Posted on Færðu inn athugasemd

Að negla boltann eða negla boltanum

Það er vel þekkt að íþróttamál er sérstakt um margt, einkum í orðafari og setningagerð. Í dag fékk ég spurningu um fallstjórn sagna sem notaðar eru í fótboltamáli, eins og negla, flengja og hreinsa. Í fyrirspurninni sagði: „Þessar sagnir taka venjulega með sér þolfall en í knattspyrnu er talað um að „negla boltanum í netið“ og „flengja boltanum fyrir markið“. Það er svo til beggja blands hvort fólk segir „hreinsa boltann í burtu“ eða „hreinsa boltanum frá marki“.“ Fyrirspyrjandi vildi svo forvitnast um hvort ég kynni einhverja skýringu á þágufallinu með þessum sögnum, og hvort ég hefði skoðun á því hvort ætti að nota þolfall eða þágufall í samböndum eins og hreinsa boltann frá marki eða hreinsa boltanum frá marki.

Því er til að svara að þágufall með negla í íþróttamáli er vel þekkt. Jón G. Friðjónsson skrifaði um þetta í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 og sagði: „Vafalaust eru allir sammála um að við segjum: negla naglann enda er andlagið þar beint. Í máli íþróttamanna ber hins vegar oft við að talað er um að ?negla knettinum/boltanum, t.d.: hann þarf ekki annað en negla boltanum á markið […]. Hér væri eðlilegt og í samræmi við málkerfið að segja negla knöttinn/boltann (í mark). Skýringin á þessu nýmæli blasir við, sögnin skjóta e-u/boltanum hefur áhrif á notkun sagnarinnar negla, sbr. einnig samböndin þruma/(þrusa) boltanum og dúndra boltanum [< d. dundre]. Af sama meiði er notkunin ?hamra knettinum.“

Sagnirnar negla og hamra, sem Jón G. Friðjónsson nefndi, og flengja og hreinsa, sem fyrirspyrjandi nefndi, taka allar með sér þolfall frá fornu fari, og það gera þær líka í eldri dæmum með bolti og knöttur. Elsta dæmi um negla boltann/knöttinn á tímarit.is er frá 1947, um hamra með þolfalli frá 1961, um hreinsa með þolfalli frá 1972, og um flengja með þolfalli frá 1974. Þágufallsdæmin eru í öllum tilvikum yngri – elsta dæmi um negla boltanum/knettinum er frá 1978, um hamra með þágufalli frá 1975, um hreinsa með þágufalli frá 2000, og um flengja með þágufalli frá 2003. Það er ljóst að þágufallið hefur smám saman verið að koma inn og tíðni þess að aukast á síðustu fimmtíu árum en þolfallið tíðkast þó enn með þessum sögnum.

Í rannsóknarverkefninu „Tilbrigði í íslenskri setningagerð“ sem Höskuldur Þráinsson stýrði á árunum upp úr 2005 var fólk á ýmsum aldri beðið að meta setningarnar Sóknarmaðurinn negldi boltanum í netið og Hún negldi boltann í markið af löngu færi. Niðurstaðan var sú að mikill meirihluti þátttakenda samþykkti báðar gerðirnar, bæði þolfall og þágufall, en hlutfall þeirra sem samþykktu þágufall var þó mun hærra hjá yngstu hópunum. Í Risamálheildinni er þágufallið yfirgnæfandi – um 60 dæmi um þolfallið en nærri hálft sjötta hundrað um þágufallið. Hlutfallið er öfugt með hamra – þar er hátt á sjöunda hundrað dæma um þolfallið en 330 um þágufallið. Þolfallsdæmi um hreinsa eru 600 en þágufallsdæmi tæp 70 – en flengja er sjaldgæf.

En sumar sagnir af þessu tagi taka ævinlega með sér þágufall, eins og dúndra, þruma og þrusa sem Jón G. Friðjónsson nefnir. Elsta dæmi um dúndra bolta/knetti á tímarit.is er frá 1951, elsta dæmi um þruma frá 1955, og elsta dæmi um þrusa frá 1979. Auk þess má nefna þrykkja sem kemur fyrir í texta Ómars Ragnarssonar um Jóa útherja frá 1969. Sú sögn er gömul í málinu í merkingunni 'prenta (e-ð/á e-ð)' og stýrir þá þolfalli, en í setningum eins og þrykkja boltanum í markið (netið) sem gefin er í Íslenskri orðabók og skýrð 'skora með föstu skoti á stuttu færi' tekur hún ævinlega þágufall. Það sem er sameiginlegt með öllum þessum sögnum er að þegar þær eru notaðar í íþróttamáli vísa þær til snöggrar og kraftmikillar hreyfingar.

Eins og Jón G. Friðjónsson nefnir er líklegt að sagnir eins og skjóta, þruma, þrusa og dúndra sem alltaf taka með sér þágufall hafi áhrif á sagnir sem notaðar eru í svipaðri merkingu og áður tóku með sér þolfall – negla, hamra, flengja, hreinsa og skalla, sem stöku sinnum kemur fyrir með þágufalli. En það er samt rétt að hafa í huga að fallstjórn þessara sagna breytist ekki í öðru samhengi og því er ljóst að málnotendur tengja ákveðna merkingu við þágufallið. Jón segir: „Þeir sem kjósa að nota sögnina hamra í nýrri merkingu ('skjóta (knetti) fast') ættu að virða málvenjuna og hamra knöttinn/boltann.“ En þarna hefur undanfarið skapast ný og regluleg málvenja um notkun þágufalls í tiltekinni merkingu – engin ástæða er til að amast við henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gír

Nafnorðið gír er skýrt 'gangur, stig, vinnslustig í tannhjólakerfi við vél til að færa út átak, breyta hraða eða stefnu, einkum í farartækjum' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi um það á tímarit.is er úr þýddri sögu eftir Arthur Conan Doyle í Rökkri 1923: „„Gírunum“ er öðruvísi fyrirkomið í þessum bíl en þeim gamla.“ Við orðið gírunum er neðanmálsgrein þar sem segir: „Nýyrði. Í raun réttri orðrétt þýðing af enska orðinu “gear”. Mun þýðandi sögu þessarar ekki harma, þó það falli í gleymskudá, ef annað orð býðst og betra.“ Þetta dæmi sýnir ekki kyn orðsins, en seinna í sögunni kemur fram að það er haft í hvorugkyni, gírið: „Eg hafði ekið með fullum hraða og ætlaði að færa til gírsprotana, svo meðalhraðagírið tæki við af stórhraðagíri.“

Í greininni „Um nýyrði í tæknimáli“ í Skírni 1962 segir Steingrímur Jónsson: „Af orðanefnd V.F.Í. var lagt til, að í vélfræðinni yrði tekið upp orðið gír fyrir enska orðið gear og notuð hvorugkynsmyndin, gírið. Nokkrum árum síðar komst þetta orð inn í bílamálið, en var þá notað karlkyns, gírinn, og virðist það hafa náð fótfestu á þessu sviði, enda þótt ætla mætti, að hvorugkynsmyndin þætti viðfelldnari.“ En í raun virðist orðið alltaf hafa verið haft í hvorugkyni framan af og það er ekki fyrr en seint á fjórða áratugnum sem karlkynið fer að ryðja sér til rúms. Ekki er ljóst hvers vegna gír skipti um kyn en hugsanlega má rekja það til áhrifa annarra karlkynsorða með sömu stofngerð, einkum vír – önnur eru sjaldgæf, eins og fír (eða fýr) og tír.

Elsta dæmi um karlkynið er í Morgunblaðinu 1938: „Við rannsókn kom í ljós að gangvjelin stóð í öðrum gír.“ Karlkynið náði fljótt yfirhöndinni en hvorugkynið sést þó stöku sinnum fram á sjötta áratuginn og er t.d. notað í Bókinni um bílinn eftir Axel Rönning frá 1952. Í Vísi 1955 segir: „Bílstjórinn skipti á annað „gír“ í snatri og sneri bílnum bókstaflega „á blettinum“.“ Ekki má svo gleyma Bjössa á mjólkurbílnum sem „stígur bensínið / í botn á fyrsta gíri“ eins og segir í texta Lofts Guðmundssonar frá 1954. Þar er að vísu ekki hægt að fullyrða um kynið en gír virðist yfirleitt ekki fá -i-endingu í þágufalli eintölu þegar það er í karlkyni. Aftur á móti fá sterk hvorugkynsorð undantekningarlaust -i í þágufalli þannig að sennilega er þetta hvorugkyn.

Orðið gír hefur getið af sér ýmis orðasambönd sem notuð eru sem líkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gefið sambandið skipta um gír í merkingunni 'breyta vinnuhraða, koma sér í annan ham, breyta lífsháttum sínum' og Jón G. Friðjónsson nefnir það einnig í Merg málsins. Elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1965: „Það getur stundum verið erfitt að skipta um gír, eins og ég kalla það í samskiptum við fólkið, að fara í skyndingu úr gleði þess inn í sorg, eða úr sorg í gleði.“ Elsta dæmi um skipta um gír í merkingunni 'stórauka hraðann' er í Tímanum 1968: „það hefði verið líkast því sem Hemery hefði skipt um gír, þegar hann kom á beinu brautina, og geystist framúr öðrum hlaupurum og kom langfyrstur í mark.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nefnt sambandið komast í gírinn í merkingunni 'komast í rétta stemmningu eða hugarástand'. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Helgarpóstinum 1983: „þá neyðist hann til að verja persónuna og kemst í gír og grínið fúnkerar alveg prýðisvel.“ Annað dæmi er í Helgarpóstinum 1986: „Hann var kominn í gír, í hópi efstu manna og virtist til alls líklegur.“ Örfá dæmi eru um þetta samband fram að aldamótum en þá verður það skyndilega algengt – yfir þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni. Sambandið koma sér í gír(inn) sést fyrst í Morgunblaðinu 1998: „hann vonaði að svartsýnin sem honum hefði fundist svo ríkjandi væri bara aðferð Eyjamann til að koma sér í gír.“ Um það eru um 500 dæmi í Risamálheildinni.

Í Merg málsins nefnir Jón G. Friðjónsson einnig sambandið í góðum gír sem merkir 'í góðu formi, í góðu skapi, á góðu róli, í góðu lagi' eða eitthvað slíkt. Elsta dæmið um þetta samband er í Helgarpóstinum 1986: „Í stóra salnum situr sparibúinn hópur á vegum eins ráðuneytisins að halda upp á merkisafmæli. „Fram, fram fylking!“ syngja þau í góðum gír.“ Annað dæmi er í DV 1992: „Þetta er allt saman í góðum gír og lítur vel út.“ Stundum virðist sambandið jafnvel notað sem skrauthvörf í merkingunni 'undir áhrifum áfengis' eins og í Morgunblaðinu 2008: „Þá fékk hann sér örlítið í tána, leið vel, var kátur og í góðum gír.“ Sambandið varð mjög algengt á tíunda áratugnum og í Risamálheildinni er hátt á þriðja þúsund dæma um það.

Orðið -gír er líka notað sem seinni liður ýmissa samsetninga, í merkingunni 'skap, hugarástand' eða eitthvað slíkt. Þessi orð eru oftast notuð með greini, í samböndum eins komast í X-gírinn, fara í X-gírinn, vera í X-gírnum o.þ.h. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í Tímanum 1948: „Stjórnarvagninn er ennþá í dýrtíðarfeninu, þrátt fyrir það, þó hann hafi verið settur í framsóknar-„gírinn“.“ En algengasta orðið af þessu tagi er líklega jólagírinn – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1997, en 450 dæmi eru um það í Risamálheildinni. Alls eru hátt í þúsund slík orð í Risamálheildinni, um flest bara eitt dæmi. Algengust eru sumargírinn, kosningagírinn, helgargírinn, fórnarlambsgírinn, föstudagsgírinn, keppnisgírinn og dansgírinn.

Af nafnorðinu gír er leidd sögnin gíra sem einnig kemur fram í líkingum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gefið sambandið gíra sig upp í merkingunni 'setja sig í gírinn, koma sér í rétt ástand'. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1986: „Nú sé ég fyrir mér að einhverjir gíra sig upp í vandlætingu.“ Sambandið var frekar sjaldgæft fram að aldamótum en í Risamálheildinni eru 1500 dæmi um það. Einnig er til sambandið gíra sig niður sem merkir 'hægja á sér, rifa seglin'. Elsta dæmi um það er í Lesbók Morgunblaðsins 1981: „Aftur á móti er ennþá verið að gíra sig niður.“ Þetta samband var nokkuð notað á tíunda áratugnum en er mun sjaldgæfara en gíra sig upp – í Risamálheildinni eru tæp 200 dæmi um það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Móari

Í nýlegum úrskurði mannanafnanefndar var nafninu Móari hafnað á þeim forsendum að það sé „samnafn, nánar tiltekið íbúaheiti, þ.e. Móari er sá sem býr eða á rætur að rekja til bæjarins Ysta-Móa í Fljótum“. Síðan segir: „Íbúaheiti hafa ekki verið notuð sem eiginnöfn og nöfn af því tagi eru ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli og brjóta gegn íslensku málkerfi. Er því ekki unnt að fallast á eiginnafnið Móari.“ Það er reyndar ekki traustvekjandi að ekki er farið rétt með nafn bæjarins, sem heitir Ysti-Mór, ekki Ysti-Mói – einnig eru til Mið-Mór og Syðsti-Mór. Nú má vera að eitthvað hafi verið talað um Móara en þótt ég sé Skagfirðingur hef ég aldrei heyrt það – og engin dæmi eru um það á netinu a.m.k.

Það er því ákaflega hæpið að banna mannsnafnið Móari á þeim forsendum að um íbúaheiti sé að ræða auk þess sem fordæmi eru fyrir nöfnum dregnum af íbúa- og staðaheitum, svo sem Aðalvíkingur og Reykdal. Telji mannanafnanefnd nafnið Móari „ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli og brjóta gegn íslensku málkerfi“ hefði hins vegar komið til greina að vísa til þess að ekki er hefð fyrir viðskeytinu -ari í mannanöfnum. En hvað sem því líður er óheppilegt að hafna nöfnum sem eru óumdeilanlega af íslenskum rótum um leið og verið er að samþykkja (réttilega) fjöldann allan af erlendum nöfnum. Þetta er enn eitt dæmi um þær ógöngur sem mannanafnanefnd leiðist út í við að framfylgja óskýrum og úreltum lögum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að renna út á tíma

Orðalagið renna út á tíma bar hér á góma í morgun og var vísað í blogg Ómars Ragnarssonar sem segir að þetta sé „enska eða enskuskotin íslenska“. Gagnrýni á þetta orðasamband er ekki ný af nálinni – Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 2001: „,,Að renna út á tíma“ er afkáraleg stæling úr ensku um það að komast í tímaþröng, tímahrak.“ Elsta dæmi sem ég finn um renna út á tíma er í Alþýðublaðinu 1988: „Við vorum að renna út á tíma, urðum að svara fyrir 15. febrúar hvort forkaupsrétturinn yrði nýttur eða ekki.“ Í ræðu á Alþingi 1988 segir: „Virðulegur forseti, er ég að renna út á tíma?“ Í DV 1989 segir: „Þeir halda því fram að verslunin takmarki framboð á íslenskum bjór til þess að tryggja sölu á erlendum bjór sem er að renna út á tíma.“

Það er trúlega rétt að þetta orðalag sé ættað úr run out of time í ensku, en það er ekki næg ástæða til að fordæma það því að samband sagnarinnar renna, atviksorðsins út og nafnorðsins tími er gamalt í málinu. Í Skírni 1886 segir: „Sá tími rann út, meðan Tórýmenn voru við stjórnina.“ Í Aldamótum 1893 segir: „tími leiptursins og jarðskjálptanna var runninn út.“ Í Ísafold 1897 segir: „svo að hann standi snauður og afrekalaus, þegar tíminn rennur út.“ Í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1858 segir: „er 5 ára tími sá, sem skipið var leigt um, útrunninn 1. apríl.“ Í Þjóðólfi 1860 segir: „voru mennirnir með peningana ókomnir að sunnan, og sá tími útrunnin sem þeirra var von.“ Í Þjóðólfi 1864 segir: „Hér stóð nú kálfrinn í kúnni, og vopnahléstíminn útrunninn.“

Í bloggi sínu vísar Ómar í orðalagið falla á tíma úr skákmáli og hugnast það betur en renna út á tíma sem hann segir „á góðri leið með að ryðja notkun íslenskra orða, svo sem „að falla á tíma““. Orðalagið falla á tíma virðist reyndar ekki vera mjög gamalt – elstu dæmi sem ég finn um það eru frá miðjum sjötta áratugnum og spurningin er hvort það er eitthvað síður sniðið að ensku. Þetta heitir á ensku flag fall sem vísar til þess að „flaggið“, litli rauði vísirinn á (gamaldags) skákklukku, fellur þegar tíminn er úti. Ástæðan fyrir því að sögnin falla er notuð í íslenska sambandinu er væntanlega sú að fall er notuð í því enska. En hvað sem upprunanum líður er ljóst að ekki er hægt að nota falla á tíma í öllum merkingum sem renna út á tíma hefur.

Eins og dæmin sýna er það ekki eingöngu notað um að komast í tímaþröng eins og Gísli Jónsson nefndi, heldur einnig um það þegar eitthvað er að verða úrelt – útrunnið. En það er líka notað þegar tími sem er gefinn til að ljúka einhverju rennur út án þess að nokkuð sé aðhafst, eins og dæmið „Aðgerðin rann út á tíma“ úr áðurnefndu bloggi Ómars sýnir. Dæmum um sambandið renna út á tíma hefur fjölgað ört síðan um miðjan tíunda áratuginn og alls eru rúm 700 dæmi um það í Risamálheildinni, þar af tæp 400 úr öðrum textum en af samfélagsmiðlum. Sambandið er því greinilega orðið fast bæði í formlegu og óformlegu málsniði og ég sé enga ástæðu til að amast við því enda löng hefð fyrir því að tengja renna og tíma saman eins og áður segir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Var hún útskúfuð eða henni útskúfað?

Í gær var hér spurt út í orðalag hliðstætt því sem sjá mátt í fyrirsögn í DV í gær, „Guðbjörgu var útskúfað“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa alist upp við að nota nefnifall í slíkum dæmum – sé það gert er setningin Guðbjörg var útskúfuð – og spurði hvort annað væri réttara en hitt. Því er fljótsvarað að hvort tveggja er rétt. Vissulega er enginn vafi á að sögnin útskúfa stýrir þágufalli eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem notkunardæmið er menntamenn hafa útskúfað honum úr sínum hópi og þess vegna mætti búast við þágufalli í sambandinu var útskúfað. Þágufall á andlagi helst þótt andlagið sé gert að frumlagi í þolmyndarsetningu –  einhver hjálpaði henni í germynd verður henni var hjálpað í þolmynd, ekki *hún var hjálpuð.

Það má vissulega finna gömul dæmi um þágufall í þolmynd af útskúfa – í Austra 1887 segir: „Hvers á hinn fagri og kjarngóði sálmur séra Kristjáns Jóhannssonar […] að gjalda, að honum er útskúfað í Nb.?“ Í Sameiningunni 1887 segir: „Ekki ein rödd heyrist nú, sem mælir á móti því, að honum sé útskúfað, sem áðr var tilbeðinn af svo mörgum.“ En eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á eru einnig til gömul dæmi um nefnifall – Jón sýnir dæmi allt frá 14. öld, en elsta dæmi um nefnifallið á tímarit.is er í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „forfeður vorir kendu það umbrotum ins bundna jötuns, sem fyrir ílsku sakir var útskúfaður úr félagi guðanna.“ Í Nýrri sumargjöf 1859 segir: „Sönn að sök, útskúfuð og fyrirdæmd um tíma og eylífð.“

Það má skýra nefnifallið með því að útskúfaður getur verið lýsingarorðssagnfylling frekar en lýsingarháttur þátíðar, eins og Jón bendir á, og þá er hún var útskúfuð ekki þolmynd þótt henni var útskúfað sé það. Þolmyndin lýsir athöfn og hægt er að tilgreina geranda í forsetningarlið – henni var útskúfað af fjölskyldunni. Aftur á móti er hún var útskúfuð germynd, lýsir ástandi. Jón G. Friðjónsson segir: „Ég tel ekki efni til að telja fortakslaust að annað afbrigðið sé réttara en hitt“ og undir það má taka, enda er þetta hliðstætt við ýmsar fleiri sagnir sem hér hefur verið skrifað um, t.d. bjóða þar sem boðinn er lýsingarháttur þátíðar í mér var boðið í mat en lýsingarorðssagnfylling í ég var boðinn í mat.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fjöldi Sómala sem eru búsettir á Íslandi

Í morgun var hér vitnað í setninguna „fjöldi Sómala sem eru búsettir á Íslandi“ og spurt hvort rétt væri að nota fleirtöluna eru búsettir frekar en láta eintöluorðið fjöldi ráða sambeygingunni og skrifa er búsettur. Þessi setning leynir dálítið á sér því að þarna er tilvísunarsetning, sem eru búsettir á Íslandi, og tvö nafnorð sem hún gæti tengst – annars vegar fjöldi og hins vegar Sómala. Ef hún tengist eintöluorðinu fjöldi ætti það orð að ráða sambeygingunni og þá fáum við eintölu, en ef hún tengist Sómala sem er fleirtala ættum við að fá fleirtölu. Í þessu tilviki finnst mér eðlilegt að líta svo á að verið sé að vísa til Sómala sem einstaklinga og tilvísunarsetningin tengist því orði, og setningin sé því rétt eins og hún er tilfærð, með fleirtölu.

Öðru máli gegnir hins vegar ef frumlag setningarinnar væri hópur Sómala frekar en fjöldi Sómala. Það væri t.d. eðlilegt að segja hópur Sómala sem er búsettur á Íslandi efndi til mótmæla vegna þess að þar er vísað til Sómalanna sem heildar – hóps. Þá er tilvísunarsetningin skilin þannig að hún tengist hópur frekar en Sómala og því er notuð eintala í henni – er búsettur. En vissulega er hugsanlegt að skilja báðar setningarnar, bæði með fjöldi og hópur, á tvo vegu – frá setningafræðilegu sjónarmiði getur tilvísunarsetningin tengst hvoru nafnorðinu sem er.Það kemur alveg til greina að segja fjöldi Sómala sem er búsettur á Íslandi og hópur Sómala sem eru búsettir á Íslandi – mér finnst það bara ekki eins eðlilegt. En það er ekki rangt.

Hins vegar kom fram í umræðum að mörgum fannst að þarna hlyti að eiga að vera eintala – fjöldi Sómala sem er búsettur á Íslandi. Mér finnst ekki ólíklegt að þar spili ofvöndun inn í og fólk blandi þessu saman við dæmi án tilvísunarsetningar eins og fjöldi Sómala eru búsettir á Íslandi – við erum vön því að vera vöruð við slíkum dæmum, eins og t.d. í Málfarsbankanum sem segir: „Orðið fjöldi vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Fjöldi skipa fékk góðan afla (ekki: „fjöldi skipa fengu góðan afla“).“ En eins og ég hef áður bent á hefur merkingarleg sambeyging þar sem notuð er fleirtala með orðinu fjöldi tíðkast í málinu allar götur síðan í fornmáli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska – tvítyngi – fjöltyngi

Ég var að koma af sérlega áhugaverðu málþingi með ofangreindu heiti, og undirtitlinum „Hlutverk og ábyrgð skólans í íslenskukennslu“. Þar voru flutt mjög fróðleg erindi þar sem m.a. var staðfest það sem ég hef oft skrifað um hér: Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af börnum af erlendum uppruna sem alast upp á Íslandi um þessar mundir. Til að eiga jafna möguleika og börn íslenskra foreldra verða þau að ná góðu valdi á íslensku, og til að það gerist þurfa þau að vera í íslensku málumhverfi a.m.k. 40% vökutímans. En mikil enska í málumhverfi unglinga á Íslandi skerðir tíma íslenskunnar svo mikið að þrátt fyrir að skólamálið sé íslenska ná mörg börn og unglingar þar sem heimilismál er annað en íslenska ekki þessu viðmiði.

Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að það þýðir að sum börn og unglingar ná ekki móðurmálsfærni í neinu tungumáli. Ekki heimilismálinu, ekki ensku, og ekki íslensku – ekkert málanna nær því að vera í málumhverfi þeirra 40% vökutímans. Móðurmálsfærnin er forsenda fyrir árangri og velgengni á svo mörgum sviðum – hún skiptir máli fyrir rökhugsun, tilfinningagreind, félagsþroska, jafnvel verkgreind og fleira. Ef við sjáum ekki til þess að börn og unglingar nái nægilegri færni í íslensku erum við að svipta þau tækifærum til virkrar þátttöku og áhrifa í samfélaginu og dæma þau til láglaunastarfa – búa til lágstétt sem þau eru föst í og eiga enga möguleika á að komast upp úr. Það er vont fyrir fólkið, samfélagið – og íslenskuna.

En það eru ekki bara börn af erlendum uppruna sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Ég var að tala við leikskólakennara sem sagði mér að að á yngstu deildum leikskólanna væri meginhluti starfsfólksins stundum fólk sem kynni sáralitla íslensku. Það væru vissulega reglur um það hversu hátt hlutfall starfsfólks þyrfti að vera íslenskumælandi en eftir þeim reglum væri oft ekki farið vegna þess að íslenskumælandi starfsfólk fengist ekki. Hæfni til leikskólastarfa fer vitanlega ekki eftir móðurmáli fólks og þetta getur verið frábært starfsfólk þótt það tali ekki mikla íslensku. En þarna eru börn á mikilvægasta skeiði máltökunnar þar sem skiptir máli að þau séu á kafi í íslensku málumhverfi og það sé talað sem mest við þau á íslensku.

Á þessu sviði verðum við að taka okkur á svo um munar. Það þarf að sinna börnum af erlendum uppruna miklu betur. Ég efast ekki um að kennarar geri sitt besta en þeir eru undir alltof miklu álagi eins og kom vel fram í Kastljósi í gær. Í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sem nú liggur fyrir Alþingi og verður vonandi samþykkt í vor eru ýmsar góðar aðgerðir á þessu sviði en til að hrinda þeim í framkvæmd þarf fé – mikið fé – og í fjármálaáætlun næstu fimm ára sem lögð var fram í gær er ekki að sjá neinar vísbendingar um að það fé sé væntanlegt. Við þurfum líka að gera átak í að hækka hlutfall leikskólakennara og stórbæta kjör leikskólastarfsfólks þannig að unnt sé að fara eftir reglum um hlutfall íslenskumælandi starfsfólks.

Þetta málþing var vel sótt – mér sýndust vera um 80 í ráðstefnusalnum í Grósku og það var sagt að 200 manns fylgdust með í streymi. En mér fannst samsetning þátttakenda mjög athyglisverð. Ég held að það hafi verið einn karlmaður í salnum fyrir utan mig – mál af þessu tagi virðast enn vera álitin viðfangsefni kvenna sem karlmenn ómaka sig ekki við að sinna. Ég saknaði líka áhrifafólks af ýmsum sviðum – mennta- og barnamálaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi en þurfti svo að sinna mikilvægari málum (hver sem þau gætu verið). Í hópi áheyrenda sá ég engan alþingismann, engan borgarfulltrúa, enga háskólakennara, o.s.frv. En vitanlega má vera að þetta fólk hafi allt verið að fylgjast með í streymi – ég vona það, því að þetta er svo mikilvægt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er reynslumikill sama og reyndur?

Í dag var hér spurt um orðið reynslumikill sem fyrirspyrjanda sýndist að væri æ meira notað í stað þess að vera reyndur eða með reynslu og spurði hvort þetta væri ekki nýleg tilhneiging. Svarið er játandi – elsta dæmi um reynslumikill á tímarit.is er reyndar frá 1902 – „Banalega hennar va'r löng og reynslumikil“ segir í Lögbergi. En þarna merkir orðið ekki það sama og nú, heldur þung, erfið, sem reyndi á' eða eitthvað slíkt. Elsta dæmi um orðið í nútímamerkingunni er í Stormi 1936: „Duglegustu mennirnir og reynslumestu innan stéttarinnar eru ofsóttir og rægðir.“ Annað dæmi er í Þjóðviljanum 1939: „hann hefur yfirsýn viturs manns og reynslumikils.“ En fram yfir 1960 eru aðeins fjögur dæmi um reynslumikill í nútímamerkingu.

Frá sjöunda áratugnum eru rúm 20 dæmi um orðið á tímarit.is, frá þeim áttunda um 60, en um 1980 tekur orðið mikinn kipp og notkun þess hefur farið mjög hratt vaxandi síðan. Í Risamálheildinni er á ellefta þúsund dæma um orðið – en rúm þrjátíu þúsund um reyndur þannig að það orð er a.m.k. ekki að hverfa. Orðið reynslumikill er ekki að finna í Íslenskri orðabók en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'sem býr yfir mikilli reynslu'. Lýsingarorðið reyndur er aftur á móti skýrt 'sem hefur öðlast reynslu'. Þetta má e.t.v. túlka svo að reynslumikill feli í sér meiri reynslu en reyndur sem kann að vera þótt kannski sé hæpið að alhæfa um það, í ljósi þess að reyndur er skýrt 'sem hefur mikla reynslu' í Íslenskri orðabók.

En þótt merkingarmunur orðanna sé ekki augljós og mjög oft sé hægt að setja annað í stað hins finnst mér merkingin í reynslumikill vera almennari – vísa síður til einhverrar tiltekinnar reynslu. „Ég veit hvað þarf að gera og er orðinn reynslumikill“ segir í Vísi 2012. „Hann virkaði traustur, rólegur, reynslumikill, sanngjarn, vel menntaður“ segir í DV 2009. „Hann var reynslumikill, fumlaus og faglegur í sínum störfum“ segir í Morgunblaðinu 2018. Í þessum dæmum finnst mér reynslumikill vísa til almennrar reynslu, jafnvel merkja 'lífsreyndur', 'sjóaður' eða eitthvað slíkt. Ef reyndur væri notað í staðinn fyndist mér það fremur vísa til reynslu á einhverju ákveðnu sviði. En ég veit ekki hvort þetta er almenn tilfinning.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fjarlægt var bílana

Ég sá í Málvöndunarþættinum að verið var að gera athugasemd við setninguna „Fjarlægt var bílana sem voru í árekstrinum“ í frétt mbl.is af árekstri á Ölfusárbrú. Þessu var reyndar snarlega breytt og nú stendur í fréttinni „Bílarnir sem voru í árekstrinum voru fjarlægðir“. Það er hefðbundin þolmynd af germyndinni (einhver) fjarlægði bílana – andlagið bílana er fært í frumlagssæti fremst í setningunni og sett í nefnifall, auk þess sem vera er skotið inn. Upphaflega setningin var hins vegar dæmi um hina svokölluðu „nýju þolmynd“ eða „nýju ópersónulegu setningagerð“ sem ég hef áður skrifað um. Í henni er andlagið látið halda sæti sínu á eftir sögn, og jafnframt halda þolfalli sínu, í stað þess að færast í frumlagssætið og fá nefnifall.

En ef andlagið er ekki fært í frumlagssætið stendur það tómt og einhvern veginn þarf að fylla það – ekki er hægt að byrja á sögninni og segja *var fjarlægt bílana. Í óformlegu málsniði væri frumlagssætið venjulega fyllt með það og sagt það var fjarlægt bílana. En í tiltölulega formlegu málsniði, eins og í blaðafrétt, kann þetta að virka of óformlegt. Þegar fylla þarf frumlagssætið vegna þess að setning er frumlagslaus er því oft gripið til svokallaðrar stílfærslu, þar sem sögn í fallhætti (nafnhætti eða lýsingarhætti þátíðar) er færð fremst í setninguna. Í setningunni hér á undan hefði ég getað skrifað þegar það þarf að fylla frumlagssætið en það fannst mér of óformlegt og notaði þess vegna stílfærslu í staðinn – færði nafnháttinn fylla fremst í setninguna.

Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að fréttaskrifarinn beitti stílfærslu og skrifaði „Fjarlægt var bílana“ en ekki það var fjarlægt bílana. En við það skapast áhugavert stíllegt ósamræmi. Stílfærsla er nefnilega einkenni á tiltölulega formlegu máli eins og áður segir, en „nýja þolmyndin“ nýtur ekki viðurkenningar sem fullgilt mál þótt þetta sé eðlilegt mál mikils fjölda yngra fólks – og muni væntanlega fara að sjást meira og meira í formlegu málsniði. Þarna lýstur sem sé saman formlegu og óformlegu málsniði og þess vegna hljómar „Fjarlægt var bílana“ svolítið undarlega í mínum eyrum, þótt ég sé orðinn vanur „nýju þolmyndinni“ og hefði ekkert kippt mér upp við það var fjarlægt bílana í töluðu máli eða á samfélagsmiðlum.

Nú þykist ég vita að mörgum finnist einu gilda hvort sagt er fjarlægt var bílana eða það var fjarlægt bílana og telji hvort tveggja jafn fráleitt og ljótt. En „nýja þolmyndin“ á sér hundrað ára sögu í málinu og hefur breiðst mikið út undanfarna áratugi, og er eðlilegt mál mjög margs fólks undir fertugu. Miðað við venjulega skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ eru því engar forsendur fyrir öðru en telja hana rétt mál. Dæmið sem vitnað var til í upphafi bendir til þess að fyrir fréttaskrifara sé hún fullkomlega eðlileg og tengist ekki sérstaklega óformlegu málsniði en hann hafi hins vegar tilfinningu fyrir því að algengasta gerð hennar með það henti illa í formlegu málsniði og betur fari á að nota formlega setningagerð eins og stílfærslu með henni í staðinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvenær hefst þrítugsaldur?

Hér hefur í dag sprottið nokkur umræða um það hvenær fólk komist á þrítugs-, fertugs-, fimmtugsaldur o.s.frv. Það er enginn vafi á því að daginn sem tuttugu ár eru liðin frá fæðingu verður maður tvítugur, daginn sem þrjátíu ár eru liðin frá fæðingu verður maður þrítugur, o.s.frv. Það er ekki heldur neinn vafi á því að málvenja er að segja að fólk sem er milli tvítugs og þrítugs sé á þrítugsaldri, fólk sem er milli þrítugs og fertugs á fertugsaldri, o.s.frv. Það er sem sé miðað við hærri tuginn, öfugt við það sem gert er í málum eins og dönsku þar sem talað er um tyverne, trediverne o.s.frv., og ensku þar sem talað er um twenties, thirties o.s.frv. Þessi málvenja hefur vissulega oft farið fyrir brjóstið á mörgum, en svona er hún nú samt.

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að fólk komist á þrítugsaldur, fertugsaldur o.s.frv. um leið og undanfarandi áratug lýkur – á tvítugsafmælinu hefjist þrítugsaldurinn, á þrítugsafmælinu hefjist fertugsaldurinn, o.s.frv. Þessi skilningur fær stuðning í orðabókum – í Íslenskri nútímamálsorðabók er þrítugsaldur í sambandinu á þrítugsaldri skýrt '20-29 ára aldur' og önnur sams konar orð á sama hátt. Í Íslenskri orðabók er þrítugsaldur skýrt 'aldurinn milli 20 og 30 ára (þó oft nær 30 ára)', fertugsaldur 'aldurinn milli 30 og 40 ára' o.s.frv. En skilningur sumra er aftur á móti sá að fólk sem er á tuttugasta og fyrsta ári sé ekki komið á þrítugsaldur, heldur standi á tvítugu – þrítugsaldurinn hefjist ekki fyrr en á tuttugu og eins árs afmælinu.

Ef fólk kemst ekki á þrítugsaldur fyrr en það verður tuttugu og eins árs gamalt er það ekki á þrítugsaldri nema í níu ár, og sama gildir um fertugsaldur, fimmtugsaldur o.s.frv. Það væri óeðlilegt ef um stærðfræði væri að ræða, en þarna er ekki verið að segja að þriðji tugur ævinnar sé aðeins níu ár, heldur þrítugsaldurinn. Það eru reyndar fordæmi fyrir því – í máli allra – að orð af þessu tagi vísi ekki til heils áratugar. Þannig merkir orðið tvítugsaldur 'aldurinn í kringum tvítugt' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók en 'aldur manns sem er kominn nálægt tvítugu (t.d. frá 16-18 ára aldri)' samkvæmt Íslenskri orðabók. Þarna er blæbrigðamunur, en engum dytti í hug að nota orðið um tíu eða ellefu ára börn þótt þau séu komin á annan tug ævinnar.

Þarna skiptir máli að gera mun á stærðfræði og málfræði. Orðið tugur er stærðfræðilegt íðorð sem miklu skiptir að við leggjum öll sömu merkingu í. Það væri óheppilegt og raunar fráleitt ef fólk færi t.d. að nota orðið tvítugur í merkingunni 'sem hefur lifað í 21 ár' eða eitthvað slíkt. Það er enginn vafi á því hvenær tveir tugir eru liðnir af ævinni. Orð eins og þrítugsaldur er hins vegar ekki íðorð og um merkingu þess fer eftir málvenju. Út af fyrir sig gæti það eins merkt 'milli þrítugs og fertugs', þ.e. miðast við lægri tuginn en ekki þann hærri – en það er ekki venjan. En það getur hins vegar vel verið að tvær mismunandi venjur séu um það hvenær þrítugsaldur hefjist. Það getur verið óheppilegt og jafnvel valdið misskilningi en er ekki á neinn hátt rangt.