Styttist í stóra viðburðinn
Þegar þetta er skrifað er vika þar til stærsta ráðstefna sem ég hef átt þátt í að skipuleggja hefst hér við Háskóla Íslands, NonfictioNOW. Þetta er reyndar með stærri ráðstefnum sem Hugvísindasvið skólans hefur staðið fyrir. Undanfarna daga höfum við unnið hörðum höndum að því að ganga frá dagskrárbæklingi og nú liggur hann fyrir. Áhugasamir geta sem stendur séð hann á Facebook-síðunni Ritlist við Háskóla Íslands og brátt verður hann aðgengilegur á vefsíðu ráðstefnunnar.
Við eigum von á því að á fimmta hundrað manns sæki ráðstefnuna, þar af hátt í 400 erlendis frá. Í boði eru hringborðsumræður (sem við köllum húslestra), upplestrar, gjörningar, sýningar, bókmenntagöngur og yfir 60 málstofur um flesta fleti sannsögulegra skrifa. Gríðarleg undirbúningsvinna hefur farið fram, bæði af hálfu alþjóðlegu ráðstefnustjórnarinnar og heimastjórnarinnar sem ég stýri og í eru þau Gauti Kristmannsson og Ásdís Sigmundsdóttir auk mín. Þá hafa tveir verkefnastjórar komið að undirbúningnum, þær Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á Hugvísindasviði, og Eygló Svala Arnarsdóttir sem er aðalverkefnastjóri ráðstefnunnar.
Ég þekki það af eigin reynslu að maður tekur síður frá tíma fyrir viðburð sem þennan hér heima. Maður fer jafnvel frekar til útlanda með ærnum tilkostnaði á sambærilega eða lakari ráðstefnu. Þetta er að sumu leyti skiljanlegt en þó um leið mikil synd. Þess vegna höfum við lagt mikið á okkur til að kynna viðburðinn hér heima og átt gott samstarf við hina ýmsu hagsmunahópa auk fjölmiðla. Vonandi tekst okkur að koma upplýsingum til flestra þeirra sem hafa áhuga á bókmenntum af þessu tagi.
Eins og heiti ráðstefnunnar gefur til kynna, NonfictioNOW, sem gæti útlagst ÓskáldaðNÚ, er hún helguð sannsögulegum ritsmíðum. Allir þeir sem til máls taka hafa skrifað í þessu formi, sumir meira segja orðið heimsfrægir fyrir, og margir þeirra kenna líka óskálduð skrif við ritlistarskóla. Það er von mín að með þessum viðburði getum við fært nýja hugsun um þetta vinsæla bókmenntaform heim til Íslands.
Njótið heil!