Misnotkun tungumálsins

Yfirlýsing Hraðfrystihússins-Gunnvarar vegna hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270“ er sorglegt dæmi um misnotkun tungumálsins sem mætti nota sem kennsluefni í orðræðugreiningu. Skoðum hana lið fyrir lið.

  • rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveiru um borð í skipinu til Landhelgisgæslunnar“ – ef ég skil málið rétt hefði það ekki bara verið rétt, heldur skylt samkvæmt lögum. Það verður ekki ráðið af þessu orðalagi.
  • láta þeim yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar.“ Hér er látið líta svo út sem um eitthvert matsatriði sé að ræða, en í reglum segir „LHG [...] leiðbeinir um sóttvarnahöfn sem skipi er vísað til í samráði við sóttvarnalækni“.
  • Slík framkvæmd hefði enda verið í samræmi við þær leiðbeiningar, sem viðhafa ber í þessum aðstæðum“ er orðalag sem er notað til að komast hjá að segja að lög og reglur voru beinlínis brotin.
  • Því miður fórst það fyrir“ að tilkynna um smit um borð í skipinu. Á íslensku merkir farast fyrir að eitthvað hafi gleymst eða lent í útideyfu. Það merkir ekki að það hafi beinlínis verið hunsað eða því hafnað eins og þarna var.
  • ábyrgð á þeim mistökum“ – hér er enn notað rangt orð til að breiða yfir alvarleik málsins. Merking orðsins mistök er 'yfirsjón, handvömm, vangá'. En þetta voru engin mistök, heldur einbeittur brotavilji.
  • mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla.“ Þetta er klisja. Að axla ábyrgð merkir 'taka á sig ábyrgð' – ábyrgð sem manni er ekki endilega skylt að bera, og taka afleiðingum gerða sinna. Ekkert bendir til þess að það standi til.
  • Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum.“ Gott, en það dregur töluvert úr einlægni afsökunarbeiðninnar að það skuli endurtekið að um mistök hafi verið að ræða.
  • Það var aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skipsins í hættu“ –  þakka skyldi. Það er örugglega aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stofna lífi sjómanna í hættu, en stórkostlegt gáleysi og brot á reglum og lögum geta jafngilt því.
  • fyrirtækinu þykir þungbært að sitja undir ásökunum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfsmanna.“ Hér er málinu drepið á dreif – þetta er ekki ásökun, heldur lýsing á staðreyndum. Þetta er sagt þungbært til að reyna að skapa samúð með fyrirtækinu.
  • Ítrekað skal að fyrirtækinu þykir miður að ekki hafi verið brugðist við með réttum og viðeigandi hætti.“ Orðalagið þykir miður er auðvitað ekki í neinu samræmi við alvarleik málsins. Og með réttum og viðeigandi hætti er sakleysislegt orðalag um það sem í raun virðist vera lagaskylda.
  • Nú er verkefnið að styðja við þá áhafnarmeðlimi sem glíma við veikindi og byggja upp á ný það traust sem hefur glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins vegna atviksins.“ Hér gefa menn sér að þarna hafi áður ríkt traust. Og atvik er ansi bragðdauf lýsing á málinu.
  • Alls staðar er talað um fyrirtækið til að firra einstaklinga ábyrgð – „Fyrirtækið telur ljóst“, „ábyrgð … mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla“, „Fyrirtækið biður … afsökunar“, „fyrirtækinu þykir þungbært“, „fyrirtækinu þykir miður“, „traust … glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins“.

Í þessu máli hefur augljóslega verið brotið gróflega á rétti sjómanna og það má ekki líðast. En það má heldur ekki líðast að misnota tungumálið á þann hátt sem gert er í þessari yfirlýsingu.

Máltækni

Máltækni er tiltölulega nýlegt orð í íslensku – þýðing á því sem á ensku nefnist language technology. Einnig hefur orðið tungutækni verið notað um sama hugtak. Í stuttu máli má segja að með máltækni sé átt við hvers kyns samvinnu tungumáls og tölvutækni sem hefur einhvern hagnýtan tilgang; beinist að því að hanna eða útbúa einhvern hugbúnað eða tæki sem nýtist mönnum í starfi eða leik. Þessi samvinna hefur tvær hliðar og felst annars vegar í notkun tölvutækninnar í þágu tungumálsins; hins vegar í notkun tungumálsins í þágu tölvutækninnar.

Það er hægt að nýta tölvu- og upplýsingatækni á ýmsan hátt til þess að auðvelda mönnum að nota tungumálið. Þar má nefna ýmiss konar leiðréttingarforrit fyrir stafsetningu og málfar. Slíkur búnaður fylgir til dæmis algengum forritapökkum eins og Microsoft Office og LibreOffice á ýmsum tungumálum. Einnig er hægt að sækja viðbætur af þessu tagi fyrir ýmsa vafra. Íslensk stafsetningarleiðréttingarforrit eru til, svo sem Púki og Skrambi, en ekkert málfræðileiðréttingarforrit er til fyrir íslensku.

Hér má einnig telja ýmiss konar hjálpartæki handa fólki sem á erfitt með mál eða lestur sökum einhvers konar fötlunar. Talgervill, sem er búnaður sem les upp ritaðan texta, var fyrst gerður fyrir íslensku um 1990 en nýjasti talgervillinn kom á markaðinn 2012. Hann var gerður á vegum Blindrafélagsins og býr yfir tveimur röddum, karlmannsrödd sem nefnist Karl og kvenmannsrödd sem nefnist Dóra.

Talgreinir breytir töluðu máli í ritaðan texta. Slíkur búnaður fyrir íslensku var gerður árið 2012 í samvinnu Google við íslenska aðila og er nú í símum með Android-stýrikerfi og í Google Chrome-vafranum. Hægt er að nota talgreininn við leit á netinu, til að skrifa smáskilaboð og tölvupóst, minnisatriði og fleira. Einnig er hægt að prófa talgreini á vef Háskólans í Reykjavík. Slíkur búnaður getur vitaskuld nýst öllum málnotendum en ekki síst fólki sem eru hreyfihamlað og á erfitt með að nota lyklaborð til að rita texta.

Eitt veigamesta svið máltækni eru vélrænar þýðingar, þar sem hugbúnaður er notaður til að þýða texta af einu máli á annað. Google Translate er þekktasti búnaðurinn á þessu sviði og getur þýtt milli fjölda tungumála, þar á meðal milli íslensku og annarra mála. Gæði þýðinganna eru misjöfn en fara vaxandi eftir því sem búnaðurinn er lengur í notkun og hefur fleiri gögn til að læra af. Ekkert gott þýðingarforrit hefur enn verið þróað fyrir íslensku.

En tungumálið er ekki bara þiggjandi í samvinnu við tölvutæknina. Það er líka notað á margvíslegan hátt til að gera tæknina aðgengilegri og auðvelda mönnum að nýta sér hana. Þar má nefna ýmiss konar þjónustuver þar sem tölva hlustar á erindi notandans og greinir merkingu þess. Sú greining er síðan send til gagnabanka, þar sem er að finna svör við margvíslegum fyrirspurnum, og viðeigandi svar sótt í bankann. Því svari er svo breytt í eðlilega setningu og hún send til tölvubúnaðar sem les hana fyrir notandann. Þetta ferli er alsjálfvirkt og byggist á margvíslegri og flókinni greiningu á tali notandans; hljóðgreiningu, orðgreiningu, setningagreiningu, merkingargreiningu og fleira.

Einnig má nefna notkun málsins við stjórn tölva og ýmiss konar tölvustýrðra tækja. Það fer mjög í vöxt að slíkum tækjum sé stjórnað með venjulegu máli, annað hvort rituðu eða töluðu. Skipanir eru þá ýmist slegnar inn á lyklaborð eða talaðar í hljóðnema, í stað þess að ýta á takka eða velja kost í valmynd. Þetta mun á næstunni taka til sífellt fjölbreyttari tækja, svo sem ýmiss konar framleiðslutækja, heimilistækja og bíla. En slík tæki skilja yfirleitt ekki íslensku – enn sem komið er.

Til að tölvur og tæki skilji íslensku slíkt þarf að byggja upp þekkingargrunna sem hafa að geyma margvíslegar og nákvæmar upplýsingar um tungumálið. Til að hægt sé að þróa forrit til málfarsleiðréttingar þarf til dæmis að liggja fyrir nákvæm og ítarleg greining á íslenskri setningagerð – mun nákvæmari og ítarlegri en finna má í handbókum og kennslubókum. Það er ekki hægt að útbúa leiðréttingarforrit nema skrá nákvæmlega hvaða setningagerðir eru leyfilegar í málinu og hverjar ekki og jafnframt semja lýsingu á því hvernig eigi að lagfæra það sem betur má fara.

Sprenging í hagnýtingu gervigreindar og vélræns náms á síðustu árum hefur leitt til þess að mikilvægasta forsenda þess að þróa máltæknibúnað er nú gríðarstór málleg gagnasöfn – orðasöfn, textasöfn, hljóðsöfn og fleira. Þær aðferðir sem nú eru mest notaðar byggjast á því að tölvur eru látnar lesa gríðarlega mikið af gögnum og læra af þeim – finna í þeim mynstur sem þær geta síðan notað til að byggja upp þekkingargrunna um tungumálið. Þessa þekkingargrunna er svo aftur hægt að nýta í gerð margs kyns hugbúnaðar til málvinnslu, svo sem leiðréttingabúnaðar, þýðingaforrita, talgervla, talgreina og svo framvegis.

Uppbyggingarstarf í máltækni er dýrt. Það kostar jafnmikið að koma upp máltækni fyrir íslensku og fyrir tungumál milljónaþjóða. Margs konar máltæknibúnaður er vissulega góð markaðsvara og skilar miklum tekjum sem standa undir háum þróunarkostnaði – ef markaðurinn er nógu stór. En því er ekki að heilsa á Íslandi. Vegna smæðar markaðarins er ljóst að það verður seint arðvænlegt að þróa dýran máltæknibúnað fyrir íslensku. Vilji Íslendingar að íslenska sé nothæf innan tölvu- og upplýsingatækninnar þarf opinber stuðningur við þróunarstarf að koma til.

Þegar mikilvægi máltækni fyrir íslensku er metið verður að líta til þess að upplýsingatæknin er orðin mikilvægur þáttur í daglegu lífi alls almennings í landinu. Ef ekki verður hægt að nota íslensku á öllum sviðum upplýsingatækninnar kemur upp splunkuný staða, sem ekki á sér hliðstæðu fyrr í málsögunni. Þá verður orðið til mikilvægt svið í daglegu lífi venjulegs fólks, þar sem móðurmálið er gagnslítið eða ónothæft. Hvaða áhrif hefði slíkt umdæmistap á málnotendur og málsamfélagið? Hvað gæti gerst ef móðurmálið yrði ekki lengur nothæft í nýrri tækni og öðru sem er nýtt og spennandi; á sviðum þar sem nýsköpun af ýmsu tagi á sér stað; og á sviðum þar sem ný atvinnutækifæri bjóðast?

En íslensk máltækni hefur ekki eingöngu gildi fyrir tungumálið og varðveislu þess. Málnotendurnir og hagsmunir þeirra skipta ekki síður máli. Það er mannréttindamál að geta notað móðurmálið á öllum sviðum daglegs lífs, bæði í starfi og leik – líka innan upplýsingatækninnar. Til að svo megi verða þarf allur algengur hugbúnaður að vera á íslensku, leiðréttingarhugbúnaður fyrir íslenskan texta þarf að vera til, það þarf að vera hægt að tala við ýmis tölvustýrð tæki á íslensku, til þurfa að vera þýðingarforrit sem geta þýtt milli íslensku og annarra mála, og málnotendur þurfa að eiga aðgang að hugbúnaði sem getur unnið flóknar upplýsingar úr texta- og gagnasöfnum og leitað í þeim á margvíslegan hátt. Enn vantar mikið upp á að þessi markmið náist.

Tíðir og horf

Í Facebook-hópnum Málspjall var nýlega nokkur umræða um tíðir sagna – hversu margar og hverjar þær væru. Í eldri málfræðibókum, t.d. Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar sem var aðalkennslubók í málfræði í grunnskólum um áratuga skeið, var gert ráð fyrir átta tíðum. Þar af eru bara tvær ósamsettar, þ.e. koma eingöngu fram í sögninni sem um er að ræða, en hinar sex samsettar, þ.e. myndaðar með hjálparsögn (hafa og munu) og nafnhætti eða lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni. Í nýrri málfræðibókum eru hins vegar bara nútíð og þátíð flokkaðar sem tíðir, en hin samböndin eru flest kölluð horf, enda eru þau annars eðlis en tíðirnar tvær. Einar Freyr Sigurðsson orðaði muninn á þessu tvennu mjög vel í athugasemd hér um daginn og ég tek skýringu hans hér upp:

„[M]unurinn á tíð og horfi felst svolítið í því hversu marga viðmiðunarpunkta við höfum í tímatáknun. Tíð hefur tvo tímapunkta, taltíma (T) og atburðartíma (A) (tíma þess sem eitthvað gerist). Í þátíð, t.d. Ég borðaði í gær, er þetta A – T því atburðartíminn er á undan taltímanum (þess tíma sem setningin Ég borðaði í gær er sögð). Í nútíð falla A og T saman en í framtíð fer T á undan A. Í horfi bætist svo þriðji tíminn við, viðmunartími (V). Þú varst búin að borða (þegar ég kom heim) er dæmi um (lokið) horf: Þarna er atburðartími sem fer á undan taltíma og til viðbótar höfum við viðmiðunartíma (þegar ég kom heim) sem er í þessu tilfelli á milli atburðartíma og taltíma, þ.e. A – V – T.“

Í málinu eru til ýmis sagnasambönd sem gegna svipuðum hlutverkum og hinar samsettu „tíðir“, án þess að þau séu eða hafi verið flokkuð sem tíðir. Þannig er t.d. með sambandið vera búinn að, sem er ekki til í fornu máli í þeirri merkingu sem það hefur nú. Það kemur vissulega fyrir í fornum textum, en þá í merkingunni 'reiðubúinn'. Í Hallfreðar sögu vandræðaskálds segir: „Þú hefir og enn fyrr tekið mig með valdi og varst þá búinn að veita mér bana.“

Hér er nokkuð augljóst að vera búinn að er ekki notað í nútímamerkingunni – þá væri sögumaður ekki til frásagnar. En í „Ævintír af Eggérti Glóa“, sem Jónas Hallgrímsson þýddi og birtist í fyrsta árgangi Fjölnis, segir: „Þegar hann hafði riðið nokkra daga, varð hann ekki var við fyrr enn hann var búinn að villast inn í klettaklúngur, og sá þaðan hvurgi til vegar.“ Hér er jafnljóst að merkingin 'reiðubúinn' á ekki við, heldur nútímamerkingin. Sambandið virðist hafa fengið nútímamerkinguna á 17. öld.

Annað sagnasamband sem ekki er til í fornu máli er vera að gera eitthvaðég er að lesa bókina. Í fornum textum má hins vegar finna dæmi um vera að að gera eitthvað, þar sem er tvítekið. Þannig segir í Njálu: „Bar það saman og þá var Gunnar að að segja söguna en þeir Kári hlýddu til á meðan úti.“ Í slíkum tilvikum er fyrra -ið forsetning sem tekur með sér nafnháttarliðinn að segja söguna. Þetta er hliðstætt því að stæði þá var Gunnar að störfum, þar sem tekur með sér nafnorð í stað nafnháttarliðar í fyrra dæminu.

En sambönd þar sem sama orðið kemur fyrir tvisvar í röð, þótt það sé í mismunandi hlutverkum (það fyrra hér forsetning, það síðara nafnháttarmerki) eru óstöðug og í þessu tilviki féllu -in tvö saman og úr varð nýtt sagnasamband með fasta merkingu – vera að gera eitthvað. Þetta samband virðist hafa orðið til á 15. öld – a.m.k. kemur það fyrir í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540: „Og sem hann kom í musterið, gengu til hans (sem hann var að kenna) prestahöfðingjar og öldungar lýðsins.“

Uppreist æru

Í íslensku lagamáli er talað um „uppreist æru“. Þetta á einkum við almenn hegningarlög (nr. 19/1940), svo og lög um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, en viðkomandi ákvæði þeirra laga byggjast á hegningarlögunum. Orðalagið er þó mun eldra í lagamáli, og kemur að minnsta kosti fyrir í „Tilskipun fyrir Ísland um uppreist á æru“ sem konungur gaf út árið 1870. Mörgum kemur þetta orðalag spánskt fyrir sjónir og vilja heldur tala um uppreisn æru. Hvers vegna er myndin uppreist notuð í lagamáli; og er jafngilt að tala um uppreist æru og uppreisn æru?

Bæði uppreist og uppreisn eru kvenkynsnafnorð, mynduð af reisa upp. Bæði orðin koma fyrir í fornu máli – uppreist þó mun algengara – og merkja ‘bæting stöðu eða aðstæðna’ („Forbedring af Stilling eller Vilkaar“) samkvæmt orðabók Fritzners (Ordbog over Det gamle norske Sprog). Það er merkingin sem orðin hafa í uppreist/uppreisn æru. En auk þess merkir uppreist í fornu máli ‘samblástur til að sýna fjandskap’ („Reisning, Opstand til Udøvelse af Fiendtligheder“) samkvæmt Fritzner, en uppreisn kemur ekki fyrir í þeirri merkingu að fornu – sem er þó algengasta merking orðsins í nútímamáli.

Þegar komið er fram á 17. öld má þó finna dæmi um bæði orðin í báðum merkingum. Á seinni hluta 19. aldar virðast orðin vera alger samheiti, og eru álíka algeng ef marka má tímarit.is. Upp úr aldamótunum 1900 fer að draga í sundur með orðunum – uppreisn verður sífellt algengari mynd en uppreist sjaldgæfari. Dæmum um uppreist fækkar sérstaklega eftir 1960, og á tímabilinu frá 1980 til dagsins í dag eru 100 sinnum fleiri dæmi um uppreisn en um uppreist á tímarit.is. Lengst af hafa bæði orðin báðar merkingarnar, en síðasta aldarfjórðunginn eða svo kemur uppreist þó nær eingöngu fyrir í sambandinu uppreist æru.

Vegna þess að myndin uppreist er nær horfin úr málinu er eðlilegt að fólk hvái þegar það heyrir hana og haldi jafnvel að um villu sé að ræða. Sumir hafa líka gert því skóna að á orðunum uppreist og uppreisn sé merkingarmunur – það fyrrnefnda merki ‘endurreisn’ en það síðarnefnda ‘upprisa gegn valdi’. Slík aðgreining styðst þó ekki við neina hefð, eins og áður segir, og þótt visulega megi segja að uppreist hafi glatað merkingunni ‘upprisa gegn valdi’ á allra síðustu árum lifa báðar merkingar góðu lífi í uppreisn.

Þegar hugtakið „uppreist æru“ kom inn í lagamálið voru báðar myndirnar uppreist og uppreisn algengar í málinu og höfðu sömu merkingu. Ekki er hægt að fullyrða neitt um það hvers vegna myndin uppreist var notuð í þessu sambandi í lagamálinu í upphafi – ef til vill hefur það verið alger tilviljun. Hins vegar er alþekkt að lagamál er íhaldssamt og þess vegna eðlilegt að uppreist haldist þar í þessu sambandi þótt sú mynd verði undir í almennu máli.

En í almennu máli er langoftast talað um uppreisn æru – dæmin um það samband á tímarit.is eru 20 sinnum fleiri en dæmin um uppreist æru. Þótt myndin uppreisn sé ekki notuð í texta laganna er hún stundum notuð í lagamáli, til dæmis finnast dæmi um hana bæði í héraðsdómum og hæstaréttardómum. Það verður því ekki séð að neitt sé athugavert við það að tala um uppreisn æru í stað uppreist æru, ef menn kjósa svo, enda hefði fyrrnefnda myndin rétt eins getað ratað inn í lagatexta á sínum tíma.

Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?

Við sem eigum íslensku að móðurmáli erum ekki í vandræðum með að þekkja hana þegar við heyrum hana talaða eða sjáum hana á prenti, en málið vandast ef við eigum að skilgreina tunguna. Fram á síðustu öld hefði dugað að segja: „Íslenska er það tungumál sem er talað á Íslandi“, því að tæpast voru önnur tungumál töluð í landinu nema hjá fáeinum dönskum kaupmönnum og embættismönnum.

Nú eru aðstæður gerbreyttar og fjölmörg tungumál töluð á Íslandi, þótt íslenska sé vitaskuld ennþá móðurmál yfirgnæfandi meirihluta íbúanna. Ef skilgreining af þessu tagi er notuð verður því að minnsta kosti að breyta orðalaginu og segja: „Íslenska er það tungumál sem langflestir íbúar Íslands eiga að móðurmáli“. (Athugið að hér er sagt „íbúar Íslands“ en ekki „Íslendingar“, vegna þess að skilgreining þess hver sé Íslendingur er ekki síður snúin en skilgreining tungumálsins.)

Það má líka hugsa sér að skilgreina íslensku út frá ákveðnum formseinkennum í hljóðafari, beygingum og setningagerð. Til dæmis má segja að íslenska sé tungumál þar sem tiltekin málhljóð eru notuð (og telja þau upp) og tilteknar reglur gilda um það hvernig þau geta raðast saman; þar sem fallorð hafa þrjú kyn, tvær tölur og fjögur föll, og sagnir beygjast í persónum tölum, tíðum og háttum; þar sem sögn í persónuhætti er yfirleitt ekki aftar en annar liður í setningu; og svo framvegis. Hvert þessara atriða um sig getur átt við fleiri mál en íslensku, en þegar þau koma öll saman fáum við lýsingu sem fellur væntanlega ekki að neinu öðru máli. En skilgreining af þessu tagi er flókin og vandmeðfarin.

Væntanlega liggur þó beinast við skilgreina íslensku út frá uppruna, segja að hún sé indóevrópskt mál, nánar til tekið norðurgermanskt, og enn nánar vesturnorrænt. Það er svo álitamál hvenær íslenska hafi orðið til. Tæpast er hægt að segja að það hafi verið þegar við landnám – eðlilegra er að segja að íslenska verði til sem sérstakt tungumál þegar einhver tiltekinn munur er orðinn á því máli sem talað er á Íslandi og málinu í Noregi.

Það er hins vegar útilokað að tímasetja tilurð íslensku – í þessum skilningi – nákvæmlega. Bæði skortir okkur heimildir um það hversu mikill munurinn var á hverjum tíma, og eins er skilgreiningaratriði hversu mikill hann þarf að vera til að réttlætanlegt sé að tala um íslensku sem sérstakt tungumál – frekar en sem norska mállýsku. Munurinn á máli og mállýsku er raunar sérstakt viðfangsefni sem ekki verður leyst á einfaldan hátt.

Skilgreining tungumáls er að einhverju leyti háð tíma og ytri aðstæðum. Hvað ef íslenskan breytist verulega í framtíðinni? Hættir hún þá að vera íslenska? Fyrir rúmum 40 árum fór ég á fyrirlestur sem Jón Helgason prófessor flutti í Háskóla Íslands – fyrirlesturinn var kynntur þannig að Jón spjallaði um það sem honum dytti í hug. Þá nefndi hann að nú stefndi í það að íslenska hyrfi af landinu og bara yrði eftir reykvíska – sem væri gott, því að þá hefði viðfangsefni hans bæði upphaf og endi.

Þetta var auðvitað sagt í hálfkæringi eins og Jóns var von og vísa, en spurningin er samt gild. Íslenska nútímans er talsvert frábrugðin íslensku Sturlungaaldar á ýmsan hátt – hljóðkerfið er gerbreytt, fjöldi nafnorða hefur breytt um beygingarflokk og beygingarflokkar runnið saman, talsverðar breytingar hafa orðið á sagnendingum, ýmislegt í setningagerð hefur breyst, og merking margra orða er nú önnur en hún var – en við erum þó ekki í vafa um að þetta sé sama tungumálið.

Enska er enn skilgreind sem vesturgermanskt mál, enda þótt hún hafi tekið upp aragrúa orða og orðstofna af rómönskum toga (úr latínu og frönsku). Sú enska sem töluð var fyrir þúsund árum er að flestu leyti ólík enskunni nú á dögum – hljóðafar, beygingar, setningagerð og orðaforði hefur gerbreyst, og enginn enskumælandi maður getur lesið þúsund ára gamla enska texta án verulegs náms og þjálfunar. En málið er samt enn kallað enska.

Það sem skiptir hér meginmáli er óslitin söguleg þróun. Á nokkrum öldum eða heilu árþúsundi getur innri gerð tungumáls gerbreyst, og sömuleiðis ytri aðstæður þess. En breytingarnar gerast ekki eins og hendi sé veifað – sáralítil breyting verður frá ári til árs, en þegar litið er til áratuga og alda eru breytingarnar augljósar. Út frá þessu má spyrja: Hvaða tungumál verður talað á Íslandi eftir hundrað ár? Því er vitaskuld ógerlegt að svara með nokkurri vissu. Það verður örugglega talsvert frábrugðið því máli sem við tölum nú.

En ef þróunin verður óslitin næstu öld verður þetta örugglega íslenska. Hún kann að hafa tekið upp mikinn fjölda enskra orða, hún kann að hafa misst eitthvað af beygingum, setningagerðin kann að hafa tekið breytingum, og það kann að vera að þeir sem þá verða ungir eigi í erfiðleikum með að lesa það sem við skrifum nú – en það verður samt engin ástæða til að kalla þetta neitt annað en íslensku. Öðru máli gegnir ef þjóðin tæki sig saman um það einhvern daginn að skipta um tungumál og fara til dæmis að tala ensku. Þá væri ekki lengur um óslitna þróun að ræða.

Hugsanleg skilgreining á íslensku væri því á þessa leið: Indóevrópskt (vesturnorrænt) tungumál, beygingamál sem hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál, aðaltungumálið og opinbert tungumál á Íslandi og móðurmál meginhluta íbúa landsins.

Hvaða leiðir eru færar til að tala betri íslensku?

Fyrir nokkrum árum var ég beðinn að svara þessari spurningu fyrir Vísindavefinn. Henni er erfitt að svara á mjög vísindalegan hátt. Það liggur ekki fyrir nein ótvíræð skilgreining á því hvað sé góð íslenska, og jafnvel þótt svo væri skortir rannsóknir á því hvernig sé best að bera sig að til að ná betra valdi á henni. Þetta svar byggist því einkum á viðteknum hugmyndum og mati þess sem svarar.

En við getum byrjað á að reyna að skilgreina hvað sé góð íslenska. Því er yfirleitt svarað svo að það sé mál sem sé í samræmi við íslenska málstefnu og þann málstaðal sem miðað er við í íslensku málsamfélagi. Sá staðall er reyndar hvergi skráður í heild en að talsverðu leyti má styðjast við ýmis hjálpargögn eins og Handbók um íslensku og Málfarsbanka Árnastofnunar.

Í stuttu máli má segja að miðað sé við að málið sé notað í samræmi við hefð – í beygingum, setningagerð, orðavali og merkingu orða, notkun orðtaka og fastra orðasambanda, og fleira. En þetta er ekki nóg. Þótt fólk tali kórrétt mál miðað við málstaðalinn er það ekki trygging fyrir því að um góða íslensku sé að ræða. Eftir sem áður getur stíllinn verið kauðslegur, orðalag uppskrúfað eða flatneskjulegt, málsnið óviðeigandi og svo framvegis.

Þótt oft sé vísað til fornmálsins sem fyrirmyndar fer því fjarri að það sé eina viðmiðið. Ýmislegt hefur breyst frá forníslensku til nútímamál – sum fornmálsorð eru nú alveg horfin en önnur hafa breytt um merkingu, beyging margra orða hefur breyst, og sumar setningagerðir horfið. Vissulega getur farið vel á því að bregða fyrir sig gömlum orðum og orðasamböndum sem nú heyrast sjaldan, en hætta er á að úr því verði stílbrot.

Eitt af því sem máli skiptir til að um gott mál sé að ræða er að málsnið sé við hæfi. Það sem er gott mál við ákveðnar aðstæður þarf ekki að vera það við aðrar aðstæður. Til dæmis má benda á að þótt yfirleitt sé talið æskilegt að forðast erlend orð og slangur í góðu máli geta slík orð stundum átt við; „Ekkert orð er skrípi ef það stendur á réttum stað“ skrifaði Halldór Laxness.

Þeim sem spyrja hvernig eigi að tala betri íslensku er venjulega bent á að lesa sem mest, og lestur er mikilvægur á margan hátt. Af lestri lærir fólk ný orð og orðasambönd og hvernig eigi að nota þau, áttar sig á ýmsum merkingarblæbrigðum orða og orðasambanda sem það þekkir fyrir, og fær tilfinningu fyrir málsniði – hvað á saman, hvað tilheyrir hverri stíltegund, hvað á við í tilteknum aðstæðum.

Vissulega er mest að græða á textum æfðra höfunda sem skrifa af öryggi, en til að fá góða tilfinningu fyrir málsniði og stíl er mikilvægt er að textarnir séu af ýmsu tagi – skáldverk, frásagnir, fræðibækur, blaðagreinar og fleira. Til að læra sem mest af lestrinum er mikilvægt að lesa ekki of hratt, heldur íhuga hvert orð og hverja málsgrein.

Það er líka bráðnauðsynlegt að nota hvers kyns hjálpargögn, bæði prentuð og rafræn. Málfarsbankinn sem vísað er til hér að framan er hluti af Málið.is en þar er hægt að leita í einu í ýmsum gagnasöfnum – auk Málfarsbankans Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Stafsetningarorðabókinni, Íslenskri nútímamálsorðabók, Íslensku orðaneti og Íðorðabankanum. Einnig er Snara, en að henni þarf að kaupa aðgang.

Mikilvægast er að þó að hugsa um málið, taka eftir því hvernig það er notað bæði í tali og riti, velta fyrir sér mismunandi málnotkun, vega hana og meta. Hvað finnst okkur gott mál, og hvers vegna? Þótt vel sé hægt að læra að tala og rita gott mál er tæpast hægt að kenna það – það lærist fyrst og fremst af reynslunni.

Málið og fullveldið

Tungumálið skapar sérstakan menningarheim sem bæði bægir frá áhrifum annarra menningar­heima og torveldar aðgang okkar að öðrum menn­ingar­heimum. En á síðustu árum hafa vissulega orðið gífurlegar þjóðfélagsbreytingar sem gætu stuðlað að því að rýra menningarlegt fullveldi landsins. Þau áhrif koma í gegnum þá menningu og menningarheima sem fólk kemst nú í nánari snertingu við en áður, en áhrifin á tungumálið gætu þó reynst afdrifarík­ust.

Land, þjóð og tunga hefur lengi verið órjúfanleg þrenning í huga margra Íslend­inga. Það er lítill vafi á því að sérstakt tungumál var frumforsenda þess að Íslend­ingar litu á sig sem sérstaka þjóð og kröfðust sjálfstæðis á 19. öldinni. Spurn­ingin er hins vegar hvort þetta hafi breyst eða sé að breytast. Er tungumálið orðið veigaminni þáttur en áður í sjálfsmynd Íslendinga? Guðmundur Hálf­danarson prófessor hefur t.d. haldið því fram að „náttúran sé að taka við af tungumálinu og menningunni sem helsta viðmið íslenskrar þjóðernisstefnu – eða mikilvægasta tákn þess sem gerir okkur að Íslendingum og greinir okkur frá öðrum þjóðum“.

Um þetta er vissulega ágreiningur, en hvað sem því líður virðist unga kynslóðin ekki líta á tungumálið sem jafnmikilvægan þátt í sjálfsmynd sinni og þau sem eldri eru. Skilgreiningin á menningarlegu fullveldi er vissulega ekki á hreinu og því er erfitt að segja hvenær og hvernig það gæti glatast. Þótt svo færi að Íslendingar legðu íslensku af, eða hún yrði ekki nothæf nema á afmörkuðum sviðum, þarf það ekki að leiða sjálfkrafa til þess að menn­ingarlegt fullveldi glatist. Ég geri t.d. ráð fyrir að Írar telji sig menningarlega fullvalda þjóð þótt flestir þeirra noti ensku í öllu daglegu lífi.

Vitanlega felst menningarlegt fullveldi ekki í ein­angrunarstefnu og það er út af fyrir sig ekki sjálfgefið að það drægi úr menningar­starfsemi og nýsköpun á sviði menningar þótt hér væri töluð enska í stað íslensku. Þannig segir Kristján Árnason prófessor, í andsvari við hugmyndum Guðmundar Hálfdanar­sonar sem nefndar voru hér áður: „Íslensk menning hefur notað íslensku en það væri vel hugsanlegt – þó ég sé ekki að mæla með því – að íslensk menning notaði annað tungumál en menningin yrði þá að sjálfsögðu eitthvað öðruvísi en sú sem við höfum haft.“

En íslensk menning á ensku yrði síður aðgreind frá menningu annarra þjóða, og vegna þess hve samfélagið er fámennt eru líkur á að það yrði aðallega þiggjandi á sviði menningar, ef þeirri vörn sem tungumálið veitir yrði kippt brott. Það er nefnilega hreint ekki sjálfgefið að 350 þúsund manna þjóð eigi sér sjálfstætt tungumál sem sé notað á öllum sviðum þjóðlífsins, og ýmislegt bendir til þess að ýmsar samfélags- og tækni­breytingar síðustu 5-10 ára valdi því að íslenskan gæti átt undir högg að sækja á næstu árum og áratugum.

Við því þarf að bregðast, því að þrátt fyrir alþjóðavæðingu og tækniframfarir er íslenskan enn óendanlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, og fyrir einstaklingana sem eiga hana að móður­máli. Fyrir því eru fleiri ástæður en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.

Menningarlegt fullveldi

Þegar Ísland fékk full­veldi 1918 má segja að hlutverki íslensk­unnar í sjálfstæðis­baráttunni hafi lokið – og þó. Það er nefnilega til annars konar fullveldi en það stjórnarfarslega fullveldi sem við öðluðumst fyrir einni öld. Það er menningarlegt fullveldi, sem virðist fyrst nefnt á prenti í grein sem birtist í fréttablaðinu Skildi í Vest­mannaeyjum á fimm ára afmæli fullveldisins, 1. desember 1923, en þar segir: „Mörg þjóð hefir orðið að fórna blóði sinna bestu sona til þess að öðlast stjórnarfarslegt fullveldi. Svo mikils virði hefir það verið þeim. Þó er andlegt menningarlegt fullveldi engu minna virði.“

Á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar var oft talað um menningarlegt fullveldi, ekki síst í tengslum við Kanasjónvarpið svokallaða. Því var haldið fram að út­sendingar þess út fyrir herstöðina væru brot á íslenskri menningarhelgi og ógnuðu menningarlegu fullveldi Íslands. En menningarlegt fullveldi er vandmeðfarið hugtak vegna þess að skilgreining þess er ekki skýr – enn óskýrari en skilgreining stjórnarfarslegs fullveldis. Það er þó ljóst að flestir sem nota hugtakið telja tungumálið eitt það helsta sem þar þurfi að huga að.

Í bæklingnum Íslenzk menningarhelgi sem Þórhallur Vilmundarson prófessor samdi 1964 leggur hann áherslu á nauðsyn þess „að standa trúan vörð um tungu okkar og önnur arftekin þjóðarverðmæti, sem greina okkur frá öðrum þjóðum og ein veita okkur sjálfstætt, jákvætt gildi í samfélagi þjóðanna“ og gæta þannig íslenskrar menningarhelgi. „[…] íslenzk tunga og þjóðleg menningarverðmæti eru einangrunarfyrirbæri í þeim skiln­ingi, að þau væru ekki til, ef þjóðin hefði ekki fengið að lifa lífi sínu í þessu landi án þess að verða fyrir of stríðum erlendum áhrifum“, segir Þórhallur.

Á síðustu árum hefur umræðan um menningarlegt fullveldi risið aftur og nú í tengslum við stjórnarfarslegt fullveldi, ekki síst umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusam­band­inu. Lítill vafi er á því að aðild að ESB hefði í för með sér nokkurt framsal fullveldis, en spurn­ingin er hvort og þá að hvaða marki slík full­veldis­skerðing hefði áhrif á íslenska tungu og stöðu hennar – bæði réttar­stöðu og stöðu í samfélaginu og gagnvart öðrum tungum. Frá stofnun árið 1957 hefur Evrópusambandið lagt áherslu á að virða þjóðtungur sam­bands­ríkj­anna.

Þegar ný ríki hafa verið tekin inn í sambandið hafa opinber mál þeirra jafnframt orðið opin­ber mál sambandsins. Þótt Íslendingar tækju á sig einhverja skerðingu á stjórnarfarslegu fullveldi við inngöngu í Evrópusambandið yrði það síst til þess að veikja stöðu íslenskunnar – þvert á móti má færa að því rök að staða tungunnar myndi styrkjast við aðild. Slíkt hefur t.d. gerst með írsku, sem fékk stöðu opinbers tungumáls innan ESB árið 2007. Ekki eru miklar líkur á að Ísland afsali sér stjórnarfarslegu fullveldi í hendur Evrópusambandsins á næstunni, en framtíð menningarlegs fullveldis landsins er meira vafamál. Þar er tungumálið lykilatriði.

Málið og sjálfstæðisbaráttan

Það hefur lengi verið viðtekin skoðun að íslenskan sé helsta réttlæting og forsenda fullveldis Íslands. Alkunna er að tungan lék eitt aðalhlutverkið í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Allt frá upphafi baráttunnar á 19. öld var áhersla lögð á tungumálið og mikilvægi þess fyrir íslenskt þjóðerni og þjóðarvitund. Iðulega var sett samasemmerki milli hnign­unar tungumálsins og dvínandi þjóðerniskenndar. Hnignun tungumálsins var einnig tengd við afturför á öðrum sviðum. Á seinni hluta 19. aldar var verið að draga skarpari landamæri en áður víða um Evrópu og þjóð­ríki í nútímaskilningi voru að verða til. Víða lentu þá innan sama ríkis hópar og þjóðar­brot sem töluðu mismunandi tungumál.

Til að tryggja einingu ríkisins lögðu stjórnvöld iðu­lega áherslu á eitt ríkismál, og bönnuðu jafnvel notkun annarra tungumála innan ríkisins. Það gerðu Danir hins vegar ekki á Íslandi. Því var það að þótt áhersla væri lögð á endurreisn tungunnar og hreinsun af dönskum áhrifum í tengslum við eflingu þjóðerniskenndar og baráttu fyrir auknum réttindum Íslend­inga á 19. öld var sú bar­átta fyrst og fremst háð innanlands en ekki við dönsk stjórn­völd. Öfugt við marga aðra minnihlutahópa innan ríkja þurftu Íslendingar ekki að berjast sérstaklega fyrir því að fá að nota móðurmál sitt á flestum sviðum. Tungan var hins vegar sameiningartákn, réttlæting Íslend­inga fyrir sérstöðu sinni og ekki síst notuð til að leiða Íslendingum sjálfum fyrir sjónir hver sú sérstaða væri. Víða í Evrópu var tungan vígvöllur baráttunnar – á Íslandi var hún vopnið.

Stjórnarskrá Íslands kveður ekki á um opinbera stöðu íslensku, þótt hugmyndir um slíkt hafi nokkrum sinnum komið fram, t.d. í skýrslu stjórnlaganefndar frá 2011. Með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 fékk íslensk tunga þó stöðu sem opinbert tungumál á Íslandi. Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland sumarið 2011 er ekkert ákvæði um þjóðtungu en nefnt í skýringum að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum stjórnarskrárinnar. E.t.v. má ætla að ráðið hafi talið að slíkt ákvæði gæti orðið grundvöllur einhvers konar mis­mununar, nú á tímum alþjóðavæðingar og fjölmenningarlegra samfélags en áður. En tillaga um bæta ákvæði um íslenska tungu í stjórnarskrá hefur nú verið lögð fram.

Marxísk sjálfsgagnrýni

Kringum 1980 umgekkst ég töluvert fólk úr ýmsum kommúnistasamtökum sem blómstruðu á Íslandi um það leyti, einkum KSML og EIKml. Þótt ég gengi aldrei í nein þessara samtaka fór ekki hjá því að ég fengi nasasjón af ýmsu í starfsháttum þeirra. Meðal þess sem okkur sem utan stóðu þótti sérkennilegast – og fyndnast – var hin eilífa sjálfsgagnrýni sem félagarnir stunduðu. Hún náði hámarki þegar tveir vinir mínir skiptu um lið, fóru úr KSML í EIKml, og skrifuðu af því tilefni 18 blaðsíðna sjálfsgagnrýni sem var dreift meðal félaga. Þetta veit ég vegna þess að plaggið var vélritað á stensla og síðan fjölritað (á þessum tíma var ljósritun munaður sem námsmenn gátu vart leyft sér) – og þeir fengu mig til að vélrita það af því að ég átti rafmagnsritvél (og var betri í vélritun).

Síðan þetta var hef ég haft lítil kynni af sjálfsgagnrýni þótt örugglega mætti segja að ég hefði mátt stunda hana meira. En nú er komið að því. Mér urðu á tvenn slæm mistök í Facebook-hópnum Málspjall í gær sem ég þarf að biðjast afsökunar á. Þar var sett inn spurningin „Hvað finnst málfróðum um notkun á sögninni að ávarpa“ í samhenginu „ávarpaði […] þær hugmyndir“. Nú tek ég fram að ég er alls ekki að áfellast fyrirspyrjanda. Það er ekkert augljóst að þessi fyrirspurn brjóti reglur hópsins um jákvæða og málefnalega umræðu, og í lýsingu hópsins er hvatt til spurninga „um málfarsleg atriði sem verða á vegi fólks“. Áþekkar fyrirspurnir hafa líka nokkrum sinnum verið settar inn, og þeim verið svarað.

Hins vegar sýnir reynslan að spurningar af þessu tagi kalla iðulega fram hneykslun og fordæmingu sem ekki er í anda hópsins. Þess vegna hefði ég átt að eyða færslunni og skrifa fyrirspyrjanda og biðja hann að orða spurninguna öðruvísi – spyrja t.d. frekar um aldur og útbreiðslu þessa orðalags en hvað lesendum fyndist um það. En það gerði ég ekki, heldur datt í þann pytt að fordæma orðalagið og segja: „Þetta er orðið nokkuð algengt og fer skelfilega í taugarnar á mér, af því að mér finnst þetta sýna bæði skort á málkunnáttu og skort á gagnrýninni hugsun.“ Það er vissulega alveg rétt að þetta fer í taugarnar á mér, en það afsakar ekki framhaldið. Það er skýrt brot á þeirri umræðuhefð sem ég hef boðað og vil að hér sé fylgt, og ég bið ykkur öll afsökunar á því.

Sem betur fer kom blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina sem fyrirspurnin spratt af inn í umræðuna og sagði: „Það kom mér á óvart að sjá þessa umræðu þar sem ég hélt að það væri alveg eðlilegt að nota sögnina með þessum hætti. Greinilega orðið ansi algengt víða í kringum mig.“ Þegar ég las þetta fór ég að hugsa málið betur og áttaði mig á því að þarna væri kannski ekki um að ræða hráa enskuþýðingu sem bæri vott um hroðvirkni og hugsunarleysi, heldur hefði sögnin ávarpa einfaldlega þessa merkingu í máli margra. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég hef iðulega heyrt þessa notkun hjá harðfullorðnu fólki, t.d. stjórnmálamönnum sem örugglega vilja tala gott mál.

En í stað þess að hneykslast hefði ég mátt muna eftir pistli sem ég skrifaði í fyrra um það þegar fólk „hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna“. Blaðamaðurinn sem skrifaði umræddan texta sagði líka í umræðunni í gær: „Hvet ykkur öll til þess að senda blaðamönnum tölvupóst ef þið rekið augun í svona villur.“ Ég hef líka hvatt til þess, og stundum gert það. Haldið endilega áfram að spyrja um málfar hér í hópnum – til þess er hann. En ekki spyrja hvað fólki finnist um tiltekin atriði.