Svörtudagur er frábært orð!

Það er skammt síðan bandaríska verslunarhátíðin Black Friday festi sig rækilega í sessi á Íslandi. Í jólablaði Morgunblaðsins 2010 er sagt frá bandarískum hátíðisdögum, fyrst þakkargjörðarhátíðinni en síðan segir: „Daginn eftir hefst formleg jólaverslun, þá eru búðir opnaðar klukkan fimm um morguninn ef þeim hefur yfir höfuð verið lokað. „Black Friday“ eða föstudagurinn svarti er nafnið sem þessi dagur gengur undir. Það er ekki lögbundinn frídagur en flestir atvinnurekendur gefa frí þennan fyrsta dag eftir þakkargjörðina.“ Þarna er þessi dagur greinilega óþekktur á Íslandi en það breyttist fljótt – árið eftir er auglýst „BLACK FRIDAY í fyrsta sinn á Íslandi“ og síðan hefur vægi dagsins í versluninni farið sívaxandi.

Það hefur verið mörgum þyrnir í augum að heiti dagsins skuli tekið hrátt upp úr ensku þótt vitanlega væri auðvelt að þýða það. Vissulega er stundum auglýstur svartur föstudagur og aðrar tillögur hafa komið fram, svo sem myrkir markaðsdagar, svartur fössari og blökkudagur. Á Nýyrðavef Árnastofnunar er einnig að finna orðið svörtudagur sem þar er rakið til auglýsingar frá 66°Norður árið 2017, en elsta dæmi sem ég finn um orðið er í bréfi frá Bjartmari nokkrum í Velvakanda Morgunblaðsins árið 2015 þar sem lagt er til „að atburður þessi verði kallaður „föstudagsútsalan“ eða jafnvel „Svörtudagur“, ef sá gállinn er á verslunarfólki“. Nú hefur vefverslunin Boozt.com tekið þetta orð upp á sína arma.

Sumum finnst orðið svörtudagur hljóma óeðlilega og ekki vera rétt myndað og það er skiljanlegt. Reyndar er orðið stundum haft í fleirtölu og talað um svörtudaga, enda hefur þessi hátíð verslunarinnar þanist út eins og slíkum viðburðum er gjarnt og jafnvel talað um „Black Friday viku“. Orðið svörtudagar gæti sem best verið samsett úr lýsingarorði og nafnorði, (hinir) svörtu dagar, og hliðstæð orð eru til í málinu, svo sem Svörtuloft og Ljósufjöll. En ef orðið er haft í eintölu, eins og vissulega er algengast, vandast málið. Miðað við sama skilning á orðmynduninni ætti það að vera svartidagur, þ.e. (hinn) svarti dagur, en ekki svörtudagur eins og það er þó haft í auglýsingum. Þýðir það að svörtudagur sé rangt myndað orð?

Ekki endilega. Það eru ýmis dæmi um það í málinu að nefnifall orða, einkum örnefna og annarra sérnafna, hafi orðið fyrir áhrifum frá aukaföllunum og sé þannig ekki „rökrétt“ miðað við venjulegar orðmyndunarreglur. Þekktasta dæmið um það er líklega heitið Fjörður(nar) sem haft er í kvenkyni þótt orðið fjörður sé karlkynsorð. Þar er búin til ný grunnmynd út frá þágufalli fleirtölu fjörðum vegna þess að þágufall fleirtölu er eins í öllum kynjum. Önnur dæmi eru orð eins og Breiðafjörður og Rauðasandur þar sem Breiðifjörður og Rauðisandur væri rökrétt (og vissulega einnig notað). Það væri hægt að hugsa sér hliðstætt ferli í svörtudagur – þar væri „órökrétt“ eintala búin til út frá eðlilegu fleirtölunni svörtudagar.

En þótt þessi skýring sé vel hugsanleg er önnur sem liggur mun beinna við. Hún er sú að segja að á bak við liggi myndin svartidagur sem áður er nefnd, en -i í lok seinni hlutans breytist í -u fyrir áhrif frá heitum vikudaganna sem öll nema eitt hafa fyrri hluta sem endar á -u. Í sunnudagur, miðvikudagur og föstudagur er fyrri hlutinn kvenkynsorðin sunna, (mið)vika og fasta sem enda á -u í eignarfalli þannig að þetta eru eðlilegar eignarfallssamsetningar. En í mánudagur er fyrri hlutinn karlkynsorðið máni enda er eldri mynd mánadagur, og einnig mætti búast við myndunum þriðjidagur og fimmtidagur. Þannig voru orðin líka í fornmáli, en -u hefur komið í stað -i fyrir áhrif frá öðrum dagaheitum.

Þegar -u kemur í stað -i mætti búast við að útkoman yrði *svartudagur. En slík mynd stenst ekki – það er ófrávíkjanleg regla að ö komi í stað a ef u stendur í næsta atkvæði á eftir við aðstæður af þessu tagi. Útkoman verður þá svörtudagur sem er samkvæmt þessu fullkomlega eðlileg mynd, alveg í samræmi við reglur málsins og einmitt sú sem við mætti búast – og við bætist hljóðlíking við föstudagur. Auðvitað tekur samt tíma að venjast orðinu svörtudagur eins og öðrum nýjum orðum, en mér finnst þetta frábært orð og hvet alla auglýsendur til að nota það í stað Black Friday. Í lokin er svo um að gera að rifja upp hið stórkostlega ljóð Svartfasta eftir Jónasarverðlaunahafa ársins, Braga Valdimar Skúlason.

Allar breytingar mæta andstöðu

Fyrir helgi skrifaði ég hér í pistli um kynhlutlaust mál: „[F]orsendan fyrir því að vilja breyta hlutlausu kyni er pólitísk en ekki málfræðileg. […] Og breyting af þessu tagi sem gerð er á pólitískum forsendum þarf að vekja athygli og ögra, til dæmis með því að nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk og kalla fram sterk viðbrögð. Það er í þágu hinna pólitísku markmiða.“ Þarna var ég að tala um notkun hvorugkynsfornafna í kynhlutleysi í stað karlkyns í setningum eins og ekkert veit neitt og öll eru að gera sitt besta. Slíkar setningar eru vissulega í andstöðu við það mál sem við erum öll alin upp við.

Höskuldur Þráinsson lýsti efasemdum um þessa aðferð og sagði: „[E]f markmiðið er að þoka jafnréttismálum áfram með því að skapa samstöðu um að breyta því sem máli skiptir held ég að þetta sé ekki rétt aðferð. Hún skipar fólki í fylkingar og fælir burt þá sem vilja gjarna leggja jafnréttismálum lið með því til dæmis að reyna að temja sér ný orð eins og kvár og stálp og tileinka sér merkingu þeirra. Samtökin 78 höfðu mikil og góð áhrif á orðanotkun um samkynhneigð þegar þau stuðluðu að því að orð eins og hommi og lesbía væru tekin í sátt […], en þá voru ekki notaðar baráttuaðferðir af því tagi sem Eiríkur mælir með.“

Í svari við athugasemd um að baráttan fyrir orðunum hommi og lesbía hefði mætt andspyrnu sagði Höskuldur svo: „Þegar ég nefndi baráttuna fyrir viðurkenningu orðanna "hommi" og "lesbía" var ég ekki að gefa í skyn að allir hefðu tekið tillögum S78 vel eða verið kurteisir í ummælum sínum. Það var ekki svo. Ég átti við það að þar voru S78 ekki að "nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk og kalla fram sterk viðbrögð [...] í þágu hinna pólitísku markmiða" heldur var þá verið að biðja um að notuð væru tiltekin orð í ákveðinni merkingu, rétt eins og núna er beðið um að orðin "kvár" og "stálp" séu viðurkennd.“

Nú getur vel verið að Höskuldur hafi rétt fyrir sér um hvað séu vænlegar baráttuaðferðir, og ég get alveg tekið undir það að æskilegast væri að ná fram breytingum í máli án þess að þurfa „að nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk“. Sannarlega er líka hægt að breyta mjög mörgu í átt til kynhlutleysis án þess að ganga svo langt. En það kemur fyrir ekki – það hefur sýnt sig að allar breytingar í átt til kynhlutleysis, jafnvel þær sem rúmast ágætlega innan kerfisins, mæta andspyrnu og eru gagnrýndar harðlega. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í fyrra og vakti mikla athygli og fékk mörg læk stóð t.d.:

„Upp á síðkastið hafa æ fleiri fréttamenn [Ríkisútvarpsins] tekið sér í munn þá nýlensku sem öðru hverju heyrðist í fyrra, en sem nú virðist hafa verið fyrirskipuð að ofan. Þar á ég við orðbragð á borð við stuðningsfólk, hestafólk, björgunarfólk, lögreglufólk og aðila í alls kyns samsetningum, í stað stuðnings-, hesta-, björgunarsveitar- og lögreglumanna, o.s.frv.“ Þarna er sem sé verið að amast við að í stað samsetninga með -maður séu notuð orð sem eru fullkomlega í samræmi við málkerfið, og ekki einu sinni nein nýjung heldur öll meira en 60 ára gömul og flest algeng – t.d. er á fimmta þúsund dæma um stuðningsfólk á tímarit.is.

Ég veit ekki hversu margar neikvæðar athugasemdir ég hef lesið um orðin kvár og stálp þar sem verið er að hæðast að þessum orðum og notendum þeirra, kalla þau „orðskrípi“ og gera lítið úr þörfinni fyrir þau. Sama máli gegnir um önnur orð sem hafa orðið til í tengslum við baráttu kynsegin fólks og viðurkenningu á tilvist þess, svo sem hán og ekki síður leghafi (eða legberi). Ég held þess vegna að það skipti ekki öllu máli hvers eðlis nýjungarnar eru – það mun ævinlega verða andstaða við breytingar á málinu, og alveg sérstaklega þær sem hafa valdeflingu ákveðinna hópa og jaðarsetts fólks að markmiði.

Þess vegna skil ég vel þau sem ganga svo langt að vilja nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk til að vekja athygli á baráttunni en það er auðvitað óþolandi ef sú baráttuaðferð leiðir til þess „að fólk sem lýsir efasemdum á opinberum vettvangi um um þá breytingu á verkaskiptingu málfræðilegu kynjanna sem hér hefur verið lýst má þola ýmiss konar svívirðingar“ eins og Höskuldur segir. En ég held samt ekki að baráttuaðferðinni sé um að kenna. Mér hefur sýnst að óviðurkvæmileg ummæli séu ekkert síður í hina áttina, þ.e. í garð þeirra sem mæla með breytingum, jafnvel saklausum breytingum sem rúmast innan málkerfisins.

Kynhlutlaust mál er pólitík, ekki málfræði

Undanfarið hefur verið hér talsverð umræða um kynhlutlaust mál og ekki í fyrsta skipti. En þrátt fyrir að þetta mál hafi verið rætt fram og aftur og ýmis sjónarmið komið fram finnst mér umræðan hjakka dálítið í sama farinu. Í raun og veru held ég að það sé ekki mikill ágreiningur um staðreyndir málsins, svona frá málfræðilegu sjónarmiði a.m.k. Það er ljóst að af sögulegum ástæðum er málfræðilegt karlkyn og hefur verið notað sem „hlutlaust“ (ómarkað) kyn, þ.e. notað í vísun til óskilgreindra einstaklinga og hópa. Það er jafnframt ljóst að þau sem hafa alist upp í íslensku málsamfélagi hafa vanist þessari notkun á máltökuskeiði og hún er inngróin í málfar þeirra því að íslenska er gegnsýrð af málfræðilegu kyni.

Vegna þess að við erum alin upp við að karlkynið sé hlutlaust kyn finnst okkur setningar þar sem brugðið er út af því vera undarlegar og jafnvel ótækar – setningar eins og ekkert veit neitt og öll eru að gera sitt besta. En öðru máli gegnir ef við breytum dæminu örlítið – segjum ekkert þeirra veit neitt og öll börnin eru að gera sitt besta. Þarna er búið að afmarka hópinn – ekki er lengur um vísun til óskilgreinds hóps að ræða. Þetta sýnir að hvorugkynsmyndirnar geta vel vísað til fólks – það er bara ekki hefð fyrir því að þær standi einar sér og þess vegna finnst okkur fyrra dæmið undarlegt eins og flest tilbrigði í máli sem við erum ekki vön. En vitanlega getum við vanist slíkum dæmum. Hefðir málsins geta breyst – og gera það oft.

Það er ekkert í eðli íslenskunnar sem segir að karlkyn hljóti að vera hlutlaust kyn, þótt fyrir því sé vissulega löng og rík hefð. En ef við hefðum alist upp við að hvorugkyn væri hlutlaust, alist upp við dæmi eins og ekkert veit neitt og öll eru að gera sitt besta, þá fyndist okkur þau fullkomlega eðlileg. Auðvitað hafa engin sem komin eru af máltökuskeiði alist upp við þetta – enn sem komið er – og finnst það þess vegna framandi. En ef við færum að heyra og sjá margar slíkar setningar er engin ástæða til að ætla annað en við myndum venjast þeim smátt og smátt eins og öðrum nýjungum í máli sem breiðast út. Auðvitað tæki það tíma og slík grundvallarbreyting væri örugglega nokkra áratugi að ná til alls málsamfélagsins.

Það hefur líka verið bent á margs konar ósamræmi sem breyting af þessu tagi gæti valdið, a.m.k. meðan hún væri að ganga yfir. Þær ábendingar eiga alveg rétt á sér – það er ljóst að sumar breytingar eru harðari undir tönn en aðrar. Ég er t.d. orðinn svo vanur öll velkomin að ég er hættur að kippa mér upp við það, og öll eru að gera sitt besta truflar mig lítið, en ég á dálítið erfitt með ekkert veit neitt. En þótt þarna skapist eitthvert ósamræmi eru það í sjálfu sér ekki rök gegn breytingunni. Það er ekki eins og tungumálið sé fullkomlega rökrétt kerfi fyrir. Það er auðvelt að benda á ótal dæmi um hvers kyns ósamræmi á ýmsum sviðum málsins – ósamræmi sem við tökum oftast ekkert eftir og truflar okkur alls ekki neitt.

Það er oft sagt að breyting á hlutlausu kyni sé ástæðulaus og óþörf vegna þess að hún sé byggð á þeim misskilningi að málfræðilegt karlkyn vísi einungis til karla. En þarna er ekki um neinn misskilning að ræða. Fólk sem aðhyllist þessa breytingu gerir sér örugglega ágætlega ljóst að karlkynið er og hefur verið notað í almennri vísun og ekki bundið við karla. En það þýðir ekki að breytingin sé ástæðulaus og óþörf. Þau sem aðhyllast breytingu telja nefnilega að þessi notkun karlkynsins sé óheppileg vegna þess að við tengjum málfræðilegt karlkyn við karlmenn, meðvitað og ómeðvitað, og notkun þess í kynhlutlausri merkingu sé því til þess fallin að viðhalda valdastöðu karla í samfélaginu.

Nú getur fólk vitanlega verið sammála eða ósammála þessari afstöðu, en aðalatriðið er að forsendan fyrir því að vilja breyta hlutlausu kyni er pólitísk en ekki málfræðileg. Þess vegna hefur lítið upp á sig að beita málfræðilegum rökum gegn þessari breytingu. Og breyting af þessu tagi sem gerð er á pólitískum forsendum þarf að vekja athygli og ögra, til dæmis með því að nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk og kalla fram sterk viðbrögð. Það er í þágu hinna pólitísku markmiða. Jafnframt skapast heitar umræður um tungumálið og það er gott því að það sýnir að okkur er ekki sama um íslenskuna. Ég get ekki séð að það skaði tungumálið.

Verum knúsfús!

Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin knúsa sjáist fyrst á 17. öld í merkingunni 'knosa, mylja, þjarma að' og sé tökuorð úr dönsku sögninni knuse sem hefur þessa merkingu. Sama merking er gefin upp í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar en í þriðju útgáfu er búið að bæta við merkingunni 'faðma e-n' sem sögð er „óformlegt mál“ og sama gildir um nafnorðið knús sem sagt er merkja 'innilegt faðmlag'. Danska sögnin knuse getur reyndar haft þessa merkingu líka og þetta er eina merkingin í nafnorðinu knus. Merkingin 'faðma (e-n)' er sú eina sem er gefin upp fyrir knúsa í Íslenskri nútímamálsorðabók og nafnorðið knús er þar í merkingunni 'faðmlag' – hvorugt orðið fær nokkra sérmerkingu.

Það er því ljóst er að þarna hefur orðið breyting á merkingu og málsniði. Í eldri dæmum hefur sögnin þá merkingu sem gefin er í Íslenskri orðsifjabók. Í Freyju 1903 segir t.d.: „Svo gröm var hún yfir þessu að hún gat ekkí látið vera að gjöra fólkinu upp orðin því viðvíkjandi, og það þó slík aðferð knúsaði allar tilfinningar hennar.“ Í Freyju 1905 segir: „Fyrir einu ári síðan leið þessari fjölskyldu einnig vel, allt þar til eiginmaðurinn og faðir litlu barnanna þarna var fluttur heim, einn góðan veðurdag, sundur knúsaður undan trjám sem óaðgætinn samverkamaður felldi á hann.“ Einnig var algengt að tala um knúsað mjöl, og stundum knúsað mál eða knúsað orðalag þar sem nú væri frekar notað knosað.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um merkinguna 'faðma' er í Fálkanum 1950: „Síðan mundu þau knúsa hvort annað í ástarvímu, sem mundi blossa upp úr glóðum hinna nýju frétta.“ Í Alþýðublaðinu sama ár segir: „Hana geturðu kysst … henni geturðu þrýst að barmi þínum . . . hana getur þú kramið og knúsað.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Hár og grannur, ókunnur maður með harðar varir, sem höfðu knúsað varir hennar, og með grá, djúphugul augu.“ Dæmum um þessa merkingu fer svo smátt og smátt fjölgandi en eldri merkingin er þó yfirgnæfandi lengi vel, líklega fram undir 1980. Upp úr því fer notkun orðanna knús og knúsa ört vaxandi og margfaldast svo upp úr aldamótum.

Nú er sögnin sennilega alltaf í nýrri merkingunni – sú upphaflega virðist vera því sem næst horfin þótt hún lifi enn góðu lífi í dönsku. En það er ekki eini munurinn á þróun íslensku sagnarinnar og þeirrar dönsku. Þannig er miðmyndin knúsast algeng og merking eldri dæma um hana er í samræmi við merkingu germyndarinnar – „Hefði Ulla ekki verið farin út, hefði hún knúsast undir hinu þunga þaki“ segir í Barnablaðinu 1955. En í Vísi 1971 er nýrri merkingin komin til sögu – „Kærustupar vitum við að knúsast“. Þótt merkingin sé venjulega 'faðmast' í samræmi við germyndina er stundum eitthvað meira gefið í skyn, eins og í Fréttablaðinu 2015: „Ástin mín, mig langar aðeins að knúsast en ég er mjög þreytt/-ur.“

Elsta dæmi um orðið knús er í Castria 1939: „„Eruð þið búnar að sjá hann Tyrone Power á Nýja Bíó?“ „Já, gu-uð, er hann ekki yndislegur?“ „Alveg knús.““ Annað dæmi er úr Morgunblaðinu 1948: „Kalli var þarna auðvitað, og hann er nú alveg knús.“ Þarna er knús notað sem lýsingarorð en ekki virðist hafa orðið mikið framhald á þeirri notkun þótt orðflokkur sé reyndar óviss í Mánudagsblaðinu 1949: „Ó, ég veit að þú hefur aldrei á æfi þinni séð annað eins knús.“ En elsta örugga dæmi um knús sem nafnorð er í Þjóðviljanum 1961: „Ég hefði haldið að kvenmaður þyrfti ekki annað til að vera í sjöunda himni en nýjan pels á hverju ári og sæmilegt knús öðru hverju.“

Sögnin knúsa liggur líka á bak við nafnorðið hjartaknúsari sem skýrt er 'kynþokkafullur karlmaður sem nýtur hylli kvenna' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið kemur fyrst fyrir í Speglinum 1950: „Hjartaknúsari og hetja síns ættlands.“ En myndin hjartaknosari er eldri, kemur m.a. fyrir í Fegurð himinsins eftir Halldór Laxness frá 1940: „það varð heyrinkunnugt snemma dags að meðal farþega væri hjartaknosari nokkur að austan.“ Orðið hjerteknuser er til í dönsku í sömu merkingu og trúlegt er að íslenska orðið sé ættað þaðan, frekar en vera íslensk nýmyndun. En knuse hjerte á dönsku merkir 'gera óhamingjusaman', sbr. break heart á ensku, og spurning hvort hjartaknúsari/-knosari hafi haft þá merkingu upphaflega.

Fleiri samsetningar mætti nefna, svo sem knúskyssa sem kemur fyrst fyrir í Samtíðinni 1946: „Þegar stúlkan sá piltinn, hljóp hún rakleitt í faðm hans, knúskyssti hann og hrópaði fagnandi.“ Samsvarandi sögn er ekki til í dönsku þannig að þetta virðist vera íslensk nýmyndun sem ekki hefur komist inn í orðabækur þótt hún sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Síðast en ekki síst er svo hið stórskemmtilega lýsingarorð knúsfús eftir Jónasarverðlaunahafann Braga Valdimar Skúlason sem hvetur fólk einmitt til að nýta betur ýmis vannýtt orð. Í nýrri útgáfu Risamáheildarinnar sem hefur að geyma 2,4 milljarða orða eru aðeins 11 dæmi um þetta ágæta orð. Við skulum endilega nota það meira – ekki veitir af.

þæginlegt

Orðmyndin þæginlegur, með n-i, í stað þægilegur hefur nokkrum sinnum verið nefnd hér. Elsta dæmi um mynd með n af þessu orði er úr Fálkanum 1962: „Aðdáun og þæginlegt slúður Barneys hafði hvetjandi áhrif á hann.“ Annars sjást slíkar myndir ekki á prenti fyrr en á árunum 1991 og 1992 þegar myndin þæginlega kemur fyrir, bæði sem lýsingarorð og atviksorð. Það er ekki fyrr en um aldamót sem þessi ritháttur fer að sjást að ráði og þó mest á allra síðustu árum. Á tímarit.is er að finna á fimmta hundrað dæma um myndir með , en sú tala er villandi vegna þess að myndirnar koma stundum fyrir í auglýsingum sem eru birtar margoft – að slíkum tilvikum frádregnum eru dæmin a.m.k. helmingi færri.

Vitanlega eru myndir með n á skjön við hefðbundinn rithátt og í Málfarsbankanum segir: „Ritað er þægilegur en ekki „þæginlegur“. En þessar myndir eru samt skiljanlegar því að eðlilegt er að málnotendur reyni að tengja liðinn þægi- við eitthvað kunnuglegt. Í Íslenskri orðsifjabók segir „forliðurinn þægi- af lo. þægur“. En þótt þægur hafi m.a. getað merkt 'hentugur' áður fyrr samkvæmt Íslenskri orðsifjabók þekkja málnotendur á 21. öld orðið eingöngu í merkingunni 'hlýðinn og stilltur' sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók. Merkingarleg tengsl orðsins þægilegur við þægur liggja því ekki í augum uppi. Aftur á móti liggur merking þægilegur mjög nálægt merkingu nafnorðsins þægindi.

Það er trúlegt að myndir með n stafi af því að málnotendur tengi þessi orð saman vegna merkingarlíkinda og telji þægi(n)legur leitt af þægindi. Þótt sú afleiðsla sé ekki sögulega rétt samkvæmt Íslenskri orðsifjabók á hún sér samt skýra hliðstæðu sem ekki er ólíklegt að hafi áhrif á skynjun málnotenda. Lýsingarorðið leiðinlegur er nefnilega komið af nafnorðinu leiðindi með brottfalli d leiðindlegur > leiðinlegur (í fornu máli er myndin leiðilegur reyndar margfalt algengari en leiðinlegur). Það er mögulegt að málnotendur hugsi sér að þægindlegur hafi orðið þæginlegur á sama hátt – merkingarleg vensl milli leiðindi og leiðinlegur eru hliðstæð venslum milli þægindi og þægi(n)legur.

Í nýrri útgáfu Risamálheildarinnar (2022) eru rúmlega 6.300 dæmi um myndir sem byrja á þæginleg-, þar af 6.070, eða rúm 96%, af samfélagsmiðlum (spjallþráðum, bloggsíðum og Twitter). Þetta sýnir að þessar myndir eru mjög útbreiddar í óformlegu málsniði þótt þær séu ekki áberandi á prenti eða í formlegum miðlum. Þótt ég ætli ekki að mæla sérstaklega með þessum myndum finnst mér fráleitt að fordæma þær og líta á þær sem dæmi um fákunnáttu þeirra sem nota þær eða hirðuleysi þeirra um málfar. Þess í stað ættum við að fagna þeim vegna þess að þær sýna okkur lifandi málkunnáttu í verki – málkunnáttu sem leitar að skýringum, finnur hliðstæður og dregur ályktanir. Er það ekki ánægjulegt?

Ömmgur, langmæðgur og langfeðgar

Um daginn spurði kona hvaða orð hún gæti notað um sig og sonardóttur sína – hafði séð orðið ömmgur um konu og dótturdóttur hennar en fannst það eitthvað skrítið. Í umræðum var bent á að orðið langmæðgur væri stundum notað í þessari merkingu. Það orð er reyndar hvergi í orðabókum, aðeins á Nýyrðavef Árnastofnunar þar sem það er skýrt 'amma og dóttur- eða sonardóttir'. Á tímarit.is eru innan við 30 dæmi um orðið, það elsta í Vísi 1945: „Hún lét eftir sig tveggja ára dóttur, sem bar nafn ömmu sinnar, Ástríðar, og var mikið ástríki á milli þeirra langmæðgna.“ Orðið virðist þó oftar notað um ömmu og dótturdóttur en sonardóttur, en einnig eru dæmi um að það nái yfir ömmu, dóttur og dótturdóttur eða jafnvel fleiri ættliði.

Orðið langfeðgar er aftur á móti í gamalt í málinu – elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um það er frá 17. öld. Það orð er bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt 'forfeður í beinan karllegg'. Sú merking er vissulega algeng og kemur t.d. fram í „Hafa langfeðgar hans búið um langan aldur á Halldórsstöðum í Laxárdal í S.-Þingeyjarsýslu“ í Sindra 1922, og „Faðir minn var að elta þorskinn en þessir langfeðgar mínir voru allir útvegsbændur“ í Þjóðviljanum 1985. Hliðstæð merking er stöku sinnum lögð í orðið langmæðgur líka, eins og í Fréttablaðinu 2020: „Skagfirskar langmæðgur Sveinbjargar Sveinbjörnsdóttur leituðu sterkt á hug hennar og hún ákvað að skrifa um þær sína fyrstu skáldsögu.“

En skýring orðabókanna á langfeðgar er þó ekki fullnægjandi því að orðið er ekki bara notað um forfeður heldur líka oft um afa og sonar- eða dótturson, hliðstætt við venjulega notkun á langmæðgur. Þannig skrifar dóttursonur um afa sinn í Tímanum 1987: „Þrátt fyrir pólitískt bráðlyndi okkar langfeðga, var afi ávallt fyrri til sátta og hafði þar vit fyrir unglingnum.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir um mann og afa hans: „Á vissan hátt var það líkt og skóli fyrir okkur sem yngri vorum að hlýða á þá langfeðga ræða saman.“ Í orðabókunum þarf því að bæta við annarri merkingu í langfeðgar, 'afi og sonar- eða dóttursonur' og einnig bæta orðinu langmæðgur við sem sjálfstæðri flettu með tveimur merkingum hliðstætt við langfeðgar.

Svo að aftur sé komið að upphafi umræðunnar má segja að langmæðgur sé ekki að öllu leyti heppilegt orð yfir konu og dóttur- eða sonardóttur hennar. Það er bæði vegna þess að merking orðsins er ekki alveg ótvíræð – það gæti líka falið í sér milliliðinn, þ.e. dóttur eldri konunnar og móður barnsins – og einnig vegna þess að fyrri liðurinn lang- gæti bent til þess að um langömmu og barnabarnabarn væri að ræða. Orðið mæðgur er myndað með g-viðskeyti (og hljóðvarpi) af móðir og þótt -g- sé ekki virkt viðskeyti í nútímamáli má alveg hugsa sér að mynda orð af amma á sama hátt. Það ætti þó reyndar væntanlega að vera myndað af stofninum amm- án hljóðvarps og vera *ammgur frekar en ömmgur.

Ég segi „ætti“ vegna þess að ef orðið væri myndað á sama hátt og mæðgur ætti þarna ekki að vera neitt hljóðvarp – þessari orðmyndun fylgdi ekki u-hljóðvarpið a > ö. En þótt æ-ið í mæðgur sé ekki komið úr fleirtölunni mæður (enda aðeins um eina móður að ræða) heldur tilkomið með hljóðvarpi sem tengist viðskeytinu er trúlegt að málnotendur skynji mæð- í mæðgur sem fleirtölu, enda óneitanlega um fleiri en eina konu að ræða. Á sama hátt finnst málnotendum eðlilegt að nota fleirtölumyndina ömm- frekar en eintöluna amm- vegna þess að konurnar eru fleiri en ein, þótt vissulega sé aðeins ein þeirra amma. Á endanum eru það auðvitað málnotendur sem ráða hvaða orð komast í umferð en ekki málfræðingar – vilji fólk nota ömmgur gerir það það.

Kjúlli

Um daginn sá ég bent á það hjá Facebookvini að þótt orðið kjúlli sé vissulega í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er það ekki að finna í neinni íslenskri orðabók þrátt fyrir að flestir Íslendingar noti það sennilega eða a.m.k. þekki. Þetta orð, sem er vitanlega stytting eða gæluyrði fyrir kjúklingur, er fjarri því að vera nýtt í málinu. Elsta dæmi á tímarit.is er í sögu eftir Þorstein Antonsson í Lystræningjanum 1980: „Nanna hlustaði með öðru eyranu og varla það, hugsaði um hvað gera þyrfti. Kaupa rauðkál rauðbeður með kjúlla.“ Þar sem orðið tilheyrir óformlegu málsniði eins og aðrar slíkar styttingar segir aldur og tíðni þess á prenti væntanlega ekki alla söguna, en orðið verður algengt í rituðu máli kringum aldamótin.

Slíkar styttingar eða gæluyrði eru gífurlega margar og algengar í óformlegu málsniði, einkum talmáli. Stundum eru þær það algengar og útbreiddar að flestir málnotendur nota þær eða þekkja, og þá er vitanlega ástæða til að skrá þær í orðabækur. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983 var t.d. að finna orðin hjúkka sem var skýrt „hjúkrunarkona (gæluyrði)“ og lögga sem var merkt með ? og skýrt „lögregla, lögreglumaður (niðrandi stytting)“. Í ritdómi var bent á að það yrði „naumast sagt að þessar umsagnir um stílgildi orðanna hitti í mark (nema gert sé ráð fyrir að löggum beri meiri virðing en hjúkkum)“. Í nýjustu útgáfu bókarinnar eru orðin hins vegar án spurningarmerkis en merkt „óforml.“.

Þessar styttingar eru af ýmsum tegundum en margar hverjar myndaðar á svipaðan hátt og gælunöfn, svo sem með því að lengja eitthvert samhljóð í grunnorðinu og hugsanlega samlaga það öðrum, eins og þegar kl verður ll í kjúklingur > kjúlli, eins og lf > ll í Úlfar > Úlli og lk > ll í stúlka > Stúlla. Sama gildir um gr > gg í gregla > gga og kr > kk í hjúkrunarkona > hjúkka. Ýmsum öðrum aðferðum er einnig beitt til að mynda gælunöfn og gæluyrði. Viðskeytið , eins og í Sigló, Kvennó, Iðnó, púkó, sleikjó, Samfó o.s.frv. var mjög algengt í slíkri orðmyndun áður fyrr en er sennilega minna notað til nýmyndunar núorðið. Stundum gegnir viðskeytið -ari einnig þessu hlutverki, eins og í Ólsari og fössari.

En iðulega er tíðni og útbreiðsla orða af þessu tagi miklu takmarkaðri – þau eru oft bundin við ákveðinn hóp, t.d. aldurshóp, skólafélaga, kunningjahóp, vinnufélaga, fjölskyldu o.s.frv. Þau eru líka iðulega einnota – fólk bregður þeim fyrir sig og þau eru þá skiljanleg út frá samhengi, en aldrei notuð aftur. Eins geta orð af þessu tagi komist í tísku um tíma en gleymast svo fljótt. Orðið fössari var t.d. valið orð ársins 2015 og er í BÍN en ég veit ekki hvort það er lífvænlegt – það er a.m.k. ekki komið inn í orðabækur. Í Orðabók um slangur sem kom út 1982 er að finna styttinguna Orðó fyrir Orðabók Háskólans. Það helgast af því að höfundar bókarinnar unnu þar allir um tíma, en tæpast hafa margir aðrir notað þetta orð.

Mjög mörg orð af þessu tagi eiga því ekkert erindi í orðabækur – ýmist vegna þess að þau hafa svo takmarkaða notkun og útbreiðslu (í tíma eða rúmi) eða vegna þess að þau eru svo gagnsæ að þau þarfnast ekki skýringar. Það má vel halda því fram að það síðarnefnda gildi um orðið kjúlli. En vegna þess að það er orðið meira en 40 ára gamalt og er mjög útbreitt í málinu fyndist mér samt ekkert óeðlilegt að skrá það í orðabækur.

Gær er nafnorð!

Í gær sá ég umræðu um það í hópnum Skemmtileg íslensk orð hvaða orðflokkur gær væri. Skoðun flestra var að það væri atviksorð en sum töldu það þó frekar nafnorð. Við höfum væntanlega flest lært að þetta sé atviksorð og þannig er það flokkað í flestum orðabókum og kennslubókum, held ég, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Undantekning er þó Ritmálssafn Árnastofnunar þar sem gær er flokkað sem nafnorð í hvorugkyni. Í Den Danske Ordbog er går sem er auðvitað sama orð og kemur eingöngu fyrir í sambandinu i går flokkað sem nafnorð. Samsvarandi orð í þýsku, gestern, er hins vegar flokkað sem atviksorð enda stendur það sjálfstætt en ekki með forsetningu.

Vissulega er hægt að færa bæði merkingarleg og beygingarleg rök fyrir því að gær sé atviksorð. Það kemur eingöngu fyrir í sambandinu í gær sem hefur atvikslega merkingu – í setningum eins og ég kom í gær getum við sett dæmigerð atviksorð eins og áðan, nýlega o.s.frv. í staðinn fyrir í gær. En þar koma atviksorðin í stað sambandsins í gær, ekki bara í stað orðsins gær. Við getum líka tekið setningu eins og ég kom í morgun og sett áðan eða nýlega í staðinn fyrir í morgun en samt dettur engum í hug að segja að morgun sé atviksorð. Ástæðan er auðvitað sú að morgun kemur fyrir sjálfstætt, utan sambandsins í morgun, en gær kemur eingöngu fyrir í þessu sambandi. Merkingarlegu rökin duga því varla ein og sér.

Sú staðreynd að gær kemur eingöngu fyrir í þessu sambandi er líka notuð sem rök fyrir greiningu orðsins sem atviksorðs. Á bak við það virðist liggja sú hugmynd að öll nafnorð hljóti að geta komið fyrir í mismunandi beygingarmyndum. En því fer fjarri – það er til sægur nafnorða sem koma eingöngu fyrir í einu orðasambandi og þar af leiðandi aðeins í einni beygingarmynd. Engum dettur í hug að flokka takteinum, boðstólum og kyrrþey sem atviksorð þótt þau komi aðeins fyrir í samböndunum á takteinum, á boðstólum og í kyrrþey. Ástæðan er sú að við tengjum orðhlutana -teinn, -stóll og -þeyr við orðin teinn, stóll og þeyr sem auðvitað eru til sjálfstæð, og hikum þess vegna ekki við að greina samsetningarnar sem nafnorð.

Þannig er það ekki með gær – við finnum það hvergi sem seinni lið samsetninga (nema fyrragær). En sama máli gegnir t.d. með tagi (eða tæi) í samböndum eins og af þessu/ýmsu tagi. Það kemur eingöngu fyrir í þessari mynd og er ekki að finna í neinum samsetningum. Samt sem áður er það ævinlega flokkað sem hvorugkynsnafnorð. Líklega er það endingin -i sem er þágufallsending allra sterkra hvorugkynsorða sem ýtir undir þá flokkun. Orðið gær hefur enga endingu, enda stendur það í þolfalli (ef það er fallorð) og sterk hvorugkynsorð eru endingarlaus í þolfalli. Það eru þess vegna engar beygingarlegar eða orðmyndunarlegar vísbendingar um að gær sé nafnorð. En ekki heldur gegn því að það sé nafnorð.

Þá má leita til upprunans. Í Íslenskri orðsifjabók er orðið tengt við gestern í þýsku, gistradagis í gotnesku (sem merkir reyndar 'á morgun' eins og í gær gat gert í skáldamáli) og hĕrī í latínu sem allt eru atviksorð. Í þessum málum stendur orðið ekki á eftir forsetningu eins og í íslensku og dönsku – hún er síðari tíma viðbót. Það er því engin ástæða til að efast um að gær sé upphaflega atviksorð, en það er fjarri því að vera einsdæmi að orð flytjist milli flokka. Nægir að nefna atviksorðið stundum sem er upphaflega þágufall fleirtölu af nafnorðinu stund, og nafnorðið í sambandinu á nóinu sem er komið úr ensku neituninni no. Orðin og nei eru oftast greind sem atviksorð (eða upphrópanir) en geta einnig verið nafnorð. O.s.frv.

Hvorki merkingarleg né beygingarleg né orðsifjafræðileg rök duga því til að sýna fram á að gær sé atviksorð. Aftur á móti bendir setningafræðileg staða orðsins eindregið til þess að það sé nafnorð. Það stendur á eftir dæmigerðri forsetningu, í, í samböndum sem virðast alveg hliðstæð við sambönd í og ótvíræðra nafnorða – í dag, í morgun, í kvöld. Einnig má benda á hliðstæðu við sambandið í fyrradag. Orðið fyrradag er ekki til í nefnifalli – það kemur bara fyrir í þessu sambandi, rétt eins og gær, en engum dettur þó í hug að kalla það atviksorð. Er eitthvert vit í að segja að í dag og í fyrradag séu sambönd forsetningar og nafnorðs, en í gær sé samband tveggja atviksorða (í telst ekki forsetning nema stjórna falli)?

Að öllu samanlögðu tel ég engan vafa leika á því að réttast sé að greina gær sem nafnorð. En þá vaknar spurningin: Í hvaða kyni? Því er ekki auðvelt að svara. Þær vísbendingar sem við notum venjulega til að greina kyn nafnorða eru beygingin, greinirinn, kyn lýsingarorða og fornafna sem með þeim standa, og kyn fornafna sem vísa til þeirra. Engu þessara einkenna er til að dreifa hér og þá er aðeins eftir að líta á gerð orðsins sjálfs. Í sjálfu sér gæti orð af þessu tagi verið í hvaða kyni sem er en einhvern veginn finnst mér eðlilegast að telja þetta hvorugkyn. Í raun er þetta þó eingöngu fræðileg spurning – vegna þess að orðið kemur eingöngu fyrir í einu sambandi, og aldrei er vísað til þess með fornafni, reynir aldrei á kynið.

Gerandi ofbeldis – gerandi minn

Nafnorðið gerandi hefur fleiri en eitt hlutverk. Í málfræði táknar það „þann sem gerir eitthvað, framkvæmir einhvern verknað, vinnur eitthvert verk“ eins og segir í íðorðasafni í málfræði í Íðorðabankanum. Í þessari merkingu er orðið hlutlaust, notað með fjölbreyttum sögnum – tala, kyssa, vinna, borða, lesa, berja, meiða, drepa taka allar með sér geranda. En auk þess hefur orðið lengi verið notað í lagamáli og dómum um fólk sem brýtur eitthvað af sér eða hagar sér á refsiverðan hátt – talað er um gerendur í fjársvikamálum, þjófnaðarmálum, morðmálum og ýmsum öðrum tegundum afbrota. Síðast en ekki síst er talað um gerendur í kynferðisbrotamálum en notkun orðsins á því sviði hefur aukist mjög á undanförnum árum.

Í tengslum við notkun orðsins gerandi um fólk sem brýtur eitthvað af sér hefur orðið áhugaverð breyting á setningafræðilegri hegðun þess. Nú tekur það iðulega með sér nafnorð í eignarfalli sem lýsir því hvers eðlis umrædd meingerð er – talað er um geranda eineltis, geranda ofbeldis, geranda afbrots, geranda árásar og fleira í þeim dúr, og í kjölfar bankahrunsins 2008 var líka iðulega talað um gerendur hrunsins. Þessi notkun orðsins virðist ekki nema svona þrjátíu ára gömul. Elstu dæmi sem ég finn um hana eru frá 1991 og örfá dæmi eru til frá tíunda áratug síðustu aldar. Notkunin hefst hins vegar að ráði um aldamót og hefur farið stöðugt vaxandi síðan samfara aukinni umræðu um mál af þessu tagi.

Það er auðvitað algengt að nafnorð sem eru mynduð af sögnum með viðskeytinu -andi (upphaflega lýsingarháttur nútíðar) taki með sér eignarfallsorð. Við tölum um eiganda hússins, notendur þjónustunnar, lesendur blaðsins o.s.frv. Í þeim tilvikum tekur samsvarandi sögn oft sams konar nafnorð sem andlag – við tölum um að eiga húsið, nota þjónustuna, lesa blaðið o.s.frv. En því er ekki til að dreifa með sögnina gera – við segjum ekki *gera einelti, *gera ofbeldi, *gera hrunið eða neitt slíkt. Það er þó ekki einsdæmi að orð myndað með -andi samsvari viðkomandi sögn ekki að þessu leyti. Við tölum t.d. um nemendur skólans þótt ekki sé talað um að *nema skólann. Tengsl -andi-orðs við eignarfallsorðið geta verið mismunandi.

En eignarfall með orðinu gerandi getur líka haft annað hlutverk en að lýsa eðli meingerðarinnar – það getur líka staðið fyrir þolanda hennar, einkum í eineltis- og kynferðisbrotamálum. Nú er t.d. sagt ég hætti að óttast geranda minn, hann gat horfst í augu við gerendur sína, þó er hún enn hrædd við geranda sinn, það er verið að hylma yfir með geranda hennar o.s.frv. Þessi notkun eignarfalls með gerandi er mjög nýleg – elsta dæmi sem ég fann um hana er frá 2007 en árið 2012 blossar hún upp og hefur breiðst mjög út á síðustu árum í kjölfar #metoo. Væntanlega er hún tilkomin fyrir áhrif frá hliðstæðum samböndum þar sem þolandinn er í eignarfalli eins og morðingi hans, nauðgari hennar o.fl.

Þar er þó sá munur eins og áður að samræmi er milli nafnorðsins og samsvarandi sagnar – við segjum myrða hann, nauðga henni o.s.frv. Við segjum hins vegar ekki *gera mig/mér, *gera hana/henni. Þar verður að koma eitthvað meira, annað andlag – gera mér/henni mein/miska. En þótt þarna sé ekki samræmi á milli er ástæðulaust að amast við samböndum eins og gerandi minn/hennar/hans o.s.frv. Merkingartengsl milli nafnorðs sem er höfuðorð í nafnlið og eignarfalls sem það tekur með sér geta verið með ýmsu móti. Þó sakar ekki að nefna að í orðinu meingerðamaður sem er gamalt í málinu en mjög sjaldgæft koma bæði andlögin fyrir. Það mætti hugsa sér að segja meingerðamaður minn í stað gerandi minn.

Líttu við

Í kverinu Gætum tungunnar sem kom út 1984 segir:

  • Maður sagði: Líttu við í kvöld.
  • Hann hugsaði: Líttu inn, eða Komdu við.
  • (Að líta við merkir að líta um öxl, horfa til baka; en það merkir ekki að líta inn eða koma við.)

Það er ekki einsdæmi að amast hafi verið við notkun sambandsins líta við í áðurgreindri merkingu. Gísli Jónsson gerði það t.d. í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1984, og Guðni Kolbeinsson sagði í Helgarpóstinum 1995: „Við getum komið við á einhverjum stað og litið inn til kunningjanna. Hins vegar megum við ekki slá þessu tvennu saman og fara að líta við hjá þeim. Líta við merkir bara að snúa höfðinu og líta um öxl.“ Í þætti sínum 1985 birti Gísli Jónsson þó bréf frá Kristjáni Jónssyni frá Garðsstöðum þar sem sagði: „„Að líta við“ merkir auðvitað að líta um öxl […] en ég kannast við það í merkingunni að ætla að koma við og þykir það ekki ljótt. Vil ég því ekki fordæma það heiftarlega.“

En á hverju byggist þessi andstaða? Vorið 1985 skrifaði ég grein í Skímu þar sem m.a. var vísað í Gætum tungunnar og sagt: „Manni er líka sagt að það megi ekki segja líta við í merkingunni 'koma við' eða 'líta inn', því að líta við merki 'líta um öxl'; en af hverju má þá nota koma við í merkingunni 'líta inn', þó að koma við merki líka 'snerta'?“ Þessu svaraði Helgi Hálfdanarson, höfundur kversins: „Við spurningu Eiríks um […] líta við og koma við hygg ég ráðlegast að leita svara í orðabók Sigfúsar Blöndals eða Árna Böðvarssonar og láta sér lynda það sem þar er sagt.“ Og bætti við: „Sambandið líta við í merkingunni koma við eða líta inn finnst hvergi í orðabók; og væri þó e.t.v. tímabært að benda á það sem málleysu.“

Það var vissulega rétt hjá Helga Hálfdanarsyni árið 1984 að líta við í merkingunni 'koma við' eða 'líta inn' fannst þá ekki í neinum orðabókum. En alkunna er að ýmis orð og merkingar sem til eru í málinu hafa ekki komist í orðabækur, og það tekur tíma fyrir ný orð og merkingar að komast þangað inn. Ljóst er að þessi merking er a.m.k. hátt í aldargömul, því að í Vísi 1930 auglýsir skóverslun: „Þegar þér þurfið á bamaskófatnaði að halda, þá gerið svo vel og líta við hjá okkur.“ Eftir 1950 verður merkingin algeng. Hún komst loks inn í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002, að vísu merkt !? sem táknar að hún njóti ekki fullrar viðurkenningar, en hins vegar er hún nefnd alveg athugasemdalaust í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Eins og áður kom fram segir í Gætum tungunnarlíta við merki 'að líta um öxl, horfa til baka' og Guðni Kolbeinsson sagði: „Líta við merkir bara að snúa höfðinu og líta um öxl.“ En aðeins örfá dæmi frá seinustu árum á tímarit.is hafa þá merkingu. Hvorki Helgi né Guðni nefnir hins vegar að sambandið getur einnig tekið með sér nafnlið og hefur þá aðra merkingu sem er oftast höfð með neitun – líta ekki við einhverju í merkingunni 'vilja ekki, kæra sig ekki um, hafa ekki áhuga á, virða ekki viðlits'. Við það bætist að í fornu máli merkti sambandið líta við einhverjum 'líta á, horfa í átt til' – „Konungur leit við honum og þagði“ segir í Heimskringlu. En sú merking er að mestu eða öllu leyti horfin í nútímamáli.

Við snögga skoðun á tímarit.is sýnist mér að þótt merkingin 'líta inn, koma við' hafi ekki komist inn í aðra útgáfu Íslenskrar orðabókar 1983 hafi þetta verið algengasta merking sambandsins líta við a.m.k. frá því um 1970, og yfirgnæfandi meirihluti dæma frá þessari öld hefur þá merkingu. Ég veit ekki hvort einhvers staðar er enn verið að fetta fingur út í þessa notkun sambandsins – ég hef ekki rekist á nýlegar athugasemdir við hana og hún er t.d. ekki nefnd í Málfarsbankanum. Þótt líta við hafi vissulega aðrar merkingar líka veldur það engum misskilningi. Það væri auðvitað fráleitt að amast við merkingu sem er hátt í aldargömul í málinu og er greinilega aðalmerking sambandsins í nútímamáli.