Að skipta um skoðun

Ég var í Kiljunni í kvöld sem var gaman, en það var eitt sem ég fór að hugsa um eftir á. Egill byrjaði á að segja að það væri eiginlega merkilegt að lesa að ég hefði einhvern tíma verið málhreinsunarmaður, svona miðað við afstöðu mína nú. Svipað kom upp á þegar ég var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 á föstudaginn var, þar sem verið var að ræða málþing um kynhlutlaust mál. Þar nefndi ég – reyndar ekki í viðtalinu sjálfu, heldur í samtali við þáttastjórnendur eftir á – að ég hefði algerlega skipt um skoðun í þeim efnum, og það þótti stjórnendunum merkilegt.

Það sem mér fannst hins vegar merkilegt var að það skyldi þykja merkilegt að ég hefði skipt um skoðun. Hvað er svona merkilegt við það? Mér finnst það fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og geri það iðulega, ef ég sannfærist um að fyrri skoðun mín sé röng eða hafi byggst á misskilningi eða léttvægum rökum. En það er oft eins og það þyki ekki gott að skipta um skoðun – það sé túlkað sem vingulsháttur og reiðarek. Þetta rímar auðvitað við það að það þykir ekki eðlilegt á Íslandi að viðurkenna mistök eða að maður hafi ekki sagt satt. Það er veikleikamerki.

Einn megintilgangur minn með bókinni er einmitt sá að reyna að efla gagnrýna hugsun um íslenskuna. Við erum vön að láta segja okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt án þess að fyrir því séu færð mikil rök – þetta bara er svona. Það er ekki til þess fallið að ýta undir áhuga á tungumálinu, heldur elur á misskilningi um málið og eðli þess. Við viljum ekki að nemendur læri námsefnið eins og páfagaukar, heldur skoði það með gagnrýnum huga og leitist við að skilja það. Nema þegar kemur að íslenskunni – þá er ýmislegt sem er „af því bara“. Þannig á það ekki að vera.

Málnotendur eiga rétt á að fá skýringu á því sem verið er að boða, og taka sjálfstæða afstöðu til þess. Kannski verða skýringarnar til þess að einhverjir þeirra skipti um skoðun, en það er ekki meginatriðið, heldur það hvort tekst að fá fólk til að hugsa um málið.

Merkir einhver sama og someone?

Nýlega sá ég í þýddri grein á vefmiðli setninguna „Mamma, pabbi, ég er í sambandi með einhverjum“. Mér fannst þetta dálítið sérkennilegt og óíslenskulegt en grunaði hvað lægi að baki og sá grunur staðfestist þegar ég skoðaði enska frumtextann – þar stóð „I’ve been seeing someone.“ Vissulega samsvarar enska orðið someone mjög oft íslenska orðinu einhver sem merkir 'ótilgreind persóna' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók, og þessi orð eru þýdd hvort með öðru í orðabókum milli íslensku og ensku. En skýringin 'ótilgreind persóna' er samt ófullnægjandi. Einhver er nefnilega ekki bara ótilgreindur gagnvart viðmælanda, heldur líka óskilgreindur gagnvart mælanda, í þeim skilningi að mælandi veit ekki deili á honum.

Ef dyrabjöllunni er hringt og ég fer til dyra, og úti stendur maður sem ég þekki ekki, get ég sagt við konuna mína það er einhver að spyrja eftir þér. Ég sé vissulega manninn og gæti lýst honum en hann er samt óskilgreindur gagnvart mér. Konan mín gæti hins vegar vitað deili á honum en fær ekki upplýsingar um það hver hann sé – af því að ég get ekki gefið henni þær – þannig að hann er ótilgreindur gagnvart henni. Ef ég þekki manninn hins vegar get ég ekki sagt það er einhver að spyrja eftir þér. Eðlilegast er að nefna nafnið en ef ég vil af einhverjum ástæðum ekki gera það get ég sagt það er maður að spyrja eftir þér, það er verið að spyrja eftir þér eða eitthvað slíkt. En ég get ekki notað einhver.

En þetta er öðruvísi í ensku. Þar nægir að sá sem um er rætt sé ótilgreindur gagnvart viðmælanda – hann þarf ekki að vera óskilgreindur gagnvart mælanda, þótt hann geti verið það. Mælandi getur sem sé vitað um hvern er að ræða. Konan sem nefnd var hér í upphafi vissi vitanlega – skyldi maður ætla – hvern hún hafði verið að hitta þótt foreldrarnir vissu það ekki. Í ensku er hægt að nota someone við slíkar aðstæður – en ekki í íslensku. Í enskri orðabók segir um someone: 'used to refer to a single person when you do not know who they are or when it is not important who they are'. Það er seinni hlutinn sem hér skiptir máli og sýnir að mælandinn getur vitað deili á þeim sem um er að ræða þótt hann nefni það ekki.

Þetta dæmi sýnir vel hvernig fíngerður merkingarmunur, sem ekki kemur endilega fram í orðabókum, getur verið milli orða í tveimur tungumálum sem í fljótu bragði virðast merkja það sama. Sá merkingarmunur sem hér hefur verið lýst milli einhver og someone skiptir sjaldnast máli og þess vegna hætt við að hann fari fram hjá okkur. Þetta sýnir líka hvað það er mikilvægt að þýða texta ekki í hugsunarleysi og einblína á einstök orð – það verður að skoða textann í heild og greina merkingu hans. En jafnframt sýnir þetta hversu snúin vélræn þýðing getur verið (án þess að ég sé að segja að um hana sé að ræða í þessu tilviki) – sú merkingargreining sem þarna er nauðsynleg er hreint ekki einföld fyrir tölvur.

Í hámæli

Orðið hámæli er skýrt 'e-ð sem er umtalað, á allra vörum án þess að vera eiginlega opinbert' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en hámark er aftur á móti 'hæsta stig sem e-ð getur eða hefur náð'. Oftast sker samhengið ótvírætt úr um það hvort orðið eigi við en þó eru þess dæmi að hvort tveggja kæmi til greina. Í Helgarpóstinum 1987 segir t.d.: „Maður skyldi ætla að versiunareigendum væri ami að sífelldum straumi fólks að kaupa sér miða, til dæmis á laugardagseftirmiðdögum þegar lottóvíman er í hámæli.“ Þarna er vissulega hugsanlegt að átt sé við að mikið sé rætt um lottóvímuna á laugardagseftirmiðdögum, en samt virðist miklu líklegra að merkingin sé sú að lottóvíman sé í hámarki. Ýmis fleiri hliðstæð dæmi mætti nefna.

Stundum er þó ótvírætt að merkingin í hámæli er 'hámark'. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Það þarf ekki að vera svo flókið að útbúa hollan og góðan mat úr grænmeti; ekki síst á þessum árstíma þegar uppskera grænmetis er í hámæli.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „birgðir útvegsins aukast alla jafna á þessum tíma árs þegar vetrarvertíð er í hámæli.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir „að mikill munur sé á veitingum í brúðkaupsveislum og árshátíðum sem eru í hámæli um þessar mundir“. Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Nú þegar sumarið er í hámæli.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „svona mitt á milli Laugavegar og Kringlu, þar sem jólaverslun landans er í hámæli, stendur hópur fólks og bíður eftir matarpoka.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „kannski varla við öðru að búast þegar kosningabaráttan er í hámæli.“

Í gær var hér bent á dæmi um að orðið hámæli væri notað í merkingunni 'hámark'. Ég hafði rekist á þetta áður en hélt að það væri nýtt, en þegar ég fór að skoða þetta kom í ljós eins að það eru allnokkur ár síðan þessi notkun fór að stinga sér niður. Í umræðunni var bent á að orðasambönd eins og í miklum mæli gætu stuðlað að því að hámæli væri notað í merkingunni 'hámark'. Í sambandinu í miklum mæli er mæli vissulega beygingarmynd af karlkynsorðinu mælir en ekki hvorugkynsorðinu mæli eins og í hámæli, en vegna þess að hámæli kemur aðeins fyrir í þolfalli eða þágufalli og *mikill mælir aldrei í nefnifalli falla orðmyndirnar alltaf saman og því er ekki óeðlilegt að málnotendur skynji þetta sem sama orðið – líti svo á að í hámæli merki 'í háum (= miklum) mæli' eða eitthvað slíkt.

En þótt þessi breyting sé þannig skiljanleg þýðir það ekki að hún sé æskileg. Orðið hámark þjónar sínum tilgangi ágætlega og engin þörf á að leysa það af hólmi. Ef farið er að nota orðið hámæli í sömu merkingu er hætta á misskilningi vegna þess að samhengið sker ekki alltaf úr um merkinguna eins og hér hefur komið fram. Það má halda því fram að málið verði fátækara ef merking þessara orða rennur saman. Þótt þessi tilhneiging til breytingar á merkingunni í hámæli sé ekki alveg ný af nálinni virðist hún ekki vera orðin mjög útbreidd enn og því ætti að vera möguleiki að snúa henni við. Leyfum hámæli að halda hefðbundinni merkingu.

2:1 fyrir Ísland eða Íslandi?

Forsetningin fyrir tekur ýmist með sér þolfall eða þágufall í dæmum eins og staðan er 2:1 fyrir Ísland/Íslandi. Þetta samband með þolfalli var a.m.k. komið til fyrir 1940, og þolfallið hefur verið yfirgnæfandi til skamms tíma. Elstu dæmi um þágufallið sem ég hef fundið við snögga leit eru frá 1981 en notkun þess virðist hafa aukist mjög á allra síðustu árum. Samkvæmt lauslegri athugun í Risamálheildinni gæti hlutfall þolfalls og þágufalls í textum frá síðustu 20 árum verið 3:1, en mjög misjafnt eftir miðlum. Hlutfall þágufallsins er mun hærra í textum sem ætla má að yngra fólk skrifi og því trúlegt að það eigi enn eftir að hækka á næstu árum.

Svo má spyrja hvort hægt sé að finna einhverja ástæðu fyrir þessum tilbrigðum. Forsetningin fyrir stjórnar frá fornu fari ýmist þolfalli eða þágufalli og ekki er alltaf auðvelt að finna merkingarlegar ástæður fyrir fallstjórninni hverju sinni. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tilgreind 12 merkingartilbrigði forsetningarinnar, sjö sem taka með sér þolfall og fimm sem taka með sér þágufall. Ekki er alveg ljóst undir hvert þeirra sambandið sem hér um ræðir gæti fallið – þolfallið e.t.v. helst undir það áttunda, 'með tilliti til, gagnvart'. Þágufallið á sér aftur á móti hliðstæðu í dæmum eins og ganga/fara vel/illa fyrir einhverjum, blása byrlega fyrir einhverjum, hlaupa á snærið fyrir einhverjum, syrta í álinn fyrir einhverjum.

Málfarsbankinn segir: „Það er talið betra mál að segja 2 – 0 fyrir mig en „2 – 0 fyrir mér“.“ Þetta er auðvitað smekksatriði og getur ekki byggst á öðru en því að eldri og ríkari hefð er fyrir þolfallinu, en bæði þolfallið og þágufallið ríma ágætlega við merkingartilbrigði forsetningarinnar fyrir. Sjálfum finnst mér hvort tveggja eðlilegt þótt ég myndi frekar nota þolfallið og segja 2:1 fyrir Ísland. Það er hins vegar ljóst að þágufallið er í sókn og orðið mjög útbreitt þannig að það er komin hefð á það líka. Vegna þess að það á sér hliðstæður í annarri notkun forsetningarinnar fyrir finnst mér engin ástæða til annars en viðurkenna það sem rétt og vandað mál.

Íðorð og almennt mál

Í Facebook-hópnum Málspjall spannst nýlega mikil umræða út frá fyrirspurn um orð yfir gerendur eineltis. Ég áttaði mig á því eftir á að fólk talaði þarna dálítið í kross. Það var stungið upp á að nota ýmis orð sem eru vel þekkt úr almennu máli – einkum hrekkjusvín en líka tuddi, ruddi, hrellir, ótukt og ýmis fleiri. Ég brást margsinnis við tillögum um þessi orð á þann veg að þau væru ekki nothæf í þeim tilgangi sem um var að ræða, og ég stend við það. En mikilvægt er að það komi skýrt fram að þetta eru allt saman ágæt orð sem sjálfsagt er að nota í daglegu tali þegar verið er að ræða um tiltekin mál. Þau eru bara ekki hentug sem íðorð, þ.e. fagorð í fræðilegri umræðu.

Það eru ekki nema um 40 ár síðan farið var að nota nafnorðið einelti sem íðorð, þótt það væri þekkt í sambandinu leggja í einelti. En það sem nú er flokkað undir einelti var kallað ýmsum nöfnum – stríðni, hrekkir, áreitni, ofbeldi o.fl. Þessi orð eru vitanlega enn góð og gild en eins og útbreiðsla orðsins einelti sýnir er hentugt að hafa eitt orð með afmarkaða skilgreinda merkingu til að ná yfir fjölbreytta hegðun – einelti er skilgreint í Lögfræðiorðasafni sem: „Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“

Orðin stríðni og hrekkur eru ekki í neinu íðorðasafni, og skilgreining orðanna áreitni og ofbeldi í íðorðasöfnum er langt frá því að ná yfir öll tilbrigði eineltis. Áðurnefnd orð sem stungið var upp á að nota um gerendur, tuddi, ruddi, hrellir, ótukt o.fl., eru ekki heldur í íðorðasöfnum enda er merking þeirra ýmist of óskilgreind eða of sértæk til að þau geti hentað sem íðorð. Það er nefnilega sá meginmunur á íðorðum og orðum í almennu máli að íðorðin verða að hafa afmarkaða og vel skilgreinda merkingu sem almenn sátt er um (þótt vissulega geti fólk stundum greint á um merkingu einstakra íðorða). Orð í almennu máli hafa hins vegar oft tiltölulega fljótandi merkingu og fólk getur lagt mismunandi merkingu í þau.

Þetta á ekki síst við um orð um óhlutstæð fyrirbæri eins og hegðun og tilfinningar, þótt jafnvel geti verið ótrúlega erfitt að skilgreina nákvæmlega merkingu orða um áþreifanlega hluti eins og vel kom fram í þekktri grein Höskuldar Þráinssonar um merkingu orðsins bolli. Stundum er reynt að taka orð úr almennu máli og gera þau að íðorðum með því að hnika skilgreiningu þeirra til. Þekkt dæmi er öreigi sem merkir 'eignalaus maður' en kommúnistar gáfu merkinguna 'sá sem á ekki framleiðslutæki'. Þetta er þó varasamt og tekst ekki alltaf vel því að hætta er á að orðin haldi gömlu merkingunni áfram í huga málnotenda.

Orðið einelti var vissulega til í almennu máli áður, en eingöngu í sambandinu leggja í einelti. Þess vegna þurfti ekki að hrófla neitt við merkingu þess þegar það var gert að íðorði. Það væri gagnlegt að hafa orð um gerendur eineltis sem svaraði nákvæmlega til orðsins. Það gerir orð eins og hrekkjusvín ekki, og það er tæpast orð sem unnt er að nota í fræðilegri umræðu. Vegna þess að mér virtist fyrirspurnin varða slíka notkun (sem kann að hafa verið misskilningur) stakk ég upp á orðinu eineltir en það er mér vitanlega að meinalausu ef fólki finnst það ekki heppilegt. Aðalatriðið er að hafa í huga að það er munur á orðum í almennu máli og íðorðum, en hvort tveggja á vitanlega fullan rétt á sér – þar sem við á.

Hvað er auðmýkjandi lífsreynsla?

Stundum sér maður að farið er að leggja nýja merkingu í lýsingarorðið auðmýkjandi. Elsta dæmi sem ég hef rekist á um þetta er í DV 2014: „Meðgangan og barneignarferlið almennt hefur verið auðmýkjandi, yndislegt og lærdómsríkt.“ Annað dæmi er úr Víkurfréttum 2021: „Það er bara svo magnað og á sama tíma afar auðmýkjandi að upplifa kraftinn frá móður Jörð.“ Í Morgunblaðinu 2022 segir: „það er sérstaklega auðmýkjandi að vera falið að vera fyrsti forseti deildarinnar.“ Og nýlega sá ég á Facebook: „Það er auðmýkjandi að byrja upp á nýtt í nýju landi.“

Lýsingarorðið auðmýkjandi er komið af sögninni auðmýkja og er skýrt 'sem auðmýkir' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en sögnin er aftur skýrð 'gera lítið úr (e-m), vanvirða (e-n)'. Hún er komin af lýsingarorðinu auðmjúkur sem er skýrt 'bljúgur og undirgefinn' í Íslenskri nútímamálsorðabók og af því er líka komið nafnorðið auðmýkt sem er skýrt 'það að vera auðmjúkur'. Mér finnst reyndar 'bljúgur og undirgefinn' ekki ná merkingunni alveg – þetta merkir einnig 'bera lotningu fyrir' eða eitthvað slíkt. En hvað sem því líður er ljóst að auðmjúkur er fremur jákvætt orð, auðmýkjandi neikvætt.

Þetta virðist hins vegar vera að breytast eins og dæmin hér að framan sýna. Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Báðir hópar eru að gera eitthvað sem þeir kunna ekki og það er mjög auðmýkjandi, í jákvæðri merkingu.“ Höfundur þessa texta gerir sér greinilega ljóst að þarna er um óhefðbundna notkun orðsins auðmýkjandi að ræða, og í dæmunum hér að framan er auðmýkjandi notað í þeirri jákvæðu merkingu sem auðmjúkur hefur. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt – eins og áður segir er auðmýkjandi komið af auðmjúkur, gegnum milliliðinn auðmýkja, og því virðist liggja beint við að merking orðanna sé nokkurn veginn sú sama.

En þannig er það ekki samkvæmt málhefðinni. Í fljótu bragði virðist það e.t.v. undarlegt að svona náskyld orð hafi svo ólíka merkingu en ef við skoðum orðin og myndun þeirra verður það skiljanlegt. Að mýkja eitthvað merkir 'gera mjúkt' og auðmýkja því 'gera auðmjúkt'. Þótt við séum sátt við að vera auðmjúk við ýmsar aðstæður táknar það ekki að við viljum láta gera okkur auðmjúk – það er niðurlægjandi. Í dæmunum hér að framan er samt ekki hægt að setja auðmjúkur í stað auðmýkjandi þótt það væri merkingarlega eðlilegt – það þarf að umorða setningarnar, t.d. Það fyllir mann auðmýkt að byrja upp á nýtt í nýju landi.

Þessi nauðsyn umorðunar ýtir e.t.v. undir hina nýju notkun auðmýkjandi – fólki finnst vanta þarna eitthvert lýsingarorð í jákvæðu merkingunni. Þessi breyting á notkun orðsins er því skiljanleg frá ýmsum sjónarmiðum. En breytingin virðist ekki komin mjög langt, miðað við hversu fá dæmi ég hef fundið um hana, og þess vegna ætti að vera hægt að snúa henni við. Það er æskilegt að halda sig við málhefð og halda áfram að gera skýran greinarmun á auðmjúkur og auðmýkt annars vegar og auðmýkja og auðmýkjandi hins vegar. Tölum um auðmýkjandi lífsreynslu ef við höfum verið niðurlægð en ekki ef við höfum verið auðmjúk gagnvart einhverju.

Hvers kyns er Blönduós?

Meginreglan um kyn samsettra orða er sú að seinni eða seinasti hluti þeirra ráði kyninu. Þetta gildir um örnefni eins og önnur orð. Þannig getum við sagt t.d. Reykjavík er mjög falleg, Akureyri er mjög falleg, Þórshöfn er mjög falleg, Skagaströnd er mjög falleg af því að vík, eyri, höfn og strönd eru kvenkynsorð; en Stykkishólmur er mjög fallegur, Sauðárkrókur er mjög fallegur, Hvammstangi er mjög fallegur, Seyðisfjörður er mjög fallegur, vegna þess að hólmur, krókur, tangi og fjörður eru karlkynsorð; og Borgarnes er mjög fallegt, Hveragerði er mjög fallegt vegna þess að nes og gerði eru hvorugkynsorð.

En það er samt ein undantekning, í mínu máli a.m.k. Blönduós er karlkynsorð, vegna þess að ós er karlkyns – en mér finnst samt eiginlega alveg ómögulegt að segja Blönduós er mjög fallegur ef átt er við bæinn (og í því felst ekkert mat á fegurð staðarins). Mér finnst aftur á móti mun eðlilegra að segja Blönduós er mjög falleg – eins og orðið væri í kvenkyni. Langflest dæmi um Blönduós á netinu eru vissulega í karlkyni en þó má finna nokkur dæmi um annað.

Í Degi 1985 segir: „Blönduós er vel í sveit sett, það er mikið um að vera hérna og fólk er félagslynt og það er mikið félagslíf.“ Í Áfangastaðaáætlun Norðurlands sem Ferðamálastofa gaf út 2018 segir: „Blönduós er staðsett við Húnaflóa og er stærsti þéttbýlisstaðurinn í Austur-Húnavatnssýslu.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Blönduós er staðsett í Austur-Húnavatnssýslu og er því á Norð-Vesturlandi.“ Öll þessi dæmi gætu verið hvort heldur er kvenkyn eða hvorugkyn, en eftirfarandi dæmi af RÚV 2018 getur aðeins verið hvorugkyn: „Blönduós er mjög notalegt og hér er fallegt umhverfi.“

Eðlilegur framburður orðsins er Blöndós, án u – ekki Blönduós. Þetta er eðlilegt vegna þess að sérhljóð kemur á eftir u, en leiðir til þess að tengingin við ána Blöndu verður óskýrari en í öðrum samsetningum þar sem u helst, eins og Blöndudalur, Blöndugil, Blönduvirkjun o.s.frv. Þetta þýðir aftur að það verður óskýrara í huga fólks að orðið er samsett úr Blöndu- og -ós þannig að tengingin við karlkynsorðið ós verður einnig óljósari. Það styður þessa hugmynd að ef verið er að vísa til ósa árinnar en ekki bæjarins verður að segja Blönduós er mjög fallegur – sem sé bera u-ið fram.

Stofngerð seinni hlutans ber líka ekki sérstaklega með sér að um karlkynsorð sé að ræða – við höfum orð eins og rós og dós sem eru kvenkyns og ljós og hrós sem eru hvorugkyns, en ég man í fljótu bragði ekki eftir öðrum karlkynsorðum en ós með þessa stofngerð. Framburðurinn gæti líka ýtt undir þá tilfinningu að seinni hlutinn væri kvenkynsorðið -dós. Samsetning orðsins er auðvitað skýr í huga staðkunnugra en fyrir utanaðkomandi er þetta kannski bara orð sem fólk hugsar ekki út í hvernig er samsett, og sem formsins vegna gæti verið bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð.

 

Íslenskukunnátta og úkraínskt flóttafólk

Undanfarið hefur orðið nokkur umræða um þær kröfur um íslenskukunnáttu sem eru gerðar í auglýsingu Eflingar um störf á skrifstofu félagsins. Íslenska er ríkismál og aðalsamskiptamálið á Íslandi og vitanlega er æskilegt að allt það fólk sem býr og starfar á landinu hafi gott vald á íslensku. Við vitum samt að það er ekki raunhæft og ég hef kallað eftir því að við hefjum umræðu um stöðu og hlutverk ensku í íslensku málsamfélagi. Þetta snýst nefnilega ekki bara um kröfur til starfsmanna Eflingar, heldur er miklu stærra og varðar það hvernig við bjóðum fólk velkomið inn í íslenskt málsamfélag.

Sem betur fer ríkir mikil samstaða þjóðarinnar um að taka vel á móti fólki sem flýr hið hræðilega stríð í Úkraínu. Sá samhugur sem við sýnum þessu fólki mætti reyndar ná til annars flóttafólks og hælisleitenda en það er annað mál. En það er ekki nóg að sjá fyrir fyrstu og brýnustu þörfum fólksins fyrir húsaskjól, föt og fleira. Við þurfum líka að hugsa fyrir því hvernig fólkið getur orðið hluti af íslensku samfélagi ef það verður hér til frambúðar. Þar er tungumálið meginatriði. Flóttafólkið talar vitanlega enga íslensku og sumt af því ekki ensku heldur. Að mínu mati er fernt sem þarf að hafa í huga.

Í fyrsta lagi er auðvitað grundvallaratriði að fólkinu, sem og öðrum útlendingum sem vilja vinna hér og setjast að, bjóðist íslenskukennsla. Það verður að vera vönduð kennsla sem hæfir kennarar sinna, og það þarf að gefa henni góðan tíma. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk leggi stund á íslenskunám meðfram fullri vinnu, enda er hætt við að athyglisgáfan sé farin að dofna ef fólk sest niður við nám að loknum löngum vinnudegi. Þessi kennsla verður að vera fólkinu að kostnaðarlausu og það þarf að vera á launum meðan á henni stendur. Ríkið og atvinnurekendur verða að bera kostnaðinn af þessu.

Í öðru lagi þarf að hafa í huga að tungumálanám tekur tíma. Jafnvel þótt fólk verji miklum tíma til námsins og sinni því af samviskusemi getur tekið einhver ár fyrir fullorðið fólk að ná sæmilegum tökum á málinu. En vitanlega er fólk ekki í íslenskunámi allan daginn alla daga árum saman, og það er mikilvægt að það komist sem fyrst í vinnu og geti farið að taka þátt í þjóðfélaginu á annan hátt meðan á náminu stendur þótt íslenskukunnáttan sé takmörkuð til að byrja með. Þannig þjálfast það líka í málinu á annan hátt en í beinu íslenskunámi. Við þurfum að finna leiðir til þess að svo geti orðið.

Í þriðja lagi þurfum við að átta okkur á því að fólk sem lærir erlent mál á fullorðinsaldri nær sjaldnast fullkomnum tökum á því. Það er vel þekkt að Íslendingar eru ekki sérlega þolinmóðir við fólk sem er að læra málið og skipta iðulega strax yfir í ensku þegar í ljós kemur að viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. En það þýðir að fólkið sem er að læra málið fær ekki þjálfun í að tala það og tekur þar af leiðandi engum framförum. Við verðum að viðurkenna að íslenska með erlendum hreim, röngum beygingum og óvenjulegri setningagerð er líka íslenska.

Í fjórða lagi er mikilvægt að skilgreina hve mikil og hvers konar íslenskukunnátta er nauðsynleg við tilteknar aðstæður. Í mörgum störfum getur dugað fólki að geta gert sig skiljanlegt í töluðu máli en kunnátta í að skrifa íslensku verið óþörf. Í ýmsum störfum getur verið mikilvægt að hafa vald á takmörkuðum orðaforða sem tengist starfinu en breið kunnátta í málinu verið óþörf. Í sumum tilvikum skiptir íslenskukunnátta engu máli fyrir hæfni fólks til að sinna starfi sínu vel. Það er mikilvægt að kröfur um íslenskukunnáttu í starfsauglýsingum séu málefnalegar og sniðnar að eðli starfsins.

Ég endurtek það sem ég hef áður skrifað: Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax.

Ómálefnaleg mismunun eftir íslenskukunnáttu

Á seinustu árum hafa iðulega birst fréttir um að erlent starfsfólk í ýmsum þjónustustörfum verði fyrir aðkasti vegna skorts á íslenskukunnáttu. Það er vitanlega óvið­un­andi – þótt íslenskukunnátta sé mikilvæg má barátta fyrir íslenskunni aldrei snúast upp í þjóðrembu og íslenskuna má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því. Vissulega getur í sumum til­vik­um verið málefnalegt að gera kröfur um íslensku­kunn­áttu „til að tryggja skilvirk sam­skipti við viðskipta­vini, þar á meðal í störf­um í þjón­ustu­geiranum“ eins og segir í nýlegum úrskurði Kærunefndar jafnréttismála.

Um helgina voru auglýst 15 störf á skrifstofu Eflingar. Til framkvæmdastjóra og verkefnastjóra upplýsingatæknimála er ekki gerð nein krafa um tungumálakunnáttu en í öllum öðrum störfum er gerð krafa um íslensku- og enskukunnáttu, ýmist mjög góða (2), góða (9) eða án nánari skilgreiningar (2). Þetta er athyglisvert, í ljósi þess að rúmur helmingur félaga í Eflingu er af erlendum uppruna og nærri ⅔ þeirra sem leituðu til Kjaramálasviðs félagsins á síðasta fjórðungi ársins 2020 voru af erlendum uppruna. En engin krafa er gerð um t.d. pólskukunnáttu þrátt fyrir hátt hlutfall Pólverja meðal Eflingarfélaga.

Í nýrri bók minni „Alls konar íslenska“ eru 25 heilræði um íslenska málrækt. Meðal þeirra er: „Íslensk málrækt felst í því að láta skort á íslenskukunnáttu aldrei bitna á fólki eða nota hann til að mismuna því á ómálefnalegan hátt.“ Nú legg ég áherslu á að mér finnst mikilvægt að fólk sem býr hér og starfar læri íslensku sem best. Það er mikilvægt bæði fyrir fólkið sjálft og fyrir stöðu íslenskunnar. En það tekur tíma að læra íslensku, hvað þá að ná fullu valdi á henni, og mikilvægt að gefa fólki góðan tíma til þess en nota ekki ófullkomna íslenskukunnáttu til að halda því niðri.

Í ljósi þess sem áður segir mætti ætla að á skrifstofu Eflingar væri full þörf fyrir starfsfólk sem hefur vald á ýmsum tungumálum öðrum en íslensku og ensku og fram hefur komið í fréttum að á skrifstofunni hefur unnið fólk sem ekki hefur gott vald á íslensku en talar hins vegar ýmis önnur tungumál sem nýtast í starfinu. Með auglýsingu af þessu tagi er verið að útiloka það fólk, þrátt fyrir að starfsfólk sem sagt var upp hafi verið hvatt til þess að sækja um að nýju. Ég fæ ekki betur séð en þarna sé verið að misnota íslenskuna. Það er ekki gott.

Máltilfinning okkar og hinna

Í umræðum á Facebook um nýútkomna bók mína, Alls konar íslenska, hef ég séð að sumum blöskrar að ég skuli halda því fram að ekkert sé athugavert við ýmis tilbrigði sem yfirleitt hafa verið kölluð „málvillur“. Að vísu sýnist mér að mörg þeirra sem tjá sig um þetta hafi ekki lesið bókina heldur byggi skoðun sína á fréttum af henni, ekki síst innslagi í „Ísland í dag“ á Stöð 2 fyrir nokkrum dögum. Það er alveg rétt að ég segi í bókinni að ástæðulaust sé til að amast við ýmsum tilbrigðum í máli. En ég slæ því ekki fram skýringalaust, heldur leitast við að útskýra sögu og ástæður tilbrigðanna til að lesendur geti sjálfir lagt mat á þau og tekið afstöðu til þeirra.

Sum þeirra sem tjá sig um þetta segja að tilbrigði eins og mér langar, ég vill, það var barið mig o.s.frv. særi málkennd sína og stingi sig í eyrun. Ég efast ekkert um að það sé rétt og þetta er ekkert óeðlilegt – við kippumst við þegar brotið er gegn því máli sem við ólumst upp við, sérstaklega ef hamrað hefur verið á því í skólum og annars staðar að önnur tilbrigði séu röng. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að málkennd, eða máltilfinning, er ekki eitthvað sem er sameiginlegt öllu málsamfélaginu. Hún er einstaklingsbundin. Við byggjum upp málkennd okkar, hvert og eitt, út frá málinu sem við heyrum í kringum okkur á máltökuskeiði, þótt það þýði ekki endilega að mál okkar verði nákvæmlega eins og málið í umhverfinu.

Þetta þýðir að fólkið sem notar umrædd tilbrigði er bara að tala í samræmi við sína málkennd – þá málkennd sem það hefur byggt upp á máltökuskeiði. Með því að fordæma þessi tilbrigði og telja þau röng erum við því að segja að okkar innbyggða málkennd – máltilfinning okkar – sé betri og réttari og æðri en máltilfinning þeirra sem nota þessi tilbrigði. Erum við virkilega í stöðu til þess? Er það ekki dálítið að setja sig á háan hest? Eru tilfinningar, hvort sem það er máltilfinning eða aðrar tilfinningar, ekki þess eðlis að annað fólk á ekkert með að telja þær rangar? Eigum við ekki að sýna tilfinningum annarra virðingu – líka máltilfinningu þeirra?

Máltilfinningin sem við byggjum okkur upp á máltökuskeiði er hluti af okkur sjálfum, sjálfsmynd okkar. Að mismuna fólki eftir máltilfinningu er sambærilegt við að mismuna því eftir húðlit, kynhneigð, kynvitund, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum o.s.frv., sem flestum finnst ótækt. Það táknar ekki að við þurfum að fella okkur við mál sem fellur ekki að máltilfinningu okkar – frekar en við þurfum að fella okkur við stjórnmálaskoðanir annarra, trúarbrögð þeirra o.s.frv. En við þurfum að átta okkur á því að annað fólk á jafnmikinn rétt á því að tala í samræmi við sína máltilfinningu og við í samræmi við okkar.