finn um kvenkynsfleirtöluna hundruðir er í Lögbergi 1895, og nokkur elstu dæmin eru úr vesturíslensku blöðunum þar sem þessi fleirtala var alla tíð algeng. En í Morgunblaðinu 1916 segir: „Hundruðir þúsunda hraustra ungra manna hafa fallið á vígvellinum fyrir Þýzkaland“, og upp úr því sést slæðingur af dæmum um þessa fleirtölu í íslenskum blöðum þótt hún verði aldrei mjög algeng á prenti enda löngum amast við henni. Elsta dæmi sem ég finn um athugasemd við hana er í Einingu 1954 þar sem vitnað er í erindi Magnúsar Finnbogasonar menntaskólakennara sem sagði: „Ekki hundruðir – heldur hundruð.“ Fjölmörg önnur dæmi má finna, t.d. fjallaði Gísli Jónsson margsinnis um hundruðir í Morgunblaðinu.

Varla leikur vafi á því að kvenkynsfleirtalan hundruðir hefur orðið til fyrir áhrif frá kvenkynsfleirtölunni þúsundir. Það hefði e.t.v. mátt búast við að myndin yrði hundraðir, þ.e. eintalan hundrað væri tekin og bætt við hana fleirtöluendingu kvenkyns, -ir. Vissulega má finna fáein dæmi um hundraðir og Þórunn Guðmundsdóttir sagði t.d. í Morgunblaðinu 1989: „Stundum hefi ég heyrt menn segja; „hundraðir“ í útvarpi. Seinast Bjarna Felixson í gær. Ætti þá eintalan að vera einn „hundruður“ samkvæmt því.“ En venjulega er þó fleirtöluendingu kvenkyns, -ir, bætt við fleirtölumynd hvorugkyns, hundruð. Því má segja að fleirtalan sé táknuð á tvennan hátt í hundruðir, bæði með hljóðbreytingunni a > u og með endingunni -ir.

Í þessu sambandi má benda á að hundrað er aldrei notað í kvenkyni í eintölu (sem ætti þá væntanlega að vera hundruð) – aldrei sagt *ein hundruð. Sama máli gegnir raunar með þúsund – andstætt því sem segir á Vísindavefnum er kvenkyn þess orðs varla til nema í fleirtölu eins og Málfarsbankinn bendir á. Í lesendabréfi í Alþýðublaðinu 1940 var þó spurt: „Hvort er réttara, að segja eitt þúsund eða ein þúsund, eins og t. d. Helgi Hjörvar gerir?“ Hannes á horninu svaraði: „Það mun réttara að segja ein þúsund, því að þúsund er kvenkyns. Það er víst yfirleitt óhætt að reiða sig á íslenzkuna hans Hjörvars.“ Það er þó væntanlega eðlilegt að líta svo á að spurningin snúist um kyn orðsins fremur en hvort eðlilegt sé að nota kvenkynið í eintölu.

En fleira er sérstakt um orðið hundrað. Í Málfarsbankanum segir: „Orðið hundrað er ýmist nafnorð í hvorugkyni (hundrað manna; ég mætti hundruðum manna á leiðinni) eða óbeygjanlegt lýsingarorð (hundrað manns; hundrað menn; ég mætti hundrað mönnum á leiðinni).“ Þetta samræmist því að hægt er að nota manns með hundrað en yfirleitt er eingöngu hægt að nota manns með óbeygjanlegum tölum (átta, tólf, tuttugu o.s.frv.) og tölum sem líta út fyrir að vera óbeygjanlegar (þúsund) eða eru hafðar óbeygðar (milljón). En hundrað er þó ekki óbeygjanlegt með öllu í stöðu lýsingarorðs – þótt það fallbeygist ekki beygist það í tölu, því að sagt er ég mætti tvö hundruð mönnum á leiðinni, alls ekki *tvö hundrað mönnum.

Hegðun talna og töluorða er um margt sérstök og flókin, eins og ég hef t.d. nýlega skrifað um í sambandi við númer – stundum beygjast tölur ekki þótt við því væri að búast út frá setningarlegri stöðu þeirra. En hér er ekki vettvangur til að gera því efni ítarleg skil, og hvað sem því líður er mál til komið að taka fleirtöluna hundruðir í sátt. Hún er eðlileg hliðstæða við þúsundir, á sér meira en hundrað ára sögu í málinu, er mjög algeng, og hefur náð fótfestu í formlegu málsniði eins og sjá má af tíðni hennar í prentuðum dagblöðum. Hún fullnægir öllum skilyrðum sem eðlilegt er að setja fyrir því að teljast málvenja og þar með eru engar forsendur eru til annars en telja hana rétt og eðlilegt mál.

Ég bý á númer tvö

Hvorugkynsorðið númer er tökuorð í íslensku, komið inn í málið um 1800 úr nummer í dönsku sem aftur er komið af numerus í latínu eins og fram kemur í Íslenskri orðsifjabók. Orðið beygist eins og önnur sterk hvorugkynsorð – bætir við sig -i í þágufalli og -s í eignarfalli eintölu, númeri og númers, og svo -um í þágufalli og -a í eignarfalli fleirtölu, númerum og númera. Í Skuld 1882 segir t.d.: „Mun þess getið aftast á hverju númeri, hvenær næsta blað komi út.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Júní er skoðunarmánuður bíla með 6 í endastaf númers.“ Í Þjóðviljanum 1940 segir: „Á morgun er síðasti dagur, sem menn eiga rétt á sömu númerum sem í fyrra.“ Í Alþýðublaðinu 1970 segir: „Mér hefur skilizt, að þetta sé 200 númera stöð.“

Þrátt fyrir þetta er mjög algengt að númer sé haft óbeygt – taki ekki þær endingar sem búast mætti við út frá setningarstöðu. Í Fálkanum 1961 segir: „Ég, segir hún, ég bý á númer sjö.“ Í Fréttablaðinu 2004 segir: „Sparisjóður Vélstjóra er í númer 18 og hefur verið í mörg ár.“ Í Morgunblaðinu 1991 segir: „Annars er söguþráðurinn þessi að drengurinn litli úr númer eitt er nú tekinn í fóstur hjá Simpson-fjölskyldunni.“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Hver maður hefir sitt númer, frá númer 2 til númer 37.“ Í Vísi 1981 segir: „Áður hefur verið synjað um slíkt leyfi vegna númer 8, Fjalakattarins.“ Þarna stendur númer á eftir forsetningum sem ýmist stjórna þágufalli eða eignarfalli og því hefði mátt búast við númeri eða númers – en það er útilokað.

Þetta gildir eingöngu ef einhver tala kemur á eftir orðinu númer – annars beygist það eins og við væri að búast og dæmi voru sýnd um hér að framan. En það er ekki bara númer sem er óbeygt við þessar aðstæður – tölurnar sem koma á eftir beygjast ekki heldur. Það kemur að vísu ekki fram í þessum dæmum þar sem tölurnar eru flestar skrifaðar með tölustöfum, en við vitum vel að það er ekki sagt t.d. *frá númer(i) tveim. Sama máli gegnir um tölur sem standa á eftir öðrum nafnorðum eins og í kafla tvö, ekki *í kafla tveim, á síðu þrjú, ekki *á síðu þrem, o.s.frv. Að vísu er hugsanlegt að líta svo á að þarna sé orðið númer að baki þótt það sé ekki sagt – í kafla númer tvö, á síðu númer þrjú o.s.frv. – en það skiptir í sjálfu sér ekki máli hér.

Tölurnar beygjast aðeins ef þær hafa tölugildi, ekki ef þær eru notaðar sem einhvers konar einkennismark. Við getum sagt ég bý í tveimur húsum en hins vegar ég bý á (númer) þrjátíu og tvö, ekki *þrjátíu og tveimur. Í þessu tilviki er (númer) þrjátíu og tvö eins konar heiti hússins sem ég bý í – það merkir ekki að þetta sé þrítugasta og annað hús í götunni. Ef orðið númer er notað á undan tölunni dregur það dám af henni og beygist ekki eins og fram hefur komið. En ef tölur einar og sér eru notaðar sem heiti einhvers fyrirbæris standa þær yfirleitt í karlkyni og beygjast. Á Laugavegi 22 í Reykjavík var lengi rekið Veitingahúsið 22 sem venjulega gekk undir nafninu Tuttugu og tveir. Fólk fór á Tuttugu og tvo og var á Tuttugu og tveimur.

Edda og íslenskan

Gleðilegt sumar! Sem fyrrverandi kennara í íslensku var mér boðið að vera við vígslu húss íslenskunnar, Eddu, í fyrradag, og í gær fór ég aftur í húsið til að skoða það betur og stóð lengi við. Mér finnst þetta stórkostlegt hús – gjörhugsað og glæsilegt, en án alls íburðar. Það er mikilsvert að þarna verður hægt að sýna almenningi helstu dýrgripi íslenskrar bókmenningar. Fyrir fimm árum sátum við hjónin um mánaðarskeið á bókasafni Trinity College í Dublin og horfðum daglega út um gluggann á langa biðröð fólks sem beið eftir að skoða þjóðardýrgrip Íra, Book of Kells. Það er vissulega falleg og merkileg bók en ekki hóti merkilegri en Flateyjarbók eða Konungsbók eddukvæða. Vonandi verður brátt komin röð fyrir utan Eddu.

Nafnið Edda var eiginlega sjálfgefið á þetta hús – hefur skírskotun til fornbókmenntanna, er lipurt og meðfærilegt, og er þekkt á alþjóðavettvangi. Það er samt mikilvægt að nafngiftin leiði ekki til þess að fólk tengi húsið og þá starfsemi sem þar á að fara fram eingöngu við fornan menningararf, því að þótt frábært sé að geta loks sýnt handritunum þann sóma sem þau eiga skilið er ekki síður nauðsynlegt að hlúa að íslenskunni á okkar tímum, efla hana og styrkja á allan hátt. Þess vegna þarf þjóðinni að finnast að hún eigi þetta hús og eigi erindi í það, og starfið sem þar fer fram komi henni við. Talið er að 12-14 þúsund manns hafi komið að skoða húsið í gær og það gefur vísbendingu um að þjóðin hafi áhuga á húsinu og væntanlegri starfsemi þar.

Meðal þess sem nú er brýnt að gera er að fjölga nemendum í íslensku en þeim hefur farið fækkandi undanfarin ár eins og ég hef áður skrifað um. Ég heiti á ykkur öll að hvetja ungt fólk sem þið þekkið til að kynna sér íslenskunám. Ég hef orðið var við að framhaldsskólanemar óttast oft að þau séu að loka einhverjum leiðum eða jafnvel fara inn í blindgötu með því að fara í háskólanám í íslensku – þau komist ekki í skiptinám til útlanda, og námið nýtist þeim hvergi nema á Íslandi og aðeins á þröngu sviði. Þau standa líka oft í þeirri meiningu að í háskólanámi í íslensku sé bara verið að gera meira af því sama og þau hafa verið að gera í skólagöngu sinni fram að því. En ef þau ákveða samt að taka áhættuna komast þau fljótt að raun um annað.

Íslenskunám er nefnilega í senn þjóðlegt og alþjóðlegt og nýtist á fjölmörgum sviðum. Forsætisráðherra er t.d. með meistaragráðu í íslensku, og ég er alltaf að rekast á gamla nemendur í ýmsum störfum sem í fljótu bragði virðast alls óskyld íslenskunni, en undantekningarlaust segja þau mér að íslenskunámið hafi komið þeim að góðu gagni. Bæði íslenskt mál og íslenskar bókmenntir eru líka alþjóðleg rannsóknarefni sem fengist er við á fræðilegum grundvelli í fjölda erlendra háskóla. Með aukinni áherslu á þverfaglegar rannsóknir og fræði undanfarin ár hafa líka skapast forsendur fyrir því að flétta íslenskt mál og bókmenntir saman við ýmsar aðrar greinar og setja þannig hefðbundin rannsóknarefni í nýtt og spennandi samhengi.

Hina alþjóðlegu skírskotun íslenskunnar og íslenskrar menningar má marka af því að fjöldi erlendra stúdenta kemur til landsins á hverju ári til að stunda nám í íslenskum miðaldafræðum, og íslenska sem annað mál er fjölmennasta kennslugrein Háskólans um þessar mundir. Við getum velt fyrir okkur hvers vegna íslenskir nemendur sæki ekki meira í háskólanám í íslensku en raun ber vitni, en ástæðurnar fyrir því skipta svo sem litlu máli svo lengi sem okkur tekst ekki að snúa þeirri þróun við. Það er það sem við þurfum að leggja áherslu á – ekki með því að tala um viðkvæma stöðu íslenskunnar eða höfða til þjóðerniskenndar, heldur með því að leggja áherslu á að íslenskunám er skemmtilegt og hagnýtt, en fyrst og fremst fræðandi og þroskandi.

Óhylti

Í áhugaverðu samtali Gunnars Smára Egilssonar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Silju Báru Ómarsdóttur á Samstöðinni var nefnt að það ylli vandkvæðum í umræðu um öryggismál að í íslensku væri eitt og sama orðið, öryggi, notað bæði um það sem heitir security og safety á ensku – sikkerhed og tryghed á dönsku. Orðið security merkir „protection of a person, building, organization, or country against threats such as crime or attacks by foreign countries“ eða 'vernd fólks, bygginga, stofnana eða ríkis fyrir ógnunum svo sem glæpum eða árásum erlendra ríkja'; en safety merkir „a state in which or a place where you are safe and not in danger or at risk“ eða 'aðstæður eða staður þar sem fólk er öruggt og ekki í hættu eða einhvers konar áhættu'.

Það er oft vitnað í frægar ljóðlínur Einars Benediktssonar: „Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ Við vitum svo sem að þetta er ofsagt en hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að orðaforði tungumála, og deiling merkingar á orð, er ólíkt milli mála. Íslenskan endurspeglar ekki nákvæmlega orðaforða einhverra annarra tungumála og þótt enska og danska geri einhvern greinarmun er ekki sjálfgefið að íslenska þurfi að gera það líka. Ef það kemur upp, t.d. í þýðingum, að okkur finnist vanta orð í íslensku til að samsvara erlendu orði er oft hægt að leysa það með orðasambandi, umorðun eða útskýringu. Ég skrifaði t.d. einu sinni pistil þar sem ég rökstuddi að óþarfi hefði verið að búa til orðið leikbreytir til að þýða game changer.

Það breytir því ekki að stundum getur verið mikilvægt til að forðast misskilning að hafa mismunandi orð fyrir ólík fyrirbæri. Eins og fram hefur komið snýst öryggi um öryggi ríkisins annars vegar, það sem hefðbundið er að flokka undir öryggis- og varnarmál, en öryggi almennings hins vegar, t.d. gagnvart ofbeldi á götum úti eða heimilisofbeldi, en líka fjárhagslegt og félagslegt öryggi, öryggi gagnvart náttúruvá o.fl. Þetta tvennt er gerólíkt og þarf ekki að fara saman – fólk getur búið við ýmiss konar óöryggi þótt ríkið sem það býr í sé öruggt gagnvart árásum erlendra ríkja, og fólk getur verið öruggt á heimavelli í ríkjum sem búa við óöryggi vegna ytri ógnunar. Það væri hentugt að mínu mati að hafa mismunandi orð um þetta tvennt.

„Málfræðingarnir redda þessu bara“ sagði Gunnar Smári í áðurnefndu samtali. Það er hægara sagt en gert, en þó má reyna. Ég fór að leita í orðabókum og staðnæmdist við lýsingarorðið óhultur sem er eitt þeirra samheita sem gefin eru við öruggur í Íslenskri samheitaorðabók. Mér datt í hug hvort hugsanlegt væri að mynda nafnorðið óhylti með i-hljóðvarpi af óhultur, á sama hátt og öryggi er myndað af öruggur. Þegar betur var að gáð reyndist þetta orð vera til – í ekki ómerkari bók en Danskri orðabók með íslenskum þýðingum eftir Konráð Gíslason frá 1851. Þar er orðið Almeensikkerhed þýtt sem 'alþjóðlegt óhylti' en Borgersikkerhed þýtt sem 'þegnleg óhylti' og bætt við til skýringar „sú vernd sem þegnarnir hafa af því ríki sem þeir eru í“.

Orðið óhylti, sem kemur hvergi fyrir annars staðar svo að ég viti, er þarna ýmist notað í kvenkyni (þegnleg óhylti) eða hvorugkyni (alþjóðlegt óhylti) – hvort tveggja getur staðist formsins vegna. Í því sambandi má benda á að athygli, sem er myndað af athugull á sama hátt, var til skamms tíma ekki síður notað í hvorugkyni en kvenkyni þótt kvenkynið hafi orðið ofan á í nútímamáli – en hvorugkynið skýrir s-ið í athyglisverður. Vitanlega þarf að venjast óhylti eins og öðrum nýjum orðum en þetta er gott og gagnsætt orð. Ég legg til að það verði haft í hvorugkyni og notað í staðinn fyrir öryggi í merkingunni 'almannaöryggi' (e. safety) – ef ástæða þykir til nánari skilgreiningar má þá tala um fjárhagslegt óhylti, félagslegt óhylti o.s.frv.

Rantað um rant

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt um merkingu orðsins ranta sem kom fyrir í frétt á vef Mannlífs fyrir nokkrum dögum: „Og Kristjáni Berg ofbýður það sem hann kallar væl þjóðarinnar og heldur áfram að ranta í málinu.“ Sjálfur gaspraði ég um það fyrir tveimur árum að undirtitill væntanlegrar bókar minnar yrði „Reiðareksmaður rantar“. Sögnin ranta og nafnorðið rant eru komin úr ensku en sjást æ oftar í íslensku og eru skýrð ágætlega í ritdómi eftir Inga Frey Vilhjálmsson í DV 2011: „Í íslensku er ekki til neitt orð sem hefur nákvæmlega sömu merkingu og enska orðið „rant“ sem getur þýtt löng einræða, gjarnan innblásin og afdráttarlaus jafnvel rauskennd, um eitthvert viðfangsefni sem viðkomandi er hugleikið.“

Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið rant í prentmiðlum er í áðurnefndum ritdómi í DV 2011, þar sem segir: „Mælskir menn og hugmyndaríkir taka gjarnan slík rönt þar sem þeir vaða elginn og fara úr einu í annað á skemmtilegu flugi.“ Þarna er orðið meira að segja í fleirtölu sem er annars mjög sjaldgæft. Sami höfundur segir í öðrum ritdómi sama ár: „Stíllinn er rantkenndur“. Annars sést orðið ekki fyrr en í Fréttablaðinu 2015 – „Ég er hrifin af ranti og tuði yfirleitt“. Sögnin ranta kemur fljótlega á eftir – í Fréttablaðinu 2016 segir: „Það er í eðli rappara að ranta fullir sjálfstrausts og deyja fyrir málstaðinn en auðvitað veit maður aldrei fyrirfram hvað fólki finnst.“ Upp úr þessu fjölgar svo dæmunum smátt og smátt, en eru vissulega sárafá enn.

Öðru máli gegnir um samfélagsmiðla – þar hafa þessi orð verið algeng í tuttugu ár. Elstu dæmi sem ég finn eru á Hugi.is árið 2000, bæði um nafnorðið og sögnina – „einnig finnst manni rantið á þessarri títtnefndu síðu ansi líkt því sem viðgekkst á Genesis heimasíðunni“ og „að ég sé að ranta á síðu míns félags kemur ekkert sárindum við“. Karlkynsmyndin rantur kemur líka stundum fyrir – „Hef alltaf gaman af vel skrifuðum ranti“ á Málefnin.com 2004. Það er ekkert óalgengt að ný tökuorð flakki milli kynja í fyrstu en festist svo í ákveðnu kyni og hér hefur hvorugkynið orðið ofan á – karlkynsdæmi eru mjög fá í seinni tíð. Einnig er til orðið rantari um fólk sem rantar – „Hún er alveg jafn mikill rosalegur rantari og þú“ segir á Bland.is 2012.

En er þetta góð og gild íslenska? Vitanlega eru orðin ensk að uppruna en ætternið er ekki nægileg ástæða til að hafna þeim – fjöldi enskra tökuorða nýtur viðurkenningar í málinu. Orðin falla líka vel að málinu – ranta er hliðstætt sögnum eins og vanta, panta, planta o.fl. Karlkynsmyndin rantur er hliðstæð fantur, trantur, pantur o.fl. – hvorugkynsmyndin rant á engar algerar hliðstæður en hljómar samt ekkert óeðlilega. En auðvitað getur fólk haldið því fram að engin ástæða sé til að taka þessi orð orð inn í málið – við höfum orð eins og þus(a), raus(a), fjas(a) o.fl. Mér finnst samt ekkert þessara orða hafa alveg sömu merkingu og rant(a) og er sammála Inga Frey sem áður var vitnað til um að ekkert samsvarandi orð sé til í íslensku.

Sagnirnar þusa, rausa og fjasa eru allar svipaðrar merkingar og skýrðar hver með annarri í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þannig er þusa skýrð 'rausa, fjasa, nöldra'; rausa er skýrð 'röfla mikið, nöldra, fjasa' og fjasa er skýrð 'þusa, nöldra'. Sögnin nöldra kemur fyrir í öllum skýringunum, og hún er skýrð kvarta (um e-ð), finna sífellt að (e-u)'. Merking þessara sagna er sem sé frekar neikvæð, en rant þarf ekki endilega að vera neikvætt þótt svo geti vissulega verið. Ég hef líka á tilfinningunni að fólk tengi þus, raus og fjas fremur við talað mál þótt auðvitað sé líka hægt að þusa, rausa og fjasa í rituðu máli. Sögnin ranta er aftur á móti mjög oft notuð um skrif á netinu þar sem sannarlega er hægt að finna meira en nóg af ranti.

Orðin rant og ranta laga sig algerlega að íslensku hljóðkerfi – opna frammælta sérhljóðinu [æ] er skipt út fyrir íslenskt a og raddaða n-inu er skipt út fyrir óraddað n í máli flestra þannig að enskt [rænt] verður íslenskt [ran̥t]. Þau laga sig líka að beygingarkerfinu – bæta við sig endingum þar sem við á og hljóðverpast líka eins og sjá má á fleirtölunni rönt sem áður er nefnd. Þetta eru því íslensk orð. Þau merkja ekki nákvæmlega sama og orð sem fyrir eru í málinu og koma því ekki í stað þeirra, heldur auðga orðaforðann. Þau standast öll viðmið sem eðlilegt er að hafa um málvenju og verða því að teljast rétt mál. Auðvitað verður hver að meta þessi orð fyrir sig, en mér finnst ástæðulaust að amast við þeim og er farinn að nota þau sjálfur.

Um griplimi og leghafa

Orðið griplimur var um tíma notað sem íðorð í merkingunni ʻhandleggur og höndʼ en svo mikið var hæðst að því að það féll úr notkun. Orðin leghafi og legberi hafa mátt sæta svipaðri meðferð. Mikilvægt er að átta sig á þeim grundvallarmun sem er á íðorðum sem einkum eru ætluð til nota í sérhæfðu samhengi og almennum orðum daglegs máls.

Griplimur

Við vitum að sjálfsögðu öll hvað orðin hönd og handleggur merkja, en þótt skýr munur sé á merk­ingu þeirra er annað orðið iðulega notað í merkingu beggja í dag­legu tali án þess að nokkr­um finnist það athugavert. Við ákveðnar aðstæður skiptir samt máli að hafa eitt orð sem vísar sam­eiginlega til handar og handleggs og hefur alveg skýra og ótvíræða merkingu. Þetta á eink­um við í læknisfræðilegu samhengi og í Íðorðasafni lækna í Íðorðabanka Árna­stofn­unar eru gefin tvö íðorð, samheiti, sem þjóna þessum tilgangi – orðið axlarlimur og orða­sam­bandið efri út­limur sem er skilgreint sem ʻEfri limur líkamans, innifelur öxl, upphandlegg, oln­boga, fram­hand­legg, úlnlið, hönd og fingurʼ. Í daglegu tali skiptir svo nákvæm skilgreining engu.

En um íðorð gilda að ýmsu leyti aðrar reglur en um orð í almennu máli. Það er t.d. algert aukaatriði hvort íðorð eru falleg (hvernig sem á að meta það) þótt fegurð spilli vitanlega aldrei. Það er ekki heldur aðalatriði að íðorð séu stutt eða lipur þótt það sé vissulega til bóta. Það er æskilegt að íðorð séu gagnsæ en ekki nauðsynlegt. En íðorð þurfa að vera mynduð samkvæmt al­mennum orðmyndunarreglum málsins, og ef þau eru hluti af ákveðnu kerfi þurfa þau að vera mynd­uð á sama hátt og önnur sambærileg orð innan kerfisins (orð sem tákna lagar­mál enda t.d. öll á -lítri og orð yfir lengdarmál enda á -metri). Meginatriðið er þó að þau þurfa að hafa skýra, ótvíræða og vel skil­greinda merkingu – eins og efri útlimur / axlarlimur hér að framan.

Ég geri tæpast ráð fyrir að mörg ykkar þekki orðið axlarlimur enda er það ekki að finna í neinum almennum orðabókum. Íðorð eru nefnilega bundin við ákveðið samhengi og oft lítið sem ekkert notuð í almennu máli, og þar af leiðandi iðulega lítið þekkt meðal almennings – axlarlimur kemur t.d. aðeins fyrir í þremur dæmum á tímarit.is, og alls ekki í Risa­mál­heild­inni. En þetta er ekki eina orðið sem stungið hefur verið upp á í þessari merkingu. Um tíma var orðið griplimur notað í læknis­fræðilegu samhengi og á tímarit.is má finna allnokkur dæmi um það frá síðustu 40 árum, lang­flest úr Læknablaðinu og öðrum ritum á heilbrigðissviði. Þetta er gagnsætt orð og gott sem slíkt, en það komst á flakk og þótti fáránlegt og það var óspart gert gys að því.

Þetta kemur glöggt fram í grein sem formaður orðanefndar Lækna­félagsins skrifaði í Lækna­blaðið 1997: „Undirritaður hefur einungis óljósa minningu um það hvenær hann komst fyrst í kynni við heitið griplimur, en andúðin sem það vakti er enn nánast áþreifanleg. Apar og óæðri dýr máttu svo sem hanga á griplimum sínum í trjánum, en menn réttu ekki hver öðrum grip­limina! Þó er heitið sem slíkt ágætt sem kerfisheiti til að nota um útlim (L: extremitas) sem get­ur gripið, á sama hátt og heitið ganglimur lýsir útlim sem nota má til gangs.“ Orðið grip­lim­ur er ekki lengur í Íðorðasafni lækna þótt læknar noti það eitthvað enn ef marka má greinar í Læknablaðinu. Það varð sem sé fórnarlamb ástæðulauss moldviðris – eins og fiskari nýlega.

Leghafi

Víkur nú sögunni að orði sem í fljótu bragði virðist kannski alls óskylt griplim – nafnorðinu leg­hafi. Þetta er nýlegt orð í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er frá 2012 en það komst þó fyrst inn í umræðuna fyrir tveimur árum eða svo. Annað orð sem stundum er notað í sömu merkingu er legberi, og einnig er hefur orðið leghafandi verið notað, ýmist sem nafnorð eða lýs­ingarorð (leghafandi fólk), m.a. í umræðum á Alþingi árið 2021. Mörgum finnst leghafi ljótt orð og um það er vitan­lega þýðingarlaust að ræða, að öðru leyti en því að minna á að það tekur yfirleitt alltaf nokkurn tíma að venjast nýjum orðum. En þetta orð er a.m.k. rétt myndað og gagn­sætt – -hafi merkir yfirleitt ʻsem hefur eitthvaðʼ og leghafi vísar því til fólks sem hefur leg.

misskilningur (eða útúrsnúningur) hefur verið áberandi í umræðunni að orðið leghafi sé sam­heiti við kona og eigi jafnvel að leysa það orð af hólmi vegna einhvers pólitísks rétttrúnaðar. En það er fjarri sanni. Það eru ekki allar konur með leg. Sumar hafa undirgengist legnám og aðrar eru fæddar án legs, þ. á m. trans konur. Hins vegar er til fólk sem skilgreinir sig ekki sem konur en er samt með leg. Það getur verið kynsegin fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu, og einnig trans karlar sem ekki hafa farið í legnám. Því er ljóst að leghafar geta verið kven­kyns, karlkyns og hvorugt, þ.e. skilgreint sig utan kynjatvíhyggju. Af þeirri ástæðu er frá­leitt að halda því fram að þetta orð geti komið, eða því sé ætlað að koma, í stað orðsins kona.

Orðið leghafi er nefnilega íðorð, einkum ætlað til nota í læknisfræðilegu samhengi en sjaldan nauðsynlegt í almennu máli. Orðið var t.d. notað í fyrravetur í tengslum við frumvarp heil­brigðis­ráðherra um skimunarskrá þar sem m.a. er fjallað um skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það segir sig sjálft að slík skimun þarf að taka til fólks með leg, óháð kyni. Þetta er því gagnlegt orð, en einungis í ákveðnu og þröngu samhengi og yfirleitt um hóp, sjaldnast um einstaklinga. En af einhverjum ástæð­um virðist sumt fólk ekki skilja þetta, eða ekki vilja skilja það. Þess í stað hafa orðið til langir þræðir af hneykslun þar sem fólk talar um hvað þetta sé óþarft og fáránlegt orð, og margar kon­ur segja að þær vilji alls ekki nota það – eða láta nota það um sig.

Vitanlega ræður fólk sjálft hvaða orð það notar en hæpið er að fólk geti hafnað því að um það séu notuð tiltekin íðorð sem ekki eru annað en líffærafræðileg skilgreining. Í umræðunni hefur líka verið spurt hvers vegna ekki séu notuð sambærileg orð um karlmenn – nefnd hafa verið orð eins og punghafi, eistnaberi, eistna­hafi, tittlingshafi, blöðruhálskirtilshafi og fleiri. Við því er það að segja að væntanlega hefur ekki verið þörf á þessum orðum hingað til, en auðvitað er ekkert því til fyrir­stöðu að nota þau ef þörf krefur. Þau eiga það sameiginlegt með leghafi að þau vísa til tiltekinna líffæra en ekki til fólks af tilteknu kyni. Ef teknar væru upp skimanir fyrir eistnakrabbameini eða krabba­meini í blöðruhálskirtli væru viðkomandi orð sannarlega gagnleg.

Íðorð og almennt mál

Orðið griplimur er gott dæmi um það hvernig hægt er að eyðileggja orð sem þjóna ágætlega þeim tilgangi sem þeim var ætlaður með því að slíta þau úr samhengi, rangtúlka þau og gera gys að þeim. Það var aldrei ætlað til notkunar í almennu máli en með þessu var komið slíku óorði á þetta gagnsæja orð að það var ekki lengur nothæft sem íðorð. Orðin leghafi og legberi hafa verið notuð í greinum þar sem ráðist er á trans fólk eða hæðst að því, og merking þeirra og notk­un skrumskæld. Þau sem fordæma orðin eru meðvitað eða ómeðvitað að leggja lóð á vogar­skálar þeirr­ar transfóbíu sem því miður virðist fara vaxandi. Látum orðin ekki fá sömu örlög og grip­limur heldur gefum þeim þegnrétt í málinu – þau hvorki spilla íslenskunni né smætta konur.

Góss

Í gær rakst ég á það í Málvöndunarþættinum að spurt var um orðið góss – hvort það væri til bæði í eintölu og fleirtölu. Fyrirspyrjandi þekkti það bara í eintölu en í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er þó fleirtala einnig gefin upp. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'eignir' og tekið fram að það sé „gamalt“ sem merkir væntanlega að það sé lítið notað í nútímamáli. Svo virðist þó ekki vera – í Risamálheildinni er á þriðja þúsund dæma um það, bæði úr formleg og óformlegu máli. Orðið er töluvert notað í lagamáli og á því eru þrjár skilgreiningar í Lögfræðiorðasafninu: 'Eignasafn, samsafn smárra sem stórra hluta og eigna'; 'Stórbýli'; og 'Farmur, sbr. stykkjagóss' sem tekið er fram að sé „einkum í eldra sjóréttarmáli“.

Eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók er orðið góss upphaflega góðs, eignarfall eintölu af lýsingarorðinu góður, í samböndum eins og eiga nokkuð góðs í merkingunni 'eiga eitthvað af (einhverju) góðu'. Í Ordbog over det norrøne prosasprog er hátt á annað hundrað dæma um orðið sem er skrifað með ýmsu móti í fornum textum: godz, goðs, goz, goðz, góðs, góz, o.fl. Í sumum þessara dæma væri hugsanlegt að greina orðið sem eignarfall lýsingarorðs út frá setningarstöðu – „gekk hann fyrir jarl ok bauð fyrir Flosa allt þat góðs, er hann átti“ segir t.d. í Njálu. En í flestum tilvikum er það þó greinilega notað sem nafnorð og bætir iðulega við sig nafnorðsendingum – „stalu þiofar micklu godzi“ segir t.d. í Þorláks sögu helga.

Í langflestum tilvikum er orðið notað í eintölu í fornu máli, en fleirtala kemur þó fyrir – „Hæringr tók við gózum Þorgils“ segir í Flóamanna sögu og í máldaga frá 1408 er talað um að „skoða góssin“. Fáein dæmi eru um fleirtölu frá síðari öldum – „Öll þau godtz og peningar“ segir í bréfi frá 1542, og í Vallaannál segir árið 1720: „hafði gefið amtmanni mestan hlut góssa sinna, fastra og lausra.“ Nokkur dæmi eru um fleirtölu á tímarit.is. „Prestekknasjóðinn getur ríkið auðvitað tekið með ofríki og allar eignir kirkjufjelagsins, líkt og fornu góssin voru tekin“ segir í Kirkjublaðinu 1895. „Hann ólst upp á góssum feðra sinna, m.a. í Graditz“ segir í Morgunblaðinu 1987. „Kaflinn um íslensku góssin er fróðlegur“ segir í Sögu 1976.

Fleirtalan var þó alla tíð mjög sjaldgæf og eingöngu notuð í merkingunni 'jarðeign, stórbýli' Eintalan getur einnig haft þá merkingu sem sést þó sjaldan í nútímamáli, sem og samsetningin stórgóss sem er væntanlega tekið beint úr Storgods í dönsku – sama gildir um gósseigandi af Godsejer. Ýmsar fleiri samsetningar af orðinu eru til, margar notaðar í (eldra) lagamáli og skilgreindar í Lögfræðiorðasafninu svo sem erfðagóss 'Erfðafé', jarðagóss 'Jarðeignir', kirkjugóss 'Kirkjueignir, fjármunir í eigu kirkju', lausagóss 'Lausafé', stykkjagóss 'Laus farmur, einstakar flutningseiningar' o.fl. Farmur strandaðra skipa var nefndur strandgóss – „Uppboð var haldið í gær á strandgóssinu frá »Rigmor« segir í Verkamanninum 1921.

En í nútímamáli er orðið góss langoftast notað um samsafn ýmissa (oft óskyldra) hluta og iðulega talað um „allt góssið“. „Ójá, það var stundum mikið umstang meðan klakka þurfti allt góssið og reiða á hestum yfir langa fjallvegi“ segir í Austra 1957. „Ég átti bágt með að fela hneykslun mína þegar ég sá allt góssið; geislaspilara, fullt af diskum, hátalara, rosalegt magn af sælgæti og svo áfengi“ segir í Vikunni 2000. „Hún skilur eftir sig slóð leyndarmála og auðæva og það má búast við hörðum deilum erfingja um hver hljóti allt góssið“ segir í Fréttablaðinu 2011. Mjög algengt er líka að nota góss um ránsfeng – „Það er alveg nýtt að þjófar steli beinlínis til að flytja góssið á haugana“ segir í Morgunblaðinu 2010. Skýringin 'eignir' er því ófullkomin.

Að pilla sig

Í gær var hér spurt um sögnina pilla í sambandinu pilla sig. Guðrún Kvaran skrifaði stuttan pistil um þessa sögn á Vísindavefnum árið 2011. Þar segir: „Sögnin pilla sig (einnig með þágufalli pilla sér) er notuð í óformlegu máli um að 'fara, koma sér burt, drífa sig'. Hún er nær eingöngu notuð neikvætt í skammartóni: „Pillaðu þig burt“, „Pillaðu þig á fætur“. Hún virðist notuð í málinu í þessari merkingu frá því snemma á 20. öld. Að baki liggur sögnin að pilla 'reyta, tína' sem er tökuorð úr dönsku pille frá 19. öld en í dönsku er sambandið pille af notað á sama hátt og pilla sig/sér í íslensku, til dæmis „pil af med dig!“ 'komdu þér í burtu'.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er pilla sig hins vegar skýrð hlutlaust – 'fara burt, fara'.

Elsta dæmi sem ég finn um pilla sig er í Dagskrá 1897: „Þá eru það sælustundirnar kláranna, að standa bundnir meðan riddararnir eru að „pump“ bjórinn á drykkjukránum við veginn. Þess á milli fá þeir að „pilla sig“.“ Annað dæmi er í Nirði 1916: „Peningamennirnir yrðu að „pilla“ sig burt, þangað, sem eitthvað væri fáanlegt fyrir peningana.“ Fyrsta og önnur persóna koma síðar: „En á meðan jeg fór úr, þá skelti Ragnhildur sjer í dívaninn og sagðist vera orðin svo syfjuð, að hún yrði að fara að sofa, og mætti jeg því til með að pilla mig“ segir í Harðjaxli réttlætis og laga 1926, og „Þú hefur ekkert hingað að gera, þú getur pillað þig heim“ segir í Eimreiðinni 1949. En vissulega má búast má við að orðið hafi verð algengara í talmáli en riti.

Þágufallið sést fyrst í Morgunblaðinu 1971: „Og vertu viðbúinn að pilla þér út úr framboðinu til þingsins þann dag.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég pillaði mér burt en maðurinn reyndi að stumra yfir stúlkunni.“ Í Tímanum 1982 segir: „Eins gott að pilla sér.“ En þágufallið hefur sótt mjög á í seinni tíð, eins og marka má af því að í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hátt í þrisvar sinnum fleiri dæmi um pilla mér / þér / sér en um pilla mig / þig / sig. Ekki er gott að segja hvers vegna þágufallið kemur upp og nær yfirhöndinni. Sambandið pilla sig er e.t.v. borið saman við önnur sambönd með þolfalli eins og drífa sig, hypja sig eða eitthvað slíkt, en pilla sér gætu verið áhrif frá þágufallssamböndum eins og koma sér eða jafnvel drulla sér.

Þegar sögnin er notuð í boðhætti er hún „nær eingöngu notuð neikvætt í skammartóni“ eins og Guðrún Kvaran segir. En öðru máli gegnir hins vegar þegar mælandi notar hana um sjálfan sig, annaðhvort í fyrstu eða þriðju persónu. Í Vorinu 1968 segir: „Það er víst bezt að pilla sig.“ Í Degi 1983 segir: „Það var því ekki um annað að gera en að pilla sig heim.“ Í Vikunni 1979 segir: „Ég veit að þar sem ég er orðin tvítug og vel það, þá ætti ég nú að pilla mig og leyfa þeim að vera í friði.“ Á Bland.is 2006 segir: „Jæja, það er allt orðið svo rólegt hér svo ég er að hugsa um að pilla mér upp í rúm.“ Þarna er ekki um skammartón að ræða og merkingin hlutlaus eins og lýst er í Íslenskri nútímamálsorðabók – þetta merkir að mál sé til komið að færa sig um set.