Posted on Færðu inn athugasemd

Eitt fólk?

Í umræðu um mál og kyn í Facebook-hópnum Málspjall nefndi Lára Ómarsdóttir að ungt fólk í sínu umhverfi notaði orðið fólk á nýstárlegan hátt, til að vísa til einstaklings af ótilgreindu kyni, og talaði um eitt fólk og mörg fólk. Ég veit ekki hversu útbreitt þetta er en ég hef a.m.k. aldrei heyrt það fyrr og geri ráð fyrir að það hljómi framandi og jafnvel fáránlega í eyrum flestra. En þegar eitthvert nýtt málbrigði ber fyrir augu eða eyru er ekki endilega vænlegt til árangurs að fordæma það umsvifalaust og vísa því út í hafsauga. Skynsamlegra og skemmtilegra er að velta fyrir sér hvert eðli þess er og hvers vegna það kemur upp – og taka afstöðu að því loknu.

Auðvitað er fólk dálítið sérstakt orð – formlega séð eintöluorð þótt það vísi til hóps (í hefðbundnu máli). Þess vegna er talað um margt fólk og allt fólkið, ekki mörg fólk og öll fólkin, og þess vegna er okkur kennt að vísa til þess með fornafni í eintölu, eins og segir í Málfarsbankanum: „Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Allt fólkið, sem ég talaði við, ætlaði út að skemmta sér, svo sagði það a.m.k. (ekki: „allt fólkið, sem ég talaði við, ætluðu út að skemmta sér, svo sögðu þau a.m.k.“).“

Þetta getur valdið vandkvæðum og verkað truflandi, bæði vegna þess að það stríðir gegn málkennd margra að nota eintölufornafn til að vísa til hóps af fólki, og eins vegna þess að persónufornafnið það fer oft ekki vel í vísun til fólks og getur verið niðrandi að mati margra (sem er ástæðan fyrir upptöku fornafnsins hán). Enda er fleirtalan þau oft notuð í staðinn eins og flestir íslenskukennarar þekkja vel – annars þyrfti ekki að brýna það fyrir fólki að nota eintöluna.

Með því að hliðra merkingu orðsins fólk á þennan hátt mætti leysa margan vanda. Við losnuðum við að nota orðin maður og manneskja um fólk af ótilgreindu kyni. Þau orð hafa óneitanlega ákveðna tengingu við karla og konur í huga margra, þótt það sé ekki ætlun þeirra sem nota þau. Að auki gæti þetta losað okkur undan því að nota orð eins og aðili, einstaklingur, persóna o.fl. sem iðulega eru notuð í þessum tilgangi og ekki þykja alltaf fara vel.

Þarna væri vissulega verið að víkja dálítið frá venjulegri og upphaflegri merkingu orðsins fólk sem er ‘lýður, almenningur, mannfjöldi’ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En það er svo sem fjarri því að vera einsdæmi að merking orða breytist með tímanum og þessi breyting væri ekki meiri en ýmsar sem hafa orðið á undanförnum öldum.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort þessi notkun breiðist út á næstu árum. Ég er ekki tilbúinn til þess enn að hafa skoðun á því hvort þessi breyting væri til bóta, ef hún gengi í gegn - vil hvorki mæla með henni né móti að svo stöddu. Það er hins vegar mikilvægt að hún er sjálfsprottin meðal málnotenda en ekki komin neins staðar að ofan. Sé það vilji málnotenda að breyta málnotkuninni á þennan hátt gerist það, sama hvað málfræðingar og aðrir segja.

Posted on Færðu inn athugasemd

Markmið málfræðilegrar umræðu

Mér þykir vænt um íslenskuna og var svo lánsamur að geta gert kennslu hennar og rannsóknir að ævistarfi. Ég var harður málvöndunarmaður á unglingsárum og nokkuð fram á háskólaár mín – ekki í vafa um hvað væri rétt mál og fordæmdi það sem var talið rangt, og dró ekki í efa óskeikulleik kennslubóka og málsmetandi manna þar um. Ef ég heyrði eða sá einhvern nota það sem ég taldi rangt mál dró umsvifalaust úr áliti mínu á þeim hinum sama. En ég skipti um skoðun þegar ég áttaði mig á því hvernig tungumálið væri notað sem valdatæki til að halda fólki niðri og gera lítið úr því, og hversu ósanngjarnt það væri að flokka fólk eftir því hvaða tilbrigði málsins það hefði tileinkað sér á máltökuskeiði.

Þótt ég sé málfræðingur get ég vitanlega ekki talað í nafni allra íslenskra málfræðinga, og mér finnst rétt að vekja athygli á því að margir þeirra eru mér örugglega ósammála um ýmis atriði. Ég hef verið talinn frjálslyndur í málfarsefnum, jafnvel úr hófi fram, í þeirri merkingu að ég vilji leyfa ýmislegt sem hefðbundið er að flokka sem rangt mál. Stundum er því haldið fram að ég vilji „leyfa allt“ en það er mikil einföldun. Aðalatriðið er að þetta snýst að mínu mati ekki um að leyfa eða banna eitt eða annað, heldur um að fræða í stað þess að fordæma, að hvetja til fjölbreyttrar málnotkunar í stað þess að hafna tilbrigðum, og að hlúa að málkennd fólks í stað þess að ýta undir óöryggi og málótta.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert athugavert við ýmis tilbrigði sem venja hefur verið að kalla „málvillur“ og reynt hefur verið að venja fólk af. En vitanlega er eðlilegt og sjálfsagt að vekja athygli á ýmsum nýjungum í málinu – bæði enskum áhrif á setningagerð og orðafar og sjálfsprottnum breytingum sem koma upp án þess að þær verði raktar til utanaðkomandi áhrifa – ræða ástæður þeirra og eðli, og skoða hvort ástæða sé til að reyna að sporna við þeim. Það er líka sjálfsagt og eðlilegt að hvetja til skýrleika í máli og vandaðrar framsetningar en vinna gegn hvers kyns ósamræmi og hroðvirkni. En hvað með „málvillurnar“ – ýmsar málbreytingar sem eru og hafa verið í gangi? Á að láta þær óáreittar?

Já og nei. Mér finnst mikilvægt að fólki sé ekki innrætt að málið sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að fólk er enn flokkað eftir málfari – í skólum að sjálfsögðu, þar sem prófað er í „réttu“ máli, en líka í atvinnuviðtölum, fjölmiðlum og víðar. Þess vegna skiptir máli að fólk viti hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og geri sér grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“. Fólk hefur þá val um hvort það leggur á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við eiginlegt mál þess.

En langtímamarkmiðið er að þessari flokkun eftir málfari verði hætt og fólk geti óhikað notað sitt eigið mál án þess að eiga á hættu að verða dæmt fyrir það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hárið mitt

Oft er amast við málbreytingu sem nú er í gangi og tekur til hóps orða sem mætti e.t.v. kalla „líkamsorð“, þ.e. orð um ýmis líffæri og líkamshluta. Til skamms tíma hefur verið notaður forsetningarliður með þessum orðum til að vísa til „eigandans“ – talað um hárið á mérhjartað í þérnefið á honumaugun í henni, o.s.frv. En nú er orðið algengt, einkum meðal yngra fólks, að nota eignarfornafn eða eignarfall í staðinn og segja hárið mitthjartað þittnefið hansaugun hennar o.s.frv.

Fólk talar oft eins og þetta sé nýjung en svo er ekki – þetta afbrigði hefur alltaf verið til, þótt það hafi ekki verið algengt. Í Sturlungu segir Snorri Þorvaldsson „Hvar er nú fóturinn minn?“ þegar fóturinn hefur verið höggvinn af honum. „Augun mín og augun þín“ kvað Vatnsenda-Rósa. „Hausinn minn er þröngur“ sagði jólasveinninn sem hélt að krakkasöngurinn væri væl. Á tímarit.is má finna slæðing af dæmum um þessa setningagerð frá 19. öld og síðan. En vissulega virðist tíðnin hafa aukist mjög á undanförnum árum.

Reyndar er rétt að hafa í huga að hefðbundna setningagerðin, að nota forsetningarlið, er líka „nýjung“ – að vísu nokkurra alda gömul. Í fornu máli var yfirleitt notað eignarfornafn eða eignarfall, eins og í nýja afbrigðinu – hár mitthjarta þittnef hansaugu hennar. Munurinn er sá að nú hefur „líkamsorðið“ ákveðinn greini, en var greinislaust í fornmáli. Sú setningagerð er vitanlega enn til í formlegu ritmáli. Notkun forsetningarliðar kemur svo til á 14.-15. öld eða svo og hefur verið aðalafbrigðið síðan.

Sú skoðun virðist mjög útbreidd að hér sé um ensk áhrif að ræða en mér finnst ekkert benda sérstaklega til þess. Því fer nefnilega fjarri að nýja afbrigðið hermi eftir enskunni. Þar er sagt my hairyour hearthis noseher eyes. Eignarfornafnið fer þar á undan „líkamsorðinu“, ekki á eftir eins og í íslensku. Þar að auki notar íslenskan ákveðinn greini en enskan ekki. Ef sagt væri mitt hárþitt hjartahans nefhennar augu væru ensk áhrif líkleg – en þetta er yfirleitt ekki sagt, held ég.

Það er rétt að athuga að hefðbundin hegðun „líkamsorðanna“ er í raun undantekning – öll önnur nafnorð tjá eigandann með eignarfornafni eða eignarfalli persónufornafns, en ekki í forsetningarlið. Við segjum bókin mínbíllinn þinnhundurinn hanshúsið hennar. Það liggur beint við að álykta að „líkamsorðin“ séu einfaldlega að laga hegðun sína að hegðun annarra nafnorða í málinu. Þess vegna er varla hægt að halda því fram að þessi breyting feli í sér einhver málspjöll.

En í umræðu á netinu um þessa breytingu kom einu sinni upp annað sem ég hafði ekki leitt hugann að. Þar var bent á að á undanförnum árum er – sem betur fer – lögð mikil áhersla á það við ung börn að þau eigi líkama sinn sjálf. Maður hefur tilfinningu fyrir því – eða börn hafa það a.m.k. sennilega – að hárið mitt sé miklu meiri einkaeign mín en hárið á mér. Mér finnst ekki ótrúlegt að þetta stuðli að aukinni útbreiðslu þessa afbrigðis þótt það sé væntanlega ekki eina ástæðan.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynjamál

Ég hef lagt áherslu á það að okkur beri að sýna málnotkun annarra virðingu og umburðarlyndi og taka tilbrigðum í máli fagnandi – eða a.m.k. sætta okkur við þau. Það er einlæg sannfæring mín að þetta sé ein meginforsenda þess að íslenska lifi áfram hjá börnum okkar og barnabörnum. En umburðarlyndið á sér þó takmörk. Málnotkun okkar má ekki misbjóða fólki eða niðurlægja það á nokkurn hátt. Íslenskan á það ekki skilið að hún sé notuð til að meiða fólk.

Þess vegna eigum við ekki að nota um fólk einhver orð sem fólkið vill ekki að séu notuð um það. Þótt orð eins og kynvillingurnegri og önnur slík hafi þótt eðlileg áður fyrr – raunar fyrir ekki mjög löngu – er svo ekki lengur. Þótt fólk á mínum aldri sé alið upp við þessi orð höfum við flest áttað okkur á því að þau þykja ekki lengur við hæfi, og vanið okkur af notkun þeirra. Það er eðlilegt og sjálfsagt – og ekki svo erfitt.

Málið verður hins vegar flóknara þegar kemur að kynjuðu málfari – bæði notkun karlkyns sem ómarkaðs (hlutlauss) kyns, og notkun orðsins maður og samsetninga af því í vísun til beggja (eða allra) kynja. Ég veit að mörgum konum og kynsegin fólki finnst slík málnotkun útilokandi, finnst ekki vísað til sín. Við þurfum að taka þá tilfinningu alvarlega en ekki vísa henni umsvifalaust á bug.

Ef málnotkun eins og Allir þurfa að fara í skimun eða Mönnum er skipað að fara í sóttkví í vísun til blandaðs hóps verkar útilokandi á fólk, má þá ekki bara breyta henni? Það er vel hægt að segja Öll þurfa að fara í skimun (eins og var gert í fjölmiðlum nýlega) og Fólki er skipað að fara í sóttkví. Er þetta ekki jafn sjálfsagt og að hætta að tala um kynvillinga og negra?

Kannski – og þó. Þetta er ekki sambærilegt. Það er einfalt að læra ný orð – við erum alltaf að því. Það er dálítið meira mál að venja sig á að nota þessi nýju orð í stað annarra sem við erum vön að nota, en með tímanum gengur það yfirleitt. En orðið maður og samsetningar af því er ekkert venjulegt orð. Það er algengasta nafnorð málsins og notað í mjög fjölbreyttu samhengi. Það er meiriháttar breyting að finna gott orð í staðinn og koma því í almenna notkun. Það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt – en það tæki tíma.

Breyting á hlutlausu kyni er enn snúnari. Það er ekkert náttúrulögmál að karlkynið sé hlutlaust, en það er það sem við erum öll alin upp við. Ég skil samt vel að sumum finnist það ekki höfða til sín, og venji sig á að nota hvorugkyn sem hlutlaust kyn í staðinn. Vissulega er hægt að nefna dæmi þar sem þetta gæti valdið misskilningi en ég held að það sé ekki líklegt til að valda vandkvæðum. Því hefur líka verið haldið fram að þetta geti valdið óvissu í málnotkun en ég hef ekki miklar áhyggjur af því heldur.

En þetta er ekki sambærilegt við það að hætta að nota ákveðin orð – þetta snýst um breytingu á málkerfi fólks og mér finnst ekki hægt að ætlast til þess að fólk breyti málkerfi sínu. Aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Þau sem vilja hafna karlkyni sem hlutlausu kyni þurfa að hafa í huga að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og þau sem vilja halda í karlkynið sem hlutlaust kyn þurfa að sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi.

En það má ekki gerast að fólk verði flokkað eftir málnotkun hvað þetta varðar og annað hvort tilbrigðið verði talið villa eða óviðeigandi málnotkun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Heilsan hrakar

Ég sá nýlega fyrirsögnina „Heilsa eldri borgara hrakaði í síðasta heimsóknarbanni“. Ég er vanur því að sögnin hraka stýri þágufalli á frumlagi sínu og hélt því að þetta væri fljótfærnisvilla (satt að segja var töluvert um þær í fréttinni) – þarna ætti að standa Heilsu fólks hrakaði en ekki Heilsa fólks hrakaði. En þegar ég las fréttina sá ég að þar stóð líka „Heilsa fólks á hjúkrunarheimilunum hrakaði mjög í síðasta heimsóknarbanni“ og „heilsa fólks hrakaði mikið“ þannig að væntanlega hefur blaðamaðurinn ætlað að hafa þetta svona.

Sögnin hraka er eingöngu tilgreind með þágufallsfrumlagi í orðabókum (reyndar rakst ég á dæmi frá 1857 þar sem hún tekur nefnifallsfrumlag og þágufallsandlag: „komi eitthvað upp á, sem hrakar skepnunni“). Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tilgreindar tvær náskyldar merkingar sagnarinnar: 'verða verri til heilsunnar' og 'verða verra, versna'. Í fyrri merkingunni er sögnin notuð um fólk (og hugsanlega dýr) – sjúklingnum hrakar, henni hrakaði. Í seinni merkingunni er hún notuð um heilsu, kunnáttu, ástand, horfur o.s.frv. – heilsunni hrakar, ástandinu hrakar.

Önnur sögn mjög svipaðrar merkingar er versna. Hún hefur líka hliðstæð merkingarblæbrigði: 'verða verri til heilsunnar, líða verr', og tekur þá þágufallsfrumlag, eins og sjúklingnum versnaði; og svo 'verða verri'. En munurinn er sá að í seinni merkingunni tekur versna frumlag í nefnifalli, ekki þágufalli – heilsan versnaði. Á netinu fann ég fáein dæmi um nefnifallsfrumlag með hraka, en þau voru öll um seinni merkinguna, heilsan hrakaði eða eitthvað slíkt, eins og í fréttinni. Engin dæmi voru um nefnifall á persónunni, *sjúklingurinn hrakaði.

Alveg sama gildir um sögnina batna, nema hún er þveröfugrar merkingar – en hún tekur líka þágufall á persónu (sjúklingnum batnar) en nefnifall á heilsu, ástand o.þ.h. (heilsan batnar). Mér finnst líklegt að þarna sé ástæðuna fyrir nefnifallinu með hraka að finna. Þar er farið með sögnina á sama hátt og versna og batna – sem eru báðar miklu algengari en hraka og því líklegri til að hafa áhrif á hana en öfugt. Þarna finnst málnotendum (sumum a.m.k.) vera eitthvert kerfi og leitast við að fella hraka inn í það. Ég sé svo sem enga ástæðu til að amast sérstaklega við því.

Það er almennt séð æskilegt að fylgja málhefð, og í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, væri einfalt að úrskurða heilsan hrakar rangt og segja að blaðamaðurinn þurfi að læra íslensku betur. En það er bara svo miklu skemmtilegra og gagnlegra að velta fyrir sér og reyna að grafast fyrir um hvers vegna tilbrigði af þessu tagi komi upp. Það eykur skilning okkar á tungumálinu og eðli þess, og sýnir okkur betur hvað tungumálið er undursamlegt fyrirbæri, kennir okkur að meta það betur, og gerir okkur umburðarlyndari fyrir tilbrigðum. Þar með aukum við líkurnar á að börnin okkar vilji áfram tala íslensku.

 

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég senti bréfið

Flestar sagnir sem hafa nd í stofni mynda þátíð með ‑ti. Þetta eru benda, henda, lenda, venda — þátíð benti, henti, lenti, venti. Sögnin enda fær oftast ‑aði í þátíð, en þó bar við áður fyrr að hún fengi þátíðina enti — „það enti með því að hann varð að hverfa aftur við svo búið“ segir í Les­bók Morgun­blaðsins 1968. Miðmyndin endast (ef það er talin sama sögn) er líka entist í þátíð. En sögnin senda er undantekning — hún hefur venjulega haft þátíðina sendi þeg­ar hún merkir ʻflytja einhverjum eitthvaðʼ eða ʻláta ein­hvern fara eitt­hvaðʼ eins og hún gerir oftast.

Í Málfarsbankanum segir þó: „Þátíðin senti er einnig til en aðeins í merkingunni: kasta.“ Í þeirri merkingu stjórn­ar sögn­in þágufalli á því sem kastað er — í Tímanum 1957 segir: „Lögregluþjónn kom út, gekk aftur fyrir bílinn, opn­aði farangursgeymsluna og tók í rófuna á dauðum ketti og senti honum af hendi fram í fjöruna.“ Miðmyndin send­ast hefur þá­tíðina sendist ef hún merkir ʻsnúast (fyrir ein­hvern)ʼ eða eitthvað slíkt — ég sendist oft fyrir hana áður fyrr. Aftur á móti er þátíðin sentist ef sögnin merkir ʻbregða skjótt viðʼ eða álíka — ég sentist strax af stað. Sama máli gegn­ir með enda­sendast.

En þótt áðurnefndar sagnir með nd í stofni endi á ‑ti í þá­tíð í nútímamáli, aðrar en senda, hefur það ekki alltaf ver­ið svo. Í fornu máli enduðu þær yfirleitt á ‑di, eins og senda gerir enn, þótt myndum með ‑ti bregði fyrir af ein­hverj­um þeirra. Þátíðin var sem sé bendi, endi, hendi, lendi, vendi — og sendi. Það þarf því ekki að koma á óvart þótt senda sýni til­hneigingu til að elta þær og verða senti í þátíð — ekki bara í merkingunni ʻkastaʼ. Sú tilhneiging á a.m.k. aldargamlar rætur — í blaðinu Reykjavík segir árið 1913: „Og skipið rak og rak þangað til það stóð, og hann senti á það hverja öld­una hvítfyssandi á fætur annari.“

Á síðustu árum virðist þessi þátíð vera mjög algeng ef marka má Risamálheildina. Ef hún nær yfirhöndinni verð­ur senda ekki lengur undantekning og þar með mætti segja að sagnbeygingin hefði einfaldast — beyging senda hefði lagað sig að beygingu annarra sagna með sömu stofn­gerð. En við þetta verður til ný beygingarmynd — mis­munandi beyg­ing­ar­myndum sagnarinnar fjölgar. Það er ekki ein­földun, heldur þvert á móti. En svona er þetta iðu­lega — ein­földun á einum stað hefur venjulega þver­öfug áhrif á einhverjum öðrum stað í málkerfinu þótt það liggi ekki alltaf í augum uppi.

Oft er því haldið fram að málbreytingar stefni jafnan í átt til einföldunar og stafi jafnvel iðulega af leti. Það má vísa letinni algerlega á bug sem skýringu, en hitt er rétt að marg­ar málbreytingar virðast í fljótu bragði leiða til ein­föld­unar í málkerfinu. Þar er þó yfirleitt ekki allt sem sýn­ist eins og hér hefur verið sýnt, og það má fullyrða að mál­breytingar leiða sjaldnast eingöngu til einföldunar. Ef svo væri, þá væri tungumálið fyrir löngu búið að ná há­marks­stigi einföldunar — orðið fullkomið.

Hér er líka rétt að athuga að í hefðbundinni beygingu er senda eins í nútíð og þátíð framsöguháttar — ég sendi bréfið í gær (þátíð), ég sendi bréfið á eftir (nútíð). Það má þess vegna halda því fram að senti sé „betri“ þátíðarmynd en sendi vegna þess að með henni er greint milli nútíðar og þátíðar. Þar með verður málið nákvæmara tján­ingar­tæki. Þegar við bæt­ist að sams konar breyting hefur orðið á öðrum sögn­um af sömu stofngerð án þess að það það valdi vand­kvæð­um sé ég enga ástæðu til að amast við því að þátíð senda verði senti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Streyma

Sögnin streyma er mikið notuð þessi árin, ekki síst eftir að samkomutakmarkanir tóku gildi.  Við streymum fundinum beintFundinum verður streymt o.s.frv. Þetta merkir að viðburður eða athöfn er send út gegnum netið. Oft er um að ræða beina útsendingu frá atburðum sem eru að gerast, en einnig er talað um að streyma kvikmyndum, streyma tónlist, streyma sjónvarpsstöðinni o.s.frv., þar sem sendar eru út upptökur af efni sem horft er eða hlustað á í streymi, án þess að því sé hlaðið niður á tölvu notandans.

Sögnin streyma er gömul í málinu, erfðaorð, og á sér ættingja í öðrum germönskum málum. Merking hennar er ‚fljóta, renna fram‘ sem fellur ágætlega að þeirri nýju notkun sem vísað er til hér að ofan. En hins vegar hefur setningafræðileg hegðun sagnarinnar gerbreyst. Hún var áður fyrr áhrifslaus, tók ekkert andlag og hafði engan geranda. Við sögðum áin streymir – en það er enginn sem streymir ánni. Í nýju notkuninni tekur sögnin hins vegar andlag, og frumlag hennar er gerandi. Þetta er grundvallarbreyting.

Þegar ný áhrifssögn kemur inn í málið, eða áhrifslaus sögn er gerð að áhrifssögn eins og í þessu tilviki, þarf andlagið að fá eitthvert fall. Þolfall er algengasta andlagsfallið en streyma tekur yfirleitt þágufall. Hvernig skyldi standa á því? Merkingarlega er þetta hliðstætt við senda (út) sem tekur þolfall, en e.t.v. er fólk fremur með sögnina veita í huga – veita straumnum til áhorfenda/áheyrenda. Reyndar má finna fáein dæmi um þolfall; „verður þá auðvelt að skutlast með 4G pung upp í sumarbústað og streyma kvikmyndir í sjónvarpið“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2013. En þetta er mjög sjaldgæft.

Þessi notkun er ekki gömul, frekar en sú tækni sem hún vísar til. Elsta dæmi sem ég hef fundið er í mbl.is frá árinu 2000 þar sem segir „Aðal Be stýrikerfisins er hversu vel það streymir hreyfimyndum“. Næstu ár eru dæmin sárafá, flest eða öll úr Morgunblaðinu eða mbl.is – hugsanlega flest frá sama blaðamanni. Um 2010 fer þessi notkun svo að sjást í flestum fjölmiðlum og það verður fljótlega sprenging í notkuninni – nú er hún t.d. farin að sjást í þingræðum, þingskjölum og dómum og komin inn í Íslenska orðabók á Snöru og Íslenska nútímamálsorðabók.

Það er auðvitað ekkert undarlegt að sögnin streyma skyldi bæta við sig þessari nýju merkingu. Bæði er hún náskyld hefðbundinni merkingu sagnarinnar, og svo er sögnin stream notuð um þetta fyrirbæri á ensku. Það lá því beint við að gefa streyma þetta nýja hlutverk, þótt til þess þyrfti að gerbreyta setningafræðilegu eðli hennar. Það virðist hafa gerst áreynslulaust. Og það merkilega er að málnotendur virðast hafa samþykkt þetta umyrðalaust – a.m.k. man ég ekki eftir kvörtunum yfir þessu í málfarsumræðunni, og hefur þó oft verið kvartað undan minni breytingum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að sigra leikinn

Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki „sigra leik“. Hins vegar er talað um að vinna leik.“ Ástæðan fyrir því að það er tekið sérstaklega fram að ekki eigi að tala um að sigra leik er auðvitað sú að það tíðkast í málinu – annars væri ástæðulaust að vara við því. Okkur hefur samt verið kennt hvernig þetta eigi að vera – eða reynt að kenna, þótt deila megi um árangurinn. En þótt þarna sé mælt með því að segja sigra í leik virðist sambandið sigra í einhverjuleik / keppni / baráttu / orustu / kosningum o.s.frv. – ekki vera ýkja gamalt.

Ég finn engin dæmi um þessi sambönd í fornu máli, og raunar er elsta dæmið sem ég hef rekist á í Nýjum félagsritum 1872, þar sem segir: „en það er einnig ánægjulegt að vita, að Íslendíngar eru farnir að vinna sigur á stundum, og að heyra, hversu heppilega tókst að sigra í þessari orustu.“ Elsta dæmi um sigra í kosningum er frá 1901, það elsta um sigra í leik frá 1927, og um sigra í keppni frá 1934. Elstu dæmi um að sigra taki andlag í þessari merkingu eru ekki mikið yngri. Það elsta um sigra kosningar er frá 1919, um sigra keppni frá 1945, og sigra leik frá 1946.

Þegar leitað er að þessum samböndum á tímarit.is kemur í ljóst að talsvert er um sigra X þótt dæmin um sigra í X séu vissulega margfalt fleiri. Þannig er hlutfallið milli sigra leikinn og sigra í leiknum u.þ.b. 1:8, milli sigra keppnina og sigra í keppninni rúmlega 1:7, og milli sigra kosningarnar og sigra í kosningunum 1:16. Alls eru um 600 dæmi um sigra með þessum þremur andlögum. Það er athyglisvert vegna þess að textar á tímarit.is eru yfirleitt prófarkalesnir, og þar eð þessi sambönd hafa verið talin rangt mál hefði mátt búast við að þeim hefði verið breytt.

Allt önnur mynd blasir við þegar þessi sambönd eru skoðuð í Risamálheildinni, sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, flestum frá síðustu áratugum. Þar eru 786 dæmi um sigra leikinn en 247 um sigra í leiknum, 500 um sigra keppnina en 697 um sigra í keppninni, og 119 um sigra kosningarnar en 467 um sigra í kosningunum. Samtals eru því nánast nákvæmlega jafnmörg dæmi um þessi sambönd með andlagi (1405) og með forsetningarlið (1411). Munurinn á kosningum og hinum tveimur andlögunum er athyglisverður og sýnir að notkun sigra með andlagi er langalgengust í íþróttamáli.

Þótt ekki sé viðurkennt að tala um að sigra leik tekur sögnin sigra andlag þegar rætt er um að sigra andstæðing og er nánast samheiti við sögnina vinna, sem tekur andlag hvort sem rætt er um að vinna andstæðing eða vinna leik eins og fram kemur í tilvitnuninni í Málfarsbankann hér að framan. Vegna þessara líkinda sagnanna er auðvitað ekkert undarlegt að fólk hafi tilhneigingu til að yfirfæra hegðun vinna á sigra og nota andlag með sigra í þessum samböndum. En er einhver ástæða til að amast við því?

Eins og áður segir koma sambönd eins og sigra í X ekki fyrir í fornu máli og eru í raun litlu eldri en sigra X og sá aldursmunur dugir varla til að útskúfa þeim síðarnefndu – það var ekki komin löng hefð á sigra í X þegar sigra X kom upp. Það er líka ljóst af dæmafjöldanum af tímarit.is og sérstaklega úr Risamálheildinni að notkun sambandanna sigra X er mjög útbreidd. Rétt er að hafa í huga að hlutfall dæma um afbrigði sem talin eru röng er nánast örugglega mun lægra í prentuðum textum en í daglegu máli.

Það er sem sé enginn vafi á því að sigra leikinn er málvenja verulegs hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á réttu máli og röngu, „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“, er þetta án nokkurs vafa rétt mál. Mér er ómögulegt að sjá rökin fyrir því að bæði vinna andstæðinginn og vinna leikinn sé gott og gilt, en aðeins sigra andstæðinginn, ekki sigra leikinn.

Einu rökin sem hægt væri að færa fram gegn sigra leikinn eru þau sem ég hef stundum vísað til: „Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.“ Ég sé samt ekki að það sé í þágu málræktar að berja hausnum við steininn með þetta og held því fram að sigra leikinn sé ótvírætt rétt íslenska.

 

Posted on Færðu inn athugasemd

Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt að það sé rangt

Hér á heimasíðu minni og á Facebook hef ég iðulega haldið fram skoðunum sem ganga í berhögg við það sem talið hefur verið „rétt mál“. Þannig hef ég sagt að brauðrist megi alveg heita ristavél, það sé í góðu lagi að fara erlendis, spá í einhverju og auglýsa nýslátrað lambakjöt, segja mér langar, og ég veit ekki hvað og hvað. Ég tel mig hafa fært góð rök fyrir þessum skoðunum og stend við þær, en auðvitað getur fólk haft aðra sýn á málin – fundist rök mín léttvæg eða villandi, eða talið mig draga rangar ályktanir af þeim. Ég geri ekki athugasemd við það.

Í umfjöllun um þessi atriði hef ég hins vegar litið fram hjá einni röksemd sem mætti beita gegn mér og þeim tilbrigðum sem ég vil samþykkja. Ég hef svo sem hvergi séð þá röksemd orðaða beint, en held að hún sé mjög oft undirliggjandi hjá þeim sem amast við málbreytingum. Hana mætti orða svona:

Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.

Í fljótu bragði gæti þetta kannski virst léttvæg röksemd – eða rökleysa, eftir því hvernig við lítum á málið. Vitanlega réttlætir það ekki vitleysu að hún hafi lengi verið höfð fyrir satt. Ef það sannast að maður sem hefur verið dæmdur fyrir glæp og setið lengi í fangelsi er saklaus er hann ekki látinn sitja áfram inni – með þeim rökum að hann hafi setið svo lengi inni að ástæðulaust sé að sleppa honum þótt sakleysi hans sé sannað.

En þetta er annars eðlis. Það má vel halda því fram að mikilvægt sé að festa ríki í málsamfélaginu og ekki sé hringlað með viðmið. Ef búið er að kenna áratugum saman að eitthvað sé rangt – þrátt fyrir að það sé eðlilegt málfar fjölda málnotenda – geti skapast óreiða og lausung í málinu ef það er allt í einu viðurkennt sem rétt mál. Þetta valdi vandræðum í kennslu og ýti undir þá hugmynd að það sé alveg sama hvernig fólk tali og skrifi.

Þetta er sjónarmið mjög margra og ég tek það alvarlega og ber virðingu fyrir því. En ég held að það sé rangt. Ég held þvert á móti að einstrengingslegt bann við tilbrigðum sem verulegur hluti – jafnvel meirihluti – málnotenda elst upp við og notar í daglegu lífi sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óreiðu í málnotkun en viðurkenning þessara tilbrigða.

Það er hins vegar annað sem þarf að hafa í huga ef viðmiðum er breytt og farið að viðurkenna eitthvað sem áður hefur verið talið rangt. Við erum nefnilega föst í því, mörg hver (ég ekki undanskilinn), að dæma fólk eftir málfari – eftir því hversu vel það fylgir þeim viðmiðum sem hafa verið notuð um rétt og rangt. Þótt þeim viðmiðum væri breytt leiðir það ekki sjálfkrafa og umsvifalaust til breytingar á viðhorfi okkar til tilbrigðanna – og fólksins sem notar þau.

Við þurfum að þora að breyta stefnunni – viðurkenna tilbrigði sem eiga sér langa sögu og eru útbreidd í málinu. Það er engin uppgjöf. En við þurfum ekki síður að hætta að dæma fólk eftir málfari, hvað þá að tengja málfar við andlegt eða líkamlegt atgervi fólks. Mismunun eftir málfari er engu betri en mismunun eftir kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð o.s.frv.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég er á sextugnum

Einu sinni var hringt í mig frá „Reykjavík síðdegis“ á Bylgjunni til að ræða um þá íslensku málvenju sem fólk er óánægðast með, að sögn umsjónarmanna þáttarins – sem sé, að fólk milli þrítugs og fertugs er á fertugsaldri o.s.frv. Mörgum finnst að með þessu sé verið að gera fólk eldra en það er og bera þetta saman við t.d. ensku þar sem fólk á þessum aldri er in his/her thirties, eða dönsku þar sem fólk er i trediverne. Orðið fertugsaldur gæti í sjálfu sér alveg eins merkt ‚milli fertugs og fimmtugs‘ – það er ekkert „rökréttara“ að á fertugsaldri merki ‚áratuginn á undan fertugu‘ frekar en ‚áratuginn á eftir fertugu‘. Það er bara málvenja að það hafi fyrrnefndu merkinguna.

Þó er tvítugsaldur sér á báti. Það mætti ætla að með því væri átt við annan áratuginn í lífi fólks, frá 10-20 ára aldurs, en fáum dytti í hug að segja að 10-12 ára barn væri á tvítugsaldri. Orðabókum ber reyndar ekki alveg saman um merkingu orðsins – í Íslenskri orðabók er hún sögð ‚aldur manns sem er kominn nálægt tvítugu (t.d. frá 16–18 ára aldri)‘ en í Íslenskri nútímamálsorðabók segir ‚aldurinn kringum tvítugt‘. Ég hef á tilfinningunni að við myndum síður nota á tvítugsaldri um fólk sem við vitum að er orðið tvítugt. Hins vegar get ég sagt hann/hún er á tvítugsaldri um fólk sem ég veit ekki nákvæman aldur á, án þess að telja endilega að það sé innan við tvítugt.

Það eru líka eitthvað skiptar skoðanir um það hvenær fólk færist af einum áratug á annan. Stundum er því haldið fram að fólk komist ekki á fimmtugsaldur fyrr en það verður fjörutíu og eins árs – fólk sem er á fertugasta og fyrsta ári standi á fertugu. Ég hef aldrei séð nein rök fyrir þessu og hallast helst að því að það sé uppfinning fólks sem vill fresta því í lengstu lög að viðurkenna að það sé komið á nýjan áratug. En hvað sem því líður er ljóst að þessi séríslenska málvenja, að miða við efri tuginn, er þyrnir í augum margra, og ég hef jafnvel séð hugmyndir um að það þyrfti að breyta merkingu umræddra orða.

En það er meira en að segja það að breyta málvenju af þessu tagi. Ef við hugsuðum okkur að þetta breyttist – annaðhvort vegna meðvitaðrar ákvörðunar einhverra málfarsyfirvalda (hver svo sem þau ættu að vera) eða smátt og smátt í málsamfélaginu – þannig að á fertugsaldri færi að merkja aldurinn milli fertugs og fimmtugs, þá gæti það vissulega gengið þegar breytingin væri afstaðin. En meðan breytingin væri að ganga yfir (og það gæti tekið langan tíma) yrði þetta endalaus ruglingur – við myndum aldrei vita hvort verið væri að nota orðin í „gömlu“ eða „nýju“ merkingunni.

Eina leiðin út úr þessu væri því að taka upp ný orð sem kæmu í stað þeirra sem við notum nú. Ég hef séð tillögur um að nýta spilaheiti í þetta og segja t.d. ég er á fjarkanum í stað ég er á fimmtugsaldri. En annar möguleiki væri að búa til nafnorð úr lýsingarorðunum tvítugur, þrítugur o.s.frv. – segja ég er á tvítugnum / þrítugnum o.s.frv. Það væri reyndar ekki hægt að nota áttræður, níræður og tíræður á þann hátt heldur yrði að segja á átttugnum / nítugnum / títugnum. Samkvæmt þessu væri ég núna á (miðjum) sextugnum í stað þess að vera á sjötugsaldri eða hálfsjötugur – ég gæti alveg fellt mig við það. Hvað segið þið?