Posted on Færðu inn athugasemd

Kynjamál, valdið yfir tungumálinu – og maður

Víða erlendis hafa átök um vald yfir tungumálinu sett svip á baráttu kvenna og hinsegin fólks á undanförnum árum. Þessara átaka hefur líka gætt á Íslandi – jafnvel minni háttar tilburðir í átt til kynhlutleysis í máli eins og að skipta orðinu fiskimaður út fyrir fiskari í lagagrein, eða tala um starfsfólksfund í staðinn fyrir starfsmannafund, eða nota öll velkomin í auglýsingum frekar en allir velkomnir, eða búa til sérstakt íðorð (leghafi) til að hægt sé að vísa til allra sem eru með leg, eða óska eftir hugmyndum að kynhlutlausu orði um foreldri foreldra, hafa mætt mikilli andstöðu sem augljóslega á sér oft fremur kynjapólitískar rætur en málfræðilegar. Einn þáttur þessara átaka snýst um merkingu og notkun orðsins maður og samsetninga af því.

Orðið maður er langalgengasta nafnorðið í íslensku bæði að fornu og nýju, og merking þess er mjög fjölbreytt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar þrjár merkingar orðsins: (1) „karl eða kona, manneskja“ (dæmi: þróun mannsins); (2) „karlmaður“ (dæmi: hún sá mann ganga yfir götuna); og (3) „eiginmaður“ (dæmi: maðurinn hennar er læknir). Auk þess er maður sem óákveðið fornafn sérstakt flettiorð, í merkingunni „ótilgreind persóna, einhver; oft notað sem ópersónuleg tilvísun til þess sem talar“. Í Íslenskri orðabók er merkingu nafnorðsins maður lýst í átta liðum, auk þess sem fleirtalan menn og eignarfall eintölu manns eru sérstakar flettur. Einnig er maður gefið upp sem óákveðið fornafn eins og í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Í fornu máli gat maður bæði haft almenna og kynhlutlausa merkingu, „Menneske uden hensyn til Kjøn“, og einnig vísað til karlmanna eingöngu, „Mand, Mandsperson, mods. kona“, eins og segir í orðabók Fritzners. Fyrri merkingin er einkum algeng í lagamáli þótt hún komi vissulega fyrir víðar. Þegar í fornu máli eru þó dæmi um að maður sé notað sem andstæða við kona og þeim dæmum fer fjölgandi á seinni öldum. Á 19. og 20. öld er greinilegt að hinn eðlilegi og sjálfgefni skilningur á orðinu maður í vísun til tiltekinnar mannveru er ʻkarlmaðurʼ. Þótt almenna merkingin haldist enn við ákveðnar aðstæður, svo sem í lagamáli, virðist hún vera á undanhaldi, bæði vegna samfélagsbreytinga og meðvitaðrar málstýringar.

Það tvíeðli orðsins maður að vera tegundarheiti en vera jafnframt mjög oft notað í vísun til karlmanna eingöngu hefur lengi verið þyrnir í augum margra sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna, enda líta þau á það sem þátt í karllægni tungumálsins sem liti viðhorf okkar til kynjanna. Í baráttu Rauðsokkahreyfingarinnar upp úr 1970 var leitast við að draga úr henni með því að leggja aðaláherslu á almennu merkinguna, og eitt helsta kjörorðið var konur eru (líka) menn. Þessi barátta virðist þó ekki hafa haft mikil áhrif á mál­notkun og máltilfinningu almennings og undir 1990 tóku Kvennalistakonur upp nýja stefnu – vildu fremur leggja áherslu á sérstöðu kynjanna og þar með merkinguna ʻkarlmaðurʼ, og tala um menn og konur.

Þótt umræða um karllægni tungumála og tilraunir til að draga úr henni hafi verið áberandi víða erlendis undanfarin ár er deilan um orðið maður að miklu leyti séríslensk og því einkar forvitnileg. Þetta stafar af því að flest skyld tungumál, sem við þekkjum best og vitnum helst til, hafa mismunandi orð fyrir þau ólíku hlutverk sem orðið maður gegnir í íslensku. Í ensku merkir man yfirleitt ʻkarlmaðurʼ, en í almennu merkingunni er notað human (being), og one sem óákveðið fornafn. Í dönsku merkir mand venjulega ʻkarlmaðurʼ en í almennu merkingunni er notað menneske, og man eða én sem óákveðið fornafn. Í þýsku er Mann ʻkarlmaðurʼ en Mensch er notað í almennri merkingu, og sem óákveðið fornafn er notað man eða ein.

Í færeysku merkir maður bara ʻkarlmaðurʼ en í almennri merkingu er notað menniskja og mann eða ein sem óákveðið fornafn. Þar eru samsetningar með -maður algengar eins og í íslensku og mörgum hafa þótt þær óheppilegar vegna merkingar orðsins maður. Færeyska lögþingið samþykkti því vorið 2023 breytingar á „stýrisskipan“ Færeyja sem höfðu verið til umræðu í nokkur ár og gera ráð fyrir að -kvinna komi í stað -maður í starfsheitum í stjórnsýslunni þegar konur gegna störfunum – landsstýriskvinna, løgkvinna, løgtingsforkvinna og fleira. Í umræðu um þetta hefur m.a. verið nefnt að íslenska sé öðruvísi en færeyska í þessu tilliti. Páll á Reynatúgvu, løgtingsformaður, segir „at á hesum øki eru íslendingar púra avgjørdir, tí har siga tey, at »maður« er eitt heiti, sama um talan er um eina kvinnu ella um ein mann“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Maður og kona

Árið 1876 kom út skáldsagan Maður og kona eftir Jón Thoroddsen. Það er ljóst að sá titill hefði ekki verið notaður nema hefð væri komin á að nota orðin maður og kona sem andstæður á þennan hátt, og frá seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. má nefna nokkur dæmi sem sýna að hinn venjulegi skilningur á orðinu maður (í vísun til einstaklinga) var sá að það merkti 'karlmaður'. Árið 1863 fékk Vilhelmína nokkur Lever að kjósa í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að kjósa til sveitarstjórnar, allnokkrum árum áður en konur fengu þann rétt samkvæmt lögum. Talið er að þátttaka hennar í kosningunum hafi byggst á rangri þýðingu á reglugerð um kosningarnar, sem var frumsamin á dönsku.

Í íslensku þýðingunni sagði: „Kosningarétt hafa […] allir fullmyndugir menn, sem ekki eru öðrum háðir sem hjú, og hafa verið búfastir í kaupstaðnum síðasta árið, þegar þeir að minnsta kosti borga 2 ríkisdali í bæjar­gjöld á ári.“ Í danska frumtextanum stendur „Mænd“ sem þýtt var menn á íslensku – en mænd á dönsku þýðir 'karlmenn'. Þetta sýnir að fyrir flestum hafði íslenska orðið menn sömu merkingu, það er 'karl­menn'. Ekki er ólíklegt að Vilhelmína hafi farið fram á að fá að kjósa, með þeim rökum að konur væru líka menn, og að athuguðu máli hafi ekki þótt fært að neita því. En þetta bendir til þess að það hafi ekki hvarflað að þeim sem þýddu danskan texta reglugerðarinnar að menn gæti náð til kvenna.

Annað dæmi frá svipuðum tíma um venjulegan skilning á orðinu maður er úr upphaflegri gerð stjórnarskrár Íslands, þeirri sem Kristján níundi færði okkur 1874 þegar hann kom „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og Matthías Jochumsson orti. Þar er orðið maður, í ýmsum beygingarmyndum, notað samtals þrettán sinnum. Það er hins vegar athyglisvert að í engu þessara dæma er notað samsvarandi nafnorð í dönskum frumtexta stjórnarskrárinnar. Þar er oft óákveðið fornafn eða ábendingarfornafn í staðinn (Ingen, en Anden, Enhver, den), eða annað nafnorð (Borgerne). Stundum er setningagerðin líka önnur þannig að maður kemur ekki í stað neins eins orð í danska textanum. Því fer sem sagt fjarri að þýðingin sé orðrétt.

Í öllum dæmum um orðið maður liggur beint við að álykta að það hafi almenna merkingu, vísi bæði til karla og kvenna, eins og það gerir venjulega í íslensku lagamáli. En það er athyglisvert að orðið skuli notað í 57. grein, „Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins“ (leturbreyting mín), því að í danska textanum stendur „Enhver vaabenfør Mand“. Á þessum tíma var örugglega ekki gert ráð fyrir því að konur gripu til vopna og þess vegna er eðlilegt að Mand sé notað í frumtextanum, en að það skuli þýtt með maður sýnir að hinn almenni skilningur Íslendinga á því orði var að það merkti 'karlmaður'. Það verður því ekki betur séð en orðið maður sé notað í tveimur mismunandi merkingum í stjórnarskránni 1874.

Þriðja dæmið sem sýnir hið sama er úr Kvennablaði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur frá 1916 en þar segir: „Úr því minst er á fjárlögin, má geta þess, að á þeim er meðal annars veittur 4000 kr. styrkur hvort fjárhagsárið handa „ungum efnilegum mönnum til verklegs náms erlendis“. Samkvæmt íslenzkri málvenju eru konur líka menn, og gætu því „efnilegir ungir kvenmenn sótt um styrk af þessu fé til verklegs náms erlendis“. Ekki veitti þeim síður af styrknum. Fróðlegt væri að vita, hverju landsstjórnin svaraði slíkri umsókn.“ Það er aug­ljóst að höfundur telur þetta enga „málvenju“ – orðalagi fjárlaganna hafi ekki verið ætlað að ná til kvenna, og það muni koma flatt upp á stjórnvöld ef konur sækja um styrkinn með vísan til þess að þær séu menn.

Hér ber allt að sama brunni – merking orðsins maður á þessum tíma var ʻkarlmaðurʼ og hin almenna merking 'karlar og konur' víðsfjarri í huga flestra málnotenda. Í athugun Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur á sögukennslubókum frá fyrri hluta 20. aldar í Sögu 1996 kemur líka fram að orðið menn vísar þar langoftast eingöngu til karlmanna. Þótt Ugla í Atómstöð Halldórs Laxness frá 1948 segði „Ég vil kaupa mér kápu fyrir þá penínga sem ég hef unnið mér inn af því ég er maður“ og „Og konur eru líka menn“ sé haft eftir Laufeyju Valdimarsdóttur, kvenréttindakonu og dóttur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, var það ekki fyrr en með Rauðsokkunum kringum 1970 sem vígorðið „konur eru líka menn“ var sett á oddinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Um menn og fólk

Samsetningar með seinni liðnum -fólk, ekki síst íbúaheiti, virðast fara fyrir brjóstið á sumum – heitin Bandaríkjafólk og Palestínufólk hafa nýlega verið nefnd hér í tveimur innleggjum með augljósri vanþóknun. Vissulega er það rétt að venjan er að tala um Bandaríkjamenn og Palestínumenn – elsta dæmi um hið fyrrnefnda á tímarit.is er frá 1852, en um það síðarnefnda frá 1933. Um orðið Bandaríkjafólk eru aðeins 60 dæmi á tímarit.is og átta í Risamálheildinni, en það er þó orðið gamalt – elsta dæmi um það er frá 1893. Um orðið Palestínufólk eru kringum 70 dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1958. Aftur á móti eru 108 dæmi um Palestínufólk í Risamálheildinni þannig að notkun þess fer greinilega vaxandi á seinustu árum.

Þótt hvorki Bandaríkjafólk Palestínufólk séu nýmyndaðar samsetningar er vitanlega lítil hefð fyrir notkun þeirra og auðvitað er skiljanlegt þær hljómi framandi í eyrum margra sem telji því eðlilegra að nota áfram hin venjulegu heiti Bandaríkjamaður og Palestínumaður. Í umræðu um þetta var spurt hvort ekki væri eðlilegt framhald að fara að tala um Ísraelsfólk fremur en Ísraelsmenn. Því er til að svara að það er einmitt það sem var gert áður fyrr. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 er orðið Ísraelsmenn notað rúmlega 20 sinnum, en Ísraelsfólk nærri helmingi oftar – rúmlega 40 sinnum. Myndin Ísraelsfólk er enn töluvert notuð í Viðeyjarbiblíu frá 1841 en hefur verið útrýmt með öllu úr síðustu þýðingum Biblíunnar, frá 1981 og 2007.

Vitanlega verður fólk að eiga við sjálft sig hvaða orð það vill nota og sannarlega má ekki gera lítið úr málhefðinni. En fleira skiptir þó máli og hér finnst mér mikilvægt að hafa þrennt í huga. Í fyrsta lagi eru samsetningar með -fólk vitanlega góð og gild íslenska og fjölmargar slíkar algengar þegar í fornu máli. Í öðru lagi eru umrædd orð gömul í málinu en ekki nýmyndanir „góða fólksins“ og Ísraelsfólk virðist m.a.s. hafa verið aðalorðið áður fyrr. Í þriðja lagi er ljóst að samsetningar með -maður/-menn tengjast karlmönnum mun meira en konum í huga málnotenda eins og ég hef sýnt fram á með orðið Bandaríkjamaður. Í almennri kynhlutlausri vísun eru því samsetningar með -fólk heppilegri en samsetningar með -menn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það er ekkert rúm fyrir stærra rúmm

Í umræðum hér í dag um orðið fram bar framburð orðsins rúm á góma en þekkt er að það er oft borið fram með stuttu sérhljóði, rúmm. Ég veit ekki hversu gamall sá framburður er, en vísbendingar um hann má finna a.m.k. frá byrjun 20. aldar. Í Ísafold 1902 segir: „Herbergi með rúmmi og húsgögnum óskast til leigu nú þegar.“ Í Stefni 1903 segir: „Í svefnherberginu á að minnsta kosti einn gluggi að vera opinn nótt og dag, og láttu rúmmið standa á miðju gólfi.“ Í Íslendingi 1923 segir: „Hann lét leggja talsíma inn að rúmmi sínu.“ Í Nýjum kvöldvökum 1927 segir: „Kvað hann mig þurfa að halda kyrru fyrir, helst að liggja í rúmminu nokkra daga.“ Í Bræðrabandinu 1931 segir: „Því næst fór hún upp í rúmmið aftur og í sömu stellingar og fyr.“

Í Þjóðviljanum 1960 segir Árni Böðvarsson: „Og í orðinu rúm bera Norðlendingar fram stutt ú og langt m, eins og ritað væri rúmm. Það gera Sunnlendingar ekki.“ Og Árni bætir við: „Fyrir nokkrum áratugum var farið að nota orðmyndina gúm í stað gúmmí, og þótti hún fara betur í íslenzku. Sigurður Nordal prófessor hefur sagt mér að fyrir þeim mönnum sem vöktu þessa orðmynd til lífs hafi það vakað að hún yrði borin fram gúmm, alveg eins og Norðlendingar segja rúmm, þegar flestir aðrir landsmenn segja rúm (með löngu ú-i).“ Þótt ég sé Norðlendingur og hafi verið á máltökuskeiði þegar þetta var skrifað kannast ég ekki við framburðinn rúmm að norðan, en auðvitað gæti hann hafa þekkst annars staðar en í Skagafirði.

Ég hef hins vegar oft heyrt þennan framburð hér í Reykjavík og hann er mjög algengur í nútímamáli – í  Risamálheildinni eru a.m.k. þrjú þúsund dæmi um mm í beygingarmyndum orðsins rúm. En eins og lýst er Íslenskri nútímamálsorðabók hefur orðið ólíkar merkingar –'langt húsgagn með dýnu til að sofa í; pláss, rými; sá hluti tilverunnar sem menn skynja að hægt er að hreyfast í (á alla vegu), vídd' – og í umræðu um þetta kom Ásgeir Berg Matthíasson með góða ábendingu: „Ég tel mig bera „rúm“ fram mismunandi eftir því hver merkingin er. Allavega finnst mér eðlilegt að segja „rúmm“ þegar merkingin er sérstakt húsgagn sem sofið er á og „rúm“ í öðrum merkingum (t.d. „Skv. afstæðiskenningunni eru tími og rúm óaðskiljanleg“).“

Axel Kristinsson bætti svo við: „Einmitt. Orðið er þannig að skiptast í tvö orð með mismunandi merkingu og framburði en stafsetningin hangir í hefðinni og verður þannig óskýrari en talmálið.“ Ég nota ekki framburðinn rúmm og hef enga tilfinningu fyrir þessu en lausleg athugun í Risamálheildinni bendir til þess að fleiri hafi þá tilfinningu að rúmm sé aðeins notað um 'húsgagn til að sofa á' en ekki í öðrum merkingum orðsins. Þannig eru nánast engin dæmi með tveimur m-um í samböndunum tími og rúm eða rúm og tími, og ekki heldur í samböndum eins og rúm fyrir eitthvað. Þetta þyrfti vissulega að skoða miklu nánar, en það er mjög athyglisvert ef orðið rúm er þannig að klofna í tvennt eftir merkingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

TEAM-Iceland verður Afreksmiðstöð Íslands

Síðastliðið haust birtist á vef Stjórnarráðsins tilkynning frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“. Þar sagði: „TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.“ Á fleiri stöðum í tilkynningunni er svo talað um „TEAM-Iceland verkefnið“. Á sínum tíma var það gagnrýnt hér harðlega að ráðuneytið skyldi velja verkefni sínu heiti á ensku. Í skýringum ráðuneytisins á heitinu var sagt að TEAM-Iceland væri „fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum“ en sú skýring samræmdist á engan hátt notkun heitisins í umræddri tilkynningu um verkefnið þar sem heitið var margsinnis notað um starf innanlands.

Í gagnrýni minni lagði ég til að verkefninu yrði fundið íslenskt heiti, sem – í stíl við átakið Áfram íslenska – gæti t.d. heitið Áfram Ísland. Nú hefur umræddur starfshópur um íþrótta- og afreksmiðstöð skilað lokaskýrslu sinni sem heitir einmitt Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs. Þar er talað um Afreksmiðstöð Íslands en TEAM-Iceland aðeins nefnt á einum stað: „Margar þjóðir, sem sett hafa á fót afreksmiðstöðvar, nota heitið Team og nafn landsins, t.d. heitir afreksmiðstöð Danmerkur Team Danmark og afreksmiðstöð Eistlands notar heitið Team Estonia. Hópurinn telur mikilvægt að afreksmiðstöðin hafi íslenskt heiti en gerir ráð fyrir að alþjóðlegt heiti hennar verði Team Iceland í samræmi við framangreint.“

Það er vitanlega ekkert við það að athuga að Afreksmiðstöð Íslands eigi sér annað heiti sem notað er á alþjóðlegum vettvangi. Um slíkt eru fjölmörg dæmi, þótt reyndar vilji brenna við að erlenda heitið verði ofan á og sé einnig notað í íslensku samhengi. Nægir þar að nefna Icelandair sem lengi hét Flugleiðir á Íslandi þótt enska heitið væri notað annars, en nú hefur íslenska heitið verið aflagt. Vonandi verður raunin ekki sú í þessu tilviki að Team Iceland verði aðalheitið – en það er á ábyrgð okkar málnotenda að fylgjast með því og sjá til þess að svo verði ekki. En þetta dæmi sýnir að það skiptir máli og hefur áhrif að gera athugasemdir við óþarfa enskunotkun, og starfshópur ráðuneytisins á skilið hrós fyrir að taka gagnrýni til greina.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skýr skilaboð um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar

Fyrir rúmri viku vakti ég hér athygli á sakleysislegri fréttatilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðsins sama dag og greindi frá því að nokkrar ráðherranefndir hefðu verið lagðar niður, m.a. sérstök ráðherranefnd um íslenska tungu sem stofnuð var fyrir hálfu öðru ári og var m.a. ætlað að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Ég taldi þetta bera vott um minnkandi áhuga ríkisstjórnarinnar á íslenskri tungu. Þá brá svo við að forsætisráðherra blandaði sér í umræðuna og taldi þarna „dregnar miklar ályktanir af litlu tilefni“. Það er vitanlega ánægjuefni að forsætisráðherra taki þátt í umræðu um þessi mál þótt vissulega megi spyrja hvort hann hafi ekki mikilvægari málum að sinna en karpa á Facebook.

Forsætisráðherra sagði að því færi fjarri að niðurlagning ráðherranefndarinnar táknaði einhverja stefnubreytingu í málefnum íslenskunnar: „[S]taðreynd málsins er að allar ráðherranefndir falla niður við það að ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur fékk lausn. Við vorum að ákveða fyrir nýja ríkisstjórn hvaða ráðherranefndir myndu starfa. Fyrir utan þrjár lögboðnar var ákveðið að starfrækja ráðherranefnd um loftslagsmál og aðra um samræmingu mála. Í þessari síðarnefndu sé ég fyrir mér að við ræðum ýmis mál, m.a. mál íslenskrar tungu. Hin sérstaka ráðherranefnd um íslenska tungu hafði ef ég man rétt komið saman í fjögur skipti. Það eru engin þau straumhvörf að verða sem umræða á þessum þræði gefur til kynna. Bara alls ekki.“

Í grein sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði í Vísi á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2022 segir: „Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. […] Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. […] Í vikunni raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar að ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar.“ Það er því alveg ljóst að stofnun ráðherranefndarinnar átti að senda þau skilaboð til þjóðarinnar að ríkisstjórnin hygðist leggja aukna áherslu á málefni íslenskunnar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að túlka niðurlagningu nefndarinnar sem skilaboð um að þessi áhersla sé ekki lengur fyrir hendi.

En það var fleira athyglisvert í því sem forsætisráðherra skrifaði á áðurnefndum þræði. Hann sagðist vilja vekja athygli á því „að samhliða heildrænni nálgun á málefni útlendinga, sem kynnt var nýlega, var tryggt fjármagn í fjármálaáætlun sem getur gagnast í íslenskukennslu“. Þarna er vísað í það að í fjármálaáætlun segir: „Þá er alls gert ráð fyrir að 2,2 ma.kr. verði varið á fyrstu tveimur árum áætlunarinnar til að fylgja eftir aðgerðum sem ríkisstjórnin sammæltist um í málefnum útlendinga.“ Í umræddri aðgerðaáætlun er vissulega talað um að stórauka framboð af íslenskunámi, innleiða hvata til íslenskunáms, tryggja rétt innflytjenda til íslenskunáms og draga úr kostnaðarþátttöku þeirra, og auka aðgengi að starfstengdu íslenskunámi á vinnutíma.

Þetta er allt saman gott og blessað, en ég vek athygli á því að forsætisráðherra segir að þarna sé fé „sem getur gagnast í íslenskukennslu“ – ekki „sem verja skal til íslenskukennslu“. Það táknar auðvitað að ekkert fé er eyrnamerkt íslenskukennslu og megnið af því sem ætlað er til þessarar aðgerðaáætlunar gæti þess vegna farið í einhver önnur brýn úrlausnarefni á þessu sviði. Af þeim er nefnilega nóg eins og fram kemur í áætluninni þar sem talin eru upp mörg mjög fjárfrek verkefni. Eftir stendur því að þrátt fyrir fullyrðingar forsætisráðherra um annað sendir niðurlagning ráðherranefndar um íslenska tungu skýr skilaboð um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málinu, og engin aukning á fé til kennslu íslensku sem annars máls hefur verið tryggð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hátíðardagur og hátíðisdagur

Í Málvöndunarþættinum var spurt út í tvímyndirnar hátíðardagur og hátíðisdagur – hvort báðar séu réttar, og hvernig skýra megi þá síðari í ljósi þess að hátíð er kvenkynsorð sem er hátíðar í eignarfalli eintölu. Því er til að svara að báðar myndirnar koma fyrir í fornu máli og eru álíka algengar, á fjórða tug dæma um hvora um sig. Í nútímamáli er myndin hátíðisdagur mun algengari – um hana eru rúm 13 þúsund dæmi á tímarit.is en rúm fjögur þúsund um hátíðardagur. Í Risamálheildinni eru hlutföllin svipuð – rúm 4.250 dæmi um hátíðisdagur en tæp 1.400 dæmi um hátíðardagur. Það er því ljóst að báðar myndirnar hljóta að teljast rétt mál, enda segir Málfarsbankinn: „Bæði .kemur til greina að segja hátíðisdagur og hátíðardagur.“

Í Íslenskri orðsifjabók er orðið hátíð sagt líklega vera tökuorð eða þýðingarlán úr miðlágþýska orðinu hochtît (hochzeit í nútímaþýsku). Þegar tökuorð eru aðlöguð málinu getur oltið á ýmsu hvernig það er gert, t.d. hvaða kyn nafnorð fá. Það er ekki útilokað að myndin hátíði hafi eitthvað verið notuð þótt hátíð hafi vissulega alltaf verið aðalmyndin – a.m.k. eru nokkur orð í fornmáli með fyrri liðinn hátíðis- sem væri eðlilegt eignarfall af hvorugkynsorðinu hátíði. Orðið hátíði kemur þó aldrei fyrir sjálfstætt svo að öruggt sé – að vísu er hátíðis dagur oft skrifað í tvennu lagi í handritum en á því er ekki hægt að byggja því að samsett orð voru mjög oft skrifuð þannig áður fyrr – sama gildir t.d. um hátíðar dagur.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar kemur fram að eitt dæmi sé um hvorugkynsorðið hátíði ­– í Ljóðmælum Jóns Árnasonar á Víðimýri frá 1879. Örfá dæmi eru um hátíði á tímarit.is en þau gætu verið villur – sum þeirra koma fyrir í textum þar sem hátíð í kvenkyni kemur einnig fyrir. Nokkur önnur orð með fyrri liðinn hátíðis- koma einnig fyrir í nútímamáli. Í ljósi þess að kvenkynsorðið hátíð er mjög algengt en hvorugkynsorðið hátíði kemur nánast ekki fyrir (og svo sem ekki öruggt að það hafi nokkurn tíma verið til sem sjálfstætt orð) má virðast sérkennilegt að myndin hátíðisdagur skuli hafa orðið aðalmynd orðsins en ekki hátíðardagur. Það er þó ekkert einsdæmi að orð hagi sér öðruvísi í samsetningum en þegar þau standa ein sér.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hryðjuverk

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá því að maður vopnaður sverði hefði ráðist á fólk í London í morgun – drepið ungling og sært fjögur önnur. Á eftir atvikalýsingu var sagt: „Lögregla telur hættuna liðna hjá og árásin sé ekki hryðjuverk.“ Þótt ég hafi vissulega heyrt og séð svipað orðalag margoft áður kippist ég alltaf svolítið við, vegna þess að í því máli sem ég ólst upp við hefði slík árás einmitt fallið undir hryðjuverk. Það samræmist líka skýringu orðsins í Íslenskri orðabók: 'ódæðisverk, manndráp, limlesting.' Elstu dæmi um orðið eru frá 17. öld. Fyrri hluti þess er leiddur af nafnorðinu hroði ­og hryðjuverk er því eiginlega 'hroðalegt verk'. Áður fyrr var orðið notað um hvers kyns ódæði sem ekki yrðu öll kölluð hryðjuverk nú.

Í Ingólfi 1855 segir t.d. frá mönnum sem voru ákærðir fyrir að hafa „yfirfallið næturvörð bæjarins með höggum og slögum; við hver áflog nöglin rifnaði svo upp á þumalfingri næturvarðarins, að hún að eins lafði á lítilli taug“. Í dómsúrskurði sagði: „Um Guðmund varð að vísu ekki sannað með vissu, að hann persónulega hefði misþyrmt næturverðinum, og heldur voru líkur að því, að hann hefði otað Vigfúsi fram til hryðjuverkanna.“ Í Fjallkonunni 1889 er sagt frá kvennamorðum Jack the Ripper: „er helst haldið að einhver úr lögreglunni sjálfri sé valdr að þessum hryðjuverkum.“ Undir fyrirsögninni „Slysfarir og hryðjuverk“ í Ísafold 1892 segir m.a.: „Maður beit því nær nef af kvennmanni á Fagranesi á Reykjaströnd.“

Mjög oft eru hryðjuverk þó ekki einangruð ódæðisverk sem einstaklingar fremja heldur þáttur í stríðsátökum og framin af stærri hópi, oft óskilgreindum, eða jafnvel heilum þjóðum. Í Þjóðólfi 1863 segir: „Í Pólen hjarir uppreistnin enn, og hafa verið smábardagar, manndráp og hryðjuverk.“ Í Baldri 1869 segir: „Nú var farið að tala um hryðjuverk þau, sem unnin voru í borgarastyrjöldinni, og ránskap Karlunga.“ Í Norðanfara 1879 segir: „Níhílistar hefna sín með verstu hryðjuverkum og leggja eld í bæji, þar sem þeir koma því við.“ Fjallkonunni 1891 segir: „Borgarastríðið stendr enn þá, og eru ógurleg hryðjuverk framin daglega.“ Í Lögbergi 1895 segir: „Ennþá halda hryðjuverk Tyrkja og ofsóknir við kristna menn áfram í Armeníu.“

Á síðustu árum hefur merking orðsins hins vegar orðið sérhæfðari eins og skýring þess í Íslenskri nútímamálsorðabók sýnir: 'ódæðisverk sem framið er til að skapa ótta meðal fólks, eða til fá einhverjum pólitískum eða trúarlegum kröfum fullnægt.' Þessi sérhæfing orðsins er a.m.k. síðan um síðustu aldamót. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Alþjóðasambandið undirstrikar að dráp á einungis einni manneskju er ofbeldisverk sem skoða má sem hryðjuverk.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Líta yfirvöld á sprengjutilræðin sem hryðjuverk.“ Í DV 2002 segir: „Þar sem enn er deilt um hvernig skilgreina skuli hugtakið „terroristi“ eða „hryðjuverkamaður“ er mikil hætta á að friðsamlegar aðgerðir fólks verði skilgreindar sem „hryðjuverk“.“

Orðið hryðjuverk hefur því í raun verið gert að eins konar íðorði og notað sem þýðing á (act of) terrorism í ensku. Skilgreining þess fer því ekki eingöngu eftir eðli verknaðarins heldur einnig ástæðu hans og það þýðir að tiltekið ódæðisverk getur ýmist talist hryðjuverk eða ekki, eftir því hvað liggur að baki. Vegna þess að ódæðið sem sagt var frá í upphafi virðist hafa verið einangraður tilfallandi atburður en ekki á vegum einhverra pólitískra samtaka eða í pólitískum tilgangi er það ekki talið hryðjuverk. Það er í sjálfu sér gagnlegt að hafa sérstakt orð yfir ódæði af þessu tagi og ekki illa til fundið að nýta orðið hryðjuverk í þeim tilgangi, þótt það geti stundum verið svolítið ruglandi fyrir þau sem ólust upp við almennari merkingu orðsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Neðan úr loftinu

Í dag var hér bent á að stundum væri sagt ljósakrónan hangir neðan úr loftinu sem væri undarlegt þar sem neðan þýddi 'upp', sbr. koma neðan úr kjallara. Fyrirspyrjandi taldi sig sjá þetta og heyra æ oftar og velti fyrir sér hvernig stæði á þessum misskilningi. Það er rétt að í fljótu bragði virðist þetta ekki samræmast venjulegri merkingu forsetningarinnar/atviksorðsins neðan eins og henni er lýst í orðabókum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er neðan skýrt 'fyrir neðan eitthvað, neðan við eitthvað' og í Íslenskri orðabók '(um hreyfingu frá lægri stað til hærri) upp', (koma að neðan) 'um það sem er lægra eða undir e-u' (neðan bæjarins) og '(í sambandi við ao. eða fs.) á lægri stað en e-ð annað' (neðan undir klettinum, fyrir neðan bæinn).

Í öllum þessum merkingartilbrigðum er vísað til hreyfingar. En neðan getur líka vísað til kyrrstöðu, í merkingunni 'neðri hluti', 'neðra borð' – í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið að neðan sjálfstæð fletta og skýrt m.a. 'að neðanverðu' og í Íslenskri orðabók er neðan til, að neðan skýrt á sama hátt. Í Blöndu 1923 segir: „Hún var altaf í karlmannafötum, buxum að neðan auðvitað.“ Í Eimreiðinni 1937 segir: „Einn félaganna fór þó yfir hana á þann hátt, að hann fór úr fötum að neðan og óð.“ Í Iðunni 1860 segir: „Öll er pentskript þessi neðan á loptinu óskemmd enn í dag.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir  „Pönnukökupannan er hituð og kökurnar bakaðar við góðan hita þar til komnir eru svartir flekkir neðan á þær.“

Sambandið neðan úr loftinu er ekki óeðlilegt út frá þessu – það merkir í raun 'úr loftinu að neðan, úr neðra borði loftsins'. Sambandið hefur líka tíðkast lengi – elsta dæmið er í Þjóðólfi 1909: „bróðir hans kom skríðandi niður kaðalinn, er hékk neðan úr loptinu.“ Í Morgunblaðinu 1940 segir: „Þar rak jeg augun í eitthvað mjer alveg óþekt, sem hekk neðan úr loftinu.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Köngurlóavefir hjengu neðan úr loftinu, þykkt ryklag var á gólfinu.“ Alls eru hátt í hundrað dæmi um neðan úr loftinu á tímarit.is og um fjörutíu í Risamálheildinni. Þótt neðan vísi vissulega langoftast til hreyfingar er engin hætta á misskilningi í þessu tilviki – neðan úr loftinu gæti ekki merkt neitt annað en það gerir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Há hálsbólga?

Nýlega birtist á vef Ríkisútvarpsins frétt með fyrirsögninni „Lægsta verðbólga á Íslandi í rúm tvö ár“. Í tilefni af því var spurt í Málvöndunarþættinum: „Getur hálsbólga líka lækkað og hækkað?“ Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlileg spurning – með orðinu bólga einu og sér, sem og samsetningum með það sem seinni lið svo sem hálsbólga, lungnabólga, heilahimnubólga, blöðrubólga, eyrnabólga, júgurbólga o.m.fl., standa yfirleitt önnur lýsingarorð en hár og lágur, og aðrar sagnir en hækka og lækka. Algengast er að tala um að bólga sé mikil og vaxi eða aukist eða versni, eða lítil og minnki eða batni – þegar um útvortis bólgu er að ræða er oft talað um að hún hjaðni. En verðbólga er vissulega annars eðlis og ekki undarlegt að hún hagi sér öðruvísi.

Eins og Jón Hilmar Jónsson hefur rakið í ágætri grein á Vísindavefnum er elsta dæmi um orðið verðbólga í ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu á Alþingi árið 1927 þar sem hann eignar Jóni Þorlákssyni forsætisráðherra orðið. Það var þó ekki fyrr en undir 1940 að orðið varð algengt og þá fara að sjást með því ýmis lýsingarorð og sagnir. Elsta dæmi um mikil verðbólga er frá 1940, um lítil verðbólga frá 1946, um verðbólga vex frá 1941, um verðbólga hjaðnar frá 1940, um verðbólga eyst frá 1942, um verðbólga minnkar frá 1944. Það er því ljóst að framan af voru notuð sömu lýsingarorð og sagnir með orðinu verðbólga og með öðrum samsetningum af -bólga. Þetta virðist ekki hafa farið að breytast að ráði fyrr en á áttunda áratugnum.

Í umræðum í Málvöndunarþættinum benti Einar Ólafsson á lykilatriði málsins: „Ef hálsbólgan væri mæld og gefin upp í tölum eins og verðbólga“ væri eðlilegt að nota um hana lýsingarorðin hár og lágur, og sagnirnar hækka og lækka. Elsta dæmi um sambandið há verðbólga er frá 1974, um lág verðbólga frá 1970. Fáein dæmi eru um lækka og hækka með verðbólga frá því á fimmta áratugnum en þessi sambönd fara ekki að sjást að ráði fyrr en eftir 1970. Það er einmitt um svipað leyti sem farið er að tala um verðbólgumælingar. Elsta dæmi um það á tímarit.is er að vísu frá 1959, en annars sjást ekki dæmi fyrr en á áttunda áratugnum – verðbólga mæld 1972, verðbólga mælist 1974, verðbólgumæling 1974, mæla verðbólgu 1979, o.s.frv.

Það er því ekki vafi á að þetta hangir saman – mælingar valda breyttri notkun lýsingarorða og sagna. Það þýðir samt ekki að hætt sé að nota önnur lýsingarorð og sagnir með orðinu verðbólga. Þvert á móti – í Risamálheildinni eru almennu lýsingarorðin og sagnirnar, þau sem notuð eru með öðrum -bólgu-orðum, yfirleitt talsvert algengari en þau „sérhæfðu“, hár og lágur, hækka og lækka – eina undantekningin er sú að lág verðbólga er talsvert algengara en lítil verðbólga. En þetta dæmi sýnir annars vegar að þótt orð hafi sama seinni lið þýðir það ekki endilega að þau taki með sér sömu sagnir og lýsingarorð, og hins vegar að þótt merking orðins verðbólga hafi ekki breyst hafa breytingar á notkun þess áhrif á orðin sem það tekur með sér.