Leikur hlæjandi láns komin út sem hljóðbók

Leikur hlæjandi láns, sem hefur nú þegar fengið stöðu sígildra verka, er komin út sem hljóðbók í stórgóðum lestri Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur.

Bókin var mín fyrsta prentaða þýðing, kom upphaflega út árið 1992, en hafið ekki áhyggjur, Þuríður er ekki að lesa þýðingu byrjanda, því að bókin hefur tvisvar verið endurútgefin síðan og í bæði skiptin þykist ég hafa bætt þýðinguna. Myndin sem hér fylgir er af kápu nýjustu útgáfunnar sem kom út árið 2014 í tilefni af því að við fengum Amy Tan hingað til lands til að flytja fyrirlestur á ráðstefnunni Art in Translation. Hann flutti hún fyrir fullum sal í Hörpu.

Ég gæti haldið fyrirlestur um þessa bók en læt nægja að benda á hið sérstaka form hennar, þar skiptast fernar mæðgur af kínversku bergi brotnar á um að segja söguna. Bókin hefur oft verið kynnt sem skáldsaga en að mati höfundar er hér um svokallaðn sagnsveig að ræða. Það sem helst einkennir sagnasveiga er að sjálfstæðar smásögur tengjast í eina heild. Amy Tan er mikill sagnameistari og ég get lofað ykkur því að þið eigið mikið eyrnakonfekt í vændum. Bókina má nálgast hjá Storytel.