Alls konar aðferðir við ritlistarkennslu

Í byrjun árs sendi bókaforlagið Bloomsbury frá sér bókina A to Z of Creative Writing Methods þar sem ritlistarkennarar frá ýmsum löndum deila aðferðum sem að gagni mega koma við ritun skapandi texta.
Ég er einn þessara kennara og á þarna kafla um það hvernig nota má þýðingar, ekki síst það sem ég kalla sjónrænar þýðingar úr málum sem maður skilur ekkert í, við frumsamningu texta, oft með óvæntri útkomu.
Bókin er sett saman að frumkvæði ástralskra ritlistarkennara en þeir hafa fengið til liðs við sig marga sjóaða kennara aðra. Hér er því upplagt tækifæri fyrir þau sem vilja tileinka sér spennandi aðferðir við að laða fram óvæntar hugmyndir í ritlistarkennslu.

Þegar þýtt er úr millimáli

Nýlega kom út eftir mig grein um þýðingar úr millimálum, þ.e. um það þegar ekki er þýtt beint úr málinu sem bókin var upphaflega skrifuð á. Stundum kallað óbein þýðing. Greinin spratt úr ýmsu undarlegu sem skaut upp kollinum þegar þýddar voru sögur í ritröðina Smásögur heimsins. Þar munaði iðulega talsvert miklu á þýðingum, stundum var það meira að segja upp á líf og dauða því að í einni þýðingunni var persóna lifandi í lok sögunnar en dauð í frumtexta.
Við Íslendingar reiðum okkur mjög á enskar þýðingar þegar þýða þarf úr millimáli. Hjá þeim sem þýða á ensku vill hins vegar gæta menningarlegs yfirgangs sem birtist í því að þýðendur leyfa sér iðulega að víkja meira frá frumtexta en gengur og gerist. Það gera þeir meðal annars í krafti þess að enska er heimsmál og getur ráðið úrslitum um velgengni höfundar. Dæmi eru um að umdeildar enskar þýðingar úr framandi málum hafi síðan verið þýddar á íslensku.
Þar sem lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þetta á íslensku lagðist ég yfir eitt og annað sem hugsað hefur verið um þetta annars staðar í heiminum. Og viti menn, málið reyndist miklu margslungnara en ég hafði ímyndað mér. Í ljós kom að slíkar þýðingar eru víða stundaðar enn þó að UNESCO mæli ekki með því. Nóbelsverðlaun hafa meira að segja verið veitt á grundvelli þeirra. Aðalástæða þess að enn er víða gripið til þýðinga úr millimálum er skortur á þýðendum úr tilteknum frummálum, ekki síst málum sem töluð eru í Asíu. Sá skortur er aðkallandi hér á litla Íslandi og við eigum satt að segja fáa eða enga þýðendur úr mörgum „stórum“ málum. Við yrðum því snöggtum snauðari ef þýðingar úr millimálum væru ekki stundaðar hérlendis og reyndar er það svo að mörg af grundvallarritum íslenskrar menningar hafa fyrst komið til okkar úr millimálum. Margar íslenskar bækur hafa verið og eru enn þýddar á aðrar tungur úr millimáli.
Vegna minnkandi áhuga á tungumálanámi gæti svo farið að við yrðum að reiða okkur enn meira á millimálsþýðingar úr ensku í framtíðinni sem getur verið viðsjárvert eins og ég rek í greininni. En ætli þýðing úr millimáli sé endilega lakari en þýðing sem er gerð úr upprunalega málinu? Hér er tilvalið efni í doktorsritgerð fyrir þýðingafræðing sem talar tungum.
Greinin mín heitir „Þegar þýtt er úr millimáli – Neyðarbrauð eða nauðsyn?“ og birtist í tímaritinu Milli mála sem gefið er út af Stofnun Vigísar Finnbogadóttur.

„Engin tunga bragðast eins“ – ritlistarannáll 2022

Gæði ritlistarnáms eru gjarnan metin út frá því hvernig nemendum vegnar í bókmenntaheiminum að námi loknu. Það er alls ekki eini mælikvarðinn, vel mætti t.d. nefna framfarir í þessu samhengi; öllum fer mikið fram á námstímanum, bæði sem lesendum og höfundum. En skoðum aðeins árangur nemenda í hinum harða heimi bókmenntanna á árinu 2022.

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir. Ljósm. Fréttablaðið/Ernir

Árið byrjaði með því að forseti Íslands veitti Fríðu Ísberg, einum af okkar þekktustu útskriftarnemum, Íslensku bjartsýnisverðlaunin fyrir ritstörf sín. Þremur vikum síðar stóð nemandi sem þá var í miðju ritlistarnámi, Þórunn Rakel Gylfadóttir, í ræðupúltinu á Bessastöðum sem handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir söguna Akam, ég og Annika. Brynja Hjálmsdóttir hreppti síðan ljóðstaf Jóns úr Vör í febrúar fyrir ljóðið „Þegar dagar aldrei dagar aldrei“. Þess má geta að ljóð eftir Brynju var ávarp fjallkonunnar við 17. júní hátíðarhöldin i Reykjavík. Fríða Ísberg hreppti síðan Fjöruverðlaunin fyrir skáldsöguna Merkingu. Heiða Vigdís Sigfúsdóttir varð hlutskörpust í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, með sagnasveignum Getnaði. Karítas Hrundar Pálsdóttir fékk viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir sögur á einföldu máli, ætlaðar byrjendum í íslensku, en þær er að finna í bókunum Dagatal og Árstíðir. Arndís Þórarinsdóttir var meðal þeirra sem tilnefnd höfðu verið til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs sem afhent voru í Helsinki 1. nóvember. Þá voru þau Arndís, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Dagur Hjartarson tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 og þær Arndís og Lóa Hlín þar að auki til Fjöruverðlaunanna. Ljóðsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Allt sem rennur, hreppti Bóksalaverðlaunin. Árinu lauk svo með því að Fríða Ísberg hlaut hin virtu Per Olov Enquist verðlaun, sem miðast við unga höfunda, fyrir Merkingu.

Jakub Stachowiak

Margir núverandi og fyrrverandi nemendur aðrir gáfu einnig út bækur af ýmsu tagi, flest hjá viðurkenndum forlögum, önnur undir merkjum Blekfjelagsins, nemendafélags meistaranema í ritlist, enn önnur stóðu sjálf að útgáfunni. Sumar þessara bóka vöktu talsverða athygli. Þannig var ljóðabók Elínar Eddu Þorsteinsdóttur, Núningur, valin ljóðabók ársins af gagnrýnendum Morgunblaðsins. Ljóðabók hins pólskættaða Jakubs Stachowiaks, Úti bíður skáldleg veröld, var töluvert í umræðunni um höfunda af erlendu bergi sem hafa óðum verið að kveða sér hljóðs. Einnig vakti smásagnasafn Berglindar Óskar, Breytt ástand, verulega athygli, ekki síst fyrir það að innihalda sögur af ungu fólki í neyslu. Bloggfærsla Berglindar um svokölluð kúltúrbörn varði tilefni til mikilla umræðna um forréttindi í menningarlífinu undir lok ársins. Báðar eru þær Berglind Ósk og Elín Edda nýútskrifaðar og voru verk þeirra unnin að miklu leyti í náminu. Sama á reyndar við um fleiri verk sem út komu.

Árlega gefa nemendur út safnrit sem er eins konar útskriftarsýning þeirra. Í ár bar það heitið Takk fyrir komuna – hótelsögur og tengjast sögurnar og ljóðin í bókinni Hótel Sögu. Því var fagnað, sem og jólabók Blekfjelagsins, sem einnig kemur út árlega, með fjörlegum útgáfuhófum. Ritlistarnemar, núverandi og fyrrverandi, efndu líka til margra viðburða annarra.

Sérstaka athygli verkur hve vel konum úr náminu vegnar. Frá því að námið var sett á stofn hafa þær verið í miklum meirihluta í nemendahópnum og ef í því er fólgin vísbending verða konur mun fleiri meðal íslenskra rithöfunda en karlar áður en langt um líður.

Það er ánægjulegt fyrir mig persónulega að þetta góða fólk, sem og næstum allir útskrifaðir ritlistarnemar, skuli hafa verið hjá mér í ritsmiðjum á námstímanum. Þær eru orðnar allmargar bækurnar sem hafa verið unnar að einhverju leyti undir minni handleiðslu, frumsamdar og þýddar. Verkin eru gjörólík enda hefur markmið okkar alltaf verið að fóstra ólíkar raddir. „Engin tunga bragðast eins,“ eins og segir í fjallkonuávarpi Brynju Hjálmsdóttur. Rétt er að nefna að fjölmargir kennarar koma að náminu og eru flestir þeirra viðurkenndir höfundar. Fastir kennarar eru tveir, ég og Huldar Breiðfjörð sem nú um áramótin leysir mig af í hlutverki greinarformanns eftir tæplega 15 ára samfellda setu þar sem ég er á leiðinni í rannsóknaleyfi.

 

Leikur hlæjandi láns komin út sem hljóðbók

Leikur hlæjandi láns, sem hefur nú þegar fengið stöðu sígildra verka, er komin út sem hljóðbók í stórgóðum lestri Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur.

Bókin var mín fyrsta prentaða þýðing, kom upphaflega út árið 1992, en hafið ekki áhyggjur, Þuríður er ekki að lesa þýðingu byrjanda, því að bókin hefur tvisvar verið endurútgefin síðan og í bæði skiptin þykist ég hafa bætt þýðinguna. Myndin sem hér fylgir er af kápu nýjustu útgáfunnar sem kom út árið 2014 í tilefni af því að við fengum Amy Tan hingað til lands til að flytja fyrirlestur á ráðstefnunni Art in Translation. Hann flutti hún fyrir fullum sal í Hörpu.

Ég gæti haldið fyrirlestur um þessa bók en læt nægja að benda á hið sérstaka form hennar, þar skiptast fernar mæðgur af kínversku bergi brotnar á um að segja söguna. Bókin hefur oft verið kynnt sem skáldsaga en að mati höfundar er hér um svokallaðn sagnsveig að ræða. Það sem helst einkennir sagnasveiga er að sjálfstæðar smásögur tengjast í eina heild. Amy Tan er mikill sagnameistari og ég get lofað ykkur því að þið eigið mikið eyrnakonfekt í vændum. Bókina má nálgast hjá Storytel.

Þýðing á Rip Van Winkle

Út er komin þýðing mín á einni þekktustu smásögu bandarískra bókmennta, „Rip Van Winkle“ eftir Washington Irving. Sagan er frá 1819, árdögum smásagnagerðar í Vesturheimi og reyndar í heiminum. Í henni nýtir Irving þýska þjóðsögu til þess að segja sögu af manni sem sofnar í tuttugu ár og sefur af sér byltinguna sem leiddi til stofnunar Bandaríkja Norður-Ameríku.

Þýðing mín er ekki sú fyrsta sem birtist á íslenskri tungu því að árið 1966 birtist sagan í Vikunni en án þess að þýðanda væri getið. Sú þýðing er þó gjörólík minni og ætli munurinn á þeim sýni ekki með ótvíræðum hætti þá breytingu sem orðið hefur á íslensku máli en þó ekki síður á þýðingahefðinni. Oft á tíðum er þýðingin í Vikunni mjög frjálsleg og sums staðar er hún endursögn.

Með þýðingu minni fylgir inngangur þar sem ég fjalla um Irving og söguna. Hvort tveggja birtist í tímaritinu Milli mála sem gefið er út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Söguna má nálgast hér og innganginn hér.

Meðfylgjandi mynd er af styttu sem var afhjúpuð í Irvington, New Jersey, árið 2002 og sýnir Rip Van Winkle. Hann er með hálfopin augun eins og hann sé nývaknaður og hlutar af honum virðast renna saman við jörðina. Rip hefur gengið aftur í ýmsum gerðum allar götur, svo sem í bíómyndum, teiknimyndum, teiknimyndasögum og leikritum, enda eftirminnileg persóna sem hefur lifað með þjóðinni. Þess má geta að borgin Irvington heitir eftir Washington Irving.

Kristín Svava Tómasdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist

Ljóðskáldið og sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist veturinn 2021–‘22. Hún mun vinna með meistaranemum að ljóðagerð og síðar í vetur mun hún flytja opinberan fyrirlestur kenndan við Jónas. Til starfs Jónasar Hallgrímssonar í ritlist var stofnað árið 2015 og varð Sigurður Pálsson skáld fyrstur til að gegna því.

Kristín Svava hefur tekið virkan þátt í íslensku ljóðalífi frá unga aldri og sent frá sér fjórar ljóðabækur, síðast Hetjusögur sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2020. Hún hefur komið fram á fjölda ljóðahátíða hérlendis og erlendis og ljóð hennar hafa verið þýdd á ýmis tungumál. Ljóðabókin Stormviðvörun kom út í Bandaríkjunum undir titlinum Stormwarning árið 2018 í þýðingu K.B. Thors, sem vinnur nú einnig að enskri þýðingu á Hetjusögum. Fyrir Stormwarning var Thors tilnefnd til PEN-verðlaunanna bandarísku í flokki þýddra ljóðabóka. Kristín Svava hefur sjálf fengist við þýðingar og meðal annars hefur komið út eftir hana þýðing á hinu klassíska femíníska verki SORI: manifestó eftir bandaríska höfundinn Valerie Solanas og á ljóði kúbanska skáldsins Virgilio Piñera, Þungi eyjunnar. Kristín Svava var listrænn stjórnandi Alþjóðlegrar ljóðahátíðar Nýhils um tveggja ára skeið og síðar einn af ritstjórum ljóðabókaseríunnar Meðgönguljóða.

Auk þess að vera ljóðskáld er Kristín Svava sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Árið 2018 sendi hún frá sér bókina Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar og hlaut fyrir hana Viðurkenningu Hagþenkis. Hún er einn af höfundum bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga, sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2020, en vinnur nú að bók um sögu Farsóttahússins við Þingholtsstræti 25 í Reykjavík.

Tvö útvarpsviðtöl

Á undanförnum vikum hef ég verið munstraður í tvö fremur ítarleg útvarpsviðtöl á Rás 1. Bæði komu til vegna greina sem nýlega birtust og vöktu athygli þáttastjórnenda.

Fyrra viðtalið var við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur. Þar ræddum við um að kenna ritlist á íslensku, máli sem á sér glæsta sögu en svo fáir tala. Tilefnið var greinin „Teaching Creative Writing in a Threatened Language“ í bókinni The Place and the Writer sem kom út nýlega.

Seinna viðtalið var við Þröst Helgason í þættinum Svona er þetta. Þar ræddum við um útilokunarmenningu og málfrelsi í framhaldi af greininni „Skærurnar á netinu“ sem birtist í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2021.

Þar sem ég hef fengið óvenju mikil viðbrögð við viðtölunum hef ég sett hlekki á þau eins og þið sjáið.

 

Villimennska eða kærkomið vopn?

Í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2021 getur að líta grein eftir mig um útilokunarmenningu, hatursorðræðu og málfrelsiskreppuna sem mér finnst einkenna samtímann.

Í greininni reifa ég einkenni og afleiðingar útilokunarmenningar. Einnig ræði ég skilgreiningar á hatursorðræðu og löggjöf Ísleninga um hana og bendi á að margt sem skrifað er á samfélagsmiðlum geti varðað við lög. Á þá að banna hatursorðræðu? Ekki eru allir á eitt sáttir um það og kynni ég nokkur sjónarmið hvað það varðar. Sumir trúa því að málfrelsið sjálft muni á endanum kveða hatursorðræðu í kútinn, í því sé fólginn sjálfvirkur leiðréttingarbúnaður, en aðrir benda á að ekki hafi allir sem verða fyrir barðinu á slíkri orðræðu burði eða aðstöðu til að svara fyrir sig og telja að ef ríkisvaldið aðhafist ekkert megi líta svo á að það leggi blessun sína yfir hatursorðræðu.

Stöðu og hlutverk fjölmiðla ræði ég talsvert enda eru þeir sumpart meðvirkir í útilokunarmenningunni vegna þess að þeir sækja sér oft efni í krassandi útilokunaratlögur sem gerðar eru á netinu. Í þessu sambandi bendi ég á hve mikilvægt sé að þeir hafi burði til þess að stunda öflugan og vel ígrundaðan fréttaflutning svo að fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir og ráðist ekki að öðrum á röngum forsendum.

Málfrelsið er mikið til umræðu í greininni enda er það undirstaða lýðræðis og reyndar líka lýðheilsu í víðasta skilningi. Til þess að málfrelsi fái þrifist þurfum við að líta svo á að það sé í allra þágu að sem flest sjónarmið fái að njóta sín í umræðunni. Minnihlutaskoðanir þurfi að virða í stað þess að þagga þær vegna þess að þær hjálpi okkur að skilja málefnin betur og auki þannig líkur á að réttar og farsælar ákvarðanir verði teknar, þjóðfélaginu öllu til heilla.

Að kenna ritlist á máli sem kann að vera í útrýmingarhættu

Út er komin bókin The Place and the Writer – International Intersections of Teacher Lore and Creative Writing Pedagogy sem gefin er út af Bloomsbury-forlaginu. Bókin er hluti af ritröð um rannsóknir í ritlistarfræðum og henni ritstýrðu Marshall Moore og Sam Meekings sem staðsettir eru í Hong Kong. Þeir buðu mér að leggja fram efni um ritlistarnámið við Háskóla Íslands og það er mikill heiður.

Mitt innlegg ber yfirskriftina „Teaching Creative Writing in a Threatened Language“ og fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um þá stöðu að kenna ritlist á íslensku nú þegar blikur eru á lofti varðandi framtíð tungunnar. Það er ekki oft sem maður óskar þess að hafa rangt fyrir sér, en þess óska ég svo sannarlega að áhyggjur mínar séu óþarfar (nema ef vera skyldi til þess að koma í veg fyrir meinta niðurlægingu tungunnar). Það er þó staðreynd að á þessum tímapunkti finnst mér að íslensk tunga sé í útrýmingarhættu og við því reyni ég að bregðast í greininni sem og því hvað það þýði að kenna ritlist á íslensku.

Við höfum þá sérstöðu að vera eina rithöfundasmiðjan í heiminum þar sem kennt er á íslensku. Er réttlætanlegt að taka ekki við íslenskum ríkisborgurum nema þeir hafi vald á íslenskri tungu? spyr ég m.a. í greininni. Ég færi síðan rök fyrir því að réttlætanlegt sé að rækta þjóðtungu með þessu móti og ræði í því sambandi vinnu okkar með nemanda sem talaði íslensku sem annað mál.

Ég hef nú ekki verið mikið fyrir það í gegnum tíðina að reka lestina, en í þessu greinasafni er mitt innlegg þó aftast. Ég hef kosið að líta svo á að það sé rúsínan í pylsuendanum!

Smásögur heimsins: bindin öll

Fimmta bindi Smásagna heimsins, tileinkað Evrópu, er nú komið út og hafa þar með öll bindi ritraðarinnar skilað sér. Fimm bindi, hvert tileinkað ákveðinni álfu, nema hvað Asíu og Eyjaálfu var steypt saman. Í bindunum getur að líta 94 sögur frá 75 löndum á alls 1464 blaðsíðum.

Hugmyndin að verkinu kviknaði þegar ég var beðinn að kenna námskeið um smásögur í almennri bókmenntafræði á tíunda áratugnum. Þá sá ég að margar af perlum þessarar bókmenntagreinar höfðu aldrei verið þýddar á íslensku. Markmiðið með ritröðinni var að bæta úr því með því að safna markvisst saman snjöllum sögum úr öllum heimshornum og birta um leið sem flestar gerðir smásagna til að gefa sem gleggsta mynd af smásagnagerð í heiminum. Verkefnið væri þó líklega enn í skúffunni ef öflugt fólk hefði ekki komið til liðs við mig.

Sögurnar spanna síðustu öldina eða frá því að smásagan varð að sjálfstæðu fagurfræðilegu formi. Langt fram eftir 20. öldinni voru karlar atkvæðameiri en ef miðað er við þessi fimm bindi koma konurnar sterkar inn um og upp úr 1970. Um 43% sagnanna eru þó eftir konur.

Mér telst til að sögurnar hafi verið þýddar úr sextán málum: ensku, japönsku, arabísku, kóresku, taílensku, spænsku, portúgölsku, frönsku, þýsku, ítölsku, serbnesku, dönsku, búlgörsku, sænsku, norsku og rússnesku. Reynt var að þýða úr frummáli en þegar ekki tókst að finna þýðanda lánaðist okkur í flestum tilvikum að hafa upp á manneskju sem gat borið þýðinguna saman við frumtexta. Það á við um víetnömsku, persnesku, króatísku, pólsku, kínversku og arabísku (þó var líka þýtt beint úr arabísku). Þannig tókst í næstum öllum tilfellum að tengja þýðingarnar frumtextanum sem var mikið lán því að samanburðurinn skilaði stundum óvæntum niðurstöðum. Ástæðan fyrir því að tungumálin eru ekki fleiri er sú að margar fyrrverandi nýlendur nýta sér enn evrópsk mál til bókmenntasköpunar. Það gildir um mörg lönd í Afríku og Asíu. Svo eru auðvitað tvær heilar heimsálfur sem notast að mestu við spænsku eða ensku.

Alls tóku 45 þýðendur þátt í verkefninu, margir þeirra þrautreyndir, en í hópnum var einnig fólk sem var ekki vant að þýða fagurbókmenntir. Ennfremur tóku 12 nemendur þátt í verkefninu og stigu þannig sín fyrstu skref sem þýðendur. Hér er listinn yfir þetta góða fólk í belg og biðu: Ágúst Borgþór Sverrisson, Árni Óskarsson, Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Erla Erlendsdóttir, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Friðrik Rafnsson, Guðbergur Bergsson, Hermann Stefánsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Jón Hallur Stefánsson, María Gestsdóttir, Sigfús Bjartmarsson, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Skúli Jónsson, Dagbjört Gunnarsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Hjörleifur Rafn Jónsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Ingunn Snædal, Jón Egill Eyþórsson, Lárus Jón Guðmundsson, Sindri Guðjónsson, Steingrímur Karl Teague, Janus Christiansen, Þórir Jónsson Hraundal, Ana Stanićević, Arndís Þórarinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Áslaug Agnarsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Eysteinn Þorvaldsson, Bjarni Jónsson, Brynja Cortes Andrésdóttir, Jón Karl Helgason, Kristinn R. Ólafsson, Pétur Gunnarsson, Sigurður A. Magnússon, Soffía Auður Birgisdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir, Veska A. Jónsdóttir, Zophonías O. Jónsson og ofanritaður.

Í nokkrum tilfellum höfðu sögurnar birst áður á íslensku. Það voru þá sögur sem við í ritstjórninni töldum hafa markað svo djúp spor að þær yrðu að vera með í yfirlitsverki sem þessu. Í þeim tilfellum voru sögurnar ýmist þýddar á ný eða þýðingarnar vandlega yfirfarnar, þá í samráði við þýðendur ef þess var kostur. Í tveimur tilfellum voru þýðendur látnir en vegna stöðu þeirra og vægis voru þýðingar þeirra hafðar með. Hér á ég við Ingibjörgu Haraldsdóttur og Sigurð A. Magnússon. Eysteinn Þorvaldsson lést svo meðan bókin var í prentun.

Í sumum tilfellum hjálpuðu þýðendur okkur að finna sögur og nokkrir þeirra skrifuðu fyrir okkur kynningar á höfundum.

Allmargir nemendur unnu að því að finna sögur á námskeiðum sem helguð voru smásögum og þýðingum á þeim. Þá störfuðu tveir aðstoðarmenn í sumarvinnu við að leita að smásögum, þau Magnús Sigurðsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir, og er þáttur þeirra stór. Leit að sögum hefur í rauninni staðið yfir í rúm 20 ár með öðru en orðið markvissari síðustu tíu árin.

Við ritstjórarnir – ég, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason – bárum síðan ábyrgð á endanlegu vali sagna. Þar var margt haft í huga, s.s. kynjahlutfall, kynþættir, fjölbreytni, ritunartími sagnanna (svo að þær röðuðust sem jafnast á undangengna öld) og landfræðileg dreifing. Við ritstýrðum síðan öllum þýðingunum, hvert okkar fór nokkrum sinnum yfir hverja þýðingu og sama á við um kynningartextana. Þetta hefur verið stíf vinna og vel skipulögð síðustu fimm árin. Stefnt var að því að eitt bindi kæmi á ári og aldrei var tvísýnt um að bindin yrðu tilbúin til útgáfu í tæka tíð.

Miðstöð íslenskra bókmennta studdi verkefnið dyggilega en einnig Launasjóður fræðiritahöfunda meðan hann var og hét. Mikið munaði líka um vinnudvalir okkar ritstjóranna erlendis á vinnslutímanum. Sjálfur er ég sérstaklega þakklátur fyrir dvöl í Kína á vegum Sun Yat-sen háskóla, við STIAS þekkingarsetrið í Suður-Afríku og við The Clearman Cottage Writer's Residency á Long Beach í Washingtonfylki Bandaríkjanna. Þá á bókaforlagið Bjartur hrós skilið fyrir úthaldið.

Nú fara þessar tæplega 1500 síður á vit sögunnar og við ritstjórarnir tökum til við önnur verkefni. Þetta var einstakt samstarf með einstaklega hæfileikaríkum dugnaðarforkum og ekki laust við að þegar örli á söknuði í þessu hjarta. Umfram allt er ég þó þakklátur fyrir að hafa starfað í umhverfi og landi sem gerði okkur kleift að sinna þessu verkefni og vildi taka við því.