Málumhverfi leikskólabarna

Í gær birtist á Vísi grein eftir reyndan deildarstjóra í leikskóla þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af málumhverfi barna í leikskólum. Á leikskóla sem hún vísaði til er fjöldi ófaglærðs starfsfólks sem að meirihluta á annað tungumál en íslensku að móðurmáli og margt hefur litla kunnáttu í íslensku. Þetta starfsfólk á a.m.k. átta mismunandi móðurmál og þar af leiðir að enska verður helsta samskiptamál þess sín á milli. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – Ísland er orðið fjölmenningarsamfélag, leikskólabörn eru af ýmsum þjóðernum, og mikilvægt að starfsfólkið sé það líka. Það skaðar ekki máltöku barnanna þótt þau heyri önnur tungumál en íslensku í umhverfi sínu, eða þótt þau heyri íslensku talaða af fólki sem hefur ekki fullkomið vald á henni.

EN – og þarna er stórt og mikilvægt EN – það er samt grundvallaratriði að íslenskan í málumhverfi barnanna sé nægileg til að þau geti byggt upp málkerfi sitt, öðlast trausta málkunnáttu og beitt málinu af öryggi. Það er vitað að til þess að byggja upp móðurmálsfærni þurfa börn að heyra ákveðið lágmark af málinu í umhverfi sínu, ekki síst í samtölum, þótt ekki sé hægt að negla það lágmark nákvæmlega niður. En þegar haft er í huga að mörg börn eru í leikskóla stóran hluta vökutíma síns á virkum dögum má vera ljóst að það er bráðnauðsynlegt að veruleg íslenska sé í málumhverfi þeirra í leikskólanum. Ef stór hluti starfsfólks leikskóla talar litla sem enga íslensku er hætta á að börnin fái ekki nægilega íslensku í málumhverfi sínu.

Til að vinna á móti þessu er því gífurlega mikilvægt að foreldrar nýti þann tíma sem þau hafa með börnum sínum sem best til málörvunar – einkum til að tala við börnin, en einnig til að lesa fyrir þau og með þeim. Það ætti að geta dugað börnum íslenskra foreldra, en aðaláhyggjuefnið í þessu eru börn nýbúa þar sem heimilismálið er annað en íslenska. Þau börn verða að reiða sig á leikskólann til að fá þjálfun í íslensku, en ef málumhverfið þar er að talsverðu leyti á öðrum málum er hætt við að þau séu ekki búin að ná fullu valdi á íslensku þegar þau koma í grunnskólann og verði alltaf á eftir. Og það er líka hætta á að þau fái ekki nægilega örvun í heimilismálinu og öðlist í raun ekki móðurmálsfærni í neinu tungumáli. Það er mjög alvarlegt.

Þetta snýst nefnilega ekki bara um íslenskuna og framtíð hennar þótt hún sé mikilvæg. Þetta snýst fyrst og fremst um börnin og velferð þeirra – hvernig máluppeldið leggur grunn að framtíð þeirra. Rannsóknir benda til þess að móðurmálsfærni í einhverju tungumáli sé forsenda þess að ná góðu valdi á öðrum tungumálum. En ekki bara það, heldur hafa líka verið færð rök að því að góður málþroski stuðli að og eigi þátt í margvíslegri annarri hæfni, svo sem félagsfærni, stærðfræðigreind, og skipulags- og verkgreind. Þess vegna skiptir öllu máli að tryggja að börnin öðlist móðurmálsfærni í íslensku (eða einhverju öðru tungumáli) á máltökuskeiði. Að öðrum kosti eigum við á hættu að möguleikar þeirra á ýmsum sviðum í framtíðinni séu skertir.

Ég hef oft heyrt frá útlendingum að besta aðferðin til að læra íslensku sé að fá sér vinnu í leikskóla og læra málið í fjölbreyttum samskiptum við samstarfsfólkið og börnin. Það er án efa rétt – en ef meirihluti starfsfólksins er erlendur og enska aðalsamskiptamálið er hætt við að lítið verði úr íslenskunámi og enskunám komi í staðinn. En þetta er mjög viðkvæmt og vandmeðfarið mál og ég hef orðið var við að erlendu leikskólastarfsfólki finnst stundum að sér vegið í þessari umræðu. Það er skiljanleg tilfinning og við megum ekki með nokkru móti láta umhyggju fyrir íslenskunni og leikskólabörnum snúast upp í útlendingaandúð sem alltaf er hætta á. Það er ekki erlenda starfsfólkið sem er vandamálið – það eru kjörin og skortur á íslenskukennslu.

Ég veit ekki hvort eða hversu dæmigerð sú staða er sem lýst var í áðurnefndri grein í Vísi en legg áherslu á að það er mjög æskilegt að í leikskólum starfi fólk með annað móðurmál en íslensku. Það þarf hins vegar að gæta þess vel að hlutfall þess starfsfólks sem ekki er íslenskumælandi verði ekki svo hátt að enskan verði aðalsamskiptamálið en íslenskan verði hornreka. Þar með eru kostir fleirtyngds umhverfis horfnir, bæði fyrir starfsfólkið og börnin. Það verður að vera sameiginlegt átak að tryggja gott málumhverfi leikskólabarna, bæði með því að bæta kjör starfsfólks og draga úr starfsmannaveltu, og með því að stórauka og bæta kennslu íslensku sem annars máls. Fátt skiptir meira máli fyrir framtíðina en máluppeldi barna okkar.

Lestir á leið í öfuga átt

Í frétt Ríkisútvarpsins í gær af hræðilegu lestarslysi í Grikklandi var sagt „Lestirnar voru á leið í öfuga átt“. Þetta hefur farið öfugt ofan í marga hlustendur og er svo sem ekkert undarlegt – þetta er sannarlega ekki hefðbundið orðalag og fram kom hjá ýmsum að þarna hefði átt að tala um gagnstæða átt eða segja að lestirnar hefðu komið úr gagnstæðum áttum. En þýðir það að orðalag fréttarinnar sé beinlínis rangt? Lýsingarorðið öfugur merkir vissulega oftast 'ekki réttur, sem snýr vitlaust' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. En eins og fram kemur í Íslenskri orðabók getur það líka merkt 'gagnstæður, andstæður', og í Íslensk-danskri orðabók er m.a. gefin merkingin 'omvendt' og dæmið þetta er öfugt við það, sem er hjá okkur.

Þetta merkir ekki að það sem um er rætt sé rangt, og það eru ýmis dæmi um að öfug átt merki 'gagnstæð átt'. Í Vísi 1938 segir: „Póstlestin milli Jóhannesarborgar og Bulawayo ók með feiknahraða á vöruflutningalest, er kom úr öfugri átt.“ Í Alþýðublaðinu 1965 segir: „Thomsen ók einkabifreið sinni á vörubifreið, sem kom úr öfugri átt.“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „Ökumaður vélhjóls, sem var að koma frá Akureyri, lenti í árekstri við fólksbíl, sem kom úr öfugri átt.“ Í DV 1989 segir: „Bilið milli ríkra og fátækra hefur stækkað, lífsskilyrði í norðri og suðri Bretlandseyja hafa þróast í öfugar áttir.“ Í þessum dæmum merkir öfug átt augljóslega ekki 'röng átt', heldur er í öllum tilvikum hægt að setja gagnstæður í stað öfugur.

Þótt algengast sé að tala um gagnstæðar áttir í fleirtölu í dæmum af þessu tagi er eintalan líka stundum notuð. Þannig segir í Alþýðublaðinu 1938: „Orsök slyssins er talin sú, að rangt merki hafi verið gefið, með þeirri afleiðingu, að lestirnar, sem fóru í gagnstæða átt, mættust á einspora braut.“ Í Degi 1989 segir: „Tveir bílar óku í gagnstæða átt eftir Aðalgötu en er þeir mættust sveigði annar fyrir hinn og skullu þeir saman af miklum krafti.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Betur fór en á horfðist þegar tveir bílar sem óku í gagnstæða átt skullu saman við Hraun í Öxnadal.“ Í Morgunblaðinu 1989 má m.a.s. finna dæmi sem er alveg hliðstætt því sem nefnt var í upphafi: „Talið er að lestirnar hafí verið á leið í gagnstæða átt þegar þær rákust saman.“

Þótt öfugur þurfi ekki að vera andstæða við 'réttur' verður það að vera andstæða við eitthvað og ef sú andstæða er ekki nefnd berum orðum má oft ráða hana af samhenginu – eða við gefum okkur að um sé að ræða andstæðu við eitthvert norm. En sama máli gegnir um gagnstæður – það er ekki hægt að vera bara gagnstæður, það þarf að vera gagnstæður við eitthvað. Við erum ekki í vandræðum með að átta okkur á því að lestir sem eru á leið í gagnstæða átt eru á leið í gagnstæða átt hvor við aðra, hvor á móti annarri – og á sama hátt eru lestir sem eru á leið í öfuga átt á leið í öfuga átt hvor við aðra. Það verður ekki annað séð en slíkt orðalag geti alveg staðist og sé röklegt, en vissulega er ekki hefð fyrir því í málinu.

Misgóð nýyrði

Á síðustu öld var smíðaður aragrúi nýyrða sem mörg hver hafa verið gefin út í sérstökum nýyrðasöfnum. Elst slíkra safna er líklega „Orð úr viðskiftamáli“ sem Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins birti í Lesbók Morgunblaðsins 1926. Fæst þessara orða komust í almenna notkun og okkur finnst mörg þeirra brosleg og getum skemmt okkur konunglega yfir þeim. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og nauðsynlegt að hafa í huga að vitanlega voru þessi nýyrði smíðuð og sett fram í fullri alvöru, og á bak við þau liggur einlægur áhugi á því að auðga íslenskan orðaforða og „hreinsa“ málið af erlendum orðum í samræmi við þá þjóðernishyggju sem reis hæst í sjálfstæðisbaráttunni á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20.

Á listanum „Orð úr viðskiftamáli“ eru meira en sex hundruð nýyrði. Mér sýnist í fljótu bragði að ekki öllu fleiri en tuttugu af þeim séu í almennri notkun nú, hundrað árum síðar – og í mörgum tilvikum er erlenda orðið líka notað. Sennilega hafa flest orðanna aldrei komist í notkun en sum voru eitthvað notuð um tíma en eru nú að mestu horfin, svo sem glóaldin í stað appelsína, bjúgaldin í stað banani, rauðaldin í stað tómatur, eiraldin í stað apríkósa og granaldin í stað ananas. Önnur eru horfin vegna þess að fyrirbærið sem þau vísa til er ekki lengur hluti af þekkingarheimi almennings, svo sem langstóll í stað chaise longue (legubekkur með baki eða upphækkun við höfðalag) og valkol í stað anthrakit (sérstök úrvalstegund kola).

En í meirihluta tilvika er bæði fyrirbærið og erlenda orðið vel þekkt í samtímanum en íslenska nýyrðið gleymt og grafið og fyrir því eru örugglegar mismunandi ástæður. Ein er auðvitað sú að ný orð verka yfirleitt framandi á fólk. Það tekur tíma að venjast þeim og haft er eftir Halldóri Halldórssyni prófessor, sem smíðaði mörg nýyrði sem sum komust í notkun en önnur ekki, að það þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. En sum orðanna eru ekki bara framandi heldur verka líka á okkur sem hlægileg eða hallærisleg. Þar er þó rétt að hafa í huga að smekkur fólks breytist á skemmri tíma en hundrað árum og það er vel mögulegt að tilfinning fólks fyrir orðunum hafi verið önnur á þeim tíma sem þau komu fram en nú.

Aðalástæðan er þó líklega sú að orðin sem átti að skipta út voru komin inn í málið og höfðu unnið sér þar hefð, mörg hver a.m.k. Flest þeirra nýyrða sem þykja best heppnuð og eru alltaf notuð í almennu máli komu fram áður en nokkur erlend orð sömu merkingar höfðu náð fótfestu í málinu – orð eins og sími, tölva, þota, þyrla, snjallsími, spjaldtölva o.fl. Þegar orð hafa unnið sér hefð í málinu eiga ný orð sem eiga að koma í staðinn oftast erfitt uppdráttar. Góð dæmi um það eru ávaxtaorðin sem nefnd eru hér að framan – það eru í sjálfu sér ágæt orð en erlendu orðin voru orðin of föst í málinu til að þau væru lífvænleg. Almennt séð er hvorki líklegt til árangurs né íslenskunni til framdráttar að reyna að losna við orð sem hafa unnið sér hefð.

Þótt sú stefna að smíða íslensk nýyrði í stað erlendra tökuorða hafi yfirleitt verið nokkuð óumdeild hafa stundum komið fram efasemdir um hana. Bent hefur verið á að eitt af því sem torveldar útlendingum íslenskunám sé að í málinu eru ekki notuð ýmis alþjóðaorð, flest af grískum eða latneskum stofni, sem annars ferðast milli mála. Þótt þessi orð séu kannski ekki stór hluti orðaforðans er alltaf mjög uppörvandi fyrir málnema að heyra orð sem þau kannast við úr öðrum málum. Ég var t.d. í gær að hlusta á frétt þar sem talað var við pólskukennara í Háskóla Íslands, á pólsku. Ég kann ekkert í pólsku en ég skildi samt þegar talað var um „kulture“,  „polski film“, „polski musiki“ og „polski histori“ (skrifað eftir framburði).

Í íslensku er auðvitað aragrúi tökuorða og sjaldnast hægt að halda því fram að þau spilli málinu. Aðalatriðið er að þau falli að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – hafi ekki að geyma framandi hljóð eða hljóðasambönd og taki beygingum eins og þau orð sem fyrir eru. Flestöll tökuorð gera þetta, og þótt orð eins og snjallsími sé vissulega vel heppnað og almennt notað myndi smartfónn falla alveg jafnvel að málinu – andstaða við slíkt orð væri fremur byggð á þjóðernislegum en málfræðilegum forsendum. Okkur vantar alltaf ný og ný orð og það er sjálfsagt að halda áfram að smíða íslensk nýyrði þegar þess er kostur, en það er ekki síður nauðsynlegt að hika ekki við taka erlend orð inn í íslenskuna og laga þau að málkerfinu.

Það var kosið um tillöguna

Stundum sé ég því haldið fram að sögnin kjósa sé ranglega notuð þar sem ætti að nota greiða atkvæði. Eiður Guðnason fjallaði t.d. nokkrum sinnum um þetta í pistlum sínum, „Molar um málfar og miðla“, og sagði m.a.: „Fjölmiðlamenn eru svo gott sem alveg hættir að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. […] Sífellt er talað um að kosið sé um tillögur á Alþingi, þegar að mati Molaskrifara ætti að tala um að greiða atkvæði. Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Ekki greidd atkvæði um ráð eða nefndir, en atkvæði eru greidd um tillögur og lagagreinar. Atkvæðagreiðslan fer nú fram, segir þingforseti. Kosningin er hafin segir þingforseti, ef um listakosningu er að ræða.“

Málfarsbankinn er á sömu línu en tekur ekki jafn djúpt í árinni, fullyrðir ekki að um ranga málnotkun sé að ræða: „Sumum þykir betra mál að tala um atkvæðagreiðslu fremur en kosningu þegar sagt er já eða nei við tiltekinni hugmynd eða tillögu. Að sama skapi vilja þeir frekar tala um að greiða atkvæði en kjósa í því sambandi.“ Ég verð að játa að athugasemdir af þessu tagi komu mér í opna skjöldu þegar ég sá þær fyrst – ég hafði alltaf litið svo á að kjósa og greiða atkvæði væru samheiti eins og raunar má ráða af því sem segir í tilvitnuninni í Eið Guðnason hér að framan – „Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði“. Þess vegna hef ég aldrei áttað ég mig á því hvað er athugavert við að tala um að kjósa um tillögu.

Grunnmerkingin í kjósa er 'velja', yfirleitt velja milli tveggja eða fleiri kosta, og sambandið kjósa um kemur fyrir í þeirri merkingu þegar í fornu máli – „Nú skaltu konungur kjósa um kosti þessa áður þing sé slitið“ segir t.d. í Heimskringlu. Þegar kosið er um tillögu er vitanlega valið milli tveggja kosta – að samþykkja tillöguna eða hafna henni. Það er líka margra áratuga hefð fyrir því að kjósa um tillögur – í Morgunblaðinu 1948 segir: „Það verður kosið um tillögur Alþýðuflokksins um að afnema fjötrana á samtökum verkalýðsins.“ Það er líka talað um að kjósa með tillögu og kjósa (á) móti / gegn tillögu í merkingunni 'samþykkja' / 'hafna' – „65 kusu með tillögunni 5 á móti og 6 voru fjarverandi“ segir í Mánudagsblaðinu 1957.

Ég sé því enga ástæðu til að amast við því að tala um að kjósa um tillögur, hvort sem er á Alþingi eða annars staðar, þótt vitanlega sé líka hægt að greiða atkvæði um þær. Að sama skapi er löng hefð fyrir því að nota sambandið greiða atkvæði og nafnorðið atkvæðagreiðsla, ekki síður en sögnina kjósa og nafnorðið kosning, þegar verið er að velja fólk til trúnaðarstarfa. Vissulega er aðeins talað um alþingiskosningar en ekki *alþingisatkvæðagreiðslu, en hins vegar er talað um að greiða atkvæði í kosningum, greiða atkvæði á kjörstað, utankjörfundaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Vitanlega getur fólk haft þann smekk að „betra mál“ sé að gera skýran greinarmun á atkvæðagreiðslu og kosningu en það styðst hvorki við rök né málhefð.

Þrennt var í bílnum – allt konur

Meðal þeirra breytingar sem sum gera á máli sínu í átt til kynhlutleysis er að nota hvorugkyn fornafna og beygjanlegra töluorða um óskilgreindan hóp í stað karlkyns – öll velkomin, mörg voru viðstödd, þrjú slösuðust í stað allir velkomnir, margir voru viðstaddir, þrír slösuðust eins og hefðbundið er. En ef hvorugkynið er notað er oft spurt t.d. „þrjú hvað?“ Á bak við slíkar spurningar virðist liggja sú hugmynd að það þurfi að vera hægt að hugsa sér eitthvert hvorugkynsnafnorð sem gæti réttlætt hvorugkynið á fornafninu eða töluorðinu. Ef karlkyn er notað er hægt að hugsa sér að það standi með mennallir menn velkomnir, margir menn voru viðstaddir, þrír menn slösuðust – en *þrjú fólk gengur augljóslega ekki (en er e.t.v. að breytast).

Þegar um er að ræða ótilgreindan hóp er hefðbundið að nota karlkyn í slíkri vísun, allir velkomnir – Höskuldur Þráinsson hefur kallað þetta sjálfgefið kyn í nýlegri grein í Málfregnum. En ef kynjasamsetning hópsins er þekkt er hins vegar hægt að nota kvenkyn eða hvorugkyn eftir því sem við á og þá er talað um vísandi kyn. Í hefðbundnu máli er þannig karlkynið þrír slösuðust annaðhvort notað vegna þess að um þrjá karlmenn er að ræða, og kyn töluorðsins þá vísandi, eða vegna þess að kynjasamsetning hópsins er óþekkt, og karlkynið er þá sjálfgefið. Í hefðbundnu máli er sem sé vel hægt að segja þrjú slösuðust án þess að hugsa sér nafnorð til að kalla fram hvorugkynið ef vitað er að um blandaðan hóp er að ræða.

En í stað þess að nota hvorugkynið eitt, tvö, þrjú og fjögur í vísun til blandaðs hóps fólks er þó annar kostur fyrir hendi. Í Málfarsbankanum segir: „Hvorugkynið eitt (tvennt, þrennt, fernt) er stundum notað sem nafnorð. Ég skal segja þér eitt mjög merkilegt, jafnvel tvennt ef þú verður góð. Þau eiga tvennt og þrennt af öllu. Fernt fórst í árekstri í gær. Diskurinn brotnaði í þrennt.“ Þarna er ekki nauðsynlegt – og oft ekki hægt – að hugsa sér eitthvert hvorugkynsnafnorð sem töluorðið/lýsingarorðið eigi við – það þýðir ekki að spyrja „þrennt hvað?“ En ef við notum venjuleg töluorð, í hvaða kyni sem er, verða nafnorð hins vegar að fylgja. Það er ekki hægt að segja *diskurinn brotnaði í þrjá og hugsa sér að hluti eða partur sé undirskilið.

Það er ljóst að mörgum finnst eðlilegra að nota þessar myndir en venjulegar hvorugkynsmyndir töluorða í vísun til blandaðs hóps. Á tímarit.is eru t.d. 153 dæmi um tvennt var í bílnum, 146 um þrennt var í bílnum og 58 um fernt var í bílnum. Aftur á móti eru aðeins tvö dæmi um tvö voru í bílnum og þrjú voru í bílnum og eitt um fjögur voru í bílnum. Einnig eru meira en tólf sinnum fleiri dæmi um tvennt slasaðist og þrennt slasaðist (123 og 113) en um tvö slösuðust og þrjú slösuðust (10 og 9). Í Risamálheildinni er munurinn minni en þó töluverður. Þar eru t.d. 174 dæmi um tvennt var í bílnum en aðeins 10 um tvö voru í bílnum, og 61 dæmi um tvennt slasaðist en 9 um tvö slösuðust. Munurinn á þrennt / fernt og þrjú / fjögur er mun minni.

Ég hef ekki skoðað öll dæmin um tvennt / þrennt / fernt en sýnist þó ljóst að í mjög mörgum þeirra kemur beinlínis fram að um kynjablandaðan hóp er að ræða. Spurningin er hins vegar hvort það sér forsendan fyrir því að unnt sé að nota þessi orð. Getum við t.d. endað frétt af útafakstri með setningunni þrennt var í bílnum án þess að nokkuð hafi komið fram um samsetningu hópsins? Og ef það er hægt, erum við þá með því að nota þrennt að koma þeim upplýsingum á framfæri að hópurinn hafi verið blandaður? Eða gefur þrennt ekkert slíkt til kynna, þannig að hægt væri að segja þrennt var í bílnum, allt konur? Ég held að ég gæti sagt það, en ég býst við að tilfinning fólks fyrir þessu sé mismunandi.

Íslenska í fjölmenningarsamfélagi

Hér hefur eins og oft áður skapast umræða um fólk á íslenskum vinnumarkaði sem ekki talar íslensku. Þessu fólki fer sífjölgandi, ekki síst í ýmiss konar afgreiðslu- og þjónustustörfum þar sem bein samskipti við viðskiptavini eru grundvallarþáttur starfsins. Mörgum gremst að geta ekki notað íslensku við kaup á vörum eða þjónustu og vísa til þess að íslenska sé opinbert mál á Íslandi, og telja sig eiga kröfu á að geta notað hana við allar aðstæður. Þetta er í sjálfu sér skiljanleg og eðlileg krafa en hún er hins vegar fullkomlega óraunhæf og ósanngjörn. Það er ekki sök þess starfsfólks sem um ræðir – við getum sjálfum okkur um kennt. Við höfum ekki staðið okkur í því að bjóða upp á aðstæður sem geri innflytjendum auðvelt að læra íslensku.

Ég veit að ég hef margoft sagt þetta áður en ég segi það einu sinni enn: Það þarf að gera stórátak í íslenskukennslu innflytjenda – útbúa hentugt námsefni, mennta hæfa kennara, hanna og útfæra fjölbreytt ókeypis námskeið sem henta mismunandi hópum, og leita leiða til að flétta íslenskunám saman við vinnu fólks. En formleg kennsla er ekki það eina sem til þarf – það þarf einnig og ekki síður að breyta viðhorfinu til innflytjenda og íslenskunotkunar þeirra. Yfirmenn, samstarfsfólk og viðskiptavinir þurfa að taka höndum saman um að auðvelda innflytjendum að bjarga sér á íslensku og bæta málkunnáttu sína smátt og smátt. Athugasemdir við og um starfsfólk fyrir að tala ekki (nógu góða) íslensku eiga ekki rétt á sér og hafa öfug áhrif.

En við verðum samt að horfast í augu við það að enska er komin til að vera í íslensku málsamfélagi, og við verðum að vera undir það búin að geta ekki alltaf notað íslensku. Jafnvel þótt allt yrði gert sem hægt er til að kenna erlendu starfsfólki íslensku er ljóst að það tekur tíma að læra málið og það er óraunhæft að gera ráð fyrir því að fólk fari ekkert út á vinnumarkaðinn fyrr en það er orðið bjargálna í málinu. Virk notkun er besta leiðin til að þjálfa sig í tungumáli og þess vegna er svo mikilvægt að innflytjendum í afgreiðslu- og þjónustustörfum gefist kostur á að nýta málkunnáttu sína á hverjum tíma í samskiptum við viðskiptavini. Þetta byrjar kannski á því að báðir aðilar tala ensku en síðan kemur íslenskan inn smátt og smátt, á löngum tíma.

Þarna er vandrataður millivegur sem við þurfum að reyna að feta – sýna fólki sem kemur hingað (og er forsenda fyrir því að þjóðfélagið gangi) umburðarlyndi þótt það tali ekki fullkomna íslensku, og jafnframt halda íslenskunni á lofti og gera kröfu um að geta notað hana sem víðast. En sú krafa verður að beinast gegn stjórnvöldum og atvinnurekendum sem þurfa að skapa skilyrði til þess að innflytjendur geti lært málið – og ekki síður gegn okkur sjálfum sem þurfum að breyta hugarfari okkar gagnvart „ófullkominni“ íslensku og þeim sem hana tala. Ef við viljum að íslenskan verði áfram meginsamskiptamál í því fjölmenningarsamfélagi sem hér er sem betur fer orðið til þurfum við öll að leggja okkar af mörkum til þess.

Að kveikja á sturtunni og slökkva á bílnum

Sagnirnar  kveikja og slökkva voru áður fyrr einkum notaðar um eld, og þar sem eldurinn lýsir var eðlilegt að nota þær einnig um ljós – talað er um að kveikja / slökkva eld / ljós þar sem sagnirnar taka andlag. Þetta yfirfærðist svo á hvers kyns ljósfæri sem eldur var tendraður á og þá er notuð forsetningin á – talað um að kveikja / slökkva á kerti / kyndli / blysi / eldspýtu / lampa o.s.frv. Í Þjóðólfi 1896 segir „Þá var kveikt á velskreyttu jólatré“ – það lá beint við að nota sögnina kveikja þar eð logandi kerti voru á trénu. Þegar Íslendingar kynntust gasi var líka hægt að nota sögnina kveikja um það, enda logaði eldur í því: „Ég ætla að fara fram og sækja eldspýtur, svo ég geti kveikt á gasinu“ segir t.d. í Heimskringlu 1892.

Áður var líka eldur í eldavélum og ofnum til hitunar og eðlilegt að nota kveikja á og slökkva á um hvort tveggja (þótt reyndar væri ekki síður talað um að kveikja upp í eldavél / ofni): „Síðan settist hann niður, kveykti á eldavélinni“ í Þjóðólfi 1901 og „Ég þori tæpast út á kvöldin af ótta við íkviknun, en þori þó heldur ekki að slökkva á ofninum“ í Melkorku 1953. En merking sagnanna kveikja og slökkva átti eftir að víkka enn frekar, eins og sést á dæmi úr Lögbergi 1888: „sumstaðar var ekki hægt að kveikja á rafurmagnsljósum um kveldið.“ Þarna voru komin fram ljós þar sem ekki logaði eldur, en vegna þess að þau gegndu sama hlutverki var eðlilegt að nota sömu sagnir. Við höldum líka áfram að nota þessar sagnir um rafmagnseldavélar.

Þróunin hefur orðið sú að kveikja á og slökkva á er notað um hvers kyns rafmagnstæki – ekki bara ljós og eldavélar þar sem eldur logaði áður, heldur líka þvottavélar, straujárn, kaffivélar, brauðristar, sjónvörp, plötuspilara o.s.frv. Merkingin er þá ekki lengur 'tendra / kæfa eld / ljós' heldur 'hleypa rafstraumi á / taka rafstraum af' eða 'setja í gang / stöðva'. Þessi notkun sagnanna hefur tíðkast áratugum saman, væntanlega frá því að umrædd tæki komu á markaðinn, og engum finnst neitt athugavert við þetta. En í seinni tíð er farið að nota kveikja á og slökkva á í ýmsu samhengi þar sem aðrar sagnir hafa tíðkast fram að þessu – kveikja / slökkva á bílnum / krananum / sturtunni / vatninu o.s.frv. Iðulega er þó amast við slíku orðalagi.

Ég er vanur því að nota samböndin setja í gang og drepa á um bíla, en ég sé engin góð rök gegn því að nota kveikja á og slökkva á í staðinn eins og iðulega er gert. Dæmi um það eru vissulega flest nýleg og meginhlutinn af samfélagsmiðlum en þó er ekki um nýjung að ræða – „Þér getið kveikt á bílnum“ segir í Nýjum kvöldvökum 1941 og „Ég hallaði mér áfram til þess að slökkva á bílnum“ í Munin 1955. Ef við lítum svo á að merking sambandanna sé 'hleypa rafstraumi á' og 'taka rafstraum af' verður ekki séð annað en þau eigi við, því að þótt bílar séu knúðir jarðefnaeldsneyti þarf að byrja á að hleypa rafstraumi á kerfið. Og rafbílar eru eins og hver önnur rafmagnstæki og því ætti að liggja beint við að nota kveikja á og slökkva á um þá.

Ég er líka vanur því að nota skrúfa frá og skrúfa fyrir um vatn – skrúfa frá / fyrir krana / sturtu o.s.frv. Það orðalag er gamalt og á rætur í því þegar krana var snúið nokkra hringi til að opna eða loka fyrir vatnsstraum – skrúfa er skýrt 'festa eða losa (e-ð) með hringhreyfingu' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þetta var því mjög gagnsætt og eðlilegt orð, en nú eru skrúfaðir kranar orðnir frekar sjaldséðir og í staðinn hafa komið blöndunartæki sem stjórnað er með stöngum, hnöppum eða á annan hátt – sumum m.a.s. með hreyfiskynjurum. Það er samt eðlilegt að fólk sem alið er upp við að nota skrúfa fyrir / frá haldi því áfram þótt eðli athafnarinnar hafi breyst, rétt eins og við höldum áfram að tala um eldavél og eldhús þótt sjaldnast sé nokkur eldur þar.

En það er ekki síður eðlilegt að ungt fólk sem alið er upp við blöndunartæki án skrúfgangs velji fremur önnur orð – fyrir því hefur sögnin skrúfa enga skírskotun til verknaðarins og það notar þess í stað þau orðasambönd sem venjulega eru notuð um að 'setja í gang' og 'stöðva', þ.e. kveikja á / slökkva á. Það eru engin rök fyrir því að eðlilegt sé að tala um að kveikja á útvarpinu en ómögulegt að kveikja á sturtunni – í báðum tilvikum er verið að víkka merkingu sagnanna sem upphaflega áttu eingöngu við um eld eða ljós eins og áður segir. Slík merkingarbreyting á sér ótal fordæmi í málinu og er fullkomlega eðlileg. Það er engin ástæða til annars en viðurkenna kveikja á sturtunni og slökkva á bílnum sem rétt og eðlilegt mál.

Að þaga þunnu hljóði

Í dag rakst ég á setninguna „Gagnrýnir stjórnarliða fyrir að þaga þunnu hljóði“ á vefmiðli. Í hefðbundnu máli væri sagt þegja þunnu hljóði en myndin þaga er þó vel þekkt. Um hana eru hátt í 200 dæmi á tímarit.is, það elsta í Morgunblaðinu 1928: „Væri frásögnin hinsvegar rjett, var þetta atferli svo einstakt, að ómögulegt var yfir að þaga.“ Í Risamálheildinni eru 425 dæmi um orðmyndina þaga, þar af 310 á samfélagsmiðlum sem sýnir að hún er mun algengari í óformlegu máli en formlegu. En iðulega hefur verið amast við þessari beygingu. Gísli Jónsson nefndi hana a.m.k. fjórum sinnum í þáttum sínum í Morgunblaðinu (563, 708, 1098, 1135) og bæði Jón G. Friðjónsson og Baldur Hafstað hafa einnig nefnt hana í málfarsþáttum í sama blaði.

Að auki má nefna Jón Aðalstein Jónsson sem sagði í Morgunblaðinu 2003: „Þess vegna er sagt: ég þegi í hel, þú þegir og hann þegir málið í hel, alls ekki ég þaga, þú þagar, hann þagar málið í hel. Enda þótt ég viti, að enginn segi svo, er einsætt að benda á þennan rugling. Í OM (1983) og OE (2002) má t.d. sjá dæmi eins og að þegja þunnu hljóði, þegja um e-ð, þegja yfir e-u. Hér held ég engum detti í reynd í hug að tala um að þaga þunnu hljóði o.s.frv.“ En slík dæmi eru þó til – í Vikublaðinu 1996 segir „Mér finnst áberandi að óbreyttir stiórnarliðar þaga þunnu hljóði“ og í DV 1999 segir „þeir segjast ekki sjá neina ástæðu til að þaga þunnu hljóði yfir því“. Í Risamálheildinni má einnig finna nokkur dæmi um þetta samband af samfélagsmiðlum.

Jón Aðalsteinn fullyrðir að „enginn segi“ ég þaga, þú þagar, hann þagar, og Halldór Halldórsson sagði í Tímanum 1956: „Öllum heimildarmönnum mínum ber saman um að sögnin þaga beygist nákvæmlega eins og sögnin þegja […].“ Þetta er nærri lagi þótt örfá dæmi séu um annað, m.a. „nei ég þaga ekki“ af Hugi.is 2006, „Atvinnulífið er ekki að leita að starfsfólki sem þagar í 8 tíma og fylgir leiðbeiningum“ af Twitter 2014, og „ætli þið hinar þagið ekki bara yfir ykkar lögbrotum, hver sem þau svosum eru“ af Bland.is 2009. Þessi dæmi eru sárafá, en nokkur dæmi eru um þögum – „Við þögum stærsta hugsuð okkar í hel“ í Morgunblaðinu 1932, „Skilum skömminni og þögum aldrei yfir ofbeldi“ af Twitter 2021, og fáein í viðbót.

Í umfjöllun um myndina þaga í Tímanum 1956 vitnaði Halldór Halldórsson í Guðmund G. Hagalín sem kvaðst „þekkja þennan nafnhátt vel að vestan bæði úr Arnarfirði og Dýrafirði“ og einnig hafði Halldór „spurnir af nafnhættinum þaga úr Dalasýslu“. „Virðist því útbreiðsla hans vera þó nokkur“ sagði Halldór og benti á að j í nafnhætti sagnanna segja og þegja er afbrigðilegt í þeim flokki sem sagnirnar tilheyra. „Það hefði því vel mátt búast við nafnhættinum þaga í for[n]máli“ segir Halldór en taldi þó ekki að myndin þaga hefði varðveist frá fornu fari „þótt hún kunni að vísu að vera nokkuð gömul“, heldur væri um að ræða áhrif frá öðrum sögnum sama flokks – fólk hefði farið að beygja þaga ­– þagði þagað hliðstætt vara – varði – varað.

Um þetta segir Halldór: „Slík fyrirbrigði eru algeng í öllum málum og nefnast áhrifsbreytingar.“ Það er athyglisvert að Halldór, sem yfirleitt hikaði ekki við að kveða upp dóma um „rétt“ mál og „rangt“, nefnir ekki að nafnhátturinn þaga sé rangur. En hann var líka tilbúinn að viðurkenna staðbundnar málvenjur og taldi – öfugt við það sem oft var gert, t.d. í kverinu Gætum tungunnar – að þora því væri jafnrétt og þora það, því að þótt það síðarnefnda væri að vísu eldra væri það fyrrnefnda staðbundin málvenja á Vestfjörðum. Væntanlega hefur hann einnig talið þaga staðbundna mynd sem þar með væri rétt mál. Enda er hún gömul, algeng og fullnægir öllum skilyrðum til að teljast málvenja og þar með „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu.

Geta risaeðlur verið litlar?

Hér hefur stundum verið rætt um merkingu samsettra orða – hvort og að hvaða marki við túlkum þau bókstaflega út frá merkingu samsetningarliðanna. Gott dæmi um þetta eru samsetningar með risa- sem fyrri lið. Þar er auðvitað um að ræða nafnorðið risi sem er skýrt 'þjóðsagnavera sem líkist gríðarstórum manni, jötunn' og 'mjög hávaxinn maður' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en getur líka verið 'e-ð mjög stórt' eins og segir í Íslenskri orðabók. Þessi merking kemur fram í lýsingarorðum eins og risastór og risavaxinn og fjölmörgum nafnorðum eins og risafura, risafyrirtæki, risalaun, risamót, risarækja, risaskjár, risasvig, risatitill, risaveldi, risaþota og fjölmörgum fleiri – þetta er mjög frjó orðmyndun.

En algengasta orðið með þessum fyrri lið er þó líklega risaeðla sem virðist vera u.þ.b. hundrað ára gamalt – elsta dæmi um það er í greininni „Myndun Íslands og ævi“ eftir Guðmund G. Bárðarson í Iðunni 1918 þar sem dýralífi á miðlífsöld er lýst: „Nú eru fjölmargar skriðdýrategundir komnar fram á sjónarsviðið; hefir sá dýraflokkur hvorki fyr eða síðar staðið í jafnmiklum blóma; þá voru uppi fiskeðlur (Ichthyosaurus), svaneðlur (Plesiosaurus), flugeðlur (Pterodactylus), risaeðlur (Dinosaurus) o.fl. af þeim dýraflokki. Dýr þessi voru sum geisi-stór (hvaleðlan 12 m. löng) og mörg fáránleg að útliti og árum líkust.“ Þarna er ljóst að heitið risaeðla er bara notað um einn margra flokka eða ættbálka af forsögulegum eðlum.

Í almennu máli hefur þróunin þó orðið sú að risaeðla er iðulega notað sem samheiti yfir allar tegundir forsögulegra eðla, stórar og smáar. Þar af leiðir að með orðinu eru stundum notuð lýsingarorð sem ekki samræmast endilega merkingu fyrri liðarins, risa-. Það virðist hafa hafist með kvikmyndinni „The Land before Time“ eftir Steven Spielberg sem „segir frá lítilli risaeðlu sem strýkur frá heimkynnum sínum“. Myndin var frumsýnd á Íslandi fyrir jólin 1989 og var þá kölluð „Fyrstu ferðalangarnir“ en þegar hún var sýnd í sjónvarpi tveimur árum síðar fékk hún heitið „Litla risaeðlan“. Síðan hafa verið sýndar fjölmargar barnamyndir um „litlar risaeðlur“ þannig að málnotendur hafa vanist þessu orðasambandi og það er algengt í málinu.

Önnur lýsingarorð svipaðrar merkingar og lítill koma einnig fyrir með risaeðlu – bæði smávaxin risaeðla og dvergvaxin risaeðla koma fyrir á prenti, og einnig samsetningin dvergrisaeðla. Þar við bætist að lýsingarorð andstæðrar merkingar koma einnig fyrir – stór risaeðla, risastór risaeðla, risavaxin risaeðla, tröllvaxin risaeðla. Þarna mætti búast við að fyrri liðurinn risa- gerði þessi lýsingarorð óþörf. En notkun lýsingarorða sem vísa til stærðar með orðinu risaeðla sýnir að málnotendur skynja orðið iðulega sem heild án þess að horfa á það út frá þeirri merkingu sem fyrri liðurinn hefur einn og sér. Það er fullkomlega eðlilegt, og einmitt það sem búast má við og gerist mjög oft þegar orð hafa verið lengi í málinu og eru algeng.

Þarna kemur vel fram hvernig hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar getur bæði gagnast okkur til að skilja orð sem við þekkjum ekki, en einnig flækst fyrir okkur þegar merking orða hnikast til. Ef við heyrum eða sjáum ókunnugt orð með fyrri liðinn risa- vitum við strax að um er að ræða eitthvað mjög stórt. En sú tenging getur líka truflað sum okkar í orðum sem hafa öðlast fastan sess í málinu eins og risaeðla. Það veldur engum vandkvæðum að tala um small dinosaur í ensku eða lille dinosaur í dönsku vegna þess að dinosaur er ekki gagnsætt í þessum málum á sama hátt og risaeðla í íslensku – dino- hefur ekki sérstök tengsl við stærð í huga fólks (er leitt af deinos (δεινός) 'hræðilegur' í grísku en venjulegir málnotendur vitað það tæpast).

Hér eigum við tvo kosti. Við getum horft fram hjá merkingu einstakra orðhluta og litið á orðið risaeðla sem heild, sem merki 'skriðdýr af ótiltekinni tegund sem uppi var á miðlífsöld og er nú aldauða'. Ef við gerum þetta er eðlilegt að nota hvers kyns lýsingarorð sem vísa til stærðar með orðinu. En við getum líka sagt að það sé ótækt að nota risaeðla í svona víðri merkingu – það vísi eingöngu til ákveðinna stórvaxinna ættbálka eins og fyrri liðurinn sýni glöggt. Þetta verður fólk að gera upp við sjálft sig, en almennt séð held ég að það sé óheppilegt að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð í málinu jafnvel þótt okkur finnist þau ekki notuð á „rökréttan“ hátt. Öðru máli gegnir um orð sem lýsa viðhorfum eða gildismati og geta falið í sér fordóma.

Umferðin fer aukandi

Í frétt sem ég las á vefmiðli í morgun rakst ég á setninguna „Brúnin þarna í dag er stórhættuleg og umferðinni fer bara aukandi“. Ég staldraði við sambandið fara aukandi og minntist þess ekki að hafa séð það áður eða heyrt. Vissulega er þetta auðskilið, en venjulegt orðalag í þessu samhengi væri þó umferðin eykst eða umferðin fer vaxandi. Leit á tímarit.is staðfesti þá tilfinningu að þetta orðalag væri óvenjulegt því að ég fann innan við 10 dæmi um það. Elsta dæmið er í Skírni 1865: „til atvinnu við baðmullaryrkju, er mjög hefir farið aukandi síðan í þeim löndum.“ Einnig má nefna „Þingtraust sjera E.P. hefur farið aukandi“ í Vísi 1914 og „Gosdrykkjaneysla landsmanna er einnig gífurlega mikil og fer aukandi“ í Tímanum 1987.

En í Risamálheildinni fann ég hátt í 40 dæmi um sambandið, flest úr óformlegu máli á samfélagsmiðlum, t.d. „mér finnst að það hafi farið aukandi lyk[t]in frá honum“ á Hugi.is 2003, „Þessi „æsifréttaflutningur“ hefur farið sí aukandi“ á Málefnin.com 2004, „Agavandamál á Íslandi fara alltaf aukandi með hverju árinu“ á Bland.is 2004 og „Spjaldtölvu-menntun er nú að fara aukandi“ á Twitter 2015. Einnig má finna dæmi á hefðbundnari vefmiðlum, t.d. „Fylgi Obama í Pennsylvaníu hefur farið aukandi“ á mbl.is 2008, „Hingað til hafa þó viðskipti milli landanna farið aukandi“ í Viðskiptablaðinu 2015, „umsvifin í fasteignalánum fara aukandi“ á Vísi 2017, og „tekjuójöfnuður karlmanna milli kynslóða hafi farið aukandi“ í Kjarnanum 2017.

Vitanlega er aukandi rétt myndaður lýsingarháttur nútíðar af auka og er langalgengastur í samsettum lýsingarorðum, eins og atvinnuaukandi, blóðaukandi, bragðaukandi, lystaukandi, virðisaukandi og fjölmörgum fleiri. Notkun hans sem sjálfstæðs orðs í sömu merkingu og ‚vaxandi‘, er þó ekki bundin við sambandið fara aukandi – „St. nýtur trausts meðal þingmanna, og mun það aukandi farið hafa“ segir í Vísi 1914, „25 ára reynsla okkar og stöðugt aukandi sala sýnir best, að viðskiftamenn okkar eru ánægðir“ segir í Morgunblaðinu 1929, „heldur njóta sjómennirnir í stöðugt aukandi mæli betri kjara“ segir í Sjómannablaðinu Víkingi 1967, og „hún er farin að vera aukandi á Suður- og Vesturlandinu“ segir í Bændablaðinu 2005.

En í dæminu sem ég vitnaði til í upphafi segir ekki umferðin fer aukandi eins og búast mætti við, heldur umferðinni fer aukandi – frumlagið er í þágufalli. Það er óvænt, því að sögnin auka stjórnar þolfalli en ekki þágufalli og því mætti búast við frumlagi í nefnifalli eins og í hliðstæðum víxlum með öðrum sögnum sem stjórna þolfalli, t.d. verslunin hækkaði álagninguálagning fer hækkandi. Þarna virðast vera áhrif frá sögnum eins og fjölga sem stjórna þágufalli sem helst í slíkum víxlum – verslunin fjölgaði vörum vörum fer fjölgandi. Í Risamálheildinni má finna tvö dæmi um þágufall með fara aukandi – „áttum frekar von á því kannski að komum færi aukandi eftir hrun“ í RÚV 2015 og „ofbeldisglæpum fer aukandi“ á Twitter 2015.

Það er því ljóst að sambandið fara aukandi er til í málinu og notkun þess fer vaxandi – ég segi ekki fer aukandi því að þetta samband er ekki (enn) hluti af mínu máli, og sama gildir líklega um meginhluta málnotenda. En það þýðir ekki að ástæða sé til að amast við því. Öðru nær – ég hef oft haldið því fram að við eigum almennt séð að taka nýjungum í málinu fagnandi, svo framarlega sem þær ganga ekki í berhögg við málkerfið á einhvern hátt. Það er lífsnauðsyn fyrir íslenskuna að endurnýjast eins og hún hefur alltaf gert, og þótt ekki sé mikil hefð fyrir fara aukandi er tæpast hægt að hafna því sambandi með málfræðilegum rökum. En vegna fallstjórnar auka er rétt að halda sig við nefnifallið og segja umferðin fer aukandi frekar en umferðina.