Posted on Færðu inn athugasemd

Öráreitni?

Í dag og undanfarið hefur töluvert verið rætt hér um athugasemdir sem gerðar eru við „ófullkomna“ íslensku fólks sem er að læra málið. Sum þeirra sem taka þátt í umræðunni segjast þekkja slíkar athugasemdir vel en önnur segjast ekkert kannast við slíkt þrátt fyrir að umgangast innflytjendur mikið. Í sjálfu sér þarf þetta ekkert að vera óeðlilegt – auðvitað eru aðstæður misjafnar, við umgöngumst ekki öll sama eða sams konar fólk og reynsla okkar getur því verið ólík í þessu efni eins og öðrum. Það er samt athyglisvert að Íslendingar virðast sjaldnast kannast við athugasemdir af þessu tagi en innflytjendur þekkja þær yfirleitt vel. Þótt ég geti auðvitað ekki fullyrt neitt um þetta grunar mig að þessi munur sé ekki tilviljun.

Mér finnst mun líklegra að þarna sé iðulega um að ræða öráreitni sem við sem eigum íslensku að móðurmáli tökum ekki eftir, af því að við verðum ekki fyrir henni. „Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess“ segir á vefnum Hinsegin frá Ö til A. Oft eru þetta góðlátlegar athugasemdir eða grín sem ekki er illa meint en verkar samt stuðandi á fólk sem fyrir því verður þótt öðrum finnist það jafnvel krúttlegt. Vissulega má gæta þess að lenda ekki í ofurviðkvæmni hvað þetta varðar en það skiptir máli að við hugum að því hvernig við bregðumst við frávikum í máli innflytjenda.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslendingar, innflytjendur – og íslenska

Innflytjenda- og útlendingamál eru heitasta umræðuefnið í samfélaginu um þessar mundir. Í „Torginu“, ágætum umræðuþætti í Sjónvarpinu í gær, voru þátttakendur sammála um að íslenskan væri mikilvægasti þátturinn í inngildingu innflytjenda og rótfestingu þeirra í íslensku samfélagi. En það er mikilvægt að skoða þennan þátt frá þremur sjónarhornum: Sjónarmiði (innfæddra) Íslendinga, sjónarhorni innflytjenda, og sjónarhorni íslenskunnar. Inngildingin veltur á því að okkur takist að sætta þessi sjónarmið sem stundum stangast dálítið á – og ekki bara sætta þau á yfirborðinu, heldur samþætta þau í eina heildstæða málstefnu. Í þeirri málstefnu þurfa allir aðilar að gefa eitthvað eftir en fá í staðinn eitthvað á móti.

Íslendingar þurfa að sætta sig við að geta ekki notað íslensku alltaf og alls staðar á Íslandi, en eiga á móti rétt á íslenska sé notuð þar sem þess er nokkur kostur og ávallt sé reynt að koma til móts við þá á einhvern hátt. Innflytjendur þurfa að leggja það á sig að læra íslensku, en eiga á móti rétt á að þeim sé liðsinnt við það og komið til móts við þá með góðum ókeypis íslenskunámskeiðum, vönduðum kennslugögnum, íslenskukennslu á vinnutíma og síðast en síst umburðarlyndi gagnvart ófullkominni íslensku. Íslenskan verður að sætta sig við að vera stundum töluð með hreim, ófullkomnum beygingum og óvenjulegri orðaröð, en fær á móti tækifæri til að lifa og dafna um langa framtíð og vera burðarás í fjölmenningarsamfélagi.

Það virðist vera almenn skoðun Íslendinga að íslenskan sé sérlega erfitt tungumál – og það er eiginlega eins og við viljum hafa það þannig, okkur sé metnaðarmál að íslenskan sé erfið og finnist hún verða merkilegra tungumál fyrir vikið. En það er ekkert sem bendir til þess að íslenska sé erfiðari en gengur og gerist um tungumál – erfiðleikastig tungumáls fer eftir ýmsu, svo sem móðurmáli þeirra sem eru að læra málið, þeim málum sem þau kunna, o.s.frv. Ég hef lengi talið að þessi hugmynd eigi einkum rætur í því að vegna þess hve lengi Ísland var eintyngt samfélag erum við svo óvön að heyra íslensku talaða af öðrum en þeim sem eiga hana að móðurmáli að við dæmum öll frávik frá venjulegu máli mjög hart.

Þetta leiðir til þess að við gerum mjög oft athugasemd við málfar þeirra sem eru að læra íslensku, hvort sem það er hreimur, beygingar eða annað, látum í ljós óþolinmæði og skiptum iðulega yfir í ensku. Þess vegna missir fólk kjarkinn, gefst upp á íslenskunni og fær það á tilfinninguna að það geti ekki gert neitt rétt og íslenskan hljóti þess vegna að vera óskaplega erfið – og vissulega er íslenska erfið ef ætlast er til að hún sé töluð fullkomlega rétt. En það gildir vitanlega um öll tungumál. Það er ekkert síður erfitt að ná móðurmálsfærni í ensku en íslensku eins og hér var nýlega skrifað um. Enskumælandi fólk er hins vegar vant því að heyra ensku talaða á ótal vegu og kippir sér venjulega ekkert upp við það.

Rannsóknir benda til þess að mikill meirihluti innflytjenda vilji læra íslensku. En með því að bregðast ekki nógu vel við tilraunum fólksins og vilja til þess að tala málið hrekjum við það yfir í ensku. Margt fólk sem hingað kemur lærir ensku á undan íslensku – eða í staðinn fyrir íslensku – og á samskipti við Íslendinga og aðra hópa innflytjenda á ensku, enda þótt hún sé ekki móðurmál þess. Þetta er auðvitað ekki fullkomin enska, meira að segja oft mjög léleg enska. En okkur er alveg sama um það, enda er okkar enska ekki fullkomin heldur þótt við höldum það oft. Við erum viðkvæm fyrir hönd íslenskunnar en ekki enskunnar. Það er í sjálfu sér skiljanlegt – en ef við viljum íslenskunni vel er grundvallaratriði að breyta um viðhorf.

Posted on Færðu inn athugasemd

Víða hvar

Um daginn rakst ég fyrir tilviljun á orðið víðahvar í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Málið átti að vera vandað, og er það líka á sumum stöðum, enn nokkurskonar tilgerð og sérílagi dönskusletturnar skemma þó víðahvar gott efni.“ Ég er vanur að nota efsta stig atviksorðsins víða í þessu sambandi og segja víðasthvar – eða víðast hvar. Athugun leiðir í ljós að víðahvar var nokkuð notað á nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu en fremur lítið eftir það og er mjög sjaldgæft núorðið þótt dæmum bregði vissulega fyrir enn – reyndar oftast rituð í tvennu lagi, víða hvar. Efsta stigið víðast hvar, stundum ritað víðasthvar, hefur hins vegar verið margfalt algengara síðan um miðja 19. öld, en elstu dæmi um bæði samböndin eru frá 18. öld.

Kannski væri eðlilegast að líta á víðahvar og víðasthvar sem samsett orð en það er þó ekki gert í orðabókum heldur litið á þetta sem orðasambönd sem skýrð eru undir víða í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924: „v. hvar, paa mange Steder“ og „víðast hvar, paa de allerfleste Steder, næsten overalt“. Sama máli gegnir um Íslenska orðabók: „víða hvar víða“;  „víðast hvar á flestum stöðum“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er víðast hvar fletta í sömu merkingu. Þar sem ég nota ekki víða hvar átta ég mig ekki á því hvort notendur þessa sambands gera eða hafa gert áðurnefndan mun á merkingu þess og víðast hvar. Erfitt er að átta sig á því út frá ritmálsdæmum vegna þess að mjög oft gæti hvor merkingin sem er átt við og samhengi sker ekki úr.

Þrátt fyrir það er hægt að finna dæmi sem sýna að þessi munur hefur ekki alltaf verið gerður. Í DV 2013 segir t.d.: „Fjölskyldumynstrið er ansi ólíkt því sem þekkist víða hvar á Vesturlöndum. Fjölskyldan samanstendur nefnilega af einni eiginkonu, fimm eiginmönnum og einum syni.“ Þarna ætti merkingin 'á flestum stöðum' augljóslega fremur við en 'víða', og trúlegt að svo sé í mun fleiri dæmum þótt erfitt sé að sýna fram á það. Ástæðan fyrir því að sambandið víða hvar hefur að mestu horfið úr málinu gæti annaðhvort verið sú að hvar bætir engu við merkingu víða og hafi því þótt óþörf viðbót, eða merkingarmunur víða hvar og víðast hvar, sem alla tíð var margfalt algengara, hafi dofnað svo að fyrrnefnda sambandið varð óþarft og lognaðist út af.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hittingur

Orðið hittingur er meira en hundrað ára gamalt í málinu. Elsta dæmi um það á prenti er í Skólablaðinu 1921: „Oft er það að eins hittingur, ef menn frjetta slíkt.“ Í Tímanum 1941 segir: „Bæirnir eru því einangraðir of mjög frá öðrum og menn geta naumast komizt heiman eða heim nema af hittingi.“ Í Morgunblaðinu 1954 segir: „Það er næstum hittingur – segir hún – að við fáum kjól eða kápu við okkar hæfi.“ Í Fiskifréttum 1991 segir: „Þetta er mikill hittingur en við vorum heppnir að þessu sinni.“ Augljóst er af samhengi að hittingur merkir 'tilviljun' í þessum dæmum, og má tengja það við sambandið það hittist svo á sem merkir 'það er/var tilviljun'. En þessi merking er ekki í orðabókum og virðist ekki hafa verið algeng – líklega horfin úr málinu.

Orðið er líka notað í skyldri merkingu, 'tilviljun' eða 'heppni', í brids: „Hittingur er það kallað þegar spilarar þurfa að velja á milli tveggja jafngildra möguleika“ segir í Morgunblaðinu 2008. Þar snýst málið um að hitta á rétta möguleikann, vera hittinn – „Sumir eru getspakari en aðrir og Norðmaðurinn Geir Helgemo er sérlega hittinn“ heldur blaðið áfram. Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun er í Vísi 1966: „Austur spilaði út tíguláttu, sem var greinilega „hittings“ útspil.“ Einnig var orðið stundum notað um fiskveiðar: „Í nótt lentum við í góðum hittingi“ segir í Morgunblaðinu 1978, „Minn félagsskapur og ég lentum aldrei í neinu skoti, hittingi eða hvað maður kallar það þegar fiskurinn bara tekur og tekur“ segir í Degi 2000.

En undanfarin 20 ár eða svo hefur orðið aðallega verið notað í nýrri merkingu – 'óformleg samkoma, það að hittast, spjalla o.s.frv.' eins og segir í Íslenskri orðabók; 'óhátíðleg samkoma vina eða fjölskyldu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um þá merkingu er reyndar úr Fálkanum 1946: „Helena og ég hittumst æði oft, en eini tilgangurinn minn með þeim hittingum var sá að fá einhverjar fregnir af Wöndu.“ Þetta er þó einangrað dæmi og annars sjást ekki dæmi um þessa merkingu fyrr en eftir aldamót, fyrst á samfélagsmiðlum eins og vænta má: „Og ef það er hittingur á kvöldin komast þær sem eru að vinna“ á Bland.is 2002, „Tekin létt og óvænt æfing eftir góðan hitting á Símnet“ á Hugi.is 2002.

Dæmum fer svo ört fjölgandi á samfélagsmiðlum næstu ár en þróunin í formlegra máli er mun hægari. Stöku dæmi fara þó að sjást í prentmiðlum upp úr þessu – „og mátti m.a. sjá til fyrrum vinkvenna ungfrú Íslands sem voru með hitting“ segir í DV 2002, „Elfa, er einhver „hittingur“ núna“ segir í Morgunblaðinu 2002, „Þetta var ekki langur hittingur og tók fljótt af“ segir í DV 2004, „síðan er oftast hittingur á Vegamótum“ segir í Fréttablaðinu 2005. En sprenging virðist verða í notkun orðsins fyrir fimm árum eða svo. Í Risamálheildinni eru níu þúsund dæmi um orðið, þar af um 7.400 á samfélagsmiðlum. Þessi mikla notkun bendir til þess að um sé að ræða mjög gagnlegt orð sem bæti úr brýnni þörf – við höfum ekki annað orð fyrir þessa merkingu.

Vissulega væri stundum hægt að nota orðið fundur en hittingur er samt yfirleitt óformlegri og oft tilviljanakenndur fremur en fyrir fram ákveðinn (og tengist þannig merkingunni 'tilviljun' sem orðið hafði áður). Í Íslenskri orðabók er orðið hittingur þó merkt „slangur“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Það er líka stundum amast við því í málfarsumræðu á samfélagsmiðlum. En þetta er eðlileg orðmyndun af sögninni hitta og ýmis önnur dæmi um orð mynduð með viðskeytinu -ingur af sögnum með svipaðri stofngerð – brettingur af bretta, léttingur af létta, styttingur af stytta, þvættingur af þvætta o.fl. Mér finnst þess vegna einboðið að létta öllum hömlum af hittingi og telja þetta gott og gilt orð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fagn

Orðið fagn er bæði að finna í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók í merkingunni 'tilþrifamikið látbragð íþróttamanns sem fagnar góðum árangri í keppni, t.d. við að skora mark í knattspyrnu'. Þetta orð er a.m.k. aldarfjórðungs gamalt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1998: „Þetta „fagn“ framherjans var gagnrýnt af mörgum, m.a. dómara úr heimsmeistarakeppninni.“ Í ræðu á Alþingi 2001 var sagt: „En ég ítreka fögnuð minn og segi eins og í Vestmannaeyjum að mörg „fögn“ eru á bak við það að hv. þm. skuli þó vera opinn fyrir breytingunum.“ Í DV 2002 segir: „Það var mikið talað um það fyrir æfingu að ég skoraði aldrei og gæti því aldrei tekið þetta fagn.“ Í elstu dæmum eru oft hafðar gæsalappir um orðið.

Fáein dæmi má finna um fagn í blöðum og á samfélagsmiðlum frá fyrsta áratug þessarar aldar, en eftir 2010 verður það mjög algengt og í Risamálheildinni eru dæmin um það a.m.k. hátt á annað þúsund. Einhverjum gæti fundist orðið óþarft vegna þess að málið á önnur nafnorð mynduð af fagna orðin fagnaður ʻgleðskapur, veislaʼ og fögnuður ʻþað að fagna, mikil gleðiʼ eru leidd af þessari sögn með viðskeytinu -uður. En fagn er sérstök tegund af gleðskap og þess vegna ekkert óeðlilegt að til verði sérstakt orð til að tákna þá merkingu. Orðið er myndað af sögninni fagna með því að sleppa nafnháttarendingunni -a. Slík orðmyndun er eðlileg og algeng og orðið fellur vel að málinu og rímar við önnur hvorugkynsorð eins og agn, gagn og magn.

Í Íslenskri orðabók er fagn sagt „óformlegt“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það sagt „óstaðfest nýyrði“. Það er í sjálfu sér eðlilegt – orðið er nýlegt og það tekur tíma fyrir okkur að venjast eða sætta okkur við ný orð, auk þess sem þetta orð er komið úr íþróttamáli sem oft þykir fremur óformlegt og ekki fínt. Sumum virðist líka finnast orðmyndun af þessu tagi tilheyra óformlegu máli og vissulega er hún algeng þar þótt ýmis orð sem svona eru mynduð séu fullgild í málinu og hafi verið það lengi. En út frá þessu má velta því fyrir sér hvað þurfi til að orð fái fulla viðurkenningu – séu höfð án gæsalappa í rituðu máli og tekin athugasemdalaust í orðabækur. Það er erfitt að segja, en mér finnst allavega fagn hafa unnið sér inn viðurkenningu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þegar eintöluorð fá fleirtölu

Meðal þeirra málfarsatriða sem oftast eru gerðar athugasemdir við er þegar farið er að nota fleirtölu af ýmsum orðum sem fram undir þetta hafa eingöngu verið höfð í eintölu. Hér hefur verið skrifað um mörg slík dæmi, a.m.k. þessi: fíknir af kvenkynsorðinu fíkn(i), flug af hvorugkynsorðinu flug, fælnir af kvenkynsorðinu fælni, hræðslur af kvenkynsorðinu hræðsla, húsnæði af hvorugkynsorðinu húsnæði, látbrögð af hvorugkynsorðinu látbragð, mör af hvorugkynsorðinu mar, orðrómar af karlkynsorðinu orðrómur, óttar af karlkynsorðinu ótti, smit af hvorugkynsorðinu smit, þjónustur af kvenkynsorðinu þjónusta – og svo keppnir af kvenkynsorðinu keppni sem Höskuldur Þráinsson lagði út af í greininni „Ekki til í fleirtölu“:

Höskuldur segir í þessari grein: „Ef grannt er að gáð, kemur í ljós að býsna mörg orð virðast hafa þess konar merkingu að mönnum finnst óeðlilegt að nota þau í fleirtölu. Þetta á t. d. við orð sem eru heiti á efnum, safnheiti, tákna eitthvað óhlutkennt o.s.frv. […] Það virðist eintöluorðum af þessu tagi sameiginlegt að það er merking þeirra sem ræður þessum einkennum. Þetta sést m. a. á því að stundum fá slík orð breytta eða sérhæfða merkingu og þá er ekkert lengur því til fyrirstöðu að nota þau í fleirtölu. Orð eins og sýslumannaævir, Jörfagleðir o. fl. eru oft tekin sem dæmi um þetta.“ Höskuldur nefnir einnig orð eins og gull, silfur og járn sem venjulega eru eingöngu í eintölu en geta tekið fleirtölu í ákveðinni merkingu.

Hann segir einnig: „Mér sýnist augljóst að svipað hafi átt sér stað með keppni. Þegar það fer að merkja einstök kappmót eða slíkt, virðist mönnum eðlilegt að nota það í ft. og segja „… í mörgum keppnum“ rétt eins og sagt er „… á mörgum mótum.“ Ég sé ekki betur en þetta sé fullkomlega eðlilegt. Það er því villandi og ruglandi að banna mönnum að nota keppni í ft. á þeirri forsendu að það sé „ekki til“, ef um það er að ræða að orðið merkir einstaka atburði eða viðureignir. Um leið og orðið fær þá merkingu, verður fullkomlega eðlilegt að nota það í ft. Menn gætu hins vegar amast við því að orðið skuli vera látið fá þessa merkingu, á þeirri forsendu að þar sé verið að víkka merkingarsvið orðsins frá því sem áður hafi verið tíðkað.“

Þetta held ég að gildi um öll þau dæmi sem voru nefnd hér að framan. Það er enginn vandi að búa til fleirtölu af þeim og enginn vafi á því hvernig hún á að vera. Sú merking sem þau höfðu áður býður hins vegar ekki upp á að þau séu notuð í fleirtölu. Það sem hefur gerst er að orðin hafa fengið víkkaða eða nýja merkingu – auk hinnar almennu og oft óhlutstæðu vísunar sem þau höfðu og hafa enn eru þau farin að vísa til einstakra og oft áþreifanlegra fyrirbæra, tegundar af því sem um er rætt eða eintaks af þeirri tegund sem um er rætt, og þá er fleirtala eðlileg og sjálfsögð eins og nánar er skýrt í pistlum um einstök orð. Þannig má nota fleirtöluna fíknir til að vísa til mismunandi tegunda af fíkn, fleirtalan flug vísar til tiltekinna ferða flugvélar, o.s.frv.

Nýjasta dæmi sem ég hef séð um þetta er fleirtalan fræðslur af kvenkynsorðinu fræðsla. Hún er notuð á síðu Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar þar sem yfirskriftin er „Fræðsla á vegum Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu“ en fyrir neðan stendur „Dæmi um fræðslur sem boðið er upp á“. Í fyrra tilvikinu hefur fræðsla almenna vísun en í því seinna, fleirtöludæminu, vísar það til eins konar fræðslupakka um tiltekið efni. Það er boðið upp á fræðslu um mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, jafnrétti kynjanna, innflytjendur og heimilisofbeldi, hinsegin fólk og heimilisofbeldi, fatlað fólk og ofbeldi, trans börn o.fl. Það er sérstök fræðsla um hvert efni og því eru margar og mismunandi fræðslur í boði.

Vitanlega er viðbúið – og fullkomlega eðlilegt – að við hrökkvum í kút þegar við sjáum eða heyrum fleirtölu af orðum sem við ólumst upp við að væru „ekki til í fleirtölu“. Í sumum tilvikum, eins og með orðið keppni, verð og ýmis fleiri, hefur það líka lengi verið brýnt fyrir málnotendum að fleirtalan væri beinlínis röng. En þetta snýst í raun ekki um fleirtöluna sem slíka, heldur um merkingarvíkkun orðanna sem krefst þess að hægt sé að nota þau í fleirtölu. Eins og Höskuldur Þráinsson segir í tilvitnaðri grein er auðvitað hægt að amast við þessari merkingarvíkkun en ég sé enga ástæðu til þess – þetta eru fullkomlega eðlilegar breytingar sem valda tæpast misskilningi og skaða málið ekki neitt, en auðvitað þarf að venjast þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að eiga erfiðu gengi að fagna

Orðasambandið eiga/hafa gengi að fagna hefur tíðkast í málinu a.m.k. síðan seint á 19. öld. Venjulega stendur eitthvert lýsingarorð á undan gengi, oftast góðu – af 3.400 dæmum um sambandið á tímarit.is eru nærri tvö þúsund um góðu gengi. En ýmis önnur lýsingarorð koma þó fyrir, og í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á því að í íþróttafrétt hefði verið talað um að eiga erfiðu gengi að fagna. Málshefjanda fannst sérkennilegt að nota sögnina fagna sem venjulega merkir 'gleðjast yfir (e-u), kætast vegna (e-s)' í þessu samhengi því að erfitt gengi gæti varla verið gleðiefni. En þetta er þó fjarri því að vera einsdæmi, og sýnir vel þann mun sem getur verið á grunnmerkingu orða og merkingu þeirra í föstum orðasamböndum.

Elsta dæmi um sambandið á tímarit.is er í Ísafold 1877: „hún hefir, og það að miklu leyti ómaklega, átt allt of litlu gengi að fagna.“ Þetta þarf þó ekki að skilja þannig að verið sé að fagna því hversu gengið er lítið, heldur á væntanlega að skilja það þannig að allt of lítið sé til að gleðjast yfir. Sama gildir væntanlega um önnur dæmi um litlu gengi að fagna sem eru um 90 á tímarit.is, sem og dæmi eins og engu gengi að fagna, ekki miklu gengi að fagna og fleiri svipuð. Sambandið er reyndar fremur sjaldgæft fram undir miðja 20. öld en í flestum eða öllum dæmum um það á þeim tíma virðist sögnin fagna vera notuð í bókstaflegri merkingu. En upp úr 1940 fóru neikvæð lýsingarorð smátt og smátt að sjást með gengi, einkum þó eftir 1980.

Nokkur dæmi: Í Helgafelli 1942 segir: „Því að þótt þessar hugsjónir hafi jafnan átt misjöfnu gengi að fagna í lífi þjóða og einstaklinga […]“. Í Akranesi 1948 segir: „ýmsar aðrar fiskitegundir og veiðar, eiga minnkandi gengi að fagna.“ Í Morgunblaðinu 1970 segir: „Stjórnmálaflokkar eiga mismunandi gengi að fagna, meðbyr og mótbyr.“ Í DV 1981 segir: „FH-liðið hefur átt skrykkjóttu gengi að fagna undanfarin ár.“ Í Tímanum 1984 segir: „West Ham, sem hefur átt rysjóttu gengi að fagna undanfarið.“ Í Eyjafréttum 1986 segir: „við höfum unnið mikið af æfingaleikjum, en átt lélegu gengi að fagna í Íslandsmóti á eftir.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „Fram átti frekar slæmu gengi að fagna á síðasta keppnistímabili.“

Eins og dæmin benda til er þetta einkum algengt í íþróttafréttum og þar má líka finna dæmi eins og vitnað var til í upphafi – „Bournemouth byrjaði tímabilið í deildinni vel en hefur átt erfiðu gengi að fagna síðustu vikur“ segir t.d. í Vísi 2018. Það er því ljóst að í máli margra hefur sögnin fagna glatað grunnmerkingu sinni í þessu sambandi og eiga gengi að fagna merkir einfaldlega 'ganga' – eiga góðu gengi að fagna merkir 'ganga vel'. Á sama hátt merkir eiga lélegu/erfiðu gengi að fagna einfaldlega 'ganga illa' en vísar ekki á neinn hátt til þess að hið lélega gengi sé sérstakt fagnaðarefni. Notkun neikvæðra lýsingarorða í sambandinu sýnir að á síðustu hálfri öld eða svo hefur eiga gengi að fagna orðið að föstu orðasambandi og tíðni þess margfaldast.

Það er ljóst að það er fjarri því að vera einsdæmi að orð glati grunnmerkingu sinni í föstum orðasamböndum. Þvert á móti – það er einmitt eitt af einkennum fastra orðasambanda að merking þeirra er ekki summa eða fall af merkingu orðanna í sambandinu, heldur hefur sambandið ákveðna merkingu sem heild. Þetta er hliðstætt sambandinu eiga von á sem iðulega vísar til einhvers óæskilegs enda þótt orðið von út af fyrir sig sé vitanlega jákvætt. Fólk getur haft mismunandi skoðanir á þessari þróun sambandsins eiga gengi að fagna en á hana er augljóslega komin hefð. Hitt er samt annað mál að sambandið er dálítil klisja sem vel má halda fram að sé ofnotuð. Oft færi betur að segja einfaldlega liðinu hefur gengið illa síðustu vikur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að setja í sig hrygg

Fyrir nokkrum dögum stóð á vef Mannlífs: „Reiknað er með að lögreglan setji í sig hrygg og málum sem snúa að þessum ofsóknum verði hraðað.“ Sambandið setja í sig hrygg er mjög óvenjulegt og því ekki undarlegt að það hafi verið til umræðu í hópunum Skemmtileg íslensk orð og Málvöndunarþátturinn. Þótt flestum þætti nokkuð ljóst af samhengi hvað sambandið merkir þarna – 'taka á sig rögg', 'gyrða sig í brók' – sagðist aðeins einn þátttakandi í umræðunum kannast við það. Nefnt var að þetta væri líklega komið úr ensku þar sem bæði grow a spine og grow a backbone er til í svipaðri merkingu – oftast í boðhætti. Þau sambönd eru reyndar oft talin móðgandi sem ekki er endilega ljóst að sé í þessu tilviki.

Í umræðum í Málvöndunarþættinum benti Einar Ólafsson á að eitt dæmi er um þetta orðasamband á tímarit.is. Það er frá Guðlaugi Gíslasyni alþingismanni sem skrifaði í Fylki 1977: „Eg held, að hann ætti nú að setja í sig hrygg, eins og Áki á bæjarskrifstofunum kemst stundum svo skemmtilega að orði“ – sá sem um er rætt er Vestmannaeyingur. Dæmið úr Mannlífi er frá Reyni Traustasyni ritstjóra vefsins sem hefur notað sambandið áður og hefur það eftir manni frá Flateyri: „Ef drífa þurfti í einhverjum málum talaði hann um að „setja í sig hrygg“. Þetta er ágætis orðatiltæki sem ég hef síðan tileinkað mér.“ Þarna eru sem sé komin dæmi um þetta orðasamband úr tveimur ólíkum áttum, frá Vestmannaeyjum og Flateyri.

Auðvitað er samt hugsanlegt að þar séu einhver tengsl á milli, en jafnframt er ljóst að þetta er ekki dæmi um nýlega yfirfærslu ensks orðasambands heldur hálfrar aldar gamalt hið minnsta. Vissulega getur verið að sambandið hafi orðið til með hliðsjón af áðurnefndum enskum orðasamböndum en ekki er heldur óhugsandi að um sé að ræða innlenda smíð þar sem notuð er svipuð líking og í ensku. Sambandið vaxa fiskur um hrygg sem merkir 'eflast', 'vaxa ásmegin' er auðvitað vel þekkt og viðurkennt og gæti hafa orðið kveikjan að setja í sig hrygg enda merkingin ekki ósvipuð. Mér finnst a.m.k. ekki ástæða til að afgreiða þetta samband sem eitthvert rugl eins og oft er gert með sambönd sem fólk kannast ekki við.

Posted on Færðu inn athugasemd

Önnum kafnari

Í gær var spurt í Málvöndunarþættinum hvort sambandið önnum kafinn stigbreyttist – og þá hvernig. Tilefnið var að í Kastljósi gærkvöldsins var talað um „önnum kafnasta tónlistarmann landsins“. Í nútímamáli kemur lýsingarorðið kafinn varla fyrir nema í þessu sambandi þótt stöku dæmi séu um annað. Í Tímanum 1873 segir: „þótt hann byggi aldrei stórbúi og væri ómegð kafinn.“ Í Norðanfara 1883 segir: „hann er skuldum vafinn og börnum kafinn.“ Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson: „Langt fram eftir sumri var hinn fagurblái himinn kafinn suddagráu skýjahafi.“ Í Bliki 1980 segir: „Hvernig mætti það gerast, væri bæjarsjóður kafinn skuldum?“ Á fótbolti.net 2013 segir: „Ekkert verður af því þar sem völlurinn er kafinn snjó.“

Upphaflega er kafinn lýsingarháttur þátíðar af sögninni kefja sem merkir 'kaffæra' og er að mestu horfin úr málinu – hana er t.d. hvorki að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamálsÍslenskri nútímamálsorðabók. Hins vegar er kafinn flettiorð í báðum söfnum – sambandið önnum kafinn er m.a.s. sjálfstæð fletta í orðabókinni. Í Beygingarlýsingunni er tekið sérstaklega fram að kafinn sé notað í orðasambandinu önnum kafinn en þar er orðið eingöngu gefið í frumstigi. Á annað hundrað dæmi eru þó um beygingarmyndir miðstigs og efsta stigs á tímarit.is, það elsta í Þjóðviljanum unga 1898: „hið mesta happ fyrir það er […] að hafa sem ókunnugastan og önnum kafnastan mann í öðrum störfum í æðsta stjórnarsessi sínum.“

Í Vísi 1911 segir: „Sú breyting hefir á orðið að nú keppast allir við að vera enn önnum kafnari, en þeir nokkurn tíma eru.“ Í Vísi 1949 segir: „Hún er önnum kafnasta líffæri líkamans.“ Í Vísi 1957 segir: „Hann sór þess dýran eið að virða stjómarskrá Englands, þegar hann var sem önnum kafnastur í njósnarstarfsemi.“ Í Vikunni 1959 segir: „Hann er talinn einn önnum kafnasti leikari í veröldinni.“ Í Morgunblaðinu 1959 segir: „Að skólafólki slepptu eru það þeir starfsömustu og önnum köfnustu, sem stundvísastir eru.“ Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Oft heyrist að vilji menn sjá árangur sé best að fela önnum kafnasta fólkinu verkin.“ Það er því löng hefð fyrir stigbreytingu orðsins kafinn og ég sé ekkert athugavert við hana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Slagorð eða vígorð?

Nýlega var breytt orðalag í auglýsingum um drykkinn Kristal hér til umræðu. Í fréttum um þetta var alltaf notað orðið slagorð – „Ölgerðin breytir slagorði Kristals“ í Viðskiptablaðinu og „Ölgerðin breytir slagorðinu fyrir Kristal“ í Vísi. En slagorð hefur ekki alltaf þótt góð íslenska. Í Morgunblaðinu 1989 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Mörgum hefur verið heldur í nöp við þetta orð, sem hefur smeygt sér óbreytt inn í mál okkar úr dönsku, en þangað komið úr þýzku, Schlagwort.“ Í Þjóðviljanum 1959 sagði Árni Böðvarsson: „Hins vegar er slagorð notað í heldur lélegu máli um það sem annars er venjulega nefnt kjörorð eða ef til vill heldur vígorð (það orð sem menn berjast undir).“ En er alltaf hægt að nota vígorð í staðinn fyrir slagorð?

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er slagorð skýrt 'setning eða nokkur orð sem tjá kröfu eða markmið, einkunnarorð'. Elstu dæmi um þá merkingu orðsins í íslensku eru frá síðasta hluta 19. aldar. Í Þjóðólfi 1895 segir t.d.: „hann […] ber fyrir sig ýmisleg alþekkt „slagorð“, svo sem að röksemdir mínar séu „handhægar en léttvægar“. Eins og Jón Aðalsteinn bendir á voru framan af stundum notaðar gæsalappir „vafalaust sem afsökun fyrir notkun orðsins“. Í Þjóðólfi 1900 er annað orð notað til skýringar: „þótt menn litu þá mest á þetta »slagorð« eða einkunnarorð: »öfluga peningastofnun í landinu«“. Notkun orðsins slagorð jókst töluvert á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldar en ýmsum þótti það ekki nógu góð íslenska og vildu finna betra orð.

Í bókinni Alþjóðamál og málleysur segir Þórbergur Þórðarson að Hallbjörn Halldórsson prentari hafi búið til „orðið vígorð fyrir hálfdanska orðið slagorð“. Jón Aðalsteinn segir: „Hefur hann þar haft í huga so. að vega í merkingunni að ráðast á e-n með orðum.“ Elsta dæmi um vígorð er í Alþýðublaðinu 1923: „Í kauplækkunarhamförum atvinnurekenda um þessar mundir er það haft að vígorði, að dýrtíðin verði að minka.“ Í byrjun var vígorð stundum haft innan gæsalappa en komst þó fljótt í mikla notkun. Þrátt fyrir það var slagorð alla tíð meira notað og á síðustu árum hefur dregið sundur með orðunum – í Risamálheildinni er hálft fimmtánda þúsund dæmna um slagorð en aðeins rúm 500 dæmi um vígorð sem virðist því á útleið.

„Ýmsum finnst þetta orð ekki henta alls staðar“ sagði Jón Aðalsteinn um vígorð, og má það til sanns vegar færa – það getur átt við t.d. í stjórnmálabaráttu en slagorð hefur miklu víðtækari merkingu og er t.d. mikið notað í hvers kyns auglýsingum eins og nefnt var í upphafi. Jón Aðalsteinn heldur áfram: „en þá má nota í staðinn orð eins og einkunnarorð eða kjörorð, svo sem gert er í orðabókum“. Vissulega er það oft hægt, en slagorð hefur löngu unnið sér hefð og er fullgilt íslenskt orð þrátt fyrir erlendan uppruna sinn. Í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar er það merkt með ? sem táknar „vont mál, orð eða merking sem forðast ber í íslensku“ en í þriðju útgáfu bókarinnar er það gefið athugasemdalaust, sem og í Íslenskri nútímamálsorðabók.