Það er í eðli tungumála að breytast – það er óhjákvæmileg afleiðing af hlutverki þeirra og flutningi milli kynslóða. Okkur finnst samt flestum að íslenskan eigi að vera eins og hún var – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera – þegar við vorum að alast upp. Við getum að vísu sætt okkur við að það þurfi ný orð fyrir nýjungar af ýmsu tagi, þótt okkur finnist þau oft óþjál og framandi í fyrstu, en að öðru leyti viljum við að málið haldist óbreytt – framburður, beygingar, setningagerð, merking orða og orðasambanda og annað sé eins og við erum vön. Ef út af því bregður finnst okkur iðulega að um rangt mál sé að ræða sem nauðsyn sé að leiðrétta. Mér sýnist að algengustu umkvörtunarefnum af þessu tagi megi skipta í tíu flokka.
(1) Röng fallmynd notuð (byggingu í stað byggingar, einkanir í stað einkunnir, trúnna í stað trúna); (2) rangt fall notað (mér langar í stað mig langar, spá í þessu í stað spá í þetta); (3) eintöluorð notað í fleirtölu (verð, orðrómar, fælnir); (4) rangt orð notað (ristavél í stað brauðrist, fólk í stað maður, opna hurð í stað opna dyr); (5) orð eða orðasamband notað í rangri merkingu (erlendis, notast við, ávarpa málið); (6) orð eða orðasamband ofnotað (taka samtalið, heldur betur); (7) óþarft orð notað (hán, leghafi); (8) eftiröpun erlends orðs eða orðasambands notuð (aðvörun, snjóstormur, renna út á tíma); (9) óaðlagað erlent orð notað (ókei, sorrí, næs); (10) röng setningagerð notuð (það var barið hana, öll eru velkomin, ég vona að hann kemur).
Ég hef skrifað um öll þau dæmi sem hér eru nefnd, og fjölmörg önnur úr flestum þessum flokkum. En ég er orðinn sjötugur og alinn upp í sveit þannig að sú íslenska sem ég tileinkaði mér endurspeglar málið eins og það var um miðja tuttugustu öld, og þótt ég hafi tekið upp sumar þeirra nýjunga sem nefndar eru hér að framan samræmast þær í fæstum tilvikum mínu upphaflega máli. En þótt ég kunni misjafnlega vel við þessar breytingar sé ég enga ástæðu til að amast sérstaklega við þeim, hvað þá að hafa áhyggjur af þeim eða áhrifum þeirra á tungumálið og framtíð þess, enda er engin þeirra líkleg til að valda breytingu á grunnstoðum málkerfisins eða torvelda svo að heitið geti skilning komandi kynslóða á málfari fyrri tíma.
Vissulega er samt ýmislegt þarna sem rétt er að gefa gætur. Það væri t.d. mikil eftirsjá að viðtengingarhættinum þótt breytingar á notkun hans þurfi ekki endilega að tákna að hann sé að hverfa. Það er líka rétt að gjalda varhug við mikilli aukningu á eftiröpun enskra sambanda eins og renna út á tíma – ekki vegna þess að slík sambönd séu óæskileg í sjálfu sér, heldur vegna þess að hugsunarlaus upptaka þeirra getur bent til þekkingarskorts á íslenskri málhefð. Mikil fjölgun á óaðlöguðum erlendum orðum gæti líka til lengri tíma haft áhrif á hljóðskipunarreglur málsins og veikt beygingakerfið. En engin ástæða er til að hafa áhyggjur af breytingum á föllum og fallmyndum, fleirtölu orða sem áður voru talin eintöluorð, eða breyttri merkingu stöku orða.
Íslenskunni stafar engin ógn af því að breytast. Hún hefur alltaf verið að breytast, er að breytast, og mun halda áfram að breytast hvort sem okkur líkar betur eða verr og hversu mikið sem við berjumst gegn tilteknum breytingum – og hún þarf sífellt að vera að breytast til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt og mannlegt að ýmsar breytingar fari í taugarnar á okkur vegna þess að við viljum hafa málið eins og við erum vön. En við megum alls ekki láta pirring okkar bitna á þeim sem nota málið öðruvísi en við, heldur verðum að sýna máli annarra – líka þeirra sem eru að læra íslensku – virðingu og tillitssemi. Aðalatriðið er að íslenska sé nothæf á öllum sviðum og notuð ef þess er nokkur kostur.

+354-861-6417
eirikurr