Posted on Færðu inn athugasemd

Þykkvbæingar

Ég sá nýlega orðið Þykkvbæingur notað nokkrum sinnum í frétt á vefmiðli. Það lék enginn vafi á merkingunni – það var verið að tala um íbúa í Þykkvabæ. En þessi orðmynd kom mér samt svolítið á óvart – ég hefði hiklaust notað myndina Þykkbæingur, án v. Þegar ég fór að skoða þetta á tímarit.is kom í ljós að báðar myndirnar er þar að finna, en v-lausa myndin er þó nokkrum áratugum eldri og hátt í fjórum sinnum algengari en hin. En eru báðar þessar myndir góðar og gildar?

Ég skrifaði nýlega pistil um viðskeytið -ingur og benti á að oftast gerir það þá kröfu að orðið sem það tengist sé stytt niður í tvö atkvæði. Þannig verður Reykjavík + ingur ekki *Reykjavíkingur, heldur Reykvíkingur; Hafnarfjörður + ingur verður ekki *Hafnarfjörðingur, heldur Hafnfirðingur; Bolungarvík + ingur verður ekki *Bolungarvíkingur, heldur Bolvíkingur; Sauðárkrókur + ingur verður ekki *Sauðárkrókingur, heldur Sauðkrækingur; og svo mætti lengi telja. En yfirleitt er grunnorðið klippt sundur á orðhlutaskilum og ef slík skil eru ekki fyrir hendi er krafan um tvö atkvæði stundum brotin, eins og í Ólafsfirð-ingur, Jökuldæl-ingur o.fl.

Báðar myndirnar, Þykkbæingur og Þykkvbæingur, falla að þessari meginreglu – bæði Þykk og Þykkv eru eitt atkvæði. Það má líka færa rök fyrir því að klippa orðið hvort heldur er á undan eða eftir v-inu. Orðið þykkur er svonefndur wa-stofn sem merkir að v var viðskeyti sem var hluti stofnsins en féll þó brott við ákveðnar hljóðfræðilegar aðstæður. Nefnifall veikrar beygingar í karlkyni var þykkvi og því heitir sveitin Þykkvibær. Nú hefur beygingin breyst þannig að v er alveg horfið úr henni – við segjum hinn þykki, ekki hinn þykkvi. Eldri beygingin helst þó í heitinu Þykkvibær eins og algengt er.

Það eru skil á undan v í þykk-v-i vegna þess að v er viðskeyti, og það eru líka skil á undan i vegna þess að i er beygingarending. Þess vegna má færa rök fyrir því að klippa grunnorðið á hvorum staðnum sem er eins og áður segir. En í fornu máli féll v brott í beygingu orðsins þykkr á undan u og einnig á undan samhljóðum og í enda orðs. Sterka beygingin í eintölu var þannig þykkrþykkvanþykkumþykks í karlkyni en þykkþykkva þykkriþykkrar í kvenkyni. Vegna þess að næsti orðhluti, , hefst á samhljóði, ætti v því að falla brott samkvæmt þessum reglum. Þykkvbæingur er í raun hliðstætt við að sagt væri *Reykjvíkingur.

Þýðir það að Þykkbæingur sé rétt mynd en Þykkvbæingur röng? Ekki endilega. Í fyrsta lagi er reglan um það hvenær v fellur brott og hvenær það fær að standa ekki lengur lifandi í máltilfinningu okkar. Vegna þess að v er horfið úr öllum beygingarmyndum orðsins þykkur er alveg hugsanlegt að málnotendur – sumir hverjir a.m.k. – skynji engin orðhlutaskil á undan v í Þykkvi. Sé svo er myndin Þykkvbæingur sú sem við er að búast. Í öðru lagi skiptir hefðin auðvitað máli. Þótt Þykkbæingur sé mun algengari mynd eins og áður segir er enginn vafi á því að myndin Þykkvbæingur hefur verið töluvert notuð áratugum saman. Báðar myndirnar hljóta að teljast réttar.

En auk þessara tveggja mynda er myndin Þykkvabæingur einnig til, þótt hún sé sjaldgæfari en hinar samkvæmt tímarit.is. Þar er brotin meginreglan um að á undan -ingur komi aðeins tvö atkvæði – Þykkvabæ- er þrjú. Sú regla á sér reyndar ýmsar undantekningar eins og áður segir en þær virðast helst koma fram þegar málnotendur skynja engin orðhlutaskil milli annars og þriðja atkvæðis. Vegna þess að v er alveg horfið úr beygingu lýsingarorðsins þykkur er hugsanlegt að málnotendur skynji þykkva- sem eina heild frekar en sem beygingarmynd af þykkur. Einnig er hugsanlegt að málnotendum finnist hinar myndirnar tvær óheppilegar – Þykkvbæingur af hljóðfræðilegum ástæðum og Þykkbæingur vegna þess að með brottfalli v verði tengslin við Þykkvabæ ekki nógu ljós.

Posted on Færðu inn athugasemd

skíra og vígja

Iðulega er bent á að grunnmerking sagnanna skíra og vígja sé kristileg – skíra merki 'gefa (e-m) nafn með kristilegri athöfn' og vígja merki 'lýsa trúarlega helgi yfir (e-ð) með vígsluathöfn' svo að vitnað sé í Íslenska nútímamálsorðabók. Það er hins vegar algengt að sagnirnar séu notaðar um veraldlegar athafnir og talað um að skíra skip, skíra hús, vígja brú, vígja hús o.s.frv., án þess að nokkur kirkjunnar maður komi þar nálægt eða um nokkra helgiathöfn sé að ræða. Íslensk nútímamálsorðabók gefur reyndar einnig merkinguna 'taka (e-ð) í notkun í fyrsta sinn' fyrir vígja, og Íslensk orðabók nefnir merkinguna 'gefa nafn' í skíra en tekur fram að hún sé óformleg.

Þessi notkun sagnanna er ekki ný – það hefur tíðkast a.m.k. síðan á seinni hluta 19. aldar að skíra skip og vígja brýr. Það er í sjálfu sér mjög skiljanlegt að merkingin hnikist til á þennan hátt. Nafngjöf er órjúfanlegur þáttur skírnarinnar og eðlilegt að mörgum finnist hún vera aðalþátturinn – hin augljósa breyting sem verður við skírnina er að barnið er komið með nafn. Sömuleiðis er eðlilegt að fólki finnist kynningin á einhverju nýju mannvirki vera aðalatriðið í vígslunni, fremur en að verið sé að helga mannvirkið. En það er reyndar ekki alltaf augljóst hvaða sögn ætti að nota í stað vígja.

Þegar um er að ræða hagnýtt mannvirki – brú, veg, jarðgöng, hús – má oft tala um að opna eða taka í notkun. Listaverk er oft hægt að afhjúpa – en ekki alltaf ef um útilistaverk er að ræða. Þegar hinn stórmerki grjóther Sigurðar Hansen á Haugsnesgrundum í Skagafirði var kynntur lenti ég í miklum vanda með að finna sögn sem ætti við. Það var ekki hægt að segja að grjótherinn yrði opnaður, því að hann var aldrei lokaður; ekki hægt að segja að hann yrði tekinn í notkun, því að hann er ekki notaður í venjulegum skilningi; ekki hægt að segja að hann yrði afhjúpaður, því að hann hafði aldrei verið hulinn; og ekki mátti segja að hann yrði vígður, því að ekki var um neina helgiathöfn að ræða.

Það eru ekki síst kirkjunnar menn sem amast við þessari merkingarbreytingu sagnanna skíra og vígja, og vilja halda í einkarétt kirkjunnar á þessum sögnum. Í ljósi þess að kirkjan heldur því mjög á lofti hversu náin tengsl hennar séu við íslenska tungu fyndist mér eiginlega að hún ætti fremur að fagna því þegar orð sem eru upprunnin í kirkjulegu máli fá almennari merkingu. Þessi notkun sagnanna veldur engum misskilningi og hefur tíðkast svo lengi að það hlýtur að vera komin hefð á hana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Atviksorð á lausu

Í gær var spurt í Facebook-hópnum Málspjall hvort ætti að segja hvað skulda ég þér mikið? eða hversu mikið skulda ég þér? Ég svaraði því til að hvort tveggja væri rétt en það síðara væri formlegra, og ég myndi alltaf nota það fyrra í venjulegu tali. En út frá þessu fór ég að velta þessum setningagerðum svolítið fyrir mér. Þarna er spurnaratviksorð, hvað/hversu, sem stendur með lýsingarorði, mikið. Eitt af hlutverkum atviksorða er einmitt að standa með lýsingarorðum og ákvarða þau nánar. Því hlutverki gegna t.d. feitletruðu atviksorðin í setningunum hann er ferlega leiðinlegur; það er skelfilega ljótt að sjá þetta; þetta er hrikalega sætt barn.

En eitt af því sem er óvenjulegt í íslenskri setningagerð er að (sum) slík atviksorð er hægt að slíta frá lýsingarorðinu og láta þau standa fremst í setningunni í staðinn: ferlega er hann leiðinlegur; skelfilega er ljótt að sjá þetta; hrikalega er þetta sætt barn. Merkingin er sú sama, en e.t.v. er meiri áhersla á atviksorðinu þegar það stendur fremst. Þetta er útilokað að gera í skyldum málum s.s. dönsku og ensku; *forfærdelig er han kedelig og *terribly he is boring eru alvondar setningar. En reyndar gildir þetta ekki um öll atviksorð – það er miklu síðra eða jafnvel útilokað að segja *frekar er hann leiðinlegur, eða *dálítið er ljótt að sjá þetta, eða *mjög er þetta sætt barn.

Svipað er á ferðum í áðurnefndum setningum með hvað og hversu. Í hversu mikið skulda ég þér? stendur spurnaratviksorðið með lýsingarorðinu sem það á við, en í hvað skulda ég þér mikið? er það slitið frá því. Það er eins og hvað og hversu hafi þarna með sér ákveðna verkaskiptingu – það er vissulega hægt að segja hvað mikið skulda ég þér? en hversu skulda ég þér mikið? hljómar svolítið undarlega. Það má bera þetta saman við verkaskiptingu mjög og mikið í dæmum eins og mikið/*mjög held ég að þær séu góðar þar sem atviksorðið er slitið frá lýsingarorðinu og ég held að þær séu mjög/*mikið góðar þar sem það stendur með því.

Þetta vissi ég fyrir. En þegar ég fór að velta þessu fyrir mér í gær áttaði ég mig á því að það er ekki alltaf hægt að slíta hvað frá lýsingarorðinu á þennan hátt. Það er í góðu lagi að segja bæði hvað er hún gömul? og hversu gömul er hún?, hvað er hann stór? og hversu stór er hann? – en hins vegar er aðeins hægt að segja hversu góð er hún?, varla *hvað er hún góð?, og hversu leiðinlegt er þetta?, varla *hvað er þetta leiðinlegt? Í fljótu bragði sýnist mér að til þess að hægt sé að nota hvað og slíta það frá lýsingarorðinu þurfi að vera hægt að beita einhverjum hlutlægum mælikvarða á lýsingarorðið – árum, sentimetrum o.s.frv. Þetta gangi ekki ef lýsingarorðið felur í sér huglægt mat.

Þetta hafði ég aldrei hugsað út í áður og kannski er þetta bara misskilningur eða rugl í mér – en ég held samt ekki. Ég lagði setningarnar hérna að ofan fyrir konuna mína (án þess að segja eftir hverju ég væri að fiska) og spurði m.a. hvort væri hægt að segja hvað er hún góð? Hún velti þessu fyrir sér og sagði svo já – t.d. góð í íþróttum. En þar er einmitt hugsanlegt að beita hlutlægum mælikvarða á merkingu lýsingarorðins. Hugsið ykkur hvað tungumálið er undursamlegt – sama hvað maður pælir mikið og lengi í því, maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Samræmd próf

Í dag er haldið samræmt könnunarpróf í íslensku í 9. bekk, og af því tilefni fór ég að velta fyrir mér í hverju væri verið að prófa. Ég hef oft gagnrýnt samræmdu prófin harðlega fyrir ýmislegt, en alvarlegasta gagnrýnisatriðið er að þar var, a.m.k. til skamms tíma, lögð ofuráhersla á „rétt“ mál og „rangt“. Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta alvarlegt er að þarna er nemendum mismunað eftir málkennd – eftir því hvaða málfar þeir hafa tileinkað sér á máltökuskeiði og er inngróið í málkerfi þeirra.

Tungumál sem við tileinkum okkur á máltökuskeiði – móðurmál okkar – er hluti af okkur sjálfum, mikilvægur þáttur í sjálfsmynd okkar. Þess vegna er ótækt að innræta fólki, í skólum eða á öðrum vettvangi, að það mál sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Flokkun fólks eftir slíkum málfarsatriðum, t.d. á prófum, er engu betri en mismunun eftir kynferði, skoðunum, trú, kynhneigð o.s.frv. sem er bönnuð í 65. grein Stjórnarskrár. Að prófa í slíkum atriðum er alls ekki sambærilegt við að prófa í þekkingaratriðum sem nemendurnir læra í skólanum, svo sem orðflokkagreiningu – án þess að ég sé að mæla sérstaklega með prófum úr henni.

Nú veit ég auðvitað ekki í hverju var verið að prófa í dag – samræmd próf eru ekki lengur aðgengileg. Eina vísbendingin er kynningarpróf sem er að finna á vef Menntamálastofnunar. Ég skoðaði það og það olli mér miklum vonbrigðum. Af 19 spurningum í málnotkunarhluta prófsins snúast 8 átta – um „gott mál“, og „ekki gott mál“, þ.e. „rétt“ og „rangt“, og þar af kemur „þágufallssýki“ fyrir í fjórum spurningum og hvor annarég vill og „nýja þolmyndin“ í einni hvert. Það hefur verið sýnt fram á að „rétta“ málnotkunin í þessum atriðum er í ósamræmi við máltilfinningu verulegs hluta málnotenda og því ætti alls ekki að prófa í þessu að mínu mati.

Eins og áður segir er þetta kynningarpróf, og það er hugsanlegt að prófið sem lagt var fyrir í morgun sé allt öðruvísi – ég vona að svo sé. En sé svo er það líka mjög alvarlegt því að kynningarprófið hlýtur að vera ætlað til þess að gefa nemendum vísbendingu um það við hverju þeir megi búast, og á hvað þeir eigi að leggja áherslu í prófundirbúningnum. Ef verulegt ósamræmi er á milli áhersluatriða í kynningarprófinu og prófinu sjálfu er því verið að blekkja nemendur og leiða þá á villigötur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Klukkan er tvö

Þegar við tilgreinum tímasetningu notum við töluorð í hvorugkyni – segjum klukkan er eitt / tvö / þrjú / fjögur.  Við sem eigum íslensku að móðurmáli tökum yfirleitt ekki eftir því að þetta sé neitt skrítið en það veldur oft heilabrotum hjá þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál. Lýsingarorð og beygjanleg töluorð (einn, tveir, þrír, fjórir) sem standa sem sagnfyllingar sambeygjast venjulega frumlaginu í kyni og tölu – við segjum hrútarnir eru tveir, ærnar eru þrjár, lömbin eru fjögur. Vegna þess að klukka er kvenkynsorð mætti þess vegna búast við því að við segðum *klukkan er ein / tvær / þrjár / fjórar, en það er málleysa – það er rangt mál vegna þess að það er ekki málvenja nokkurs. En hvers vegna notum við ekki kvenkyn?

Þess hefur verið getið til að þetta megi skýra með því að þarna sé nafnorð fallið brott – þetta hafi upphaflega verið klukkan slær eitt / tvö högg / slög eða eitthvað slíkt. Einnig hafi komið til áhrif frá dönsku þar sem sagt er klokken er et (kynjamunur kemur ekki fram í öðrum töluorðum þar) og úr þessu hafi orðið klukkan er eitt / tvö o.s.frv. – þar er reyndar líka gert ráð fyrir því að uppruninn sé í klokken er slået et. Vissulega er hugsanlegt að dönsk áhrif spili þarna inn í, en sú skýring er samt óþörf og dugir heldur ekki til. Við notum líka hvorugkyn í klukkan er (orðin) margt þar sem brottfall nafnorðs kemur ekki til greina. Það sem hér skiptir máli er að við erum ekki að telja klukkur þegar við segjum hvað klukkan er, enda orðið klukka alltaf í eintölu.

Þegar við segjum klukkan er tvö erum við ekki að vísa til tiltekinnar klukku og töluorðið vísar því ekki til nafnorðsins klukka heldur til óhlutstæðra tímaeininga. Það sést m.a. á því að það er mjög óeðlilegt að segja ?klukkurnar eru tvö jafnvel þótt margar klukkur séu í kringum mann. Ef sagt er klukkurnar eru (allar) tvö er vísað til þess tíma sem klukkurnar sýna, ekki þess hvað klukkan er í raun og veru (þótt vitanlega megi búast við að þetta fari saman). Vegna þess að töluorðið vísar ekki til nafnorðsins klukka á það ekki að samræmast því í kyni og tölu – og getur ekki samræmst því. Töluorðið hefur þá ekkert nafnorð til að samræmast. Við slíkar aðstæður koma lýsingarorð, töluorð og óákveðin fornöfn fram í hlutlausu kyni, sem er hvorugkyn.

Við segjum margt fór úrskeiðis, sumt er óskiljanlegt, eitt er víst o.s.frv. Þarna er ástæðulaust að leita að einhverju hvorugkynsorði sem „vanti“ í setninguna til að skýra hvorugkynið. Sagnfylling getur bara samræmst nefnifallsfrumlagi og sagnfylling með aukafallsfrumlagi stendur því í hvorugkyni, óháð kyni frumlagsins – honum er kalt og henni er hlýtt. Sama máli gegnir þegar frumlagið er setning – setningar hafa ekkert kyn og því fáum við sagnfyllingu í hvorugkyni, Að þetta skyldi fara svona var leiðinlegt. Við segjum því klukkan er tvö vegna þess að það er eini möguleikinn – málkerfið leyfir ekkert annað. Töluorðið vísar ekki til frumlagsins, hefur þar með ekkert til að samræmast, og hlýtur að koma fram í hlutlausu kyni – hvorugkyni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Sviðsmyndir

Orðið sviðsmynd er ekki ýkja gamalt í málinu – elsta dæmi sem ég hef fundið um það er frá 1950. En það er áberandi í umræðunni um þessar mundir – svo áberandi að mörgum þykir nóg um og amast við því að talað sé um mismunandi sviðsmyndir í þróun covid-19, í efnahagsmálum, í framhaldi jarðhræringa, o.fl. Mér sýnist að þær athugasemdir sem fólk hefur við þetta orð séu einkum af fernum toga. Í fyrsta lagi að orðið sé ofnotað; í öðru lagi að til séu önnur og heppilegri orð til að ná þeirri merkingu sem um er að ræða; í þriðja lagi að sviðsmyndir eigi heima í leikhúsum en ekki utan þeirra; í fjórða lagi að um sé að ræða hráa yfirfærslu úr ensku; og í fimmta lagi að um sé að ræða misskilning á merkingu enska orðsins senario. Skoðum nú þessar athugasemdir aðeins.

Það er auðvitað smekksatriði hvort orðið sviðsmyndir er ofnotað. Enginn vafi er á því að notkun þess hefur stóraukist að undanförnu, en það stafar að verulegu leyti af aðstæðum í þjóðfélaginu. Það er svo mikil óvissa á mörgum sviðum að sérfræðingar eru sífellt að reyna að átta sig á hugsanlegum sviðsmyndum. Að þessu leyti má e.t.v. bera þetta saman við orðið sóttkví sem hefur margfaldast í tíðni – ekki vegna þess að það sé eitthvert tískuorð, heldur vegna þjóðfélagsaðstæðna. Munurinn er hins vegar sá að sóttkví á sér engan keppinaut, en í sumum tilvikum væri vissulega hægt að nota annað orð en sviðsmynd, og sjálfsagt að hafa það í huga.

Bent hefur verið á ýmis orð sem eru fyrir í málinu og mörgum finnst eðlilegra að nota en sviðsmynd til að tjá þá merkingu sem um er að ræða – orð eins og aðstæður, atburðarás, möguleikar, spálíkan, útkoma og eflaust fleiri. Vissulega kæmi til greina að nota einhver þessara orða í stað sviðsmyndar í sumum tilvikum, en merking þeirra á samt ekki alltaf við. Með spálíkani er t.d. yfirleitt átt við spá um ferli og atburðarás er lýsing á ferli, en sviðsmynd er heildstæð lýsing á stöðunni sem skapast á mismunandi stigum ferlisins eða að því loknu. Mér finnst sviðsmynd vera hentugt og lýsandi orð – það er verið að draga upp mynd af sviðinu. Orðið hefur verið notað í þessari merkingu undanfarin 20 ár og því unnið sér nokkra hefð.

Orðið sviðsmynd er vissulega komið úr leikhúsmáli, en þeim sem halda því fram að ekki eigi að nota það í öðru samhengi sést yfir að hvers kyns líkingar og myndhverfingar eru einn grundvallarþáttur tungumálsins – það úir og grúir af þeim allt í kringum okkur. Við tölum um fjallsöxl, vegaxlir og axlir á flösku; hamarshaus, haus á nagla og bréfhaus; háls í landslagi og flöskuháls; hjarta borgarinnar; lungu heimsins; og svo mætti lengi telja. Það er ekki heldur þannig að sviðsmynd sé eina orðið úr leikhúsmáli sem er notað í líkingum eða myndhverfingum – við segjum að eitthvað hafi gerst bak við tjöldin, að tjaldabaki eða fyrir opnum tjöldum. Ef við höfnum því að orð séu tekin úr bókstaflegri merkingu sinni og notuð í líkingum eða myndhverfingum erum við að amast við skapandi og frjórri málnotkun.

Það er vissulega rétt að umrædd notkun sviðsmyndar er hliðstæð notkun orðsins scenario í ensku og sennilega komin þaðan. En þess eru ótal dæmi að sömu líkingar og myndhverfingar komi fyrir í mörgum tungumálum. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Ef um skyld mál er að ræða getur líkingin átt rætur í sameiginlegri formóður málanna. Það er líka algengt að líkingar og myndhverfingar flytjist milli mála með þýðingum eins og væntanlega er í þessu tilviki. En svo geta líka sömu líkingar og myndhverfingar komið upp í mörgum tungumálum án þess að bein tengsl séu á milli, einfaldlega vegna þess að þær liggja beint við. Erlendur uppruni eða erlendar hliðstæður eru því ekki næg ástæða til að hafna líkingu eða myndhverfingu sem nýtir íslensk orð og samræmist íslenskum aðstæðum.

Því hefur verið haldið fram að notkun orðsins sviðsmynd í umræddri merkingu stafi af misskilningi á enska orðinu scenario sem hafi tvær merkingar í ensku – annars vegar 'sviðsetningarhandrit (óperu, kvikmyndar o.s.frv.)' og hins vegar 'framtíðarmynd (í spá), framtíðarsýn; möguleg atburðarás, ímyndaðar aðstæður'. Íslenska orðið sviðsmynd hafi hins vegar aðeins fyrri merkinguna. Það má vissulega til sanns vegar færa ef aðeins er tekið mið af orðabókarskýringum. En þegar að er gáð er seinni merkingin ekki gömul í ensku, heldur talin hafa bæst við um 1960. Íslenska orðið er því að bæta við sig nýrri merkingu á sama hátt og það enska hefur gert, og sú merkingaraukning virðist ekki vera ýkja mikið yngri en hjá enska orðinu – elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa notkun orðsins sviðsmynd er í þýðingu frá því um 1980.

Posted on Færðu inn athugasemd

-stst

Miðmynd sagna einkennist af endingunni -st sem kemur á eftir öðrum beygingarendingum, þ.e. endingum tíðar, háttar, persónu og tölu. Við segjum ég vonaði-st (til), þau vona-stvið vonuðum-stég hef vona-st, o.s.frv. Eins og sést á síðasta dæminu, lýsingarhættinum vonast, er það samt ekki alltaf þannig að miðmyndarendingin bætist við germyndina óbreytta. Lýsingarháttur þátíðar í germynd af vona er (ég hefvonað, en í miðmyndinni er hann vona-st, ekki *vonað-st – ð fellur sem sagt aftan af germyndarforminu. Og stundum er brottfallið mun meira. Lýsingarháttur þátíðar í miðmynd af mætakyssa og festa er (við höfummæ-st / kys-st / fe-st en ekki *mætt-st / *kysst-st / *fest-st.

Áður fyrr var bókstafurinn z notaður í stað s til að sýna brottfall ðd eða t í myndum af þessu tagi. Þannig var skrifað (ég hefvonazt (vonað+st) / birzt (birt+st) o.s.frv. En z var bara látin tákna brottfall á einu (einföldu) hljóði – ef um brottfall tveggja hljóða (langs hljóðs) var að ræða var það fyrra áfram táknað í stafsetningunni. Lýsingarháttur þátíðar af mæta, sem endar í germynd á -tt, (ég hefmætt, var því skrifaður (við höfummætzt (mætt+st). En bókstafurinn z var felldur brott úr íslensku ritmáli haustið 1973 með auglýsingu menntamálaráðuneytisins þar sem sagði: „Ekki skal rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (dðt) + s, þar sem tannhljóðið er fallið brott í eðlilegum, skýrum framburði.“

Þessi breyting varðaði eingöngu stafsetningu enda átti z sér enga stoð í framburði – myndir eins og vonazt og mætzt voru bornar fram nákvæmlega eins og vonast og mæst. En í miðmynd lýsingarhátta sagna eins og kyssa og festa var aldrei nein z – þeir voru skrifaðir (við höfumkysstst (kysst+st) / festst (fest+st). Þessu var hins vegar breytt líka í sömu auglýsingu – þar segir: „Ef lýsingarháttur þátíðar í germynd endar á -st eða -sst, skal miðmyndarendingu sleppt, t.d. (hefur) leyst (af leysast), (hefur) lýst (af lýsast), (hafa) kysst (af kyssast) o.s.frv.“ Væntanlega hefur nefndin sem lagði breytinguna til talið að -stst væri ekki borið fram og hafi einnig í þessu tilviki viljað færa stafsetninguna í átt til framburðar.

Í umræðu um miðmyndarsetningar eins og (bíllinn hefurfest og (þau hafa) kysst í  hópnum Málspjall á Facebook um daginn kom fram að sumum fannst eðlilegt að nota myndirnar festst og kysstst, og töldu sig gera það. Nú get ég vitanlega ekki fullyrt neitt um framburð tiltekins fólk og hef engan áhuga á því að stjórna málfari eins eða neins. En ég er samt ekki í nokkrum vafa um að venjulegur framburður þessara mynda er fest og kysst, enda eru klasar eins og -stst eru mjög erfiðir í framburði og hljóma oft óeðlilega ef fólk reynir að bera þá fram. Framburður eins og festst og kysstst er ofvöndun. Hins vegar er líklegt að þarna verði oft samlögun og borið sé fram langt s, þ.e. (bíllinn hefurfess og (þau hafakyss.

Sú röksemd var nefnd fyrir framburði eins og festst og kysstst að ef seinna -st væri sleppt glataðist miðmyndarmerkingin. En það er byggt á misskilningi. Mjög oft falla beygingarmyndir saman og merkingin ræðst þá af samhengi fremur en að hún glatist. Við getum tekið dæmi af sögn eins og hitta. Hún ætti að fá endinguna -ti í þátíð, en vegna þess að stofninn endar á -tt kemur þátíðarendingin ekki fram, heldur rennur saman við stofninn – hitt+ti > hitti. Það þýðir að þátíðin fellur saman við nútíðina hitt-i hitti – ég hitti hana í gær (þátíð), en ég hitti þig á morgun (nútíð). Það er samt engin ástæða til að segja að þátíðarmerkingu vanti í sögnina í ég hitti hana í gær – en við verðum að ráða hana af samhengi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska í stjórnarskrá

Nýlega skrifaði Haukur Logi Karlsson nýdoktor mjög áhugaverða grein um ákvæði um íslensku sem ríkismál í frumvarpi forsætisráðherra til breytinga á stjórnarskrá. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“

Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá 2011 var ekkert ákvæði um íslenska tungu, en þessi tillaga er nokkurn veginn samhljóða ákvæði sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði til að yrði bætt við nýju stjórnarskrána þegar tillögur Stjórnlagaráðs voru til meðferðar á Alþingi 2013. En í tillögum Stjórnlagaráðs var einnig að finna svohljóðandi ákvæði:

„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Nýja stjórnarskráin hefur ekki verið samþykkt eins og alkunna er, og ákvæði sem bannar mismunun á grundvelli tungumáls er hvorki að finna í gildandi stjórnarskrá né fyrirliggjandi tillögum um stjórnarskrárbreytingar. Greinarhöfundur telur að með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um íslensku sem ríkismál, án þess að jafnframt sé lagt bann við mismunun vegna tungumáls, sé farið út á vafasama braut.

„Til­lagan styrkir, með öðrum orð­um, stöðu hinna valda­miklu og veikir stöðu hinna valda­lausu í íslensku sam­fé­lagi. Frum­varpið er því heilt yfir lík­legt til þess að ná mark­miði sínu um efl­ingu íslenskunnar, en það mun að lík­indum verða á kostnað þeirra Íslendinga og ann­arra íbúa lands­ins sem hafa ekki full­komin tök á íslensku.“

Það er sannarlega mikilvægt að styrkja stöðu íslenskunnar á allan hátt, eins og markmiðið er með þessari tillögu. En það má ekki verða á kostnað fólks sem þegar stendur höllum fæti í samfélaginu. Mér finnst greinarhöfundur færa sterk rök fyrir þeirri afstöðu að „tillaga um að gera íslensku að stjórn­ar­skrár­bundnu rík­is­máli [sé] verri kostur en að halda óbreyttu ástandi og sömu­leiðis verri kostur en að taka upp tungu­mála­á­kvæði Nýju stjórn­ar­skrár­inn­ar.“

Posted on Færðu inn athugasemd

„Þágufallssýki“ í máltöku

Máltaka barna er endalaust undrunarefni og gaman að fylgjast með henni með opnum huga því að „villur“ sem börnin gera geta sagt okkur ýmislegt um eðli tungumálsins. Þegar sonur minn var að byrja að mynda setningar tók ég eftir sérkennilegri notkun hans á sögnum eins og langa sem „eiga“ að taka með sér þolfall. Hann notaði vissulega þolfall, en hafði það á eftir sögninni – sagði t.d. langar mig í meira eða eitthvað slíkt. Bæði nefnifall og þágufall hafði hann hins vegar á undan sögninni eins og eðlilegt er – sagði t.d. ég vil meira og mér finnst þetta gott.

Þessi sérstaða þolfallsins verður tæpast skýrð með umhverfisáhrifum - hann var ekki byrjaður í leikskóla og hafði varla umgengist nokkurn sem sagði mér langar. Kenning mín er sú að það málkerfi sem hann var búinn að koma sér upp á þessum tíma hafi ekki viðurkennt þolfall sem frumlag – aðeins nefnifall og þágufall. Þess vegna hafi honum fundist óeðlilegt að hafa þolfallið í frumlagssæti og sett það þess í stað á eftir sögninni. Þetta skeið stóð aðeins í nokkrar vikur – svo fór hann að setja þolfallið í frumlagssæti eins og hin föllin.

Ég hef líka heyrt um börn sem sögðu ég langar mig í meira eða eitthvað slíkt – tvítóku frumlagið, höfðu nefnifall í venjulegu frumlagssæti á undan sögninni en þolfall á eftir sögn. Það má sennilega túlka á svipaðan hátt – barninu finnst óeðlilegt að byrja á þolfallinu og veit að algengast er að í frumlagssætinu sé nefnifall og setur því ég þar. En það áttar sig jafnframt á því að fullorðna fólkið notar þolfall með langa og ályktar sem svo að það hljóti að þurfa að vera með í setningunni – og setur því mig á eftir sögninni.

Það er langt síðan fyrst var bent á að „þágufallssýkin“ ætti sér merkingarlega skýringu. Flestar sagnir sem tákna tilfinningu, skynjun o.þ.h. taka með sér frumlag í þágufalli – sagnir eins og þykja, finnast, líka (við), leiðast, kólna, hlýna, vera kalt / heitt / illt / flökurt / óglatt / bumbult og margar fleiri. Börn á máltökuskeiði átta sig væntanlega á þessari meginreglu og beita henni á aðrar sagnir af sama merkingarsviði – sagnir eins og hlakkadreymalangavanta og fleiri. Þetta er því tilraun barnanna til að koma reglu á kerfið – gefa þágufallinu ákveðið merkingarlegt hlutverk. Það má jafnvel færa rök að því, eins og ég gerði í grein í Skímu 1983, að „þágufallssýkin“ styrki fallakerfið í sessi.

Það er því margt sem bendir til að hin svokallaða „þágufallssýki“ sé eða geti verið „sjálfsprottin“ ef svo má segja – hún þarf ekki að stafa af ytri áhrifum, heldur getur verið tilkomin vegna þess að þolfallsfrumlög samræmast málkerfinu ekki vel. Ég hef líka heyrt sögu af íslenskri fjölskyldu sem bjó erlendis fyrir nokkrum áratugum og umgekkst aðra Íslendinga lítið sem ekkert. Það kom foreldrunum mjög á óvart að börnin fóru að nota þágufall í stað þolfalls með sumum sögnum án þess að nokkur möguleiki væri á að þau hefðu heyrt það hjá öðrum

Posted on Færðu inn athugasemd

Hýryrði

Um daginn héldu Samtökin 78 aðra hýryrðakeppni sína. Að þessu sinni var verið að leita að kynhlutlausu orði sem samsvaraði karl og kona, og auk þess orðum um skyldleika og tengsl. Þar sem ég var í dómnefnd keppninnar finnst mér ástæða til að skýra nokkur atriði í sambandi við orðin og leiðrétta ýmsan misskilning sem hefur komið fram.

1. Orðin eru kvár, sem er hliðstætt við karl og konamágkvár, sem er hliðstætt við mágur og mágkonasvilkvár, sem er hliðstætt við svili og svilkona, og stálp, sem er hliðstætt við strákur og stelpa. Orðið kvár er ekki skylt eða dregið af neinu öðru orði í málinu – þetta eru bara hljóð sem er raðað saman í samræmi við íslenskar reglur. Orðið stálp er myndað með hliðsjón af lýsingarorðinu stálpaður.

2. Þetta eru hvorugkynsorð og beygjast í samræmi við það. Beyging kvár er kvár – kvár – kvári – kvárs, í fleirtölu kvár – kvár – kvárum – kvára – með greini kvárið o.s.frv. Orðið beygist eins og t.d. hár og ár. Samsettu orðin mágkvár og svilkvár beygjast eins, og stálp beygist stálp – stálp – stálpi – stálps, í fleirtölu stálp – stálp – stálpum – stálpa, með greini stálpið o.s.frv.

3. Mörgum finnst þessi orð hljóma undarlega og jafnvel vera kjánaleg. Það er alveg eðlilegt – ný orð verka yfirleitt framandi á okkur. Það þarf að venjast þeim, og það tekur tíma. Mörg orð sem við notum athugasemdalaust og umhugsunarlaust á hverjum degi þóttu undarleg þegar þau komu fyrst fram. Einn helsti nýyrðasmiður landsins á síðustu öld, Halldór Halldórsson prófessor, sagði að það þyrfti að segja nýtt orð 60 sinnum til að venjast því. Prófið það!

4. Orðunum er ekki ætlað að koma í stað einhverra annarra orða eða útrýma þeim. Hér er um að ræða orð yfir kynsegin fólk – fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns. Tungumálið átti ekki orð yfir þetta fólk. Það stendur vitanlega ekki til að skylda fólk til að nota þessi orð en það er mikilvægt fyrir þau sem um ræðir, vini þeirra og fjölskyldur, að hægt sé að tala um þau á íslensku.

5. Í umræðunni hefur því verið haldið fram að það séu bara til tvö kyn, og þess vegna sé fráleitt að vera að búa til einhver orð til að vísa til einhvers sem er ekki til. Þetta er rangt. Í íslenskum lögum segir: „Sérhver einstaklingur nýtur […] óskoraðs réttar til að skilgreina kyn sitt.“ Það er til fjöldi fólks sem skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns og er í fullum rétti með það. Við þurfum að geta talað um og við það fólk – á íslensku.

6. Ýmsum hefur þótt ástæða til að nota tækifærið til að hnýta í kynsegin fólk og orð um það, og viðhafa ýmis óviðurkvæmileg ummæli. Ég held að þau sem það gera ættu aðeins að hugsa sinn gang. Kannski kemur kvár eða stálp í fjölskylduna einn daginn og þá viljið þið örugglega geta talað um og við hán af væntumþykju og virðingu.