Posted on Færðu inn athugasemd

Fimm sjónarmið um kynjahalla í tungumálinu

Í framhaldi af umræðu í gær um merkingu og notkun orðsins maður og samsetninga af því fór ég enn einu sinni að velta fyrir mér (meintri) karllægni íslenskunnar. Umræða um þetta fer því miður oft fljótt í einhverjar skotgrafir þannig að svo virðist sem þarna séu tvær andstæðar fylkingar – önnur telji engan kynjahalla í málinu en hin telji nauðsynlegt að gerbylta málkerfinu. En í raun og veru er þetta miklu flóknara og í fljótu bragði sýnist mér mega greina einar fimm mismunandi afstöður (já, mér finnst allt í lagi að hafa það í fleirtölu) til þessa máls.

  • Það er enginn kynjahalli í tungumálinu – það gerir ekki upp á milli karla og kvenna á nokkurn hátt. Allt tal um slíkt er misskilningur á eðli tungumálsins, sprottinn af misskildum kvenréttindahugmyndum.
  • Það er kynjahalli í málinu í þeim skilningi að karlkyn er hlutlaust (ómarkað) kyn, meginhluti starfsheita er karlkyns, og nafnorðið maður er notað í merkingunni 'karlmaður' auk þess að vera tegundarheiti. En þessi kynjahalli er eingöngu málfræðilegur og á sér sögulegar skýringar, og því eðlilegur.
  • Það er kynjahalli í málinu og hann er ekki eingöngu málfræðilegs eðlis. Í huga margra tengjast karlkyns starfsheiti, orðið -maður og samsetningar af því, og karlkynsform óákveðinna fornafna og lýsingarorða frekar karlmönnum. Þetta er óheppilegt en við því er ekkert að gera.
  • Það er kynjahalli í málinu og það er hægt og mikilvægt að bregðast við því innan ramma málkerfisins, t.d. með því að segja Verið öll velkomin í stað Allir velkomnir, nota fólk og tiltækar samsetningar af því frekar en menn, segja bandaríska konan Valarie frekar en Bandaríkjamaðurinn Valarie, o.s.frv.
  • Það er kynjahalli í málinu og það er nauðsynlegt að bregðast við því, þótt það kosti breytingar á málkerfinu, málfræðilegt ósamræmi, óhefðbundna orðanotkun og smíði nýrra kynhlutlausra orða, t.d. þannig að sagt sé eitt var handtekið, mörg vita þetta, læknarnir eru þreytt, forstöðuman o.s.frv.

Ég er ekki að setja þetta fram til að koma einhverjum deilum af stað, heldur til að glöggva mig – og hugsanlega fleiri – á því um hvað málið snýst. Ég held að það megi færa málefnaleg rök fyrir flestum þessara afstaðna og það er mikilvægt að fólk átti sig á því og reyni að skilja afstöðu þeirra sem eru á öðru máli en það sjálft.

Posted on Færðu inn athugasemd

Maður enn og aftur

Ég hef stundum rætt um merkingu orðsins maður og samsetninga af því. Nýlega var ég að lesa íþróttafréttir á mbl.is og staldraði við eftirfarandi málsgrein: „Banda­ríkja­kon­an Val­arie Allm­an reynd­ist hlut­skörp­ust í úr­slit­um kvenna í kringlukasti á Ólymp­íu­leik­un­um í Tókýó í dag.“ Ég áttaði mig á því að mér væri lífsins ómögulegt að segja „Banda­ríkja­maðurinn Val­arie Allm­an . . .“. Það stafar ekki af einhverri kynjapólitískri rétthugsun – svona er bara raunveruleg málkennd mín.

Aftur á móti gæti ég alveg sagt „Val­arie Allm­an er Bandaríkjamaður sem sigraði í kringlukasti kvenna á Ólympíuleikunum í dag“. Það skiptir sem sé máli fyrir mig hvort Bandaríkjamaður stendur hliðstætt nafninu – á undan því – eða sem sagnfylling með sögninni vera. Í fljótu bragði sýnist mér á Risamálheildinni að ég sé ekki einn um þessa tilfinningu þar eru nánast engin dæmi um að kvenmannsnafn komi á eftir Bandaríkjamaðurinn.

Sama máli gegnir um önnur þjóðaheiti sem enda á -maður – ég get ekki haft þau á undan kvenmannsnafni. Aftur á móti er ég ekki í neinum vandræðum með að nota önnur karlkyns þjóðaheiti á undan kvenmannsnöfnum - Englendingurinn Theresa May, Þjóðverjinn Angela Merkel, Frakkinn Marine le Pen, o.s.frv. Það er sem sé ekki kynið sem skiptir máli, heldur orðhlutinn -maður. Þetta er enn eitt dæmi um það hvernig orðið maður hefur sterk tengsl við karlmenn í huga málnotenda – a.m.k. mínum huga.

Posted on Færðu inn athugasemd

gærnótt og fyrragær

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja í fyrrinótt þegar átt er við nóttina fyrir daginn í gær. Ekki hefur tíðkast að nota orðin „í gærnótt“ í þessari merkingu né nokkurri annarri merkingu.“ Það er auðvitað skilgreiningaratriði hvað hefur „tíðkast“ en orðið gærnótt er alls ekki óþekkt. Elsta (og raunar eina) dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um það er frá 1836 – úr bréfi frá sjálfum Sveinbirni Egilssyni sem venjulega er talinn einn orðhagasti maður sem skrifað hefur á íslensku: „Kammerráð Finsen sálaðist í gærnótt af febri nervosa.“ Þarna er átt við Ólaf Hannesson Finsen sem lést 24. febrúar þetta ár, en umrædda setningu er að finna í eftirskrift dag­settri 25. febrúar. Sveinbjörn virðist því nota orðið í merk­ingunni 'fyrrinótt'.

Á tímarit.is eru 232 dæmi um gærnótt, hið elsta frá 1945 en meira en helmingur frá síðustu 20 árum, og í Risamálheildinni eru 326 dæmi um orðið. En Málfarsbankinn er ekki einn um að amast við gærnótt. Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1998 var orðið kallað „barnamál“ og „orðskrípi“. Gísli Jónsson minntist nokkrum sinnum á orðið í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu – árið 1987 kallaði hann það „furðulegt málblóm“ og sagði að það hefði í sínu ungdæmi verið „talið til afglapamáls“. Síðar virðist hugur hans í garð orðsins hafa mildast því að 1995 sagði hann: „En það angrar mig ekki neitt, enda auðvelt að vitna í orðin gærmorgunn og gærdagur. Mér finnst í fljótu bragði að „gærnótt“ sé ekki bráðnauðsynlegt orð.“

Orðið gærnótt er vitanlega hvorki „orðskrípi“ né „afglapa­mál“ eins og Tryggvi Gíslason bendir á: „Orðið gærnótt er mynd­að á sama hátt og orðin gærdagur, gær­kvöld og gær­morg­un[n], en hefur ekki fest rætur í daglegu máli og málvönd­unar­menn hafa amast við því í vönduðu máli.  En þegar sjálfur Sveinbjörn Egilsson notar orðið er sannar­lega úr vöndu að ráða!“  En venjulega er höfðað til þess að ekki sé hefð fyrir orðinu: „Vissulega er talað um gærdag, gærkvöld eða gærmorgun, en gærnótt hefur ekki verið notað í máli okkar fram að þessu“ segir Jón Aðalsteinn Jónsson. Eins og hér hefur komið fram er það ekki alveg rétt – En hvað með það þótt svo væri? Ef aldrei mætti nota orð nema hefð væri fyrir því kæmu auðvitað engin ný orð inn í málið.

Það er auðvitað rétt hjá Gísla Jónssyni að orðið gærnótt er ekki „bráðnauðsynlegt“. En það verður varla notað sem rök gegn því – sama má segja um mikinn fjölda annarra orða. Orðið gærdagur er til dæmis „óþarft“ ef út í það er farið – í stað þess að segja í gærdag væri alveg nóg að segja í gær. Vandinn við gærnótt er hins vegar sá að það virðist vera notað í tveimur mismunandi merkingum – þegar sagt er þetta gerðist í gærnótt er ekki alltaf ljóst hvort merkingin er 'þetta gerðist í fyrrinótt (nóttina fyrir gærdaginn)' eins og það merkti hjá Sveinbirni Egilssyni, eða 'þetta gerðist í nótt (síðastliðna nótt)'. Kannski er það þessi óvissa sem veldur því að þetta annars ágæta og eðlilega orð er margfalt minna notað en systkini þess.

Annað skylt orð sem sem Gísli Jónsson nefndi í tengslum við gærnótt og gaf ekki betri umsögn er fyrragær sem hann sagði vera „samskonar glapamál, hvort sem það er notað af vanmætti eða einhvers konar tilburðum til fyndni.“ En þetta er þó gamalt orð sem kemur fyrir hjá ýmsum virtum höfundum – elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar er úr kvæði frá 17. öld eftir Stefán Ólafsson í Vallanesi. Orðið kemur líka fyrir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og í þulu og þjóðkvæði í safni Ólafs Davíðssonar, Íslenskar þulur og þjóðkvæði. Það kemur einnig a.m.k. sjö sinnum fyrir í verkum Halldórs Laxness, þar á meðal í kviðlingnum „Ójón ójón fullur í dag fullur í gær fullur í fyrragær“ í Íslandsklukkunni, og Thor Vilhjálmsson hefur einnig notað það.

Á tímarit.is eru rúm 60 dæmi um orðið, og það er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals og nefnt undir gær í Íslenskri orðabók. Ekki er ólíklegt að það sé myndað með hliðsjón af forgårs í dönsku og það er kannski meginástæðan fyrir andstöðu við það, en þetta er eðlileg orðmyndun í samræmi við fyrradag, fyrramorgun, fyrrakvöld og fyrrinótt. Auðvitað má segja að fyrragær sé, rétt eins og gærnótt, „óþarft“ orð, þannig séð, vegna þess að við höfum fyrradag í sömu merkingu – en þetta eru engin málspjöll, þótt ég ætli ekki að leggja til að við tökum það í virka notkun. En hvorugt orðið, gærnótt og fyrragær, á það skilið að vera úthrópað sem „orðskrípi“ eða „afglapamál“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gömul tillaga um hán

Orðið hán er þriðju persónu fornafns í hvorugkyni sem notað er í vísun til kynsegin fólks (í stað það sem er ekki heppilegt af ýmsum ástæðum). Þetta fornafn var kynnt í grein Öldu Villiljóss í vefritinu Knúz haustið 2013 . En nýlega komst ég að því fyrir tilviljun að tillaga um hán sem kynhlutlaust fornafn hafði verið sett fram 14 árum fyrr, e.t.v. þó ekki í fullri alvöru.

Árið 1999 birti Baldur Sigurðsson dósent greinina „Hann, hún eða hvort“ í kverinu Helgispjöll framin Helga Skúla Kjartanssyni fimmtugum, 1. febrúar 1999. Þar fjallar hann um nauðsyn kynhlutlauss fornafns og segir:

„Einfaldast væri auðvitað að nota hvorugkynið, það, um einstakling óháð kyni, en sú lausn hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn af einhverjum ástæðum. [...] Því blasir við að finna þarf nýtt persónufornafn í íslensku, jafn stutt, þjált og notagott og fornöfn eiga að vera, sem nota má til að vísa til einstaklinga óháð kyni, ekki hvorugkyn, heldur samkyn. Ekki er alveg hlaupið að því að smíða slíkt fornafn en þó er nokkuð ljóst að einhvern svip verður það að hafa af þeim fornöfnum sem fyrir eru.“

Síðan er vitnað í tillögu sem hafi komið fram í Svíþjóð 1993 um að steypa han og hon saman í haon - ekki er minnst á hen sem er þó mun eldra. En svo segir:

„Vel kemur til greina að leysa vandann í íslensku á svipaðan hátt og smíða fornafnið húan með kvenkynssérhljóðið á undan, eða haún, ef karlkynið fær að vera fyrst. […] Með því að hleypa sérhljóði karlkynsins á undan fáum við […] mun kunnuglegra – og margir myndu segja þekkilegra – tvíhljóð í fornafninu: haún, sem fljótlega myndi fá stafsetninguna hán. Fornafnið hán virðist afskaplega vænt fornafn, stutt og þjált í framburði, gott til undaneldis og á vetur setjandi.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Orðræðugreining fyrir lengra komna

Þótt margt hafi þegar verið skrifað um nýjustu „afsökunarbeiðni" Samherja vil ég ekki láta mitt eftir liggja með að greina orðræðuna í henni.

„Ámælisverðir viðskiptahættir fengu að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.“

Í upphafi er notað lýsingarorðið „ámælisverðir“ – miklu vægara orð en „saknæmir“, „vafasamir“ eða önnur svipuð sem hefðu komið til greina. Notuð er miðmyndarsögnin „viðgangast“ sem hefur engan geranda – það gerði enginn neitt, það bara gerðist. En það er ekki einu sinni sagt „viðgengust“, heldur „fengu að viðgangast“ – svona eins og til að gefa í skyn að einhverjir aðrir, t.d. eftirlitsaðilar, hefðu átt að bregðast við. Ekki er sagt „viðskiptahættir okkar voru ámælisverðir“.

„Veikleikar voru í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast.“

Hér kemur nánari útfærsla á því hvers vegna viðskiptahættirnir voru „ámælisverðir“ – það fólst ekki í saknæmum athöfnum, heldur í því að „veikleikar í stjórnskipulagi“ og „lausatök“ voru í rekstrinum.

„Við brugðumst ekki við eins og okkur bar.“

Það er athyglisvert að hér er allt í einu skipt yfir í germynd – „Við brugðumst ekki við“ – eins og eina sök fyrirtækisins felist í lélegri stjórnun. Jú, við létum þetta dankast, en við gerðum ekkert af okkur. Og hverjir eru þessir „við“?

„Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu.“

Hér er byrjað á ábendingarfornafninu „þetta“ sem ekki er alveg ljóst í hvað á að vísa – væntanlega í „veikleika í stjórnskipulagi“ og „lausatök“ sem nefnd eru í efnisgreininni á undan. Orðalagið „valdið uppnámi“ er ekki mjög nákvæm lýsing á sakamálarannsókn í þremur löndum. Röðin á þeim sem eru beðin afsökunar er athyglisverð – byrjað á starfsfólki, fjölskyldu og vinum sem „veikleikar í stjórnskipulagi“ og „lausatök“ hafa varla angrað mikið. Hins vegar er alveg sleppt að nefna almenning í Namibíu.

„Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar.“

Hér er aftur ekki alveg ljóst til hvers „þetta“ vísar - væntanlega þess að hafa „valdið uppnámi“. Það er ekki beðist afsökunar á gerðum fyrirtækisins, heldur á viðbrögðum annarra. Eins og oft vill verða varpar „afsökunarbeiðnin“ því ábyrgð á aðra.

„Það geri ég persónulega sem forstjóri og einnig fyrir hönd félagsins sem ætíð hefur haft vönduð vinnubrögð að leiðarljósi í allri sinni starfsemi.“

Að hafa „vönduð vinnubrögð að leiðarljósi“ merkir ekki það sama og „ástunda vönduð vinnubrögð“. Það er hægt að hafa fallega stefnu án þess að fylgja henni eftir í verki. Ýmis dæmi hafa verið nefnd um óvönduð og vafasöm vinnubrögð Samherja og nærtækast að vísa í „afsökunarbeiðni“ fyrirtækisins nýlega vegna starfsemi „skæruliðadeildar“ þess.

„Við viljum ekki láta við það sitja að biðjast afsökunar heldur draga lærdóm af þessum mistökum og tryggja að ekkert slíkt gerist aftur.“

Enn er dregið úr – „mistök“ er mun vægara orð en „ámælisverðir viðskiptahættir“ sem gengist var við í upphafi.

„Í því skyni höfum við gripið til viðamikilla ráðstafana.“

Ekki er minnst á það í hverju þessar ráðstafanir felist þannig að þetta segir ekki neitt.

„Frá upphafi hefur það verið meginmarkmið okkar að framleiða hágæða sjávarafurðir í sátt við umhverfið með ríka áherslu á sjálfbærni og góða umgengni við auðlindir sjávar. Við viljum halda því áfram og horfa fram á veginn.“

Hér kemur sjálfshól um fyrirtækið, skreytt með frösum eins og „í sátt við umhverfið“, og „með ríka áherslu á sjálfbærni“. Þetta kemur málinu ekkert við en er til þess ætlað að skapa jákvæða ímynd og milda hug lesenda þannig að þeir fyrirgefi frekar „mistökin“.

„Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“

Sem sagt: Við pössum okkur á því í framtíðinni að láta ekki komast upp um okkur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Frumlagsfall í þolmynd

Ég rakst á fyrirsögn sem er skemmtilegt dæmi um hvernig föll breyta stundum merkingu. Þarna er notað nefnifall, „Fornbílasafn í Brákarey verður lokað í sumar“, ekki þágufall, „Fornbílasafninu í Brákarey verður lokað í sumar“ – sem væri fullkomlega eðlileg og rétt setning, en merkir ekki það sama. Ef nefnifall er notað er um germynd að ræða og lokað er þar lýsingarorð – setningin lýsir ekki athöfn eða aðgerð, heldur stöðu mála. Sé notað þágufall er setningin þolmynd og lokað er þá lýsingarháttur þátíðar – setningin lýsir athöfn. Í þessu tilviki skiptir þetta þeim mun meira máli vegna þess að ekki er ljóst hvort lokunin er tímabundin, eins og fyrirsögnin gefur til kynna, eða til frambúðar, eins og þágufallið segði.

Föll eru skemmtileg. Stundum skiptir engu fyrir merkinguna hvort notað er þolfall eða þágufall – þótt fólk kunni að hafa mismunandi skoðanir á því hvort eigi að segja mig langar eða mér langar, þora það eða þora því, spá í þetta eða spá í þessu er ljóst að bæði afbrigðin merkja það sama. En það skiptir hins vegar máli hvort sagt er klóra einhvern eða klóra einhverjum eða fara með einhvern í bæinn eða fara með einhverjum í bæinn. Og í þessu tilviki skiptir heilmiklu máli hvort notað er nefnifall eða þágufall – hvort sagt er safnið verður lokað eða safninu verður lokað.

Posted on Færðu inn athugasemd

ske, máske - og kannski

Atviksorðin máske/máski og kannske/kannski eru tökuorð úr dönsku, komin inn í málið á 16.-17. öld. Samkvæmt tímarit.is var máske miklu algengara lengi framan af – það var ekki fyrr en um 1930 sem kannske varð algengara. Um svipað leyti fara myndir með -i, máski og kannski, líka að verða áberandi, en fram undir það var nánast alltaf ritað máske og kannske. Dæmum um máske/máski hefur smátt og smátt farið fækkandi síðan um miðja síðustu öld, sérstaklega á síðustu 30 árum, og orðið virðist vera að hverfa úr málinu. Rithátturinn máske hefur alltaf verið algengari en máski þótt mjög hafi dregið saman með þessum myndum undanfarna áratugi, og máske er eini rithátturinn sem er gefinn upp í Íslenskri stafsetningarorðabók.

Tíðni kannske/kannski hefur aftur á móti aukist stöðugt undanfarna áratugi, og nú er það hátt í 200 sinnum algengara en máske á tímarit.is. Rithátturinn kannski varð algengari en kannske á sjöunda áratug síðustu aldar og síðan hefur stöðugt dregið í sundur – nú er kannski u.þ.b. 100 sinnum algengara en kannske, og fyrrnefnda myndin er sú eina sem er gefin upp í Íslenskri stafsetningarorðabók. Og svo er það sögnin ske sem kom inn í málið á 16. öld og lengi hefur verið amast við – er „útlendur slæðingur og vart rithæf“ segir í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar eins og mörgum mun í minni. Áratuga barátta gegn henni virðist þó ekki hafa borið mikinn árangur lengi vel, en eftir síðust aldamót hrapar hún í tíðni og virðist vera á leið úr málinu – eins og máske.

Sögin ske hefur aldrei verið rituð *ski og kannski er það e-ið í endann sem veldur því að ske og máske eru á útleið – það veldur því að orðin hafa ekki íslenskan svip yfir sér. Aftur á móti kann kannski að hafa tryggt sér framhaldslíf með því að rithátturinn með -i varð ofan á. Hugsanlega er þetta dæmi um að tilfinning okkar fyrir því hvernig íslensk orð eigi að vera sé í fullu fjöri.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað er málvenja?

Ég hef oft verið spurður eitthvað sem svo: „Ef nógu margt fólk tekur upp einhverja vitleysu, verður hún þá rétt?“ Ég hef alltaf svarað slíkum spurningum játandi – þannig er það einmitt sem tungumálið virkar. En ég veit vel að slíkt svar hugnast ekki öllum – mörgum finnst að það sem er rétt hljóti að halda áfram að vera rétt þótt stór hluti málnotenda sé farinn að tala öðruvísi. Ágætur málvöndunarmaður sagði einu sinni að engum dytti í hug „að miða söngkennslu við það hvernig lélegasti söngvarinn syngur lagið. Þjóðlagið breytist ekki neitt þó að einstaka maður syngi falskt. Það heldur áfram að vera sama lagið.“

En tungumálið er annars eðlis – það er samkomulagsatriði málnotenda. Ef nógu margt fólk er farið að nota eitthvert orð, orðasamband, merkingu, beygingu eða framburð á þann hátt að málumhverfi þess (ekki endilega allt málsamfélagið) samþykki þessa notkun, þá er hún orðin rétt. Ágætt dæmi um þetta er orðið vetfang. Í Málfarsbankann segir: „Athuga að rugla ekki saman orðunum vetfang og vettvangur. Þetta gerðist í einu vetfangi. Málið hefur verið rætt á þessum vettvangi.“ En í Íslenskri orðsifjabók stendurvetfang h. (17. öld) ‘andrá, svipan’; ummyndun úr vettvangur“.

Ég er alveg sammála Málfarsbankanum – í mínu máli eru vetfang og vettvangur tvö skýrt aðgreind orð með mismunandi merkingu, og mér finnst æskilegt að halda því þannig. En það þýðir ekki að ég efist um upprunaskýringu Íslenskrar orðsifjabókar, að vetfang sé ummyndun úr vettvangur – ef þetta væri að gerast í nútímamáli væri kannski frekar talað um „afbökun“ eða „orðskrípi“. Þegar þessi ummyndun var að verða hefur þetta auðvitað verið „rangt mál“ til að byrja með. En fólk hélt áfram að nota þessa „málvillu“, og á endanum hætti hún að vera „villa“ og varð viðurkennt mál. Þannig verða málbreytingar og þannig hafa þær alltaf orðið.

Hins vegar má auðvitað velta því fyrir sér hvenær tiltekin nýjung sé orðin málvenja, og þar með „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. Augljóslega er hún viðurkennd ef allt málsamfélagið er búið að taka hana upp, eins og með vetfang, en varla þarf það til – tæpast dettur nokkrum í hug að halda því fram að það sé rangt að bera fram á og au í orðum eins og langur og þröngur, þótt sá framburður sé óumdeilanlega „nýjung“ og enn sé til fólk sem ber fram a og ö í slíkum orðum. Það er útilokað að koma með skilgreiningu á málvenju sem almenn sátt verði um, en hér er mín tilraun:

Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum, finnst mér mál til komið að viðurkenna hana sem málvenju og þar með „rétt mál“. Það þarf ekki endilega að þýða að hún sé talin æskileg í hvaða málsniði sem er, en það þýðir að hún er ekki fordæmd og fólk sem hefur hana í máli sínu er ekki litið hornauga eða hneykslast á því.

Posted on Færðu inn athugasemd

sitthvor

Fornöfnin hvor og sinn tengjast oft nánum böndum, eru eiginlega eitt tvíyrt fornafn þar sem hvor sambeygist orðinu sem það vísar til en sinn sambeygist orðinu sem það stendur með. Stundum er greint á milli tvenns konar merkingar sambandsins eftir því í hvaða röð orðin standa. Þegar hvor er á undan er talað um eignarmerkingu – „Fóru þá hvorir til skipa sinna“ segir í Heimskringlu. Sé sinn á undan er talað um dreifimerkingu eða deilimerkingu – „Gestur Oddleifsson fór vestan af Barðaströnd og Þorkell Súrsson á sínu skipi hvor þeirra“ segir í Gísla sögu. Í fyrra tilvikinu eiga menn þau skip sem um er að ræða, en í seinna tilvikinu er ekki vísað til eignarhalds, heldur aðeins átt við að þeir fóru ekki á sama skipi.

Þessi greinarmunur er oftast gerður í fornu máli. Í nútímamáli er munurinn líklega flestum málnotendum framandi og báðar raðirnar notaðar í báðum merkingum. Einnig kemur fyrir að hlutverkum sé víxlað þannig að sinn sambeygist orðinu sem það vísar til en hvor orðinu sem það stendur með. Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Ekki mun talið rangt að segja: Þeir fóru sinn í hvora áttina. En best færi: Þeir fóru í sína áttina hvor.“ Í Málfarsbankanum segir: „Orðin hvor og sinn eiga ekki að beygjast saman. Bræðurnir komu hvor á sínum bílnum (ekki: „bræðurnir komu á sitthvorum bílnum“). Börnin hlupu sitt í hvora áttina (ekki: „börnin hlupu í sitthvora áttina“).“

Eins og þessi dæmi benda til renna fornöfnin iðulega saman í eitt – sitthvor. Þessi samruni er mjög algengur – hátt í fimm þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1914. Dæmum fer þó ekki að fjölga að ráði fyrr en eftir 1980, og í Risamálheildinni eru rúm fimm þúsund dæmi. Þegar fornöfnin renna saman í eitt orð er algengast að aðeins seinni hlutinn beygist og hvorugkynsmyndin sitt sé notuð í fyrri hlutanum – þeir / þær / þau eiga sitthvorn bílinn. En einnig er til að fyrri hlutinn taki kynbeygingu – þeir eiga sinnhvorn bílinn / þær eiga sínhvorn bílinn. Þetta er þó mjög sjaldgæft, og dæmum um sinnhvor og sínhvor virðist fara fækkandi – eru tæp 5% af heildinni á tímarit.is en innan við 1% í Risamálheildinni.

En fleiri tilbrigði má finna af þessu sambandi eins og sjá má af næstelsta dæminu um sitthvor sem er úr Iðunni 1919, í grein eftir Ágúst H. Bjarnason prófessor: „En persónugervingar þessir voru svo ólíkir af því, að sitthvort heilakerfið starfaði í sitt hvort sinnið og sitt með hverjum hætti.“ Þarna eru báðir hlutar sambandsins tvíteknir og annar stendur þar sem sinn ætti að vera en hinn þar sem hvor ætti að vera  – hefðbundið mál væri sitt heilakerfið stafaði í hvort sinnið. Nokkur dæmi eru um þetta í Risamálheildinni, t.d. „Halldór segir það vera sérstakt að sitthvor ráðherrann sé með sitthvora stefnuna en þó í sömu ríkisstjórninni“.

Þótt myndin sitthvor njóti ekki fullrar viðurkenningar hefur hún komist inn í orðabækur og kennslubækur – fyrst í bók Jóns Hilmars Jónssonar, Islandsk grammatikk for utlendinger, árið 1984 þar sem hún er nefnd án nokkurra athugasemda. Í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 eru myndirnar sinnhvor, sínhvor og sitthvor þrjár sjálfstæðar flettur – sú fyrstnefnda merkt sem óformlegt mál en hinar sem mál sem nýtur ekki fullrar viðurkenningar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er aðeins sitthvor gefið og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. En í ljósi aldurs og tíðni orðsins sitthvor er kominn tími til að viðurkenna það að fullu sem eðlilegt og rétt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Orðræðugreining fyrir byrjendur

Ég hef stundum sagt að ekkert sé brýnna að kenna í skólum landsins en orðræðugreiningu. Það hellist yfir okkur svo mikið af falsfréttum að það er lífsnauðsyn að fólk læri að greina sannleikann, hverju verið er að lauma að okkur, hverju á að láta okkur trúa, hvaða viðhorfum á að koma inn hjá okkur. Mér sýndist ekki vanþörf á að greina orðræðuna í fréttatilkynningu Samherja sem birtist í gær.

„Undanfarin mörg ár hefur mikið verið fjallað um ýmis málefni er tengjast starfsemi Samherja. Samherji hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki á mörgum stöðum á landinu og í heiminum. Þetta starfsfólk hefur verið í forystu við uppbyggingu eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og í fremstu röð í harðri samkeppni á alþjóðavísu.“

Þetta kemur málinu ekkert við. Enginn efast um að starfsfólk Samherja sé mjög hæft og fyrirtækið öflugt og framsækið. Þessi inngangur er eingöngu til þess ætlaður að ýta undir jákvæð viðhorf til fyrirtækisins áður en farið er að ræða ávirðingar þess. Lesendur kinka kolli og hugsa „já, þetta er nú allt saman satt og rétt, þetta er fyrirmyndarfyrirtæki“ – og verða tilbúnari til að fyrirgefa því.

„Bæði stjórnendum og starfsfólki hefur sviðið þessi umfjöllun og umræða um fyrirtækið og störf sín enda þykir þeim umfjöllunin hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.“

Umræðan hefur ekkert snúist um almennt starfsfólk Samherja og störf þess, nema að því marki sem stjórnendur þess sjálfir hafa kosið að draga það inn í málið. Hér er látið eins og öll umræða um fyrirtækið undanfarið hafi verið neikvæð og einhliða en það er auðvitað rangt. Ekki er minnst á að stjórnendur fyrirtækisins hafa ekki nýtt tækifæri sem þeim hafa boðist til andsvara og til að leiðrétta það sem þeir telja ekki byggt á staðreyndum. Engin dæmi eru tekin um hvað það sé.

„Í slíkum aðstæðum, þegar vegið er að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi, þá getur reynst erfitt að bregðast ekki við.“

Hér kemur ekki fram að starfsheiðri hverra hafi verið vegið. Áður var starfsfólk og stjórnendur sett undir einn hatt og þessi framsetning á að koma því inn hjá lesendum að vegið hafi verið að báðum hópum. Ekki er nefnt að stjórnendur fyrirtækisins hafa algerlega neitað að bregðast við á þeim vettvangi þar sem hinar ósanngjörnu ásakanir – að þeirra mati – hafa verið bornar fram.

„Í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið fjallað um samskipti fólks sem skiptist á skoðunum og ræddi hvernig best væri að bregðast við þessum aðstæðum.“

Það var ekki bara rætt um viðbrögð við ásökunum, heldur einnig hvernig ætti að koma í veg fyrir að frambjóðandi sem var stjórnendum Samherja ekki þóknanlegur næði kjöri sem formaður í stéttarfélagi, nauðsyn þess að finna hagstæðan frambjóðanda í prófkjöri ráðandi stjórnmálaflokks, og hvernig ætti að hundelta tiltekna fréttamenn. Að tala um það sem skoðanaskipti um heppileg viðbrögð við aðstæðum er auðvitað rugl.

„Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg.“

Það kemur málinu ekkert við hvort gert var ráð fyrir því að samskiptin yrðu opinber – þau eru jafn óeðlileg þrátt fyrir það. Þetta er bara sett þarna inn til að minna lesendur á að upplýst hafi verið með samskiptin með óeðlilegum aðferðum. Að segja að umræðan hafi verið „óheppileg“ er ansi vægt til orða tekið. Þar að auki snýst málið ekki bara um umræðuna, heldur líka um þær aðgerðir sem fyrirtækið hefur gripið til.

„Þá hafa stjórnendur Samherja brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“

Þetta er auðvitað merkingarlaust. Fyrirtæki er hvorki talandi né skrifandi. Það er ekki hægt að fara í meiðyrðamál við fyrirtæki. Fyrirtæki getur ekki beðist afsökunar. Það er mjög lýsandi að stjórnendur fyrirtækisins skuli ekki vilja leggja nafn sitt við þessa „afsökunarbeiðni“. Auk þess er ekki ljóst á hverju er verið að biðjast afsökunar – og hvern er verið að biðja afsökunar. Þjóðina? Helga Seljan og aðra sem hafa orðið fyrir barðinu á viðbrögðunum?