Posted on Færðu inn athugasemd

Henni var byrlað

Notkun sagnarinnar byrla hefur verið að breytast upp á síðkastið. Nú er hún oftast notuð um þann svívirðilega verknað að lauma einhverju efni í drykk fólks, einkum ungra kvenna, til að valda sljóleika eða meðvitundarleysi og nýta það ástand síðan til að brjóta kynferðislega á þeim sem fyrir þessu verða. Í þessu samhengi er sögnin iðulega notuð án andlags, í setningum eins og einhver byrlaði henni og mér var byrlað. Þarna er þá undirskilið nafnorð eins og ólyfjan, eitur, eiturlyf, svefnlyf eða eitthvað slíkt. Þessi notkun er ekki gömul – elsta dæmi sem ég fann um hana í fljótu bragði er frá 2014 þótt væntanlega megi rekja hana eitthvað lengra aftur. En hlýtur ekki einhver merking að glatast þegar andlagi er sleppt?

Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924 er fyrsta merkingin sem gefin er fyrir byrla 'skænke for og række en en Drik' og önnur merking 'blande forskellige Drikke sammen, komme n-t i en Drik, f. Eks. Gift'. Í Íslenskri orðabók, sem tekur mikið beint upp eftir Blöndal, er fyrsta merkingin 'hella á bikar' og önnur merking 'blanda' með notkunardæminu „byrla e-m eitur“. En í Íslenskri nútímamálsorðabók er bara gefin merkingin 'gefa (e-m) (eitur)'. Notkun sagnarinnar byrla í jákvæðri eða hlutlausri merkingu virðist því vera horfin úr málinu að mestu eða öllu leyti, líklega fyrir nokkrum áratugum, og undanfarið hefur sögnin eingöngu verið notuð í sambandinu byrla eitur/ólyfjan eða eitthvað slíkt.

Þegar tiltekin orð koma oftast eða alltaf fyrir saman er eðlilegt að málnotendur fari að skynja þau sem merkingarlega einingu, þar sem orðasambandið í heild fær ákveðna merkingu í stað þess að merkingin sé summa af merkingu orðanna í sambandinu. Þannig er það með byrla – við þekkjum hana eingöngu með andlögum af mjög þröngu og afmörkuðu merkingarsviði. Þess vegna er hægt að stytta sambandið og sleppa andlaginu – merking þess færist þá eiginlega inn í sögnina. Við það bætist að venjulega er ekki ljóst hvað það var nákvæmlega sem fólki var byrlað – svefnlyf, deyfilyf o.þ.h. Með því að sleppa andlaginu komumst við hjá því að tilgreina það nánar. Annað dæmi af sama merkingarsviði er vera í neyslu. Þar er yfirleitt ekki tiltekið hvers er neytt – en við vitum að átt er við einhvers konar fíkniefni.

Nafnorðið byrlun er einnig notað án skýringar – grunur um byrlun, kært vegna byrlunar o.s.frv. Þetta er sjaldgæft orð, og er t.d. hvorki að finna í Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók, og ekki heldur í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, en það er þó ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Iðunni 1886, í grein um „lífs-elixír“: „Það varð að taka fleiri verkamenn, en byrlunina annaðist Hermann sjálfur.“ Hér hefur byrlun greinilega merkinguna 'blöndun'. Samsetningin eiturbyrlun er þó miklu algengari, og bæði orðin eru í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en þó aðeins í eintölu. Fleirtalan er samt til – í Heimsljósi Halldórs Laxness segir: „Í fjölskyldublaðinu Heimilinu voru einnig skráðar lángar frásagnir um bánkarán, innbrotsþjófnaði, eiturbyrlanir og dopulmorð.“

Þegar byrla tekur andlög eru þau yfirleitt tvö, það fyrra í þágufalli og það seinna í þolfalli – byrla henni eitur (þótt reyndar séu líka dæmi um tvö þáguföll, byrla henni eitri). Þegar slíkar setningar eru settar í þolmynd verður þolfallið að nefnifalli og ákveður kyn og tölu lýsingarháttarins. Þetta sést vel á öðrum sögnum sem taka þágufall + þolfall eins og gefa einhver gaf henni bókina verður í þolmynd henni var gefin bókin þar sem gefin er kvenkyn eintala eins og bókin. Þegar einhver byrlaði henni ólyfjan er breytt í þolmynd ætti útkoman því að verða henni var byrl ólyfjanbyrl er kvenkyn eintala eins og ólyfjan. Þetta er vissulega algengt, en í Risamálheildinni er hvorugkynsmyndin byrl hátt í það jafn algeng.

Sú mynd er auðvitað eðlileg ef um er að ræða hvorugkynsorð, henni var byrl eitur – en hvers vegna er hún algeng með kvenkynsorðinu ólyfjan þar sem hún virðist ekki eiga heima? Líklegasta skýringin er sú að fyrir mörgum sé ólyfjan hvorugkynsorð – það eru til hvorugkynsorð sem enda á -an, eins og líkan. Önnur hugsanleg skýring – en langsóttari – er sú sem nefnd er hér að ofan, að andlagið með byrla sé oft ekki skynjað sem sjálfstæður setningarliður heldur eiginlega sem hluti af sögninni og missi þar með setningafræðilega stöðu sína sem andlag. En ef sögnin hefur ekki andlag þá hefur lýsingarhátturinn ekki neitt til að samræmast og kemur þá fram í hlutlausri mynd, sem er hvorugkyn eintala.

En hvað á að segja um setningar eins og þær sem nefndar voru í upphafi, þar sem byrla er notuð án andlags? Er þetta rétt mál? Hér hefur margoft verið vitnað í viðurkennda skilgreiningu á réttu máli og röngu – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju.“ Það er ljóst að þessi notkun byrla hefur ekki tíðkast fram undir þetta, en jafnframt er ljóst að notkunin hefur breiðst mjög út að undanförnu og er á hraðri leið með að verða málvenja margra, ef hún er ekki þegar orðin það. Þegar við bætist að um er að ræða mjög skiljanlega breytingu sem á sér fjölda hliðstæðna í málinu er tæpast ástæða til að berjast gegn henni. Í raun og veru var það miklu meiri breyting þegar byrla hætti að merkja 'blanda' og fór að merkja 'eitra fyrir'.

Posted on Færðu inn athugasemd

Örvhent og rétthent

Í Facebook-hópnum Málspjall var nýlega spurt um það hvort „ekki væri tímabært að finna betri orð en rétthentur/örvhentur“. Þarna er komið inn á umræðu sem oft verður mjög viðkvæm og erfið: Eigum við að amast við orðum sem eru gamalgróin í málinu en fela í sér einhvers konar fordóma eða mismunun, a.m.k. að mati einhverra? Er eitthvað athugavert við orðið örvhentur (eða örvhendur)? Það var áður örvendur og er talið hafa merkt eitthvað í átt við 'sem snýr burt, snýr öfugt'. En málnotendur virðast snemma hafa tengt seinni hluta orðsins við hönd og þá kemur h inn í það.

Nú má auðvitað segja að það sé neikvætt að snúa öfugt, en þar eð sá uppruni liggur ekki í augum uppi er ólíklegt að hann trufli venjulega málnotendur. Það er frekar rétthentur (rétthendur) sem er vandræðaorðið í þessu sambandi. Þótt við vitum kannski ekki hvað örv- merkir erum við ekki í vafa um merkingu orðsins rétt — og við erum alin upp í þeirri trú að það sem ekki er rétt hljóti að vera rangt, ekki síst í málfarslegum efnum. Þess vegna drögum við þá ályktun að þau sem ekki eru rétthent hljóti að vera „ranghent“.

Það er vel þekkt að áður fyrr var örvhent fólk beitt margvíslegu misrétti, svo að ekki sé sagt harðræði — börnum var t.d. iðulega meinað að skrifa með vinstri hendi og hún jafnvel bundin aftur á bak til að hindra notkun hennar og venja börnin við að nota hægri höndina. Ég held varla að örvhent fólk sé látið gjalda þess á nokkurn hátt núorðið — veit t.d. ekki til þess að börnum sé strítt á því að vera örvhent þótt ég geti ekki fullyrt um það. Er þá einhver ástæða til að láta orðfærið trufla sig?

Við getum auðvitað vitnað í orðabókarskýringar, t.d. í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem örvhentur er skýrt 'sem beitir fyrir sig vinstri hönd frekar en þeirri hægri' og rétthentur 'sem beitir fyrir sig hægri hönd frekar en þeirri vinstri' og sagt að þetta sé merking orðanna í nútímamáli — uppruni þeirra, merking einstakra orðhluta, eða aukamerkingar sem einhverjir málnotendur kunni að lesa úr þeim komi málinu ekki við. Það sé endalaust hægt að finna orð sem einhverjum finnist óviðeigandi eða meiðandi og ekki hægt að elta ólar við slíkt.

Eftir sem áður kann það vissulega að hafa áhrif á fólk ef það skynjar það svo að tungumálið dæmi einhverja meðfædda og ósjálfráða hegðun þess ranga, vegna þess að það er ekki rétthent og andstæðan rétt-rangt er svo inngróin í okkur. Við viljum ekki að tungumálið mismuni fólki eða jaðarsetji það, viljum ekki að minnihlutahópum finnist tungumálið setja sig á einhvern hátt skör lægra en meirihlutann. Það er alveg hægt að hugsa sér önnur orð í stað rétthentur og örvhentur — orðin hægrihentur og vinstrihentur hafa t.d. svolítið verið notuð (einnig hægrhentur og vinstrhentur).

Ég ætla ekki að taka ákveðna afstöðu í þessu máli. Mér fyndist vissulega eftirsjá að gamalgrónum orðum eins og örvhentur og rétthentur, og mér finnst „málhreinsun“ af þessu tagi almennt varasöm, en hins vegar skil ég vel ef örvhentu fólki finnst þessi orð truflandi eða óþægileg. Aðalatriðið er eins og jafnan, að sýna tillitssemi og umburðarlyndi — að fólk skilji afstöðu annarra og sýni henni virðingu í stað þess að gera lítið úr henni og kalla hana ofurviðkvæmni, íhaldssemi, pólitíska rétthugsun og öðrum slíkum nöfnum sem sjást of oft í málfarslegri umræðu.

Posted on Færðu inn athugasemd

More about mannskratti

Fyrir 60-70 árum birtu tveir málfræðingar greinar um samsett orð af tegundinni mannskratti. Þriðja málfræðingnum fannst þó ekki nóg að gert, og birti árið 1963 grein í tímaritinu Íslenzkri tungu undir heitinu „More about mannskratti“. Þetta hefur mér alltaf fundist einhver skemmtilegasti titill á málfræðigrein sem ég þekki og þess vegna fannst mér upplagt að endurnýta hann nú. Ég ætla að vísu ekki að skrifa um mannskratti, heldur um skrattans manninn – þetta vandræðaorð sem ég hef skrifað um ótal sinnum áður.

Það liggur fyrir að orðið maður hefur frá fornu fari fleiri en eina merkingu í íslensku. Merkingin getur verið (a) tegund (maðurinn er spendýr), (b) einstaklingur eða hópur af þessari tegund (gamall maður, margir menn), (c) karlmaður (maður og kona), (d) eiginmaður (maðurinn minn), og auk þess er orðið mikið notað sem (e) eins konar óákveðið fornafn (maður skilur þetta ekki).

Skiptar skoðanir um notkun orðsins varða einkum merkingu (b). Stundum virðist fólk telja að að vegna þess að maður/menn geti haft almenna (kynhlutlausa) merkingu sé alltaf hægt að nota maður/menn á þann hátt þegar átt er við einstakling eða hóp af tegundinni „maður“. Þannig er það þó ekki, a.m.k. ekki í minni málkennd. Ég skal reyna að skýra þetta nánar.

  1. Þegar kona segir ég er maður er um að ræða tegundarmerkinguna – eða a.m.k. hægt að túlka setninguna þannig. Þetta er í samræmi við málkennd mína.
  2. Í setningum eins og konur eru menn er um að ræða óskilgreindan óafmarkaðan hóp. Sama máli gegnir um setningar eins og menn telja þetta líklegt og mönnum þykir þetta ótrúlegt. Í mínu máli getur menn í þessum setningum vísað til bæði karla og kvenna.
  3. Stundum er í raun verið að vísa til ákveðins einstaklings með maður þótt vísunin virðist almenn – þótt sá einstaklingur sé ekki nafngreindur og ekki þekktur er hann skilgreindur og afmarkaður á einhvern hátt, t.d. með því sem hann hefur orðið fyrir. Þannig segir í almennum hegningarlögum: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.“ Mér finnst mjög óeðlilegt að láta mann vísa til bæði karla og kvenna í slíkum dæmum.
  4. Með fleirtölunni menn er stundum verið að vísa til skilgreinds og afmarkaðs hóps þótt þau sem vísað er til séu ekki nafngreind, heldur einkennd á einhvern hátt. Þannig hefur lengi staðið í lögum félags sem ég er í: „Á aðalfundi skal kjósa formann félagsins, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. […] Þessir menn skulu allir kjörnir til eins árs í senn.“ Mér finnst menn ekki geta vísað til bæði karla og kvenna í slíkum tilvikum.
  5. Þegar sagt er ég hitti mann sem ég þekki í gær er augljóslega um ákveðinn einstakling að ræða. Ég get ómögulega látið mann í slíkum setningum vísa til konu, og það held ég að gildi um flesta málnotendur.

Ég legg áherslu á að í öllum tilvikum er ég að tala um raunverulega málkennd mína – ekki einhverja tilbúna málkennd eða skoðun byggða á „misskilinni jafnréttisbaráttu“ eins og stundum er talað um. En með þessu er ég ekki að taka neina afstöðu til notkunar orðsins maður – bara að reyna að glöggva mig, og hugsanlega ykkur, á mismunandi notkun orðsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Nipplur

Í gær rakst ég á Facebook-færslu hjá norskri konu sem ég þekki, málfræðingi, sem skrifaði: „Ordet "brystvorte" er på vei ut. Nå heter det "nippel". En nippel, flere nipler, alle niplene. Og det er like greit, for "brystvorte" er jo ikke noe spesielt sjarmerende ord.“ Sem sé – orðið brystvorte er að hverfa úr norsku, en þess í stað er enska orðið nipple fengið að láni og talað um nippel, í fleirtölu nipler og með greini niplene. Þetta minnti mig á nokkurra ára gamla íslenska umræðu.

Í íslensku er sama merking tjáð með orðinu geirvarta. Það er nokkuð sérkennilegt og á skjön við venjulega merkingu orðsins varta sem er 'lítil góðkynja æxli á yfirborði húðar, myndast við vírussýkingu' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók og 'Sérhver húðþrymill með ósléttu yfirborði' samkvæmt Íðorðasafni í læknisfræði. En geirvarta er auðvitað ekki æxli, og húðþrymill er ekki heldur sérlega viðeigandi eða viðfelldin lýsing.

Nú er það auðvitað svo að merking samsettra orða er iðulega ekki summa af merkingu samsetningarliðanna. Ef samsett orð kemst í verulega notkun fer það að lifa sjálfstæðu lífi og verður smám saman óháð uppruna sínum að meira eða minna leyti. Þess vegna þarf merking orðsins varta í sjálfu sér ekki að skila sér inn í merkingu samsetningarinnar geirvarta. En það breytir því ekki að það er ekkert undarlegt að fólk tengi þetta saman og það hafi áhrif á tilfinningu þess fyrir orðinu geirvarta.

Fyrir nokkrum árum var efnt til óformlegrar atkvæðagreiðslu um ljótasta orðið í íslensku, í framhaldi af kosningu fegursta orðs málsins sem Háskóli Íslands beitti sér fyrir. Orðið geirvarta fékk yfirburðakosningu sem ljótasta orð málsins, sem er kannski engin furða í ljósi tengingarinnar við varta. Stundum er í staðinn notað orðið brjóstvarta sem er hliðstætt því orði sem er notað í skandinavísku málunum – þótt fyrri liðurinn sé skiljanlegri en í geirvarta er seinni hlutinn sá sami sem þýðir að þetta er ekki mikið heppilegra orð.

Í umræðunni um þetta fyrir nokkrum árum komu upp ýmis orð, eins og brjóstrósir, brjóstaknúppar og týrbjöllur. En líklega er þó oftast farin sama leið og í norsku og enska orðið fengið að láni með viðeigandi aðlögun og notað orðið nippla, í fleirtölu nipplur. Það er bara ágætis orð og fellur vel að málinu. Er nokkuð á móti því að taka það upp?

Posted on Færðu inn athugasemd

Misskilningur um orðið maður

Hér hefur oft verið rætt um orðið maður og andstöðu sumra við að nota það og samsetningar sem enda á því í almennri merkingu, láta það vísa til fólks af öllum kynjum. Stundum er því haldið fram að sú andstaða hljóti að leiða til þess að öllum orðum með þessari rót sé hafnað – orðum eins og mannlegur, mannréttindi, mannsæmandi, mannúð, manngæska, manntal, menning, menntun, mennskur og ótalmörgum fleiri. Í blaðagrein sem birtist í vor var sagt að ef almennu merkingunni í maður yrði útrýmt myndi fólk í framtíðinni „álykta að mannamót hafi verið karlasamkomur, mannamatur hafi verið ætlaður körlum einum, manngengir hellar verið lokaðir konum, að mannýg naut hafi aðeins ráðist á karla, o.s.frv.“.

En þetta er misskilningur eða rangtúlkun, eins og raunar má sjá af því að sumt fólk sem vill forðast maður í almennri merkingu notar manneskja eða man í staðinn – orð sem eru af sömu rót. Andstaðan við orðið maður og samsetningar af því stafar af því að það er svo oft notað sem andstæða við kona. Þannig er það ekki um orðin sem hafa þessa rót sem fyrri lið. Vissulega er til kvenlegur en það er ekki andstæða við mannlegur, kvenréttindi eru ekki andstæða við mannréttindi, o.s.frv. Þess vegna hefur mann- hlutlausa merkingu í þessum orðum. Sama máli gegnir um myndina manns í samböndum eins og fjöldi manns – þótt hún sé formlega séð eignarfall af maður hagar hún sér í raun eins og sjálfstætt orð eins og ég hef skrifað um.

Það kann vissulega að virðast „rökrétt“ að fólk sem telur orðið maður óheppilegt í almennri merkingu amist líka við öðrum orðum af sömu rót. En eins og ég hef margsinnis lagt áherslu á fer því fjarri að tungumálið sé fullkomlega „rökrétt“. Samsett orð lifa sjálfstæðu lífi, oft meira og minna óháð þeim rótum sem þau eru upphaflega mynduð af. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það og engin mótsögn fólgin í því að fólk sem vill forðast að nota maður í almennri merkingu noti ýmis orð sem leidd eru af sömu rót. Með þessu er ég ekki að taka neina afstöðu til þess hvort umrædd andstaða við maður sé eðlileg eða skynsamleg – bara að benda á að hún leiðir ekki sjálfkrafa til andstöðu við önnur orð með sömu rót.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málfarsumræðan á Íslandi

Í gær skrifaði ég í Facebook-hópnum Málspjall um mikilvægi þess að skapa jákvæðari ímynd af íslenskunni og sagði: „Það verður ekki gert með leiðréttingum og athugasemdum við það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt. En það verður ekki heldur gert með því að amast við eða berjast gegn nýjungum í máli sem sumar hverjar stefna að því að tungumálið komi betur til móts við málnotendur.“

Þetta er einlæg skoðun mín og mér fannst þetta – og finnst – hógværlega orðað. En ég fékk harkaleg viðbrögð í athugasemdum:

  • „Í þessu felst í mínum huga sú uppgjöf sem verið hefur stefna íslenskukennslu undanfarna áratugi. Það er enginn að tala um að ríkja þurfi heragi í málinu en þessi stefna lýsir undanlátsemi sem leitt hefur af sér illa skrifandi og talandi kynslóðir sem eru í dag meira og minna fallnar fyrir enskri setningafræði. Allt má ef fleiri en tveir hafa sagt það. Svarið er alltaf, já hvers vegna ekki, málið er að þróast.“

Þetta er rangt á svo margan hátt. Það sem segir í tilvitnuðum orðum mínum hefur sannarlega ekki verið leiðarljós í íslenskukennslu undanfarna áratugi. Ef það væri rétt að yngri kynslóðir væru „illa skrifandi og talandi“ og „meira og minna fallnar fyrir enskri setningafræði“ (sem er gróf alhæfing og að mestu leyti röng) þá yrði að kenna einhverjum öðrum en íslenskukennslunni um það.

Hins vegar er þetta dæmigert fyrir það hvernig málfar ungs fólks er alltaf talað niður eins og ég hef skrifað um. Setningin „Allt má ef fleiri en tveir hafa sagt það" er líka kolröng. Hér hefur margsinnis verið farið yfir það hvað málvenja er.

  • „Ég er ekki að tala um málvenjur heldur að mér virðist allt nær undantekningarlaust fyrirgefið og útskýrt með “eðlilegri þróun málsins”. Það má alls ekki segja að eitthvað sé rangt eða sé að fara með málið í vonda átt. Þá er maður málfarsfasisti.“

Því fer fjarri að allt sé „nær undantekningarlaust fyrirgefið og útskýrt með “eðlilegri þróun málsins”“. Ég hef skrifað um „eðlilega þróun“ og reynt að skilgreina hana, og bent á að hún þurfi ekki að vera æskileg. „Það má alls ekki segja að eitthvað sé rangt“ er líka della. Vissulega er til rétt og rangt mál. Ég hef líka fordæmt það orðalag sem oft hefur viðgengist í íslenskri málfarsumræðu, þ. á m. málfarsfasisti. Ég sé reyndar ekki oft að fólk sé kallað þessu nafni en iðulega að fólk sé að kvarta yfir því að vera kallað því.

  • „Nú eru allir svo viðkvæmir að það liggur við ákærum og áfallahjálp ef einhver vogar sér að “leiðrétta” fólk. Þá er ég ekki að tala um að leiðrétta fólk almennt í samtölum heldur þegar það lætur eitthvað frá sér í rituðu eða töluðu máli og veður augljóslega áfram eins og blindur fíll í postulínisbúð.“

Þetta er rangt. Ég hef oft lagt áherslu á að þótt ekki sé við hæfi að leiðrétta fólk í venjulegum samskiptum sé annað mál að leiðrétta texta fólks sem hefur tungumálið að atvinnutæki. Ég hef líka skrifað um að hroðvirkni sé óafsakanleg.

Ég myndi ekki kippa mér upp við þessar athugasemdir ef þær væru óvenjulegar. En svo er því miður ekki. Eitt það versta við íslenska málfarsumræðu (og svo sem íslenska umræðuhefð yfirleitt) er hversu algengt það er að fólki séu gerð upp orð og skoðanir sem síðan er ráðist gegn. Þetta sér maður mjög oft í athugasemdakerfum vefmiðla og á Facebook, ekki síst í Málvöndunarþættinum, en sjaldan hér sem betur fer, enda var þessi hópur ekki síst stofnaður til að reyna að breyta umræðunni.

Þetta er óþolandi. Ég veit að ýmsar skoðanir sem ég hef viðrað á málfarslegum efnum eru umdeilanlegar og umdeildar – það er eðlilegt, og ég skorast ekkert undan því að ræða þær á málefnalegan hátt. En mér finnst óþolandi þegar mér og öðrum sem setja fram gagnrýni á hefðbundna málstefnu og málstaðal eru sífellt gerðar upp skoðanir – beinlínis skrökvað upp á okkur. Það er a.m.k. ekki til þess fallið að bæta ímynd íslenskunnar – sem er það sem skiptir máli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ímyndarvandi íslenskunnar

Í nýlegri ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2021 er sagt að íslenskan eigi við ákveðinn ímyndarvanda að etja. Óhætt er að taka undir það – stærsta verkefni okkar sem málsamfélags um þessar mundir er að skapa jákvæða ímynd af íslenskunni í huga málnotenda. Það verður ekki gert með leiðréttingum og athugasemdum við það mál sem fólk er alið upp við og er því eiginlegt. En það verður ekki heldur gert með því að amast við eða berjast gegn nýjungum í máli sem sumar hverjar stefna að því að tungumálið komi betur til móts við málnotendur.

Aðalatriðið er nefnilega að fólki þyki vænt um málið sitt, finnist það taka utan um sig, finnist það eiga þar heima. Ef fólki finnst íslenskan jaðarsetja sig eða útiloka á einhvern hátt, finnst að íslenskan geri ekki ráð fyrir því eða geri því ekki kleift að tala um sig sjálft og annað fólk á þann hátt sem það kýs, þá er ekki við því að búast að því þyki vænt um tungumálið eða telji þess vert að rækta það. Okkur kann að sýnast þessi tilfinning misskilningur, og reynum stundum að sannfæra fólk um að þetta sé ekkert svona og ef það sé svona þá sé a.m.k. ekkert við því að gera.

Slík viðbrögð eru skiljanleg og eðlileg og oft sprottin af því að fólk vill vernda íslenska málhefð og varðveita sögulegt samhengi málsins. Það er sannarlega göfugt markmið. En rök af því tagi breyta ekki tilfinningu fólks, og ef andstaða við breytingar leiðir til þess að fólk missir trúna á íslenskuna, finnst sér úthýst úr henni, þá snýst þessi góði tilgangur upp í andhverfu sína. Tilfinning fólks getur nefnilega ekki verið röng – af því að hún er tilfinning. Fólk vill nota íslenskuna, en það vill jafnframt vera hluti af henni og eiga hlut í henni. Ef því er neitað um það er hætt við að það hrekist frá henni.

Þess vegna eru mikil vonbrigði að sjá að þrátt fyrir að Íslensk málnefnd geri sér grein fyrir ímyndarvanda málsins skuli hún ekki nota þau tækifæri sem hún fékk upp í hendurnar á þessu ári – annars vegar með því að vera falið að taka saman skýrslu um kynhlutlaust mál og hins vegar með því að endurskoða íslenska málstefnu – til að taka vel á þessum málum, móta skýra stefnu um það hvernig íslenskan geti komið til móts við alla málnotendur og þær hræringar sem eru í gangi í málsamfélaginu, um leið og íslenskri málhefð og sögulegu samhengi málsins sé sýndur fullur sómi.

Það á nefnilega ekki að þurfa að velja milli málsins og málnotenda. Það verður að vera hægt að leysa málin þannig að bæði íslenskan og notendur hennar standi uppi sem sigurvegarar. Við þurfum að leita slíkra lausna – og finna þær. Það væri stórt skref í þá átt að leysa ímyndarvanda íslenskunnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

gruna

Nýlega sá ég á vefmiðli fyrirsögnina „Íbúa grunar sömu aðila um endurtekin innbrot“. Ástæðan fyrir því að ég staldraði við þessa fyrirsögn var að þar er upphafsorðið íbúa í þolfalli, sem ekki er í samræmi við málhefð. Venja er að hafa þarna nefnifall, eins og er reyndar í undirfyrirsögn í sömu frétt þar sem segir „Íbúar gruna sömu aðila um endurtekin innbrot“ og einnig „Við grunum oft fólk með sakaferil og neyslu um slík brot“. Í sjálfu sér er vel skiljanlegt að fallnotkun með gruna sé eitthvað á reiki vegna þess að sögnin er notuð á tvennan hátt í hefðbundnu máli.

Annars vegar tekur hún nefnifallsfrumlag og þolfallsandlag, ég gruna þig um innbrot, en hins vegar þolfallsfrumlag og aukasetningu, mig grunar að þú hafir brotist inn (stundum er reyndar notað þágufall í stað þolfallsins). Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrri notkunin skýrð sem 'hafa grunsemdir (gagnvart e-m)', en sú síðari sem 'hafa grunsemdir (um e-ð), renna í grun (að e-ð)'. Þarna er augljóslega mjög skammt á milli og þessar setningagerðir blandast að einhverju leyti saman þegar í fornu máli - „því að þú grunaðir þegar að eigi myndi allt af heilu vera“ segir t.d. í Egils sögu.

Þetta tengist líka því að merking sagnarinnar gruna var áður að nokkru leyti önnur, þ.e. 'efast um'. Það sést t.d. á setningunni „Og ef nokkur grunar sögu mína þá má hér nú líta höfuð af honum“ úr Þórarins þætti ofsa. Þessi merking hélst a.m.k. fram á seinni hluta 19. aldar - „hefi ég eigi orðið þess var, [...] að nokkurum hafi komið til hugar að gruna hann um þjóðhollustu“, segir í Fjallkonunni 1885, augljóslega í merkingunni 'efast um þjóðhollustu hans'. En þessi merking er ekki nefnd í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924.

Á tímarit.is hef ég fundið rúmlega 20 dæmi frá 20. og 21. öld um þolfall í sambandinu gruna einhvern um eitthvað, það elsta í Morgunblaðinu 1932: „Nágrannana grunaði þær um galdur, rjeðust að húsinu að nóttu til og brendu alt sem í var.“ En í langflestum tilvikum er þó greint milli þeirra tveggja setningagerða sem nefndar voru í upphafi. Þótt lítill merkingarmunur setningagerðanna valdi því að blöndun þeirra sé skiljanleg finnst mér samt æskilegt að fylgja málhefð og halda þeim aðgreindum áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Viðskeyttar sagnmyndir

Í boðhætti er annarrar persónu fornafnið þú venjulega hengt á sagnstofninn og tekur þá ýmsum breytingum. Í stað ú kemur u, og í stað þ kemur ð, d eða t eftir lokasamhljóði (eða samhljóðasambandi) stofnsins – kalla-ðu, seg-ðu, far-ðu; kom-du, tel-du, kenn-du; gleyp-tu, rek-tu, vit-tu. En slík viðskeyting er ekki bundin við boðhátt, heldur getur líka gerst í öðrum setningagerðum þar sem annarrar persónu fornafnið fer á eftir sögninni, bæði í spurningum eins og fórstu þangað?, sagðirðu eitthvað?, og setningum sem hefjast á öðrum lið en frumlagi, eins og áðan varstu leiðinlegur, þangað skaltu fara, núna gerðirðu mér grikk.

Í boðhættinum bætist viðskeytta fornafnið við beran stofn sagnarinnar en í hinum tilvikunum bætist það aftan við beygingarendingar tíðar, háttar, persónu og tölu. Þessar myndir eru yfirleitt ekki nefndar í kennslubókum og handbókum, en þær eru hafðar með í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þar eru þær nefndar spurnarmyndir sem er ekki að öllu leyti heppilegt vegna þess að þær eru ekki bara notaðar í spurningum eins og áður segir, heldur líka í öðrum setningagerðum sem hefjast ekki á frumlaginu.

Í talmáli er viðskeyting fornafns ekki bundin við aðra persónu eintölu. Fleirtölumyndinni þið er líka skeytt við sögnina – fariði(ð) burt!, fóruði(ð) heim?. Sama má segja um þriðju persónu fornöfn, bæði í eintölu og fleirtölu – fórann burt?, varún heima?, erða(ð) satt?, gátuðau þetta?. Sama máli gegnir ef aukafallsfrumlag fer á eftir sögninni – vantarðig eitthvað?, varðér kalt?, finnstðeim gaman?. En slík viðskeyting er ekki bundin við fornöfn í frumlagshlutverki, heldur er almenn framburðarregla þegar kerfisorð (fornöfn, forsetningar, atviksorð) sem byrja á þ- eða h- standa í áherslulausri stöðu.

Þess vegna er yfirleitt ekki litið svo á að viðskeyttar myndir eins og fórann, varún o.s.frv. séu sérstakar orðmyndir, beygingarmyndir sagna, heldur tvö orð sem renna saman í framburði og því er viðskeyting annarra fornafna en þú yfirleitt ekki sýnd í ritmáli. Eina undantekningin er fornafn annarrar persónu fleirtölu, þið, þar sem viðskeyttu myndirnar koma stundum fyrir í riti. Vegna þess að sagnir enda á í annarri persónu fleirtölu fellur ð framan af fornafninu, og þar sem ð fellur oft brott í enda orðs í áhersluleysi stendur yfirleitt ekkert eftir af fornafninu nema ifariði, komiði, segiði, og slíkar myndir sjást stöku sinnum í ritmáli. Einnig er til að skrifað sé farið, komið, segið, en það er sjaldgæfara.

Það er eðlilegt að líta á spurnarmyndir í annarri persónu eintölu sem sérstakar orðmyndir vegna þess að fornafnið tekur þar miklum breytingum – u kemur í stað ú, og upphafshljóðið lagar sig að lokasamhljóði stofnsins. Það er líka hægt að færa setningafræðileg rök fyrir því að X-u-myndirnar séu sérstakar orðmyndir en ekki framburðarmyndir af X+þú, en það er of flókið til að fara út í hér. Mér finnst hins vegar ástæðulaust að sýna viðskeytingu þið og annarra fornafna en þú í riti vegna þess að sú viðskeyting lýtur almennum framburðarreglum málsins.

En þá er rétt að leggja áherslu á að stafsetning er vitanlega frjáls nema í skólum og stofnunum á vegum opinberra aðila, þannig að fólk sem vill skrifa fariði eða fariðið gerir það bara.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslensk málstefna 2021-2030

Íslensk málstefna 2021-2030 hefur nú verið birt á vef Íslenskrar málnefndar. Ég fékk drög að stefnunni til umsagnar í vor og lýsti ánægju með þau að flestu leyti og sagði: „Drögin eru mjög í þeim anda sem ég hef talað fyrir undanfarin ár og ég held að ég geti skrifað undir nánast hverja einustu efnisgrein í þeim.“ En hélt svo áfram:

„Þó er einn galli á drögunum sem mér finnst bráðnauðsynlegt að bæta úr – grundvallaratriði sem er skautað algerlega fram hjá og „glimrer ved sit fravær“. Það er málstaðallinn. Það orð (eða orðið staðall) kemur alls ekki fyrir í drögunum, og aðeins á einum stað er vikið að réttu máli og röngu. Í ljósi þess að íslensk málfarsumræða hefur í marga áratugi snúist að verulegu leyti um þessi hugtök, og gerir jafnvel enn, er óhjákvæmilegt að um þau sé fjallað ítarlega í íslenskri málstefnu. Annars heldur hin ófrjóa umræða áfram óbreytt, málinu til skaða. [. . .]

Ég er ekki andvígur því að einhver málstaðall sé til. Þvert á móti – það er mikilvægt að hægt sé að vísa til einhvers viðmiðs um vandað, formlegt mál. En það viðmið verður að vera raunhæft og má ekki ganga í berhögg við málkennd umtalsverðs hluta málnotenda. Það má heldur ekki vera einstrengingslegt, heldur verður að rúma mismunandi málvenjur. Oftast eru engin skynsamleg rök fyrir því að taka eina málvenju fram yfir aðra. Málið bíður engan skaða af tilbrigðum í framburði, beygingarmyndum, fallstjórn, merkingu orða o.s.frv.

Ég hef oft rætt þann vanda sem við stöndum frammi fyrir með íslenskan málstaðal – að okkur skortir vettvang til að ræða hann og breytingar á honum, og aðferðir til að gera breytingar á honum. Ég veit ekki hvar á að taka á þessu ef ekki í íslenskri málstefnu. Vitanlega verða einstök atriði málstaðalsins ekki hluti af málstefnunni, en hún verður að leggja einhverjar meginlínur um hann og tryggja að hann verði lagaður að þörfum samtímans. Það er forsenda fyrir því að þessi annars ágæta málstefna nýtist eins vel og hún á skilið og nauðsynlegt er.“

Þetta sagði ég í athugasemdum í vor. Í endanlegri gerð málstefnunnar er málstaðallinn vissulega nefndur, og tekið undir það að hann hljóti að taka breytingum, en við það situr. Ekkert er sagt um hvernig staðallinn eigi að breytast, hvernig eigi að standa að breytingum á honum, og hvernig hann eigi að vera. Ég er hræddur um að það leiði til þess að við hjökkum í sama farinu og mér finnst mjög slæmt að Íslensk málnefnd skuli ekki hafa haft vilja eða kjark til að taka ákveðnar á þessum málum. Nú sitjum við uppi með þessa stefnu – eða stefnuleysi – næsta áratug.

Annað sem ég sakna í málstefnunni er ítarleg umfjöllun um stöðu ensku í íslensku málsamfélagi. Við þurfum að viðurkenna að enskan er komin til að vera í samfélaginu og það er óhjákvæmilegt að hún verði hér fyrirferðarmikil í framtíðinni, samhliða íslensku, en það þarf að marka henni bás. Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Þriðja atriðið sem vantar í málstefnuna er umræða um kynhlutlaust mál – það er ekki nefnt einu orði sem er furðulegt og raunar alveg fráleitt í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um það upp á síðkastið og mun örugglega halda áfram. Skoðanir um kynhlutlaust mál eru vissulega mjög skiptar, og erfitt að ná þar nokkurri sátt, en það réttlætir ekki að málið sé ekki nefnt. Vandinn hverfur ekki þótt honum sé sópað undir teppið. Ný skýrsla sem Íslensk málnefnd hefur látið gera um kynhlutlaust mál (og ég hef ýmsar athugasemdir við) er engin afsökun fyrir því að sleppa því algerlega úr málstefnunni.

Niðurstaða mín er sú að Íslensk málstefna 2021-2030 sé frjálslynd og víðsýn og að flestu leyti mjög góð – svo langt sem hún nær. Hún nær bara alltof skammt og hætt er við að áhrif hennar verði minni en skyldi vegna þess að hún fer sums staðar eins og köttur kringum heitan graut, tekur ekki á viðkvæmum málum og ágreiningsefnum og sópar ýmsum vanda undir teppið. Það er mjög dapurlegt.