Ræddi verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone

Í ár var mér boðið að kynna verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone sem fram fer árlega helgina eftir verslunarmannahelgina. Hún var nú haldin í 20.  sinn og sem fyrr var orkuboltinn Elfar Logi við stjórnvölinn.

Hátíðin stendur í þrjá daga og fara dagskráratriðin fram í samkomuhúsinu á Suðureyri. Þarna skapast ótrúlega góð stemmning enda er vel mætt á viðburðina. Í þetta sinn voru líka ýmsir hliðarviðburðir, s.s. tónleikar Mugisons. Oft eru valdir einleikir sem hafa vakið athygli syðra og núna var líka seilst til útlanda. Þarna var t.d. franskur trúður. Þá var eitt verk á pólsku (texti fylgdi).

Rithöfundum er yfirleitt boðið að kynna verk sín á hátíðinni og þetta árið vorum við í því hlutverki, ég, Ólína Þorvarðardóttir og Vestfjarðagoðið Eiríkur Örn Norðdahl. Við fengum hvert sína skáldastund.

Ég á 40 ára rithöfundarafmæli í ár og notaði tækifærið til þess að tala stuttlega um allar mínar frumsömdu bækur, Ekkert slor, Nautnastuld, Strandhögg, Ástfóstur, Í allri sinni nekt, Feigðarflan, Ást í meinum, Eftirbát og bókina sem er rétt ókomin úr prentun, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Útgangspunkturinn var að tala um það í þeim sem mér finnst merkilegt núna. Minn viðburður, eins og hinna höfundanna, var vel sóttur. Ég lét gestina sitja í hring eins og ég væri að kenna ritlist. Ekki var þó um kennslustund að ræða. Þetta tókst vel og nokkur umræða skapaðist.

 

Grein í indverska tímaritinu Pratik

Nýjasta hefti indverska tímaritsins Pratik: A Magaine of Contemporary Writing er helgað skrifum um borgir. Þar á ég grein sem ber heitið „When You Don't Live in the City You Live in“ og fjallar um það þegar maður fjarlægist á vissan hátt sína eigin borg, þ.e. þá borg sem ferðalangarnir sjá. Greinin hefst svona:

Excuse me, I‘m looking for the Phallological Museum, can you tell me where it is, I can‘t seem to find it?” asks a woman who looks to be in her late 30s. She smiles a bit tentatively, as if prepared for an unpredictable reaction. 

I suppose I might have looked a bit flustered if this hypothetical woman had approached me to ask such a question, not because the museum evokes mixed feelings in a lot of people, but rather because I don‘t have the slightest idea where this well-known tourist attraction is located in my hometown. That‘s not due to plain forgetfulness or dementia (I hope), rather to the fact that I have never visited the place, nor have I ever had plans to do so. Still, I have read a wonderful essay about it by an American friend of mine, A. Kendra Greene, who wrote a whole book about the most obscure museums all around my country, many of which I had never even heard of, let alone visited.“

Ég fer síðan út í umræðu um það hvað túrismi gerir borgum og hvernig hann getur breytt menningarlandslaginu:

„All this begs the question whether we, locals and visitors alike, can ever get direct access to the authentic, if it exists at all. The very act of presenting one’s culture, especially if it’s done in a language that is foreign to the speaker or the listener or both, has a tendency to modify the thing that is being presented.“

Er eitthvað til lengur sem má teljast ekta? Eru þessi skrif ekta?

Heftið má nálgast á Amazon.

Viðtal um ritlistarnámið

Í lok maí birtist í Morgunblaðinu viðtal við mig í tilefni af því að rúm fimmtán ár eru nú liðin frá því að nám í ritlist var gert að fullgildri námsgrein. Það var árið 2008. Þó að ekki sé lengra síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og námið skilað af sér mörgum frambærilegum höfundum.

„Ég held að það fari ekki á milli mála að fólk sem hefur komið héðan hefur auðgað íslenskt bókmenntalíf,“ segi ég m.a. í viðtalinu og get þess að verk sem ritlistarnemar hafi sent frá sér séu að nálgast þrjú hundruð. „Við erum að fá mikið af efni sem við hefðum líklega ekki fengið ella,“ segi ég þarna.

Ég var spurður hvort höfundar yrðu ekki teknir alvarlega ef þeir væru ekki með háskólagráðu í faginu og svaraði þessu til: „Sem prófessor í ritlist ætti ég ekki að segja það sem ég ætla að fara að segja. En mér finnst mikilvægt fyrir íslenskar bókmenntir að höfundar verði til eftir ýmsum leiðum. Það hentar ekki öllum að koma í nám í ritlist. Ég vil að höfundar komi úr öllum geirum mannlífsins, til dæmis vantar okkur fleiri höfunda úr hópi sjómanna. Og þó að mörgum nemendum hafi vegnað vel þá er námið engin trygging fyrir því að þeir verði góðir höfundar...Ég held samt að það hjálpi öllum að fara hérna í gegn, ég fer ekkert ofan af því. Ég þykist hafa nógu mikla reynslu til að vita hvað það verða miklar framfarir á námstímanum.“