Viðtal um ritlistarnámið
Í lok maí birtist í Morgunblaðinu viðtal við mig í tilefni af því að rúm fimmtán ár eru nú liðin frá því að nám í ritlist var gert að fullgildri námsgrein. Það var árið 2008. Þó að ekki sé lengra síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og námið skilað af sér mörgum frambærilegum höfundum.
„Ég held að það fari ekki á milli mála að fólk sem hefur komið héðan hefur auðgað íslenskt bókmenntalíf,“ segi ég m.a. í viðtalinu og get þess að verk sem ritlistarnemar hafi sent frá sér séu að nálgast þrjú hundruð. „Við erum að fá mikið af efni sem við hefðum líklega ekki fengið ella,“ segi ég þarna.
Ég var spurður hvort höfundar yrðu ekki teknir alvarlega ef þeir væru ekki með háskólagráðu í faginu og svaraði þessu til: „Sem prófessor í ritlist ætti ég ekki að segja það sem ég ætla að fara að segja. En mér finnst mikilvægt fyrir íslenskar bókmenntir að höfundar verði til eftir ýmsum leiðum. Það hentar ekki öllum að koma í nám í ritlist. Ég vil að höfundar komi úr öllum geirum mannlífsins, til dæmis vantar okkur fleiri höfunda úr hópi sjómanna. Og þó að mörgum nemendum hafi vegnað vel þá er námið engin trygging fyrir því að þeir verði góðir höfundar...Ég held samt að það hjálpi öllum að fara hérna í gegn, ég fer ekkert ofan af því. Ég þykist hafa nógu mikla reynslu til að vita hvað það verða miklar framfarir á námstímanum.“