Smásögur heimsins: bindin öll

Fimmta bindi Smásagna heimsins, tileinkað Evrópu, er nú komið út og hafa þar með öll bindi ritraðarinnar skilað sér. Fimm bindi, hvert tileinkað ákveðinni álfu, nema hvað Asíu og Eyjaálfu var steypt saman. Í bindunum getur að líta 94 sögur frá 75 löndum á alls 1464 blaðsíðum.

Hugmyndin að verkinu kviknaði þegar ég var beðinn að kenna námskeið um smásögur í almennri bókmenntafræði á tíunda áratugnum. Þá sá ég að margar af perlum þessarar bókmenntagreinar höfðu aldrei verið þýddar á íslensku. Markmiðið með ritröðinni var að bæta úr því með því að safna markvisst saman snjöllum sögum úr öllum heimshornum og birta um leið sem flestar gerðir smásagna til að gefa sem gleggsta mynd af smásagnagerð í heiminum. Verkefnið væri þó líklega enn í skúffunni ef öflugt fólk hefði ekki komið til liðs við mig.

Sögurnar spanna síðustu öldina eða frá því að smásagan varð að sjálfstæðu fagurfræðilegu formi. Langt fram eftir 20. öldinni voru karlar atkvæðameiri en ef miðað er við þessi fimm bindi koma konurnar sterkar inn um og upp úr 1970. Um 43% sagnanna eru þó eftir konur.

Mér telst til að sögurnar hafi verið þýddar úr sextán málum: ensku, japönsku, arabísku, kóresku, taílensku, spænsku, portúgölsku, frönsku, þýsku, ítölsku, serbnesku, dönsku, búlgörsku, sænsku, norsku og rússnesku. Reynt var að þýða úr frummáli en þegar ekki tókst að finna þýðanda lánaðist okkur í flestum tilvikum að hafa upp á manneskju sem gat borið þýðinguna saman við frumtexta. Það á við um víetnömsku, persnesku, króatísku, pólsku, kínversku og arabísku (þó var líka þýtt beint úr arabísku). Þannig tókst í næstum öllum tilfellum að tengja þýðingarnar frumtextanum sem var mikið lán því að samanburðurinn skilaði stundum óvæntum niðurstöðum. Ástæðan fyrir því að tungumálin eru ekki fleiri er sú að margar fyrrverandi nýlendur nýta sér enn evrópsk mál til bókmenntasköpunar. Það gildir um mörg lönd í Afríku og Asíu. Svo eru auðvitað tvær heilar heimsálfur sem notast að mestu við spænsku eða ensku.

Alls tóku 45 þýðendur þátt í verkefninu, margir þeirra þrautreyndir, en í hópnum var einnig fólk sem var ekki vant að þýða fagurbókmenntir. Ennfremur tóku 12 nemendur þátt í verkefninu og stigu þannig sín fyrstu skref sem þýðendur. Hér er listinn yfir þetta góða fólk í belg og biðu: Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Erla Erlendsdóttir, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Friðrik Rafnsson, Guðbergur Bergsson, Hermann Stefánsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Jón Hallur Stefánsson, María Gestsdóttir, Sigfús Bjartmarsson, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Skúli Jónsson, Dagbjört Gunnarsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Hjörleifur Rafn Jónsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Ingunn Snædal, Jón Egill Eyþórsson, Lárus Jón Guðmundsson, Sindri Guðjónsson, Steingrímur Karl Teague, Janus Christiansen, Þórir Jónsson Hraundal, Ana Stanićević, Arndís Þórarinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Áslaug Agnarsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Eysteinn Þorvaldsson, Bjarni Jónsson, Brynja Cortes Andrésdóttir, Jón Karl Helgason, Kristinn R. Ólafsson, Pétur Gunnarsson, Sigurður A. Magnússon, Soffía Auður Birgisdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir, Veska A. Jónsdóttir, Zophonías O. Jónsson og ofanritaður.

Í nokkrum tilfellum höfðu sögurnar birst áður á íslensku. Það voru þá sögur sem við í ritstjórninni töldum hafa markað svo djúp spor að þær yrðu að vera með í yfirlitsverki sem þessu. Í þeim tilfellum voru sögurnar ýmist þýddar á ný eða þýðingarnar vandlega yfirfarnar, þá í samráði við þýðendur ef þess var kostur. Í tveimur tilfellum voru þýðendur látnir en vegna stöðu þeirra og vægis voru þýðingar þeirra hafðar með. Hér á ég við Ingibjörgu Haraldsdóttur og Sigurð A. Magnússon. Eysteinn Þorvaldsson lést svo meðan bókin var í prentun.

Í sumum tilfellum hjálpuðu þýðendur okkur að finna sögur og nokkrir þeirra skrifuðu fyrir okkur kynningar á höfundum.

Allmargir nemendur unnu að því að finna sögur á námskeiðum sem helguð voru smásögum og þýðingum á þeim. Þá störfuðu tveir aðstoðarmenn í sumarvinnu við að leita að smásögum, þau Magnús Sigurðsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir, og er þáttur þeirra stór. Leit að sögum hefur í rauninni staðið yfir í rúm 20 ár með öðru en orðið markvissari síðustu tíu árin.

Við ritstjórarnir – ég, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason – bárum síðan ábyrgð á endanlegu vali sagna. Þar var margt haft í huga, s.s. kynjahlutfall, kynþættir, fjölbreytni, ritunartími sagnanna (svo að þær röðuðust sem jafnast á undangengna öld) og landfræðileg dreifing. Við ritstýrðum síðan öllum þýðingunum, hvert okkar fór nokkrum sinnum yfir hverja þýðingu og sama á við um kynningartextana. Þetta hefur verið stíf vinna og vel skipulögð síðustu fimm árin. Stefnt var að því að eitt bindi kæmi á ári og aldrei var tvísýnt um að bindin yrðu tilbúin til útgáfu í tæka tíð.

Miðstöð íslenskra bókmennta studdi verkefnið dyggilega en einnig Launasjóður fræðiritahöfunda meðan hann var og hét. Mikið munaði líka um vinnudvalir okkar ritstjóranna erlendis á vinnslutímanum. Sjálfur er ég sérstaklega þakklátur fyrir dvöl í Kína á vegum Sun Yat-sen háskóla, við STIAS þekkingarsetrið í Suður-Afríku og við The Clearman Cottage Writer's Residency á Long Beach í Washingtonfylki Bandaríkjanna. Þá á bókaforlagið Bjartur hrós skilið fyrir úthaldið.

Nú fara þessar tæplega 1500 síður á vit sögunnar og við ritstjórarnir tökum til við önnur verkefni. Þetta var einstakt samstarf með einstaklega hæfileikaríkum dugnaðarforkum og ekki laust við að þegar örli á söknuði í þessu hjarta. Umfram allt er ég þó þakklátur fyrir að hafa starfað í umhverfi og landi sem gerði okkur kleift að sinna þessu verkefni og vildi taka við því.