Posted on

Ný lýsingarorð

Nýleg lýsingarorð sem enda á -aður og lýsa ástandi eða eiginleikum fólks hafa undanfarið verið til umræðu í Málvöndunarþættinum á Facebook – orð eins og lyfjaður, verkjaður, vímaður og fleiri. Mörgum finnst þessi orð torkennileg, eins og algengt er með ný orð, og amast heldur við þeim. En er ástæða til þess?

Vissulega er oft hægt að haga máli sínu þannig að þessara orða sé ekki þörf. Í stað þess að segja að einhver sé vímaður má eins segja að hann sé í vímu, í stað þess að einhver sé lyfjaður má segja að hann sé undir áhrifum lyfja o.s.frv. En það eru ekki í sjálfu sér rök gegn orðunum að hægt sé að orða hlutina á annan hátt.

Einu málfræðilegu rökin sem ég hef séð gegn orðum af þessu tagi eru þau að lýsingarorð sem enda á -aður séu yfirleitt upprunalega lýsingarháttur þátíðar af sögnum – sofnaður af sofna, grunaður af gruna, blandaður af blanda o.s.frv. Orðin sem nefnd eru í upphafi eru hins vegar leidd af nafnorðum.

Það er þó ekki einsdæmi að lýsingarorð af þessu tagi séu (eða virðist vera) leidd af nafnorðum. Nefna má orð eins og gallaður, gáfaður, kjarkaður, skeggjaður, timbraður, ættaður og fleiri þar sem ekki verður séð að sögn liggi að baki – auk samsetninga eins og (ber)rassaður, (kald)rifjaður, (rauð)nefjaður, (tví)eggjaður o.fl.

Mörg slík orð eru e.t.v. upphaflega leidd af sögn sem er sjaldgæf eða horfin úr málinu, en samstofna nafnorð algengt. Þannig er það t.d. með orð eins og skýjaður og vængjaður – sagnirnar skýja og vængja eru mjög sjaldgæfar en nafnorðin ský og vængur mjög algeng. Þá er eðlilegt að málnotendur túlki það svo að lýsingarorðið sé leitt af nafnorðinu.

Oft er sagt að í nútímamáli sé tilhneiging til að ofnota nafnorð. Í þessu tilviki er verið að draga úr notkun nafnorða, þótt í litlu sé, með því að nota lýsingarorð í staðinn. Að öllu samanlögðu sé ég enga ástæðu til að amast við orðum af því tagi sem nefnd eru í upphafi. Hins vegar þurfum við auðvitað tíma til að venjast þeim eins og öðrum nýjum orðum.

Posted on

Að byggja veg

Sögnin byggja er iðulega notuð þar sem ýmsum finnst að aðrar sagnir ættu betur við. Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að byggja hús og ýmislegt fleira en hins vegar að smíða skip, leggja vegi og gangstéttir.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 eru tekin dæmin „Þarna var byggður vegur í fyrra“ og „Þar var byggður flugvöllur í fyrra“ og sagt að rétt væri lagður eða gerður vegur og gerður flugvöllur. Í nútímamáli er sögnin yfirleitt tengd einhvers konar byggingum, yfirleitt húsum, en í fornu máli merkti hún 'nema, taka sér bólfestu' – „Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland“ segir í Landnámabók.

Þá sjaldan talað er um að byggja hús í forntextum merkir það 'dveljast í húsi' – „Þessa skemmu byggði jarlsdóttir og hennar þjónustukonur“ segir í Víglundar sögu. Síðan hliðrast merkingin þannig að byggja hús fer að merkja 'reisa hús' eins og t.d. í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar 1540 – „sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi“. Í margar aldir voru einhvers konar hús nánast einu mannvirkin sem gerð voru á Íslandi, og því eðlilegt að merking byggja væri tengd við hús. En þetta fór að breytast á 19. öld og þá var farið að nota sögnina um margvísleg önnur mannvirki og manngerða hluti hérlendis og erlendis.

Í Skírni 1827 segir: „Egyptalands stjórnari hefur látid mörg og stór herskip byggja“ og í Skírni 1843 segir: „Í ágústmánaði í firra sumar var birjað á að biggja tvær fjarskamiklar járnbrautir í Austurríkji“. Á 20. öld bætast svo við fjölmörg orð – „á nú að byggja til viðbótar 326 flugvélar og 10 stór loftskip“ segir í Morgunblaðinu 1914, og elsta dæmi um byggja flugvöll er úr Sovétvininum 1934: „Einnig ruddu þeir ísinn á stórum svæðum og byggðu »flugvelli«.“

Elsta dæmi sem ég hef fundið um byggja veg er í Víkverja 1874 þar sem segir: „hvergi á Suðurlandinu er neinum örðugleikum bundið að byggja vegi sem aka má vögnum á“. Um þær mundir var skipuleg vegagerð að hefjast á Íslandi og þetta orðalag virðist stafa af þeirri tilfinningu málnotenda að um einhvers konar „byggingu“ sé að ræða og orðið þá haft í merkingunni 'mannvirki' eða eitthvað slíkt. Þetta sést þegar orðin vegur og stígur eru borin saman. Á tímarit.is má finna a.m.k. tvö hundruð dæmi um sambandið leggja stíg, en aðeins fjögur um byggja stíg, öll frá seinustu árum.

Í þeim dæmum er um að ræða raunveruleg mannvirki, eins og sést á frásögn í Fréttablaðinu 2013 um framkvæmdir á Þingvöllum: „Verja eigi allt að 60 milljónum króna til að byggja stíga, palla og girðingar.“ Margir nýlegir stígar á Þingvöllum eru einmitt timburmannvirki. Svipað má segja um orðið slóð – allmörg dæmi eru um leggja slóð en engin um byggja slóð. Þetta er varla tilviljun heldur hlýtur að sýna að í máltilfinningu fólks eru hvorki stígar né slóðir neins konar byggingar, þótt vegir séu það samkvæmt máltilfinningu margra. Það er því ekki hægt að kenna fákunnáttu málnotenda um orðalagið byggja veg, heldur veitir það okkur innsýn í tilfinningu þeirra fyrir merkingu orða.

Á tímarit.is má finna þúsundir dæma frá síðustu tveimur öldum um að sögnin byggja sé notuð um ýmislegt sem ekki eru „byggingar“ í hefðbundnum skilningi. Það virðist ljóst að í máli mjög margra hefur sögnin víðari merkingu en kennt hefur verið og er notuð um margvísleg mannvirki og manngerða hluti. En sá greinarmunur sem málnotendur gera á vegum annars vegar og stígum og slóðum hins vegar er gott dæmi um að tilbrigði í máli eiga oft rætur í máltilfinningu sem ekki er endilega ástæða til að berja niður. Það er engin ástæða til að amast við því að tala um að byggja vegi eða byggja flugvelli.

Posted on

Þjóðfélagsbreytingar og málfar

Ég sé oft á Fésbók, m.a. í þessum hópi, að fólk furðar sig eða hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna. Það er alveg skiljanlegt – ég stend mig iðulega að því sjálfur að hrista hausinn yfir einhverju sem ég sé eða heyri í fréttum og brýtur í bága við það málfar og orðfæri sem ég þekki og ólst upp við. En ég er kominn á sjötugsaldur - alinn upp í sveit fyrir u.þ.b. hálfri öld. Það umhverfi sem blaðamenn (og annað fólk) á þrítugsaldri hafa alist upp í er gerólíkt – á nánast öllum sviðum. Samfélagið hefur gerbreyst, tæknin hefur gerbreyst, tengsl við útlönd hafa margfaldast - allt umhverfi okkar hefur breyst meira en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.

Og breytt þjóðfélag þýðir líka breytt málumhverfi og því fylgir breytt orðfæri – það þarf að tala um ótalmörg ný hugtök, fyrirbæri og svið þjóðlífsins, en ýmis hugtök, fyrirbæri og svið sem flestir þekktu fyrir nokkrum áratugum eru nú á fárra vörum eða jafnvel aðeins minning. Þess vegna er ekki við því að búast að fólk á þrítugsaldri hafi vald á öllu sama orðfæri og við sem munum tímana tvenna. Það hefur einfaldlega ekki fengið tækifæri til að tileinka sér það orðfæri sem tíðkaðist á ýmsum sviðum. En á móti kann þetta unga fólk að tala um allt mögulegt sem við höfum ekki hundsvit á.

Þetta þýðir ekki að við eigum bara að yppta öxlum og láta það afskiptalaust ef brugðið er út af málhefð, þótt rétt sé að hafa í huga að stundum er til önnur hefð en sú sem við þekkjum – hefðir geta verið mismunandi eftir landshlutum, og til getur verið eldri eða yngri hefð en sú sem við höfum vanist. Það er sjálfsagt að leitast við að halda í það orðfæri sem hefð er fyrir, og benda á ef út af bregður. En það er heppilegra að gera það í formi fræðslu og ábendinga en furðu og hneykslunar, þar sem jafnvel er gert lítið úr þeim sem verður eitthvað á að mati umvandara. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.