Posted on Færðu inn athugasemd

„Ótrúlega vinsæl, miðað við“

Nýtt jólalag Baggalúts, Myrra, hefst á línunum „Þau koma bara einu sinni á ári / ótrúlega vinsæl miðað við“. Út frá málhefð mætti eiga von á því að í næstu línu yrði nefnt eitthvert viðmið, en í staðinn kemur bara „Með öllu sínu óhófi og fári“. Vissulega kemur samanburðurinn fram þarna, þ.e. jólin eru ótrúlega vinsæl miðað við að þau koma bara einu sinni á ári – en til skamms tíma hefði samanburður komið á eftir miðað við. Vegna þess að ég er farinn að venjast því að heyra miðað við notað á þennan hátt, þ.e. án nokkurs samanburðar, kippti ég mér ekkert upp við þetta en hélt áfram að hlusta á þetta ágæta lag. Mér fannst samt ómaksins vert að skoða nánar þessa málnotkun og reyna að grafast fyrir um uppruna hennar.

Þótt það sé ekki langt síðan ég fór að taka eftir þessu er það ekki nýtt í óformlegu máli – a.m.k. tuttugu ára gamalt. Elsta dæmið í Risamálheildinni er af spjallvefnum Huga frá því árið 2002: „en darkness er cold og flestir sem ég veit af eru með frekar hátt cold resist miðað við, ég t.d er með um 31.%.“ Það er kannski ekki alveg ljóst hvernig á að greina þessa setningu og sama gildir um dæmi af spjallvefnum Bland 2003: „Ég er í 40% fæðingarorlofi líka með tæpar 93.000- á mánuði eftir skatta, held að ég sé á ágætis launum miðað við..“ Hér er endað á tveimur punktum sem gæti bent til þess að höfundur hafi talið eðlilegt að þarna kæmi eitthvert framhald, einhver viðmiðun, þótt hún sé ekki sett fram.

En ótvíræð dæmi koma fljótlega eftir þetta. Á spjallvefnum Málefnin var skrifað 2004: „Mér fannst maðurinn koma vel fyri[r] miðað við.“ Á Bland var skrifað 2004: „Hann sefur frá 12 á miðnætti til 12 á hádegi með því að vakna einu sinni til að drekka og fá hreina bleiu, stundum tvisvar, svo mér finnst ég fá góðan nætursvefn miðað við.“ Á sama spjallvef var skrifað 2005: „þá er alltaf hægt að koma með annan sem hefur það fínt, miðað við“ og „ég var á lyfjum en er það ekki í dag, hef náð nokkuð góðri heilsu miðað við.“ Eftir þetta fer dæmum um miðað við án eftirfarandi viðmiðs smátt og smátt fjölgandi á samfélagsmiðlum og í fréttum þar sem haft er orðrétt eftir viðmælendum – einkum er sambandið svona miðað við algengt.

Þetta sýnir að þessi málnotkun er orðið algeng í óformlegu máli, en í prentuðum miðlum hefur hún hins vegar verið mjög sjaldgæf fram undir þetta. Að vísu kemur fyrir dæmi í Morgunblaðinu 2005: „Förum við hins vegar seinni leiðina má segja að The Brothers Grimm sé barasta ágætis bíómynd, svona miðað við.“ En annars finn ég ekki dæmi fyrr en í Fréttablaðinu 2018: „Dóttir hans er þó við ágæta heilsu, miðað við.“ Ýmsum finnst þetta greinilega óeðlilegt – í DV 2018 segir viðmælandi: „Svo reyndar hef ég einu sinni fengið að heyra frá eldri konu sem ég var að afgreiða: „Þú talar mjög góða íslensku, svona miðað við.“ Ég hugsaði með mér „miðað við hvað?“ og tjáði konunni að ég væri nú Íslendingur.“

Mér finnst líklegast að þessi málnotkun eigi uppruna sinn í óákveðni málnotenda um hvaða orð eigi að nota um viðmiðið, og þess vegna sé oft hikað eða viðmiðinu alveg sleppt. Til þess bendir það að í dæmum þar sem haft er orðrétt eftir fólki er mjög algengt að miðað við sé tvítekið. Þannig segir t.d. í fréttum Bylgjunnar 2014: „við vorum þá undan vindi þannig að við höfðum vindinn í bakið miðað við, miðað við hraunið.“ Í fréttum RÚV 2016 segir: „Þetta er reyndar býsna stór skáli miðað við, miðað við aðra sem við þekkjum.“ Í fréttum Bylgjunnar 2021 segir: „Ekki miðað við, nei náttúrulega ekki miðað við stöðuna í dag.“ Í rituðu máli fara oft þrír punktar á eftir miðað við sem bendir til hins sama – óákveðni eða hiks.

Hliðstæð dæmi þar sem fallorði forsetningar sleppt ef merkingin er augljós eru fjölmörg í málinu. Þannig segir í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar: „Forsetningar verða að atviksorðum þegar fallorð þeirra falla brott. Dæmi: Báturinn er kominn . Hesturinn sökk í. Ég þakka fyrir.“ Þarna er sleppt t.d. land eða bryggja á eftir , mýri á eftir í, og matur á eftir fyrir. Ég sé ekki betur en sambandið miðað við falli alveg að þessu. Merkingin er þar augljós – 'miðað við aðstæður, miðað við það sem við er að búast, eftir atvikum'. Þegar fallorðinu er sleppt færist áherslan sem það hefði borið yfir á forsetninguna sem annars er áherslulaus, og í sambandinu miðað við fær lýsingarhátturinn miðað líka oft áherslu.

Sambandið miðað við fellur að þeim viðmiðum sem ég hef notað um hvenær tiltekið málbrigði sé orðið málvenja og þar með „rétt mál“ – það er orðið a.m.k. 20 ára gamalt, fjöldi fólks notar það, það er farið að sjást á prenti, og engin ástæða er til að ætla annað en börn sem tileinka sér það á máltökuskeiði haldi því á fullorðinsárum þótt ég hafi ekki sannanir fyrir því. Vitanlega þarf að venjast því eins og annarri nýbreytni í máli en það á sér ýmsar hliðstæður og merkingin ætti ekki að þvælast fyrir fólki. Eins og ég hef áður sagt finnst mér að við eigum almennt að fagna nýjungum í málinu að því tilskildu að þær gangi ekki beinlínis gegn málkerfinu. Og ekki förum við að fordæma texta Jónasarverðlaunahafans Braga Valdimars.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er kominn tími á að tengja?

Í gær var spurt í Facebook-hópnum Málspjall um orðasambandið kominn tími á sem fyrirspyrjanda fannst „frekar óþjált“ og vildi heldur segja kominn tími til. Í sumar var líka spurt: „Hvernig stendur á því að nú heyrist varla annað en tími á?“ Ég svaraði því þá þannig að samkvæmt tölum af tímarit.is færi því fjarri að kominn tími á væri að útrýma kominn tími til, en þar að auki fyndist mér merking þessara tveggja sambanda ekki vera alveg sú sama, a.m.k. ekki alltaf. Sambandið kominn tími til er miklu eldra og hefur verið algengt a.m.k. síðan á fyrri hluta 19. aldar, og sama máli gegnir um tilbrigðin tími til kominn og tími kominn til – elstu dæmi um þau öll á tímarit.is eru frá fimmta áratug 19. aldar.

Elsta dæmi um kominn tími á er aftur á móti frá 1983, og dæmum hefur fjölgað ört síðan, einkum frá miðjum 10. áratugnum. Á árunum 2000-2022 eru dæmi um afbrigðin með til samt hátt í fjórum sinnum fleiri en dæmin um kominn tími á, en það síðarnefnda virðist þó vera í sókn. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar sem gefur besta mynd af óformlegu samtímamáli er fjöldi dæma um kominn tími á nærri 90% af samanlögðum fjölda dæma um tilbrigðin þrjú með til. Öfugt við kominn tími til er röð orðanna í sambandinu föst – það er ekki hægt að segja *tími á kominn eða *tími kominn á. Sambandið tími kominn á tekur líka oftast með sér nafnorðsandlag en samböndin með til taka oftast með sér nafnháttarsetningu.

Elsta dæmið um kominn tími á er í viðtali í Vikunni 1983: „Mér finnst skemmtanabransinn góður skóli þó hann sé troðfullur af fíflalátum. Ég er kannski ekki orðinn leiður á honum en mér finnst kominn tími á mig.“ Annað dæmi er í pistli í Velvakanda Morgunblaðsins 1984: „Það er kominn tími á tungu sem haldist hefur óbreytt í þúsund ár. Nú er dagskipunin ekki lengur afturhald heldur framsókn.“ Þriðja dæmið er úr Degi 1985: „Já, það var kominn tími á mig í Plastverksmiðjunni. Það var búið að byggja verksmiðjuna verulega upp og ég var að hluta til farinn að endurtaka mig.“ Fjórða dæmið er úr viðtali við Bjarna Felixson í DV 1985: „Sigurður Sigurðsson segir að það sé kominn tími á mig fyrir langa löngu.“

Í þessum dæmum væri ekki hægt að setja kominn tími til í stað kominn tími á – bæði setningagerðin og merkingin er önnur. Hér merkir kominn tími á að tími einhvers sé liðinn – kominn tími á mig merkir 'ég hef verið nógu (eða of) lengi í þessu hlutverki'. Það er þó ekki svo að sambandið hafi alltaf þessa merkingu. Frá upphafi virðist það líka geta komið í stað kominn tími til, eins og í Tímanum 1983: „Þarna fara tvö neðstu lið úrvalsdeildarinnar, og kominn tími á ÍR-inga að fara að vinna leik.“ Sama máli gegnir um dæmi í NT 1984: „Ertu ánægður með að hafa skákað Bretanum, var ekki kominn tími á það?“, og í Eyjafréttum 1984: „Það er eiginlega löngu kominn tími á manninn til að gefa okkur viðtal“.

En þrátt fyrir að iðulega sé hægt að not hvort heldur er kominn tími til eða kominn tími á finnst mér samböndin ekki vera alveg jafngild. Ég hef á tilfinningunni að í kominn tími til sé áherslan á breytinguna og tímasetningu hennar, en í kominn tími á sé áherslan fremur á ástæðu og nauðsyn breytingarinnar og það samband sé neikvæðara. Ef ég segi t.d. „Nú er kominn tími til að þvo bílinn“ merkir það að nú sé hentugur tími og góðar aðstæður til að hrinda þessu í framkvæmd. En ef ég segi „Nú er kominn tími á að þvo bílinn“ merkir það frekar að bíllinn sé svo skítugur að ekki verði undan því vikist að þvo hann. En auðvitað er merkingarmunurinn lítill og mjög oft er því hægt að nota hvort sambandið sem er.

Posted on Færðu inn athugasemd

Á að ryksjúga, ryksoga – eða er í lagi að ryksuga?

Nafnorðið ryksuga kemur fyrst fyrir í auglýsingu í Ísafold 1912: „RYKSUGA (Stövsuger) er hreinsar prýðilega húsgögn, ábreiður og annað er ryk sezt í, er nýkomin í Bankastræti 7.“ Þótt orðið sé greinilega myndað með hliðsjón af danskri samsvörun sinni hefur það yfirleitt þótt gott og gilt. Þannig sagði í Móðurmálsþætti Vísis 1956: „Fer þetta orð vel í málinu, er myndað á sama hátt og orðið blóðsuga, af 3. kennimynd sagnarinnar að sjúga, við sugum. Eru mörg dæmi þess, að nafnorð séu mynduð þannig af 3. kennimynd sagna, t.d. orðið nám […].“ Hins vegar hefur iðulega verið amast við samhljóma sögn, og í Málvöndunarþættinum var t.d. spurt í gær hvort ætti að tala um að ryksuga eða ryksjúga, og hvort sögnin suga væri til.

í Syrpu 1947 sagði Bjarni Vilhjálmsson: „Nafnið ryksuga er gott, táknar vel, til hvers hluturinn er ætlaður, og er þægilegt í beygingu. Hins vegar tíðkast nú mikið sögnin að ryksuga. Hún minnir helzt á, hvernig börn og brezkar þjóðir mynda sagnir. Ég hef miklar mætur á hvorum tveggja, en krefst þess þó, að sögnin hverfi úr tali þeirra Íslendinga, sem komnir eru til vits og ára. […] [V]eika sögnin að suga [er] alveg ranglega mynduð, hún á að heita – og heitir – að soga.“ Niðurstaða Bjarna var: „Sögnin að ryksuga er fyrir neðan allar hellur; sögnin að ryksjúga er ekki beinlínis röng, en óviðfelldin á ýmsa lund. Sögnin að ryksoga er góð, en einkum mæli ég þó með því að stytta hana í soga, þegar þess er kostur.“

Eiríkur Hreinn Finnbogason var á sömu nótum í Móðurmálsþætti Vísis 1956: „En svo undarlega bregður við, að þegar ryksuga er notuð, þá nefna fjölmargir þann verknað danskri sögn, að ryksuga (á dönsku stövsuge). Er þetta óþarft og rangt. […] Þarna á að nota sögnina að ryksjúga […]. Einnig mætti nota sögnina að soga hér, ryksoga, soga ryk, en það virðist eigi algengt. Fólk gæti valið hér á milli sagnanna að soga og sjúga, en suga er engin íslenzka.“ Í þætti sínum í Morgunblaðinu 1980 vitnaði Gísli Jónsson í bréfritara sem vildi nota sögnina ryksoga en sagði svo: „En myndarlegast þætti mér, eða svipmest, að nota í þessu dæmi samsetningu af sterku beygingunni og ryksjúga.“ Fleiri svipaðar umsagnir mætti nefna.

Eins og áður segir kemur nafnorðið ryksuga fyrst fyrir árið 1912, og verður algengt á þriðja áratugnum. Sögnin ryksuga virðist aftur á móti vera u.þ.b. tveimur áratugum yngri. Elstu dæmi sem ég finn um hana eru í tveimur auglýsingum í Vísi 1931: „Bílarnir eru bónaðir með bónivél og ryksugaðir um leið“ og „Tek að mér að ryksuga húsgögn og teppi“. Næsta dæmi um sögnina sést ekki fyrr en 1940, og það er ekki fyrr en um og upp úr 1950 sem hún fer að verða algeng. Elsta dæmi um ryksjúga er aðeins yngra, frá 1933, og um þá sögn er eitthvað á annað hundrað dæma á tímarit.is. Elsta dæmi um ryksoga er úr áðurnefndri grein í Syrpu 1947, en dæmi um hana eru sárafá, aðeins á þriðja tug.

Sagnirnar ryksjúga og ryksoga eru myndaðar af samböndunum sjúga/soga ryk með því að taka andlagið ryk og gera það að forlið sagnanna. En sögnin ryksuga getur ekki verið mynduð þannig vegna þess að sambandið *suga ryk er ekki til. Sögnin er þess vegna mynduð beint af samsetta nafnorðinu ryksuga eins og mismunandi aldur nafnorðs og sagnar gefur vísbendingu um. Þess vegna skiptir ekki máli þótt sögnin *suga sé ekki til – hún er óþarfur milliliður í orðmynduninni. Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að leiða sögn af samsettu nafnorði og ýmis dæmi um það í málinu. Það er t.d. lítill vafi á því að sögnin handjárna er leidd af nafnorðinu handjárn því að sambandið *járna hendur er varla notað.

Þótt ryksjúga, ryksoga og ryksuga virðist í fljótu bragði hliðstæðar sagnir eru þær því myndaðar á tvo ólíka vegu. Fyrrnefndu sagnirnar tvær gætu ekki verið myndaðar beint af nafnorði því að nafnorðin *ryksjúga og *ryksoga eru ekki til. Sögnin ryksuga á sér níutíu ára sögu í málinu og er vitanlega fyrir löngu búin að vinna sér hefð – og væri það jafnvel þótt hún væri dönsk að uppruna eða ranglega mynduð í einhverjum skilningi. En svo er ekki – eins og hér hefur verið sýnt fram á er ryksuga fullkomlega eðlileg íslensk sögn, mynduð af nafnorði á sama hátt og fjöldi annarra sagna, og engin ástæða til að amast hið minnsta við henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skipulagsleysi í málum íslenskukennslu

Í fyrradag skrifaði ég hér um það sem ég kallaði dónaskap Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins – að svara ekki erindum sem því hafa verið send á undanförnum þremur mánuðum og varða kennslu íslensku sem annars máls. Um leið sendi ég tölvupóst sem var efnislega samhljóða þessari færslu til ráðuneytisins og jafnframt til viðkomandi ráðherra. Ég hef ekki heyrt neitt frá ráðuneytinu (nema sjálfvirkt svar um að erindið væri móttekið) en ráðherrann skrifaði mér strax í gær og á skilið hrós fyrir það, þótt innihald bréfsins gefi ekki sérstakar vonir um miklar breytingar til batnaðar.

Ráðherrann sagði sem sé að samkvæmt sínum heimildum væri „verið að svara a.m.k. einhverjum af þessum erindum“ og vissulega væri leitt þegar svör tefðust en mörg þessara erinda væru „ekki búin að liggja lengi í ráðuneytinu“. Það er svo sem túlkunaratriði hvað „ekki lengi“ merkir – elsta erindið var meira en þriggja mánaða gamalt, annað meira en tveggja mánaða, og þrjú til viðbótar mánaðargömul eða rúmlega það. En þótt þetta mál hafi snúist um viðbragðsleysi Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er vandamálið miklu víðtækara og alvarlegra en það.

Eftir uppstokkun ráðuneyta heyra málefni íslensku sem annars máls nefnilega undir fimm ráðuneyti. Íslenskukennsla í grunn- og framhaldsskólum heyrir undir Mennta- og barnamálaráðuneytið, íslenska sem annað mál á háskólastigi heyrir undir Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, íslenskukennsla fullorðinna undir Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og mál sem varða íslenskupróf fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt heyra undir Dómsmálaráðuneytið. Að auki heyra málefni íslenskrar tungu almennt séð undir Menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Lina Hallberg hefur undanfarna mánuði skrifað öllum þessum ráðuneytum bréf með ýmsum erindum og fyrirspurnum sem varða íslensku sem erlent mál og oftast komið að tómum kofum. Sum ráðuneytin hafa engu svarað, en önnur hafa svarað einhverju og þá iðulega til að fría sig ábyrgð og vísa erindinu á eitthvert annað ráðuneyti. Þetta sýnir glöggt að innan Stjórnarráðsins ríkir algert skipulagsleysi og skortur á samhæfingu í þessum mikilvægu málum. Það hefur lítið upp á sig að flagga skipun ráðherranefndar um málefni íslenskunnar meðan skipulagið er í molum innan Stjórnarráðsins sjálfs.

Útlendingum fjölgar ört hér á landi og ef við viljum að íslenska verði áfram aðaltungumál landsins og burðarás samfélagsins verður að hefja stórátak í kennslu íslensku sem annars máls nú þegar. Þetta hefur legið fyrir lengi og oft verið bent á það, en þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um að það hafi „alls ekki verið nóg gert í því að styðja við íslenskukennslu fyrir útlendinga“ bólar ekkert á raunhæfum aðgerðum – ég kalla nefndarskipanir ekki aðgerðir. Skipulagsleysi þessara mála innan stjórnarráðsins og viðbrögð eða viðbragðsleysi ráðuneyta við erindum sem þeim berast um þessi mál gefur ekki tilefni til bjartsýni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ömurð – og aðrar -urðir

Í gær sá ég minnst á orðið ömurð á Facebook og nefnt að það fyndist ekki í orðabókum. Ég sé líka að orðið hefur oftar en einu sinni verið til umræðu í hópnum Skemmtileg íslensk orð og fengið misjafna dóma. Orðið merkir 'eymd; eitthvað ömurlegt, s.s. hlutur eða atburður' og er augljóslega myndað með hliðsjón af lýsingarorðinu ömurlegur en fyrri liðurinn ömur- kemur ekki fyrir sjálfstæður. Í Morgunblaðinu 2015 segir Baldur Hafstað: „Nýyrðið ömurð notar Sigurður Pálsson í Táningabók, m.a. um forsjárhyggju löggjafarsamkundunnar sem bannaði okkur að drekka bjór um áratugaskeið. Þetta orð, ömurð, er þeirrar náttúru að manni finnst það hafa verið til um aldir.“ Ég tek undir það – mér finnst þetta mjög gott orð.

Táningabók kom út 2015, en orðið er þó nokkru eldra. Elsta dæmi sem ég finn um það er í grein eftir Árna Daníel Júlíusson í Vikunni 1983: „Lítil ástæða virðist vera til að óttast að nýbylgjukynslóðin fari sömu leið og sú gamla, út í peningaplokkerí og vonleysislega Lónlí Blú Bojs-ömurð.“ Í Þjóðviljanum 1984 segir: „En mikil ömurð eru húsakynni Hallarinnar annars, köld og yfirþyrmandi óaðlaðandi fyrir uppákomur sem þessar og aðra listaviðburði yfirleitt.“ Á tímarit.is eru tæp 100 dæmi um orðið, flest frá síðustu tveimur áratugum. Í Risamálheildinni eru um 740 dæmi um orðið, þar af tæp 600 af samfélagsmiðlum. Orðið er því greinilega í mikilli sókn, sérstaklega í óformlegu máli en einnig í formlegri málsniðum.

Orðið er mynda með viðskeytinu , á sama hátt og nokkur önnur orð – biturð, depurð, digurð, fegurð, lipurð, megurð, vekurð. Öll þessi orð eru mynduð af lýsingarorðum með stofnlægu r (þ.e., orðum þar sem -ur er hluti stofns en ekki beygingarending). Viðskeytið var upphaflega -iðō og það skýrir i-hljóðvarpið a > e í fegurð sem er komið af *fagriðō. Orðið megurð er einnig gamalt og myndað á sama hátt, en hin orðin virðast flest vera frá 18. eða 19. öld. Þótt viðskeytið sé löngu orðið einungis og innihaldi því ekkert i sem valdi hljóðvarpi verður samt hljóðvarp í þessum yngri orðum þar sem grunnorðið hefur a í stofni, depurð og vekurð, vegna þess að málnotendur tengja það við orðmyndun með þessu viðskeyti.

En sum orð sem enda á -urð eru annars eðlis. Þannig er einurð leitt af lýsingarorðinu einarður og þar er því ekki viðskeyti, heldur eru skilin í orðinu milli ein- og -urð. Þrjú orð frá 18. og 19. öld eru svo mynduð af forsetningu og orðhlutanum -urð sem er leiddur af sögninni verða. Þetta eru afurð (það sem verður af einhverju, 'útkoma, afrakstur, framleiðsluvara'), tilurð (það sem verður til –upphaflega líka notað í merkingunni 'staðreynd') og úrurð (það sem verður úr einhverju). Tvö fyrri orðin eru vitanlega mjög þekkt og algeng en úrurð náði aldrei flugi og er alveg horfið úr málinu. Það kom fyrst fyrir í Ármanni á Alþingi 1832 og merkir þar 'margfeldi' en kemur einnig fyrir í merkingunni 'summa'.

Svo er það ljóti andarunginn – hegurð. Þetta orð er skýrt 'Slöjd' í Íslensk-danskri orðabók en sløjd er það sem einu sinni var kallað 'handavinna pilta' – smíði o.þ.h. Í Fram 1922 segir t.d.: „Skólastjórinn kendi hegurð, Sigurður Björgólfsson teikninguna […] en fröken Margrét Jónsdóttir hannyrðir og sauma.“ Í Íslenskri orðsifjabók er orðið sagt vera„[r]angmyndað nýyrði af lo. hagur“ og merkja 'hagleikur, listfengi'. Þá merkingu hefur orðið t.d. í Lögréttu 1911: „Listfengi og hegurð, sjerstaklega á hverskonar smíði, sauma og vefnað hefur verið eitt af einkennum Íslendinga alt fram á þennan dag.“ Gísli Jónsson hefur eftir Steindóri Steindórssyni að Stefán Stefánsson skólameistari hafi búið orðið til eða a.m.k. tekið það upp.

„Orðið er auðsjáanlega myndað í misskildri samsvörun við fegurð, en þess ekki gætt, að r-ið í „fegurð“ (fegr-ð) heyrir meginhluta orðsins til, en r-ið í hag-r er beygingarending“ segir Jón Ólafsson í Reykjavík 1913 (og bætir við að orðið sé „myndað af Jónasi „aðalhöfundi““, væntanlega Jónas Jónasson). Þar sem viðskeyti bætast við stofn verður að líta á -urð í heg-urð sem viðskeyti, ekki bara eins og í fegur-ð og öðrum orðum mynduðum af lýsingarorðum með stofnlægu -ur. Í ritdómi um Íslensk-danska orðabók í Skírni 1925 benti Jóhannes L.L. Jóhannsson á að rétt myndað nafnorð af hagur væri hegð – þar væri sem sé viðskeytinu bætt við stofninn eins og í öðrum lýsingarorðum. Dæmi eru um að þetta orð hafi verið notað.

Í ljósi þess að -urð er sjálfstæður orðhluti í sumum orðum (ein-urð, af-urð, til-urð, úr-urð) er samt ekkert undarlegt að málnotendur skynji það sem viðskeyti í orðum eins og feg-urð þótt sú skipting sé ekki í samræmi við uppruna orðsins. En þótt vissulega megi halda því fram að myndun orðsins hegurð sé byggð á misskilningi finnst mér ekki sjálfgefið að það leiði til þess að orðinu sé hafnað. Form viðskeyta breytist og ný verða til – viðskeytið varð til úr -iðō eins og áður segir. Það er hugsanlegt að líta svo á að til sé orðið viðskeytið -urð og það megi nota í nýmyndun orða, eins og hegurð. En líklega er búið að ganga endanlega frá því orði og því óþarfi að velta þessu fyrir sér – yngsta dæmi sem ég finn um hegurð er frá 1992.

Að lokum má nefna orðið júgurð yfir jógúrt sem kom fram á sjónarsviðið 1972. Þetta er óskylt öðrum -urð-orðum heldur er upphaflega hljóðlíking eins og Gísli Jónsson benti á í Morgunblaðinu 1981 og „hefur þann kost, að líkjast mjög upphaflega orðinu, falla að íslenzku beygingarkerfi kvenkynsorða og hafa auk þess í sér fólgna hluta tveggja íslenzkra orða, sem koma við sögu, þ.e. júgurs og afurða“ segir í Tímanum 1972. Orðið var svolítið notað næstu ár en náði aldrei hylli og virðist ekki hafa verið notað eftir 1980 nema í umræðu um orðið sjálft sem oftast var neikvæð. Pistlahöfundi í DV 1999 fannst „júgurð lítt geðsleg sem mjólkurafurð“ og sama ár var orðið talið meðal 10 verstu nýyrða 20. aldarinnar í sama blaði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Dónaskapur ráðuneytis

Lina Hallberg, sem nýlega lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og skrifaði mjög fróðlega BA-ritgerð um íslensku sem annað mál, hefur verið óþreytandi í baráttu fyrir bættum vinnubrögðum stjórnvalda við kennslu íslensku sem annars máls. Í vor skrifaði ég hér pistil sem hét „Stjórnsýslufúsk“ þar sem fram kom að í bréfaskiptum Linu við Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafði ráðuneytið vísað erindum á Mennta- og barnamálaráðuneytið þrátt fyrir að hafa áður staðfest að kennsla íslensku sem annars máls fyrir fullorðna heyrði undir fyrrnefnda ráðuneytið. Ráðuneytið leiðrétti sig síðar um þetta mál en öllu meira hefur það ekki gert.

Síðan í september hefur Lina skrifað Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sjö tölvupósta um þetta málefni, síðast í morgun. Hinum sex hefur ekki verið svarað. Þetta er í andstöðu við álit Umboðsmanns Alþingis frá 2008 þar sem segir: „Umboðsmaður rakti að það væri óskráð meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að hver sá sem bæri upp skriflegt erindi við stjórnvald ætti rétt á að fá skriflegt svar nema erindið bæri með sér að svars væri ekki vænst, en við setningu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði verið gengið út frá því að þessi regla gilti.“

Það er auðvitað forkastanlegt og fullkominn dónaskapur hjá ráðuneytinu að svara ekki erindum sem til þess berast. En því miður gefur það líka skýra vísbendingu um að áhugi ráðuneytisins á kennslu íslensku sem annars máls sé í lágmarki, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar forsætisráðherra og fleiri um að við þurfum að gera betur, og þrátt fyrir stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu þar sem lögð er sérstök áhersla á kennslu íslensku sem annars máls – nefndar sem félags- og vinnumarkaðsráðherra situr m.a. í.

Posted on Færðu inn athugasemd

hæging

Nýlega fékk ég fyrirspurn um orðið hæging sem notað var í útvarpinu í sambandinu hæging á umferð en fyrirspyrjandi hafði ekki heyrt áður. Þetta er vissulega sjaldgæft orð en þó ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég finn um það er í ritinu Úr þjóðarbúskapnum 1960, þar sem segir: „Sé það fastmótuð krafa launþegasamtakanna að uppskera visst lágmark kjarabóta á hverju ári, veldur hæging framleiðsluaukningar af völdum samdráttaraðgerða því, að þeim mun meiri hluti kauphækkunarinnar kemur fram sem hækkun verðlags.“ Á tímarit.is eru 54 dæmi um orðið og í Risamálheildinni 102, vissulega mörg þau sömu. Orðið kemur einnig fyrir í Flugorðasafni sem er í Íðorðabankanum og er þar notað sem þýðing á deceleration í ensku.

Talsverður hluti dæma um orðið er úr hagfræði, þ. á m. elsta dæmið eins og áður segir – iðulega er talað um hægingu á hagvexti. Þetta kemur vel fram í Degi 1999 þar sem segir: „Már segir að þessi hagvaxtarlækkun, eða „hæging“ eins og hagfræðingar orða það, jafngildi því að kanadíska hagkerfinu væri hent út úr heimsbúskapnum.“ En einnig er orðið töluvert notað í læknisfræði, talað um hægingu á hjartslætti eða annarri líkamsstarfsemi. Orðið er þó ekki bundið við þessi tvö svið, heldur er t.d. notað í tónlistargagnrýni í Morgunblaðinu 1997 þar sem segir: „SÁ lék með viðeigandi báruskvettandi sveiflu, og var meno mosso hæging kódans (við klarínettinnkomuna) sérlega falleg og áhrifamikil.“

Orðið hæging er myndað af sögninni hægja með viðskeytinu -ing sem er oft notað til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum. Þannig er bylting 'það að bylta', aukning 'það að auka' – og hæging þess vegna 'það að hægja'. Stundum geta -ing-orð reyndar líka merkt afurð verknaðarins eða efni sem notað er til hans – málning merkir 'það að mála' en líka 'efni sem málað er með', teikning merkir 'það að teikna' en líka 'afurð athafnarinnar að teikna'. Ýmsar hliðstæður við hæging eru til í málinu – (niður)læging af (niður)lægja, plæging af plægja, (frið)þæging af (frið)þægja, (full)næging af (full)nægja, o.fl. Orðið er því rétt myndað, merkir það sem við er að búast, og á sér ýmsar skýrar hliðstæður – ekkert við það að athuga.

Öðru máli gegnir um orðið niðurhæging sem eingöngu virðist vera notað í lýsingu á því hvernig knapi hægir á hesti að loknum spretti í keppni – 21 dæmi er um þetta orð á tímarit.is og 23 í Risamálheildinni. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2002 sagði Sveinn Sigurðsson: „Ætla mætti, að „hæging“ hefði verið nóg, svo ljótt sem það er, en það hefur augljóslega ekki verið talið duga og „niður“ skeytt framan við. Engu er líkara en með því sé verið að gefa í skyn, að til sé eitthvað, sem heitir „upphæging“.“ Ég get alveg tekið undir það að niðurhæging er ankannanlegt orð og niður- þar ofaukið. En hæging eitt og sér er hins vegar ágætt orð sem sjálfsagt er að nota, þótt auðvitað þurfi að venjast því eins og öðrum nýjungum.

Posted on Færðu inn athugasemd

sárugur

Í morgun rakst ég á lýsingarorð sem ég man ekki eftir að hafa séð áður í frétt í Stundinni þar sem stóð: „8 til 10 kör af sárugum fiski voru fyllt á hverjum degi.“ Fleiri dæmi um orðið sárugur eru í fréttinni, m.a. „Enn meiri líkur eru á að slík vetrarsár myndist þegar eldislaxinn er orðinn stór og þrengsli í sjókvíunum eru mikil og meiri líkur eru á því að fiskurinn berjist utan í kvíarnar og verði sárugur“. Það er augljóst að orðið merkir þarna 'allur út í sárum' sem samræmist ágætlega annarri aðalmerkingu viðskeytisins -ugur eins og Gunnlaugur Ingólfsson hefur skilgreint hana: 'þakinn, allur í, ataður', sbr. forugur, hreistrugur, moldugur, skítugur og mörg fleiri (hin aðalmerkingin er 'einkenndur, fullur af, prýddur, gæddur').

Þótt orðið kæmi mér ókunnuglega fyrir sjónir er það ekki alveg nýtt. Elsta dæmi sem ég finn um það er í krossgátu í Fálkanum 1950, þar sem myndin sárug er ráðning á 'sett kaunum'. Orðaforði í krossgátum er auðvitað dálítið sérstakur og stundum búin þar til orð sem ekki eru notuð í venjulegu máli, en fleiri dæmi má samt finna. Í Lesbók Morgunblaðsins 1964 segir: „Nokkrir höfðu verið svo óheppnir að tapa af sér skóm og sokkum í aurbleytu og vatnagangi á leiðinni og voru þeir með bólgna og sáruga fætur.“ Í Vísi 1974 segir: „En á milli óhreinna og sárugra fingra sáust augu hans, stór, brún og hrædd.“ Í Vikunni 1987 segir: „eitthvað þægilegt, já hann fór ekki ofan af því, þægilegt kroppaði í flakandi sárugar hendur hans.“

Fáein nýleg dæmi má svo finna, t.d. „Svo fannst mér Russell Crowe æði í Gladiator og í Proof of Life (eftir að hann varð skítugur og sárugur sko) en hef ekki fílað hann síðan“ á bland.is 2003, „Nagaðir sárugir puttar urðu að fallegum rauðbleikum stiletto með króm á baugfingri“ á Facebook 2018, „Að leggja hann á sárug brjóstin, gefa honum ábót, pumpa og hita brjóstamjólk og svo framvegis“ í Vísi 2021, „Ef að hendurnar eru þurrar og sárugar er meiri hætta á því að óhreinindi komist inn“ á hun.is 2022 og „Ef eldislaxarnir verða sárugir eru þeir ekki hæfir til manneldis og drepast í kvíunum“ í Stundinni 2022. Í öllum tilvikum er merkingin greinilega sú sem áður er nefnd, þ.e. 'allur út í'.

Orðið sárugur er óumdeilanlega rétt myndað, en sáróttur, sem örfá dæmi finnast um, kæmi einnig til greina. Viðskeytið -óttur er skylt -ugur en vísar oftast til aðgreinanlegra ummerkja um það sem felst í rót orðsins – þannig er sagt blóðugur en ekki *blóðóttur, en hins vegar er hægt að segja blóðslettóttur. Orðið sáróttur væri hliðstætt öróttur en væntanlega finnst málnotendum sárugur ná því betur að vera 'allur út í sárum'. Svo höfum við auðvitað lýsingarorðið sár sem merkir m.a. 'með sár á líkamanum' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem tekið er dæmið hundarnir voru sárir eftir áflogin. Mér finnst það samt ekki ná þeirri merkingu að vera 'allur út í' og mæli þess vegna með orðinu sárugur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvernig beygist fjórir?

Beyging töluorðsins fjórir er í nokkuð föstum skorðum en þó má finna ýmis dæmi um tilbrigði í henni. Stundum er talað um fjóran og hálfan vinning og þótt orðið beygist venjulega aðeins sterkt kemur fyrir að það sé beygt veikt, hinir fjóru stóru. En helstu tilbrigðin eru í þeim myndum sem hafa stofninn fjögur-, þ.e. nefnifalli og þolfalli í hvorugkyni og svo eignarfalli allra kynja. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfallið sagt vera annaðhvort fjögurra eða fjögra. Í fornu máli var eignarfallið fjögurra (eða fiogurra) en myndin fjögra er komin til þegar á fimmtándu öld og verður síðar yfirgnæfandi – í Íslenzkri málmyndalýsingu Halldórs Kr. Friðrikssonar frá 1861 er hún ein gefin en myndin fjögurra ekki nefnd.

Þetta breytist á 20. öld. Í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 er eignarfallsmyndin fjögra talin fyrst og síðan fjögurra, en fjegra haft í sviga. Samkvæmt tímarit.is er fjögra mun algengari mynd framan af en árið 1942 er fjögurra orðin algengari og síðan hefur sífellt dregið sundur með myndunum, og fjögra er nú orðin sárasjaldgæf. Ekki er gott að átta sig á því hvers vegna þessi breyting verður en e.t.v. hefur verið unnið gegn myndinni fjögra í kennslu. Til þess gæti bent að í Málfarsbankanum segir: „Eignarfallsmyndin fjögra á síður við í ritmáli.“ Ekki er ljóst á hverju það gildismat byggist, og báðar myndirnar eru gefnar athugasemdalaust í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar.

Í Íslenzkri málfræði Jakobs Jóh. Smára frá 1932 er myndin fjögurra höfð fyrst og svo fjögra, en síðan segir að eignarfallið sé „nú oft fjegra eða jafnvel fjagra (í tali), sem er myndað eftir „spök – spakra“. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er sagt að ritmyndinni fjagra bregði fyrir „í nýlegum textum“. Elsta dæmi um hana á tímarit.is er þó frá 1909 og dæmi eru um hana frá öllum áratugum 20. aldar, alls um 80, en sennilega hefur hún lengi verið mun útbreiddari í talmáli eins og orð Jakobs Jóh. Smára benda til, þótt hún hafi lítið komist á prent. Til þess bendir einnig það að af 490 dæmum um hana í Risamálheildinni eru 450 af samfélagsmiðlum þar sem málsniðið er mun óformlegra og nær töluðu máli.

Myndin fjagra er í sjálfu sér mjög eðlileg. Upphaflega hljóðið er þarna e en ö-ið í fjögurra er tilkomið fyrir áhrif u í næsta atkvæði (hljóðbreyting sem nefnist klofning). Þegar þetta u fellur brott í styttri myndinni fjögra er upphaflega forsendan fyrir ö-inu ekki lengur fyrir hendi og myndin fjagra liggur beint við, og styðst auk þess við beygingu lýsingarorða eins og Jakob Jóh. Smári benti á. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir að ritmyndirnar fjegra og fégra komi fyrir í eignarfalli en séu „nú mjög fágætar“. Það hafa þær reyndar alltaf verið – að viðbættri myndinni fjegurra eru innan við 30 dæmi um þær á tímarit.is, og aðeins sex í Risamálheildinni. Þær myndir eru því eiginlega horfnar, en fjagra sprelllifandi.

Nefnifall og þolfall í hvorugkyni var fjögur í fornu máli og er það oftast enn, en myndinni fégur (eða fjegur) bregður þó fyrir. Hún kom til um 1600 við afkringingu ö sem varð e á eftir j í ýmsum orðum eins og mjöl > mél, smjör > smér, kjöt > ket o.fl. Í Skírni 1923 segir Jóhannes L.L. Jóhannsson „myndirnar fjegur, mjel o.fl. enn með góðu lífi […]. Eg er ekki sá málhreinsill að eg amist við, að talað sé um orðmyndir, sem illa þykja rithæfar, ef þær í sannleika fyrirfinnast í talmáli.“ Í Íslandi 1929 segir aftur á móti að þessar myndir séu „ljótar og hafa allt af þótt órithæfar“, og í Alþýðublaðinu 1967 segir: „En ekki hef ég vitað fyrr að tíðkaðist að skrifa „fjegur“ fyrir „fjögur“ þótt sá framburður sé algengur.“

Í Þjóðviljanum 1960 sagði Árni Böðvarsson: „Ket og kjöt, smér og smjör, mél og mjöl eru allt jafnrétt orð. […] Sama er að segja um fégur og fjögur […]. Myndirn[ar] með é eru miklu fátíðari í tali en engu að síður fullgott ritmál.“ Í gildandi Ritreglum segir: „Valfrjálst er hvort ritað er smér, fégur eða smjer og fjegur. Ritháttur með je endur­speglar að í þessum orðum hefur gamalt orðið je (sbr. smjör, fjögur). Ritháttur með é er hins vegar í samræmi við almenna reglu um táknun hljóðasambandsins je.“ Á tímarit.is eru um 130 dæmi um fjegur/fégur en um 40 þeirra eru úr vísum þar sem orðmyndin er rímbundin og allnokkur úr málfræðilegri umfjöllun um hana. Í Risamálheildinni eru aðeins um 30 dæmi um orðmyndina.

Auk algengustu beygingarmynda töluorðsins fjórir hafa hér verið nefndar fleirtölumyndirnar fégur/fjegur og eignarfallsmyndirnar fjögra, fégra/fjegra, fjegurra og fjagra. Af þessum myndum virðist fégur/fjegur vera viðurkennd, þar eð þær myndir eru nefndar í Ritreglum og Íslenskri stafsetningarorðabók, og einnig fjögra, þótt sú mynd þyki síðri en fjögurra samkvæmt Málfarsbankanum. Myndin fjagra er hins vegar hvergi nefnd sem viðurkennd mynd í orðabókum eða málfræðibókum, svo að ég viti. En í ljósi aldurs hennar og tíðni, og þess að hún er í raun alveg regluleg og auðskýranleg, finnst mér engin ástæða til annars en telja þetta fullgilda eignarfallsmynd töluorðsins fjórir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ný orðasambönd sem tengjast tækni

Ég heyrði nýlega Alexander Kristjánsson fréttamann RÚV nota orðasambandið fara um sem lús í leikskóla í sömu merkingu og venja er að nota fara sem logi yfir akur eða fara sem eldur í sinu. Mér skilst að Alexander hafi búið þetta orðasamband til og finnst það alger snilld, gagnsætt og lýsandi og flest þeirra sem hafa átt börn á leikskólum undanfarin ár tengja vel við það. En í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um mikilvægi þess að endurnýja föst orðasambönd málsins. Verulegur hluti þeirra orðasambanda sem við notum dags daglega er gamall og miðast við annars konar þjóðfélag og aðra atvinnuhætti. Það er auðvitað ekkert að því – þessi orðasambönd stuðla að samfellu málsins og vitund okkar um aðra tíma og siði.

En það er samt ekki síður nauðsynlegt að til verði ný orðasambönd sem byggjast á aðstæðum sem fólk þekkir úr daglegu lífi í samtímanum og tengir við. Þannig hafa ýmis orðasambönd sem tengjast tækni (sem stundum er orðin úrelt) orðið til á síðustu áratugum, svo sem sambönd sem tengjast bílum og umferð – gefa allt í botn, kúpla sig út út einhverju, kippa í handbremsuna, hrökkva í gang, gefa grænt ljós á eitthvað; sambönd sem tengjast miðlun hljóðs og myndar – ekki fer saman hljóð og mynd, spóla til baka, vera eins og rispuð plata; og sambönd sem tengjast símum og tölvum – vera utan þjónustusvæðis, endurforrita eitthvað. Einnig er talað um að strauja kortið, stimpla sig inn, viðvörunarbjöllur hringi, o.m.fl.