Ræddi verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone

Í ár var mér boðið að kynna verk mín á einleikjahátíðinni Act Alone sem fram fer árlega helgina eftir verslunarmannahelgina. Hún var nú haldin í 20.  sinn og sem fyrr var orkuboltinn Elfar Logi við stjórnvölinn.

Hátíðin stendur í þrjá daga og fara dagskráratriðin fram í samkomuhúsinu á Suðureyri. Þarna skapast ótrúlega góð stemmning enda er vel mætt á viðburðina. Í þetta sinn voru líka ýmsir hliðarviðburðir, s.s. tónleikar Mugisons. Oft eru valdir einleikir sem hafa vakið athygli syðra og núna var líka seilst til útlanda. Þarna var t.d. franskur trúður. Þá var eitt verk á pólsku (texti fylgdi).

Rithöfundum er yfirleitt boðið að kynna verk sín á hátíðinni og þetta árið vorum við í því hlutverki, ég, Ólína Þorvarðardóttir og Vestfjarðagoðið Eiríkur Örn Norðdahl. Við fengum hvert sína skáldastund.

Ég á 40 ára rithöfundarafmæli í ár og notaði tækifærið til þess að tala stuttlega um allar mínar frumsömdu bækur, Ekkert slor, Nautnastuld, Strandhögg, Ástfóstur, Í allri sinni nekt, Feigðarflan, Ást í meinum, Eftirbát og bókina sem er rétt ókomin úr prentun, Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Útgangspunkturinn var að tala um það í þeim sem mér finnst merkilegt núna. Minn viðburður, eins og hinna höfundanna, var vel sóttur. Ég lét gestina sitja í hring eins og ég væri að kenna ritlist. Ekki var þó um kennslustund að ræða. Þetta tókst vel og nokkur umræða skapaðist.