NonfictioNOW – snemmskráningu að ljúka

Snemmskráningu á alþjóðlegu ráðstefnuna NonfictioNOW lýkur 28. febrúar. Á ótrúlega hagstæðum kjörum býðst áhugafólki um óskálduð skrif að sjá og heyra marga af fremstu höfundum og hugsuðum þessarar bókmenntagreinar á fjögurra daga ráðstefnu í Reykjavík frá 1. til 4. júní 2017. Um verður að ræða einn stærsta bókmenntaviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi.

Yfir sextíu málstofur verða í boði þar sem ræddir verða fjölmargir fletir sannsögulegra skrifa en vinsældir bókmennta af þessu tagi hafa aukist mjög undanfarin ár og ýmsar tilraunir verið gerðar með þetta form sem ekki hafa sést hér heima. Auk þess verða fjórir boðsfyrirlesarar: Norðmaðurinn Karl Ove Knausgård, Ástralinn Maxine Benebe Clarke og Bandaríkjamennirnir Gretel Ehrlich og Wayne Koestembaum. Allt eru þetta höfundar sem hafa getið sér orð fyrir sannsöguleg skrif sem nýta miðlunarleiðir skáldskaparins.

Ráðstefnan er haldin á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar Háskóla Íslands og verður þetta í fyrsta skipti sem hún verður haldin í Evrópu. Áhugasömum er bent á að skrá sig hér: http://www.nonfictionow.org/.